Forval VG í Reykjavík – rafrænt

Reykjavík 18. janúar 2018

Félagar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði í Reykjavík (VGR) ákváðu fyrr í kvöld að halda forval fyrir kosningar til borgarstjórnar, sem fram fara 26. maí. Kosið verður rafrænt í forvali þann 24. febrúar næstkomandi.

Á félagsfundinum var ennfremur kosin kjörnefnd, sem gera mun tillögu að skipan framboðslista í kjölfar forvals.

Framboðslistinn verður lagður fram til samþykktar á félagsfundi VGR í mars.

Félagsfundur ákveður aðferð við val á lista í Reykjavík

Vinstri græn í Reykjavík halda félagsfund, fimmtudaginn 18. janúar.  NÚNA Í KVÖLD. Fundurinn verður haldinn á Vesturgötu 7 og hefst klukkan 19:30. Á dagskrá er kosning uppstillingarnefnfdar og ákvörðun um aðferð við val á framboðslista í Reykjavík.  Umræður um stjórnmálin verða ekki útundan heldur, en bæði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðistráðherra hafa framsögur um stjórnmálin.

 

,

Fjölgun sálfræðinga í almenna heilbrigðiskerfinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallar um fjölgun sálfræðinga í almenna heilbrigðiskerfinu í blaðagrein í Morgunblaðinu í dag og eflingu geðheilbrigðisþjónustunnar. Hún segir skýrt ákall í samfélaginu um að þjónusta sálfræðinga verði hluti af hinu almenna opinbera heilbrigðiskerfi:

Sálfræðingum fjölgar í almenna heilbrigðiskerfinu

Í samfélaginu öllu má heyra ákall eftir aukinni þjónustu sálfræðinga, ákall þess efnis að þjónusta sálfræðinga skuli vera hluti af hinu almenna, opinbera heilbrigðiskerfi. Efling geðheilbrigðisþjónustu er meðal markmiða nýrrar ríkisstjórnar og eitt þeirra atriða sem ég mun leggja sérstaka áherslu á sem heilbrigðisráðherra. Sálfræðiþjónusta er gríðarlega mikilvægur þáttur í geðheilbrigðisþjónustu. Rannsóknir sýna til dæmis að hugræn atferlismeðferð er ein árangursríkasta meðferð sem völ er á í dag við kvíða og þunglyndi. Í þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl 2016 er meðal annars gert ráð fyrir sálfræðiþjónustu sem stærri hluta af hinu opinbera heilbrigðiskerfi, þ.e. fjölgun sálfræðinga innan heilsugæslunnar. Markmið geðheilbrigðisáætlunar til 2020 er að aðgengi að meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, t.d. þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 90% heilsugæslustöðva í lok ársins 2019, og miðað er við að 9000 manns séu á hvert stöðugildi sálfræðings. Nú þegar hefur tekist að tryggja fjárveitingar til allra heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni til að uppfylla markmiðið um að eitt stöðugildi sálfræðings sinni 9.000 manns. Áformað er að markmiðið náist á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Á síðastliðnu ári var stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um fjögur. Á þessu ári munu bætast við sex stöðugildi sálfræðinga og árið 2019 munu fjögur stöðugildi sálfræðinga á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins bætast við. Svokölluðum geðheilsuteymum við heilsugæslustöðvar verður einnig fjölgað, í samstarfi við sveitarfélögin, og nýjum teymum komið á fót í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki til staðar. Geðheilsuteymi eru þverfagleg teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem koma að greiningu og meðferð fólks sem glímir við geðraskanir. Eitt teymanna mun sérhæfa sig í þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og glíma við geðröskun. Nú þegar er starfandi geðheilsuteymi í Breiðholti, en áætlað er að flytja teymið í Grafarvog þar sem það mun sinna öllu austursvæði höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningur geðheilsuteymis fyrir vesturhluta borgarinnar er hafinn, auk þess sem sett verður á stofn geðheilsuteymi fyrir suðurhluta borgarinnar, þ.e. Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Árið 2019 eiga geðheilsuteymi að hafa tekið til starfa á öllum landshlutum.“

Grein Svandísar Svarasdóttur heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 15. janúar 2018

,

Birgir Jakobsson verður aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ráðið Birgi Jakobsson aðstoðarmann sinn í velferðarráðuneytinu. Birgir tekur til starfa 1. apríl næstkomandi þegar hann lætur af embætti landlæknis.
Birgir hefur gegnt embætti landlæknis frá 1. janúar 2015. Fyrir þann tíma starfaði hann í Svíþjóð um langt árabil þar sem hann gegndi ýmsum stjórnunarstöðum við sjúkrahús þar í landi. Sérgrein Birgis er barnalækningar og árið 1988 lauk hann doktorsprófi frá Karolinska Institutet. Hann gegndi um árabil yfirlæknisstöðu á barnadeild Huddinge sjúkrahússins í Stokkhólmi, árið 2003 tók hann við starfi sjúkrahússtjóra við Capio St. Görans sjúkrahússins í Stokkhólmi og frá árinu 2007 var hann forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi þar til hann var skipaður landlæknir.
Svandís Svavarsdóttir segir mikinn feng í Birgi sér til aðstoðar við þau stóru og flóknu verkefni sem heyra undir embætti heilbrigðisráðherra. Hann hafi viðamikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu, bæði á sviði stjórnunar og stefnumótunar og fagþekking hans sem læknis sé einnig mikilvæg. Sem landlæknir hafi hann öðlast mikilvæga yfirsýn yfir íslenska heilbrigðiskerfið: „Í Embætti landlæknis hefur Birgir komið fram með skýra sýn á ýmsa þætti sem hann telur mega betur fara í heilbrigðiskerfinu og um mótun heilbrigðisstefnu til framtíðar sem byggist á samfélagslegri sátt. Áherslur hans falla vel að þeim verkefnum sem ég mun setja á oddinn á komandi misserum og ég hlakka til að vinna með honum,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Birgir verður annar tveggja aðstoðarmanna Svandísar. Hinn aðstoðarmaður hennar er Iðunn Garðarsdóttir lögfræðingur sem tók til starfa í velferðarráðuneytinu í byrjun desember.

