, ,

Langtímasýn um fjöregg þjóðarinnar.

Einn mesti auður Íslendinga felst í náttúru landsins. Hún er og hefur verið undirstaða velmegunar, atvinnulífs og afkomu þjóðarinnar um aldir. Þá hefur hún mikið aðdráttarafl fyrir þá sem vilja njóta þeirrar ómetanlegu fegurðar sem landslag, jarðmyndanir, gróður, lífríki og önnur undur íslenskrar náttúru hafa upp á að bjóða. Stöðugur og sívaxandi straumur ferðamanna á náttúrusvæðum landsins er ein skýrasta birtingarmynd þessa.

Öll höfum við notið góðs af þeirri hagsæld sem auknar heimsóknir ferðamanna hingað til lands hafa haft í för með sér. Á sama tíma er brýnt að gæta að því að aukið álag vegna heimsókna ferðamanna valdi því ekki að náttúran beri skaða af. Það þarf að gæta fjöreggsins af kostgæfni.

Nýrri landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, er einmitt ætlað að takast á við þetta verkefni. Drög að áætluninni voru lögð fram til kynningar á nýrri samráðsgátt Stjórnarráðsins á dögunum en um er að ræða stefnumarkandi áætlun til tólf ára sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt sem þingsályktun frá Alþingi síðar í vor. Samhliða áætluninni er einnig í kynningu þriggja ára verkefnaáætlun, þar sem settar eru fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti fjárstuðnings á árunum 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu. Einnig verður fjármagni veitt í að leiðbeina við gerð innviða svo þeir falli sem best að landslagi og náttúru.

Um tímamót er að ræða því þetta er í fyrsta sinn sem tekið er á auknu álagi á náttúru landsins af völdum aukins ferðamannaþunga með heildstæðum og samræmdum hætti og með langtímamarkmið að leiðarljósi. Þannig er áætluninni ætlað að veita yfirsýn yfir brýnustu verkefnin á þessu sviði og tryggja að því fjármagni sem ætlað er til innviðauppbyggingar sé varið með sem skilvirkustum hætti. Ég vil hvetja alla til að kynna sér drögin að lands­áætluninni á samradsgatt.island.is, en þar má einnig skila umsögnum til 26. febrúar næstkomandi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Viðtalstími – á Hallveigarstöðum

Þingmennirnir Kolbeinn Óttarsson Proppé og Una Hildardóttir, sem nú situr inni á þingi sem varamaður fyrir Ólaf Þór Gunnarsson, í SV-kjördæmi,  ræða stjórnmálin við gesti og gangandi í fyrsta viðtalstíma ársins í höfuðstöðvum Vinstri grænna á Hallveigarstöðum klukkan fimm í dag.  Viðtalstímar stjórnmálamanna verða fastir  liðir fram að sveitarstjórnarkosningum á hálfsmánaðarfresti.

Allir eru velkomnir að Túngötu 14, í dag þar sem færi gefst á að spyrja stjórnmálamennina um allt milli himins og jarðar.  Friðrik Dagur Arnarson, félagi í Vinstri grænum í Reykjavík, stjórnar umræðunum og sér til þess að gestir komi sínum málum að í umræðunum. 

, ,

Fundur á Selfossi um sveitarstjórnarmál í gær.

Ari Trausti Guðmundsson og Katrín Jakobsdóttir ræddu sveitarstjórnarmàl á góðum fundi á Selfossi í gærkvöld. Framtíð íslenskunar, samgöngumál, heilbrigðismál og menntamál voru meðal umræðuefna. Katrín fór hratt yfir sögu hvernig hún hefur farið úr 18. sæti á lista VG í borginni yfir í forsætisráðuneytið og hvatti fundargesti til þátttöku í sveitarstjórnum. Allt geti gerst í stjórnmálum og það sé það sem geri starfið svo skemmtilegt.

 

 

,

Fundur með Katrínu á Hótel Selfossi þriðjudagskvöldið 13. febrúar.

Vilt þú taka þátt í að móta þitt nærsamfélag?
Hefur þú áhuga á skipulagsmálum, fræðslumálum, menningarmálum, málefnum eldri borgara eða öðrum sveitarstjórnarmálum?
Við ætlum að hefja undirbúning fyrir sveitastjórnarkosningar og blásum til fundar þriðjudagskvöldið 13. febrúar kl. 20:30 á Hótel Selfoss.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra verður gestur fundarins og ætlar að segja frá sínum afskiptum af sveitastjórnarmálum og hvernig við getum öll haft áhrif.
Fundarstjóri: Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG í Suðurkjördæmi.
Vertu með í að móta framtíðina.
Öll velkomin!

Ný stjórn VG í Kópavogi

Einar Ólafsson, er formaður VG í Kópavogi eftir aðalfund sem haldinn var í Auðbrekku í gær. Aðrir í stjórn eru Amid Derayat, Gísli Baldvinsson, Margrét Sigríður Sigbjörnsdóttir og Rósa Björg Þorsteinsdóttir. Varamenn eru Ásta Kristín Guðmundsdóttir og Helgi Hrafn Ólafsson.  Þingmenn kjördæmisins, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Ólafur Þór Gunnarsson, mættu á aðalfundinn í Auðbrekku gærkvöld og ræddu stjórnmálin og farið var yfir sveitarstjórnarmálin í aðdraganda kosninganna í vor.

