Bjarni Jónsson, leiðir VG og óháða í Skagafirði

Framboðslisti VG og óháðra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018

 1. Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi, Sauðárkróki
 2. Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari, Sauðárkróki
 3. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, sölumaður Atlantic leather, Sauðárkróki
 4. Valdimar Óskar Sigmarsson, bóndi, Sólheimum
 5. Auður Björk Birgisdóttir, hárgreiðslumeistari og eigandi Infinity Blue, Grindum
 6. Inga Katrín D. Magnúsdóttir, starfsmaður Byggðasafns Skagfirðinga, Varmahlíð
 7. Úlfar Sveinsson, bóndi, Ingveldarstöðum
 8. Hildur Þóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Pure natura og Álfakletts ehf., Ríp
 9. Ingvar Daði Jóhannsson, húsasmíðameistari og eigandi Haf og Land ehf., Hofsósi
 10. Helga Rós Indriðadóttir, óperusöngkona og söngstjóri, Varmahlíð
 11. Sigurjón Þórðarson, líffræðingur, Sauðárkróki
 12. Jónas Þór Einarsson, sjómaður, Hofsósi
 13. Björg Baldursdóttir, fv. kennari, Hátúni
 14. Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, ráðgjafi, Sauðárkróki
 15. Ingibjörg H. Hafstað, bóndi, Vík
 16. Steinar Skarphéðinsson, vélstjóri, Sauðárkróki
 17. Sigurlaug Kristín Konráðsdóttir, grunnskólakennari, Sauðárkróki
 18. Heiðbjört Kristmundsdóttir, lífeindafræðingur, Sjávarborg
,

Ávarp forsætisráðherra á ársfundi samtaka atvinnulífsins.

Miklu skipti að stjórnvöld, atvinnurekendur og verkalýðshreyfing leiti leiða til að auka stöðugleika. „Þar sem efnahagsleg hagsæld er sem mest er líka mest áhersla á félagsleg gæði og jöfnuð. Þannig að ég legg áherslu á að við nýtum þá mánuði sem eru framundan til þess að ná saman um það hvert við viljum stefna í þessum málum þannig að við tryggjum áfram hagsæld en líka félagslegar framfarir,“ sagði Katrín á ársfundi samtaka atvinnulífsins.

Framboðslisti VG og óháðra í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018.

Framboðslisti VG og óháðra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjanesbæ var samþykktur á félagsfundi í Keflavík í gærkvöld.

 1. Dagný Alda Steinsdóttir, innanhúsarkitekt
 2. Áslaug Bára Loftsdóttir, verkefnastjóri
 3. Þórarinn Steinsson, yfirverkstjóri
 4. Ragnhildur Guðmundsdóttir, kennari og námsráðgjafi
 5. Karl Hermann Gunnarsson, tæknifræðinemi
 6. Linda Björk Kvaran, líffræðingur
 7. Pálmi Sturluson, öryrki
 8. Oddný Svava Steinarsdóttir, nemi listaháskólinn
 9. Þorvarður Brynjólfsson, læknir
 10. Júlíus Júlíusson, félagsliði
 11. Gunnhildur Þórðardóttir, myndlistarmaður
 12. Gunnar Marel Eggertsson, skipasmíðameistari
 13. Ása Rakel Ólafsdóttir, þjónustufulltrúi
 14. Guðbjörg Skjaldardóttir, sérfræðingur
 15. Sigurður Guðjón Sigurðsson, verkefnastjóri
 16. Ægir Sigurðsson, jarðfræðingur
 17. Þórunn Friðriksdóttir, félagsfræðingur
 18. Hólmar Tryggvason, húsasmíðameistari
 19. Ragnar Þór Ágústson, kennari á eftirlaunum
 20. Agnar Sigurbjörnsson, verkamaður
 21. Gunnar Sigurbjörn Auðunsson verkamaður og bóndi

Allir velkomnir að ræða fjármálaáætlun.

