Árið 2040

 

 

 

Loftslags- og umhverfismál lita mjög nýjan ríkisstjórnarsamning. Á hann mun reyna á þessum sviðum vegna þess hve heildarþróun veðurfars er alvarleg og afleiðingarnar þungbærar á heimsvísu. Kolefnishlutlaust Ísland 2040 er bæði pólitískt og fræðilegt markmið. Það er mjög metnaðarfullt. Um leið er það ekki geirneglt vegna þess að ársett markmið og fjármagnaðar og fræðilega færar leiðir eiga eftir að mótast að mestum hluta.

 

Samþætt verkefni

Málaefnasviðin eru mörg og verkefnin stór. Hér nefni ég mótun orkustefnu (framleiðsla orku, nýting og dreifing) og orkuskiptaáætlunar í samgöngum, útgerð og öðrum atvinnuvegum. Orkuskiptin snúast ekki bara um rafvæðingu ökutækja, báta eða hafna heldur líka um aukna notkun innlends eldsneytis, svo sem metanóls, metans og vetnis, á bíla, vinnutæki, skip og að hluta flugvélar.

Ég minni á lokagerð aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum sem unnið hefur verið að um hríð. Hún fjallar um takmörkun á losun gróðurgasa, um aukna bindingu kolefnis og um breytt skipulag samvinnu og framkvæmda í umhverfis- og loftlagsmálum. Minni losun varðar t.d. bíla, vinnuvélar, orkufrekan iðnað, skip og báta, flugvélar og byggingariðnaðinn. Þar losnar eitt tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af nýttri steinsteypu á meðan notkun tréverks losar aðeins brot af gasinu, hvað þá ef timbrið er innlent. Heimræktað timbur í fullnægjandi mæli fyrir 2050 er ekki tálsýn ef tekið er til við að fjórfalda gróðursetningu á nytjatrjám.

 

Fjórþætt kolefnisbinding

Bindingin varðar m.a. aukna niðurdælingu koltvísýrings úr jarðhitaorkuverum en þó einkum frá orkufrekum iðnaði. Hún varðar uppgræðslu auðna neðan vissra hæðarmarka og viðgerðir á mikið rofnu grur﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽nu grðslu auðna og viðgerð ðbur er ekki ttvu skipulaginaðarglutt og óðurlendi, tvö- til fjórföldun gróðursetningar í skógrækt, með birki og innfluttum trjátegundum. Hún er enn fremur háð endurheimt verulegs hluta af ónýttu en framræstu votlendi. Hættuleg súrnun sjávar ræðst aðallega af losun og bindingu kolefnisgasa.

 

Endurskoðun skipulags

Skipulag í stjórnkerfinu breytist mishratt. Stofna á samvinnuvettvanginn Loftslagsráð sem fyrst, skv. stjórnarsamningnum, og efla Loftslagssjóð sem uppsprettu góðra verka, með tekjum af svoköllum grænum gjöldum. Aukin samvinna Skógræktar, Landgræðslu, Bændasamtakanna, hagsmunafélaga og klasa annarra atvinnuvega, sveitarfélaga og samtaka áhugafólks hlýtur að vera eitt af lykilatriðum til árangurs. Samhliða verður að skoða hvernig auðlindanytjum, náttúruvernd, rannsóknum og eftirliti í umhverfismálum er best fyrir komið í stofnanakerfinu. Þar er unnt að gera kerfið skilvirkara og skilja að þætti sem best er að hafa sem óháðasta en sameina betur þá sem eiga saman.

 

Breytt hagkerfi

Fleira kemur til en skipulagsbreytingar. Grænu gildin verða líka að ná djúpt inn í stefnumótun til áratuga. Þar stendur margt upp á hagkerfið og samgöngur. Til að mynda duga ekki hagkvæmnissjónarmiðin ein eða einsýni á peningahagnað.

Þríþætt sjálfbærni, bætt umhverfi og loftslagsviðmið eru löngu tímabær. Áhersla er einboðin á afmiðjun til mótvægis við samþjöppun innan atvinnuvega, á styttri flutningsleiðir og heimafengnar vörur, á öflugari byggðir utan mesta þéttbýlis, greitt samband um alnet og síma og á næga og örugga raforku. Inn í þær breytingar fléttast staðbundnar og atvinnuvegabundnar landnýtingaráætlanir, auk heildarramma, sem sátt verður að vera um, í meginatriðum.

 

Ekki aftur snúið

Hugtakið ögurstund má snúa upp á samtímann og tala um öguráratugi. Framlög ríkisins á fyrrgreindum málasviðum eru í raun fjárfestingar samfélagsins sjálfu

sér til bóta, jafnvel bjargar. Gróðinn, svo notað sé margþvælt hugtak, er mældur í lífsskilyrðum í fyrsta sæti en peningahagnaði í allt öðru sæti. Núverandi ríkisstjórn var m.a. mynduð um brýnar úrbætur á lífsskilyrðum almennings í landinu, á grunni sérstæðra málamiðlana. Stjórnin mun leggja fram fimm ára ríkisfjármálaáætlun. Hún verður prófsteinn á fullnustu málefnasamnings hennar, svo langt sem slíkt er sanngjörn krafa nokkur á fram í tímann.

Samkvæmt kröfum samtímans verður að auka framlög og þunga í rannsókunum, vöktun, nýsköpun og aðgerðum í umhverfismálum. Ella náum við hvorki að uppfylla alla þætti Parísarsamkomulagsins né ótal króka og kima markmiðsins um kolefnishlutlaust Ísland. Samþætting alls sem hér hefur verið minnst á er mikið verk en feiknarlega mkilvægt.

 

 

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður,