Mikilvægar jöfnunaraðgerðir

Í vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að tekjuskattskerfið og samspil bóta og skatta yrðu endurskoðuð á kjörtímabilinu þannig að það gagnist helst lágtekju- og lægri millitekjuhópum.

Í dag var svo lagt fram fjárlagafrumvarp og tekjubandormur þar sem lögð til til hækkun barnabóta úr 10,3 milljörðum í 12,1 milljarð. Þessi hækkun mun auka ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna.

Enn fremur er lögð til hækkun persónuafsláttar umfram breytingar á vísitölu neysluverðs sem gagnast best þeim tekjulægri. Að auki verða efri mörk skattkerfisins fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á.

Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir. Að lokum er tryggingagjaldið lækkað um 0,25% sem gagnast atvinnulífinu öllu.

Þessar breytingar eiga rætur að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og sýna okkar skýra vilja til að skatt- og bótakerfin þjóni jöfnunarhlutverki. Aðrar breytingar sem þegar hafa verið gerðar, eins og hækkun á fjármagnstekjuskatti, sýna þann sama vilja. Með þessum breytingum eru stigin mikilvæg skref sem færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggja að þau tekju- og eignamestu leggi meira af mörkum.

Fjárlagafrumvarpið: Helstu áherslur á sviði heilbrigðismála

 

Greiðara aðgengi að heilsugæslu, lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga, framkvæmdir við nýjan Landspítala, öflugri göngudeildarþjónusta, styrking heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, uppbygging hjúkrunarrýma og bætt geðheilbrigðisþjónusta, – þetta eru megináherslurnar á sviði heilbrigðismála sem birtast í fjárlagafrumvarpi ársins 2019. Hækkun framlaga til heilbrigðismála nemur 12,6 milljörðum króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum.

Framlög til heilsugæslu aukin um tæpan milljarð króna

Geðheilbrigðisþjónusta á landsvísu innan heilsugæslunnar verður efld til muna með 650 milljóna króna framlagi til að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga. Á næsta ári ætti að nást það markmið gildandi geðheilbrigðisáætlunar um eitt stöðugildi sálfræðings starfi í heilsugæslunni á móti hverjum 9.000 íbúa. Tölur sýna vaxandi sókn í þjónustu heilsugæslunnar. Áfram verður unnið að því að efla hana sem fyrsta viðkomustað sjúklinga, meðal annars með áherslu á aukna teymisvinnu, forvarnir og fræðslu til sjúklinga. Framlög í þessu skyni verða aukin um 200 milljónir króna. Framlög til heimahjúkrunar verða aukin um 100 milljónir króna og 70 milljónum verður varið til að innleiða fyrsta áfanga skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.

Tæpur milljarður til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga

Áfram verður unnið að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Við innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis heilbrigðsþjónustu árið 2016 var bætt 1,5 milljarði króna inn í kerfið á ársgrundvelli til að lækka kostnað sjúklinga. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður bætt við tæpum 400 milljónum króna til viðbótar í þessu skyni. Auk þess bætast við 500 milljónir króna vegna nýs rammasamnings um tannlækningar aldraðra og öryrkja.

Framlög til Hringbrautarverkefnisins aukin um tæpa 4,5 milljarða króna

Áhersla er lögð á að hraða uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og til samræmis við það er gert ráð fyrir auknum framlögum til þeirra framkvæmda sem nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna sjúkrahússins hefjast í haust og fullnaðarhönnun rannsóknahúss á næsta ári. Þá verður nýtt sjúkrahótel tekið í notkun en árlegur rekstrarkostnaður þess er áætlaður rúmar 400 m.kr.

450 milljónir króna til að bæta mönnun og efla göngudeildarþjónustu

Í samræmi við ábendingar í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um Landspítalann um þörf fyrir að styrkja mönnun á Landspítala, m.a. til að auka viðveru sérfræðilækna og bæta með því framleiðni, verða veittar 250 milljónir króna með þetta að markmiði. Enn fremur verður veitt 200 milljóna króna viðbótarframlag til að efla göngudeildarþjónustu sjúkrahússins.

Styrkari rekstrargrundvöllur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni

Í fjárlögum þessa árs voru veittar 400 milljónir króna til að styrkja rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Í frumvarpinu er miðað við að rekstrargrundvöllur þeirra verði styrktur varanlega með föstu framlagi sem þessu nemur.

Stórátak vegna endurbóta og fjölgunar hjúkrunarrýma

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög til framkvæmdaáætlunar um uppbyggingu hjúkrunarrýma verði aukin um 440 milljónir króna og 100 milljónum kr. verður varið til að fjölga dagdvalarrýmum. Aukin framlög til reksturs til að mæta fjölgun hjúkrunarrýma eru áætluð rúmur einn milljarður króna. Ný rými sem tekin verða í notkun árið 2019 eru 99 hjúkrunarrými við Sléttuveg í Reykjavík og 40 rými á nýju heimili á Seltjarnarnesi.

Varanlegt fjármagn til að stytta biðlista vegna liðskiptaaðgerða o.fl.

Þriggja ára átaksverkefni um styttingu biðlista vegna tiltekinna aðgerða lýkur á þessu ári. Árleg framlög vegna þess hafa verið 840 milljónir króna. Með fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárhæð sem þessu nemur verði framvegis fastur liður á fjárlögum, þannig að aukning fjármuna til að vinna á löngum biðlistum sé varanleg.

Innleiðing nýrra lyfja

Framlög til innleiðingar nýrra S-merktra lyfja verða aukin um 200 milljónir króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Neyslurými

Um 50 milljónir króna eru merktar í fjárlagafrumvarpinu til að koma á fót neyslurými í Reykjavík fyrir einstaklinga sem nota vímuefni í æð þar sem þeir geta átt skjól og aðgang að hreinum nálaskiptabúnaði.

25 milljónir í aðgerðaáætlun gegn sjálfsvígum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita 25 milljóna króna framlag til að hrinda í framkvæmd verkefnum sem lögð eru til í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Ráðherra tilkynnti um ákvörðun sína á málþingi sem haldið var í tilefni Alþjóðadags sjálfsvígsforvarna í dag.

Í ávarpi sínu ræddi ráðherra um framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar til ársins 2020. Hún fjallaði um mikilvægi þess að þjónustan snéri að einstaklingunum, væri samfelld og aðgengileg, bæði inni í skólakerfinu og í heilsugæslunni þar sem auka megi áherslu á þverfaglega samvinnu og aukna þjónustu sálfræðinga: „Búseta má ekki koma í veg fyrir að hægt sé að nýta sér geðheilbrigðisþjónustu og efnahagur má heldur ekki vera hindrun. Geðheilbrigðismálin mega ekki mæta afgangi og eru gríðarlega mikilvægur þáttur í góðu samfélagi“ sagði Svandís meðal annars. Hún ræddi um þá áherslu að gera sálfræðiþjónustu stærri hluta af opinbera heilbrigðiskerfinu með fjölgun sálfræðinga innan heilsugæslunnar. Þegar hafi tekist að tryggja fjárveitingar til allra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem geri kleift að uppfylla markmiðið um eitt stöðugildi sálfræðings fyrir hverja 9.000 íbúa og áformað sé að það markmið náist á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári.

Ráðherra ræddi einnig um fjölgun geðheilsuteyma við heilsugæslustöðvarnar í samstarfi við sveitarfélögin og ákvörðun um að setja slík teymi á fót í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki þegar fyrir hendi.

Ráðherra vísaði í ávarpi sínu til skýrslu Embættis landlæknis sem kom út fyrir helgi um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir ungs fólks á Íslandi og sagði hana undirstrika mikilvægi þess að unnið sé af fullri alvöru með fyrrnefnda aðgerðaáætlun starfshóps embættisins. Í áætluninni eru lagðar til yfir 50 aðgerðir sem ná meðal annars til almennra samfélagslegra aðgerða eins og að efla uppeldisskilyrði barna, auka geðrækt í skólastarfi og sinna áfengis- og vímuefnaforvörnum, en einnig eru þar lagðar til sértækar aðgerðir sem beinast að tilteknum áhættuhópum: „Ég mun beita mér fyrir því að aðgerðaráætlun starfshópsins verði hrint í framkvæmd. Í því skyni hef ég tekið sérstaka ákvörðun um að 25 milljónir muni renna strax í það mikilvæga verkefni“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Loftslagsáætlun – risavaxið verkefni

• Sjö ráðherrar kynna aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
• 34 aðgerðir
• Megináhersla á orkuskipti í samgöngum og átak í kolefnisbindingu
• 6,8 milljarðar í verkefni í loftslagsmálum á 5 árum

Sjö ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu viðamikla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í dag. Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið sín í loftslagsmálum. Alls verður 6,8 milljörðum króna varið til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum á næstu fimm árum, sem er stórfelld aukning frá því sem verið hefur.

