Skrifstofa VG lokuð föstudaginn 26. maí

Af óviðráðanlegum orsökum verður skrifstofa VG lokuð föstudaginn 26. maí.

Rúnar Gíslason nýr formaður VG í Borgarbyggð

Vinstri græn í Borgarbyggð héldu aðalfund þann 11. maí síðastliðinn í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir lét af embætti formanns, en hún hafði verið í stjórn félagsins samfellt í sex ár. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir lét einnig af starfi ritara, og þökkuðu fundarmenn þeim fyrir velunnin störf í þágu félagsins. Í stjórn voru kjörin Rúnar Gíslason, Ingibjörg Daníelsdóttir og Bjarki Þór Grönfeldt, og Eyrún Baldursdóttir og Hildur Traustadóttir í varastjórn. Skiptu þau þannig með sér verkum að Rúnar verður formaður, Bjarki áfram gjaldkeri og Ingibjörg ritari.

Daníel og Iðunn taka sæti á þingi í fyrsta sinn

Daníel Arnarsson og Iðunn Garðarsdóttir taka sæti á Alþingi í vikunni, bæði í fyrsta sinn. Þau koma inn sem varamenn Ara Trausta Guðmundssonar og Andrésar Inga Jónssonar.

Daníel er 27 ára, fæddur 28. febrúar 1990 í Reykjavík en ólst upp í Þorlákshöfn. Hann er stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og mun útskrifast sem félagsfræðingur frá Háskóla Íslands í nú í júní. Daníel er í kaffihúsarekstri og hefur unnið sem kaffibarþjónn og þjónn síðustu ár. Þá var Daníel starfsmaður Vinstri grænna 2014-2016, og einnig kosningastjóri í Suðvesturkjördæmi 2013 og Suðurkjördæmi 2016. Daníel hefur verið virkur í starfi Ungra vinstri grænna síðan 2007. Daníel var í 3. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum.

Iðunn er 27 ára, fædd 13. október 1989 í Reykjavík og ólst þar upp. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og hefur lokið BA-prófum í íslensku og lögfræði, og mun útskrifast með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands í júní. Iðunn starfar nú á lögmannsstofunni Juris. Hún hefur tekið virkan þátt í hagsmunabaráttu stúdenta, en Iðunn var formaður Röskvu – samtaka félagshyggjufólks innan Háskóla Íslands og sat í Háskólaráði HÍ 2014-2016. Iðunn var í 4. sæti á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi norður.

 

Einnig sitja á þingi Álfheiður Ingadóttir og Ingibjörg Þórðardóttir, en þær hafa áður tekið sæti á þingi.

Félög á Norður- og Austurlandi halda aðalfundi

Undanfarið hafa ýmis félög Vinstri grænna haldið aðalfundi sína. Upplýsingar um stjórnir félaganna má finna inn undir “Fólkið” hér að ofan.

Svæðisfélag Vinstri grænna á Héraði og fjörðum hélt aðalfund daginn fyrir síðasta vetrardag, 18. apríl sl. Var fundurinn vel sóttur og eftir hefðbundinn aðalfundarstörf fluttu þingmenn kjördæmisins Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, framsögu um stöðu stjórnmálanna.

Svæðisfélag Vinstri grænna á Akureyri og nágrenni hélt aðalfund síðasta vetrardag, 19. apríl sl. Fundurinn var fjölmennur og eftir hefðbundinn aðalfundarstörf fluttu varaformaður hreyfingarinnar, Björn Valur Gíslason, og annar tveggja þingmanna kjördæmisins Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, framsögu um stöðu stjórnmálanna.

Svæðisfélag Vinstri grænna í Þingeyjarsýslum hélt aðalfund daginn eftir baráttudag verkalýðsins, 2. maí sl. Eftir hefðbundinn aðalfundarstörf flutti þingmaður kjördæmisins Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir framsögu um stöðu stjórnmálanna. Einnig var rætt um þau mál sem brenna á fólki í sýslunum og bar þar Bakki á góma, en mikilvægt er að halda áfram þeirri vegferð VG að vinda ofan af áratuga gömlum stóriðjudraumum á svæðinu.

 

Álfheiður Ingadóttir á Alþingi

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra og núverandi formaður Reykjavíkurfélags Vinstri grænna hefur tekið sæti á Alþingi í forföllum Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Reykjavíkur. Hún var heilbrigðisráðherra 2009 – 2010, sat á Alþingi frá árinu 2007-2013, var formaður þingflokks VG 2012 – 2013. Áður hafði hún verið á þingi sem varaþingmaður bæði Alþýðubandalags og VG.  Álfheiður er þrautreyndur stjórnmálamaður af flestum sviðum í pólitíkinni. Hún er líffræðingur og situr nú í stjórn Landsvirkjunar.

 

 

Skráning hafin í málefnahópa

Kæru félagar.

Nú leitum við til ykkar um stefnumótun fyrir næsta landsfund!

