Örlítil stjórnarbreyting í VG í Mosfellsbæ

VG í Mosfellsbæ hélt aðalfund sinn í gær, að viðstöddum þingmanni Suðvesturkjördæmis, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, auk fleiri gesta. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf og stjórnmálin sjálf. Nýr formaður var kosin Bryndís Brynjarsdóttir, en Una Hildardóttir, varaþingmaður og gjaldkeri stjórnar lét af því embættinu sem hún gegndi síðasta árið. Fyrir utan nýja verkaskiptingu í stjórn voru ekki gerðar breytingar. En auk Bryndísar og Unu  sitja í stjórn VG í Mosfellsbæ, Bjartur Steingrímsson, Elísabet Kristjánsdóttir og Þórhildur Pétursdóttir.

 

Umhverfisráðherra í Póllandi: Loftslag og mannréttindi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í dag Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd. Hann þakkaði IPCC fyrir skýrslu sína um loftslagsmál og lagði áherslu á að Ísland áliti hana mikilvægt leiðarljós í verkefninu sem fram undan væri. Skýrslan hefði gefið okkur enn eitt viðvörunarkallið. „En ég spyr: Hversu margar slíkar viðvaranir í viðbót þurfum við?“

Ráðherra lagði áherslu á að það að berjast gegn loftslagsbreytingum væri að berjast fyrir mannréttindum. „Við verðum að ganga sameinuð til verka gegn loftslagsvandanum af ástríðu, mannúð og ábyrgð.“

Guðmundur Ingi lagði í máli sínu áherslu á að bylting í orkuskiptum í samgöngum væri fram undan og að Ísland stefndi á kolefnishlutleysi árið 2040. „Það er metnaðarfullt markmið en nauðsynlegt. Heimsbyggðin þarf að ná kolefnishlutleysi á seinni hluta aldarinnar. Það þýðir að sum okkar verða að ná því markmiði fyrr. Þróuð ríki eiga að vera í fararbroddi við að ná kolefnishlutleysi,“ sagði hann.

Ráðherra lagði áherslu á að ríki heims væru ekki nægjanlega metnaðarfull í aðgerðum fyrir Jörðina og fyrir komandi kynslóðir. Nauðsynlegt væri að þau gerðu betur. Auk þess þyrftum við að breyta hugsunarhætti okkar, gjörðum og neyslumynstri.

„Okkar býður dökk framtíð ef við fylgjum ekki leiðsögn vísindanna og Parísarsamningsins. Norðurslóðir eins og við þekkjum þær í dag yrðu gjörbreyttar. Við erum hættulega nálægt því að hrinda af stað óafturkræfri bráðnun Grænlandsjökuls. Súrnun hafsins er sérlega hröð í norðurhöfum, þar á meðal í hafinu við Ísland. Losun kolefnis út í andrúmsloftið er alvarleg ógn við lífríki hafsins,“ sagði hann.

Guðmundur Ingi tók í ávarpi sínu dæmi af Hjartafelli í Þjórsárverum, inni á miðhálendi Íslands, sem tveir skriðjöklar hefðu eitt sinn umlukið og þannig myndað hjarta. Með bráðnun jöklanna væri hjartað nú að hverfa. Mikilvægt væri að bregðast hratt við loftslagsbreytingum og það af öllu hjarta.

Ráðherra hefur verið á Loftslagsfundinum síðan um helgina og meðal annars verið í pallborði á vegum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar um orkuþörf í heiminum og endurnýjanlega orkugjafa ásamt umhverfisráðherra Spánar, auk þess að vera í pallborði um plastmengun ásamt aðstoðarumhverfisráðherra Bretlands og fleirum.

Í gær tók hann þátt í svokölluðum Talanoa-samræðum ráðherra en þá var þeim ríflega 130 ráðherrum sem staddir eru á ráðstefnunni skipt upp í yfir 20 minni hópa ásamt fulltrúum ríkja, félagasamtaka og fleiri. Að auki átti Guðmundur Ingi í gær tvíhliða fund með Svenju Schulze, umhverfisráðherra Þýskalands. Þau ræddu meðal annars um áætlanir ríkjanna um orkuskipti og samdrátt í losun, verkefni í niðurdælingu koldíoxíðs í basalt á Íslandi og í Þýskalandi og nauðsyn á frekari aðgerðum.

