Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir um fjárlög 3. umræða

Nú er efnislegri umfjöllun Alþingis um fjárlög ársins 2019 að ljúka. Fjárlaganefnd hefur unnið að málinu frá því það var lagt fram þann 11. september síðastliðinn. Það er búinn að vera annar bragur á undirbúningi fjárlaga í haust heldur en síðustu tvö haust þegar þau voru samsoðin í flýti eftir kosningar. Vinnan í nefndinni er búin að vera mikil og góð undir formennsku háttv. Willum Þórs Þórssonar. Þó okkur og minnihlutanum greini um sumt á um forgangsröðun verkefna og hvað sé og hvað sé ekki raunhæft að gera þá hefur vinnan gengið ágætlega fyrir sig í nefndinni.

Framkvæmd laga um opinber fjármál

Lög um opinber fjármál voru samþykkt fyrir næstum þremur árum, 1. janúar 2016. Síðan þá hafa verið smíðuð fjögur fjárlagafrumvörp enda tvennar kosningar. Núna erum við í fyrsta skipti að ná í land með þessa vinnu, að það sé sama ríkisstjórnin sem býr til fjármálastefnu, fjármálaáætlun og svo fjárlög á grunni þeirra. Þá fengum við einnig í fyrsta skipti að takast á við það verkefni að hagspáin var ekki bara lóðbeint upp á við milli fyrstu og annarrar umræðu. Við því þurfti að bregðast og ég tel að við höfum náð að lenda því mjög vel með ábyrgum vinnubrögðum. Það er að segja, fara yfir þær fjárheimildir sem ekki nýtast vegna þess að verkefni hafa frestast og annað í þeim dúr.

Þó vil ég halda til haga enn og aftur að við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði vorum á móti ákveðnum þáttum í lögum um opinber fjármál. Töldum þau of stíf og ég tel að reynslan sýni nú að það var rétt mat hjá okkur á sínum tíma. Eðlilegra sé að miða við eitthvað bil á afkomunni þar sem að matið á hagvexti næsta árs er bara það, það er mat Hagstofunnar á því sem líklegast er að gerist. Örlítið frávik frá því breytir forsendunum nokkuð, sem og endurmat á hagvexti þessa árs, sem er líka bráðabirgða tala. Það er hægt að feta sig inn á þessa braut með fjárlögum ársins 2020 með því að miða við að það sé borð fyrir báru í fyrstu umræðu fjárlaga, eitthvert svigrúm milli fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar um afkomumarkmið.

Sóknarfjárlög – loforð efnd

Þessi önnur fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru, eins og ég þreytist ekki á að segja, sóknarfjárlög. Við töluðum um fyrir kosningarnar í fyrra að það þyrfti að auka framlög til samfélagslegra verkefna um 40-50 milljarða. Núna, rétt rúmu ári síðar höfum við gert það og gott betur. Útgjaldaaukningin er upp á tæpa 90 milljarða til samfélagslegra verkefna og er það vel. Þá er ánægjulegt að sjá að bilið milli heimilda í fjárlögum og í fjáraukanum hefur sjaldan verið minna. Við viljum nefnilega að ákvarðanir sem Alþingi tekur um fjárveitingar haldi.

Það er margt undir í fjárlögum og erfitt að fara yfir það í stuttu máli. En það sem ég kannski vil draga fram í þessari atrennu er það sem hefur fengið minni umfjöllun ásamt því að leggja áherslu á það sem ég er sérstaklega ánægð með í þessum fjárlögum.

Samgöngur

Það er auðvitað gleðiefni að geta stórhækkað framlög til samgangna og fjarskiptamála. Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála okkar og til marks að við gerum það sem við segjum. Þó að það væri gott að geta gert enn meir í samgöngum, þá er forgangsröðunin skýr. Við viljum auka öryggi og byggja upp grunnnetið í kringum landið.

Jöfnuður

Meginstef þessara fjárlaga eru aðgerðir í þágu jöfnuðar og tekjulágra hópa í samfélaginu. Það er enda svo að í samfélögum jafnaðar líður fólki betur. Börnum gengur betur í skóla þegar jöfnuður er ríkjandi stefið í samfélaginu. Skrefin sem við tókum í fyrra með því að hækka fjármagnstekjuskatt um tvö prósentustig ríma vel við þau skref sem eru tekin hér. Með því að binda efra þrep tekjuskatts við sömu vísitölu og persónuafslátt, við það að hækka barnabætur til tekjulágra fjölskyldna verulega og að hækka persónuafslátt umfram verðlagshækkanir. Við viljum að fólk hafi jöfn tækifæri og að því stefnum við ótrauð.

Menningin er það sem bindur okkur saman sem samfélag. Öll börn eiga að hafa greiðan aðganga að menningu, óhag efnahag fjölskyldna þeirra. Þess vegna samþykkti Alþingi í sumar að setja á fót Barnamenningarsjóð sem er fjármagnaður í þessum fjárlögum.

