Afnám hafta má ekki leiða til kjaraskerðingar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði fjármálaráðherra út í afnám gjaldeyrishafta í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Gerði hún að sérstöku umtalsefni orð Gylfa Zoega þess efnis að gjaldeyrishöftin hafi skapað fjárhagslegan stöðugleika.

„Við höfum auðvitað dæmi um það fyrir hrun þegar aðilar nýttu sér vaxtamun milli Íslands og útlanda og voru í spákaupmennsku með gjaldmiðilinn eða innlán banka í útibúum erlendis og ég held að það sé alveg rétt sem Gylfi Zoega bendir á að afnám hafta má ekki fela í sér slíka opnun,“ sagði Katrín og bætti við: „Fyrst og fremst er kannski spurningin sú, sem ég tel rétt að við ræðum, hvort ekki sé öruggt að ekki verði ráðist í afnám hafta ef það felur í sér kjaraskerðingu fyrir almenning í landinu?“ Í svari sínu sagði Bjarni Benediktsson að sér fyndist líklegast að afnám hafta myndi gerast í nokkrum skrefum og að leita eigi leiða til að koma í veg fyrir afleiðuviðskipti með gjaldmiðilinn.

Í seinni ræðu sinni sagði Katrín meðal annars: „Losun hafta getur skapað rými fyrir stóra aðila til að fara með sínar eignir úr landi, sem getur skapað verulega hættu fyrir almennt launafólk. Þannig að ég tel að það sé mjög mikilvægt að regluverkið verði með þeim hætti að losun hafta hafi ekki áhrif á fjárhagslegt öryggi fólksins sem hér býr.“ Að lokum spurði Katrín: „Er raunhæft að horfa fram á algjörlega frjálst flæði krónunnar að loknum losun haft eða erum við að horfa á einhverskonar höft hér til lengri tíma?“ Í svari sínu sagðist Bjarni sjá fyrir sér gjaldmiðil sem flýtur frjálst „með varrúðarráðstöfunum“ og nefndi í því sambandi takmarkanir á innlánum innlendra fjármálastofnana erlendis í erlendum gjaldmiðli.