Í dag tók Guðmundur Ingi þátt í þremur viðburðum auk þess að flytja ávarpið fyrir Íslands hönd í aðalsal ráðstefnunnar.

Ávarp Íslands (pdf)

Facebookupptaka af ávarpi umhverfis- og auðlindaráðherra á COP24

Reglulegt samráð um geðheilbrigðisþjónustu

Fyrsti fundur velferðarráðuneytisins og fulltrúa notenda geðheilbrigðisþjónustu var haldinn í ráðuneytinu í gær. Fundir sem þessi verða haldnir tvisvar á ári til að skapa farveg fyrir virkt samráð við notendur hvað varðar stefnumótun og veitingu þjónustu. Til fundar við sérfræðinga ráðuneytisins komu fulltrúar Samráðsvettvangs geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu, Hugarafls og Öryrkjabandalags Íslands.

Efnt er til þessa samráðs í kjölfar fundar sem Samráðsvettvangur geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu átti með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í maí síðastliðnum. Á þeim fundi kynnti hópurinn hugmyndir sínar um samstarf í þágu einstaklingsbundinnar, þverfaglegrar og samfelldrar þjónustu við fólk með geðrænan vanda og bauð fram aðstoð sína og samráð við þróun þjónustunnar og stefnumótun í málaflokknum. Heilbrigðisráðherra ákvað að þiggja þetta góða boð um samráð: „Undanfarin ár hefur vaxandi áhersla verið lögð á notendamiðaða heilbrigðisþjónustu á öllum sviðum. Að styðja fólk til að taka sem virkastan þátt í eigin bata og að veita þjónustu sem allra mest á forsendum þess sem þarf á henni að halda. Þetta er jákvæð þróun sem ég vil styðja og efla“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Áformað er að fundir sem þessi verði haldnir tvisvar á ári, að vori og hausti, þar sem rætt verður um stöðuna í geðheilbrigðismálum og þau mál sem brenna á fulltrúum notenda hverju sinni. Markmiðið er að þessir gagnkvæmu samráðsfundir nái að tengja betur saman notendur geðheilbrigðisþjónustu og ráðuneytið og byggja þannig upp trausta samvinnu hvað varðar stefnumótun og veitingu þjónustu. Áhersla verður lögð á lausnamiðaða samvinnu með réttindi og þarfir notenda að leiðarljósi.

Á fundinum kom fram almenn ánægja með þessa nýju leið til aukins samstarfs og eru vonir bundnar við að samstarfið verði farsælt.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir um fjárlög 3. umræða

Nú er efnislegri umfjöllun Alþingis um fjárlög ársins 2019 að ljúka. Fjárlaganefnd hefur unnið að málinu frá því það var lagt fram þann 11. september síðastliðinn. Það er búinn að vera annar bragur á undirbúningi fjárlaga í haust heldur en síðustu tvö haust þegar þau voru samsoðin í flýti eftir kosningar. Vinnan í nefndinni er búin að vera mikil og góð undir formennsku háttv. Willum Þórs Þórssonar. Þó okkur og minnihlutanum greini um sumt á um forgangsröðun verkefna og hvað sé og hvað sé ekki raunhæft að gera þá hefur vinnan gengið ágætlega fyrir sig í nefndinni.

Framkvæmd laga um opinber fjármál

Lög um opinber fjármál voru samþykkt fyrir næstum þremur árum, 1. janúar 2016. Síðan þá hafa verið smíðuð fjögur fjárlagafrumvörp enda tvennar kosningar. Núna erum við í fyrsta skipti að ná í land með þessa vinnu, að það sé sama ríkisstjórnin sem býr til fjármálastefnu, fjármálaáætlun og svo fjárlög á grunni þeirra. Þá fengum við einnig í fyrsta skipti að takast á við það verkefni að hagspáin var ekki bara lóðbeint upp á við milli fyrstu og annarrar umræðu. Við því þurfti að bregðast og ég tel að við höfum náð að lenda því mjög vel með ábyrgum vinnubrögðum. Það er að segja, fara yfir þær fjárheimildir sem ekki nýtast vegna þess að verkefni hafa frestast og annað í þeim dúr.

