Stjórnmálaályktun flokksráðs 8. febrúar 2019

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Grand hóteli í Reykjavík 8. febrúar 2019 brýnir hreyfinguna til frekari dáða í samfélagslegri uppbyggingu. Á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá stofnun VG hefur hreyfingin beitt sér markvisst fyrir félagslegu réttlæti, kvenfrelsi, umhverfisvernd og friðarstefnu. Kjörnir fulltrúar hreyfingarinnar hafa unnið ötullega að þessum stefnumálum, í sveitarstjórnum og á Alþingi, í stjórn sem og stjórnarandstöðu.

 

Sá árangur sem náðst hefur í umhverfismálum frá stofnun hreyfingarinnar er mikið fagnaðarefni. Í fyrsta skipti er loftslagsáætlun stjórnvalda fjármögnuð  auk þess sem henni fylgja raunverulegar aðgerðir þar sem sett eru skýr markmið um samdrátt gróðurhúsalofttegunda, aukna kolefnisbindingu og kolefnishlutleysi 2040 sem hreyfingin setti fyrst á dagskrá árið 2015. Þá er mikilvægt að umhverfisráðherra haldi áfram átaki í friðlýsingarmálum.

 

Vinstri græn árétta mikilvægi þess að leita allra leiða til að útrýma kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Sá veruleiki sem #metoo bylgjan hefur afhjúpað á að heyra sögunni til. Hreyfingin fagnar þeim krafti sem settur hefur verið í bætta meðferð kynferðisbrotamála og þeirri vinnu sem nú stendur yfir um endurskoðun á réttarstöðu brotaþola og við mótun stefnu í fræðslu og forvörnum. Þá er mikilvægt að þjónusta við þolendur hefur verið efld og nýtt verklag í heimilisofbeldismálum hefur víða verið innleitt.  Alþingi er hvatt til að ljúka við afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi svo halda megi áfram að vinna gegn ofbeldi af öllum mætti. Ofbeldi gegn konum er bæði orsök og afleiðing kynjamisréttis og taka þarf mið af því í öllum aðgerðum sem gripið er til. Þá hvetur fundurinn til þess að kjörnir fulltrúar beiti sér fyrir því að lagaumhverfi hinsegin fólks verði framúrskarandi á alþjóðavísu og fagnar auknum stuðningi við þennan málaflokk í tíð núverandi ríkisstjórnar.

 

 

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er að tryggja jöfnuð, velferð og mannsæmandi kjör fyrir alla. Mikilvægt er að vinna með markvissum aðgerðum gegn ójöfnuði í íslensku samfélagi og útrýma fátækt á Íslandi. Fundurinn tekur undir kröfur um kjarabætur til tekjulægstu hópanna og að öllum verði tryggð mannsæmandi kjör.  Vinstri græn lýsa yfir ánægju með nýjar tillögur um húsnæðismál og uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. Fundurinn fagnar þeim skrefum sem stigin hafa verið til að lækka kostnað við heilbrigðisþjónustu og mótun heilbrigðisstefnu. Fundurinn er sammála þeim áherslum sem birst hafa í skattamálum þar sem fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður, barnabætur og persónuafsláttur hafa hækkað og efri og neðri mörk skattkerfisins hafa verið samræmd. Mikilvægt er að frekari breytingar efli jöfnuð enn frekar. Þá hvetur fundurinn til þess að áfram verði haldið á þeirri braut að efla og draga úr kostnaði fólks við opinbera heilbrigðisþjónustu. Efla skal menntun á öllum skólastigum enda er endurgjaldslaus menntun í senn mikilvægt jöfnunartæki, forsenda þess að hver og einn geti þroskað hæfileika sína óháð uppruna og atgervi og undirstaða fjölbreytts atvinnulífs og lýðræðislegs samfélags til framtíðar. Á tímum vaxandi fólksflutninga í heiminum þurfa Íslendingar að axla meiri ábyrgð og taka betur á móti fólki af erlendum uppruna sama hverjar aðstæður þeirra eru. Sérstaklega þarf að tryggja börnum og ungmennum sem hafa annað móðurmál en íslensku þau réttindi sem þeim ber.