Ávarp forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur

Góðir Íslendingar,

Margir binda miklar væntingar við þetta síðasta kvöld ársins og vonast jafnvel til að þær óskir sem enn standa óuppfylltar í lok árs rætist. Miklar væntingar leiða þó sjaldnast til mikillar ánægju þannig að stundum verður gamlárskvöld kvöld vonbrigða þar sem tryllingurinn fær útrás og þá skal gengið eða jafnvel stokkið hratt um gleðinnar dyr. Það getur verið mikilvægt að fá útrás þó að orðið sjálft hljómi ekki lengur neitt sérlega vel í hugum okkar Íslendinga – hver veit nema að það verði breytt eftir nokkra áratugi. Mín reynsla er sú að með fjölgandi árum og minnkandi væntingum hafi gamlárskvöldið farið að verða skemmtilegra enda veitir það færi til að líta um öxl og horfa fram á veg, þakka fyrir hið góða og setja sér markmið um það sem gera má betur.

Þetta kvöld, gamlárskvöld 2017, er fyrirtaks tækifæri til þess. Við kveðjum viðburðaríkt ár og höldum inn í árið 2018 þar sem við munum fagna merkum viðburði í sögu íslensku þjóðarinnar, hundrað ára afmæli fullveldis Íslands. Fyrsti desember 1918 virðist mörgum okkar langt í burtu en samt eru nú á lífi hartnær 80 Íslendingar sem voru fæddir 1918. Eins gætu börn sem fæddust þessi jól skemmt sér við árið 2118 að hlusta á eftirmann minn – en aðeins auðvitað ef mannkynið heldur vel á sínum málum.

Árið 1918 var íslenskt samfélag talsvert fátækara og fábrotnara en nú, sumir Íslendingar geymdu þá enn allar veraldlegar eigur sínar í einum kistli, og ekki bætti úr skák að 1. desember 1918 hafði þjóðin orðið fyrir ýmsum áföllum: veturinn 1918 hefur sem kunnugt er verið kallaður frostaveturinn mikli, ógnvaldurinn Katla gaus í október, spænska veikin alræmda geisaði í nóvember og um 500 létust af henni og nýtt kuldakast skall síðan á í lok nóvember.

Hátíðahöldin á fullveldisdaginn 1918 voru því að vonum afar hófstillt. Forsætisráðherra Jón Magnússon var ennþá í Danmörku til að skrifa undir ný sambandslög ásamt kónginum og gat því ekki samfagnað með Reykvíkingum við stjórnarráðið. Sigurður Eggerz ráðherra flutti ræðu í hans stað og íslenski fáninn var dreginn að hún í fyrsta sinn — sá fáni sem við sem nú lifum lærum snemma að bera kennsl á, með eldinum, ísnum og fjallablámanum sameinuðum. Þegar þriðji ráðherrann, Sigurður Jónsson frá Ystafelli, hrópaði „Lengi lifi hið íslenzka ríki“ segir í blaðinu Ísafold að „húrrahrópsþörfin“ hafi orðið svo mikil hjá þeim sem voru mættir að fagna að húrrahrópin ætluðu engan enda að taka. Sá blaðamaður Ísafoldar þá ástæðu til að áminna þjóðina um að venjan hefði helgað ferfalt húrra sem íslenskt húrra og aðeins ferfalt húrrahróp ætti því við þegar minnst væri hins íslenska ríkis.

Árið 1918 tóku sambandslögin gildi og Ísland varð fullvalda ríki, eitt hið minnsta í heiminum þó að síðan þá hafi raunar talsvert fjölgað sjálfstæðum ríkjum í Sameinuðu þjóðunum sem eru fámennari en Ísland – þau munu nú í árslok 2017 vera 53. Í kjölfarið fluttist hæstiréttur til Íslands árið 1920 og aldarfjórðungi síðar gengu Íslendingar skrefinu lengra eins og þeir höfðu fullan rétt á samkvæmt sambandslagasamningnum og stofnuðu lýðveldið Ísland.

Hinar erfiðu aðstæður haustið 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki minna okkur á að miklu má áorka þó að ytri aðstæður séu ekki endilega hagfelldar. Saga fullveldisins einkennist af stórhug sem einkennt hefur þessa fámennu þjóð alla 20. og 21. öldina, með stofnun Háskóla Íslands, byggingu Landspítalans, uppbyggingu menningarstofnana en ekki síður með baráttu fjöldahreyfinga á borð við verkalýðshreyfinguna og kvennahreyfinguna sem hafa skilað sigrum sem hafa gerbreytt samfélagi okkar. Almannatryggingar, fæðingarorlof og fleiri slíkir sigrar hafa breytt samfélagi okkar til góðs. Metnaður, barátta og samstaða þegar á þurfti; allt hefur þetta einkennt sögu fullveldisins og skilað okkur því samfélagi sem við búum nú í og gjörólíkt íslensku samfélagi ársins 1918, svo stórfelldar hafa breytingarnar orðið á skömmum tíma. Af þessum ástæðum og fleirum er rík ástæða til að minnast fullveldisins á árinu sem senn rennur í garð.

Það getur reynst erfitt að sjá fram í tímann og gamlar framtíðarsögur þar sem faxtæki og svifbretti eru helstu tækniframfarirnar verða auðveldlega spaugilegar nokkrum áratugum síðar þegar. Það hefur ekki gengið eftir að allir fari á einkaflugvél í vinnuna þó að sannarlega hafi aldrei verið meira flogið til og frá Íslandi og ekki eru allir klæddir kafarabúningum sem eru algeng tíska í framtíðarbókmenntum. Þegar kafað er dýpra í sögur um framtíðina reynast þær iðulega vera sögur um nútímann eða jafnvel fortíðina þó að auðvitað megi stundum sjá óhugnanlega framsýni eins og þegar íslenskur verkfræðingur lýsti snjallsímum nútímans býsna nákvæmlega í viðtali við tímaritið Samvinnuna fyrir tæpum 50 árum.