Þó vil ég halda til haga enn og aftur að við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði vorum á móti ákveðnum þáttum í lögum um opinber fjármál. Töldum þau of stíf og ég tel að reynslan sýni nú að það var rétt mat hjá okkur á sínum tíma. Eðlilegra sé að miða við eitthvað bil á afkomunni þar sem að matið á hagvexti næsta árs er bara það, það er mat Hagstofunnar á því sem líklegast er að gerist. Örlítið frávik frá því breytir forsendunum nokkuð, sem og endurmat á hagvexti þessa árs, sem er líka bráðabirgða tala. Það er hægt að feta sig inn á þessa braut með fjárlögum ársins 2020 með því að miða við að það sé borð fyrir báru í fyrstu umræðu fjárlaga, eitthvert svigrúm milli fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar um afkomumarkmið.

Sóknarfjárlög – loforð efnd

Þessi önnur fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru, eins og ég þreytist ekki á að segja, sóknarfjárlög. Við töluðum um fyrir kosningarnar í fyrra að það þyrfti að auka framlög til samfélagslegra verkefna um 40-50 milljarða. Núna, rétt rúmu ári síðar höfum við gert það og gott betur. Útgjaldaaukningin er upp á tæpa 90 milljarða til samfélagslegra verkefna og er það vel. Þá er ánægjulegt að sjá að bilið milli heimilda í fjárlögum og í fjáraukanum hefur sjaldan verið minna. Við viljum nefnilega að ákvarðanir sem Alþingi tekur um fjárveitingar haldi.

Það er margt undir í fjárlögum og erfitt að fara yfir það í stuttu máli. En það sem ég kannski vil draga fram í þessari atrennu er það sem hefur fengið minni umfjöllun ásamt því að leggja áherslu á það sem ég er sérstaklega ánægð með í þessum fjárlögum.

Samgöngur

Það er auðvitað gleðiefni að geta stórhækkað framlög til samgangna og fjarskiptamála. Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála okkar og til marks að við gerum það sem við segjum. Þó að það væri gott að geta gert enn meir í samgöngum, þá er forgangsröðunin skýr. Við viljum auka öryggi og byggja upp grunnnetið í kringum landið.

Jöfnuður

Meginstef þessara fjárlaga eru aðgerðir í þágu jöfnuðar og tekjulágra hópa í samfélaginu. Það er enda svo að í samfélögum jafnaðar líður fólki betur. Börnum gengur betur í skóla þegar jöfnuður er ríkjandi stefið í samfélaginu. Skrefin sem við tókum í fyrra með því að hækka fjármagnstekjuskatt um tvö prósentustig ríma vel við þau skref sem eru tekin hér. Með því að binda efra þrep tekjuskatts við sömu vísitölu og persónuafslátt, við það að hækka barnabætur til tekjulágra fjölskyldna verulega og að hækka persónuafslátt umfram verðlagshækkanir. Við viljum að fólk hafi jöfn tækifæri og að því stefnum við ótrauð.

Menningin er það sem bindur okkur saman sem samfélag. Öll börn eiga að hafa greiðan aðganga að menningu, óhag efnahag fjölskyldna þeirra. Þess vegna samþykkti Alþingi í sumar að setja á fót Barnamenningarsjóð sem er fjármagnaður í þessum fjárlögum.

Heilbrigðiskerfið

Stærsta kosningamálið síðustu tvennar kosningar hefur verið heilbrigðiskerfið. Ég þori að fullyrða að ekkert sameinar kjósendur betur heldur en sú sjálfsagða krafa að hér sé rekið öflugt, opinbert, heilbrigðiskerfi. Þar er bætt verulega í og loksins er byrjað að byggja hérna nýtt sjúkrahús sem mætir áskorunum 21. aldarinnar. En jafnframt eru margar fleiri aðgerðir sem eru í þágu öflugs heilbrigðiskerfis. Við ætlum að efla heilsugæsluna um land allt, svo að lítil vandamál verði ekki stór. Við sjáum strax hverju það skilar að gera fólki auðveldara að leita til sjúkraþjálfara það er eitt af því sem dró úr nýgengni örorku vegna stoðkerfisvandamála.

Störf fyrir alla

Ég á þá von að það sama muni gerast með því að auðvelda fólki að leita til sálfræðinga og þverfaglegra geðheilsuteyma á heilsugæslum. Það mun vonandi draga úr því að fólk missi starfsgetu vegna andlegra veikinda. Það er réttur fólks að geta unnið fyrir sér og við sem samfélag verðum að geta gripið þá sem þarfnast hjálpar og komið þeim til heilsu.

