Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands settur

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur í embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands til eins árs. Jóhanna hefur gegnt starfinu frá 1. febrúar 2017 í fjarveru Guðjóns S. Brjánssonar sem situr á Alþingi.

 

Embættið var auglýst laust til umsóknar í lok nóvember síðastliðinn og var Jóhanna Fjóla metin hæfust þeirra fjögurra sem sóttu um stöðuna, samkvæmt niðurstöðu lögskipaðrar hæfnisnefndar.

Jóhanna Fjóla  hefur starfað við Heilbrigðisstofnun Vesturlands frá því að hún var sett á fót árið 2010, áður sem framkvæmdastjóri hjúkrunar- og rekstrar og sem verkefnastjóri þróunar- og gæðamála. Hún var verkefnastjóri hjúkrunar árin 2000 – 2009 en fyrir þann tíma starfaði hún við Sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hún var m.a. hjúkrunarforstjóri um eins árs skeið.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Stofnunin veitir almenna heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vesturlands sem nær yfir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshrepp, Snæfellsbæ, Grundarfjarðarbæ, Helgafellssveit, Stykkishólmsbæ, Dalabyggð, Reykhólahrepp, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Árneshrepp og Húnaþing vestra. Þá annast stofnunin starfsnám í heilbrigðisgreinum og starfar í tengslum við háskóla á sviði fræðslumála heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðisvísindum.

,

Katrín skipar Steinunni Valdísi yfir jafnréttismálin

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa Steinunni Valdísi Óskarsdóttur skrifstofustjóra yfir nýrri skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu. Umsækjendur um embættið voru 30 talsins. Ráðgefandi hæfnisnefnd mat sex umsækjendur vel hæfa og var Steinunn Valdís ein þeirra.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla árið 2018. Árin 1986-1987 var Steinunn Valdís stjórnarráðsfulltrúi á launaskrifstofu fjármálaráðuneytis, borgarfulltrúi árin 1994-2007 og borgarstjóri í Reykjavík 2004-2006. Steinunn Valdís átti sæti á Alþingi 2007-2010. Frá 2011-2017 var hún sérfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu innviða í innanríkisráðuneytinu. Frá febrúar 2017 hefur hún starfað sem sérfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu ferðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Steinunn Valdís hefur víðtæka þekkingu á jafnréttismálum. Hún starfaði m.a. fyrir Kvenfélagasamband Íslands árin 1992-1998 og sem framkvæmdastjóri kvennaheimilisins Hallveigarstaða 1996-1998. Hún var borgarfulltrúi fyrir Kvennalistann og síðar Reykjavíkurlistann og sat á þeim tíma í jafnréttisráði. Hún var formaður jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar og formaður Svanna, lánatryggingarsjóðs kvenna um árabil.

Stefna í málefnum heilabilaðra

Svandís Svavarsdóttir  heilbrigðisráðherra hefur falið Jóni Snædal öldrunarlækni að móta drög að stefnu í málefnum fólks með heilabilun. Í þeirri vinnu verði lögð áhersla á þverfaglegt samstarf þjónustuveitenda og á samráð við sjúklingahópinn og aðstandendur fólks með heilabilun.

Svandís hefur ákveðið að heilbrigðisþjónusta við aldraða verði eitt af þeim málefnum sem hún muni í störfum sínum sem heilbrigðisráðherra leggja á sérstaka áherslu á þessu ári. Í þeirri vinnu verði áhersla lögð á heildarmyndina og það sem snýr að öldruðum sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, hvort heldur er á fyrsta, öðru eða þriðja þjónustustigi þess. Fyrir helgi átti ráðherra fund með sérfræðingum á sviði öldrunarlækninga á Landspítalanum og fleiri fundir eru áformaðir þar sem ráðherra mun m.a. kynna sér sjónarmið fagfólks sem starfar á sviði forvarna og endurhæfingar auk notenda þjónustunnar. Þessi vinna er meðal annars ætluð sem liður í undirbúningi aðgerðaáætlunar til fimm ára á grundvelli heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

