Allir eldast – ekki bara við.

 

 

Stofnun öldungaráðs borgarinnar var mikilvægt skref til valdeflingar okkar sem eldri erum. Öldungaráðið á að vera borgarstjórn og stofnunum borgarinnar til ráðgjafar um þau mál er snerta hópinn aldraða.

 

Mig langar að nefna hér nokkra mikilvæga þætti um spennandi verkefni sem unnið hefur verið að á vegum borgarinnar á því kjörtímabili sem er að líða. Ég nefni nokkur þeirra hér.

 

Þátttaka borgarinnar í verkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem hlotið hefur nafnið „aldursvænar borgir“ hefur verið fyrirferðarmikið  í Reykjavík með aðkomu fjölmargra fulltrúa frá félögum og stofnunum sem sinna málaflokknum. Úr varð skýrsla með fjölmörgum hugmyndum um úrbætur sem nú er unnið að skipulega. Reykjavík er þarna í hópi um 600 borga um allan heim sem vinna að sama markmiði. Að gera góða borg betri.

 

Þá varð til stefna í heilsueflingu aldraðra, svokölluð Ellertsskýrsla, þar sem 28 tillögur um bætta aðstöðu og hvatningu til hreyfingar kemur fram. Ein tillaga þar var að það yrði ókeypis í sund fyrir 67 ára og eldri.

 

Ný stefna mjög metnaðarfull  í málefnum aldraðra til næstu fimm ára var samþykkt nýlega.

 

Aðgerðir til að hvetja eldri konur til að nýta kosningarétt sinn komu frá mannréttindaráði. En þátttaka kvenna 80 ára og eldri er mun minni en karla á sama aldri skv. könnunum undanfarinna ára.

 

Velferðartæknistefna var samþykkt nýlega, en velferðartækni er sú tækni sem getur auðveldað hreyfihömluðum og gömlum að vera sjálfbjarga lengur.

 

Svo má ég til með að nefna að aldraðir fá verulegan aflsátt í strætó frá 67 ára aldri, en það var mikið baráttumál hjá Félagi eldri borgara, og náði fram að ganga á þessu ári. Og nú fá allir 67 ára og eldri frítt inn á söfn borgarinnar, en var áður 70 ár.

 

  1. apríl stendur öldungaráðið fyrir opnum fundi í ráðhússalnum um aldraða innflytjendur. En það er sá hópur sem hefur það hvað verst efnahagslega í hópi aldraðra. Það er opinn fundur og ég hvet fólk til að fjölmenna á fundinn.

 

Rödd okkar heyrist æ betur og það er mikilvægt og liður í því að undirbúa þjóðina undir það að allir eldast, ekki bara við.

 

Guðrún Ágústsdóttir er

formaður Öldungaráðs Reykjavíkur