Í því samhengi langar mig að nefna lítið verkefni sem fjárlaganefnd ákvað að fjármagna. En það er verkefnið Jónsver á Vopnafirði. Þetta er lítill vinnustaður fyrir fólk með skerta starfsgetu sem var sett á stofn af félagi eldri borgara á Vopnafirði og Sjálfsbjörg. Þarna er fólk að vinna eftir getu við viðgerðir á fötum og raunar hverju sem er og uppi eru hugmyndir um að framleiða sérhæfðari vörur til hjúkrunarheimila.

Hugmyndafræðin að baki þessu er nokkuð sem við hljótum að vilja horfa til við að veita fólki tækifæri á að vinna störf við hæfi. Það eru mannréttindi að geta unnið fyrir sér og tekið þátt í samfélaginu. Þetta er engin allsherjar lausn fyrir fólk með skerta starfsgetu en þetta er kannski hluti af lausninni.

Af sama meiði er stuðningur fjárlaganefndar við Aflið á Akureyri. Þar er unnið ómetanlegt starf í þágu fórnarlamba kynferðis- og heimilisofbeldis. Í baráttunni gegn ofbeldi í samfélaginu eru félög eins og Aflið lykilleikendur og það er mikilvægt að við tryggjum þeim fjármagn en jafnframt skýrum markmiðin líkt og mér sýnist gert í þingsályktunartillögu um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. En þar er talað um að nota Bjarkarhlíð sem fyrirmynd í stofnun þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi í samvinnu við félagasamtök og stofnanir.

Umhverfismál

Við Íslendingar erum háð umhverfinu. Við nýtum auðlindir til þess að byggja upp þetta samfélag. Þó að vöxturinn þessi misserin sé mestur í „einhverju öðru“ þá byggjum við enn á því að nýta auðlindir lands og sjávar með sjálfbærum hætti. Þess vegna er það gleðilegt að Alþingi samþykkti að hefja undirbúning að byggingu nýs Hafrannsóknarskips sem mætir þeim áskorunum sem bíða í að auka rannsóknir á súrnun sjávar og gera okkur betur kleift að stunda heimsklassa rannsóknir á sjávarauðlindinni. Fyrstu skref þess eru fjármögnuð í þessum fjárlögum.

Þá ráðumst við í sögulegt átak í umhverfismálum. Málaflokkurinn hefur aldrei fengið eins mikla viðbót. Við ætlum að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að ráðast í sértækar aðgerðir, til dæmis með uppbyggingu innviða fyrir rafbíla um land allt.

Við ráðumst í umfangsmikið átak í endurheimt votlendis, endurheimt birkiskóga, stöðvun jarðvegseyðingar og skógrækt. Þessi verkefni eru kynslóðaverkefni og það er komin tími til þess að byrja. Ísland skógi klætt er fjarlægur draumur í dag en með því að ráðast í stórátak á næstu árum er grunnurinn lagður að því að bæta landgæði hér til frambúðar.

Þá er rétt að draga fram áhersluna á nýsköpun í þessum fjárlögum. Hér eru settir fjármunir til að lyfta þakinu á endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja mikið. En hinn svokallaði alþjóðageiri hefur keyrt áfram vöxt útflutnings síðustu misserin. Þar má nefna fjarskipti, upplýsingatækni, hugverk og aðra viðskiptaþjónustu.

Virðulegi forseti

Erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri og er nú jákvæð sem nemur 13% af landsframleiðslu. Það er ástæða til að staldra við þá staðreynd. Í fyrsta skipti síðan eftir seinni heimsstyrjöld er Ísland nettó lánveitandi til heimsins en ekki lánþegi.

Til þess að við getum viðhaldið og gefið í þarf nýsköpun. Íslenskt hugvit skapar þekkingu og útflutningsverðmæti og þess vegna var mikilvægt að meirihluti fjárlaganefndar í samvinnu við menntamálaráðherra og forsætisráðherra fann lausn á málefnum RANNÍS.

Að lokum vil ég bara ítreka það að þessi önnur fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru skýr merki um umbætur á öllum sviðum. Við erum að sækja fram í þágu velferðar og nýsköpunar, í þágu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins og í þágu almennings alls. Þetta eru sóknarfjárlög sem hefur verið sönn ánægja að vinna að í fjárlaganefnd og styðja.

