Almannahagsmunir eða sérhagsmunir

Á fimmtu­dag­inn funda nokkrir tugir þjóð­ar­leið­toga í Lund­únum til að ræða að­gerðir gegn spill­ingu. Á dag­skrá verður meðal ann­ars áskorun 300 hag­fræð­inga ­sem hafa ritað þjóð­ar­leið­togum um heim allan og hvatt þá til að við­ur­kenna að engin efna­hags­leg rök séu fyrir því að leyfa áfram­hald­andi til­vist skatta­skjóla. Þeir segja enn­fremur að það verði ekki auð­velt að brjóta nið­ur­ ­kerfi aflands­fé­laga og skatta­skjóla þar sem valda­miklir aðilar hafi mikla hags­muni af því að standa vörð um skatta­skjólin en sé litið til almanna­hags­muna sé ekk­ert gagn í skatta­skjól­um. Því þurfi að grípa til aðgerða, meðal ann­ars að ­fyr­ir­tækjum verði gert að birta yfir­lit yfir skatt­skyld umsvif sín eft­ir lönd­um.

Skatta­skjólin eru að mati hag­fræð­ing­anna hluti af kerfi sem skapar auk­inn ó­jöfnuð og veldur sam­fé­lögum um allan heim ómældum skaða til hags­bóta fyr­ir­ ­fá­mennan hóp auð­manna. Í hópi hag­fræð­ing­anna eru heims­þekktir fræði­menn á borð við Thomas Piketty, Angus Deaton og Ha-Joon Chang. Bent hefur verið á að ef vilji er fyrir hendi hjá þjóð­leið­togum er hægt að gera breyt­ingar á því kerf­i ­sem nú er við lýði. En við skulum ekki halda að þeir sem hagn­ast á kerf­inu mun­i ­gefa það frá sér svo auð­veld­lega.

Áskorun  hag­fræð­ing­anna sýnir glögg­t ­mik­il­vægi Panama­skjal­anna fyrir 99% mann­kyns. Skyndi­lega hefur hul­inn heim­ur orðið sýni­legur öllum almenn­ingi. Það er risa­stórt hags­muna­mál almenn­ings um allan heim að þjóð­ar­leið­togar hlusti á þessa áskorun og ráð­ist í raun­veru­leg­ar að­gerð­ir. Þessi afhjúpun má ekki snú­ast um upp­hróp­anir sem týn­ast svo í glaumi dag­anna uns næsta hneyksli kemur fram.

En enn skortir nokkuð upp á vilj­ann til breyt­inga. Í umræðum á Alþingi um Panama­skjölin hefur það við­horf verið áber­andi að þar sem ekki sé ólög­legt að ­stofna félög í skatta­skjólum sé ekk­ert við það að athuga. En lög geta aldrei verið tæm­andi mæli­kvarði á alla kima sam­fé­lags­ins. Í ljósi þess­ara van­kanta á lög­unum er þeim mun mik­il­væg­ara ræða áhrif skatta­skjól­anna og spyrja hvort þau ­styðji við heil­brigt atvinnu­líf og sam­fé­lag – og svarið þarf að vera skýrt. Mitt svar er nei. Mun lík­legra eru að þau grafi undan heil­brigðu atvinnu­lífi og ­sam­fé­lagi, skekki sam­keppn­is­stöðu og auki ójöfn­uð.

Skatta­skjól snú­ast nefni­lega ekki ein­göngu um skattaund­an­skot þó að þau séu aug­ljós­asta birt­ing­ar­mynd þeirrar mein­semdar sem skatta­skjól eru. Aflands­fé­lög í skatta­skjólum lúta öðrum reglum en inn­lend fyr­ir­tæki, í skatta­skjólum er ­reglu­verk oft lítið sem ekk­ert og hægt að halda leynd yfir starf­semi og eign­um við­kom­andi fyr­ir­tækja.

Þegar kemur að skattsvikum þá hafa á síð­ast­liðnum þremur ára­tugum ver­ið ­gerðar að minnsta kosti fjórar skýrslur eða grein­ar­gerðir um umfang skattsvika á Íslandi. Sú síð­asta kom í nóv­em­ber í fyrra og þar er talið að árleg skattaund­an­skot geti numið um 80 millj­örð­um. Hluti af þessum und­an­skotum fara fram í gegnum aflands­fé­lög en aðeins hluti. Ef þessi áætlun er nærri lagi má ­sjá að hæg­lega mætti byggja nýjan með­ferð­ar­kjarna fyrir Land­spít­ala Íslands á einu ári fyrir þetta fé og fara langt í að gera heil­brigð­is­þjón­ust­una gjald­frjálsa – svo að eitt­hvað sé nefnt.

Það er því til mik­ils að vinna,  bæð­i hér heima og á alþjóða­vísu.

Með því að taka virkan þátt í bar­átt­unni á alþjóða­vett­vangi og taka und­ir­ ­kröfu hag­fræð­ing­anna 300 er hægt að ná fram breyt­ingum á alþjóða­vísu og breyta ­kerf­inu þannig að það þjóni almanna­hags­munum fremur en fámennum hópum auð­manna. Þannig verður unnt að styrkja vel­ferð­ina í hverju sam­fé­lagi fyrir sig og auka jöfn­uð.

Hag­fræð­ing­arnir hafa lík­lega rétt fyrir sér þegar þeir segja að eng­in efna­hags­leg rök séu fyrir því að leyfa áfram­hald­andi til­vist skatta­skjóla. Það ­sem skiptir þó ekki minna máli er að engin sam­fé­lags­leg og póli­tísk rök eru ­fyrir til­vist skatta­skjóla. A.m.k. ef litið er til stjórn­mála þar sem almanna­hags­mun­ir ráða för, ekki sér­hags­mun­ir.

Höf­undur er for­maður Vinstri­hreyf­ing­ar­innar – græns fram­boðs.