Ályktanir aðalfundar kjördæmisráðs NA-kjördæmis

Aðalfundur kjördæmisráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Haldinn að Stóru Laugum í Reykjadal 11. október 2014.

 

Ályktun um byggðamál

Fundurinn mótmælir harðlega því metnaðarleysi í málefnum landsbyggðanna sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem og framgöngu stjórnarinnar almennt. Annað árið í röð leggur ríkisstjórnin fram frumvarp þar sem mörg af brýnustu hagsmunamálum hinna dreifðu byggða mæta algerum afgangi og sæta beinum niðurskurði. Má í því sambandi nefna:

  • Sóknaráætlanir landshlutanna sem mikil vinna hefur verið lögð í að útfæra af hundruðum sveitarstjórnarmanna og hagsmunaaðila um allt land. Í fjárlagafrumvarpinu er einungis 15 milljónir króna ætlaðar í þetta verkefni á árinu 2015 en til samanburðar má nefna að í tíð fyrri ríkisstjórnar hafði verið ákveðið að 400 milljónir króna myndu renna til verkefnisins á árinu 2013.
  • Minni framhaldsskólar, sem eðli málsins samkvæmt eru flestir á landsbyggðinni, sæta miklum niðurskurði gegnum órökstudda fækkun nemendaígilda. Auk þess var svonefnt gólf sem tryggði minnstu framhaldsskólunum ákveðnar lámarksfjárveitingar fellt úr gildi án nokkurs fyrirvara síðastliðið vor. Fundurinn mótmælir jafnframt harðlega áformum um að loka framhaldsskólum fólki eldri en 25 ára.
  • Framlög til vegamála eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu skorin niður um á þriðja milljarð króna frá því sem til stóð samkvæmt samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar. Afleiðingarnar verða sáralitlar almennar nýframkvæmdir og algerlega ófullnægjandi vetrarþjónusta og viðhald á vegakerfinu.
  • Niðurskurður á fjárveitingum til Vinnumálastofnunar er að leiða til þess að þjónusta hennar stórskerðist víða á landsbyggðunum.
  • Stuðningur við innanlandsflug sem er lífsnauðsynlegur samgöngukostur fyrir fjölmörg byggðarlög er enn skorinn niður.
  • Verið er að rústa starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, þar eins og víða er opinberum störfum og störfum háskólamenntaðs fólks að fækka á landsbyggðunum.

Frammistaða ríkisstjórnarinnar þegar kemur að fjarskiptamálum er hrein hörmung enda svo komið að sveitarfélög eru sum hver sjálf að ráðast í kostnaðarsama ljósleiðaravæðingu án þess að það sé þeirra lögbundna hlutverk og án þess að hafa fjármagn til þess. Ríkisstjórnin hefur algerlega klúðrað uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar með hugmyndinni um „náttúrupassa“ og meinbægni í garð fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar.

Áformuð hækkun virðisaukaskatts á rafmagn eykur enn á aðstöðumuninn milli kaldra svæða þar sem rafmagn er notað til húshitunar og hinna sem hafa aðgang að hitaveitu. Sama má segja um hækkun matarskatts sem veikir stöðu innlendrar matvælaframleiðslu enda hafa Bændasamtökin lagst alfarið gegn þeim breytingum og eiga þar samleið með þeim sem gæta vilja hagsmuna láglaunafólks. Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt fullkomið tómlæti gagnvart þeim vanda sem skapast hjá þremur sveitarfélögum vegna ákvörðunar sjávarútvegsfyrirtæksins Vísis í Grindavík að flytja alla fiskvinnslu og veiðiheimildir í burtu.

Það er brýnasta hagsmunamál landsbyggðanna að knýja ríkisstjórnina til gagngerra stefnubreytinga á þessum sviðum eða að hún fari frá ella.

 

Ályktun um stuðning við sjálfbæra atvinnuuppbyggingu og nýsköpun

Aðalfundur Kjördæmisráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi 10. október 2014 minnir á þær áherslur sem fyrri ríkisstjórn studdist við hvað varðar stuðning við nýsköpun, rannsóknir- og þróun, grænar áherslur í atvinnumálum og stuðning við skapandi greinar. Brýnt er að slíkar áherslur verði áfram leiðarljós við uppbyggingu innviða og ráðstöfun opinberra fjármuna á þessu sviði. Fundurinn hvetur þingmenn flokksins til að fylgja þessum áherslum fast eftir og andmæla öllum tilburðum til að færa atvinnustefnuna aftur til baka í átt að stórkarlalegum dólgaáherslum í anda gömlu stóriðjustefnu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

 

Ályktun gegn allri hernaðarhyggju

Fundurinn mótmælir tilburðum núverandi ríkisstjórnar til að draga Ísland á nýjan leik inn í hóp hernaðarhauka vestrænna stórvelda og dekurs við hernaðarbandalagið NATO. Í stað þess ber að leggja áherslu á friðar- og afvopnunarstefnu, þróunaraðstoð og stuðning við flóttamenn og fólk í neyð á borgarlegum forsendum. Ísland á að segja skilið við NATO, standa utan allra hernaðarbandalaga og vera boðberi mannréttinda og friðar í heiminum.

 

Sækja ályktanir á PDF