Atvinnuveganefnd sögð sniðganga Rammaáætlun

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í atvinnuveganefnd, tók til máls í upphafi þingfundar til að vekja athygli á að meirihluti nefndarinnar hyggist sniðganga Rammaáætlun. „Nú bregður svo að meirihluti atvinnuveganefndar ætlar að leggja fram þá breytingartillögu að leggja alla þessa átta kosti sem eru nú í bið í nýtingarflokk og ganga framhjá Rammaáætlun.“ Lilja Rafney benti á að meirihlutinn ætli að gefa þessari breytingu aðeins eina viku í umsagnarferli en til samanburðar var tillaga umhverfisráðherra um að færa einn virkjunarkost (Hvammsvirkjun) í nýtingarflokk gefin 12 vikur í umsagnarferli.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vg, tók einnig til máls og sagði: „Staðreyndin er sú að ef ætlunin er að fara með þetta mál með þessum hætti, virðulegi forseti, þá er verið að gera svo róttækar breytingar á málinu að það er ekki hægt að líta á það sem einfalda breytingartillögu.“ Fjölmargir aðrir þingmenn tóku til máls og mótmæltu framferði ríkisstjórnarmeirihlutans í nefndinni. Þannig sagði Steingrímur J. Sigfússon m.a. að með þessari ákvörðun hefði stríðshanska verið kastað og furðaði hann sig á meirihlutinn skyldi leita að átökum í málinu.

Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, tók undir þetta og sagði: „Það sem er að gerast með þessari málsmeðferð er að allt landið, Ísland frá fjalli til fjöru, er í nýtingarflokki,“ og bætti við að lögin um Rammáætlun séu að engu höfð. Svandís furðaði sig einnig á því að aðeins sé gert ráð fyrir eina viku í umsagnarferli til að fara yfir málið og spurði: „Við hvað eru sjálfstæðismenn hræddir?“