Þjónusta við fólk með heilabilun er mikilvægur og vaxandi þáttur innan heilbrigðiskerfisins og lengi hefur verið kallað eftir því að mótuð verði heildstæð stefna um þjónustu við þennan sjúklingahóps sem fer stækkandi eftir því sem þjóðin eldist. Þá liggur fyrir ályktun Alþingis frá því í maí árið 2017  þar sem heilbrigðisráðherra var falið að ráðast í slíka stefnumótun.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það orðið aðkallandi að draga upp skýra stefnu um heilbrigðisþjónustu við fólk með heilabilun. Teikna þurfi upp hvernig núgildandi þjónustukerfi virkar, hverjar séu helstu brotalamirnar, hvaða breytingar þurfi að gera og hvernig megi stuðla að nýjungum til að bæta þjónustuna. Það sé fyrir hendi mikil þekking, en það þurfi að draga hana saman og setja fram sem stefnu með heildarsýn til lengri tíma litið: „Í stað þess að skipa nefnd eða starfshóp til að vinna þetta verk, ákvað ég að fela það einum manni. Jón Snædal öldrunarlæknir verður nokkurs konar ritstjóri stefnumótunarinnar í krafti þekkingar sinnar og reynslu og ég treysti honum til að leita fanga á breiðu sviði hjá fagfólki sem vel þekkir til og einnig að taka inn í þessa vinnu reynslu og þekkingu sjúklinganna sjálfra en ekki síður aðstandenda fólks með heilabilun.“

Þegar drög að stefnum í málefnum heilabilaðra liggja fyrir verða þau birt til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Stefnt er að því að það verði í byrjun júní næstkomandi.

Óverjandi launahækkun bankastjóra Landsbankans, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Forsætisráðherra gagnrýnir ákvörðun bankaráðs Landsbankans um að hækka laun bankastjórans og segir hana vera óverjandi og í engu samræmi við aðrar hækkanir á vinnumarkaði. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins kallar hækkunina óverjandi dómgreindarbrest og segir að hún sé slæmt innlegg í yfirstandandi kjaraviðræður.

Bankaráð Landsbankans hækkaði mánaðarlaun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra bankans, um 17 prósent í fyrra, eða sem nemur 550 þúsund krónum, og eru laun hennar nú 3,8 milljónir á mánuði. Þetta kom fram í Fréttablaðinu um helgina. Þar sagði ennfremur að laun hennar hafi nú hækkað um 82% frá 2017.

„Mér finnst þetta óskiljanleg ákvörðun hjá stjórn Landsbankans sem fékk tilmæli árið 2017 frá þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra um að gæta hófs í sinni starfskjarastefnu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. „Hér sjáum við 82% hækkun á launum þessa bankastjóra ríkisbankans frá árinu 2017. Sem er auðvitað úr takti við alla almenna launaþróun í samfélaginu. Langt umfram til dæmis umdeildar kjararáðshækkanir sem stjórnvöld hafa nú brugðist við. Við höfum lagt fram frumvarp um að laun æðstu embættismanna skuli héðan í frá vera fastbundin launaþróun á hinum opinbera markaði. Þannig að mér finnst þessi ákvörðun auðvitað vera úr öllum takti við bæði stefnu stjórnvalda og umræðu samfélagsins þar sem kjaraviðræður standa auðvitað yfir,“ segir Katrín.

Í starfskjarastefnu hins opinbera segir að laun skuli vera hófleg en samkeppnishæf. „Það þarf þá að spyrja þeirrar spurningar við hvern er þá verið að miða þegar talað er um samkeppnishæf laun því þessi laun eru til dæmis langt fyrir ofan fjármála- og efnahagsráðherra sem að fer með málefni bankanna í gegnum Bankasýslu ríkisins,“ segir forsætisráðherra. „Ég þekki ekki þann veruleika þar sem 82 prósenta launahækkun á þessum skamma tíma gæti talist hófleg,“ segir Katrín sem telur að taka þurfi starfskjarastefnuna til endurskoðunar. „Ef stjórn Landsbankans kýs að túlka hana svona þá þarf kannski að fastbinda hana miklu betur.“

