1. maí blað VG í Vestmannaeyjum

Vinstri græn í Vestmannaeyjum hafa löngum verið öflug í blaðaútgáfu og gáfu út 1. maí blað í gær, í tilefni af baráttudegi verkalýðsins. Meðal greinahöfunda eru Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður Suðurkjördæmis. Blaðið má finna hér.

Fiskeldi, heilbrigði og ný stjórn á Akureyri.

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Vinstri grænna á Akureyri síðasta vetrardag. En á fundinum var fleira gert, því samþykktar voru ályktanir um mikilvæg pólitísk mál, annarsvegar um heilbrigðismál, sjúkrahúsþjónustu fyri rnorðan og hinsvegar um fiskeldi. Ályktanirnar fylgja hér með. Nýju stjórnina má finna undir svæðisfélögum, en formaður er Ólafur Kjartansson.

 

Ályktun um heilbrigðismál

Aðalfundur Vinstri grænna á Akureyri og nágrenni haldinn 19. apríl 2017 hvetur Heilbrigðisstofnun Norðurlands (að gefnu tilefni) til að standa vörð um og efla allt heilsuverndarstarf við íbúa Norðurlands, einkum foreldravernd, ungbarnavernd, geðvernd, tannvernd og almenna heilsuvernd unglinga og aldraðra.

Fundurinn ályktar einnig að auka þurfi sem fyrst húsakost og sérhæfðan mannafla Sjúkrahússins á Akureyri samhliða uppbyggingu og eflingu Landspítalans í Reykjavík til að gæði sjúkrahúsþjónustu  haldist í hendur norðan lands og sunnan og verði í samræmi við nútíma kröfur til þjónustu sjúkrahúsa á öðrum Norðurlöndum. Aðalfundurinn skorar því á íslensk stjórnvöld að hefja nú þegar undirbúning að nýbyggingu fyrir lyflækningadeild, skurðlækningadeild og geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri samkvæmt frumáætlun Velferðarráðuneytis frá því í september 2015, í stað þess að þessu verki verði frestað til ársins 2020 eins og ráðgert er í nýrri fimm ára fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar.

 

Ályktun um sjókvíaeldi

Aðalfundur Vinstri grænna á Akureyri og nágrenni haldinn 19. apríl 2017 mótmælir fiskeldi í opnum kvíum á sjó við landið. Fundurinn minnir að hér gildir sk. varúðarregla er kemur að umhverfismálum og þá staðreynd að þekking okkar á vistkerfi hafsins er mjög takmörkuð. Fundurinn hafnar framkomnum hugmyndum um fiskeldi í sjó í Eyjafirði og bendir á að Norðurland, allt frá Horni austur að Vopnafirði, er lokað fyrir fiskeldi í sjó. Það hlýtur að teljast furðulegt í meira lagi að þar sé Eyjafjörður undanskilin.

Vori fagnað með VG

VG kveður veturinn og gott vetrarstarf í veislusal Hallveigarstaða á Túngötu 14.   Nýliðar í hreyfingunni eru boðnir  sérstaklega velkomnir til að fagna Vinstra grænu vori. Katrín Jakobsdóttir formaður VG kynnir starfið á léttu nótunum og segir frá því hvernig hægt er taka virkan þátt í uppbyggilegri og skemmtilegri pólitík.   Nýir félagsmenn segja frá því hvers vegna þeir ákváðu að ganga til liðs við Vinstri græn.  Nýir formenn svæðisfélaga verða til viðtals í alvöru og gamni.  Að lokum verða léttar veitingar í boði og við vonumst til að sjá ykkur sem flest.  Skemmtunin er barnvæn og það verður táknmálstúlkur á staðnum.

 

VG Árnessýslu: – Framundan á Suðurlandi

Fyrsta starfsári nýs VG félags í Árnessýslu er senn að ljúka og í lok starfsársins verða haldnir tveir fundir í sýslunni, sem allir eru velkomnir á. Annar er opinn fræðslufundur með Ara Trausta Guðmundssyni, þingmanni sunnlendinga, um eldgos og óróa af ýmsu tagi, en hitt er aðalfundur félagsins eftir fyrsta starfsárið. Hér að neðan er bréf frá formanninum Almari Sigurðssyni á Lambastöðum.

 

Kæri félagsmaður VG í Árnessýslu!