Vinstri græn í Reykjavík boða til opins fundar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar nk. fimmtudagskvöld (12. apríl) klukkan 19:30. Fundurinn, sem er öllum opinn, verður haldinn í Kosningamiðstöð VG í Þingholtsstræti 27.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur kynnti nýlega fjármálaáætlun fyrir 2019-2023. Í henni felst að ríkisstjórnin áformar að auka árleg ríkisútgjöld um 85 milljarða króna fram til ársins 2023 til viðbótar við þá 47 milljarða aukningu sem varð með fyrstu fjárlögum ríkisstjórnarinnar.

Á fundinum nk. fimmtudag mun Katrín Jakobsdóttir ásamt Kolbeini Óttarssyni Proppé, þingmanni VG, fara yfir helstu áherslupunkta áætlunarinnar og rökstuðning.

 

Fundinum verður streymt á facebook síðu VG.

Stjórn VG í Reykjavík

Frambjóðendur VG í Víkingaheimum

Framboðslistar VG víða um land og blandaðir listar með öflugri þátttöku VG enn víðar hafa litið dagsins ljós síðustu vikurnar. Og í kvöld verður listi lagður fram til samþykktar í Reykjanesbæ.

Um helgina hittast frambjóðendur VG í Víkingaheimum í Reykjanesbæ og skipuleggja sóknina í kosningabaráttunni framundan. Sveitarstjórnarráðstefnan er ætluð frambjóðendum VG,  til að efla baráttuna. Þeim til halds og trausts verða á staðnum, forsætisráðherra, þingmenn, formenn félaga og kosningastjórar.  Dagskrá sveitarstjórnarráðstefnunnar miðar að því að varpa ljósi á mál sem varða sveitarstjórnarstigið og þá sem starfa við stjórn þess.

 

SVEITARSTJÓRNARRÁÐSTEFNA 14. APRÍL 2018

VÍKINGAHEIMUM, REYKJANESBÆ

 

 

AÐALDAGSKRÁ

 

         10.00          Fundarstjóri setur fundinn

        

10:05          ,,Alþjóðavæðing, markaðsvæðing menntunar og félagslegt réttlæti“ – Auður Magndís Auðardóttir og Eva Harðardóttir, aðjúnktar og doktorsnemar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands

 

10:45          ,,Að mynda meirihluta“ – Guðrún  Ágústa Guðmundsdóttir

 

10:55          ,,Að starfa í meirihluta“ – Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti lista VG í Reykjavík

 

11:05 – 15 mínútna kaffihlé

 

11:20          ,,Erindi frá grunnskólakennurum“ – Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, nýkjörinn formaður Félags grunnskólakennara

 

11:50          ,,Áskoranir leikskólastigsins“ – Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara

 

12:20 – HÁDEGISMATUR

Í hádeginu verður hægt að kaupa súpu á staðnum. Eftir hádegismat er opinn tími sem er tilvalið að nýta til að funda með og kynnast sveitarstjórnarfólki víða af landinu, klára frambjóðendamyndatöku og annað.

        

14:00          Sveitarstjórnir fyrir láglaunafólk – Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

 

14:20          ,,Blái herinn“ – Tómas J. Knútsson segir frá verkefninu

 

14:40          Fulltrúar VG í sveitarstjórnum halda nokkur 5 mínútna erindi um verkefni í okkar anda sem vel hafa tekist.

 

         15:00          Kynning frá sveitarstjórnarráði

 

15:10          Umræður um sameiginlegar áherslur

,

Öflugra heilbrigðiskerfi

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður rædd í þinginu í dag og á morgun. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára er nú lögð fram á alþingi í þriðja sinn á grundvelli laga nr. 123/2015 um opinber fjármál. Áætlunin endurspeglar þær áherslur sem lagðar eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í áætluninni er brugðist við ákalli samfélagsins um að fjármagna betur mikilvæga samfélagsþjónustu og innviði velferðarkerfisins.

