Aðalfundur kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis

Aðalfundur kjördæmaráðs VG í Norðausturkjördæmi verður haldinn laugardaginn 21. janúar nk. í Sel-hóteli í Mývatnssveit.

Fundurinn hefst kl. 11:00 og áætluð fundarlok eru kl. 15:00.

Efni fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf og uppgjör kosningabaráttu VG í Norðausturkjördæmi vegna alþingiskosninganna 29. október 2016.

Einnig munu þingmenn kjördæmisins fara yfir hina pólitísku stöðu.

Félagar eru hvattir til að fjölmenna.

Minnt er á að hvert svæðisfélag innan kjördæmisráðsins á samkvæmt lögum VG rétt á að tilnefna á aðalfund kjördæmisráðsins einn fulltrúa fyrir hverja fimm félaga eða brot úr þeirri tölu.

Stjórn kjördæmaráðs VG í Norðausturkjördæmi

Jólakveðja

VG vikan 16.12.16

Þingflokkur VG reynir nú að hafa áhrif á pólitíkina í fjárlagafrumvarpinu, síðustu dagana fyrir jól og tryggja aukið fjármagn í velferðar- og menntamál. Nefndarfundir verða í  fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd um helgina.  Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir situr þar fyrir VG. Líkur eru á að fjárlagafrumvarpið,  verði afgreitt úr nefnd til annarrar umræðu í byrjun næstu viku. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fjallar nú m frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda, en þar situr Katrín Jakobsdóttir, fyrir VG. Stefnt er að afgreiðslu frumvarpsins fyrir árslok. Enn er deilt um hvort réttur opinberra starfsmanna sé tryggður. Hvort þing starfar milli jóla og nýjárs skýrist ekki fyrr en í næstu viku. Þingmenn VG tóku upp margvísleg mál í umræðum um störf þingsins í vikunni, sem finna má á heimasíðu Alþingis, en mörg þeirra voru líka í fréttum í vikunni. Nánar um þetta allt á lokaðri facebook síðu félaga í VG.

Á mánudag slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka og framan af viku voru uppi ásakanir frá hinum flokkunum um að viðræðuslitin væru alfarið á ábyrgð VG. Staðreyndir um hvað bar á milli hafa smám saman komið fram, td í viðtali Fréttatímans við Katrínu Jakobsdóttur og í pistlum Kolbeins Óttarssonar Proppé á heimasíðu VG.

Eldri vinstri græn VG, voru fyrst til að fara jákvæðum orðum um hlut VG í stjórnarviðræðunum, en á jólafundi þeirra um miðja vikuna voru samþykktar sérstakar þakkir til formanns og þingflokks fyrir að halda uppi baráttunni fyrir réttlátara þjóðfélagi. Fleiri þingmenn skrifuðu pistla um gang mála og mættu á fundi, til að skýra stöðuna. Það gerði Ari Trausti Guðmundsson á jólafundi VG í Árnessýslu á miðvikudagskvöldið.  Og þótt nú sé aðeins vika til jóla, verður áfram líf í pólitíkinni í  næstu viku. Þá halda Ung vinstri græn jólafund sem auglýstur verður á heimasíðunn í vikunni. Nýr málefnahópur Vinstri grænna um neytendamál er einnig að stíga sín fyrstu skref og hefur stefnt til sín, fulltrúum frá Alþýðusambandinu og nýjum formanni Neytendasamtakanna.

Og að lokum – til hliðar við pólitíkina. Dregið var í kosningahappdrætti VG á mánudaginn í þessari viku. Það er reyndar rammpólitískt.  Þið finnið  vinningsnúmerin finnið  hér á heimasíðunni, undir flipanum fréttir.

Jólablað VG í Vestmannaeyjum komið á netið

Jólablað 14. árgangs VG blaðsins í Vestmannaeyjum er komið út.  Að vanda er þar fjölbreytt efni, hugvekjur, skemmtisögur og ýmis konar fróðleikur.

Blaðið er aðgengilegt hér.

Jólablað VG Suður komið í dreifingu

 

Jólablað Vinstri grænna í Suðurkjördæmi er komið í dreifingu.  Margvíslegan fróðleik og skemmtun er að finna í blaðinu sem sent verður út um allt kjördæmið. Nýr þingmaður Suðurkjördæmis Ari Trausti Guðmundsson, á tvær greinar í blaðinu,  „Afrek til fjalla“ og „Raunsæi eða neikvæðni.“

Dagný Alda Steinsdóttir fjallar um úrelta atvinnuuppbyggingu. Heiða fjalldalabóndinn er á sínum stað. Og Þorvaldur Árnason, formaður VG í Vogum, rekur fimmtán ára sögu  Vinstri grænna á Suðurnesjum.

