Söguþjóð í raun?

Íslendingar hafa ekki slegið hendi á móti titlinum söguþjóð eða bókaþjóð. Söguáhugi Íslendinga er eitt af því sem okkur finnst flestum gaman að segja erlendum vinum og gestum frá. Söguáhuginn hefur verið umfjöllunarefni í síðari tíma bókmenntum. Við fylltum sali Þjóðleikhússins á afmælisári þess þegar Íslandsklukkan var sett upp og enn og aftur vaknaði til lífsins sagan góða um snærisþjófinn Jón Hreggviðsson, Snæfríði Íslandssól og Arnas Arnæus sem safnaði handritableðlum um land allt og bjargaði þeim úr dýnum og fletum í torfbæjum landsins.

Þessi handrit eru fæst hver til sýnis þótt okkur finnist gaman að segja af þeim söguna. Þau eru læst inni í geymslum. Þar sem byggja átti hús yfir handritin er enn aðeins hola.

Hús íslenskra fræða á ekki einungis að vera staður til að sýna handrit. Þar á einnig að vera húsnæði fyrir kennslu og rannsóknir í íslensku. Bygging þessa húss var hafin á síðasta kjörtímabili og var ætlunin að nýta til dæmis arð af bönkum til að greiða fyrir bygginguna sem var hluti af fjárfestingaáætlun síðustu ríkisstjórnar. Núverandi stjórnvöld slógu þá áætlun af og síðan hefur ekkert annað verið á byggingarstað en hin fræga „hola“ íslenskra fræða.

Engir fjármunir
Síðastliðið vor leit út fyrir að stjórnvöld væru reiðubúin að taka Hús íslenskra fræða út fyrir sviga. Forsætisráðherra kynnti tillögu þar sem lögð voru til tiltekin verkefni sem átti að ráðast í til að fagna hundrað ára afmæli fullveldis. Ekki hefur sést til tillögunnar síðan. Fjármunir birtust í fjárlögum í önnur verkefni tillögunnar, þ.e. viðbyggingu við þinghúsið. Engir fjármunir hafa komið í ljós í Hús íslenskra fræða. Happdrætti Háskóla Íslands, sem greiða mun þriðjung af húsinu, hefur ekki fengið heimild ríkisins til að setja sína fjármuni í verkefnið.