Heilbrigðiskerfið

Stærsta kosningamálið síðustu tvennar kosningar hefur verið heilbrigðiskerfið. Ég þori að fullyrða að ekkert sameinar kjósendur betur heldur en sú sjálfsagða krafa að hér sé rekið öflugt, opinbert, heilbrigðiskerfi. Þar er bætt verulega í og loksins er byrjað að byggja hérna nýtt sjúkrahús sem mætir áskorunum 21. aldarinnar. En jafnframt eru margar fleiri aðgerðir sem eru í þágu öflugs heilbrigðiskerfis. Við ætlum að efla heilsugæsluna um land allt, svo að lítil vandamál verði ekki stór. Við sjáum strax hverju það skilar að gera fólki auðveldara að leita til sjúkraþjálfara það er eitt af því sem dró úr nýgengni örorku vegna stoðkerfisvandamála.

Störf fyrir alla

Ég á þá von að það sama muni gerast með því að auðvelda fólki að leita til sálfræðinga og þverfaglegra geðheilsuteyma á heilsugæslum. Það mun vonandi draga úr því að fólk missi starfsgetu vegna andlegra veikinda. Það er réttur fólks að geta unnið fyrir sér og við sem samfélag verðum að geta gripið þá sem þarfnast hjálpar og komið þeim til heilsu.

Í því samhengi langar mig að nefna lítið verkefni sem fjárlaganefnd ákvað að fjármagna. En það er verkefnið Jónsver á Vopnafirði. Þetta er lítill vinnustaður fyrir fólk með skerta starfsgetu sem var sett á stofn af félagi eldri borgara á Vopnafirði og Sjálfsbjörg. Þarna er fólk að vinna eftir getu við viðgerðir á fötum og raunar hverju sem er og uppi eru hugmyndir um að framleiða sérhæfðari vörur til hjúkrunarheimila.

Hugmyndafræðin að baki þessu er nokkuð sem við hljótum að vilja horfa til við að veita fólki tækifæri á að vinna störf við hæfi. Það eru mannréttindi að geta unnið fyrir sér og tekið þátt í samfélaginu. Þetta er engin allsherjar lausn fyrir fólk með skerta starfsgetu en þetta er kannski hluti af lausninni.

Af sama meiði er stuðningur fjárlaganefndar við Aflið á Akureyri. Þar er unnið ómetanlegt starf í þágu fórnarlamba kynferðis- og heimilisofbeldis. Í baráttunni gegn ofbeldi í samfélaginu eru félög eins og Aflið lykilleikendur og það er mikilvægt að við tryggjum þeim fjármagn en jafnframt skýrum markmiðin líkt og mér sýnist gert í þingsályktunartillögu um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. En þar er talað um að nota Bjarkarhlíð sem fyrirmynd í stofnun þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi í samvinnu við félagasamtök og stofnanir.

Umhverfismál

Við Íslendingar erum háð umhverfinu. Við nýtum auðlindir til þess að byggja upp þetta samfélag. Þó að vöxturinn þessi misserin sé mestur í „einhverju öðru“ þá byggjum við enn á því að nýta auðlindir lands og sjávar með sjálfbærum hætti. Þess vegna er það gleðilegt að Alþingi samþykkti að hefja undirbúning að byggingu nýs Hafrannsóknarskips sem mætir þeim áskorunum sem bíða í að auka rannsóknir á súrnun sjávar og gera okkur betur kleift að stunda heimsklassa rannsóknir á sjávarauðlindinni. Fyrstu skref þess eru fjármögnuð í þessum fjárlögum.

Þá ráðumst við í sögulegt átak í umhverfismálum. Málaflokkurinn hefur aldrei fengið eins mikla viðbót. Við ætlum að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að ráðast í sértækar aðgerðir, til dæmis með uppbyggingu innviða fyrir rafbíla um land allt.

Við ráðumst í umfangsmikið átak í endurheimt votlendis, endurheimt birkiskóga, stöðvun jarðvegseyðingar og skógrækt. Þessi verkefni eru kynslóðaverkefni og það er komin tími til þess að byrja. Ísland skógi klætt er fjarlægur draumur í dag en með því að ráðast í stórátak á næstu árum er grunnurinn lagður að því að bæta landgæði hér til frambúðar.

Þá er rétt að draga fram áhersluna á nýsköpun í þessum fjárlögum. Hér eru settir fjármunir til að lyfta þakinu á endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja mikið. En hinn svokallaði alþjóðageiri hefur keyrt áfram vöxt útflutnings síðustu misserin. Þar má nefna fjarskipti, upplýsingatækni, hugverk og aðra viðskiptaþjónustu.

Virðulegi forseti

Erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri og er nú jákvæð sem nemur 13% af landsframleiðslu. Það er ástæða til að staldra við þá staðreynd. Í fyrsta skipti síðan eftir seinni heimsstyrjöld er Ísland nettó lánveitandi til heimsins en ekki lánþegi.

Til þess að við getum viðhaldið og gefið í þarf nýsköpun. Íslenskt hugvit skapar þekkingu og útflutningsverðmæti og þess vegna var mikilvægt að meirihluti fjárlaganefndar í samvinnu við menntamálaráðherra og forsætisráðherra fann lausn á málefnum RANNÍS.

Að lokum vil ég bara ítreka það að þessi önnur fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru skýr merki um umbætur á öllum sviðum. Við erum að sækja fram í þágu velferðar og nýsköpunar, í þágu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins og í þágu almennings alls. Þetta eru sóknarfjárlög sem hefur verið sönn ánægja að vinna að í fjárlaganefnd og styðja.