Nú er senn að ljúka fyrsta starfsári VG í Árnessýslu. Ýmislegt er búið að gera á þessu starfsári. Má þar nefna þátttaka og vinna vegna þingkosninga 2016, jólafundur í Hjarðarbóli með Ara Trausta og fundur með Katrínu Jakobsdóttur, Svandísi Svavarsdóttur og Ara Trausta í Flugminjasafninu á Selfossflugvelli í janúar. Í lok þessa starfsárs ætlum við að halda tvo fundi.

Fundur með Ara Trausta í Hjarðarbóli, Ölfusi, 20. apríl kl. 20:00

Fundarefni er eldgos, jarðfræði og stjórnmál.

Ari Trausti ætlar að reyna að svara spurningunni, „Hvar gýs næst“? Verður það Hekla, Katla, Bárðarbunga eða stjórnarráðið?

Aðalfundur VG í Árnessýslu verður haldinn í Skaftholti, Skeiða- og Gnúpverjahreppi 27. apríl kl. 20:00.

Dagskrá fundar, venjuleg aðalfundarstörf.

Björg Eva framkvæmdastjóri Vinstri grænna mætir á aðalfundinn og segir okkur frá innra starfi flokksins og flokksskipulagi.

Við vonumst til að sjá sem flesta á fundunum tveimur sem eru nú á næstu dögum.

Virðingarfyllst Almar Sigurðsson, formaður VG í Árnessýslu.

Sigríður Gísladóttir nýr formaður VG á Vestfjörðum

Aðalfundur VG á Vestfjörðum fór fram á Ísafirði mánudaginn 3. apríl. Hafði það verið auglýst að Katrín Jakobsdóttir og Björg Eva Erlendsdóttir, formaður og framkvæmdastjóri yrðu á fundinum ásamt Lísu Kristjánsdóttur, aðstoðarmanni Katrínar. Hugðust þær taka seinnipartsflugið vestur. Sú heimsókn náði þó ekki lengra en svo að flugvélin hringsólaði yfir Ísafjarðardjúpi áður en ákveðið var að snúa henni við – um 90 mínútum eftir að hún hafði tekið á loft. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Norðvesturkjördæmis og Súgfirðingur með meiru lét sig þó ekki vanta. Góð mæting var á fundinum, sem haldinn var í Edinborgarhúsinu, en kosið var í nýja stjórn félagsins og sendi fundurinn frá sér nokkrar ályktanir. Guðný Hildur Magnúsdóttir, sem leitt hefur starfið á norðanverðum Vestfjörðum undanfarin ár, sóttist ekki eftir endurkjöri. Nýr formaður er Sigríður Gísladóttir, dýralæknir á Ísafirði. Sigríður hefur komið víða við í starfi VG, en hún var m.a. í 3. sæti á lista VG í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum 2014 og var kosningastjóri í Norðvesturkjördæmi haustið 2016. Við þökkum Guðnýju fyrir velunnin störf og bjóðum Sigríði velkomna til starfa! Ný stjórn, í heild sinni er eftirfarandi:

Sigríður Gísladóttir, formaður
Ágústa Guðmundsdóttir, gjaldkeri
Jóna Benediktsdóttir, ritari
Svava Rán Valgeirsdóttir, meðstjórnandi
Gígja S. Tómasdóttir, meðstjórnandi

Varamenn:
Þormóður Logi Björnsson
Guðný Hildur Magnúsdóttir

Aðalfundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:

Aðalfundur svæðisfélags Vinstri Grænna á Vestfjörðum haldinn 3. apríl 2017 á Ísafirði sendir frá sér eftirfarandi ályktanir:

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum ætlast til að stjórnvöld standi við gefin loforð um uppbyggingu innviða samfélagsins. Gera þarf miklar breytingar á langsveltu menntakerfi þannig að hægt sé að tala um jafnrétti til náms á Íslandi. Heilbrigðiskerfi þjóðarinnar er í molum og gera þarf umbætur á því sem fela jafnframt í sér að fólk geti notið heilbrigðisþjónustu óháð búsetu eða efnahag og breyta þarf velferðarkerfinu þannig að þeir sem þurfa að treysta á aðstoð þess til framfærslu verði ekki um leið fastir í gildru fátæktar.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum skorar á stjórnvöld að standa við samþykkta samgönguáætlun og sjá til þess að eðlileg uppbygging atvinnulífs geti farið fram um land allt.  Minnt er á að flug og sjúkraflug skiptir íbúa landsbyggðarinnar verulegu máli.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum lýsir furðu sinni yfir þeirri stöðu sem komin er upp í tengslum við tilkynningu HB Granda um að hætta vinnslu á Akranesi. Fundurinn átelur útgerðarfyrirtæki sem sýna samfélögum sem þau starfa í slíka vanvirðingu og hvetur forsvarsmenn Akranesbæjar til að nýta fjármuni sem ætlaðir eru til atvinnuuppbyggingar í önnur verkefni en þau sem felast í sérstökum stuðningi við HB Granda.

 Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum bendir á mikilvægi þess að Menntaskólinn á Ísafirði geti sinnt kennslu verknáms eins og verið hefur og krefst þess að menntamálaráðherra og þingmenn svæðisins sjái til þess að tímabundin fækkun nemenda sem fyrirsjáanleg er á næstu árum, verði ekki til að draga úr fjárframlögum og þar með námsframboði við skólann með slæmum afleiðingum fyrir samfélagið allt.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum minnir á samfélagslegt mikilvægi héraðsfréttamiðla og leggur til að sjálfstæðir og óháðir héraðsfréttamiðlar fái stuðning til að starfa í því fjölmiðlaumhverfi sem ríkir á Íslandi. Varað er við því að slíkir fjölmiðlar komist í eigu stjórnmálaafla, eða aðila tengdum þeim, sem beita þeim í eigin þágu.

„Orðið er laust“ fellur niður á morgun

Af óviðráðanlegum ástæðumn fellur „Orðið er laust“ niður á morgum af óviðráðanlegum ástæðum. Þegar orðið er laust gefst félagsmönnum og öðrum áhugasömum gefst tækifæri á að eiga samræður við þingmenn beint og milliliðalaust. Mikill fjöldi funda hefur verið hjá VG og svæðisfélögum hreyfingarinnar undanfarna daga og vikur og á morgun má búast við miklum önnum í þinginu vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Ný tímasetning verður auglýst fljótlega.

United Silicon á opnum fundi þingnefndar

Fundur umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis með forsvarsmönnum United Silicon á morgun, um mengunar og mengunarvarnir verður opinn fjölmiðlum og almenningi að frumkvæði þingmanna Vinstri grænna sem eiga sæti í nefndinni. Þeir  eru Ari Trausti Guðmundsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé.  Mælingar hafa sýnt arsenmengun umfram viðmiðunarmörk, en deilt hefur verið um hvort mælingarnar standist – Fundurinn hefst klukkan 9:30 og er haldinn á nefndarsviði Alþingis, Austurstræti 8-10.  Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er formaður nefndarinnar.  Hún segir við Rúv að fundurinn sé opinn  í forvarna og upplýsingaskyni,  því auðvitað eigi íbúar sem eru nálægt svona fyrirtæki rétt á að vita hvort það er að valda þeim heilsutjóni.  Íbúar mótmæltu verksmiðjunni á föstudaginn og kröfðust þess að henni yrði lokað. Valgerður hefur áhyggjur af því að verksmiðjan hafi verið höfð fyrir rangri sök.  Ari Trausti og Kolbeinn hafa áhyggjur af menguninni, sem hefur truflað íbúa svæðisins með lykt og valdið þeim óþægindum.

Fjölmenni á VG fundi um alþjóðastjórnmál

IMG_5774 (002)

Fjölmenni var á fundi VG og VGR með Magnúsi Þorkeli Bernharðssyni, prófessor í Miðausturlandafræðum í Norræna húsinu síðdegis í gær. Hátt á annað hundrað manns sóttu stórfróðlegan fyrirlestur Magnúsar sem staddur er hér á landi en hann er búsettur í Bandaríkjunum og starfar sem prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College, Massachussets.

Frá Berlín til Bagdad var leiðarstefið í erindinu, þar sem Magnús varpaði ljósi á afleiðingar alþjóðastefnu Bandaríkjanna í málum Miðausturlanda, síðustu áratugina og líkti stöðu Bagdad á þessari öld við stöðu Berlínar á síðustu öld. Hann skoðaði hagsmuni Bandaríkjastjórnar á þessu svæði sérstaklega með það í huga hvað gæti verið í vændum í valdatíð Donalds Trump. Þar fjallaði hann sérstaklega um Írak, S’yrland Ísrael Palestínu og Sádi Arabíu. Katrín Jakobsdóttir stýrði umræðum í lok fundar, en gríðarlegur áhugi var fyrir efninu, svo færri en vildu komust að með spurningar.

VG þakkar Magnúsi Þorkeli og fundargestum fyrir góðan og fræðandi fund og stefnir að því að bjóða almenningi innan VG og utan upp á fleiri tækifæri til að kynna sér stærstu mál samtímans með aðkomu þeirra sem best til þekkja.

FullSizeRender (010)          IMG_5771 (002)