Forsætisráðherra heimsækir miðstöð þolenda ofbeldis í Bjarkarhlíð.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Forsætisráðherra hitti starfsfólk og fékk greinargóða kynningu á starfsemi Bjarkarhlíðar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Starfsemi Bjarkarhlíðar er mikilvæg viðbót við þau úrræði sem í boði er fyrir þolendur ofbeldis. Nú hefur Bjarkarhlíð verið opin í tvö ár og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel henni hefur verið tekið og reynsla þeirra sem hafa leitað til Bjarkahlíðar er góð. Þarna er lögð áhersla á þverfaglega samvinnu lykilstofnana og samtaka í öruggu umhverfi þar sem konur og karlar á öllum aldri geta komið og fengið aðstoð og ráðgjöf, sér að kostnaðarlausu.“

Vinstri Græn þekkja Bjarkarhlíð vel, enda fór verkefnið af stað af frumkvæði Sóleyjar Tómasdóttur þáverandi borgarfulltrúa og er Elín Oddný​ þar nú varamaður í stjórn.

Markmið með stofnun Bjarkarhlíðar var að veita samhæfðan stuðning og ráðgjöf til þolenda ofbeldis, en auk þess stuðla að fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis og gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið í okkar samfélagi.

Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið. Bjarkarhlíð býður upp á fyrirlestra og námskeið um birtingarmyndir ofbeldis og afleiðingar þess. Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.

AFMÆLI – í dag eru 20 ár frá stofnfundi VG

20 ár eru í dag frá stofnfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík. Og það eru tveir dagar fram að afmælisveislu hreyfingarinnar sem fram fer á Grand Hótel í Reykjavík um helgina.  Árnaðaróskum rignir nú yfir forystu og starfsfólk VG, þar sem félagar hreyfingarinnar óska hreyfingunni langrar og bjartrar framtíðar.  Fyrsti formaður VG var Steingrímur J. Sigfússon, nú forseti Alþingis og núverandi formaður er Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.  Á annað hundrað manns hafa boðað komu sína í afmæli VG. Upplýsingar um afmælisfögnuðinn og flokksráðsfund má finna hér á heimasíðunni og á samskiptamiðlum.

Hér má sjá brot úr gamalli fundargerð frá því flokkurinn var á barnsaldri, árið 2003. Nú sextán árum síðar er Bjarni formaður ráðsins sem hann lagði til að yrði stofnað, eftir glæstan kosningasigur í sveitarstjórnarkosningunum í fyrravor.

 

  • Ársæll Guðmundsson fjallaði um sérstöðu VG í Skagafirði og lýsti eftir áhuga flokksforystunnar á því sem þar hefur verið að gerast. Þá hvatti hann til þess að stofnað yrði sveitarstjórnarráð innan hreyfingarinnar.
  • Bjarni Jónsson fjallaði einnig um sveitarstjórnarmál og minnti á að þar verða kosningar eftir 2 ár og tók undir þörfina fyrir samaráðsvettvang innan flokksins. ….. Þá bauð hann þeim sem hefðu áhuga á að ræða sveitarstjórnarmál til fundar í Skagafirði.

Fyrstu íbúar Seltjarnar flytja inn í mars

Stefnt er að því að fyrstu íbúar nýja hjúkrunarheimilisins á Seltjarnarnesi, sem hlotið hefur nafnið Seltjörn, geti flutt þar inn um 20. mars næstkomandi. Framkvæmdum við húsnæðið er nú lokið og afhenti Seltjarnarnesbær ríkinu heimilið fullbúið til rekstrar við hátíðlega vígsluathöfn um helgina.

Mikið var um dýrðir þegar afhending heimilisins og vígsla þess fór fram að viðstöddu fjölmenni. Gestum gafst kostur á að skoða húsið sem stendur við Safnatröð, vestast á Seltjarnarnesi í nábýli við Nesstofu. Húsið er á einni hæð og skiptist í fjórar heimilislegar einingar sem hver um sig er með hjúkrunaríbúðum fyrir tíu einstaklinga. Í húsinu er sameiginlegur miðlægur þjónustukjarni og þar er gert ráð fyrir að verði rekin 25 dagdvalarrými, til viðbótar hjúkrunarrýmunum fjörutíu.

