Aldrei aftur!

Rúm 70 ár eru liðin síðan Bandaríkin vörpuðu sprengjum á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki, 6. og 9. ágúst árið 1945.

Fólk er enn að deyja
Við þekkjum atburðina úr sögubókum og ógnvekjandi myndum af sprengingunum og afleiðingum þeirra. Brennandi fólk á hlaupum, kolaðir líkamar, grátandi börn. Yfir 200 þúsund létu lífið. Sumir strax, aðrir dagana og vikurnar á eftir og fólk er enn að deyja af sjúkdómum, genagöllum o.fl. sem rekja má beint til sprengjanna.

Heimur án kjarnorkuvopna
Þrátt fyrir þessar skelfilegu staðreyndir hefur okkur enn í dag ekki auðnast að ná samstöðu um heim án kjarnorkuvopna. Kjarnorkuógnin er enn til staðar. Níu ríki búa yfir tæplega 16 þúsund kjarnorkusprengjum sem hver um sig er miklu öflugari en þær sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki.

Ísland aðili að hernaðarbandalagi
Íslendingar og íslensk stjórnvöld státa sig gjarnan af því á tyllidögum að við séum herlaus og friðelskandi þjóð á meðan staðreyndin er sú að Ísland er aðili að hernaðarbandalagi sem áskilur sér rétt til notkunar kjarnorkuvopna, jafnvel að fyrra bragði.

Á meðan fjölmörg ríki hafa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna barist fyrir banni við kjarnorkuvopnum hafa íslensk stjórnvöld kosið að þvælast fyrir og taka ekki afstöðu.

Tökum afstöðu – krefjumst breytinga
Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna og lagt áherslu á kröfu um heim án kjarnorkuvopna. Í kvöld, þriðjudaginn 9. ágúst, verður kertum fleytt á Reykjavíkurtjörn. Athöfnin hefst kl. 22.30. Aðeins með því að taka afstöðu og krefjast breytinga getum við stuðlað að friðvænni heimi. Aldrei aftur Hírósíma, aldrei aftur Nagasaki!

Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga