Ávarp Steingríms J. Sigrússonar, á 20 ára afmæli VG

Setningarávarp á afmælishátíð VG,

laugardaginn 9. febrúar 2019

(Steingrímur J. Sigfússon fyrrv. formaður VG)

 

Góðir félagar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og hátíðargestir, kjere Nordiske kammerater, other distingvished foreign guests !

Góðann dag og til hamingju með daginn.

— Mér er það heiður og ánægja að opna þessa afmælis- og hátíðardagskrá.

-Í mínum huga ríkir f.o.f. ánægja og þakklæti þegar ég stend hér 20 árum eftir að við hrintum úr vör. En, einnig nokkur tregi og söknuður.

-Ég er innilega glaður og þakklátur fyrir að hafa fengið það tækifæri á mínum stjórnmálaferli, fengið að taka þátt í því ævintýri vil ég segja, að leggja með góðum og samhentum hópi fólks grunninn að nýrri stjórnmálahreyfingu. Og ég er stoltur á þessum degi af þeim árangri sem við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum náð. Kem aðeins nánar að því aðeins síðar.

-VG varð auðvitað ekki til sem fullsköpuð hreyfing á einum degi 6. febrúar 1999. Að baki lá mikið og þrotlaust starf, fámenns en stækkandi og harðsnúins hóps, sem synti móti straumnum marga mánuði og hátt í ár þar á undan. Það var krefjandi, það var ýmislegt um okkur sagt, það var af flestum fremur illa fyrir okkur spáð, en við héldum okkar striki, og það var fyrst og fremst og eiginlega alltaf gaman. Baráttugleðin, frumbýlisandinn og æruleysið gagnvart því að auðvitað var þetta óvissuferð entist okkur út í gegn og fylgdi okkur mörg ár inn í framtíðina eftir stofnun hreyfingarinnar.

 Gagnrýni og hrakspám svöruðum við f.o.f. á einn veg og á einfaldan hátt; Það sem við erum að gera er eingöngu að láta á það reyna hvort kjósendur í landinu vilja hafa svona hreyfingu, sjá þessar áherslur, í stjórnmálum landsins. Þeir munu svara spurningunnu með atkvæði sínu og þeir ráða. Og kjósendur svöruðu mjög skýrt í kosningunum í apríllok 1999. VG fékk fljúgandi start og hefur ekki litið til baka síðan. Og, vel að merkja, kjósendur geta auðvitað ekki kosið það sem als ekki er í boði. Hefði Vinstrihreyfingin – grænt framboð ekki boðið fram 1999 hefði ekki nokkur maður getað kosið þann flokk og hann hefði a.m.k. ekki orðið til þá, hver veit hvort síðar.

-En, ég sagði líka í byrjun að í mínum huga ríki einnig nokkur söknuður og tregi. Söknuður yfir því að þessi viðburðarríku 20 ár eru liðin og koma aldrei aftur. Hafa reyndar verið ótrúlega fljót að líða. Frumbýlingsárin eru liðin, næstu 20 ár verða öðruvísi þó þau verði að sjálfsögðu, og ég hef alla ástæðu til að ætla, góð. Söknuður og tregi er líka óhjákvæmileg tilfinning þegar maður minnist þeirra sem lögðu upp með okkur en við höfum hvatt. Það er alltaf erfitt, jafnvel hæpið, að nefna nöfn, en ég ætla að láta eftir mér að minnast þriggja félaga sérstaklega. Það eru þau Kristín Halldórsdóttir og Halldór Brynjúlfsson sem bæði leiddu framboðslista í okkar fyrstu þingkosningum og svo hann Árni Steinar Jóhannsson, vinur okkar, sem sat í fyrsta þingflokki VG, en við komum saman til þings fyrir Norðurland eystra, í fyrstu kosningunum, með 22 % stuðning í farteskinu.

Kristín var síðan starfsmaður okkar og framkvæmdastýra í fjöldamörg ár, yndisleg manneskja að vinna með og er sárt saknað. Hún var hársbreidd frá því að ná kjöri í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 og var þar þó verulega á brattann að sækja. Sigfús nokkur Ólafsson var kosningastjóri og hefur frá mörgu að segja um brekkurnar sem þau klifu.  Halldór Brynjúlfsson, Dóri okkar, föðurbróðir Mumma Umhverfis, var maður glaðsinna og ótvílráður og var á þingi í u.þ.b. þrjá klukkutíma í talningunum á kosninganótt. Þegar hann var fallinn út aftur og ég hringdi í hann undir morgun og sagði að mér þætti þetta leitt sagði hann; „blessaður vertu, það var gaman meðan á þessu stóð“. Um Árna Steinar minn kæra vin gæti ég sagt margt, hann var einstaklega hugmyndaríkur og frjór maður, yndislegur félagi með stórt hjarta og ég sakna hans hvern einasta dag.

Já, 20 ár hafa auðvitað höggvið skörð í okkar hóp og blessuð sé minning þessara þriggja félaga og allra hinna sem hafa horfið á braut. Ég legg til að við stöndum öll upp og minnumst fallinna félaga með því að lúta höfði í andartaks þögn.

……………………………………………………………………………………………………………….

Takk fyrir !

Já , ég sagðist líta stoltur til baka yfir þessi 20 ár.

-VG hefur haft áhrif frá fyrsta degi sinnar tilveru. Við breyttum landslaginu í íslenskum stjórnmálum og þau væru ólík í dag, verulega ólík að mínu mati, ef við hefðum ekki orðið til.

– Við höfum sett mál á dagskrá sem lítið fór fyrir í pólitískri umræðu fram að okkar tíma. Við höfum haft áhrif og skipt máli jafnt á okkar tíma sem stjórnarandstöðuafl og sem flokkur við stjórnvölin. Umhverfismálin, fyrsti græni flokkur Íslands, sem tók þá djörfu ákvörðun að kenna sig við græna litinn þegar það var næsti bær við að vera hryðjuverkasamtök, See shepard/Greenpease eitthvað, kvenfrelsismálin-feminisminn, þegar það voru enn að mestu jaðarmál og talið sérmál fyrir þrönga hópa mussuklæddra kvenna sem ætti lítið erindi við karla sem væru að hugsa um alvöru stjórnmál. Við höfum haldið öðrum málum á lofti eins friðarmálum og andstöðu við her og hernaðarbandalög, við höfum borið fram rótæka félagshyggju, vinstristefnu, sósíalisma. Við höfum búið um okkar alþjóðahyggju í formi félagslegrar og friðsamlegrar samvinnu sjálfstæðra þjóða, forðast þjóðrembu, einangrunarstefnu og útlendingaandúð og bent á gildi lýðræðislegrar og friðsamlegrar alþjóðasamvinnu þar sem valdbeitingu hinna sterku er hafnað.

-VG hefur látið til sín taka og ekki skort kjark til að taka þátt í ríkisstjórn eða meirihlutum í sveitarstjórnum þegar svo hefur borið undir.

– Af því er ég sérstaklega stoltur. Nú eru það svo sannarlega frekar þeir sem spáðu okkur eilífu áhrifaleysi og eyðimerkurgöngu á jaðri íslenskra stjórnmála sem þurfa að líta í eigin barm fremur en við. Hver getur hrakið þá sögulegu staðreynd að VG hefur nú í tvígang í sinni stuttu sögu skipt sköpum við örlaga aðstæður í íslenskum stjórnmálum. Verið hátt á sjötta ár af tuttugu í ríkisstjórn í sinni sögu. Það gerðum við á öndverðu ári 2009 þegar Ísland gekk í gegn um einhverja dimmustu daga lýðveldistímans og jafnvel þó lengra væri leitað. Þá settum við ekki okkur sjálf eða hreyfinguna okkar í fyrsta sæti og spurðum okkur ekki að því; hvernig væri nú þægilegast að takast á við þessi ósköp. Eigum við að njóta vinsældanna sem klúður meira og minna allra annara stjórnmálafla hefur leitt yfir landið? Eigum við að bíða átekta í þægilegri stöðu og uppskera svo í kosningum þegar allir aðrir eru á felgunni, púnkteraðir, eins og það heitir á norðlensku? Við gerðum það ekki. Við gerðum það sem landið þurfti á að halda þá og þar og ég er og verð óendanlega stoltur af því. Við settum tilgang okkar sem hreyfingar í fyrsta sæti, Tilvera okkar sem stjórnmálahreyfingar er og á að vera að verða til góðs fyrir íslenskt samfélag, náttúru og umhverfi. Ef við erum ekki til í að setja það fremst og ofar öllu öðru, eigum við ekki að bjóða okkur fram til þings eða sveitarstjórna. Ef menn eru í þessu á þeim forsendum að ganga undir sviðsljósin, fá athygli, vera stjörnur um stund en flýja af hólmi ef hin erfiðu verkefni kalla, þá vonast ég til þess að menn leiti þá fremur hófanna hjá einhverjum öðrum flokkum. Það er víst nóg pláss hér og þar og víða.

