Að beita valdi – að gera málamiðlun

Þeim sem halda um stjórnartauma ferst misjafnlega vel úr hendi að beita valdi. Sagt hefur verið að besta aðferðin við beitingu valds sé að beita því ekki. Nú háttar svo til að við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði erum á afar áhugaverðum slóðum í þroskaferli hreyfingarinnar, sem er við það að slíta unglingsskónum. Sem leiðandi afl í ríkisstjórn landsins getum við látið hlutina gerast. Við þurfum ekki að rýna málið lengi til að sannfærast um að án þess verður töluvert minna ágengt í okkar baráttumálum – það er fakta. Segja má að við séum komin í paradís málamiðlana eða vítiseld málamiðlana eftir því hvernig á það er litið. Hvað sem því líður þá er greinarhöfundur sannfærður um að forsætisráðherrann okkar og formaður, Katrín Jakobsdóttir, beitir skynsemi og yfirvegun við að leysa úr viðfangsefninu hverju sinni og er lausnamiðuð í sínum verkum og störfum. Nokkuð hefur skort á slíka eiginleika í forsætisráðuneytinu í gegnum tíðina, og því ber að mati greinarhöfundar að leggja rækt við fyrrgreinda stöðu af alúð og virðingu. Með skynsemi og yfirvegun að vopni verður okkur margt gott úr verki. Mikil óvissa ríkir iðulega um óhóflega beitingu valds og vanhugsaðar ráðstafanir ráðamanna. Dæmi þess fylla heilu sögubækurnar. Við félagarnir sem höfum það náðugt ef svo má segja, í það minnsta í samanburði við okkar ágætu ráðherra sem standa í eldlínunni á löngum vöktum, eigum að mynda það bakland sem vænta má af okkur við þær frábæru en krefjandi aðstæður sem við erum aðnjótandi í dag. Framundan eru spennandi tímar, göngum saman og styðjum vel við bakið á okkar forystufólki – þau eru fyrir okkur og við fyrir þau.

Gunnar Árnason