Katrín Jakobsdóttir til liðs við alþjóðahreyfinguna Progressive International

Katrín gengur til liðs við alþjóðahreyfinguna Progressive International með Bernie Sanders og Yanis Varoufakis 

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra, hefur gengið til liðs við alþjóðlega hreyfingu vinstrimanna sem hefur það að markmiði að sporna gegn uppgangi hægri öfgaöfla og valdboðshyggju. Hreyfingin gengur undir heitinu Progressive International og meðal annarra þátttakenda eru bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders og fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis. Stofnun hreyfingarinnar var kynnt á fyrsta fundi samtaka Bernie Sanders, the Sanders Institute, sem fór fram í Vermont í Bandaríkjunum fyrir helgi.

 

Katrín sendi fundinum stuðningsyfirlýsingu sem er svohljóðandi:

„Alþjóðlegt samstarf er lykilþáttur í að takast á við stærstu viðfangsefni samtímans, svo sem loftslagsbreytingar, félagslegt misrétti, mannréttindabrot og valdboðsstjórnmál. Þess vegna hef ég þegið boð Bernie Sanders og Yanis Varfoufakis um að taka þátt í stofnun Progressive International. Þátttaka mín grundvallast á tveimur þáttum. Í fyrsta lagi tel ég afar mikilvægt að bregðast í sameiningu við uppgangi valdboðshyggju í heiminum, sem er bein ógn við lýðræði og mannréttindi, auk þess að grafa undan hornsteinum lýðræðisins á borð við réttarkerfið og sjálfstæða fjölmiðlun. Í öðru lagi vil ég styðja við þá jákvæðu sýn sem liggur Progressive International til grundvallar, það er baráttan fyrir almennri velferð, öryggi og reisn fyrir allt fólk. Hleypa þarf lífi í alþjóðlega samvinnu á vinstri vængnum til að draga megi úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði, gera breytingar á hinu alþjóðlega fjármálakerfi, snúa frá vopnakapphlaupinu og stöðva loftslagsbreytingar. Nýr alþjóðlegur sáttmáli (International New Deal) gefur fyrirheit um að þarfir venjulegs fólks og jaðarsettra hópa verið sett í öndvegi og að um leið höfnum við stjórnmálum sem hagnýta efnahagslegt óöryggi til að kynda undir útlendingaandúð, kynþáttahyggju, kvenhatri og menningarlegum rasisma.“

Fullveldiskveðja frá Tjodveldi í Færeyjum (á færeysku)

Til hamingju Ísland!

 

Fyri júst 100 árum síðani gjørdi íslendska tjóðin av at skipa seg sum fullveldisríki. Hetta var í eini tíð, har umstøðurnar hjá fólkinum í landinum vóru sera kargar eftir fyrra heimsbardaga og har náttúrukreftirnar gingu hart ímóti.

Sum sjálvstøðug tjóð traðkaðu íslendingar út í heimin og tóku ábyrgd av at byggja eitt egið vælferðarsamfelag í Norðuratlantshavi grundað á at virða og virðisøkja sítt egna tilfeingi – í fólki, mentan, fólkaræði og í náttúru.

Hesi hundrað árini er fólkatalið meira enn trífaldað og ein sosial, mentanarlig og búskaparlig framgongd skapt, sum fáur hevði trúð møguliga – hóast kreppur og afturstig á leiðini.

Íslendingar hava sum tjóð gingið undan og kunnu framvegis ganga undan í so mongum málum, ið hevur givið øðrum tjóðum íblástur og fyrimynd – ikki minst okkum í Føroyum. Í máli og mentan, søgu, skúlaskapi og gransking, javnstøðu, náttúruvernd, íverksetan, altjóða samstarvi og rættindum, sjálvsvirðing og øðrum mongum.

fyri hetta takka vit hjartaliga.

Og vit senda okkara kæru frændatjóð tær fremstu og helstu kvøður á 100 ára degi íslendska fullveldisins. Gangið tykkum væl í ókomnum tíðum.