Aðgerðaáætlunin samanstendur af 34 aðgerðum. Megináherslurnar eru tvær; orkuskipti, þar sem sérstaklega er horft til hraðrar rafvæðingar samgangna og átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki, auk þess sem markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Ríkisstjórnin hefur tryggt stóraukið fjármagn til aðgerða í loftslagsmálum og kynnir nú megináherslur nýrrar aðgerðaáætlunar í þessum mikilvæga málaflokki. Framundan er svo samráð við bæði atvinnulíf, sveitarfélög og almenning um nánari útfærslur. Við höfum einbeittan vilja til að ná raunverulegum árangri til að uppfylla markmið Parísarsáttmálans og markmiðinu um kolefnishlutlaust Ísland 2040.“

Aðgerðaáætlunin er unnin í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar. Aðgerðirnar í henni eiga að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu. Sumar aðgerðir eru þegar komnar í vinnslu, aðrar nánast fullmótaðar, enn aðrar eru tillögur sem þarfnast samráðs við aðila utan stjórnkerfisins og frekari útfærslu.
Áætlunin verður sett í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar og uppfærð í ljósi ábendinga, auk þess sem boðið verður til samráðs um einstakar aðgerðir með fulltrúum atvinnulífs, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra.

Verulega verður aukið við fjárfestingar og innviði vegna rafvæðingar í samgöngum en áætlað er að verja 1,5 milljarði króna til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingar hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi á næstu fimm árum. Þá er ekki meðtalinn kostnaður við áframhaldandi ívilnanir fyrir rafbíla sem þegar eru meðal þeirra mestu sem þekkjast. Kolefnisgjald verður áfram hækkað og mörkuð sú stefna að frá og með árinu 2030 verði allir nýskráðir bílar loftslagsvænir. Ísland fylgir þar fordæmi fjölmargra ríkja sem markað hafa sér skýra framtíðarsýn varðandi vegasamgöngur.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra:

„Það er ljóst að næsta bylting okkar í loftslagsmálum verður orkuskipti í samgöngum, líkt og hitaveitan var á sínum tíma. Ísland hefur með þessu sett sér það markmið að vera meðal fyrstu ríkja heims til að ná fram fullum orkuskiptum, ekki bara í húshitun heldur einnig í vegasamgöngum. Við setjum markið hátt, þar sem framtíð komandi kynslóða er undir.“

Önnur megináhersla í aðgerðaáætluninni er kolefnisbinding. Ráðist verður í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt. Um 4 milljörðum króna varið til þessara aðgerða á næstu fimm árum. Áhersla er lögð á að fela félagasamtökum hlutverk, bændum og öðrum vörslumönnum lands.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Samhliða framlagi okkar til loftslagsmála felst í áætluninni tækifæri til að styrkja efnahagslegt sjálfstæði Íslands með því að við nýtum í stórauknum mæli okkar eigin endurnýjanlegu orkuauðlindir til að standa undir orkuþörf í samgöngum og á fleiri sviðum samfélagsins.“

Um 500 milljónum króna verður varið til nýsköpunar vegna loftslagsmála og verður Loftslagssjóður stofnaður til að halda utan um slík verkefni. Um 800 milljónum króna verður varið í margvíslegar aðgerðir, svo sem rannsóknir á súrnun sjávar og aðlögun að loftslagsbreytingum, alþjóðlegt starf og fræðslu. Framlögin eru tryggð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023, en verða útfærð nánar við frekari mótun aðgerða. Samráð við hagsmunaaðila verður haft til hliðsjónar, sem og frekari greining á hagkvæmni mismunandi leiða.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra:

„Loftslagsbreytingar þekkja engin landamæri, yfirborð sjávar hækkar, jöklar bráðna og öfgar í verðurfari aukast. Tryggja þarf hreina endurnýjanlega orku og vistvænar samgöngur. Mikilvægt er að tryggja samvinnu við sveitarfélög og aðra aðila við framkvæmd áætlunarinnar – framundan er spennandi verkefni.“

Áhugasömum er bent á samráðsgátt Stjórnarráðsins þar sem hægt er að skila inn umsögnum um þessa fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar til 1. nóvember næstkomandi.

Mannauður skilar mestu – hugverkageirinn styrktur

Fjárfesting í mannauði hefur skilað miklu.

Forsætisráðherra boðar milljarða styrki til hugverkageirans á Íslandi.