Útgjöld til reksturs heilbrigðismála aukast umtalsvert samkvæmt nýju fjármálaætluninni. Miðað við fjárlög yfirstandandi árs aukast útgjöld til heilbrigðismála um 79 milljarða króna alls á næstu fimm árum. Stofnkostnaður, m.a. vegna byggingaframkvæmda, verður 101 milljarður á tímabilinu. Stefnt er að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabili fjármálaáætlunar, þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum.

Meðal verkefna tímabilsins er gerð heilbrigðisstefnu, að skapa aðstæður fyrir aukna göngudeildarþjónustu á Landspítala auk áframhaldandi framkvæmda við spítalann. Þar á meðal eru byggingaframkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut sem hefjast á þessu ári.

Framlög til geðheilbrigðismála verða aukin á tímabilinu og komið verður upp geðheilsuteymum um allt land í samræmi við aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum.

Þá verður unnið á markvissan hátt að því að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar og efla hana sem fyrsta viðkomustað. Fyrirkomulag sjúkraflutninga verður tekið til endurskoðunar í samræmi við þarfagreiningar, og áhersla lögð á öryggi og gæði þjónustunnar.

Hjúkrunarrýmum verður fjölgað um 300 frá fjármálaáætlun síðastliðins árs.
Skimun vegna ristilskrabbameins mun hefjast á tímabilinu og áfram verður stutt við heilsueflandi samfélög. Unnið verður að því að bæta aðgang almennings að nauðsynlegum lyfjum. Þá verður aðgangur þeirra er nota vímuefni í æð að hreinum sprautubúnaði tryggður og ráðist í aðgerðir til að sporna við misnotkun á geð- og verkjalyfjum. Neyslurými fyrir langt leidda fíkniefnaneytendur verður opnað. Stefnt verður að því að bæta aðgengi að hormónatengdum getnaðarvörnum og að dreifa smokkum gjaldfrjálst til tiltekinna hópa. Kynfræðsla verður aukin og fjarheilbrigðisþjónusta efld.

Rauður þráður í þeim köflum fjármálaáætlunar sem varða heilbrigðisþjónustu er styrking hins opinbera heilbrigðiskerfis. Öflugt opinbert heilbrigðiskerfi er ein af grunnstoðum velferðarkerfisins og við munum leggja ríka áherslu á að efla hið opinbera kerfi, með það að markmiði að auka jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist 11 apríl í Morgunblaðinu

Það á að vera gott að búa í Hafnarfirði

Undanfarið hefur mátt lesa um trausta fjárhagsstöðu bæjarins, viðsnúning í rekstri og því er haldið sérstaklega á lofti að álögur bæjarins hafi verið lækkaðar. Það sem hér hefur verið nefnt tengist fyrst og fremst hagvexti, sem einskorðast ekki við Hafnarfjörð, og allir en ekki aðeins útvaldir eiga að geta notið.

En hvað er það sem skiptir máli fyrir íbúa Hafnarfjarðar?

Skiptir það  t.d. meira máli að fá nokkur hundruð króna lækkun á álögur á hvern íbúa en að hér sé veitt sjálfsögð og lögbundin þjónusta?

Skiptir það almennt máli að hér búa Hafnfirðingar sem eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði  eða skiptir það bara máli fyrir þá sem um ræðir?

Skiptir það máli að barnafólk sem flytur hingað úr öðrum sveitafélögum kemur börnunum sínum seinna inn á leikskóla en ef það hefði ekki flutt og að þess séu dæmi að foreldrar þurfi að reiða sig á barnapössun hjá skyldmennum til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og þess að fá leikskólapláss?

Skiptir það okkur máli að í Hafnarfirði er skortur á úrræðum fyrir eldri borgara sem þurfa á nauðsynlegri aðstoð að halda?

VG vill að lögð verði áhersla á að eyða biðlistum eftir sjálfsagðri þjónustu því annað er brot á jafnrétti og lögbundinni skyldu sveitarfélaga.

