Bakkadalur?

Mikill meirihluti Íslendinga á sér rætur í sveitum og þorpum úti við sjó. Þar bjuggu afar og ömmur flestra, tveimur til fjórum kynslóðum á undan okkur. Þrátt fyrir samþjöppunina í stóra kjarna og á höfuðborgarsvæðið erum við enn að mestu háð náttúrunytjum. Í þær hefur bæst ný vídd. Við skynjum loksins að nytjarnar eru takmörkum háðar, verða að vera sjálfbærar og lúta umhverfisvernd. Verndin kemur samt ekki í veg fyrir að við röskum umhverfinu, breytum náttúrulegum aðstæðum á tilteknum svæðum og byggjum mannvirki. Nægir að nefna tún, vegi, hafnir, virkjanir og húsnæði. Þá gildir að fara fram með varkárni, nytja auðlindir með sjálfbærum hætti og dreifa álagi á þær og umhverfið sem mest. Samtímis verðum við að kljást við afleiðingar aldalangrar rányrkju. Hún stafaði oftast af fyrirhyggjuleysi og þekkingarskorti.

Innan þessa ramma stöndum við frammi fyrir byggðaþróun sem er í ósamræmi við samtímann. Ekki þó við sanngjarnar kröfur um góðar samgöngur, skilvirkt mennta- og heilsukerfi, traust innra samband og starfræna væðingu samfélagsins eða orkuöryggi. Nei, ósamræmið kemur fram í hrörnun byggðakjarna og sveitasamfélaga í flestum landshlutum. Í stað þess að tryggja góðar aðstæður alls staðar og skynja og viðurkenna að öflug landsbyggð er nauðsynleg, eru teknar ákvarðanir sem veikja samfélögin. Það gerist ýmist með því að kippt er atvinnugrunni undan fólki eða dregið er árum og áratugum saman að nútímavæða staði og svæði. Augljóst er að aflamarkskerfið hefur valdið miklu tjóni í þessum efnum og gallar í landbúnaðarkerfinu gera vexti til sveita víða erfitt fyrir. Sparnaður í vegamálum og hægagangur í lagningu þrífasa rafmagnstauga og tryggra orkutenginga, ásamt allt of seinkominni ljósleiðaralagningu, hafa valdið öfugþróun á mörgum svæðum. Samþjöppun í skóla- og heilbrigðismálum hefur víða gengið of langt.

Öflug landsbyggð er hvorki byrði á samfélaginu né í ósamræmi við framfarir í umhverfismálum. Þvert á móti. Ríkið jafnt sem fyrirtæki fjárfesta í bjartari framtíð með framlögum til innviða, fyrirtækja og þekkingarstarfa úti á landi. Það borgar sig að gera út á nálæg fiskimið, það borgar sig að nýta landkosti sem víðast, það borgar sig að nýta staðbundna þekkingu við nýsköpun og það borgar sig að gera fólki kleift að hafa ólíkar skoðanir á lífsgæðum og geta búið bæði dreift og þétt. Við þessa kosti bætist svo mál málanna: Vinnan gegn óæskilegum umhverfisbreytingum og hlýnun loftslagsins. Við náum þar árangri með því að bæta staðbundna þjónustu og verslun, minnka orkunotkun í samgöngum, útgerð og landbúnaði, laða fólk og nýsköpun til staða utan 4-5 stærstu bæja. Afmiðjun og meiri samneysla eru lykilorð. Um leið stuðlum við að fjölmenningu: Hún snýst ekki aðeins um menningu ólíkra þjóða. Fjölmenning felst líka í dreifðri búsetu og ólíkri reynslu fólks eftir landshlutum og störfum.

Þannig er komið nú til dags að við skulum horfa til Bakkafjarðar og Bíldudals, fordómalaust, vinsamlega og með framfarir í huga. Aðgerðir sem stuðla að fjölbreyttri atvinnu, mannvænlegu umhverfi og sjálfbærri þróun eiga að vera til umræðu og framkvæmda. Fjárhagsleg hagkvæmni er ekki eini mælikvarðinn á öflugt samfélag í Bakkadal.

Höfundur er þingmaður VG.