Vigdísarholt ehf. sem er hlutafélag í eigu ríkisins mun annast rekstur hjúkrunarheimilisins en félagið rekur einnig hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi.

 

Þolraun hins rauðgræna forsætisráðherra Íslands

Yfirskriftin er titill viðtals sem tekið var á dögunum við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra í heimsókn hennar til Finnlands og birtist í Kansan Uutiset 2.2.2019 málgagni Vinstra græna bandalagsins Vänsterforbundet þar í landi.  Hér er lausleg þýðing og endursögn greinar og viðtals við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og einnig linkur á fréttina fyrir þá sem heldur kjósa að lesa finnsku.

 

„Þolraun hins rauðgræna forsætisráðherra Íslands“

 

Katrín Jakobsdóttir hjá Vinstri grænum fer fyrir ríkisstjórn þar sem borgaralegir flokkar eru í meirihluta

 • Katrín Jakobsdóttir er einstakt dæmi meðal forsætisráðherra í heiminum, rauðgrænn femínisti. En samsetning stjórnar hennar er einnig sérstæð.
 • Fjölmiðillinn fer yfir samsetningu ríkisstjórnar og að VG sé ekki einu sinni stærsti flokkurinn á þingi, skiptingu þingsæta og þá staðreynd að Íslendingar nota skírnarnafn.
 • Katrín viðurkennir í viðtalinu að samsetning ríkisstjórnarinnar veki blendnar tilfinningar meðal fólks og sé mjög sérstök.
 • En tímarnir á Íslandi hafa líka verið mjög sérstakir. Efnahagskreppa og pólitískur óstöðugleiki. Átta flokkar eru á þingi, fleiri en nokkru sinni fyrr.
 • Til marks um óstöðugleika má nefna að Katrín, sem var fyrst kosin á þing árið 2007, tók þátt í sínum fimmtu þingkosningum haustið 2017.

Ríkisstjórnarlausnin var ekki einföld

 • Að sögn Katrínar var sú lausn, sem varð ofan á, erfiðari fyrir Vinstri græn en Sjálfstæðisflokkinn. KJ segir lausnina hafa verið pragmatíska; grunnur sem hægt væri að ná árangri á.
 • “Helstu skilaboð okkar í kosningunum voru að nú væri komið að uppbyggingu opinberra innviða eða heilbrigðiskerfisins, samgöngukerfisins og menntamála. Ríkisstjórnin hefur setið í 14 mánuði og höfum við náð ýmsum málum í gegn sem ég er mjög stolt af.”
 • Katrín nefnir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, þróun heilbrigðiskerfisins og áætlun í húsnæðismálum þar sem rík áhersla er lögð á félagsleg búsetuúrræði.
 • En stjórnarsamstarfið hefur krafist málamiðlana.
 • – “Ég er oft spurð að því hvernig flokkur, sem er andvígur aðild að NATÓ, geti setið í ríkisstjórn í aðildarríki NATÓ. Við erum eini flokkurinn sem er andvígur NATÓ aðild. Ef við værum ekki tilbúin í málamiðlanir hefðum við aldrei átt neitt erindi í ríkisstjórn.”
 • VG hefur einu sinni áður setið í ríkisstjórn, þá með jafnaðarmönnum, sem var auðveldara fyrir VG.
 • Samkvæmt Gallupkönnunum hefur VG misst nokkurra prósenta fylgi og jafnaðarmenn hafa aftur komist fram úr.
 • “Gallup sýnir enn yfir 11 prósent sem er gott í sögulegu samhengi flokksins. Ég er ekkert sérstaklega áhyggjufull, þetta er langhlaup. Fólk hefur sagt sig úr flokknum og nýir skráð sig í hann.”
 • Katrín minnir á að á Íslandi sé ekki sama blokkakerfi og í Svíþjóð, Danmörku og Noregi – heldur samsteypustjórnir líkt og í Finnlandi.
 • – Mér finnst það vera merki um sjálfstæði að við gátum sagst fara í þessa stjórn og leitt hana. Þetta er þolraun fyrir flokkinn.

