Aukum lífsgæði

 

Frá því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð var stofnuð fyrir nærri 20 árum hefur hugsjón hreyfingarinnar verið haldið uppi af harðduglegu fólki um land allt. Í heimabyggð er ljóst að raddir umhverfisverndar, félagshyggju og femínisma geta haft mikil áhrif enda margar mikilvægar ákvarðanir teknar af sveitarstjórnum; ákvarðanir sem varða hagsæld og velferð okkar allra.

Sveitarstjórnarmál eru nefnilega hápólitísk mál sem snerta daglegt líf okkar allra. Þar eru teknar ákvarðanir sem geta breytt lífsgæðum okkar og gildismati. Þannig hafa Vinstri-græn í meirihlutanum í Reykjavík beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar og lækkun leikskólagjalda þannig að reykvískir foreldrar borga nú lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Vinstri-græn í Norðurþingi beittu sér fyrir því að öll börn yfir tólf mánaða aldri fá nú vist á leikskólum sveitarfélagsins. Vinstri-græn í Mosfellsbæ hafa unnið ötullega að því að friðlýsa ýmis náttúruvætti í bæjarlandinu, til dæmis Álafoss í Varmá og meðal annars fyrir tilstilli okkar var Mosfellsbær fyrsta sveitarfélagið til að fá jafnlaunavottun.

Margt fleira mætti nefna sem fulltrúar Vinstri-grænna innan meirihlutasamstarfs um land allt hafa áorkað sem hefur gert samfélagið betra fyrir fólk, bætt umhverfi og jafnað stöðu kynjanna. Fulltrúar okkar í sveitarstjórnum um land allt hafa sömuleiðis veitt meirihlutum virkt aðhald, og er skemmst að minnast umræðu um boðsferðir og siðareglur bæjarfulltrúa á Akureyri sem bæjarfulltrúi Vinstri-grænna leiddi.

Málin framundan í sveitarstjórnum landsins verða mörg og ekki af minna taginu. Hvernig ætla sveitarfélögin að leggja sitt af mörkum til að ná fram kolefnishlutleysi? Þar leggja Vinstri-græn áherslu á hleðslustöðvar fyrir rafbíla, öflugri almenningssamgöngur, þ.m.t. Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, minna plast og minni sóun í öllum stofnunum sveitarfélaga og náttúruvernd bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Hvernig ætla sveitarfélögin að tryggja betra samfélag fyrir íbúa sína? Þar leggja Vinstri-græn sérstaka áherslu á húsnæðismál og að sveitarfélögin verði meiri gerendur í uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði þannig að venjulegt fólk geti verið öruggt um að hafa þak yfir höfuðið. Sömuleiðis eru skólamál lykilatriði; að sveitarfélögin bregðist við þeim vanda sem blasir við í mönnun bæði grunnskóla og leikskóla, tryggi góðar starfsaðstæður fyrir kennara og leggi sitt af mörkum við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Þegar kemur að jafnréttismálum eru sveitarfélögin í lykilaðstöðu til að gera enn betur. Meðal annars með því að innleiða jafnlaunavottun en sömuleiðis með gagnsærri og skýrri kjarastefnu þar sem launafólk fær mannsæmandi laun og karlar og konur eru metin til jafns. En líka með því að taka á málum sem tengjast kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni. Þar hafa stjórnvöld stigið mikilvæg skref, meðal annars með heilstæðri og fjármagnaðri áætlun um hvernig á að taka á kynferðisofbeldi og áætlunum um hvernig á að taka á kynbundinni og kynferðislegri áreitni.

Það liggja tækifæri víða. Ríkisstjórnin vinnur ötullega að því að tryggja að sú efnahagslega hagsæld sem við höfum séð að undanförnu skili sér inni í samfélagið, með sérstakri áherslu á uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og samgangna og umbóta í almannatryggingum. Mikilvægt er að samfélagsleg uppbygging í þágu almennings fari fram um land allt á sveitarstjórnarstigi. Í kosningunum á morgun verða í boði V-listar Vinstri-grænna og óháðra í tíu sveitarfélögum. Þá eru fulltrúar Vinstri-grænna víða ofarlega á listum blandaðra framboða um land allt. Ég veit að þau munu öll sem eitt beita sér fyrir almannahagsmunum, umhverfis- og náttúruvernd, aukinni velferð og jöfnuði og jafnrétti kynjanna – málum sem miða að því að auka lífsgæði okkar allra. Við viljum samfélag fyrir okkur öll, hver sem við erum og hvaðan sem við komum, þar sem við höfum tækifæri til að skapa okkar eigin örlög, rækta hæfileika okkar og taka virkan þátt í ákvörðunum. Höfum þau sjónarmið í huga þegar við göngum inn í kjörklefann.

Katrín Jakobsdóttir.