Áramótakveðja

Kæru félagar!

Árið 2016 var viðburðaríkt í stjórnmálunum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks riðaði til falls eftir afhjúpanir Panama-skjalanna, forsætisráðherra sagði af sér og boðað var til kosninga í haust. Þingflokkur Vinstri-grænna var í fararbroddi þeirra sem bentu á hið kerfislæga misrétti sem birtist í því hvernig fámennur hópur hinna efnameiri hefur spilað eftir öðrum leikreglum en aðrir og nýtt sér aflandsfélög í skattaskjólum til að koma auð sínum fyrir.

Eftir öfluga kosningabaráttu fögnuðum við góðum sigri með tæplega 16% fylgi. Fyrst og fremst var það vegna áherslu okkar á sterka innviði og að í farsælu samfélagi verði öflugur efnahagur að fara saman við öflugt velferðarkerfi og menntakerfi. Áherslan var á góða heilbrigðisþjónustu, öflugt menntakerfi, greiðar samgöngur og mannsæmandi kjör fyrir þá hópa sem standa veikast: öryrkja og aldraða. Við lögðum líka fram hugmyndir um ábyrga tekjuöflun til að styrkja þessa innviði.

Þessi mál voru til umræðu hvar sem við komum fyrir og eftir kosningar enda endurspegla þau grundvallaratriði sem pólitíkin snýst um: Viljum við að barn einstæðs foreldris úti á landi fái sömu tækifæri og barn auðugra hjóna á höfuðborgarsvæðinu? Svar okkar í Vinstri-grænum er afdráttarlaust já. Við lítum á það sem forgangsverkefni að tryggja jöfn tækifæri í samfélaginu og til þess þarf öflugt velferðar- og menntakerfi sem er fjármagnað að fullu. Í velferðinni eru nefnilega stærstu verðmæti venjulegs fólks.

Við bentum í kosningabaráttunni á að það er mikilvægt að efla skattaeftirlit og skattrannsóknir. Varlega áætlað nema skattaundanskot um 80 milljörðum á ári. Það er algjörlega óviðunandi að ekki sé tekið á þessu með skilvirkari hætti enda munar um minna inn í samfélagsleg verkefni.

Við lögðum líka áherslu á umhverfismálin. Ísland á að setja sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og stefna að kolefnishlutleysi fyrr en síðar. Með virkri þátttöku ólíkra aðila er hægt að ná miklum árangri, hvort sem er í iðnaði, samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi eða hinu daglega lífi. Á sama tíma þarf að stíga skref í náttúruvernd, ljúka við friðlýsingu þeirra svæða sem falla undir verndarflokk rammaáætlunar og stofna þjóðgarð á miðhálendinu eins og æ fleiri átta sig á að felur í sér ótrúleg verðmæti fyrir land og þjóð og komandi kynslóðir.

Við ræddum flóttamenn og þá eðlilegu sýn að Ísland leggi meira af mörkum til að takast á við skelfilegar afleiðingar Sýrlandsstríðsins og annarra stríðsátaka í heiminum. Þar getum við gert betur, tekið á móti fleirum, beitt okkur á alþjóðavettvangi og lagt meira til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar.

Að loknum kosningum hefur staðan á sviði stjórnmálanna verið flókin. Vinstri-græn hafa tvisvar tekið þátt í umræðum um myndun fimm flokka ríkisstjórnar en ekki sá til lands í þeim viðræðum. Þar lögðum við mesta áherslu á uppbyggingu heilbrigðis- og menntakerfis og ábyrga tekjuöflun til að standa undir þeim verkefnum. Sama áhersla var efst á bógi í óformlegum viðræðum okkar við Sjálfstæðisflokkinn. Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hvort til er að verða ný ríkisstjórn þriggja flokka en það er okkar mat að íslenskt samfélag þurfi síst á hægristjórn að halda á þessum tímum þar sem mikilvægasta verkefnið er einmitt að treysta hina samfélagslegu innviði.

Við þökkum öllum félögum í hreyfingunni samstarfið á árinu. Fyrir kosningar unnu félagar í hreyfingunni kraftaverk þegar kom að því að ganga frá listum og heyja kosningabaráttu sem var um margt ólík fyrri baráttum og var t.d. talsvert ódýrari en í síðustu skipti. Allir lögðust á árar og við getum verið stolt af okkar verkum. Hvað sem nýtt ár ber í skauti sér verður það okkar hlutverk eftir sem áður að berjast fyrir okkar málefnum og okkar sýn. Það gerum við áfram öll saman.

Gleðilegt ár.

Katrín Jakobsdóttir.