Að taka slaginn fyrir byggð í landinu

Viðtal um Vestfirði við Lilju Rafneyju úr Morgunblaðinu. Blm. Sigurður Bogi, 14. júlí.

 

 

“Sameining styrkti svæðið,”  segir þingkonan á Suðureyri.  “Jarðgöng sönnuðu sig fljótt.  Mikilvæg uppbyggingarverkefni bíða og hvert byggðarlag hefur sína sérstöðu. Þéttbýlisstaðirnir hér á sunnanverðum Vestfjörðum sem sameinuðust í eitt sveitarfélag fyrir tuttugu árum eru svo sannarlega orðnir eitt samfélag,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri í Ísafjarðarbæ, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi. „Í þeirri vegferð sem hófst með sameiningunni hefur þó ýmislegt mátt betur gera og sumt sem fyrirætlanir voru um hefur ekki gengið eftir. Í meginatriðum er reynslan þó góð.“

 
Göngin hafa borgað sig

Gerð Vestfjarðaganga sem tekin voru í notkun haustið 1996 var grundvöllur þess að hægt væri að sameina þessi sveitarfélög. Vestfirðingar höfðu lengi þrýst á um samgöngubætur því vegurinn yfir Breiðadals- og Botnsheiðar var snjóþungur og oft lokaður yfir lengri tíma á veturna. Vestfirðingar minnast þess að úrtöluraddir voru til staðar. „Davíð Oddsson, þá nýorðinn forsætisráðherra, lét kanna möguleikann á að slá gangalegginn til Suðureyrar af en framkvæmdin var geirnegld af fyrri samgönguráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, svo það gekk ekki eftir sem betur fer,“ segir Lilja Rafney og heldur áfram:
„En það voru vissulega ýmsir sem töldu þessa framkvæmd ekki verjandi meðal annars sakir kostnaðar, enda væru kauptúnin Flateyri, Suðureyri og Þingeyri, sem best njóta ganganna, fámenn. Þessar raddir hljóðnuðu þó fljótlega, mannvirkið sannaði sig og hefur borgað sig þjóðhagslega.“

 
Almenningssamgöngur skipta máli

 
Rétt er að spyrja þess í hvaða sporum Vestfirðingar væru ef ekki hefði verið gengið til sameiningar sveitarfélaga í kjölfar jarðgangagerðar, segir Lilja Rafney. Hún telur að staðan væri tvímælalaust verri, ekki bara í litlu þorpunum heldur líka á Ísafirði sem er þjónustukjarni alls þessa svæðis. Íbúar byggðarlaganna hafi verið í varnarbaráttu lengi og slagkrafturinn til sóknar sé miklu meiri ef samstaðan sé við lýði.
„Við eigum alltaf að taka slaginn fyrir þá byggð sem er í varnarbaráttu hverju sinni. Það er samfélagsvitund sem skilar sér fyrir svæðið allt þegar upp er staðið. Hvert byggðarlag hefur sína sérstöðu sem á að rækta og bera fjölbreyttar bæjarhátíðir þess merki. Við þurfum að viðhalda fjölbreytileika og sérkennum hvers staðar. Það er eilífðarverkefni að bæta þjónustu sem aftur snýst um peninga og forgangsröðun. Í mínum huga skipta almenningssamgöngur miklu máli til að tengja byggðirnar enn betur saman sem heild og auðvelda samgang fólks.“
Á hátíðarsamkomu á laugardaginn, þar sem 150 ára kaupstaðarafmælis Ísafjarðar er minnst og að 20 ár eru frá stofnun Ísafjarðarbæjar, verður Lilja Rafney einn ræðumanna. Það er vel við hæfi, því í samfélagi þessu liggja hennar rætur. Hún er frá Suðureyri og hefur búið þar nánast alla sína tíð. Á barns- og unglingsaldri var hún svo löngum stundum hjá ömmu sinni og afa á Stað í Staðardal, utanvert við Súgandafjörð. Að fylgjast með samræðum fólks þar á bæ um landsins gagn og nauðsynjar og að fylgjast með lífsbaráttunni í þorpinu segir hún að hafi vakið áhuga sinn á þjóðmálunum. Af því leiddi þátttaka í verkalýðsmálum, sveitarstjórn og seinna þingmennska.
En hvaða verkefni eru það til eflingar í Ísafjarðarbæ og í öðrum dreifðum bygguðum sem löggjafarsamkoman þarf að beita sér í á næstunni? Lilja Rafney segir þessi mál sannarlega vera mörg. Mikilvægt sé til dæmis að jafna stöðuna svo búsetuskilyrði til dæmis á Vestfjörðum séu jöfn því sem gerist best annarsstaðar á landinu.
„Okkur duga ekki einhverjar smáskammtalækningar og tímabundin átaksverkefni korteri fyrir kosningar. Grunngerðin og innviðirnir þurfa að vera í lagi. Góðar samgöngur skipta þar gífurlega miklu máli svo atvinnu- og þjónustustigið innan fjórðungsins eflist. Íbúarnir eiga að geta gengið að góðri heilbrigðisþjónustu, menntun, öflugri löggæslu og ekki þurfa að sækja margvíslega þjónustu með tilheyrandi kostnaði um langan veg,“ segir þingmaðurinn og bætir við að síðustu:
„Ísafjarðarbær er höfuðstaður Vestfjarða og við þurfum að tengja okkur innbyrðis og styrkja okkur sem eina efnahagslega heild. Háhraðatengingar og afhendingaröryggi raforku þarf að vera tryggt á Vestfjörðum og ekki líðandi að þar séum við einhver afgangsstærð.“

