Bjarkey Gunnarsdóttir vill fund um vopnaburð lögreglunnar

Bjarkey Gunnarsdóttir

Bjarkey Gunnarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, óskaði nú síðdegis eftir fundi í nefndinni um hugsanlegan vopnaburð lögreglunnar. Bjarkey óskaði eftir fundinum í ræðustóli Alþingis þar sem hún sagði: „Við höfum almennt ekki verið vopnuð þjóð og því vakna auðvitað spurningar um á hvaða vegferð ríkisstjórnin er og mikilvægt að fá að vita hvort ráðuneytið og ríkislögreglustjóri tala hér einu máli.“

Bjarkey ítrekaði svo þessa ósk í eftirfarandi bréfi til nefndarinnar sem sent var rétt í þessu: „Ég sem fulltrúi í allsherjar- og menntamálanefnd óskaði eftir fundi í nefndinni á þingfundi í dag um vopnaburð lögreglunnar, og undir það tók Guðbjartur Hannesson, og ítreka hér með þá ósk mína að fundur verði haldinn í hádegishléi á morgun þar sem innanríkisráðherra og ríkislögreglustjóri geri grein fyrir þeim misvísandi upplýsingum sem fram koma í fjölmiðlum um þetta mál.“