En að því gefnu að framtíðarspár mannsins gefa oftast betri mynd af nútíðinni en framtíðinni þá er samt freistandi verkefni fyrir stjórnvöld og stjórnmálafólk að reyna að móta langtímasýn þannig að við getum hagað störfum okkar þannig að við búum sem best í haginn fyrir komandi kynslóðir og tekist á við stóru verkefnin sem eru framundan fremur en að týna sér í dægurþrasi.

Eitt af því sem blasir við er hið gríðarlega mikilvægt verkefni að sjá til þess að allir fái notið velmegunar á Íslandi. Vaxandi ójöfnuður í heiminum er af ýmsum alþjóðastofnunum metinn ógn við hagsæld en líka ógn við frið og lýðræði. Þó að jöfnuður á Íslandi hafi mælst hlutfallslega mikill í alþjóðlegum samanburði er full ástæða til að gera betur.

Í þessu ljósi verður að meta ákallið og umræðuna um að byggja upp innviði samfélagsins. Uppbygging menntakerfisins er ekki aðeins mikilvæg til þess að að hér verði til hagsæld grundvölluð á hugviti en ekki aðeins nálægð við náttúruauðlindir heldur er þar líka meginatriði að tryggja öllum tækifæri til að sækja sér menntun. Eins skiptir ekki aðeins máli að í heilbrigðiskerfinu sé til sem mest fagþekking heldur er ekki síður mikilvægt að tryggja að óhóflegur kostnaður hindri engan í að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Þegar glímt er við ójöfnuð er mikilvægt að líta til þess hvar ójöfnuðurinn er mestur en á Íslandi er það í eignatekjum. Þess vegna er hækkun fjármagnstekjuskatts sem samþykkt var nú fyrir áramót leið til að gera skattbyrðina réttlátari og auka jöfnuð. Þá skiptir máli að taka á skattsvikum og skattaundanskotum og tryggja þannig að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Endurskoða þarf samspil bóta- og skattkerfa og tryggja að barnabætur og húsnæðisstuðningur nýtist til að jafna kjörin. Allt skiptir þetta máli til að tryggja félagslegan stöðugleika og jöfnuð sem um leið er undirstaða þess að tryggja sátt í samfélaginu og á vinnumarkaði.

Ekki má heldur gleyma því að jafnrétti kynjanna er undirstaða fyrir raunverulegum jöfnuði. Þó að mikið hafi áunnist þá hefur nýliðið ár svo sannarlega verið okkur öllum áminning um það ofbeldi sem konur hafa verið beittar og eru enn beittar víða í íslensku samfélagi. Á þessu þarf að verða varanleg breyting og sú breyting er eitt stærsta samfélagslega verkefnið sem framundan er. Það er fyrsta skrefið að vekja athygli á ofbeldinu en síðan verður að spyrja: Og hvað svo?

Góðir landsmenn

Stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins um þessar mundir eru loftslagsbreytingar sem munu öllu skipta um hvernig framtíð mannkynsins verður næstu áratugi og aldir. Þetta er verkefni af því tagi að þar má ekki hugsa í þjóðum eða í átökum samfélagshópa heldur verður þar að koma til sameiginlegt átak alls mannkyns sem berst fyrir eigin tilvist. Mannkynið hefur varla staðið andspænis viðlíka verkefni og það krefst nýrra lausna þar sem þjóðríkið getur ekki verið í öndvegi heldur samhugur okkar þvert á landamæri.

Ísland er ekki stórveldi en við viljum taka þátt í þessu átaki og í því ljósi verður að skilja hið metnaðarfulla markmið um að Ísland verði kolefnishlutlaust samfélag ekki seinna en 2040. Hér er á ferð gríðarmikið verkefni og markmiðið næst ekki nema með samstilltu átaki allra í samfélaginu; stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, verkalýðshreyfingar, háskólasamfélags og almennings í landinu um annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem mun kalla á verulegar samfélagsbreytingar og hins vegar að auka kolefnisbindingu með breyttri landnotkun. Í þessu verkefni geta líka falist tækifæri en verkefnið sjálft verður ekki umflúið; loftslagsbreytingar eru stærsta ógn heimsbyggðarinnar og þar þurfum við öll að leggja okkar af mörkum; stór og smá. Það eru hin smáu eyríki á Kyrrahafi sem voru hvað sterkustu raddirnar þegar samkomulag náðist í París 2015 og við Íslendingar getum og verðum að leggja okkar af mörkum í þessu verkefni enda eru breytingarnar fyrir framan augun á okkur í hopandi jöklum og súrnandi sjó.

Framundan eru miklar tæknibreytingar sem eru stundum kallaðar fjórða iðnbyltingin. Gagnvart þessari byltingu dugar ekkert minna en þverpólitísk framtíðarsýn um það hvernig á að takast á við sívaxandi sjálfvirkni sem mun breyta öllu umhverfi okkar. Vinnumarkaðurinn mun breytast og fleiri störf verða færð í hendur véla; samfélagið mun breytast eins og það hefur raunar þegar gert. Æ fleiri eyða meiri og meiri tíma á samskiptamiðlum í eigu einkaaðila sem ráða yfir ótrúlegu magni upplýsinga um einkalíf fólks um heim allan. Þar vakna krefjandi spurningar, til dæmis um réttindi manna eftir því sem vélarnar ráða meiru og hvað um öll þau störf sem við sinnum en verður kannski sinnt af vélum. Þarna þurfum við að standa vaktina fyrir mennskuna, fyrir fólkið, og tryggja að tæknin verði okkur til góðs, að hún nýtist til að stytta vinnuvikuna og bæta lífsgæði um leið og öllum verður tryggð mannsæmandi framfærsla. Það er hægt en allt það sem við gerum nú um mundir getur skipt máli til að tryggja að þessi framtíð verði björt.

