Ályktun frá kjördæmisþingi NV-kjördæmis

Kjördæmisfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Stykkishólmi 1.10.2018 lýsir áhyggjum af samdrætti á þjónustu í landsbyggðum. Samþjöppun er að eiga sér stað í opinberri þjónustu og hjá ýmsum þjónustufyrirtækjum sem starfa á landsvísu. Áhrif þessa eru m.a. þær að ákvarðanir eru færðar frá fólkinu og óásættanleg fjarlægð skapast milli þjónustufyrirtækja og þjónustuþega. Í þessu sambandi má benda á ólíðandi getuleysi heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga til að sinna lögbundinni þjónustu. Fundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands að láta fara fram mat á framkvæmd lögboðinnar þjónustu og móta tillögur um úrbætur. Brýnt er að brugðist verði við áður en skapast enn meiri röskun á búsetu í landinu.

Greinargerð
Vegna samdráttar í þjónustu hefur víða skapast alvarlegt ástand í byggðum landsins. Hækkun lífaldurs og misgengi húsnæðisverðs veldur því m.a. að meðalaldur í sveitum og þorpum fer hækkandi, skólar veikjast og þjónusta við barnafólk minnkar. Bankinn fer, tryggingafélagið fer, verslunin fer. Langa leið þarf að fara til að sækja heilsugæslu. Heimahjúkrun er ekki veitt, sjúkrabíllinn farinn og staða læknis er ótrygg. Sveitarfélögin eru skuldum vafin og ófær um að halda úti lögboðinni félagsþjónustu. Allt ákvörðunarvald er fært í burtu og mikil ábyrgð lögð á ættingja. Einstæðingar eru fluttir hreppaflutningum eftir hentugleikum heilbrigðisstofnana. Fólkið hefur ekki málsvara og vart möguleika á ná fram þeim réttindum sem lög eiga að tryggja þeim. Fyrirtæki svo sem bankar, tryggingafélög og verslunarkeðjur ráða þjónustustiginu og öll hagræðing er færð frá þjónustuþeganum til eigenda. Víða er leitað úrbóta en oftast of seint. Það er fullt af tækifærum og möguleikum til í stöðunni ef vel er að staðið og mótuð stefna til að varðveita byggð í landinu. Opinber afskipti og skriffinnska er oft til trafala og skerðir um of frumkvæði og sköpunarkraft. Ný fjölbreytt byggðastefna er því nauðsyn.