– Ég er að sama skapi og nákvæmlega eins stoltur af þeirri djörfu ákvörðun sem núverandi formaður, okkar glæsilegi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir, tók þegar hún ákvað að leiða íslensk stjórnmál út úr stór skemmandi pattstöðu og upplausnarástandi til að mynda núverndi ríkisstjórn. Og; það er ekki hægt annað en hugsa í því sambandi til baka til upphafsdaganna, til hrakspánna, til fúkyrðanna. Flokkurinn sem aldrei átti að verða að neinu leiðir nú ríkisstjórn Íslands, Katrín Jakobsdóttir er fyrsti vinstri sósíalistinn sem nokkru sinni hefur leitt ríkisstjórn á hinum sjálfstæðu Norðurlöndum. Jafnvel ég með mitt óbilandi Norður-þingeyska sjálfstraust hefði látið segja mér það tvisvar ef ekki þrisvar 1999 að slíkt ætti eftir að gerast innan 20 ára í sögu þessarar hreyfingar.  

Já, við stofnuðum nefnilega ekki þessa hreyfingu til að vera bara og aðeins andófsafl, jafn geysilega mikilvægt og það hlutverk er, og jafn vel og við kunnum það. (Okkar sex manna þingflokkur 1999 lagði upp með það að vera stærsti og duglegasti þingflokkur stjórnarandstöðunnar þó það þýddi u.þ.b. þrefalda vinnu á hvern mann og þannig varð smátt og smátt myndin af stjórnmálum þess tíma, við virkuðum með dugnaði okkar eins og við værum 18 eða 20 en ekki 6). Nei, við stofnuðum VG til að hafa áhrif til góðs fyrir Ísland, íslenskt samfélag, framtíð Íslands, og það sem fyrst en ekki mögulega eftir hálfan eða heilan mannsaldur. Menn koma og fara, stjórnmálahreyfingar og flokkar koma og fara, en lífið á jörðinni heldur vonandi áfram.

-Vissulega reyndi það stórkostlega á fyrir unga hreyfinu að taka á sínar herðar að bjarga landinu frá þjóðargjaldþroti þegar kompásinn reyndist vitlaust stilltur og allt stefnir upp á sker. Það er óhefðbundið að slíðra sverðin, eins og við höfum nú tímabundið gert með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Tala nú ekki um ef menn eru því vanastir að vakna til þess á morgnana og sofna frá því á kvöldin að berja á pólitískum andstæðingum og finna þeim allt til foráttu. Það getur verið óskaplega þægileg tilvera að vera bara alltaf á móti, og veruleikinn bíður því miður upp á nóg af ástæðum til þess, en mikið óskaplega er ég stoltur og ánægður með að okkar hreyfing festist ekki í þeim hjólförum.

Við vorum stofnuð til að vera mótandi afl, til þess að hafa áhrif, til þess að verða til góðs með okkar tilveru.

Flokkar, stjórnmálahreyfingar, samtök, eru ekki markmið í sjálfu sér, heldur tæki. Þau eru aðferð fólks sem deilir gildum og lífsskoðunum til þess að leggja saman kraftana í þágu þess að hafa með því meiri áhrif en ella. Ekki til þess að einstaklingar gangi tímabundið undir ljósið, ekki til þess að einhverjir skari eld að eigin köku, ekki til þess að eiga aðeins meira dót en hinir þegar maður deyr. Nei heldur til þess að vita, þegar dagur er að kveldi kominn, að maður lifði eins og hugsandi og ábyrg manneskja og reyndi að leggja sitt af mörkum, sitt örlitla lóð á vogarskálarnar, til að líf hins vinnandi manns, líf fjöldans, líf Jóns og Gunnu, yrði aðeins léttara og bærilegra en ella og framtíð lífs á jörðinni ætti sér að minnsta kosti von.

*Til hamingju með 20 árin, kæru félagar í VG. Takk og aftur takk þið öll sem á þessum tíma og í aðdragandanum hafið lagt hönd á plóg, hvar sem þið eruð í dag, hjarna megin eða hinu megin við móðuna miklu og hvort sem þið eruð með á skútunni í dag, hafið leitað annars skiprúms eða tekið ykkur orlof frá pólitík. Ég sé ekki eftir einni einustu sekúndu sem í leiðangurinn hafa farið þessi tuttugu ár og lít á það sem eina mestu gæfu lífs míns að hafa fengið að vera með í ævintýrinu og; það er einnig gaman í dag að fá enn að fljóta með og svo lengi sem maður er vonandi til einhvers gagns.

Ég segi þessa afmælishátíð setta.

 

,

Ræða formanns á flokksráðsfundi 12 október

Kæru félagar

Velkomin á flokksráðsfund

Verkefni undanfarinna tíu mánaða, allt frá kosningum hafa verið ærin. Ný ríkisstjórn tók við 30. nóvember eftir óvæntar kosningar fyrir tæpu ári. Við Vinstri-græn komum vel út úr þeim kosningum og bættum við fylgi okkar í annað sinn í röð enda settum við fram skýra stefnu með þremur höfuðatriðum sem voru: uppbygging samfélagslegra innviða til að jafna lífskjör og bæta hag almennings, aukið samráð um stórar pólitískar ákvarðanir og raunverulegar umfangsmiklar aðgerðir í loftslagsmálum.

Hér stöndum við tíu mánuðum síðar eftir að hafa tekið þá ákvörðun að ráðast í umdeilt ríkisstjórnarsamstarf sem eigi að síður naut yfirgnæfandi stuðnings innan flokksráðs Vinstri-grænna. Og ég er stolt af þeim árangri sem hefur náðst á þessum skamma tíma. Mig langar að tala sérstaklega um þrjú lykilatriði sem ég tel að skipti máli í þeirri vinnu. Og síðan langar mig – af því að þessi flokksráðsfundur er helgaður innra starfi hreyfingarinnar – að tala um okkur sjálf.

Við erum hreyfing sem leggur áherslu á félagslegt réttlæti. Það er ein af fjórum stoðum stefnuyfirlýsingar okkar. Þessi ríkisstjórn hefur með breytingum sínum í skattamálum nú þegar stuðlað að auknum jöfnuði og réttlátara skattkerfi. Í fyrra við afgreiðslu fjárlaga hækkuðum við fjármagnstekjuskatt um tíu prósent, úr 20 prósentum í 22 prósent en sú skattahækkun leggst á þá sem eiga mest. Núna leggjum við til að hækka barnabætur og auka þannig ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna svo um munar frá næstu áramótum. Ennfremur er lagt til að hækka persónuafsláttinn umfram breytingar á vísitölu neysluverðs og það gagnast best hinum tekjulægri. Að auki verða efri mörk skattkerfisins fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir og fyrst og fremst í þágu sem standa höllum fæti. Að lokum er tryggingagjaldið lækkað um 0,25% sem gagnast atvinnulífinu öllu, ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Þessar breytingar endurspegla líka þá tóna sem við höfum heyrt frá aðilum vinnumarkaðarins en þar hefur verkalýðshreyfingin til dæmis lagt áherslu á hækkun barnabóta og endurskoðun á persónuafslætti en Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á lækkun tryggingagjalds. Þeir reglubundnu fundir sem við, forystufólk ríkisstjórnarinnar, höfum átt með aðilum vinnumarkaðarins og forsvarsmönnum sveitarfélaga hafa skilað auknum skilningi milli aðila og aðgerðum. Nægir þar að rifja upp hækkun atvinnuleysisbóta og greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa, niðurlagningu kjararáðs sem og þær aðgerðir sem ég nefndi hér áðan.

En rétt er að minna á að það eru fleiri jöfnunartæki til en skattkerfið. Þannig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bent á að það að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu sé gríðarlega mikilvæg jöfnunaraðgerð. Hér á landi hafa sjúklingar þurft að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrstu skrefin í því að lækka þennan kostnað voru stigin þann 1. september þegar dregið var úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær og mikilvæg aðgerð. Gleymum því svo ekki að þetta er mesta bragarbót sem gerð hefur verið á þessum málum síðan við vorum síðast í ríkisstjórn en þá voru tannlækningar barna gerðar gjaldfrjálsar. Heilbrigðisráðherra mun halda áfram á sömu braut og í fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir fjármunum til að lækka kostnað sjúklinga jafnt og þétt uns við verðum komin á par við Norðurlöndin á tíma fjármálaáætlunar.

Gott heilbrigðiskerfi er brýnt lífskjaramál og þar er mikilvægt að bregðast við skýrri forgangsröðun almennings sem hefur sett þennan málaflokk efst á sinn lista fyrir tvennar síðustu kosningar. Þar forgangsraðar heilbrigðisráðherra okkar Vinstri-grænna geðheilbrigðismálunum en nú er unnið að því að auka aðgengi að sálfræðingum um land allt auk geðheilsuteyma en sú geðheilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi 2016 er nú loksins fjármögnuð. Og á morgun verður tekin skóflustunga að nýjum Landspítala sem er löngu tímabær framkvæmd –  og verður stór og flókin en mikið framfaraspor.

