Fréttir

Bætum kjör sjúkraliða

 

Mönn­un heil­brigðis­stétta er viðvar­andi áskor­un. Á síðustu árum hef­ur reynst sér­stak­lega erfitt að manna stöður í til­tekn­um grein­um heil­brigðisþjón­ust­unn­ar. Það er áhyggju­efni að vand­inn sé mest­ur í stór­um kvenna­stétt­um og ljóst er að við þurf­um að bæta kjör þess­ara stétta.Næst stærsta heil­brigðis­stétt lands­ins, sjúkra­liðar, er ein þeirra stétta þar sem mönn­un­ar­vandi er mik­ill. Kjör, vinnu­tími og starfs­um­hverfi eru þætt­ir sem þar skipta sköp­um og gera það að verk­um að menntaðir sjúkra­liðar hverfa í mikl­um mæli til annarra starfa. Þessi vandi er svo mik­ill að grípa þarf til aðgerða. Við þurf­um að greina stöðuna vel til að skýrt sé til hvaða aðgerða skuli grípa.

Það er aðkallandi verk­efni að leita leiða til að fjölga starfs­fólki í heil­brigðis­kerf­inu svo mönn­un allra fag­stétta sé tryggð. Hlut­verk rík­is­ins er að sjá til þess að næg­ur fjöldi heil­brigðis­starfs­manna út­skrif­ist í hverri starfs­grein og að fyr­ir hendi séu hvat­ar sem stuðli að full­nægj­andi mönn­un og upp­bygg­ingu heil­brigðis­stofn­ana lands­ins. Miklu máli skipt­ir að þau sem hafa menntað sig til starfa sem sjúkra­liðar skili sér til starfa í fag­inu og séu sátt við kjör sín. Í því sam­hengi skipta nokk­ur atriði meg­in­máli, til dæm­is stjórn­un og þátt­ur yf­ir­manna, starfs­um­hverfi, mögu­leik­ar til starfsþró­un­ar, launa­stefna, vinnu­tími og jafn­rétt­is­sjón­ar­mið.

Í drög­um að heil­brigðis­stefnu, sem nú má lesa í sam­ráðsgátt stjórn­valda, er lögð áhersla á mönn­un í heil­brigðis­kerf­inu. Þar kem­ur meðal ann­ars fram að mennt­un heil­brigðis­stétta sé for­senda þess að hægt sé að manna heil­brigðis­kerfið með full­nægj­andi hætti á hverj­um tíma og veita sjúk­ling­um góða þjón­ustu. Tryggja þurfi nauðsyn­lega nýliðun ein­stakra heil­brigðis­stétta. Mennta­kerfið þurfi að full­nægja þörf­um heil­brigðisþjón­ust­unn­ar fyr­ir vel menntað heil­brigðis­starfs­fólk í öll­um grein­um.

Sam­hljóm­ur er með þess­um áhersl­um heil­brigðis­stefn­unn­ar og því verk­efni sem blas­ir við. Í drög­um að heil­brigðis­stefnu kem­ur einnig fram að árið 2030 eigi staðan að vera sú að mannaflaþörf heil­brigðis­kerf­is­ins hafi verið greind og viðeig­andi ráðstaf­an­ir gerðar af hálfu rík­is­valds­ins til að tryggja mönn­un. Ég mun leggja áherslu á það að efn­is­atriðum stefn­unn­ar um mönn­un í heil­brigðis­kerf­inu verði fylgt eft­ir og að gripið verði til nauðsyn­legra aðgerða til þess að gera starfs­um­hverfi allra heil­brigðis­stétta, þar með talið sjúkra­liða, eft­ir­sókn­ar­verðara. Mennt­un og fagþekk­ingu þarf að meta að verðleik­um og brýnt að sér­hver fag­stétt taki þátt í teym­is­vinnu og myndi sterka heild í heil­brigðisþjón­ust­unni þar sem sjúk­ling­ur­inn er í fyr­ir­rúmi. Sá þátt­ur heild­ar­kjara sem lýt­ur að starfs­um­hverfi og mögu­leik­um til starfsþró­un­ar verður alltaf að vera hluti af heild­ar­mynd­inni.

Svandís Svavars­dótt­ir, heilbrigðisráðherra.