Val á framboðslista

 

 

Kjördæmisráð Suðvesturkjördæmis hittist í Hafnarfirði annað kvöld, (mánudag 25. sept) og verður þar tekin ákvörðun um aðferð til að velja á framboðslista fyrir komandi Alþingiskosningar. Þrjár tillögur liggja fyrir fundinum: 1. Uppstilling, 2. óbreyttur listi, 3. kjörfundur þar sem allir félagsmenn velja efstu sæti listans.

Kjördæmisráð VG koma nú saman eitt af öðru til að ræða um tilhögun vals á framboðslista fyrir kosningar. Reykjavíkurkjördæmin bæði ákváðu uppstillingu á félagsfundi í vikunni.  Og var ákveðið að fela fimm manna kjörnefnd að gera tillögu um lista og leggja fyrir félagsfund í byrjun október. Kjördæmisráð Norðvesturkjördæmis ræðir málin í dag sunnudag.  Kjördæmisþing VG í Norðausturkjördæmi verður haldið í Mývatnssveit 1. oktober. Og stjórn kjördæmisráðs Suðurkjördæmis er að störfum.

Uppstilling á framboðslista í Reykjavík

Kosningar til Alþingis fara fram þann 28. október næstkomandi. Félagsfundur Vinstri grænna í Reykjavík ákvað fimmtudaginn 21. september að fela fimm manna kjörnefnd að gera tillögu að uppstillingu á framboðslista hreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og leggja fyrir félagsfund sem haldinn verður í byrjun október. Skila þarf framboðslistum til yfirkjörstjórnar 13. október.

Í samræmi við reglur hreyfingarinnar um uppstillingu auglýsir kjörnefnd hér með eftir þeim sem áhuga hafa á að taka sæti á lista og kallar jafnframt eftir uppástungum um fólk á framboðslista. Vegna þess hve skammur tími er til kosninga er óskað eftir því að þær berist kjörnefnd fyrir 30. september næstkomandi.

Tekið er á móti pósti frá áhugasömum félögum og uppástungum um fólk á framboðslista í netfangið: hugmyndir@vgr.is en einnig er hægt að senda bréf til kjörnefndar VGR, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Gera þarf grein fyrir þeim sem stungið er uppá, t.d. með heimilisfangi, starfsheiti eða netfangi. Hver félagi getur stungið upp á eins mörgum nöfnum og vilji er til og sent inn hugmyndir oftar en einu sinni fyrir tilskilinn tíma. Hvert nafn verður aðeins skráð einu sinni á blöð kjörstjórnar þannig að tilgangurinn er ekki að safna saman mörgum uppástungum um sama nafnið.

Í kjörstjórn eiga sæti: Elías Jón Guðjónsson, Garðar Mýrdal, Sigurbjörg Gísladóttir, Silja Snædal Drífudóttir og Þóra Magnea Magnúsdóttir.

Eitthvað allt annað! – opinn VG fundur í Reykjavík.

Eitthvað allt annað!
Já, er ekki kominn tími á eitthvað allt annað?

Fjölmennum á félagsfund VG í Reykjavík sem haldinn verður mánudaginn 18. september nk. á Vesturgötu 7 í Reykjavík.

Dagskrá fundarins:
Kosning landsfundafulltrúa hefst klukkan 19:30.

Klukkan 20 ræðri Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, stöðuna sem upp er komin í landsmálunum.

Fundurinn er öllum opinn þótt einungis félagar í VGR muni kjósa um landsfundafulltrúa. Hann var áður boðaður sem félagsfundur en nú er tækifærið fyrir alla sem vilja breyta.

Takið kvöldið frá!
Sjáumst nk. mánudagskvöld á Vesturgötu 7.

Kosningar augljósasti kosturinn

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í samtali við Ríkisútvarpið að kosningar séu augljósasti kosturinn í stöðunni eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sprakk í gærkvöldi. Þetta er þriðja ríkisstjórnin sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild undanfarinn áratug en þær hafa allar sprungið áður en kjörtímabilið er úti.

„Það sem ég held að sé mikilvægast að gerist núna er að fólk andi í kviðinn yfir stöðunni. Augljósi kosturinn er að það verði boðað til kosninga því að það er engin augljós ríkisstjórn í kortunum,“ sagði Katrín í samtali við Morgunútvarp Rásar 2.

Þingflokkur VG kemur saman núna til að ræða stöðu mála.

Smelltu hér fyrir frétt Ríkisútvarpsins.