Vegna Tjóðveldi

Høgni Hoydal, formaður

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra setur fullveldishátíð.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setti fullveldishátíð við hátíðlega athöfn framan við Stjórnarráðshúsið í dag kl. 13:00. Meðal gesta við setningarathöfnina voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Margrét II. Danadrottning og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, minntist á þær skyldur að standa vörð um þau einstöku náttúruverðmæti sem við eigum og nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti. Að tryggja að við öll sem hér búum fáum notið samfélagslegra gæða og þátttöku í samfélaginu. Að skynsamlega sé haldið utan um stjórn efnahagsmála og verðmætasköpun þannig að við tryggjum lífsgæði fyrir okkur öll.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Þjóðin er fjölmennari og fjölbreyttari. Við tölum hundrað tungumál. Við forritum, skerum upp sjúklinga, kennum börnum, veiðum fisk eða við gerum eitthvað allt annað. Við skrifum og syngjum og sköpum og leikum. Við erum hann og hún og hán. Við erum alls konar.“

Þá fluttu Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Mathias Ölvisson, fulltrúar Ungmennaráðs Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna ráðsins og Jelena Ćirić tónlistarkona, einnig ávörp við athöfnina.

Söngfólk ásamt blásarasveit skipuð reyndum tónlistarmönnum í bland við blásara úr Skólahljómsveit Austurbæjar, Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts og Skólahljómsveit Kópavogs önnuðust tónlistarflutning við athöfnina. Tónlistarstjóri var Samúel Jón Samúelsson og auk hans skipuðu tónlistarteymið þau Ástbjörg Rut Jónsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson og Nanna Hlíf Ingvadóttir. Kórarnir sem tóku þátt voru Hinsegin kórinn, Skólakór Kársness, Kvennakórinn Katla, Múltíkúltíkórinn, Söngfjelagið, Karlakór Kjalnesinga, Ekkó kórinn, Léttsveitin, ásamt tveimur söngvurum, sem sungu á íslensku táknmáli, þeim Kolbrúnu Völkudóttur og Uldis Ozols.

Hver á sér fegra föðurland eftir Emil Thoroddsen við ljóð eftir Huldu, Draumalandið eftir Sigfús Einarsson við ljóð Jóns Trausta í útsetningu Samúels Jóns Samúelssonar, Víkivaki eftir Valgeir Guðjónsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum voru sungin við athöfnina.

Frumvarp til nýrra heildarlaga um ófrjósemisaðgerðir

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í morgun frumvarp til nýrra heildarlaga um ófrjósemisaðgerðir. Markmið þess er að tryggja sjálfsforræði fólks við ákvörðun í þessum efnum með áherslu á mannréttindi og mannhelgi einstaklinga.Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi eldri löggjöf um ófrjósemisagerðir sem er hluti gildandi laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir nr. 25/1975. Ákvæði laganna hvað þetta varðar þykja að ýmsu leyti úrelt og meðal annars stríða gegn ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þá einkum ákvæðum 8. gr. sem skuldbindur ríki til að vinna á móti staðalímyndum og fordómum sem tengjast fötluðu fólki, 23. gr. sem fjallar um virðingu fyrir heimili og fjölskyldu og viðurkennir rétt fatlaðra til þess að halda frjósemi sinni til jafns við aðra og 25. gr. sem fjallar um heilsu og rétt fatlaðra til heilbrigðisþjónustu í tengslum við kyn- og frjósemisheilbrigði.

Samkvæmt frumvarpinu verða ófrjósemisaðgerðir heimilaðar í eftirfarandi tilvikum:

  • Að ósk einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri.
  • Á einstaklingi sem er ólögráða fyrir æsku sakir, þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins, en fyrir slíkri heimild er sett það skilyrði að fyrir liggi staðfesting tveggja lækna um fyrrgreind áhrif á heilsu og samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns.

Lagt til að einstaklingur hljóti fræðslu áður en ófrjósemisaðgerð er gerð um í hverju aðgerðin er fólgin, áhættur samfara henni og afleiðingar. Áfram er gerð krafa um að einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum eða þvagfæraskurðlækningum megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir.

Frumvarpið byggist að meginstefnu til á tillögum nefndar sem vann skýrslu um heildarendurskoðun laga nr. 25/1975.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er eins árs í dag

Ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokks og  Sjálfstæðisflokks er eins árs í dag.

Ríkisstjórnin var mynduð í kringum metnaðarfull og framsýn markmið um velferð, mannréttindi og loftslagsmál, eflingu Alþingis og aukið þverpólitískt samráð, stórsókn í uppbyggingu á innviðum um allt land og eflingu heilbrigðis- og menntakerfa og fagnar þeim árangri sem náðst hefur fyrir samfélagið á liðnu ári.

Nú þegar eitt ár er liðið af kjörtímabili ríkisstjórnarinnar er 171 verkefni af 183 verkefnum í stjórnarsáttmála í vinnslu eða þeim lokið.