Fyrir áhugasama úr öðrum kjördæmum er hægt að nálgast eintak af jólablaði VG-suður á skrifstofu flokksins á Hallveigarstöðum eða með því að hafa samband við Almar Sigurðsson, eða Þorvald Árnason.  Á myndinni er Þorvaldur með blaðið og það er líka hægt að nálgast á pdf formi hér.

jolalblad-vg-2

Vinningsnúmer í happdrætti VG

Dregið var í kosningahappdrætti Vinstri grænna í dag 12. desember. Hægt er að vitja vinninga til 20. febrúar 2017. Í þeim tilgangi er hægt að hafa samband við skrifstofu flokksins, á Túngötu 14, eða í síma 5528872.

 

Nr. Vinningur Verðmæti Vinningsnúmer
1 Þá var önnur öldin er Gaukur bjó … Helgardvöl að Hamarsheiði 1, Skeiða- og Gnjúpverjahreppi í boði Bjargar Evu Erlendsdóttur sem jafnframt býður leiðsögn um Þjórsársvæðið – vonandi óvirkjað! Heitur pottur á staðnum. Fyrir allt að 7. 60.000 1185
2  Kata rokkar og rokkar og rólar … Stanslaust stuð í boði Andreu Jóns rokkdrottningar – pússið tjúttskóna – fyrir partýið, geimið og gleðina. 80.000 1995
3 Ljúfmeti úr lambhögum … Steingrímur J.Sigfússon býður forréttakörfu, fyllta norðurþingeyskum sauðfjárafurðum frá Fjallalambi. 10.000 1611
4 Fiskurinn hefur fögur hljóð – en bæta má ef duga skal … Daníel E. Arnarsson býður tveggja klukkutíma söngnámskeið. Kverkar kældar í lokin. Fyrir allt að 5. 35.000 1465
5  Í upphafi var borðið – við bættust munnþurrkur og magans lystisemdir … Ingi Rafn Hauksson veitingastjóri greinir frá galdri góðrar veislu. Fyrir allt að 6. 45.000 874
6 Garnir raktar – um allt nema eigið ágæti … Í tilefni af 50 ára skáldaafmæli á árinu býður Úlfar Þormóðsson til samræðna um allt milli himins og jarðar – að undanskildum eigin verkum. Einörð svör á boðstólum sem og eðalkaffi. Fyrir allt að 6. 60.000 1160
7  „Ástarljóð til þorsksins söng Stella Hauks – og þorskurinn syndir og syndir þrátt fyrir kvótakónga … Inga Eiríksdóttir býður 9 kílóa öskju af sjófrystum þorski. Vatnið kemur strax í munninn. 10.000 4967
8 Lopinn teygður og teygður … Krissa Ben prjónlesari töfrar fram lopapeysu að ósk. 35.000 2496
9 Njótum náttúrunnar … og afurðanna … Jóhannes Sigfússon býður vikudvöl í sumarhúsi á Gunnarsstöðum. Jafnhliða býður Kristín Sigfúsdóttir til málsverðar í Gamla bænum og leiðsögn um Þistilfjörð og Langanes. Fyrir 4. 56.000 2088
10  Hús andanna … Birna Þórðardóttir býður í skoðunarferð um hús sitt. Portkonupasta og vín hússins. Fyrir allt að 6. 80.000 247
11 . … margur varð af hernum api … Frá Forlaginu kemur bók Páls Baldvins Baldvinssonar, Stríðsárin 1938-1945. 16.990 1280
12  „ … kennd er við Hálfdan hurðin rauð,/ hér mundi gengt í fjöllin;” Með snjótroðara flytur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gesti upp á Múlakollu í Ólafsfirði. Upphiminslegt útsýni. Tapas og guðaveigar þegar niður er komið. Fyrir 2. 63.000 764
13  Fjósalykt í fangið … Hjónin á Erpsstöðum í Dölum, Helga Elínborg Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einar Guðbjartsson, stunda dásemdar rjómabúskap. Skoðunarferð um búið og smökkun á hnossgæti – svo sem Kjaftæðisís og skyrkonfekti. Fyrir allt að 6 fullorðna, börn velkomin. 35.000 801
14  Lystaukandi listmunir fyrir matarboðið … Borðdúkur, glasamottur og servíettur frá Berg, íslenskri hönnun frá Langanesi. Í boði Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttur. 10.000 311
15 Nonni og Manni löngu horfnir – en Pollurinn, Brekkan, Gilið og Eyrin á sínum stað – að ógleymdum kirkjutröppunum … Sóley Björk Stefánsdóttir leiðir gesti um gósenlendur Akureyrar. Gönguferð lýkur með grilli og tilbehör í Kjarnaskógi. Fyrir allt að 6. 80.000 580
16 Margt býr í moldinni eða Á leiðinni milli leiða … Heimir Janusarson fetar óræðar slóðir Gamla kirkjugarðsins við Suðurgötu. Skáldamjöður hvar við á. Fyrir allt að 10. 60.000 725
17  „Það er til einn tónn, …….. En sá sem hefur heyrt hann sýngur ekki – framar.” Frá Forlaginu kemur bók Árna Heimis Ingólfssonar, Saga tónlistarinnar. 11.990 1893
18 Könguló, könguló – vísaðu mér … Sif Jóhannesdóttir býður til tveggja daga berjaferðar að Ærlæk, í Öxarfirði. Innifalin gisting og kvöldverður, ásamt leiðsögn í berjamóinn. Fyrir 4. 60.000 1739
19 Um eyjar og sund má finna „ránardætur og himinský” … Ragnar Óskarsson ýtir úr vör í Vestmannaeyjum. Léttar veitingar á leiðinni. Mælt með vor- eða sumarferð. Fyrir 2. 45.000 1167
20  Kampavínskommúnisti Teikning eftir Ragnar Kjartansson frá árinu 2010. Verðmæti 420.000 2693
21 Æfingin skapar meistarann … Meisam Rafiei taekwondoþjálfari kennir grunntaktana í taekwondo. Fyrir sex. 60.000 3394
22 Hjartað býr enn í helli sínum … Kristín Benediktsdóttir og Unnur Jónsdóttir bjóða til hellisferðar nálægt Kaldárseli. Gengið verður inn í hellinn – og aftur út – sem er til bóta! Gestir upplýstir með höfuðljósum. Hlýleg hressing við ferðalok. Fyrir 3. 30.000 4323
23  Bíum, bíum bambaló … Gisting með morgunverði á Hótel Borealis við Úlfljótsvatn. 26.000 4864
24 … og svo er vaknað af værum blundi … Gisting með morgunverði og þriggja rétta kvöldverði á Hótel Rangá. Fyrir 2. 49.900 1222