Enn eitt jöfnunarmál er það mikilvæga verkefni að bæta framfærslu öryrkja en í það eru lagðir fjórir milljarðar í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi. Starfað hefur samráðshópur sem ætlað er að gera tillögur um það hvernig þessum fjármunum verður sem best varið ásamt því að auka möguleika öryrkja til virkrar samfélagsþátttöku og þátttöku á vinnumarkaði. Þarna verður að horfa til tveggja mikilvægra þátta að mínu viti; að bæta framfærslu þeirra sem eingöngu hafa úr framfærslu almannatrygginga að spila og standa höllustum fæti og hins vegar að draga úr skerðingum á þær viðbótartekjur sem fólk aflar sér og hafa reynst letjandi til allrar þátttöku á vinnumarkaði. Þá er unnið að því í að fara yfir hvernig breytingar á almannatryggingum sem samþykktar voru árið 2016 hvað varðar eldri borgara hafa reynst þeim en markmiðið er að greina þann hóp eldri borgara sem býr við bágust kjör og styðja betur við hann. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir sem snúast um að útrýma fátækt og tryggja að allir búi við mannsæmandi kjör.

Í þessari umræðu má hins vegar ekki gleyma unga fólkinu okkar en margar vísbendingar eru um að þegar við horfum heildstætt á stöðu ólíkra samfélagshópa þá sé unga kynslóðin sá hópur sem við þurfum að sinna sérstaklega. Öll gögn sem við höfum benda til að unga fólkið hafi dregist aftur úr í tekjum og það er þessi hópur sem á í kröggum með að flytja úr foreldrahúsum.

Kæru félagar.

Enn hef ég ekki nefnt eitt mikilvægasta jöfnunartækið sem er menntakerfið. Þar höfum við aukið verulega fjárveitingar til háskóla og framhaldsskóla. Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu stefnir allt í að fjárframlög til íslenskra háskóla verði komin á par við meðaltal OECD árið 2020 en þetta markmið er í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Sömuleiðis hafa framlög til framhaldsskóla verið aukin en ekki skert eins og fyrirhugað var hjá síðustu ríkisstjórn. Og af hverju er það mikilvægt? Jú, það er mín bjargfasta trú að menntun sé lykilatriði fyrir tvennt. Annars vegar að tryggja aukinn jöfnuð, tryggja það að allir geti sótt sér menntun og þar með þroskað hæfileika sína og skapað sér sín eigin tækifæri og aukið lífshamingju sína. Og hins vegar er aukin menntun undirstaða fyrir hagsæld framtíðarinnar sem mun byggjast á nýsköpun og þekkingariðnaði. Það er langmikilvægasta efnahagsmál þessarar þjóðar, að fjölga stoðunum undir efnahagslífinu, byggja á hugvitinu ekki síður en nýtingu náttúruauðlinda og tryggja þannig hagsæld til langrar framtíðar.

Meðal annars þess vegna leggur ríkisstjórnin til að settur verði á laggirnar þjóðarsjóður með arðgreiðslum frá Landsvirkjun og hluti þeirra verði notaður, annars vegar í hið brýna verkefni, uppbyggingu hjúkrunarrýma, og hins vegar í aukna fjárfestingu í nýsköpun. Nýsköpun í ólíkum geirum sem ekki verður aðeins mikilvæg fyrir hagsæld framtíðar heldur er að mínu viti nauðsynleg til að bregðast við stærstu áskorunum samtímans sem eru annars vegar sú tæknibylting sem blasir við á öllum sviðum samfélagsins og hins vegar loftslagsbreytingar.

Og þá kemur að ekki minna lykilatriði sem eru umhverfismálin. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa orðið straumhvörf í fjárveitingum til loftslagsmála og í stefnumörkun. Ríkisstjórnin kynnti í byrjun september fyrstu áfangana í metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar munu landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis verða fyrirferðarmikil til þess að binda aukið kolefni en í stjórnarsáttmála er kveðið á um að Ísland eigi að verða kolefnishlutlaust ekki seinna en 2040. Annar stór áfangi eru orkuskipti í samgöngum þar sem stórátak verður í uppbyggingu fyrir rafbíla og rafhjól og sett niður tímaáætlun um að ekki verði fluttir inn nýir bílar sem ganga fyrir bensíni eða olíu eftir 2030. Ný skýrsla um loftslagsbreytingar sýnir gjörla að aðgerða er þörf – og víðar en á þessum tveimur sviðum. Þar þurfa stjórnvöld að ganga á undan með skýrri sýn og aðgerðum en mikil ábyrgð hvílir líka á sveitarfélögum og atvinnulífi en ég vil fagna þeim áhuga sem við höfum fundið, bæði frá ýmsum sveitarfélögum en ekki síður heildarsamtökum innan atvinnulífsins á að sýna ábyrgð og takast á við þetta risavaxna verkefni – og ný skýrsla SÞ er auðvitað sláandi áminning um hina alvarlegu stöðu sem mannkynið stendur frammi fyrir ef ekkert er að gert.

Við þurfum að huga að því hvernig við getum orðið mun öflugri í matvælaframleiðslu til að draga úr vistspori innfluttra matvæla og verða sjálfum okkur nægari í matvælaframleiðslu. Við þurfum að tryggja ungum bændum frelsi til að fara ótroðnar slóðir í matvælaframleiðslu, tryggja að bændur eigi ólíka valkosti í framleiðslu sinni, geti selt beint frá býli og greiða fyrir því að þeir geti sinnt nýsköpun og þróun.

Það er orðið leiðigjarnt stef þegar menn kappkosta að tala niður innlendan landbúnað eins og hann sé þurfalingur í íslensku samfélagi þegar hann er einmitt undirstöðuatvinnugrein til þess að Ísland geti orðið raunveruleg matarkista. Öll okkar stefnumörkun á að miðast við þá heildarsýn að við drögum úr vistsporinu, minnkum sóun, eflum nýsköpun í matvælaframleiðslu og tryggjum matvæla- og fæðuöryggi. Sýna þarf stórhug í hvers konar landbúnaði og sjávarútvegi og setja niður matvælastefnu fyrir Ísland sem bregst við þeim raunverulegu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Atvinnulíf í sátt við samfélag og umhverfi er kjarni okkar stefnu; kjarni hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Við eigum einstakt tækifæri til að ráðast í breytingar sem munu gera íslenskt samfélag sjálfbærara. Þar skiptir öllu máli það sem við erum að gera í þessari ríkisstjórn, sú kúvending sem nú hefur orðið í þessum málaflokki, mestu áskorun aldarinnar; loftslagsmálunum.

Og þá komum við að þriðja lykilatriðinu sem snýst um fólk; traust, gagnsæi, mannréttindi. Nú um áramótin munu jafnréttismál færast yfir í forsætisráðuneytið í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað strax í desember að setja á laggirnar ráðherranefnd um jafnréttismál til að tryggja að þau séu forgangsmál allra ráðuneyta. Endurskoðun jafnréttislaga verður þar stórt verkefni en miklu skiptir að samhliða útvíkkun jafnréttishugtaksins sé gætt að því að ekkert bakslag verði í kvenfrelsis- og kynjajafnréttismálum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að uppræta kynbundið ofbeldi. Fullgilding Istanbúlsáttmálans um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi var mikilvægt skref í rétta átt sem stigið var í vor. Á þessu ári hefur hópur sérfræðinga verið að störfum undir forystu Höllu Gunnarsdóttur, og greint hvað þurfi að gera og hverju þurfi að breyta til þess að hafa betur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hópurinn hefur nú skilað af sér verkáætlun sem verður samstundis hrint í framkvæmd. Og við munum halda áfram að vinna úr lærdómum #églíka-byltingarinnar, meðal annars með alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður hér á landi á komandi ári. Og við ætlum að horfa inn á við í þessum málum – á morgun ræðum við drög að nýrri áætlun VG gegn kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Það var tímabært að endurskoða áætlunina okkar og #églíka bylgjan gaf okkur kærkomið tækifæri til að líta aftur inn á við og spyrja: fara saman orð og gjörðir í okkar hreyfingu?

Að einhverju leyti, tel ég, en við megum ekki slá slöku við. Við þurfum að horfast í augu við að eðli stjórnmálastarfs er með þeim hætti að þar eru áhættuþættir fyrir hendi. Innan stjórnmálaflokka er alltaf ákveðin samkeppni, það komast færri að en vilja í ýmsar stöður, og við eigum í átökum um hugmyndir, stefnur og strauma. Stjórnmálastarfi fylgir líka félagslíf sem er mikilvægur hluti stjórnmálastarfs en getur einmitt orðið vettvangur áreitni og jafnvel ofbeldis.

 

Þetta tölum við sjaldan um, en ég er sannfærð um að opin umræða sé af hinu góða.