 

Hreyfingin áréttar mikilvægi þess að halda áfram að efla innviði samfélagsins og að byggja upp heilbrigt fjármálakerfi því til stuðnings. Mikilvægt er að draga skýra varnarlínu milli viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi og tryggja að fjármálakerfið þjóni almenningi en ekki fáum útvöldum. Jákvætt viðhorf almennings til eignarhalds ríkisins í fjármálakerfinu sýnir mikilvægi þess að ríkið eigi áfram a.m.k. einn banka.

 

Vinstri græn telja mikilvægt að áfram verði unnið að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og byggt verði á þeirri vinnu sem unnin hefur verið undanfarinn áratug, í vinnu stjórnlaganefndar, stjórnlagaráðs, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og stjórnarskrárnefndar. Það er mikilvægt að ná árangri við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Vinstri-græn munu leggja sitt af mörkum í því verkefni.

 

Uppgangur þjóðernishyggju á alþjóðavísu er ógn við mannréttindi og alþjóðasamstarf sem hefur verið hornsteinn friðar í heiminum. Vinstri græn telja mikilvægt að viðhalda alþjóðlegum stofnunum og að efla þverþjóðlega samvinnu á vinstri vængnum til að sporna gegn afturhaldssömum valdboðsstjórnmálum.

 

 

 

Stjórn VG

 1. febrúar 2019

Aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu á fundi hennar í dag tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess, til næstu fjögurra ára. Stýrihópur með fulltrúum hlutaðeigandi ráðuneyta hefur unnið að áætluninni í samstarfi við fjölda aðila á síðustu misserum.

Það eru ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, heilbrigðismála og menntamála sem standa saman að tillögunni og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að leggja hana fyrir Alþingi. Áætlunin er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar um að vinna markvisst gegn ofbeldi í samfélaginu, þar sem meðal annars er lögð áhersla á að útrýma kynbundnu ofbeldi, þar með töldu stafrænu kynferðisofbeldi.

Áætlunin tekur til ofbeldis í ólíkum birtingarmyndum og aðgerðirnar taka til líkamlegs, kynferðislegs og andlegs ofbeldis. Áætlunin byggist á þremur meginþáttum, þ.e; vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu, viðbrögðum sem snúast um verklag og málsmeðferð og valdeflingu þar sem áhersla er lögð á styrkingu þolenda í kjölfar ofbeldis.

 

Sjá nánar: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=1218f947-d6b2-11e8-942e-005056bc4d74

VG Í HAFNARFIRÐI ÁLYKTAR UM KAUP Á ÍÞRÓTTAMANNVIRKJUM

VG í Hafnarfirði fordæma vinnubrögð meirihluta Bæjarráðs vegna ákvörðunar sem tekin var á aukafundi ráðsins þann 8. ágúst sl. um kaup á íþróttahúsum í Kaplakrika að upphæð 790 miljónir í þeim tilgangi að FH geti byggt knattspyrnuhús. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá VG í Hafnarfirði. 

„Jafnframt tökum við undir bókanir fulltrúa minnihlutans á fundinum um að ekki liggi fyrir verðmat á eignunum, ekki sé gert ráð fyrir upphæðinni í fjárhagsáætlun og að ekki hafi farið fram opin umræða meðal kjörinna fulltrúa né almennings um málið, og að horfið sé frá fyrri ákvörun um 100% eignarhald bæjarins á íþróttamannvirkjum.

Við leggjum áherslu á að við svo stóra ákvörðunartöku séu viðhöfð ábyrg og lýðræðisleg vinnubrögð með aðkomu allra kjörinna fulltrúa.

VG styður uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum en gerir kröfu um málefnalega og lýðræðislega umræðu um eignarhald og fjármögnun til að tryggja sátt um framkvæmdir.

Vinstri hreyfingin grænt framboð í Hafnarfirði“

 

Ályktanir og tillögur Flokksráðsfundar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 27. janúar 2018

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 27. janúar 2018 samþykkti á fundi sínum eftirfarandi tillögur/ályktanir:

 1. Um stuðning við sjálfstæðishreyfingar:

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs haldinn í Reykjavík 27. janúar 2018 skorar á þingmenn og ráðherra VG að vera vakandi í stuðningi við sjálfstæðishreyfingar þjóða og skjótir til viðurkenningar, þegar þær lýsa yfir sjálfstæði.