Hafnarfjörður hefur allt sem þarf til að íbúum geti liðið vel. Sem dæmi má nefna að hér eru góðir leik- og grunnskólar og tveir öflugir skólar fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri.

Hér er iðandi menning, blómlegt íþrótta- og tómstundastarf  og nánast hægt að sækja allar nauðsynjar og  þjónustu innan bæjarmarka.

Það á að vera gott að búa í Hafnarfirði fyrir okkur öll  en það verður ekki fyrr en við leggjum áherslu á að sinna betur innviðum bæjarins. Þá fyrst getum við sagt að bærinn sé í allra fremstu röð sveitafélaga og að hér sé gott að búa.

Gerum betur – kjósum VG

Kristrúnu Birgisdóttir skipar þriðja sæti á lista VG í Hafnarfirði

 

Börnin okkar dýrmætu og skólakerfið

Nær daglega berast fréttir af vaxandi vandamálum tengdum skólakerfinu. Kennaraskortur er yfirvofandi og starfandi kennarar flosna upp úr starfi m.a. vegna álagstengdra veikinda og lágra launa. Af þessum sökum næst ekki að manna stöður með menntuðum

kennurum og störfum kennara er sinnt í auknum mæli af leiðbeinendum í þeirra stað.

Í nýlegri skýrslu Menntamálastofnunar um uppgefnar ástæður brotthvarfs úr framhaldsskólum má sjá að meginástæður þess að nemendur á skólaskyldualdri hættu í námi voru andleg veikindi, áhugaleysi og brottrekstur vegna brots á mætingareglum. Dæmi eru um að nemendur á grunnskólaaldri mæti ekki í skólann vegna veikinda og/eða vegna óútskýrðra fjarvista sem í einhverjum tilvikum má rekja til áhugaleysis, en það síðarnefnda ætti í engum tilvikum að viðgangast án þess að afhafst sé í málinu. Orsök kvíða eða áhugaleysis hjá nemendum má rekja til ýmissa þátta svo og vandamála sem tengjast kennaraskorti. Til að mæta ólíkum þörfum grunnskólabarna þarf klárlega að auka stuðning við kennara.

Algerlega er nauðsynlegt að tryggja öllum börnum tækifæri strax í fyrsta bekk kennslu í lífsleikni þar sem unnið er með þætti eins og samskipti, samúð, sjálfstraust, framkomu og aðra þætti sem ýta undir seiglu og sterkari sjálfsmynd. Frá upphafi þarf að tryggja að lögð sé áhersla á styrkleika nemenda og að allir hafi aðgang að fjölbreyttu námi og kennsluaðferðum sem henta hverjum og einum. Leggjum áherslu á að börn fái að prófa sem mest til að útvíkka áhugasvið þeirra. Aðstoðum þau við að velja sér nám að loknum grunnskóla með því t.d. að gefa þeim tækifæri á áhugasviðskönnun og hætta að tala niður iðnmenntun.

Hvernig förum við að þessu?

Það þarf að gera kennarastarfið og störf annara er koma að uppeldi barna eftirsóknarverðara. Það þarf að meta fólk að verðleikum og hafa að leiðarljósi að börnin eru okkar dýrmætasta auðlind. Sýnum því ást og umhyggju okkar fyrir þeim í verki, ekkert skiptir meira máli. Það þarf að tryggja aðgengi barna að námsráðgjöfum, sálfræðiþjónustu, þroskaþjálfum og iðjuþjálfum innan skólanna. Það þarf að stórefla náms- og starfsfræðslu sem mörg börn verða af þrátt fyrir að um sé að ræða lögbundna þjónustu. Auka þarf framboð á verklegum greinum í grunnskóla og hafa vinnusmiðjur þannig úr garði gerðar að börnum séu fundin verkefni sem hvetja þau áfram og kveikja þeim. Það þarf að ýta undir samskipti í raunheimum þ.e. að börn læri að tala hvort við annað, taki eftir hvert öðru, læri að setja sig í spor annarra og hafi gaman af og njóti samskipta sem eiga sér stað annarsstaðar en í rafrænum heimi. Þá þarf að sjá til þess að börn stundi námið sitt og mæti í skólann. Það er barnaverndarmál ef börn hætta að mæta í grunnskóla. Tryggja þarf stuðning heim til þeirra sem þess þurfa, þ.e. styðja forráðamenn sem ekki hafa tök á að sinna börnum sínum sem skyldi og stórauka aðstoð til fjölskyldna sem hafa ekki íslensku sem fyrsta mál. Þá er afar mikilvægt að tryggja að öll börn njóti sömu réttinda þegar kemur að hlutum sem eiga að vera sjálfsagðir s.s. heitur matur í hádeginu þeim algerlega að kostnaðarlausu, að öllum standi til boða að stunda í það minnsta eina tómstund án kostnaðar og leggja þarf mikla áherslu á að það skapist samfella milli skóla og frístunda. Fjárfestum í skólakerfinu og mikilvægustu auðlind okkar, börnunum, það mun án nokkurs vafa skila sér í hamingjusamari nemendum og betri sýn barna okkar á lífið og framtíð sína.