Happdrætti – dregið í dag

Dregið verður í kosningahappdrætti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hjá sýslumanninum í Reykjavík eftir hádegi í dag, mánudaginn 12. desember.  Vinningsnúmer verða birt á miðlum hreyfingarinnar, á heimasíðu vg.is –  nú síðdegis.  Og þeir sem eru á póstlista fá númerin líka þar.

Á annan tug vinninga var í boði að heildarverðmæti rúmlega 1.4 milljónir króna.  Dregið er úr seldum miðum.  Heppnir vinningshafar geta gefið sér tíma talsvert fram á næsta ár til að vitja vinningana, því frestur til þess er fram til 17. febrúar næstkomandi.

Upplýsingar um vinningsnúmer og vinninga má fá hjá Björgu Evu og Bjarka á skrifstofu Vinstri grænna. Í síma 552 8872.

,

Rósa Björk gestur VG í Mosfellsbæ

Aðalfundur Vg í Mosfellsbæ verður haldinn nú á fimmtudagskvöldið, áttunda desember. Klukkan 17.30 í Hlégarði í Mosfellsbæ, á annarri hæð.  Frá því dagskráin var kynnt fyrst er orðin á henni sú markverða breyting að Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Suðvesturkjördæmis, verður sérstakur gestur fundarins. Og mun eflaust hafa frá mörgu að segja eftir margra vikna stjórnarmyndunarstreð.

Annars hefðbundin aðalfundardagskrá og hvatning til allra sem vilja um að taka þátt og bjóða sig fram til starfa.

  1. Lokaskýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár kynnt og afgreidd.
    2.    Ársreikningar VG Mos fyrir árið 2015 kynntir og bornir upp til samþykktar.
  2. Kosning formanns til eins árs og fjóra meðstjórnendur og tveggja varamanna til eins árs.

Að loknum aðalfundarstörfum verður rætt um pólitík.

Viltu vinna með VG Mosfellsbæ?

Stjórn VG Mosfellsbæ auglýsir eftir áhugasömum félögum sem vilja bjóða sig fram til setu í stjórn eða vinna á annan hátt með félaginu á næsta starfsári.  Spennandi ár framundan.

 

Sendu okkur póst á olafursnorri@gmail.com

Óformlegar viðræður VG og Sjálfstæðisflokks

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálfstæðisflokksins, hittast í dag til þess að kanna hvort grundvöllur geti verið fyrir samstarfi flokkanna tveggja í ríkisstjórn.

Viðræðurnar eru óform­leg­ar, og fara fram á milli flokkanna tveggja og án aðkomu annarra flokka á þessu stig. Til þeirra er boðað í framhaldi af samtali sem Bjarni og Katrín áttu í gær.  Í yfirlýsingu forsetaembættisisn eftir að formennirnir upplýstu hann um málið, kemur fram að fari svo að sátt náist milli flokkanna tveggja muni þeir í beinu framhaldi leita viðræðna við aðra stjórnmálaflokka um aðild.