Heilbrigðismálin skipta kjósendur mestu máli

 • Hvers konar þolraun hefur forsætisráðherraembættið verið fyrir hina 42ja ára gömlu Katrínu?
 • –  ”Ég var mennta- og menningarmálaráðherra í kreppunni á árunum 2009-2013. Sá tími var mjög erfiður. Ég varð að skera niður á sviðum sem ég hefði viljað byggja upp. Hendur mínar voru bundnar allan tímann.”
 • – “Ég leiði ríkisstjórn sem er mjög sérstök og fæ gagnrýni fyrir. En a.m.k. maðurinn minn segir að þetta skipti sé ekki eins erfitt og hið fyrra. Ef til vill erum við fastari fyrir en í fyrra skiptið eða þá að það er meira jafnvægi í þjóðfélaginu. Ég held að það geti alvegi verið svo.”
 • Katrín segir að heilbrigðismálin hafi skipt kjósendur mestu máli í síðustu kosningum. Vinstri græn eru með þann málaflokk (Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra).
 • Katrín segir að uppbygging í heilsugæslu  sé í fyrsta sæti.
 • – Markmiðið er bætt aðgengi að þjónustunni og lægri kostnaður til lengri tíma litið. Útgjöldin á Íslandi eru hærri en gerist á hinum Norðurlöndunum.
 • Engin einkarekin sjúkrahús á Íslandi (350 000 íbúar). Bygging þriðja opinbera sjúkrahússins er á fjárlögum þessa árs.
 • – Að auki þarf að bæta geðheilbrigðisþjónustu sem hefur ekki verið lögð nægileg áhersla á. Á Íslandi er notkun þunglyndis- og kvíðastillandi lyfja meiri en gerist víða annars staðar og notkun þess konar lyfja hefur aukist.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og hvalveiðar

 • KJ tók þátt í norrænum loftslagsfundi í Helsinki í liðinni viku. Hún segir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar metnaðarfulla.
 • – Stefnt að minni umferðarmengun í fyrstu. Hugað að rafvæðingu í vegasamgöngum.
 • Tveir þriðju hlutar Íslendinga búa á suðvesturhorninu, í Reykjavík og nágrenni. Bættar almenningssamgöngur á þessu svæði heyra til forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar.
 • – KJ minnist á endurheimt votlendis (samningur við bændur frá því í janúar um að hluti ríkisstyrkja sé bundinn við aðgerðir í þá veru).
 • – Æ fleiri Íslendingum finnst að loftslagsmálin séu mikilvæg og að einmitt núna þurfi eitthvað að gerast. Árangur hefur náðst. Fiskveiðiflotinn hefur dregið úr losun úrgangs með nýrri tækni.
 • Ísland er eitt þriggja ríkja í heiminum sem stundar hvalveiðar í hagnaðarskyni. Í ár hafa íslensk yfirvöld gefið leyfi fyrir veiði 191 langreyða. Í fyrra var hrefnuveiði hætt í eitt hvalveiðitímabil
 • Hvalveiði er erfitt mál fyrir VG.
 • – Ég er sjálf gagnrýnin á hvalveiðar.
 • – Tilfinningamál fyrir Íslendinga; spurning um sjálfræði og rétt til að nýta eigin auðlindir. Nú erum við að reyna að áætla hver sé raunverulegt ástand hvalastofnsins umhverfis Ísland, segir Katrín.
 • – Andrúmsloftið hefur að mörgu leyti breyst. Á 9. áratugnum voru allir Íslendingar ennþá hlynntir hvalveiðum. Nú hafa fleiri áhuga á velferð dýra. Já, um þessi mál er töluvert rætt og menn hafa áhyggjur en ekki er hægt að segja að þetta sé eitthvert hitamál á Íslandi.