Elsa Sigríður Þorvaldsdóttir iðjuþjálfi, með MA í heilbrigðisvísindum og skipar sjöunda sæti VG í Hafnarfirði.

,

Kveðjur heilbrigðisráðherra til ljósmæðra og BHM

Heilbrigðisráðherra sagði í umræðum á Alþingi í gær að hún teldi vinnuframlag ljósmæðra sérstaklega mikilvægt og það beri að meta að verðleikum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var spurð að því í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort hún „telji starfs- og kjaraumhverfi ljósmæðra ásættanlegt og eðlilegt með tilliti til sex ára háskólamenntunar og mikillar sérhæfingar og hvort brugðist verði við af hálfu stjórnvalda, hvernig það verði gert og hvort eitthvert viðbúnaðarplan sé til staðar ef ekki semst.” Í svari sínu sagði ráðherra meðal annars að hún væri þeirrar skoðunar að meta eigi vinnuframlag ljósmæðra til launa og til samfélagslegrar virðingar: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að vinnuframlag og starf ljósmæðra væri sérstaklega mikilvægt. Þarna er um að ræða kvennastétt sem sinnir konum á gríðarlega dýrmætum og mikilvægum tíma í lífi þeirra og mér finnst að það eigi að meta að verðleikum.“ Ráðherra sagðist enn fremur hafa beitt sér í máli ljósmæðra í gegnum forstjóra Landspítalans, til að freista þess að gera það sem hægt sé til að bæta starfsumhverfi og mögulega vaktaumhverfi ljósmæðra. Það hefði verið gert og því spilað inn í kjaraviðræðurnar og vonandi gæti það orðið til að leysa þessa viðkvæmu deilu.

Í dag sendi Ljósmæðrafélag Íslands og Bandalag háskólamanna frá sér yfirlýsingu þess efnis að heilbrigðisráðherra hefði sent þeim kaldar kveðjur í fyrrnefndum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem fallið hefðu orð sem mætti skilja þannig að ráðherra teldi ljósmæður geta sjálfum sér um kennt að þær lækki í launum við að bæta við sig í námi.

„Yfirlýsing ljósmæðra og BHM er að mínu mati bæði óskiljanleg og tilhæfulaus og ég hafna þeirri túlkun á mínum orðum sem þar kemur fram“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Ég ber hag heilbrigðisstétta fyrir brjósti, ljósmæðra sem annarra, enda veit ég að gott heilbrigðiskerfi verður ekki rekið nema þessar stéttir njóti sannmælis, virðingar og launa í samræmi við ábyrgð og mikilvægi starfa þeirra.“

Heilbrigðisráðherra minnir á yfirlýsingu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra sem birt var 12. febrúar síðastliðinn í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna: „Áherslur stjórnvalda og vilji þeirra til að styrkja heilbrigðiskerfið með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu verða varla skýrari en þar kemur fram“ segir ráðherra.