Á síðasta flokksráðsfundi kynntum við þá málefnahópa sem starfa munu fram að landsfundi 6.-8. október nk. Við hvetjum ykkur öll til að taka þátt í að móta stefnuna og taka virkan þátt í öflugu starfi Vinstri grænna.

Hér er hægt að skrá sig frá og með deginum í dag og fram á föstudaginn 12. maí. Ef félagar vilja skrá sig við síðara tækifæri geta þeir haft samband við skrifstofu en það er auðvitað best að vera með frá upphafi!

Málefnahóparnir eru eftirfarandi ásamt hópstjórum:

HÓPUR HÓPSTJÓRI
Alþjóðamál og mannréttindi Auður Lilja Erlingsdóttir
Alþjóðamál og mannréttindi Daníel Haukur Arnarsson
Atvinnumál Bergþóra Benediktsdóttir
Atvinnumál Elías Jón Guðjónsson
Efnahagsmál Björn Valur Gíslason
Efnahagsmál Katrín Jakobsdóttir
Húsnæðismál Kolbeinn H. Stefánsson
Húsnæðismál Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir
Jafnréttismál Andrea Hjálmsdóttir
Jafnréttismál Gestur Svavarsson
Neytendamál Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Neytendamál Jakob S. Jónsson
Neytendamál Ingimar Karl Helgason
Orkumál Álfheiður Ingadóttir
Orkumál Orri Páll Jóhannsson
Sjávarútvegsmál Edward Huijbens
Sjávarútvegsmál Svandís Svavarsdóttir
Sveitastjórnarmál Ólafur Þór Gunnarsson
Sveitastjórnarmál Sif Jóhannesdóttir
Umhverfismál Einar Bergmundur
Umhverfismál René Biasone
Umhverfismál Hildur Knútsdóttir
Velferðar- og mennta- og heilbrigðismál Brynhildur Björnsdóttir
Velferðar- og mennta- og heilbrigðismál Sigursteinn Másson
Velferðar- og mennta- og heilbrigðismál Sigríður Gísladóttir
Vinnumarkaðs- og verkalýðsmál Drífa Snædal
Vinnumarkaðs- og verkalýðsmál Torfi Stefán Jónsson

1. maí blað VGR

  1. maí  blað VG er nú aðgengilegt á netinu hér.

1. maí blað VG í Vestmannaeyjum

Vinstri græn í Vestmannaeyjum hafa löngum verið öflug í blaðaútgáfu og gáfu út 1. maí blað í gær, í tilefni af baráttudegi verkalýðsins. Meðal greinahöfunda eru Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður Suðurkjördæmis. Blaðið má finna hér.

Fiskeldi, heilbrigði og ný stjórn á Akureyri.

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Vinstri grænna á Akureyri síðasta vetrardag. En á fundinum var fleira gert, því samþykktar voru ályktanir um mikilvæg pólitísk mál, annarsvegar um heilbrigðismál, sjúkrahúsþjónustu fyri rnorðan og hinsvegar um fiskeldi. Ályktanirnar fylgja hér með. Nýju stjórnina má finna undir svæðisfélögum, en formaður er Ólafur Kjartansson.

 

Ályktun um heilbrigðismál

Aðalfundur Vinstri grænna á Akureyri og nágrenni haldinn 19. apríl 2017 hvetur Heilbrigðisstofnun Norðurlands (að gefnu tilefni) til að standa vörð um og efla allt heilsuverndarstarf við íbúa Norðurlands, einkum foreldravernd, ungbarnavernd, geðvernd, tannvernd og almenna heilsuvernd unglinga og aldraðra.

Fundurinn ályktar einnig að auka þurfi sem fyrst húsakost og sérhæfðan mannafla Sjúkrahússins á Akureyri samhliða uppbyggingu og eflingu Landspítalans í Reykjavík til að gæði sjúkrahúsþjónustu  haldist í hendur norðan lands og sunnan og verði í samræmi við nútíma kröfur til þjónustu sjúkrahúsa á öðrum Norðurlöndum. Aðalfundurinn skorar því á íslensk stjórnvöld að hefja nú þegar undirbúning að nýbyggingu fyrir lyflækningadeild, skurðlækningadeild og geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri samkvæmt frumáætlun Velferðarráðuneytis frá því í september 2015, í stað þess að þessu verki verði frestað til ársins 2020 eins og ráðgert er í nýrri fimm ára fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar.

 

Ályktun um sjókvíaeldi

Aðalfundur Vinstri grænna á Akureyri og nágrenni haldinn 19. apríl 2017 mótmælir fiskeldi í opnum kvíum á sjó við landið. Fundurinn minnir að hér gildir sk. varúðarregla er kemur að umhverfismálum og þá staðreynd að þekking okkar á vistkerfi hafsins er mjög takmörkuð. Fundurinn hafnar framkomnum hugmyndum um fiskeldi í sjó í Eyjafirði og bendir á að Norðurland, allt frá Horni austur að Vopnafirði, er lokað fyrir fiskeldi í sjó. Það hlýtur að teljast furðulegt í meira lagi að þar sé Eyjafjörður undanskilin.