Forgangsmál á nýju þingi

Við upphaf 147. löggjafarþings leggja þingmenn Vinstri grænna fram nokkurn fjölda þingmála sem nær yfir breitt málefnasvið. Málin eru unnin með markmið jöfnuðar, sjálfbærni, friðar og kvenfrelsis í forgrunni. Forgangsmál þingflokksins á þessu þingi eru að vanda þrjú og eru eftirtalin:

Tillaga til þingályktunar um stefnu í efnahags- og félagsmálum. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir. Í ljósi mikillar þenslu á vinnumarkaði, neyðarástands á húsnæðismarkaði, skorti á framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, vaxandi ójöfnuðar og bresta í velferðarkerfinu telja þingmenn Vinstri grænna nauðsynlegt að bregðast strax við til þess að tryggja hér stöðugleika til framtíðar. Meginmarkmið tillögunnar er að stjórnvöld efni til samráðs og móti aðgerðir sem stuðli að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika.

– Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á ástæðum og áhrifum fátæktar í íslensku samfélagi. Fyrsti flutningsmaður er Svandís Svavarsdóttir. Fátækt er einhver mesti meinvaldur samfélaga og fréttir sem benda til aukinnar útbreiðslu hennar vekja upp miklar áhyggjur. Þekkja verður umfang og eðli vandamálsins til þess að geta brugðist við á skilvirkan hátt og útrýmt fátækt á Íslandi. Inntak ályktunarinnar er að ríkisstjórn verði falið að gera viðamikla rannsókn á fátækt á Íslandi. Hún svari m.a. hver útbreiðsla fátæktar hérlendis sé miðað við Norðurlöndin, hver hafi verið þróun fátæktar og skipting eftir byggðarlögum. Einnig skuli sjónum beint að áhrifum fátæktar á ólíka þjóðfélagshópa; barnafjölskyldur, einstæða foreldra, innflytjendur og aldraða, og áhrifum hennar á heilsufar og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Tillaga til þingsályktunar um stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir. Í tillögunni felst að umhverfis- og auðlindaráðherra marki stefnu og láti gera drög að áætlun um aðgerðir sem miði að því að Ísland verði kolefnishlutlaust í áföngum, í síðasta lagi fyrir árið 2040. Þetta er metnaðarfyllra markmið en Evrópusambandið hefur sett fram, enda getur og á Ísland að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

 

Að auki má finna í málalista þingflokksins nýtt lagafrumvarp um réttarstöðu trans og intersex fólks, móttöku og aðstoð við fylgdarlaus börn á flótta og þingsályktunartillögu um endurskoðun á beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar. Lagt er fram mál um frestun á framkvæmd uppreist æru, á meðan endurskoðun lagaumgjörðar fer fram. Einnig má nefna tillögu um að Ísland fullgildi Istanbúl-samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, og lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði.

Líkt og áður leggja þingmenn VG áherslu á umhverfismál, t.a.m. með tillögu til þingsályktunar um að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 og stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Þingsályktunartillaga um að Ísland gerist aðili að nýjum samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum er mikilvægt mál, nú þegar við horfum á aukna kjarnorkuvígvæðingu og -ógn á alþjóðavettvangi.

Tillaga um endurskoðun á lagaumhverfi uppkaupa á landi verður lögð fram að nýju, enda mál sem ekki hefur verið leyst þrátt fyrir að vera reglulega í umræðunni. Vinstri græn lögðu á síðasta þingi fram mál um lækkun kosningaaldurs úr 18 árum í 16 í sveitarstjórnarkosningum. Málið er lagt fram aftur eftir jákvæðar umsagnir víðs vegar að og góðan hljómgrunn í meðförum þingsins á 146. þingi.

 

Þingflokkur VG mun að vanda jafnframt sinna því mikilvæga hlutverki að veita ríkisstjórninni aðhald í stóru og smáu og andæfa hægri stjórn og sveltistefnu. Nýtt þing mun einkennast af átökum um samfélagið, innviði þess, gildi og forgangsröðun. Þingflokkur VG er vel undirbúinn og mun láta til sín taka í öllum málaflokkum.

 

Fundur fólksins á Akureyri um helgina

Þingmenn og sveitastjórnarfulltrúar Vinstri grænna taka þátt í Fundi fólksins sem fram fer í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri um helgina.  Ung Vinstri Græn,  Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé,  Sóley Björk Stefánsdóttir og fleiri taka þátt í spennandi dagskrá lýðræðishátíðarinnar, sem hægt að kynna sér hér.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður, tekur þátt í pallborði á vegum Norræna félagsins sem ber yfirskriftina Eru Norðurlönd boðberar friðar og framfara á Norðurslóðum? Ari Trausti er formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál. Viðburðurinn hefst klukkan 12:00 á laugardag í salnum Nanna í Menningarhúsinu Hofi. Fundarstjóri er Bogi Ágústsson.