Mikilvægt að hrista fólk saman

Á Suðureyri búa í dag 263 og þar af er stór hluti íbúa fólk sem er upprunnið erlendis og kemur þar með úr öðru menningarumhverfi. Lilja Rafney hefur gert að umtalsefni hve félagsleg þátttaka á Suðureyri var mikil fyrr á tíð; í raun hafi allir haft með höndum hlutverk í þágu fjöldans. „Mér finnst þessi samfélagslega vitund og félagslega þáttaka enn vera til staðar þó vissulega breytist tíðarandinn og allskyns áreiti dragi úr félagslegri virkni. Samt er enn ríkjandi sá andi að allir skipti máli, hafi hlutverk og leggi sitt af mörkum til að gera samfélagið betra og skemmtilegra,“ segir Lilja Rafney og bætir við:
„Fjölbreytt menningarstarfsemi einkennir Ísafjarðarbæ og margskonar félags og íþróttaiðkun er þar allsráðandi. Það á um þorpin líka. Íbúar af erlendum uppruna hafa margir hverjir búið hér mjög lengi og hafa styrkt okkur sem samfélag og auðgað mannlífið. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að hrista fólk saman og ég tel að það hafi tekist furðu vel enda hafa Vestfirðir verið fjölþjóðlegt samfélag í áratugi og fólkið er fordómalaust – sem betur fer.“
Vestfirðir verði vistvænt samfélag

Í Ísafjarðarbæ og á Vestfjörðum öllum eru miklir möguleikar ef stjórnvöld vinna með heimamönnum í takt við þá framtíðarsýn og þróunarstarf sem unnið hefur verið heimafyrir. Slíkt er skjalfest í ótal skýrslum en staðið hefur á raunverulegum vilja stjórnvalda í fjárlögum að skatttekjur íbúanna skili sér aftur heim í innviðauppbyggingu,“ segir Lilja Rafney. Hún segist einnig áfram um að gerðar verði breytingar á kvótakerfinu. Núverandi útfærsla þess vinni gegn byggð í landinu. Byggðafesta verði aflaheimildir, efla strandveiðar og koma á fót leigupotti ríkisins með aflaheimildir. Koma verði í veg fyrir að markaðslögmálin ein ráði ferð í stjórn fiskveiða.
„Ferðaþjónustan er að eflast mikið og fiskeldið er að byggjast upp. Íbúar hafa einnig ýmsar hugmyndir í atvinnusköpun sem þarf að styðja við. Komur skemmtiferðaskipa hafa aldrei verið fleiri í Ísafjarðarbæ sem eykur umsvif og tekjur inná svæðið og lífgar uppá bæjarbraginn. Vestfirðir eiga að gera út á að vera vistvænt og sjálfbært samfélag og í þá átt hafa heimamenn verið að vinna að undanfarin ár með góðum árangri. Það dýrmætasta er þó mannauðurinn sem svo sannarlega er til staðar í Ísafjarðarbæ – sem ég trúi að sé á réttri leið.“