Síðan er hitt og það er að við þurfum að vera undir það búin að takast á við einstaklingsmál þegar þau koma upp. Í nýju drögunum okkar er lögð áhersla á að í flóknum málum eigi að sækja utanaðkomandi aðstoð. Vandinn er sá að fæst okkar kunna að takast á við svona mál – og sem betur fer komumst við ekki í góða þjálfun við það. Þess vegna fagna ég því að við séum að útbúa sterkari ferla í sameiningu.

 

En þessi áætlun á að vera lifandi plagg. Við eigum að endurskoða hana reglulega og við eigum öll að eigna okkur hlutdeild í henni. Því þetta er okkar áætlun. Ég veit líka að engir ferlar eru fullkomnir. Kynbundið ofbeldi er aðeins ekki einstaklingsbundið vandamál, heldur menningarbundið og við höfum öll lifað og hrærst í þessari sömu menningu. En kæru félagar, gerum öll, hvert og eitt og í sameiningu, allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að áreitni og ofbeldi sé liðið innan okkar hreyfingar.

En aftur að landsmálunum.

Hér heima vitum við að við höfum dregist aftur úr öðrum löndum í Evrópu hvað varðar lagaleg réttindi hinsegin fólks. Í vetur verður lagt fram frumvarp á Alþingi um framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfræði. Þegar frumvarpið verður að lögum mun það koma okkur í fremstu röð – þar sem við eigum að vera, af því að við getum það og af því að það er rétt.

Réttindabarátta hinsegin fólks er ofarlega á forgangslista núverandi ríkisstjórnar og við höfum þegar náð góðum áföngum á þessum fyrstu mánuðum. Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu var samþykkt í vor og er mikilvægt skref til að tryggja mannréttindi allra. Ríkisstjórnin hefur líka tvöfaldað fjárframlög til Samtakanna 78 þannig að þau geti betur sinnt sínu mikilvæga starfi.

Á síðustu misserum höfum við séð stjórnvöld í ýmsum ríkjum afnema réttindi sem lengi hefur verið barist fyrir. Víða hefur orðið bakslag og við þurfum að berjast gegn því og tala skýrt fyrir réttindum fólks hvar sem við komum og á hvaða vettvangi sem er.

 

 

Ég hef sett fram tillögu um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum. Formenn flokkanna hafa fundað nokkrum sinnum og ég vona svo sannarlega að sem breiðust samstaða náist um breytingar á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili. Ætlunin er að hafa samráð við almenning í því ferli og nýta til þess aðferðir þátttökulýðræðisins. Ríkisstjórnin hefur tekið ýmis skref í því að auka gagnsæi og upplýsingagjöf. Góð skýrsla var gerð um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og verður núna markvisst unnið úr þeim tillögum sem þar eru lagðar fram. Sumt hefur ríkisstjórnin þegar ráðist í, meðal annars að opna dagbækur ráðherra og birta hagsmunaskráningu ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna. Næstu skref verða að setja skýrari ramma um birtingu upplýsinga, meðal annars með endurskoðun upplýsingalaga. Núna á mánudaginn verða kynnt fimm frumvörp sem heyra undir fjóra ráðherra sem öll efla upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

Að efla traust er langtímaverkefni. Ýmsir hafa orðið til að gera lítið úr þessum aðgerðum og nýjasta tuggan er að gera lítið úr umræðu, undirbúningi og vandaðri vinnu en sem vanur langhlaupari veit ég að í þessum málum er það úthaldið sem skiptir máli.

Að lokum langar mig að nefna eitt frumvarp sem ég fæ vonandi að mæla fyrir í næstu viku og varðar réttindi barna. Það felur í sér endurskoðun á lögum um umboðsmann barna og að efnt verði til barnaþings annað hvert ár. Ég vona sannarlega að þetta verði til þess að börn og ungmenni fái sterkari rödd í okkar samfélagi. Ekki veitir af.

Kæru félagar.

Þessi flokksráðsfundur á ekki síst að snúast um innra starf og okkur sjálf. Við fögnum tuttugu ára afmæli á næsta ári. Sjálf hef ég verið virkur félagi í ein 17 ár. Þessi hreyfing er ekki sú sama og hún var þá. Hreyfingin eldist og breytist, eins og við öll.  Og það er sú spurning sem mig langar að varpa til ykkar góðir félagar. Erum við söm? Eruð þið söm? Og eigum við að vera söm?

Í ár eru tíu ár liðin frá hruni. Þróun stjórnmálanna hefur verið sú að æ fleiri flokkar hafa komið fram og náð áhrifum. Flokkakerfið er gjörbreytt frá árinu 1999, og við erum ekki á sama stað í því kerfi og við vorum þá.

Mér finnst það ekki hættulegt. Mér finnst það ekki slæmt. Hins vegar er mikilvægt að við ígrundum hvað okkur sem hreyfingu finnst um þessa þróun.

Ég ætla að nefna nokkra þætti sem ég tel að geti skipt máli fyrir þá ígrundun.

Í fyrsta lagi eru lýðræðislegir stjórnmálaflokkar ekki ættaðir úr neðra eins og ætla mætti af orðræðu undanfarinna ára. Lýðræðislegir stjórnmálaflokkar sem farvegur hugmynda og gilda eru undirstaða lýðræðisins og að hallmæla flokkakerfi og stjórnmálaflokkum er slæmt fyrir lýðræðið. Þá eykst hættan á að stjórnmálin snúist um einstaklinga og persónur en ekki lýðræðislega ákvarðanatöku á félagslegum grunni.

Þá er ástæða til að gera upp við fjórflokkshugtakið. Þetta er ekkert nema merkimiði sem þjónar tilteknum öflum, hugtak sem beinlínis var búið til í áróðursskyni. Í þessari orðræðu er ung hreyfing eins og okkar lögð að jöfnu við hundrað ára gamla flokka. Við störfum á sviði þar sem eru alls konar stjórnmálahreyfingar, sumar tveggja ára, sumar 19 ára og aðrar 102 ára, sem snúast um ólík gildi og ólíka hugmyndafræði. Og það eru þau gildi og sú hugmyndafræði sem við í Vinstrihreyfingunni-grænu framboði ætlum að ræða hér á eftir.

Í þriðja lagi er það svo að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur breytt um ýmsar áherslur á því tæplega tuttugu ára tímabili sem við höfum starfað. Það er vegna þess að stjórnmálaflokkur er ekki safn eða stofnun með hlutverk sem skráð er í lög heldur hreyfing sem eins og nafnið gefur til kynna er ekki kyrrstæð. Hreyfing fólks sem breytist, þroskast og lærir og skiptir stundum um skoðun. Ég get nefnt mörg dæmi. Eða man einhver eftir því hvernig við tókumst á við spurninguna um olíuleit? Eigum við að ræða Evrópusambandið og þau sjónarmið að þar ætti meirihlutinn að ráða för? Já við erum hreyfing. Og við ættum að huga að því þegar við tölum um stjórnmál og stefnu að þar skipta gildin einmitt mestu. Ég hef lært mikið á þeim tíu árum sem ég hef setið á þingi og skoðanir mínar á ýmsu hafa breyst og þróast. Hvort sem er bönkum, landbúnaði, sjávarútvegi og ég gæti haldið lengi áfram.

Í fjórða lagi hefur reynslan mótað okkur. Þátttaka okkar í ríkisstjórninni 2009 til 2013 breytti þessari hreyfingu talsvert. Þar gátum við ekki látið nægja að gagnrýna og setja fram óskir heldur þurftum við að starfa með öðrum og að leysa ófyrirsjáanleg og flókin verkefni sem kallar á málamiðlanir. Margir aðrir flokkar hafa orðið til síðan sem hafa tekið af okkur það hlutverk að vera nýjasti flokkurinn sem aldrei hefur þurft að miðla málum eða velja milli tveggja erfiðra kosta. Við höfum á meðan lært að maður nær aldrei fram öllum sínum óskalista í ríkisstjórn og jafnvel geta fleiri en eitt af okkar mikilvægu gildum kallað á mismunandi niðurstöðu. Því stundum stangast gildin á og þá þurfum við að viðurkenna það og vinna úr því. Það á við um bæði stjórnmálaflokka og einstaklinga.

Í fimmta lagi tel ég að allir stjórnmálaflokkarnir hafi breyst. Ég held í fyrsta lagi – af því að ég nefndi traust hér áðan – að ekki aðeins hafi traust á stjórnmálum hrunið 2008 heldur hrundi líka traust í stjórnmálum. Það hefur haft áhrif á þróun stjórnmálanna; óttinn við vera kennt um allt sem aflaga fer hefur haft áhrif á hvernig ákvarðanir eru teknar því enginn vill bera ábyrgð á hugsanlegum mistökum. Og ég er sannfærð um að núverandi ríkisstjórn getur skipt máli í því verkefni – við tókum áhættuna 2009 og við tökum hana aftur núna af því að við ætlum ekki að láta óttann við gagnrýnina ráða för heldur trúna á að við getum náð árangri fyrir fólkið í landinu; árangri sem er í takt við okkar gildi og okkar hugmyndir.