 1. Tillaga um nýja aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi

Flokksráðsfundur VG á Grand Hótel 27. janúar 2018 felur stjórn hreyfingarinnar að skipa í starfshóp um endurskoðun aðgerðaráætlunar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs gegn einelti og kynbundnu ofbeldi. Hópurinn mun fara yfir áætlunina með athugasemdir sem komið hafa fram í tengslum við #metoo byltinguna til hliðsjónar. Umræða þarf að fara fram innan hreyfingarinnar á breiðum grundvelli, til dæmis á opnu málþingi, og ný aðgerðaáætlun verður svo kynnt flokksráði á fundi ráðsins í ágúst þar sem hún verður borin upp til samþykktar.

 1. Tillaga um skipan starfshóps um mótun stefnu gegn spillingu

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Grand hótel 27. janúar 2018, samþykkir:

Að skipaður verði starfshópur er hafi það verkefni að móta stefnu VG gegn spillingu og leggi fram að vori tillögu að stefnu sem og aðgerðaáætlun, sem sýni hvernig VG hyggst vinna að útrýmingu spillingar í íslensku samfélagi.

Starfshópurinn skal í tillögu sinni að stefnu taka mið af því starfi, sem unnið hefur verið af Transparency International, sem og skilgreiningu þeirra samtaka á spillingu og öðrum hugtökum sem skilgreina þarf.

Ályktanir sem sendar voru áfram til sveitastjórnarráðs voru tvær.

 1. Aukið íbúalýðræði

Ályktun um breytingar á sveitastjórnarlögum nr. 138/2011.

 1. Um félagsþjónustu sveitarfélaga

Ályktun um breytingar á lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

Áskorun ungliða

Ungliðarhreyfingar stjórnmálaflokka senda frá sér eftirfarandi ályktun: Ung vinstri græn, Uppreisn, Samband ungra framsóknarmanna, Ungir jafnaðarmenn, Ungir sjálfstæðismenn og Ungir píratar fagna því að konur séu að stíga fram og rjúfa þögnina um kynferðislega áreitni, ofbeldi og valdbeitingu innan stjórnmála. Slík hegðun á ekki að líðast, hvorki innan stjórnmála né nokkurs staðar annars staðar í samfélaginu.

Þegar slík misbeiting valds fær að viðgangast ýtir sú háttsemi undir að stjórnmálaumhverfið sé konum fjandsamlegt og getur leitt til þess að konur fái færri tækifæri og endist skemur í stjórnmálum. Því er gríðarlega mikilvægt að opin umræða eigi sér stað um misbeitingu sem þessa og að skýrir verkferlar séu til staðar innan stjórnmálahreyfinga til þess að taka á slíku. Þannig er þeim sem verða fyrir áreiti gert auðveldara fyrir að tilkynna áreitið og líklegra er að gerendur verði látnir sæta afleiðingum gjörða sinna.

Að taka á þessu er gríðarlega mikilvægt fyrir konur í stjórnmálum, bæði nú og þegar til framtíðar er litið, til þess að konur hafi jöfn tækifæri til stjórnmálaþátttöku og karlar.

Því munu ungliðahreyfingarnar beita sér að fullum krafti fyrir breytingum innan sinna flokka og fylgja því eftir að skýrir verkferlar séu settir fram til þess að taka á kynferðislegri áreitni og valdbeitingu innan flokkanna.

,

Stjórnmálaályktun frá landsfundi VG

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Grand hótel 6.-8. október undirstrikar að komandi kosningar eru ákall um stefnubreytingu í íslensku samfélagi.

Ríkisstjórnarflokkarnir lagt fram fjárlagafrumvarp en í því má sjá stefnu fráfarandi ríkisstjórnarflokka. Áfram stóð til að þrengja verulega að heilbrigðiskerfinu, skólunum, vegakerfinu og kjörum aldraðra og öryrkja. Stefnubreytingar er þörf í öllum þessum málaflokkum.

Meiri þunga þarf að leggja í raunverulegar úrbætur í umhverfis- og náttúruverndarmálum þar sem stefnt skal að kolefnishlutleysi Íslands fyrir árið 2040. Það er bæði raunhæft og skýrt markmið sem hægt er að ná í samvinnu við sveitarfélögin og atvinnulífið.

