Byggjum upp menntakerfið og bætum í

 

Ég er kennari og hef unnið við kennslu í tæplega 15 ár. Á þessum árum hafa kennarar oft þurft að berjast fyrir réttindi sínum og nemenda sinna. Já kennarar berjast nefnilega fyrir nemendur sína og vilja þeim allt hið besta. Það vill nefnilega til að á hverju kjörtímabili kemur nýtt fólk inn í menntamálaráðaneytið, þangað koma allskonar ráðherrar, jafnvel ráðherra sem telur brýnt að hafa fyrirtæki sem tengist orkumálum með sér í opinbera heimsókn til Kína. Ráðherrann gleymdi þó að nefna að hann hafi áður verið starfsmaður fyrirtækisins og að hann leigði hjá einum forsvarsmanna fyrirtækisins. Þó að þessi hagsmunatengsl hafi komið í  ljós, fannst þessum menntamálaráðherra ekkert óeðlilegt við það að ganga erinda þessa fyrirtækis. Flestir vita þó að það þarf að gjalda keisaranum það, sem keisarans er.

Haustið 2015 styttu flestir framhaldskólar landsins nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Þessi breyting var í raun þvinguð yfir skólana af menntamálaráðherra og skipti þá engu máli hvaða skoðanir nemendur, foreldrar og kennarar höfðu á þessari aðgerð. Ég er ekkert sérstaklega á móti styttingu stúdentsprófs, ég vil samt sem áður að svona ákvarðanir séu gerðar að vel athuguðu máli og í samráði við þá sem að hún kemur til með að hafa áhrif á. Sú stefnumörkun að gefa út Hvítbók og kynna hugmyndir sínar á nokkrum stöðum um landið og hrinda þeim í framkvæmd án samráðs við skóla og heimilin í landinu eru að mínu mati léleg vinnubrögð. Sem betur fer er fullt af fagfólki sem starfar í framhaldsskólum landsins sem hefur lagt mikið á sig við að leysa styttinguna á sem bestan veg og reynt að koma í veg fyrir að gildi stúdentsprófs rýrni, það er ekki einfalt mál. Við eigum svo eftir að sjá hvað þessi tilraun kemur til með að leiða í ljós.

Þó að það sé búið að stytta stúdentsprófið að þá hafa framhaldsskólar landsins lifað við fjársvelti frá því fyrir Hrun, já það var nefnilega þannig að þegar að hluti þjóðarinnar var að græða á daginn og grilla á kvöldin, og þess á milli að útskýra íslenska efnhagsundrið, þá var dregið úr fjárframlögum til framhaldsskólanna. Eftir efnahagshrunið árið 2008 var einnig dregið úr fjárveitingum til framhaldsskóla og núna þegar að það er búið að stytta nám til stúdentspróf er ennþá dregið úr fjárveitingum. Það kann ekki góðri lukku að stýra að hola að innan eina af grunnstoðum samfélagsins, þessi stoð stendur undir stórum hluta af verðmætasköpun landsins og þarf að vera sterk.

Núna á dögunum stóð til að loka einum af stærri framhaldsskólum landsins og senda nemendur heim. Ástæður þess að svona er komið fyrir skólanum er langvarandi fjársvelti og ekki síst á síðustu tveimur árum. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að það þurfi að senda nemendur heim og neita um kennslu þegar að margir stjórnmálamenn halda því fram að veislan sé byrjuð aftur. Kennarar í VMA sendu frá sér ályktun og vonast til að hægt verði að brúa þetta bil upp á 24 milljónir svo hægt verði að halda starfsemini gangandi fyrir þá 1300 nemendur sem þar stunda nám. Kennarar VMA vilja standa vörð um réttindi nemenda sinna. Ég vona svo sannarlega að þeir sem hafa fjarveitingarvaldið sjái sér fært að leysa þetta mál, að öðrum kosti þurfa starfsmenn skólans að ganga með betlistafi á milli fyrirtækja í bænum til að halda skólastarfinu gangandi.

Við í Vinstri grænum viljum tryggja að nemendur hafi aðgang að fjölbreyttri menntun innan opinbers skólakerfis. Við viljum einnig að fagfólk sé haft með í ákvörðunum um menntakerfið og hafi frelsi til að móta blómlegt og skapandi skólastarf.

Ingvar Arnarson, framhaldsskólakennari

  1. sæti á lista Vg í Suðvesturkjördæmi