Betri eru biðlaun en starfslokasamningar

Ögmundur Jónasson

Verði frumvarp Ögmundar Jónassonar, þingmanns VG, um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að lögum mun réttur starfsmanna ríkisins til biðlauna verða endurvakinn en starfslokasamningar lagðir af.

Frá 1954 og fram til 1996 að núgildandi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 70/1996 tóku gildi nutu opinberir starfsmenn biðlaunaréttar við starfsmissi þegar störf voru lögð niður. Afnám þessara mikilvægu réttinda varð tilefni til harðra andmæla heildarsamtaka opinberra samtaka á sínum tíma og sú þróun sem orðið hefur frá 1996 sýnir að þau áttu fyllilega rétt á sér. Í stað lögbundins og vel skilgreinds biðlaunaréttar hafa verið teknir upp starfslokasamningar sem eru þeim annmörkum háðir að þar ræður geðþóttaákvörðun atvinnurekandans því í raun hver kjör starfsmannsins verða. Þetta losaralega fyrirkomulag á viðskilnaði starfsmanns við vinnustað sinn eykur líkur á misrétti og ójöfnuði. Gert er vel við suma starfsmenn en öðrum nánast vísað á dyr án nokkurrar aðstoðar við aðlögun að rýrari kjörum sem eru að jafnaði afleiðingar starfsmissis.

Fyrrnefnt frumvarp miðar að því að treysta og jafna rétt opinberra starfsmanna til sómasamlegra starfsloka og innleiða festu og jafnræði í meðferð slíkra mála í stað óvissu og mismununar sem nú ríkir.