Núna á landinu eru börn sem gætu vel lifað á 22. öldinni. Það er okkar verkefni, okkar Íslendinga, að vinna að öllum þessum markmiðum og búa þeim friðsamlegt, gott og sjálfbært samfélag.

Þennan dag fyrir nákvæmlega tíu árum var ég stödd á fæðingardeildinni. Það var líklega hamingjuríkasta gamlárskvöld lífs míns þó að það væri sannarlega ekki áreynsluminnsti dagur sem ég hef lifað. Enda megum við aldrei gleyma því hvað það er sem skiptir mestu máli; ástin og lífið og þeir sem standa okkur næst. Þökkum fyrir það þetta gamlárskvöld og hugsum vel um okkar nánustu, vini og vandamenn, á nýju ári.

Kæru Íslendingar til sjávar og sveita, í borgum og bæjum, takk fyrir árið 2017 og ég óska ykkur gæfu og gengis á árinu 2018.

Bréf heilbrigðisráðherra til stjórnenda

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sent stjórnendum allra stofnana sem heyra undir embætti hennar bréf þar sem hún brýnir þá til að fylgja fast eftir lögum um jafnrétti kynjanna. Í bréfinu bendir hún á að í lögunum sé kveðið skýrt á um að allir eigi að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. ,,Það gerist ekki nema kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni verði upprætt” segir m.a. í bréfi ráðherra.

Bréf heilbrigðisráðherra til stjórnenda

Nýlega birtust opinberlega sögur fjölmargra kvenna, sem starfa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, um kynbundna og kynferðislega áreitni og jafnvel um kynbundið ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í störfum sínum innan heilbrigðisþjónustunnar. Þessar sögur eru í samræmi við sögur kvenna víða um heim sem birst hafa undir myllumerkinu #metoo og draga fram í dagsljósið ójafna stöðu karla og kvenna að því er virðist á öllum sviðum samfélagsins. Það er von mín að birting þessara sagna verði til þess að takist að breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðin.

Ég vil brýna alla forstöðumenn, sem starfa í stofnunum sem heyra undir heilbrigðisráðherra, til að fylgja fast eftir lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þar sem kveðið er skýrt á um að allir eigi að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Það gerist ekki nema kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni verði upprætt.

Ég bendi einnig á að í 22. gr. laganna er fjallað um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Þar segir meðal annars að yfirmenn stofnana skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Í 18. gr. sömu laga er fyrirtækjum og stofnunum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn, gert skylt að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Með jafnréttisáætluninni skal fylgja aðgerðaáætlun þar sem skilgreint er hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. Þetta þýðir að allir stærri vinnustaðir eiga að vera með aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvernig koma á í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni.

Ég beini því til allra forstöðumanna stofnana heilbrigðisráðuneytisins að tryggja að í gildi sé jafnréttisáætlun ásamt aðgerðaráætlun þar sem fram kemur hvernig á að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni á stofnunum ráðuneytisins.

Árið 2040

 

 

 

Loftslags- og umhverfismál lita mjög nýjan ríkisstjórnarsamning. Á hann mun reyna á þessum sviðum vegna þess hve heildarþróun veðurfars er alvarleg og afleiðingarnar þungbærar á heimsvísu. Kolefnishlutlaust Ísland 2040 er bæði pólitískt og fræðilegt markmið. Það er mjög metnaðarfullt. Um leið er það ekki geirneglt vegna þess að ársett markmið og fjármagnaðar og fræðilega færar leiðir eiga eftir að mótast að mestum hluta.

 

Samþætt verkefni

Málaefnasviðin eru mörg og verkefnin stór. Hér nefni ég mótun orkustefnu (framleiðsla orku, nýting og dreifing) og orkuskiptaáætlunar í samgöngum, útgerð og öðrum atvinnuvegum. Orkuskiptin snúast ekki bara um rafvæðingu ökutækja, báta eða hafna heldur líka um aukna notkun innlends eldsneytis, svo sem metanóls, metans og vetnis, á bíla, vinnutæki, skip og að hluta flugvélar.

Ég minni á lokagerð aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum sem unnið hefur verið að um hríð. Hún fjallar um takmörkun á losun gróðurgasa, um aukna bindingu kolefnis og um breytt skipulag samvinnu og framkvæmda í umhverfis- og loftlagsmálum. Minni losun varðar t.d. bíla, vinnuvélar, orkufrekan iðnað, skip og báta, flugvélar og byggingariðnaðinn. Þar losnar eitt tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af nýttri steinsteypu á meðan notkun tréverks losar aðeins brot af gasinu, hvað þá ef timbrið er innlent. Heimræktað timbur í fullnægjandi mæli fyrir 2050 er ekki tálsýn ef tekið er til við að fjórfalda gróðursetningu á nytjatrjám.

 

Fjórþætt kolefnisbinding

Bindingin varðar m.a. aukna niðurdælingu koltvísýrings úr jarðhitaorkuverum en þó einkum frá orkufrekum iðnaði. Hún varðar uppgræðslu auðna neðan vissra hæðarmarka og viðgerðir á mikið rofnu grur﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽nu grðslu auðna og viðgerð ðbur er ekki ttvu skipulaginaðarglutt og óðurlendi, tvö- til fjórföldun gróðursetningar í skógrækt, með birki og innfluttum trjátegundum. Hún er enn fremur háð endurheimt verulegs hluta af ónýttu en framræstu votlendi. Hættuleg súrnun sjávar ræðst aðallega af losun og bindingu kolefnisgasa.