Í sjötta lagi tel ég að þessi staða skapi okkur tækifæri. Vissulega er það svo að þegar við breytumst þá breytist líka kjósendahópur okkar. Bæði vegna þess að við höfðum að einhverju leyti ekki til sama fólks og áður en líka – og það er mikilvægt að muna – að kjósendur eru fólk eins og við sem breytist, þroskast, skiptir um skoðun. Og þá er eini leiðarvísir okkar að vera sjálfum okkur trú, gildum okkar og hugmyndum. Við erum í langhlaupi, góðir félagar, og við höfum reynst drýgri í því langhlaupi en margir hafa spáð gegnum tíðina. Nýtum tímann í kvöld og á morgun til að nesta okkur fyrir það, það gerum við með því að horfa inn á við – og fram á við.

Katrín Jakobsdóttir

 

,

Ræða Guðmundar Inga

Virðulegi forseti, kæru landsmenn,

Hvort sem við erum ung eða öldruð, hvar sem við búum og hversu ólík sem við innbyrðis kunnum að vera þá er eitt sem við eigum öll saman: Náttúru landsins. Þetta stórbrotna samspil elds og íss, auðna og óbyggðra víðerna – náttúruminjar sem eiga fáa sína líka á heimsvísu.

Náttúra Íslands hefur einstakt aðdráttarafl, hún er efnahagslega verðmæt og færir okkur gleði, gjaldeyristekjur og atvinnu – hún er gulleggið okkar. Og það er okkar að gæta hennar og viðhalda töfrunum.

Um leið og við gætum gulleggsins þurfum við að vita á hvaða vegferð við erum og setja markið hátt. Við eigum að vera leiðandi í umhverfismálum í heiminum. Við höfum þann valkost að sýna í verki hvað lítil og samrýmd þjóð getur gert. Höfum trú á okkur. Verðum fyrst ríkja til að ná að hætta að keyra grunnkerfin okkar áfram á mengandi og innfluttu eldsneyti. Hugsum út fyrir kassann til að taka á síhækkandi plastfjalli landsins og ósjálfbærri neyslu. Og verum öðrum fyrirmynd í náttúruvernd.

Kæru landsmenn.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett umhverfismál rækilega á oddinn. Loftslagsmálin eru og verða mikilvægasta viðfangsefni 21. aldarinnar. Mörg munum við úr skóla hvernig sumir kennarar gáfu frest á skilum ritgerða og verkefna, meðan aðrir gerðu það ekki. Í loftslagsmálunum þýðir ekki að fá fresti. Það eru engir frestir. Hér á landi liggur nú fyrir fyrsta útgáfa að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og mörg brýn verkefni eru á leið í útfærslu í samvinnu við samfélagið. Tími aðgerða er runninn upp.

Önnur mikilvæg vegferð er hafin. Stærsta framlag Íslands til náttúruverndar á heimsvísu felst í stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Þverpólitísk nefnd með þingmönnum allra flokka á Alþingi og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga vinnur nú að undirbúningi að stofnun þjóðgarðsins. Ég leyfi mér að fulllyrða að aldrei hefur verið ráðist í jafn metnaðarfullt verkefni í náttúruvernd á Íslandi.

Mikil tækifæri felast í friðlýsingum fyrir efnahag og atvinnulíf landsbyggðanna. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um átak í friðlýsingum og í þessari viku fara fyrstu friðlýsingar svæða í verndarflokki rammaáætlunar frá 2013 í almenna kynningu. Fjármagn hefur verið tryggt til uppbyggingar aðstöðu fyrir ferðamenn á friðlýstum svæðum á næstu árum og ný stofnun fyrir þjóðgarða og vernduð svæði er í undirbúningi. Hún mun efla náttúruvernd til muna og auka aðkomu sveitarfélaga og félagasamtaka að stjórnun náttúruverndarsvæða.

Herra forseti.

Afstaða til umhverfismála á alþjóðavettvangi hefur gjörbreyst eins og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun bera með sér. Umhverfismál eru ekki lengur álitin andstaða framfara, heldur undirstaða. Þau eru forsenda lífsgæða, friðar, blómlegs efnahagslífs, og grunnþarfa samfélagsins. Þetta kallar á nýja nálgun og samvinnu þvert á málaflokka og pólitískar línur, rétt eins og kynning sjö ráðherra á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum bar með sér. Þetta er mikilvæg breyting í íslenskri pólitík sem gaman er að fá að taka þátt í.

,

Ræða Svandísar

Virðulegur forseti

Áskoranir stjórnmála dagsins eru allt í senn gamalkunnar en líka nýjar og ógnvekjandi – félagslegur ójöfnuður og fátækt, átök og ofbeldi reka milljónir frá heimilum sínum og blikur eru á lofti. Útlendingaandúð, kvenfyrirlitning og grimmd við minnihlutahópa af öllu tagi, hinsegin fólk, flóttafólk, þjóðabrot eða fólk af tilteknum trúarlegum uppruna – hatursöflunum vex ásmegin víða um lönd og sagan segir okkur að þau þurfa ekki endilega hreinan meirihluta atkvæða til að valda straumhvörfum í heilum samfélögum og jafnvel heiminum öllum, breyta mannkynssögunni. Á slíkum tímum skiptir öllu að stjórnmálahreyfingar og flokkar gæti að meginreglum lýðræðis og mannréttinda, spyrni fast á móti heimsku og valdníðslu og freistist ekki til að laga málflutning sinn að heiftinni og hatrinu. Grunngildi um mannúð og jafnan rétt, jöfnuð og frið eru mikilvæg og þeim þarf alltaf að halda vandlega til haga.

 

Vinstrihreyfingin-grænt framboð leiðir nú ríkisstjórn þvert yfir pólitískt litróf á Íslandi, ríkisstjórn um þær áherslur við stjórn landsins sem hér eru ræddar í kvöld. Stjórnarsáttmálinn snýst um þrjá meginstrauma í mínum huga. Í fyrsta lagi um áherslur í anda jöfnuðar og félagshyggju og þá fyrst og fremst við uppbyggingu innviða, sem fyrir löngu var orðið brýn nauðsyn að efla, í heilbrigðismálum og menntamálum, félagsmálum, samgöngum og fjarskiptum. Í öðru lagi um framsýnar áætlanir í stórum málum nýrrar aldar, umhverfismálum, loftslagsmálum, nýsköpun á öllum sviðum en líka lýðræðis- og upplýsingamálum þar sem svo margt hefur kallað á umbætur. Loks og í þriðja lagi eflingu alþingis með stóraukinni áherslu á þverpólitíska vinnu í stórum stefnumarkandi málum og auknum stuðningi við störf þingflokka, ekki síst í stjórnarandstöðu.

 

Sagt hefur verið að efnahagslegur stöðugleiki eigi að vera grunnurinn að góðu samfélagi en félagslegur stöðugleiki er ekki síður mikilvægur. Að fólk megi treysta því að keppt sé að jafnrétti og jöfnuði og að innviðir samfélagsins haldi, að enginn sé skilinn eftir, að menntun, heilbrigðisþjónusta og velferð standi öllum til boða, að fjölskyldurnar búi við fæðingarorlof og leikskóla sem taki við að því loknu, að sátt ríki um skólana og trausta menntun, að menningin færi okkur gleði og sýn til allra átta allan ársins hring, að full vinna dugi fyrir framfærslu og að unnt sé að koma sér þaki yfir höfuðið, að ungt fólk geti farið að heiman og komið undir sig fótunum þegar sá tími rennur upp. Að gamalt fólk geti tekið þátt í þróttmiklu samfélagi og lifað með reisn allt til síðasta dags.

 

Á mínu borði er einn mikilvægasti hluti félagslegs stöðugleika en það er heildstæð og skynsamleg heilbrigðisþjónusta sem hefur sjúklinginn og samfélagið í forgrunni. Við ætlum að móta um hana skýra stefnu og styrkja á allan hátt og að því er unnið og verður unnið næstu misseri og næstu ár. Draga á úr greiðsluþátttöku sjúklinga og nálgast það sem gerist í þeim efnum á Norðurlöndunum. Heilbrigðisþjónustan á Íslandi hefur, eins og allir vita, lengi liðið fyrir lausatök og skertar fjárveitingar, verið svo brotakennd að brýnt er að bæta þar úr. Fjöldi aðila og úttekta hafa dregið fram einstaka þætti þessarar stöðu, nú síðast Ríkisendurskoðandi sem fjallar um ómarkviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu en áður hafði MacKinsey bent á að margt mætti gera betur og ekki síst í því að skapa heildstæðara kerfi þar sem ljóst er hvað gerist á hverjum stað.