Mynd 1. Vinna við verkefni stjórnarsáttmála er í langflestum tilfellum hafin eða vel á veg komin.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram tvenn fjárlög á starfsárinu og aukið framlög til samfélagslegra verkefna og innviða verulega, eða samtals um 90 milljarða. Frumvarp hefur verið lagt fram um lækkun tryggingagjalds um 0,5% og markvissri lækkun skulda hefur verið haldið áfram. Nema þær nú rétt rúmlega 30% af landsframleiðslu en hrein staða ríkissjóðs er um 653 ma.kr., eða sem nemur um 23% af vergri landsframleiðslu. Unnið er að stofnun Þjóðarsjóðs til að mæta áhrifum verulegra efnahagslegra áfalla.

Framlög til umhverfismála hafa aldrei verið hærri en nú. Metnaðarfull aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur verið kynnt og unnið er að fyrstu skrefunum; orkuskiptum í samgöngum og aukinni kolefnisbindingu. Uppbygging meðferðarkjarna nýs Landspítala er hafin og áhersla lögð á að styrkja heilsugæsluna um allt land. Fyrstu skref hafa verið stigin til þess að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér læknisþjónustu og þeirri vinnu verður haldið áfram út kjörtímabilið. Þverpólitísk nefnd vinnur nú að undirbúningi að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands auk þess sem ráðist hefur verið í stórátak við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum með áherslu á friðlýst svæði.

Framlög til menntamála hafa stóraukist og nú stendur yfir vinna við gerð menntastefnu. Istanbúl-sáttmálinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum var fullgiltur, aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota er fullfjármögnuð og stýrihópur um heildstæðar úrbætur gegn kynferðislegu ofbeldi var settur á fót og starfar af fullum krafti. Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir hefur enn verið efldur, nú síðast með tvöföldun hámarksupphæða endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarverkefna fyrirtækja. Jafnframt er unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem er lykilatriði fyrir framtíð samfélagsins og fjölbreyttari stoðir efnahagslífsins. Unnið er að endurskoðun á starfsumhverfi vísinda og rannsókna og von á frumvarpi um heilindi í vísindarannsóknum. Framtíðarnefnd hefur verið sett á fót á vegum ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Nefndinni er ætlað að fjalla um helstu tækifæri og ógnanir Íslands í framtíðinni m.t.t. langtímabreytinga á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegra breytinga og þeirra hröðu umskipta sem eru í vændum með síaukinni sjálfvirkni og tæknibreytingum.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á samráð við aðila vinnumarkaðarins allt frá stjórnarmyndunarviðræðum þessarar ríkisstjórnar. Atvinnuleysisbætur og greiðslur úr ábyrgðarsjóði launa voru hækkaðar í vor og í þeim fjárlögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er lagt til að barnabætur hækki um 16% á milli ára og þar með fjölgar þeim sem eiga rétt á barnabótum um rúmlega 2.200.

Nýtt dómstig tók til starfa, löggæsla hefur verið styrkt og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir endurnýjun þyrlukosts Landhelgisgæslunnar. Hagsmunagæsla vegna EES-samstarfsins hefur verið styrkt og mikilvæg skref hafa verið stigin til að innleiða stafræna stjórnsýslu og auka aðgengi og bæta þjónustu við almenning og nýta almannafé betur.

Framlög til nýframkvæmda og viðhalds hafa verið stóraukin til að tryggja umferðaröryggi sem best. Með sérstöku fjárframlagi til vegamála var brugðist við brýnum viðhaldsverkefnum og uppsöfnuðum vanda undanfarinna ára. Áform eru um að flýta uppbyggingu tiltekinna mannvirkja.

Á árinu hefur áhersla verið lögð á málefni barna, umhverfi barnaverndar verður endurskoðað og á næsta ári verður í fyrsta sinn haldið Barnaþing með þátttöku barna hvaðanæva af landinu og ungmennaráð í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna var sett á fót. Máltækniáætlun er nú loksins fjármögnuð enda eitt mikilvægasta tækið til að styðja við íslenska tungu á tækniöld.

Fjölmiðlar eru hjartanlega velkomnir í Ráðherrabústaðinn að loknum ríkisstjórnarfundi eða um klukkan 11:00 í dag þar sem ráðherrar bjóða í skúffuköku og veita viðtöl.