 

 

 

 

Þingflokkur heimsótti Rauða Krossinn

Þingflokkur VG fór á fund Rauða Krossins í höfuðstöðvum Rauða Krossins á Íslandi við Efstaleiti í gær.  Til umræðu var fjölþætt starf Rauða Krossins út um allan heim, með áherslu á stríðshrjáð svæði á borð við Sýrland, Jemen, Suður-Súdan og Sómalíu. En meginþunginn var að fara yfir stöðu flóttamanna, bæði kvótaflóttamanna og hælisleitenda á Íslandi. Margt þarf að gaumgæfa til að mannúðarsjónarmið fái að ráða för í meðferð þessa viðkvæma málaflokks. Einnig var rætt um áhrif loftslagsbreytinga á flóttamannamál, en búist er við að fjöldi fólks á vergangi muni margfaldast á næstu áratugum vegna loftslagsbreytinga. Fundurinn var gagnlegur fyrir bæði þingflokk og ráðherra sem komu út mun fróðari um þetta mikilvæga málefni.

Viltu fara í framboð fyrir VG í Reykjavík?

Framboðsfrestur til 3. febrúar.

Vinstri græn í Reykjavík auglýsa eftir framboðum áhugasamra sem vilja taka sæti á framboðslista VG í Reykjavík.  Jafnframt er óskað eftir tillögum um fólk á framboðslista. Frestur til að skila inn framboðum og tillögum rennur út 3. febrúar, svo um tvær vikur eru til stefnu til að skella sér í slaginn.  Kosið verður rafrænt 24. febrúar og er það í fyrsta sinn sem rafrænt forval fer fram fyrir kosningar innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. (en staðbundin kosninga í kassa verður líka í boði) Kosið verður í fimm efstu sætin.  Kynning á frambjóðendum fer fram á opnum fundi VG í Reykjavík, laugardaginn 10. febrúar. Steinar Harðarson, formaður VG í Reykjavík, ritaði eftirfarandi bréf sem sent var út á póstlista Reykjavíkurfélagsins.

 

Kæri félagi,

Nú hefjum við undirbúning borgarstjórnarkosninga  í Reykjavík sem fara munu fram þann 26. maí nk. Félagsfundur Vinstri grænna í Reykjavík ákvað fimmtudaginn 18. janúar s.l. að fela fimm manna kjörnefnd að sjá um forval þar sem valið yrði í 5 efstu sæti framboðslista Vinstri grænna og gera tillögu til félagsfundar að uppstillingu í önnur sæti listans.

Forvalið verður framkvæmt með rafrænni kosningu og fer fram 24. febrúar. Þau sem ekki sjá sér fært að kjósa rafrænt munu þó geta kosið með hefðbundnum hætti. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og framkvæmd forvalsins verða auglýstar þegar framboðsfresti lýkur. Tillaga kjörnefndar verður lögð fyrir félagsfund til afgreiðslu í mars.

Í samræmi við reglur hreyfingarinnar um forval auglýsir kjörnefnd hér með eftir þeim sem áhuga hafa á að taka sæti á lista og kallar jafnframt eftir uppástungum um fólk á framboðslista. Tekið er á móti framboðum frá áhugasömum félögum og uppástungum um frambjóðendur í netfanginu: hugmyndir@vgr.is en einnig er hægt að senda bréf til kjörnefndar VGR 2018, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík. Frestur til að skila inn framboðum og uppástundum er til 3. febrúar nk.

Frambjóðendur þurfa að gera grein fyrir sér, t.d. með heimilisfangi, starfsheiti, netfangi eða símanúmeri. Það sama gildir um þá sem stungið er upp á. Hver félagi getur stungið upp á eins mörgum nöfnum og vilji er til og sent inn hugmyndir oftar en einu sinni fyrir tilskilinn tíma. Hvert nafn verður aðeins skráð einu sinni á blöð kjörstjórnar.

Stjórn félagsins vill einnig nota tækifærið til að minna félagsmenn á að greiða félagsgjöldin sem fyrst og bregðast vel við þegar hreyfingin kallar eftir sjálfboðaliðum og framlögum í kosningasjóð.  Í aðdraganda kosninga er mikilvægt að fjárhagur félagsins sé sterkur og að við stöndum saman að því að vinna stefnumálum Vinstri grænna brautargengi. Margar hendur vinna létt verk og eru öll framlög vel þegin.

Einnig óskar stjórnin eftir upplýsingum um breytt heimilisfang, símanúmer og ekki síst netfang því réttar upplýsingar eru nauðsynlegar til að samskiptin milli stjórnar félagsins og félaga verði eins og best verður á kosið. Jafnframt eru þeir félagar sem ekki hafa skráð netfang sitt í félagaskrá VGR, en vilja fá tölvupóst frá félaginu, hvattir til þess að ská netfang sitt á heimasíðu hreyfingarinnar, www.vg.is. Það er sérstaklega mikilvægt á kosningaári að stjórn félagsins nái örugglega til sem flestra félaga.

Baráttukveðjur, X-V í vor!

 

Steinar Harðarson, formaður VGR