Ályktun vegna áætlaðrar hernaðaræfingar NATO á Íslandi

 

 

Ung vinstri græn mótmæla harðlega fyrirhuguðum hernaðaræfingum NATO á Íslandi í október næstkomandi auk skipulagsráðstefnu sem fylgir í kjölfar hennar um frekari æfingar af enn stærri skala.

 

Von er á tíu herskipum og fjögur hundruð landgönguliðum til Íslands í þeim blekkingarleik að ætla að verja öryggi Íslands. Ekki er hægt að líta framhjá því að í þessari aðgerð fara fram æfingar í að ná völdum yfir- og myrða annað fólk. Sömu hermennirnir og koma hingað munu vera sendir til Miðausturlanda þar sem þeir myrða og pynta almenna borgara með tækninni sem þeir æfðu á Íslandi.

 

Við fögnum því að þingmenn Vinstri grænna, þau Steinunn Þóra Árnadóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé, stígi fram og láti í ljós óánægju sína með æfinguna sem ekki er hægt að kalla annað en morðæfingu.

 

Aðild Íslands að NATO getur aldrei samræmst raunverulegri friðarstefnu heldur skuldbindur hún ríkið til þess að leyfa morðæfingar á sínu yfirráðasvæði, greiða fé úr ríkissjóði fyrir hernaðaraðgerðir í fjarlægum heimshlutum og taka afstöðu með heimsvaldastefnu Vesturvelda.

 

Við skorum á Alþingi að koma í veg fyrir þessa fyrirhuguðu ,,æfingu” og ráðstefnu hér á landi og segja Ísland tafarlaust úr hernaðarbandalaginu NATO.

 

Við hvetjum einnig aðrar ungliðahreyfingar og stjórnmálaflokka að taka upp friðarhyggju og afstöðu gegn veru Íslands í NATO.

 

Framkvæmdastjórn UVG