 

Lífið eftir efnahagskreppuna

 • Kreppan á Íslandi verst á árunum 2008-2011. Katrín segir að margir hlutir hafi breyst eftir það.
 • – Ef ég á að vera hreinskilin finnst mér að allar ríkisstjórnir eftir það hafi gert sitt og brugðist rétt við kreppunni.
 • Þegar kreppan skall á voru skuldir heimila, fyrirtækja og samfélaga miklar.
 • – Þetta hefur breyst núna og hugsunarhátturinn er allt annar.
 • – Helstu áhyggjurnar eru þær að hagvöxtur hafi verið helst til of hraður, á síðasta ári nam hann 7 prósentum. Nú er vöxturinn í rénum. Best væri að ná einhvers konar jafnvægi, hægari en stöðugum vexti.
 • Ferðaþjónusta hefur vaxið ört á Íslandi og er nú helsta útflutningstekjulindin. Næst á eftir kemur sjávarútvegur og álvinnsla.
 • – Við erum sem áður auðlindaþjóð sem byggir á orku og fiski, og ferðaþjónustan byggir einnig á auðlindum.
 • Að sögn Katrínar væri mikilvægast að hagkerfið yrði fjölbreyttara.
 • – Það þarf að hugsa um hagkerfið út frá annars konar sjónarhorni, ekki bara út frá vexti. Hagkerfið þarf í ríkara mæli að byggja á rannsóknum og nýsköpun sem eðli samkvæmt fela í sér fjölbreytileika, segir Katrín Jakobdóttir.

 

 

Innleiðing krabbameinsáætlunar hafin

Ísland er í fremstu röð þegar kemur að greiningu og meðferð krabbameina. Þann árangur getum við meðal annars þakkað vel menntuðu og hæfu fagfólki og öflugum sjúklingasamtökum.  Engu að síður má sökum fjölgunar íbúa og hækkandi aldurs þjóðarinnar búast við mikilli fjölgun einstaklinga sem greinast með krabbamein á næstu árum. Í ljósi þessarar þróunar hafa mörg vestræn ríki, þ.m.t. öll hin Norðurlöndin, sett fram krabbameinsáætlanir og hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefið út leiðbeiningar um gerð slíkra áætlana sem ætlað er að skerpa sýn, móta markmið og aðgerðir og stilla saman strengi allra hlutaðeigandi í baráttunni við krabbamein. Segja má að fyrstu skrefin í gerð íslenskar krabbameinsáætlunar hafi verið tekin þann 4. febrúar 2011, á  alþjóðadegi krabbameins í tilefni af 60 ára afmæli Krabbameinsfélags Íslands. En þá tilkynnti Guðbjartur Hannesson, þáverandi velferðarráðherra, að stefnt yrði að gerð íslenskrar krabbameinsáætlunar. Í kjölfarið fór fram undirbúningsvinna af hálfu Krabbameinsfélags Íslands og í ársbyrjun 2013 skipaði velferðarráðherra ráðgjafahóp sem falið var það hlutverk að móta stefnu og meginmarkmið á sviði forvarna og meðferðar vegna krabbameina til ársins 2020.

Fjöldi manns kom að gerð krabbameinsáætlunar, bæði beint og sem ráðgefandi aðilar en hópurinn var skipaður fulltrúum frá Landspítalanum, Heilsugæslunni, háskólasamfélaginu og frá sjúklinga- og aðstandendasamtökum auk þess sem hópurinn leitaði ráðgjafar hjá fjölmörgum aðilum sem hafa aðkomu að málaflokknum.

Ráðgjafahópurinn skilaði skýrslu með tillögu að íslenskri krabbameinsáætlun í júlí 2017. Lögð er rík áhersla á notendur heilbrigðisþjónustunnar í áætluninni og er undirtitill hennar Notendamiðuð þjónusta í öndvegi. Ekki hafði verið tekin formleg afstaða til innleiðingar þeirra verkefna sem sett eru fram í áætluninni fyrr en nú, en ég hef nú ákveðið að unnið verði að framkvæmd verkefna í samræmi við tillögur ráðgjafarhóps. Gildistími áætlunarinnar verður til ársins 2030, til samræmis við tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu sem nú liggur fyrir Alþingi.

Þó að við höfum ekki enn náð að sigrast á krabbameini þá hefur mikið áunnist á undanförnum áratugum. Forvörnum, greiningu og meðferð hefur fleygt fram og batahorfur þeirra sem greinast hafa batnað verulega. Það er mín sannfæring að krabbameinsáætlunin muni stuðla að enn betri árangri á komandi árum.

 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra