Aðgerðir gegn mansali

Í síðustu viku sögðum við frá fyrirlestri um mansal, sem Line Barfod, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Enhedslisten í Danmörku hélt í Norræna húsinu á föstudaginn á vegum VG, Norræna hússins og Norræna félagsins á Íslandi.

Fyrir borgarstjórnarfundi í dag, liggur tillaga borgarstjórnarmeirihlutans,  VG, Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar og Pírata um mansal:

Borgarstjórn samþykkir að fela ofbeldisvarnarnefnd að hefja samtal við innanríkisráðuneytið um aðgerðir til að sporna gegn mansali og tryggja fórnarlömbum líkamlega, félagslega og sálræna aðstoð við hæfi.

Greinargerð
Mansal er einn stærsti angi skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum og fyrirfinnst hér á Íslandi sem annars staðar. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög byggi upp öflugar forvarnir og tryggi skjól og tryggi eins góða vernd og þjónustu fyrir fórnarlömb og hægt er. Aðgerðaáætlun ríkisins um mansal leggur meðal annars áherslu á að auka forvarnir meðal almennings og fagaðila. Á vettvangi ofbeldisvarnarnefndar hefur komið fram að þróa þurfi þjónustu við fórnarlömb mansals með hagsmuni þeirra og öryggi í huga. Samstarf og samtal er fyrsta skrefið í þeim efnum og brýnt að borgarstjórn standi saman í þeirri vinnu sem framundan er.