 

Sjálf hef ég líka, og mitt fólk, lagt kapp á að afla upplýsinga og reynslu úr öllum áttum um þessi efni og leitast við að fá sem allra skýrasta mynd af ástandinu og nauðsynlegum úrbótum. Þar ber allt að sama brunni. Sá skortur á yfirsýn og markvissri framkvæmd sem nú ríkir leiðir af sér biðlista í sumum efnum en oflækningar annars staðar. Slíkt kerfi er hvorki gott fyrir sjúklinga, þá hópa sem þeim eiga að sinna né samfélagið í heild. Með því að setja fram vandaða heilbrigðisstefnu, tryggja trausta og öfluga þjónustu opinberra sjúkrahúsa, efla göngudeildir og treysta heilsugæsluna um allt land en líka með því að skýra samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu og stuðningi við sjúka og aldraða gegnum Sjúkratryggingar Íslands, þar sem markmið samninganna og ætlaður árangur af þeim liggja ljós fyrir og gæðakröfur eru skýrar, þar sem skýrt er hvaða þjónustu skuli veita og hvar skuli inna hana af hendi, þannig nálgumst við heildstæðara kerfi og markvissari og betri þjónustu fyrir alla.

Kjölfestan er traust og öflugt heilbrigðiskerfi okkar allra, sem við eigum sjálf og þjóðin hefur kallað eftir. Þannig tryggjum við besta nýtingu fjármuna líkt og allar rannsóknir sýna og styðjum um leið aðra geira þjónustunnar. Liður í því að er að hefjast handa þegar í haust við byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss sem á eftir að færa þjónustu við sjúklinga og vinnuumhverfi heilbrigðisstétta í landinu öllu á alveg nýjan stað. Verkefnið er samt meira og miklu stærra, eins og hér hefur verið rakið, við ætlum að sækja fram á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu og forvarna, stilla saman strengi og krafta allra þeirra sem vinna að bættri heilsu og öryggi landsmanna hvar sem þeir búa og hvernig sem efnahag þeirra er háttað. Að því er unnið hörðum höndum á minni vakt í ríkisstjórn þriggja flokka og undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

Góðar stundir!

 

 

 

 

,

Stefnuræða forsætisráðherra

Virðulegi forseti, góðir landsmenn

Þó að það hafi rignt á sum okkar í sumar skartaði landið sínu fegursta. Við sem búum hér á suðvesturhorninu vorum reglulega minnt á þá staðreynd að fátt er betra en að finna lyktina af gróðrinum þegar rigningunni slotar. Og ég gat ekki orðið annað en þakklát þar sem ég sat í heitri laug í Bjarnarfirði, horfði á ána fjúka í öfuga átt í nítján metrum á sekúndu og virti fyrir mér sundlaugina sem byggð var af æskulýðsfrömuðum á norðurhjara sem aldrei misstu trúna á landið. Ég varð þakklát fyrir afrek þeirra sem trúðu á fullveldið sem við fögnum í ár, þá framsýni og þann stórhug sem þau sýndu.

Þó að veðrið hafi verið vinsælt umræðuefni í öllum landshlutum í sumar vorum við samt heppin hér á landi miðað við veðrið annars staðar á Norðurlöndum. Þar voru gífurlegir þurrkar, skógareldar og uppskerubrestur. Við Íslendingar buðum Svíum aðstoð vegna skógarelda, íslenskir bændur seldu norskum starfsbræðrum sínum hey og öll fylgdumst við með veðurfréttum sem þóttu bera vitni um áhrif loftslagsbreytinga.

Ríkisstjórnin kynnti í fyrradag fyrstu áfangana í metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Eins og kunnugt er hafa orðið straumhvörf í fjárveitingum til umhverfismála. Aðgerðaáætlunin mun útfæra hvernig þessir fjármunir verða nýttir. Þar mun landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis verða fyrirferðarmikil. Annar stór áfangi eru orkuskipti í samgöngum þar sem stórátak verður í uppbyggingu fyrir rafbíla og rafhjól og sett niður tímaáætlun um að ekki verði fluttir inn nýir bílar sem ganga fyrir bensíni eða olíu eftir 2030.

Við Íslendingar höfum sett okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040 og þessir fyrstu áfangar sýna gjörla að okkur er full alvara með því verkefni. Ég sé fyrir mér að umhverfis- og loftslagsmál verði eitt af flaggskipum okkar utanríkisstefnu, rétt eins og kynjajafnréttismálin eru þegar orðin, og Ísland, þó að við séum ekki stór, geti þar með haft áhrif til góðs í alþjóðasamfélaginu.

Kæru landsmenn

Ísland hefur nú verið níu ár í röð í efsta sæti á lista World Economic Forum sem það land sem stendur sig best í kynjajafnrétti og er það mikið ánægjuefni. Þar megum við hins vegar hvergi slaka á. Innleiðing jafnlaunavottunar stendur yfir og þar þurfa stofnanir og fyrirtæki að slá í klárinn ef hún á að nást fyrir áramót. Sömuleiðis þurfum við að vera meðvituð um að þessi listi mælir til dæmis ekki kynbundið ofbeldi. Þess vegna hefur ríkisstjórnin sett þau mál í algjöran forgang. Fullgilding Istanbúlsáttmálans um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi var mikilvægt skref í rétta átt sem stigið var í vor. Á þessu ári hefur hópur sérfræðinga verið að störfum og greint hvað þurfi að gera og hverju þurfi að breyta til þess að hafa betur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hópurinn hefur nú skilað af sér verkáætlun sem verður hrint í framkvæmd. Og við munum halda áfram að vinna úr lærdómum #églíka-byltingarinnar, meðal annars með alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður hér á landi á komandi ári.

Herra forseti.

Ríkisstjórnin hefur tekið það verkefni að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu samfélagslegra innviða föstum tökum allt frá fyrsta degi. Sú sókn sem hófst í síðustu fjárlögum og heldur áfram í nýju fjárlagafrumvarpi er langt umfram það sem nokkur stjórnmálaflokkur boðaði fyrir síðustu kosningar enda er þörfin brýn. Um leið er tíminn góður þar sem spár gera ráð fyrir minni hagvexti á komandi árum og g því tækifæri fyrir hið opinbera til að koma með innspýtingu.

Heilbrigðisþjónustan er fyrirferðarmikil enda sá málaflokkur sem landsmenn hafa forgangsraðað efst á listann samkvæmt ýmsum könnunum. Hér á landi hafa sjúklingar þurft að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrstu skrefin í því að lækka þennan kostnað voru stigin nú um mánaðamótin þegar dregið var úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær og mikilvæg aðgerð. Áfram verður haldið á sömu braut allt kjörtímabilið. Hér á landi eru líka teikn á lofti um að andlegri heilsu, sérstaklega ungs fólks, hafi hrakað. Þess vegna leggur ríkisstjórnin ríka áherslu á geðheilbrigði og nú er unnið að því að auka aðgengi að sálfræðingum um land allt.

Samgöngumálin eru sömuleiðis stórmál í þessari innviðauppbyggingu enda hefur mikið mætt á vegakerfinu undanfarin ár. Þar þarf í senn að huga að vegakerfinu en líka að öflugri almenningssamgöngum. Fjórir milljarðar eru lagðir í það risavaxna verkefni að bæta framfærslu öryrkja og hefur verið starfandi samráðshópur sem ætlað er að gera tillögur um það hvernig þessum fjármunum verður sem best varið ásamt því að auka möguleika öryrkja til virkrar samfélagsþátttöku og þátttöku á vinnumarkaði.

Fjármála- og efnahagsráðherra mun í vetur leggja fram frumvarp til laga um þjóðarsjóð sem verður eitt af lykilmálum ríkisstjórnarinnar og vonandi Alþingis alls. Þar er ætlunin að setja arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum í eigu ríkisins í sérstakan sjóð, annars vegar til að leggja fyrir til framtíðar en hins vegar til að ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila og til að styrkja rannsóknir og nýsköpun. Þetta má kalla kynslóðaverkefni; annars vegar hvernig við hugum að okkar elsta fólki og hins vegar hvernig við búum í haginn fyrir framtíðina.

Fyrir mér er algjört lykilatriði að íslenskt samfélag fari að byggja upp og styðja betur við nýsköpunar- og rannsóknaumhverfi. Þess vegna höfum við bætt í framlög til menntunar og stefnum á verulegar fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun. Það mun treysta efnahagslíf landsins til framtíðar og draga úr sveiflum en við höfum séð á síðustu vikum að veður geta skipast fljótt í lofti innan einstakra atvinnugreina. Þess vegna er fjölbreytnin svo mikilvæg; að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Aukin nýsköpun og þar með aukin verðmætasköpun mun styrkja allar atvinnugreinar; sjávarútveg, landbúnað, iðnað, ferðaþjónustu, hugverkageirann, skapandi greinar og svo mætti lengi telja.

Framundan er svo vinna sem mun styrkja umgjörð fjármálakerfisins enn frekar. Hvítbók um fjármálakerfið kemur út í haust þar sem greint verður hvað hefur vel verið gert í þeim málum á undanförnum árum og hvað má betur gera. Hluti af því verkefni er að greina kostnaðinn í íslenska fjármálakerfinu en vísbendingar eru um að hann sé meiri en til dæmis annars staðar á Norðurlöndum. Markmiðið er að hægt verði að lækka þann kostnað þannig að almenningur fái notið lægri vaxta og betri kjara.

Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar skilaði af sér nú í júní síðastliðnum. Stjórnvöld hafa í framhaldinu átt fundi með Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Markmiðið er að styrkja rammann um peningastefnuna, meðal annars með breytingum á lögum um Seðlabankann en ég mun leggja fram frumvarp þess efnis eftir áramót.

Kæru landsmenn.

Fátt hefur verið meira í innlendum fréttum en málefni vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að eiga sem best samstarf við aðila vinnumarkaðarins en alls höfum við átt tíu fundi með þessum aðilum og forsvarsmönnum Sambands sveitarfélaga. Þeir fundir hafa nú þegar skilað margvíslegum árangri. Ráðist var í þær mikilvægu breytingar að hækka atvinnuleysisbætur og greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa í vor. Kjararáð var lagt niður með lögum í vor. Fyrirkomulag launa æðstu embættismanna verður fært til svipaðs horfs og annars staðar á Norðurlöndum.

Í vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að tekjuskattskerfið og samspil bóta og skatta yrðu endurskoðuð á kjörtímabilinu þannig að það gagnist helst lágtekju- og lægri millitekjuhópum.

Sá tekjubandormur sem nú er lagður fram gerir ráð fyrir hækkun barnabóta sem mun auka ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna. Enn fremur hækkun persónuafsláttar umfram breytingar á vísitölu neysluverðs sem gagnast best þeim tekjulægri. Að auki verða efri mörk skattkerfisins fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir. Að lokum er tryggingagjaldið lækkað um 0,25% sem gagnast atvinnulífinu öllu.

Þessar breytingar eiga rætur að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og sýna okkar skýra vilja til að skatt- og bótakerfin þjóni jöfnunarhlutverki. Aðrar breytingar sem þegar hafa verið gerðar, eins og hækkun á fjármagnstekjuskatti, sýna þann sama vilja. Með þessum breytingum eru stigin mikilvæg skref sem færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggja að þau tekju- og eignamestu leggi meira af mörkum.

Herra forseti.

Nú á dögunum var birt skýrsla starfshóps sem ég skipaði um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Þar eru ýmsar áhugaverðar tillögur. Meðal annars er lagt til að við þingmenn og ráðherrar uppfærum reglur um hagsmunaskráningu. Ennfremur að hagsmunaskráning aðstoðarmanna og ráðuneytisstjóra verði lögfest en skráning þeirra hagsmuna og birting þeirra er ekki lögbundin þó að allt þetta fólk hafi verið reiðubúið að skrá hagsmuni sína og birta til að auka gagnsæi. Þá er lagt til að stjórnarráðið setji sér stefnu um upplýsingagjöf samhliða endurskoðun upplýsingalaga sem stendur yfir. Auk þess að gerður verði samningur við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands til að sinni ráðgjafarhlutverki fyrir Stjórnarráðið. Allt rúmast þetta innan þess sem við getum kallað heilindaramma en alþjóðastofnanir á borð við OECD hafa unnið mikla vinnu í því að skilgreina heilindi í opinberri stjórnsýslu. Við munum sjá frekari aðgerðir í þessa veru á þessu þingi og kjörtímabilinu öllu.

Ljóst er að traust á stjórnmálum og stjórnsýslu dvínaði skarpt eftir hrun. Þetta traust hefur farið heldur vaxandi án þess að jafnast á við það sem áður var. Líklega verður traust á stjórnmálum og stjórnsýslu aldrei jafn mikið og það var skömmu fyrir hrun. Samfélagið hefur breyst, upplýsingastreymi er með allt öðrum hætti og samfélagsmiðlar hafa breytt stjórnmálaumræðu með róttækum hætti. Við sem munum þá tíð þegar mestu skipti að komast í kvöldfréttirnar með það sem sagt var um morguninn, finnst þetta vera bylting þar sem fréttir morgunsins eru oft algjörlega gleymdar um kvöldið.

Þegar slík umskipti verða á miðlaumhverfinu má rifja það upp að því hefur verið haldið fram að miðillinn sníði skilaboðin að sér. Við sjáum þetta víða í nútímanum, jafnvel á sviði alþjóðasamskipta, þar sem valdamesti maður heims, sjálfur Bandaríkjaforseti, setur fram stefnu gagnvart öðrum ríkjum með 280 bókstöfum á twitter. Eins og við þekkjum úr sögunni þá geta slík umskipti breytt miklu um valdajafnvægið í samfélaginu.

Nýir miðlar eru hluti af stærri mynd samfélagsbreytinga; fjórðu iðnbyltingunni svokölluðu, þar sem miklu máli skiptir að við verðum í fararbroddi. Við vitum að þessi tæknibylting á eftir að breyta atvinnuháttum, vinnumarkaði, menntun og samfélaginu; við vitum líka að hún á eftir að breyta okkur sjálfum og upplifun okkar á veruleikanum. Í þýskum fjölmiðlum voru fréttir af því að óvenju mörg börn hafi drukknað í Þýsklandi í ár vegna þess að foreldrar þeirra voru upptekin í símanum. Við verðum að hafa þor til að horfast í augu við þennan nýja veruleika og samband okkar við tæknina til þess að næstu skref í þróun sambands þessarar tækni og okkar mannanna verði okkur til gæfu.

Í allri þessari þróun skiptir máli að við Íslendingar verðum gerendur, ekki þiggjendur. Að við nýtum tækifærin, sköpum aukin verðmæti og nýtum þau til að byggja upp betra samfélag. Að við verðum um leið meðvituð um mennskuna og gætum að henni í þessari hröðu þróun.

Vegna alls þessa ég ákveðið að láta vinna greiningu á áskorunum vegna Fjórðu iðnbyltingarinnar. Sú greining verður á breiðum grunni og unnið með niðurstöður hennar hjá Vísinda- og tækniráði, Samráðsvettvangi um aukna hagsæld, með aðilum vinnumarkaðarins og í nýrri framtíðarnefnd Alþingis.

Og talandi um framtíðina. Formenn stjórnmálaflokkanna hafa nú fundað nokkrum sinnum um þá endurskoðun stjórnarskárinnar sem fyrirhuguð er á þessu kjörtímabili og því næsta. Þetta hafa verið góðir fundir og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að breið samstaða skapist um breytingar á stjórnarskrá sem vísa veginn til framtíðar fyrir íslenskt samfélag.

Kæru landsmenn.

Á þessu ári fögnum við fullveldinu sem hefur skipt okkur svo miklu. Fyrstu hundrað ár fullveldisins hafa verið saga framfara, bæði félagslegra og efnahagslegra. Við eigum ærin tækifæri til framfara næstu hundrað árin. Við eigum að fagna samfélagi sem er miklu fjölbreyttara nú en fyrir einni öld. Við eigum að byggja á þeirri fjölbreytni og þeim gildum lýðræðis og mannréttinda sem við höfum haft í heiðri í þessari sögu allri. Og við eigum að sækja fram, sækja fram með því að rækta hugvitið, skapa nýja þekkingu og tryggja að hér verði samheldið, fjölbreytt og kærleiksríkt samfélag þar sem við lifum fram í sátt við umhverfið og tryggjum sterkan efnahag og jöfnuð.

Ég hitti nemendur í Seyðisfjarðarskóla um daginn. Þau sögðust þurfa að ræða ýmislegt við mig. Meðal annars væri nauðsynlegt að lækka verð á ís, fá betri gangstéttir og útisundlaug. Þau bentu líka á að gengið væri helst til hátt þessa dagana og við þyrftum að hugsa miklu betur um umhverfið. Viku seinna hitti ég heimilisfólk á Grund og við ræddum saman um sögu fullveldisins, alla þá sigra sem hafa unnist á þeim hundrað árum sem liðin eru og hlutverk þeirra í að byggja upp þetta samfélag sem við eigum saman. Eftir þessa tvo fundi var ég bjartsýn á framtíð íslensks samfélags. Við erum hér vegna kynslóðanna sem á undan okkur gengu með stórhug að vopni. Og framtíðin er björt með þessa frábæru ungu kynslóð sem mun taka við landinu okkar. Við sem hér erum núna skulum vanda okkur við að skila góðu búi.

Góðar stundir

Ávarp forseta Alþingis við frestun þingfunda

Háttvirtir alþingismenn. Störfum þessa þings lýkur nú að sinni. Þetta hefur verið fremur stutt þing. Við komum ekki saman hér fyrr en 14. desember, að loknum alþingiskosningum, þremur mánuðum síðar en reglulegt þinghald hefst venjulega, og gerðum þar í viðbót rúmlega hálfs mánaðar hlé vegna sveitarstjórnarkosninga.