 

Endurskoðun skipulags

Skipulag í stjórnkerfinu breytist mishratt. Stofna á samvinnuvettvanginn Loftslagsráð sem fyrst, skv. stjórnarsamningnum, og efla Loftslagssjóð sem uppsprettu góðra verka, með tekjum af svoköllum grænum gjöldum. Aukin samvinna Skógræktar, Landgræðslu, Bændasamtakanna, hagsmunafélaga og klasa annarra atvinnuvega, sveitarfélaga og samtaka áhugafólks hlýtur að vera eitt af lykilatriðum til árangurs. Samhliða verður að skoða hvernig auðlindanytjum, náttúruvernd, rannsóknum og eftirliti í umhverfismálum er best fyrir komið í stofnanakerfinu. Þar er unnt að gera kerfið skilvirkara og skilja að þætti sem best er að hafa sem óháðasta en sameina betur þá sem eiga saman.

 

Breytt hagkerfi

Fleira kemur til en skipulagsbreytingar. Grænu gildin verða líka að ná djúpt inn í stefnumótun til áratuga. Þar stendur margt upp á hagkerfið og samgöngur. Til að mynda duga ekki hagkvæmnissjónarmiðin ein eða einsýni á peningahagnað.

Þríþætt sjálfbærni, bætt umhverfi og loftslagsviðmið eru löngu tímabær. Áhersla er einboðin á afmiðjun til mótvægis við samþjöppun innan atvinnuvega, á styttri flutningsleiðir og heimafengnar vörur, á öflugari byggðir utan mesta þéttbýlis, greitt samband um alnet og síma og á næga og örugga raforku. Inn í þær breytingar fléttast staðbundnar og atvinnuvegabundnar landnýtingaráætlanir, auk heildarramma, sem sátt verður að vera um, í meginatriðum.

 

Ekki aftur snúið

Hugtakið ögurstund má snúa upp á samtímann og tala um öguráratugi. Framlög ríkisins á fyrrgreindum málasviðum eru í raun fjárfestingar samfélagsins sjálfu

sér til bóta, jafnvel bjargar. Gróðinn, svo notað sé margþvælt hugtak, er mældur í lífsskilyrðum í fyrsta sæti en peningahagnaði í allt öðru sæti. Núverandi ríkisstjórn var m.a. mynduð um brýnar úrbætur á lífsskilyrðum almennings í landinu, á grunni sérstæðra málamiðlana. Stjórnin mun leggja fram fimm ára ríkisfjármálaáætlun. Hún verður prófsteinn á fullnustu málefnasamnings hennar, svo langt sem slíkt er sanngjörn krafa nokkur á fram í tímann.

Samkvæmt kröfum samtímans verður að auka framlög og þunga í rannsókunum, vöktun, nýsköpun og aðgerðum í umhverfismálum. Ella náum við hvorki að uppfylla alla þætti Parísarsamkomulagsins né ótal króka og kima markmiðsins um kolefnishlutlaust Ísland. Samþætting alls sem hér hefur verið minnst á er mikið verk en feiknarlega mkilvægt.

 

 

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður,

 

,

Stefnuræða heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur á 148. löggjafarþingi 14. desember 2017

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við sögðumst ætla að styrkja innviðina. Við töldum að innviðirnir væru orðnir svo veikir að veruleg hætta stafaði af. Þess vegna erum við hér. Við teljum svo mikilvægt að laga heilbrigðiskerfið, samgöngurnar og menntakerfið að við tókumst það á hendur, við Vinstri græn, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, að efna til samstarfs við þá flokka sem við höfum gagnrýnt hvað mest og aldrei unnið með áður. Til þess þarf skýran pólitískan vilja, þrek og kjark. Við höfum það sem til þarf. Við höfum þann styrk og þann kjark. Við þorðum að taka frumkvæðið og grípa tækifærið.
Það er stundum talað um að við séum ekki að stuðla að kerfisbreytingum í þessari ríkisstjórn. Það er rangt. Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu. Það er búið að rétta efnahagslífið við eftir hrunið. Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar. Þess vegna erum við hér.
Við erum að gera við samfélagsinnviðina, virða samfélagssáttmálann, hefja aftur á loft þá sýn okkar flestra að enginn verði skilinn eftir og vinna samkvæmt því; gera við, breyta og bæta en líka byggja nýtt og byggja við í góðri samvinnu við fólkið sem best þekkir til og veit hvar þörfin er mest. Um leið erum við að leggja grunn að róttækri stefnu í loftslagsmálum og umhverfismálum. Við erum að efla opinbera heilbrigðiskerfið, hlut aldraðra og öryrkja, skólana, tungutæknina og náttúruverndina. Við ætlum okkur að styrkja stöðu barnafólks, kvennastétta og brotaþola kynferðisbrota. Þetta eru mikilvægar samfélagsumbætur.
Við leggjum líka áherslu á siðareglur, gagnsæi og opnara samtal milli flokka út í samfélagið. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er stjórnmálahreyfing sem hefur kjark til að takast á við verkefnin, stjórnmálahreyfing sem er óhrædd, getur átt samstarf við aðra og leitt þann björgunarleiðangur fyrir íslenskt samfélag sem þjóðin þarf svo mjög á að halda. Við getum verið í forystu og við getum vísað veginn. Við erum að breyta.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill marka pólitísk kaflaskipti í þágu almennings á Íslandi fyrir umhverfið og náttúruna og fyrir menninguna. Við ætlum að ráðast gegn fátækt í landinu. Við viljum ráðast gegn ójöfnuði, auka samneyslu, draga úr greiðsluþátttöku þeirra sem veikast standa og byggja upp eins og við frekast getum innviði á öllum sviðum. Við viljum réttlátara samfélag.
Þetta eru stór markmið og við munum beita öllu okkar afli. Eitt af því sem við höfum lagt mikla áherslu á við stjórnarmyndunina er að treysta og byggja upp Alþingi. Eftir að hafa verið þingflokksformaður í stjórnarandstöðu í allnokkur ár er mér algerlega ljóst að stöðu þingsins þarf að efla, ekki síst eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma. Löggjafarhlutverkið þarf líka að styrkja, bæði fyrir stjórn og stjórnarandstöðu. Þessar áherslur rötuðu inn í stjórnarsáttmálann. Erum við ekki ánægð með það? Vonandi allir flokkar á þingi.
Erum við ekki ánægð með aukið fjármagn til heilbrigðismála? Erum Við ekki ánægð með aukið fjármagn til menntamála? Erum við ekki ánægð með aukna áherslu á umhverfisvernd og eflingu tungunnar? Erum við ekki ánægð með róttæka stefnu í loftslagsmálum þar sem við skipum okkur í sveit með framsæknustu þjóðum heims? Vonandi erum við ánægð með það.
Fyrir nokkrum árum misstum við Íslendingar mikinn baráttumann fyrir náttúruvernd. Guðmundur Páll Ólafsson var minnisstæður, öflugur og óþreytandi og eftir hann liggja margar bækur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að þekkja Guðmund og njóta leiðsagnar hans og vináttu um árabil, síðast þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra. Guðmundur Páll var kröfuharður liðsmaður. Þannig liðsmenn eru bestir, þeir sem gera miklar kröfur en styðja mann til góðra verka.
Ég hvet landsmenn alla til að vera kröfuharðir liðsmenn nýrrar ríkisstjórnar, halda okkur við efnið af festu. Þannig gengur okkur öllum best. — Góðar stundir.

