Aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu á fundi hennar í dag tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess, til næstu fjögurra ára. Stýrihópur með fulltrúum hlutaðeigandi ráðuneyta hefur unnið að áætluninni í samstarfi við fjölda aðila á síðustu misserum.

Það eru ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, heilbrigðismála og menntamála sem standa saman að tillögunni og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að leggja hana fyrir Alþingi. Áætlunin er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar um að vinna markvisst gegn ofbeldi í samfélaginu, þar sem meðal annars er lögð áhersla á að útrýma kynbundnu ofbeldi, þar með töldu stafrænu kynferðisofbeldi.

Áætlunin tekur til ofbeldis í ólíkum birtingarmyndum og aðgerðirnar taka til líkamlegs, kynferðislegs og andlegs ofbeldis. Áætlunin byggist á þremur meginþáttum, þ.e; vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu, viðbrögðum sem snúast um verklag og málsmeðferð og valdeflingu þar sem áhersla er lögð á styrkingu þolenda í kjölfar ofbeldis.

 

Sjá nánar: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=1218f947-d6b2-11e8-942e-005056bc4d74