Aukið lýðræði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Tillögu til þingsályktunar um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna, sem Ögmundur Jónasson hefur lagt fram á Alþingi, fylgir áskorun alþjóðlegra samtaka þessa efnis. Ástæða þess að þingmenn, ýmis félagasamtök, fræðimenn og stjórnmálaleiðtogar víða um heim hafa léð þeim málstað fylgi sitt að stofna beri þing kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna er ofurvald stórveldanna sem deila þar og drottna eftir sínum hentugleikum.

Stjórnarhættir gerðir lýðræðislegri

Þetta skipulag, sem varð til og mótaðist í andrúmi nýafstaðinnar heimsstyrjaldar, endurspeglar að margra mati um of trú á hernaðarmátt og efnahagslega yfirburði. Röddum hinna fáu, stóru og sterku, er leyft að hljóma og yfirgnæfa raddir hinna mörgu smáu. Þing kjörinna fulltrúa yrði til þess að gera stjórnarhætti Sameinuðu þjóðanna lýðræðislegri og því fylgir ávallt, ef rétt er á málum haldið, að fleiri raddir heyrast, fleiri sjónarmið komast að og ákvarðanir og stefnumörkun miðast ekki einungis við hagsmuni hinna stóru og aflmiklu.