Ung vinstri græn standa fyrir málþingi um lækkun kosningaaldurs og kosningaþátttöku ungs fólks. Ungliðahreyfingar fleiri stjórnmálaflokka taka þátt í viðburðinum. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður og einn af flutningsmönnum frumvarps VG um lækkun kosningaaldurs í sveitastjórnakosningum niður í 16 ár, kynnir efni þess stuttlega. Viðburðurinn hefst klukkan 13:00 í salnum Hamraborg í Hofi.

 

Aðalfundur VG í Vestmannaeyjum

Í gærkvöldi var haldinn aðalfundur VG í Vestmannaeyjum. Venjuleg aðalfundarstörf fóru fram og kjörnir voru fulltrúar félagsins á landsfund.

Rætt var um undirbúning bæjarstjórnarkosninganna á næsta ári.

Ný stjórn var kosin en hana skipa:

Ragnar Óskarsson formaður ( hrauntun22@gmail.com)
Margrét Lilja Magnúsdóttir ( margret@setur.is)
Sigríður Kristinsdóttir (siggak@hive.is).

 

Eftirfarandi kveðja var send þingflokki VG:
Baráttukveðjur til þingflokks Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs

 

Aðalfundur Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs í Vestmannaeyjum haldinn 4. sept. 2017 sendir þingflokki hreyfingarinnar baráttukveðjur við upphaf  starfa Alþingis haustið 2017. Megi störf ykkar þar áfram sem hingað einkennast af þeim krafti og samstöðu sem þið sýnduð á síðasta þingi. Stefna hreyfingarinnar hefur e.t.v. aldrei átt brýnni erindi til þjóðarinnar en einmitt nú og því er afar mikilvægt að fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs á Alþingi sýni og sanni með verkum sínum að þeir eru sannarlega málsvarar almennings á Íslandi. Fundurinn treystir ykkur best til þess.

Félagsfundur VG á Suðurnesjum

Félagsfundur VG á Suðurnesjum verður í kvöld, þriðjudag, 5. september, kl. 20:00 í sal Karlakórs Keflavíkur, Vesturbraut 17 í Reykjanesbæ.

Fundarefnin eru kjör fulltrúa á landsfund VG og framboðsmál á svæðinu þar sem spurningin hvort og hvernig verður boðið fram í Reykjanesbæ er stóra málið.

Ástandið í Helguvík verður einnig rætt. Gestir fundarins verða Katrín Jakobs og Ari Trausti.

Við hvetjum alla sem mögulega geta til að mæta, hnippa í aðra félaga að gera slíkt hið sama og taka með sér nýtt fólk sem vill ganga til liðs við okkur.

 

Svokölluð like síða, VG á Suðurnesjum, er komin í loftið á facebook, þar er að finna viðburð fyrir fundinn. Endilega líkið við og deilið að vild

Gyða Dröfn nýr formaður UVG

Landsfundur Ungra vinstri grænna fór fram í Grundarfirði um helgina.  Breytingar urðu á stjórn og skipulagi UVG og margir nýir ungliðar tóku sæti í stjórnum.  Tvær stjórnir eru í UVG, framkvæmdastjórn sem sér um daglegan rekstur og landstjórn sem er æðsta vald milli landsfunda.  Skipulag UVG hefur verið flatt, með talsfólki, en ekki forystu.  En nú var tekið upp embætti formanns og varaformanns.  Að taka upp embætti formanns á ný, á að gera starfið skilvirkara, en áfram verður unnið í þeim anda að enginn fulltrúi sé æðri öðrum.

Gyða Dröfn Hjaltadóttir kjörin formaður UVG með öllum greiddum atkvæðum. Gyða er sálfræðingur á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum, en hún útskrifaðist með meistarapróf í klínískri sálfræði í júní. Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir var kjörin varaformaður, en hún er nemi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Í heild sinni eru stjórnir UVG svo skipaðar:

Framkvæmdastjórn:

Formaður: Gyða Dröfn Hjaltadóttir

Varaformaður: Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir

Aðalritari: Dagrún Ósk Jónsdóttir

Viðburðastýra: Margrét Erla Þórsdóttir

Ritstýra: Þórdís Dröfn Andrésdóttir

Innrastarfsfulltrúi: Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir

Alþjóðaritari: Rakel G. Brandt

 

Landstjórn:

Eyrún Baldursdóttir

Isabella Rivera

Jón Axel Sellgren

Rúnar Gíslason

Salvar Andri Jóhannsson

Silja Snædal Drífudóttir

Védís Huldudóttir