Eins og við er að búast hafa störf þingsins mótast af þessum aðstæðum. Ríkisstjórnin hafði skemmri tíma til að undirbúa mál fyrir Alþingi en ella hefði verið. Þingmálaskrá ríkisstjórnar sem lögð var fram í upphafi þings var því í reynd yfirlit yfir mál sem voru í vinnslu og kynnu að koma fyrir þingið fremur en raunhæfur verkefnalisti.

Þessar aðstæður hafa líka sýnt betur en annað að bæta þarf samskipti ríkisstjórnar og Alþingis við framlagningu stjórnarmála. Forsætisnefnd og formenn þingflokka áttu um þetta efni gagnlegan fund með forsætisráðherra um miðjan apríl sl. Ljóst er að einkum tvennt brennur á þingmönnum í þessum efnum. Hið fyrra er að breyta þarf vinnsluferli mála innan Stjórnarráðsins og aðgreina endurflutt þingmál og ný mál. Þannig má tryggja að endurfluttu málin komi fram snemma á haustþingi en dragist ekki fram undir lokafresti fyrir jól eða að vori. Í annan stað hafa verið uppi óskir um að þingmálaskrá ríkisstjórnar væri uppfærð reglulega á vef Stjórnarráðsins og þess gætt að hún væri raunhæf lýsing á vinnslustöðu mála. Það myndi auka fyrirsjáanleika í skipulagningu þinghaldsins en eftir slíku er mjög kallað af hálfu þingmanna. Þeir vilja eðlilega geta skipulagt tíma sinn betur en nú er hægt. Hæstv. forsætisráðherra hefur tekið vel í þessar ábendingar og bind ég því vonir við að sjá breytingar í þessum efnum á næsta þingi.

Skipulag þingstarfanna og starfshætti hér á Alþingi þarf einnig að taka til endurskoðunar, m.a. í því skyni að auka fyrirsjáanleika í störfum þingsins. Um það eru allir þingflokkar sammála. Niðurstaðan varð því sú í mars sl. að koma á fót vinnuhópi til að sinna þessum málum og er hann auk forseta skipaður einum fulltrúa frá stjórnarliðum og öðrum frá stjórnarandstöðu. Hópurinn hefur þegar komið saman til skrafs og ráðagerða en vegna anna í þingstörfum hefur honum ekki tekist að ljúka störfum. Engu að síður tel ég að þegar hafi komið fram, bæði í umræðum við formenn þingflokka og í vinnuhópnum, ýmsar góðar hugmyndir sem mikilvægt er að vinna frekar úr. Ég hef einsett mér að þetta starf haldi áfram á haustþinginu. Vissum hlutum hefur þegar verið hrint í framkvæmd, eins og t.d. að senda formönnum allra þingflokka í lok hverrar viku dagskrá þess mánudags sem í hönd fer og drög að fundahaldi út næstu viku.

Ég tel að það hafi verið mikilvægur áfangi þegar Alþingi samþykkti siðareglur fyrir alþingismenn fyrir rúmum tveimur árum. En siðareglur eiga að vera lifandi plagg og ég vil því lýsa ánægju minni með þær breytingar á siðareglum sem Alþingi samþykkti fyrir nokkrum dögum. Í þeim breytingum felast skýr og afdráttarlaus viðbrögð þingmanna við þeim opinskáu umræðum sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi og þar á meðal innan stjórnmálanna. Með breytingunum eru tekin af öll tvímæli um að þingmenn muni leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan sem utan þings og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum og að kynbundin áreitni verði ekki liðin, hvað þá ofbeldi.

Ég tel að þær opinskáu umræður sem urðu á rakarastofumálþingi sem við héldum í Alþingishúsinu í febrúar sl. um ofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna hafi sýnt að alþingismenn láta sig þessi málefni miklu varða.

Á þessu ári höfum við Íslendingar fagnað því með margvíslegum hætti um land allt að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Alþingi mun af þessu tilefni koma saman til hátíðarfundar á Þingvöllum 18. júlí nk., en þann dag fyrir einni öld var samningnum um fullveldi Íslands lokið og hann undirritaður hér í þessu húsi.

Þingfundurinn verður undir berum himni líkt og áður þegar Alþingi hefur komið saman á Þingvöllum á hátíðar- og minningarstundum í sögu þjóðarinnar. Stefnt er að því að hafa alla umgjörð þingfundarins þennan dag hóflega og látlausa. Bein sjónvarpsútsending verður frá þingfundinum og öllum landsmönnum gefst þannig kostur á að fylgjast með athöfninni. Við undirbúning hátíðarfundarins hefur skrifstofa Alþingis átt mjög gott samstarf við fjölmarga aðila, eins og Framkvæmdasýslu ríkisins, embætti ríkislögreglustjóra og ýmis lögregluembætti, Vegagerðina, þjóðgarðinn á Þingvöllum, Þingvallanefnd, Ríkisútvarpið og ýmsa aðila innan Stjórnarráðsins.

Miðað er við að daginn fyrir Þingvallafundinn, þ.e. 17. júlí, komi Alþingi saman í Alþingishúsinu til að fjalla um og undirbúa lokaafgreiðslu þeirra mála eða þess máls sem á að fá endanlega samþykkt á Þingvöllum af þessu tilefni. Bið ég þingmenn að hafa þetta í huga og þá jafnframt að þingflokkar kunna að þurfa að koma saman fyrr vegna þessa máls. Það er einlæg ósk mín að forystumenn stjórnmálaflokkanna nái samstöðu um mál sem tekið verður fyrir á hátíðarfundinum.

Fleiri atburðir fylgja svo í kjölfar Þingvallafundarins í tilefni afmælisársins. Þannig munu Danir standa fyrir mikilli dagskrá í fyrri hluta október í Kaupmannahöfn. Þá stendur ríkisstjórnin fyrir hátíðarhöldum 1. desember nk., þann dag sem sambandslögin milli Dana og Íslendinga tóku gildi.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og vekja athygli hv. alþingismanna á einum þremur atburðum á haustmánuðum sem ástæða er að hvetja þá til þátttöku í:

Það er fyrst lýðræðis- og almenningsstefnumótið „Lýsa“ sem haldið verður á Akureyri dagana 7.–8. september. Hér er um norræna hefð að ræða sem vonandi nær einnig að festa sig í sessi á Íslandi, eins konar stefnumót grasrótarhreyfinga, almannasamtaka, stjórnmálamanna, fræðasamfélagsins o.s.frv. Þessi atburður fer nú fram á Akureyri í annað sinn en var áður haldinn í og við Norræna húsið í tvígang.

Í öðru lagi er það Hringborð norðurslóða sem haldið verður í Hörpu dagana 19.–21. október en þar hefur undanfarin ár verið að myndast stærsti og fjölsóttasti vettvangur umræðna um norðurslóðamál í heiminum.

Og að síðustu vil ég minna á ráðstefnu kvenleiðtoga í stjórnmálum sem Ísland hefur nú tekið að sér að hýsa sem gestgjafi, a.m.k. næstu fjögur árin. Sú ráðstefna verður nú haldin hér í annað sinn undir lok nóvember.

Ég vil að lokum geta þess lokahönnun skrifstofubyggingarinnar hér á reitnum er að hefjast og bind ég vonir við að jarðvegsframkvæmdir geti hafist á þessu ári. Þessi nýja bygging mun hafa í för með sér gríðarlega breytingu á starfsaðstöðu þingmanna og starfsmanna, nefndanna og raunar þingsins alls. Þegar við bætast þeir fjármunir sem nú hafa verið tryggðir í fjárlögum yfirstandandi árs og í nýsamþykktri fjármálaáætlun til næstu fimm ára til að efla nefndasvið Alþingis og aðra stoðþjónustu, bæta afkomu þingflokka og auka aðstoð við þingmenn tel ég alla ástæða til að horfa bjartsýnn fram á veginn fyrir hönd Alþingis.

Við lok þinghaldsins vil ég þakka öllum alþingismönnum fyrir samstarfið. Eðlilega greinir þingmenn á um ýmis mál, en hér á Alþingi hefur almennt ríkt góður andi og ríkur samstarfsvilji og vil ég þakka fyrir það. Þá hefur þetta þing, þótt stutt sé, afkastað miklu og leitt mörg stór mál til lykta með farsælum hætti. Alls 84 frumvörp hafa orðið að lögum og þingið hefur samþykkt 29 ályktanir.

Ég færi varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum flokkanna og þingflokka fyrir mjög gott samstarf. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég góða aðstoð og mjög mikið og gott starf og samvinnu í hvívetna þar sem mikið hefur mætt á, ekki síst nú síðustu dagana.

Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil þegar Alþingi kemur saman að nýju í næsta mánuði.

Ávarp Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis við þingfrestun aðfaranótt 13. maí.