Andrés Ingi á þing í fyrsta sinn

Andrés Ingi Jónsson tók sæti á Alþingi í dag í fyrsta sinn sem varaþingmaður fyrir Steinunni Þóru Árnadóttur. Andrés Ingi, sem var í 6. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður í Alþingiskosningum 2013, flutti einnig sína fyrstu ræðu – svokallaða jómfrúarræðu – á Alþingi nú í morgun.

Andrés Ingi tók til máls í 1. umræðu um frumvarp umhverfisráðherra til breytinga á náttúruverndarlögum. Andrés ræddi meðal annars um aðgerðaleysi núverandi ríkisstjórnar í náttúruverndarmálum: „Það hlýtur að segja sitt um forgangsröðun náttúruverndar í ríkisstjórn að á ríflega hálfu kjörtímabili hafi ekkert þokast í þessum málum annað en að fyrst reyna að fella lögin úr gildi og svo að fresta þeim.“ Andrés gagnrýndi einnig þann seinagang sem einkennt hefur málið og spurði ráðherra: „Var einhvern tímann ætlun ríkisstjórnarinnar og hæstvirts ráðherra að lögin tækju gildi eins og til stóð eða var frá upphafi ætlast til þess að þessi 15 mánuðir [frá setningu laganna til gildistöku þeirra] væru aðallega nýttir til að teygja lopann og síðan yrði beðið um enn eina frestunina?“