,

Stefnuræða forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, á 148. löggjafarþingi, 14. desember 2017

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Við höfum lifað óvenjulega pólitíska tíma undanfarin ár og þessi árstími er óvenjulegur til að eiga umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Og vissulega er þessi ríkisstjórn þriggja flokka óvenjuleg að því leyti að þeir hafa aldrei starfað saman áður, allir þrír, að stjórn landsmálanna. Hún snýst um ákveðin lykilverkefni sem við öll metum svo mikilvæg fyrir fólkið í landinu að við teljum það forsendu fyrir svo breiðu samstarfi. Um leið endurspeglar stjórnin niðurstöður tvennra síðustu alþingiskosninga sem haldnar voru með skömmu millibili og skiluðu ekki afgerandi meiri hluta til hægri eða vinstri.

Sagt hefur verið að það sé auðvelt að dæma stjórnmálamenn út frá hugsjónum þeirra en mikilvægari dómur sé sá sem falli um þær málamiðlanir sem þeir gera. Málamiðlanir eru ekki í eðli sínu góðar eða slæmar. Og stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri en niðurstaðan þarf hins vegar að vera samfélaginu í heild til heilla. Markmið þessarar ríkisstjórnar er fyrst og fremst að koma til móts við ákall almennings um að sú hagsæld sem hér hefur verið á undanförnum árum skili sér í ríkari mæli til samfélagsins, fyrst og fremst til uppbyggingar heilbrigðis- og menntakerfis, en einnig hinna efnislegu innviða, þess sem við öll sem búum í þessu landi eigum saman.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar fjallar um leiðir til að ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika sem tryggir góð lífskjör til framtíðar fyrir venjulegt fólk. Hann ber vitni ágætri stöðu efnahagsmála en jafnframt þeim miklu viðfangsefnum sem blasa við í uppbyggingu samfélagsinnviða og þeirri félagslegu sátt sem þjóðin hefur kallað eftir. Megináherslur ríkisstjórnarinnar eins og þær birtast í stjórnarsáttmála eru sterkt samfélag, þróttmikið efnahagslíf, umhverfi og loftslag, nýsköpun og rannsóknir, jöfn tækifæri, lýðræði og gagnsæi og alþjóðamál.

Viðfangsefni þessarar ríkisstjórnar snúast þó ekki einungis um þau lykilverkefni sem ég nefndi hér. Verkefni þeirra flokka sem skipa ríkisstjórnina, sem og allra annarra flokka á Alþingi, hlýtur að vera það að byggja upp traust á stjórnmálum og Alþingi. Nú er senn áratugur liðinn frá hruni, efnahagur landsins hefur vænkast en traust almennings á Alþingi og stofnunum samfélagsins er enn umtalsvert minna en fyrir áratug og það er alvarleg staða fyrir lýðræðið á Íslandi.

Ábyrgð stjórnarmeirihlutans hér er mikil. Ekki aðeins er mikilvægt að breyta umræðunni, heldur þarf að tryggja gagnsæi og traust. Þess vegna munum við leggja áherslu á að læra af reynslu undanfarinna ára og líta til alþjóðlegra viðmiða, t.d. þegar kemur að endurskoðun siðareglna og reglna um hagsmunaskráningu. Gott talsamband stjórnvalda og fjölmiðla er líka lykilþáttur í þessu verkefni og það er mikilvægt að við reynum að skapa samstöðu um það hvernig við leiðum mikilvæg mál til lykta. Ég nefni heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í því samhengi sem hefur verið eitt stærsta pólitíska þrætuepli undanfarinna ára.

Við megum aldrei gleyma því að orðið minister þýðir þjónn á latínu en ekki herra eins og innlend hefð er fyrir að láta okkur sem skipum ríkisstjórn heita. En traust á stjórnmálum og Alþingi getur aldrei einungis verið á ábyrgð meiri hlutans — það þekkjum við sem hvað lengstum tíma höfum eytt í stjórnarandstöðu á Alþingi — það er verkefni okkar allra, allra þingmanna á Alþingi Íslendinga.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin ætlar að gera betur í loftslagsmálum en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Það er frumskylda okkar að leggja mikinn metnað í þetta stærsta viðfangsefni mannkyns. Í sáttmálanum er kveðið á um fjöldamörg verkefni og úrbætur tengdar umhverfis- og loftslagsmálum og strax verður ráðist í að skipa loftslagsráð samkvæmt samþykkt Alþingis sem mun gegna lykilhlutverki við að smíða vegvísi fyrir samfélagið inn í kolefnishlutlausa framtíð.

Loftslagsmálin krefjast samstarfs allra; stjórnvalda, atvinnulífs og almennings. Grundvallaratriðið þar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum geirum samfélagsins en líka að nýta endurheimt vistkerfa, þar með talið votlendis og skóga, til kolefnisbindingar og nýta tæknina til að styðja við þessi markmið.