Það þarf stefnubreytingu í kynferðisbrotamálum, en stjórnarslitin spruttu ekki síst af háværri umræðu brotaþola kynferðisbrota og aðstandenda þeirra sem kröfðust þess að uppreist æra brotamanna yrði endurskoðið. Í kjölfar þessa hljótum við að horfa til þess að styrkja stöðu brotaþola umtalsvert í samfélaginu öllu en ekki síst í réttarkerfinu. Breyting á hegningarlögum á nýliðnu þingi þar sem uppreist æra var felld úr lagatextanum er fyrsta skrefið af mörgum til úrbóta í þessum málaflokki.

Ný stefna er það sem íslenskt samfélag þarf og á skilið. Vinstri græn bjóða nú fram sterka lista með skýra stefnu í þágu fólksins í landinu.

 • Við viljum samfélag þar sem arðurinn af auðlindunum á að renna í sameiginlega sjóði og skattkerfið á að nýta til að jafna kjör.
 • Við viljum samfélag þar sem allir eiga möguleika á að njóta hæfileika sinna og taka þátt á eigin forsendum.
 • Við viljum samfélag þar sem ákvarðanir eru gagnsæjar, rekjanlegar og skiljanlegar öllum almenningi.
 • Við viljum samfélag þar sem efnahagur kemur aldrei í veg fyrir að fólk geti lært það sem hugur þess stendur til.
 • Við viljum samfélag þar sem enginn þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu eða lyf vegna fátæktar.
 • Við viljum samfélag þar sem húsnæði er til fyrir alla og þar sem ungar fjölskyldur sjá fjölda spennandi möguleika til að vaxa og dafna.
 • Við viljum samfélag þar sem matvælaframleiðsla er í sátt við umhverfið og vistspor er í lágmarki.
 • Við viljum samfélag þar sem búseta er um allt land og atvinnulífið einkennist af nýsköpun og fjölbreytni.
 • Við viljum samfélag þar sem stjórnvöld eru traustsins verð og standa með almenningi í landinu.
 • Við viljum réttlátt samfélag fyrir fólkið í landinu.
 • Við viljum leiða góða ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu, fyrir náttúruna og framtíðina.

 

Ályktun VG á Akureyri um verkfall sjómanna

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi stjórnar svæðisfélags Vinstri Grænna á Akureyri og nágrenni

Stjórn svæðisfélags Vinstri Grænna á Akureyri og nágrenni lýsir yfir eindregnum stuðningi við sjómenn og fiskverkafólk. Stjórnin telur samningsleysi sjómanna til sex ára með öllu óásættanlegt og leggur áherslu á að útgerðin veiti þeim og fiskverkafólki eðlilega hlutdeild í stór batnandi afkomu veiða og vinnslu.

EVG sendir formanni og þingflokki kveðjur

Eldri vinstri græn héldu jólafund sinn í Stangarhyl  i gærkvöld, 14. desember.  Þar var samþykkt eftirfarandi kveðja til formanns og þingflokks.

“Fundurinn sendi Katrínu Jakobsdóttur sínar innilegustu kveðjur og þakkar henni og þingflokknum öllum einarða baráttu fyrir réttlátara þjóðfélagi. Hugur fundarmanna var hjá þeim.”

Og hér frásögn Guðrúnar Hallgrímsdóttur, fundarstjóra:   ” fræðamenn úr ReykjavíkurAkademíunni, undir stjórn Ragnheiðar Ólafsdóttur söngkonu,  og fræðakonu kváðu, Ragnheiður Ragnheiður söng frumsamið lag við ljóð Einars Braga.  Hermann Stefánsson og Ragnheiður kváðu og sungu um ævi Látra Bjargar og kviðlinga hennar . Gunnar Hersteinn fjallaði um gildin í samfélaginu og Guðrún Hannesdóttir las yndisleg ljóð. Gestir sungu jólalög við harmonikuundirleik Reynis og gítarspil Hermanns Stefánssonar í forföllum Björgvins.”

 

VG í Kópavogi álykta um þingrof

Aðalfundur Vinstri grænna í Kópavogi var haldinn í gærkvöldi. Ásamt venjulegum aðalfundarstörfum var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma.

Aðalfundur VG í Kópavogi 30. mars 2016 skorar á forsætisráðherra og ríkisstjórn að rjúfa þing og boða til kosninga.
Ríkisstjórnin er rúin trausti og getur ekki setið út kjörtímabilið undir þeim skugga sem fjármálavafstur forystumanna hennar hefur myndað.