Bæta þarf lífskjör barnafjölskyldna

Ungt fólk á Íslandi samtímans veit vel af því að það getur valið sér búsetu. Norðurlöndin eru eitt atvinnusvæði og daglega er unnið að því að ryðja hindrunum úr vegi Norðurlandabúa sem vilja búa hvar sem er á svæðinu. Innan EES-svæðisins stendur yfir sama þróun.

Það er því ekki óalgengt að hitta ungt fólk sem hefur íhugað búsetu í útlöndum og tölur um búferlaflutninga nú um stundir virðast renna stoðum undir það að þar sé þróunin orðið neikvæð á nýjan leik, fleiri Íslendingar flytja burt en hingað til lands.

Það er stór ákvörðun að flytja og margt sem hefur áhrif á hana. Í tilfelli unga fólksins eru það til dæmis húsnæðismálin en einnig lífskjörin almennt, grunnþjónustan og aðbúnaður barnafjölskyldna.

Það ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál allra stjórnmálahreyfinga að tryggja að Ísland sé eftirsóknarverður staður til að búa á. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem innlegg í þá umræðu ásamt því að vera metnaðarfullt skólapólitískt mál. Tillagan snýst um að fæðingarorlof verði í áföngum lengt upp í 18 mánuði til jafns við það sem er í boði annars staðar á Norðurlöndum. Þá verði tryggt að leikskólavist standi börnum til boða strax við 12 mánaða aldur svo að margir foreldrar lendi ekki í vanda við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er þó mikilvægt að hafa kerfið sveigjanlegt þannig að foreldrar hafi val um hvenær leikskóladvöl hefjist.

Í þriðja lagi leggjum við til að leikskólar verði lögbundið verkefni sveitarfélaga og unnið verði að því að gera leikskólana gjaldfrjálsa. Leikskólastigið hefur í meira en tvo áratugi talist vera fyrsta skólastigið og í lögum um leik- grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2008 og í nýrri Aðalnámskrá frá árinu 2011 er horft á öll þessi skólastig sem eina heild. Það er öfugsnúið að leikskólanám sé ekki gjaldfrjálst og þetta skref því mikilvægt, bæði sem menntapólitísk ákvörðun sem fullnustaði þá hugmyndafræði að leikskóli, grunnskóli og framhaldsskóli séu órofa heild en um leið mikil kjarabót fyrir foreldra en meðalupphæð leikskólagjalda fyrir eitt barn á mánuði er yfir þrjátíu þúsund krónum.

Núverandi ríkisstjórn hefur í staðinn hug á þensluhvetjandi skattalækkunum á þeim forsendum að þar sé um kjarabætur að ræða. Það væri skynsamlegri ákvörðun, bæði efnahagslega en líka samfélagslega, að styrkja fremur innviði samfélagsins þannig að Ísland standist nágrannaþjóðum sínum snúning þegar fólk velur sér búsetu. Þannig þarf ungt fólk að geta stofnað fjölskyldu án þess að kikna undan þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem það hefur í för með sér. Tillaga Vinstri-grænna um lengra fæðingarorlof, gjaldfrjálsan leikskóla og örugga leikskólavist að loknu fæðingarorlofi er því mikilvægt hagsmunamál fyrir barnafjölskyldur og samfélagið allt.

Katrín Jakobsdóttir