Mótun langtímaorkustefnu er annar lykilþáttur í loftslagsmálum en tengist líka náttúruvernd þar sem miklu skiptir við orkunýtingu framtíðar að stjórnvöld hafi sýn á það hvernig eigi að nýta þá orku sem við virkjum. Ný ríkisstjórn leggur áherslu á miðhálendisþjóðgarð og friðlýsingar þeirra svæða sem þegar hefur verið skipað í verndarflokk rammaáætlunar. Við erum á leið inn í nýja tíma í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Ótrúlegar breytingar hafa orðið til góðs á viðhorfum manna á undanförnum áratug og þær breytingar mátti skýrt skynja á fundi þjóðarleiðtoga í París fyrr í þessari viku þar sem gjörla mátti sjá að þjóðir heimsins eru farnar að forgangsraða loftslagsmálunum efst á sína dagskrá.

Kæru landsmenn. Gerður Kristný orti svo um kinnhestinn sem Gunnar rak Hallgerði:

Þögnin svo römm

að hún umlukti

allar sem á eftir komu.

 

Þær sem reyndu að

rjúfa hana

fundu vangann

loga af skömm.

Bylting kvenna á samfélagsmiðlum undanfarin misseri rýfur aldalanga þögn. Þar erum við hvergi nærri komin á endastöð. Langtímaverkefnið snýst um að breyta viðteknum skoðunum sem hafa viðhaldið lakari stöðu kvenna um aldir. Eitt kjörtímabil verður bara örstutt spor á þeirri vegferð.

Og það er við hæfi að minnast þess að í dag er fæðingardagur Ingibjargar H. Bjarnason, fyrstu konunnar sem var kjörin á þing, árið 1922, og styttan af henni hérna fyrir utan minnir okkur á hve mikilvæg þessi barátta hefur verið og hve langan tíma hún hefur tekið, að ná jöfnum rétti kynjanna.

Bráðaverkefnið í þessum málum verður aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota þar sem styrktir verða innviðir réttarvörslukerfisins og jafnframt verður lagaumhverfi kynferðisbrota rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda. Lögð verður áhersla á fræðslu og forvarnir og bættar aðstæður til að styðja brotaþola um land allt innan heilbrigðiskerfisins.

En jafnrétti snýst auðvitað um margt fleira. Sáttmáli ríkisstjórnarinnar leggur ríka áherslu á jöfn tækifæri — Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla og það kallar á margvíslegar aðgerðir sem lúta að því að berjast gegn launamun kynjanna, gera betur í málefnum hinsegin fólks, tryggja samfélagslega þátttöku allra og að efnahagur, búseta, aldur eða fötlun hindri fólk ekki í að nýta þau tækifæri sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða.

Síðast en ekki síst snýst jafnrétti um jöfn tækifæri ólíkra stétta. Þar verður ekki hjá því komist að endurskoða samfélagskerfið. Margir hafa bent á að langt sé á milli þeirra flokka sem skipa ríkisstjórnina í þeim efnum, ekki síst þegar kemur að jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Þær skattbreytingar sem eru lagðar til í upphafi kjörtímabils miða að því að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Áhersla þessarar ríkisstjórnar á að byggja upp samfélagslega innviði þjónar því markmiði að jafna kjör og aðstæður þeirra sem hér búa. Þá ætlar ríkisstjórnin einnig að taka málefni tekjulægstu hópanna föstum tökum, gera úttekt á stöðu þeirra og vinna að því að bæta hana, ekki síst þeirra barna sem búa við fátækt. Fátækt á einfaldlega ekki að vera til staðar í jafn ríku samfélagi og við eigum hér saman.

Kjarninn í sterku samfélagi er hinir samfélagslegu innviðir: heilbrigðisþjónusta, velferðarþjónusta, löggæsla og húsnæðismál sem veita öryggi og skjól, menntun, vísindi, menning, skapandi greinar og íþróttir sem auðga andann og byggja okkur upp sem samfélag og samgöngur, fjarskipti og byggðamál sem styrkja stoðir blómlegra byggða um land allt.

Á öllum þessum sviðum mun ríkisstjórnin kappkosta að skila betra búi en hún tók við.

Heilbrigðismálin eru þjóðinni eðlilega hugleikin. Það er eðlileg krafa að íslenska heilbrigðiskerfið standist samanburð við það besta sem gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu og mun ríkisstjórnin leggja áhersla á að draga úr kostnaði sjúklinga, bæta geðheilbrigðisþjónustu sérstaklega og forvarnir og byggja upp hjúkrunarrými. Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í dag er lögð sérstök áhersla á heilbrigðismál en nánari uppbygging hennar mun svo koma fram í þeirri fjármálaáætlun sem verður lögð fyrir þingið í lok mars á næsta ári.

Í menntamálum verður ráðist í stórsókn. Fjárframlög til háskóla munu ná meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og stefnt verður að því að þau nái meðaltali Norðurlandanna fyrir árið 2025. Iðn-, verk- og starfsnám verður eflt og rekstur framhaldsskólanna styrktur í takt við það sem þeim var lofað í fjármálaáætlun þarsíðustu ríkisstjórnar. Aðgerðaáætlun um máltækni verður fjármögnuð sem er alveg gríðarlega mikilvægt mál til að íslenskan geti orðið gjaldgeng í stafrænum heimi. Þar erum við beinlínis í kapphlaupi við tímann enda hafa tækniframfarir verið hraðar.

Efnahagslegur styrkur hlýtur ávallt að fara saman við félagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði. Ábyrg stjórn efnahagsmála er þannig lykilþáttur í að tryggja sjálfbært samfélag þar sem efnahagslíf, samfélagsþróun og umhverfismál eru í jafnvægi og ef við lítum til sögunnar hefur það jafnvægi oft verið vandfundið hér á landi. Þó að fólkið í landinu hafi á undanförnum misserum notið aukins kaupmáttar, sterkara gengis og lágrar verðbólgu finna um leið útflutningsfyrirtækin fyrir lakari samkeppnisstöðu vegna launakostnaðar og gengisþróunar. Því er mikilvægt til lengri tíma að treysta undirstöður í ríkisfjármálum, m.a. með stofnun Þjóðarsjóðs um arðinn af orkuauðlindum. Til framtíðar kunna fleiri auðlindir að bætast í þann sjóð.

