Ályktanir um flóttafólk

Vinstrihreyfingin – grænt framboð skoraði um helgina á stjórnvöld að veita fleira flóttafólki hæli á Íslandi og verða fyrirmynd annarra ríkja í móttöku flóttafólks.  Strax eftir helgi bárust nýjar fréttir af brottvísunum, nú tveggja samkynhneigðra karlmanna, annars sem hefur búið á Íslandi í fjögur ár og beðið úrskurðar.

Samtökin 78 fordæma í dag meðferð íslenskra yfirvalda á hinsegin flóttafólki og telja ómannúðlegt að synja hælisumsóknum eftir að umsækjendur hafi beðið eftir úrskurði í málum sínum í allt að fjögur ár. Samtökin hafa eftir lögmanni annars hælisleitendans að það stríði gegn stjórnsýslulögum.

Í ályktun flokksráðs Vinstri grænna um helgina var hvatt til að tekið yrði fast á vandanum sem reglulega birtist í afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um hæli hér á landi. Og í ályktuninni krafðist VG jafnframt þess að stjórnvöld hæfu strax vinnu við að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Ályktun flokksráðsfundar VG má lesa hér að neðan og ályktun Samtakanna 78 hér má lesa hér.

Opnara Ísland – áskorun til stjórnvalda

Vinstrihreyfingin – grænt framboð skorar á stjórnvöld að veita fleira flóttafólki hæli á Íslandi.
Fjöldi fólks á flótta í heiminum hefur ekki verið meiri frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Það er skylda Íslands sem öflugs velferðarríkis að gera allt sem í valdi þjóðarinnar stendur til að bjarga mannslífum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fagnar komu hóps frá Sýrlandi og telur mótttöku hans upphafið að frekari aðgerðum í þágu flóttafólks.
Vegna legu Íslands og landamærastefnu er nær útilokað fyrir flóttafólk að komast til landsins af eigin rammleik, án viðkomu í öðrum löndum. Rýmka þarf reglur um hælisumsóknir hér á landi. Brottvísanir með vísan í Dyflinnareglugerðina eiga ekki að koma fyrir. Móttöku hælisleitenda þarf að styrkja verulega, með auknum fjármunum og fleiri úrræðum í þágu hælisleitenda.

Mikilvægt er að tryggja að fólk sem er nýkomið til landsins, getið tekið fullan þátt í samfélaginu, styrkja það til náms til dæmis með gjaldfrjálsri íslensku- og samfélagskennslu og hjálpa því að komast í vinnu. Taka þarf af festu á vandanum sem reglulega birtist í afgreiðslu Útlendingastofnunar. Formenn Vinstriflokka á Norðurlöndum lýstu í upphafi árs yfir vilja til Norðurlönd vinni saman í að lausn á neyð flóttamanna með sameiginlegri yfirlýsingu sem birt var í öllum löndunum. Áhrif öfga hægriflokka í norrænum ríkisstjórnum gera hins vegar flóttamönnum erfitt að nýta rétt sinn til að sækja um hæli. Vinstri græn telja að Ísland geti orðið fyrirmynd annarra ríkja í móttöku flóttafólks og krefjast þess að stjórnvöld hefji strax vinnu við að taka á móti fleiri flóttamönnum.