Ályktun stjórnar VG-R vegna verkfalla

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík skorar á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að semja við félaga í SFR, Sjúkraliðaliðafélagi Íslands og lögreglumenn og -konur sem fyrst. Það er dapurlegt að sjá hvernig núverandi ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar í nær öllum kjaraviðræðum sem farið hafa fram síðustu misserin.

Stjórn VGR hvetur að auki fjármálaráðherra til að greiða ljósmæðrum sem fóru í verkföll í vor og sumar laun fyrir þá daga sem þær unnu á meðan á verkfalli stóð. Það er ólíðandi ef ljósmæður fá ekki greidd laun fyrir vinnu sína.

Brýnt er að sanngjörn niðurstaða fáist í þessi mál. Fyrirsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað brugðist almenningi í þessum málum og sýna enn að þeir ráða engan veginn við þau mikilvægu verkefni sem þeim hafa tímabundið verið falin.

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík