Barnaþing

Í frétt morgunblaðsins í dag kemur fram að sér­stakt barnaþing mun fara fram á tveggja ára fresti und­ir stjórn umboðsmanns barna, sam­kvæmt frum­varpi um end­ur­skoðun laga um umboðsmann barna sem Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra kynnti fyr­ir rík­is­stjórn­inni í morg­un.

Á barnaþing­inu munu börn hvaðanæva að á land­inu koma sam­an og ræða þau mál sem þau vilja ræða. For­sæt­is­ráðherra seg­ir í sam­tali við mbl.is að ráðstaf­an­ir verði gerðar til þess að þátt­taka barna geti verið óháð bæði bú­setu þeirra og stöðu, en það verði nán­ar út­fært af umboðsmanni barna.

„Þetta verður unnið í nánu sam­starfi við skóla í kring­um landið og við sjá­um fyr­ir okk­ur að þar verði jafn­vel mál­in sett á dag­skrá í aðdrag­anda barnaþings og síðan mæti á þingið full­trú­ar barna af land­inu öllu og ræði þau mál sem hafa verið í deigl­unni,“ seg­ir Katrín.

„Lýðræðis­mennt­un er ein af grunnstoðum aðal­náms­skrár og við vit­um að ýmis lönd hafa verið að reyna við þetta fyr­ir­komu­lag að vera með sér­stakt þing barna og við erum mjög spennt að setja þetta í gang und­ir for­ystu umboðsmanns barna“

Umboðsmanni gert að safna gögn­um um stöðu barna

Frum­varpið hef­ur fleiri breyt­ing­ar í för með sér, en barnaþingið verður senni­lega sú sýni­leg­asta, seg­ir Katrín, en auk ákvæðis um barnaþing verða gerðar breyt­ing­ar á lög­um um umboðsmann barna til þess að tengja skyld­ur umboðsmanns bet­ur við mark­mið Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna, sem var lög­fest­ur eft­ir að embætti umboðsmanns barna var stofnað á sín­um tíma.

Einnig er verið að festa í sessi hluti sem umboðsmaður barna hef­ur tekið upp, til dæm­is það að vera með ráðgjafa­hóp barna sér til aðstoðar.

„Það hef­ur umboðsmaður gert án þess að það sé laga­skylda, en okk­ur fannst ástæða til að festa það í sessi með þess­um hætti,“ seg­ir Katrín.

Þá er lagt til að umboðsmaður barna fái það hlut­verk að safna gögn­um um stöðu barna á Íslandi með mark­viss­um hætti.

„Við telj­um að það sé mjög mik­il­vægt fyr­ir alla stefnu­mót­un í mál­efn­um barna, að það sé ráðist mark­visst í þessa gagna­söfn­un af hálfu hins op­in­bera,“ seg­ir Katrín.

Frum­varpið var af­greitt úr rík­is­stjórn­inni á rík­is­stjórn­ar­fundi í morg­un og Katrín seg­ir að hún von­ist til þess að hún nái að ræða það á Alþingi „eins fljótt og auðið er“ og að hún telji að góð samstaða ætti að skap­ast um málið á þingi.