Þróttmikið efnahagslíf byggist á fjölbreyttu atvinnulífi þar sem áhersla er lögð á aukna þekkingu og verðmætasköpun og sjálfbæra þróun. Undirstöðurnar þurfa að vera traustar; sjálfbær sjávarútvegur og ferðaþjónusta, umhverfisvænn landbúnaður, traust og heilbrigt fjármálakerfi og öflugt rannsókna- og nýsköpunarstarf. Þróttmikið efnahagslíf er nauðsynlegt til að samfélagið geti búið sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum en í framtíðinni mun velmegun á Íslandi grundvallast á hugviti, sköpun og þekkingu.

Ég hef nú á fyrstu dögum mínum sem forsætisráðherra hitt forystumenn heildarsamtaka á vinnumarkaði en farsælt samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er forsenda þess að hægt sé að byggja hér upp félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Komandi kjarasamningar munu ráða miklu um efnahagslega þróun komandi missera og ára og þar leggja stjórnvöld áherslu á að tryggja efnahagslegan stöðugleika en ásamt því sé mikilvægt að treysta hinar félagslegu stoðir og vinna með sem flestum að ábyrgum vinnumarkaði þar sem úrbóta er þörf til að tryggja og verja og efla réttindi launafólks í landinu, réttindi vinnandi fólks í þessu landi. Það er mikilvægt að endurskoða húsnæðisstuðning hins opinbera og leggja línur að framtíðarsýn í þeim efnum þannig að hann nýtist sem best, ekki síst ungu fólki og tekjulágu. Stefnt er að því að lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur og sömuleiðis er til skoðunar að lækka lægra skattþrep tekjuskattskerfisins við komandi kjarasamningagerð til að bæta kjörin í landinu.

Ég legg áherslu á að unnið verði hratt að því í samstarfi við heildarsamtök örorkulífeyrisþega að endurskoða þann hluta almannatryggingakerfisins sem lýtur að þeim til að tryggja mannsæmandi kjör og hvetja til samfélagsþátttöku öryrkja. Frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra verður hækkað strax á næsta ári en þetta var ein af lykilkröfum aldraðra fyrir kosningar og þá verður dregið úr kostnaði aldraðra og örorkulífeyrisþega við tannlækningar strax á næsta ári sem er mál sem lengi hefur verið beðið eftir og mikið kallað eftir í þessum sal.

Í alþjóðamálum eru blikur á lofti. Það var dapurlegt á dögunum að sjá forseta Bandaríkjanna lýsa því yfir að Bandaríkin teldu Jerúsalem nú höfuðborg Ísraels. Það mun gera það enn erfiðara að koma á friði á þessu svæði. Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að tala fyrir friðsamlegum lausnum í deilu Palestínumanna og Ísraela og þar erum við sammála nágrannaþjóðum okkar. Við Íslendingar eigum að gera hvað við getum til að láta gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi sem herlaus þjóð og málflytjendur friðsamlegra lausna. Ríkisstjórnin hyggst gera betur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og móttöku flóttamanna sem hvort tveggja skiptir máli í hinu stóra samhengi til að stuðla að friðsamlegri heimi.

Kæru landsmenn. Ég hef hér í kvöld einbeitt mér að því sem ég tel, sem og ríkisstjórnin, að megi gera betur í samfélagi okkar en um leið er svo ótal margt sem gengur okkur í haginn. Í augum alþjóðasamfélagsins erum við að mörgu leyti fyrirmyndarþjóðfélag og við eigum að gleðjast yfir því þegar vel gengur. Hugur þjóðarinnar verður í Rússlandi næsta sumar þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun etja kappi við önnur bestu lið heims. Aldrei hefur fámennari þjóð átt lið á HM karla í knattspyrnu. Hver veit nema kvennalandsliðinu takist slíkt hið sama á HM í Frakklandi 2019? Og hver hefði átt von á því fyrir tíu árum? Ef það er eitthvað sem ég hef lært persónulega á þeim áratug sem ég hef setið á Alþingi er það það að maður veit sjaldnast hvað gerist næst. Það á bæði við um vinnudagana hér á þingi sem oft fela í sér óvæntar uppákomur en líka samfélagsþróunina almennt. Oft höfum við Íslendingar orðið fyrir óvæntum og þungum búsifjum en við höfum jafnan unnið okkur upp úr þeim. Hitt veit ég að ef framtíðarsýnin er skýr, ef allir leggjast á eitt, eru meiri möguleikar en minni á að ná góðum árangri. Ég el þá von í brjósti að í lok þessa kjörtímabils höfum við öll hér inni með verkum okkar aukið traust á stofnunum samfélagsins, ekki síst Alþingi Íslendinga. Þar mun skipta mestu að við náum betur að vinna saman að farsæld fjöldans.

Við Íslendingar munum fagna 100 ára fullveldi á næsta ári og þeim stórkostlegu framförum sem Íslendingar hafa náð á aðeins einni öld. Það er alveg ótrúlegt að kynna sér sögu fullveldisins þegar hugsað er til þess að hún hefur ekki varað lengur en eina mannsævi. Einn okkar landsmanna sem hefur lifað allan fullveldistímann, Stefán Þorleifsson, 101 árs, er sá sem ók fyrstur í gegnum Norðfjarðargöngin þegar þau voru vígð fyrir skömmu. Við það tækifæri sagði Stefán m.a.:

„Að hugsa um framtíðina, það eiga allir að gera. Það er skylda hvers manns að reyna að skilja þannig við þjóðfélagið að það sé gott fyrir þá sem taka við.“

Höfum þessi orð í huga, nú þegar við hefjum störf okkar á nýju kjörtímabili. — Góðar stundir.