Vísbendingar eru um að aukin fjárfesting í menntun eftir efnahagshrunið eigi þátt í vexti hugverkageirans síðustu ár. Tölvufræðingum fer fjölgandi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013. Á því kjörtímabili var tekin ákvörðun um að greiða fyrir menntun fólks sem missti vinnuna í kjölfar efnahagshrunsins, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Birtist það í fjölgun nemenda, bæði í framhaldsskólum og sérstaklega háskólum en skólarnir opnuðu dyr sínar fyrir miklum fjölda nemenda á þessum tíma. Sú fjölgun varð ekki síst í raungreinum, stærðfræði og í tölvunarfræðum. Fram kom í Morgunblaðinu í fyrradag að hlutur hugverkageirans í þjóðarframleiðslu nálgast 200 milljarða. Spurð um þennan vöxt, með hliðsjón af fjölgun tölvunarfræðinga, segir Katrín að fjárfesting í mannauði eftir efnahagshrunið hafi skilað árangri. Sá árangur sé jafnvel umfram væntingar. Styrktu fólk til að mennta sig »Við fórum í átaksverkefni sem ég hef verið mjög stolt af síðar meir. Við hvöttum fólk sem missti vinnuna í hruninu til að sækja sér menntun. Bæði voru búnar til námsbrautir en um leið tryggt að fólkið missti ekki atvinnuleysisbætur ef námið var ekki lánshæft. Síðar á þessu kjörtímabili settum við aukna fjármuni í rannsóknar- og tækniþróunarsjóð og inn í skapandi greinar. Það er mín trú að þetta hafi verið algjört lykilatriði og sé áfram lykilatriði í nýsköpun. Vöxtur hugverkageirans er mjög góð tíðindi. Af því að það skiptir svo miklu máli að við séum með fleiri stoðir undir okkar efnahagslífi og fleiri stoðir sem snúast um og byggjast á hugvitinu.« Katrín boðar frekari framlög til nýsköpunar. »Hluti af stefnumótun núverandi ríkisstjórnar er að fjárfesta meira í nýsköpun og þróun í gegnum nýjan þjóðarsjóð en sú fjárfesting gæti numið milljörðum á næstu árum. Samhliða því verður mótuð nýsköpunarstefna fyrir Ísland.« – Rætt er um að sterkt gengi krónu og hækkandi launakostnaður hafi skert samkeppnisstöðu Íslands. Hefur ríkisstjórnin skoðað mögulegar mótvægisaðgerðir? »Auðvitað skiptir máli að viðhalda efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Þar spila annars vegar saman ríkisfjármál, peningastefna og vinnumarkaðurinn og við erum að leggja okkar af mörkum í því efni. Hins vegar skiptir máli að stjórnvöld komi með virkari hætti að þessum geira. Það gerum við með stefnumótuninni og sérstakri áherslu á að við séum að byggja þetta upp til lengri tíma og með því að taka frá peninga til fjárfestinga,« segir Katrín

Skýrsla starfshóps um eflingu trausts birt

 - mynd
Aðgerðir er varða aukið gagnsæi stjórnsýslunnar, hagsmunaskráning, samskipti við hagsmunaaðila, starfsval eftir opinber störf og vernd uppljóstrara eru á meðal tillagna starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.Starfshópurinn sem skipaður var 5. janúar sl. hefur nú skilað skýrslu til forsætisráðherra. Skýrslan var kynnt í ríkisstjórn 4. september sl. og hyggst forsætisráðherra einnig kynna hana á Alþingi sem sett verður í næstu viku.

Í skýrslunni er fjallað um þá þætti sem hafa áhrif á traust á stjórnmálum og stjórnsýslu og hvernig megi vinna markvisst að því að auka það. Leitað er fanga í vinnu alþjóðastofnana eins og Evrópuráðsins og OECD og jafnframt horft til þess sem er að gerast í nálægum löndum. Mælir starfshópurinn með því að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands verði fengið hlutverk við að aðstoða stjórnvöld við að útfæra og fylgja tillögunum eftir.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Ég er ánægð með hvað starfshópurinn skilar ítarlegri og ígrundaðri skýrslu á tilsettum tíma. Nú tekur við umræða á pólitískum vettvangi og í samfélaginu. Mér finnst gagnlegt að sjá þetta allt sett í samhengi og áþreifanlegar tillögur sem hægt er að setja í ferli. Og hafin er vinna við suma þætti, til dæmis endurskoðun reglna um hagsmunaskráningu og frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Þessi mál verða áfram í forgangi í forsætisráðuneytinu.“

Skýrsluna má nálgast hér.

María Heimisdóttir tekur við embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands

María Heimisdóttir - mynd
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Maríu Heimisdóttur forstjóra Sjúkratrygginga Íslands til næstu fimm ára. Hún tekur við embættinu þegar Steingrímur Ari Arason, núverandi forstjóri, lætur af störfum 31. október næstkomandi.Skipunin er í samræmi við tillögu stjórnar sjúkratrygginga en María var önnur tveggja sem stjórnin taldi hæfasta til að gegna embættinu. Ráðherra ræddi við þessa tvo umsækjendur og tók í kjölfar þess ákvörðun sína um skipun í embættið.María Heimisdóttir lauk embætt­is­prófi í lækn­is­fræði frá Há­skóla Íslands árið 1990. Hún stundaði fram­halds­nám í Banda­ríkj­un­um, lauk MBA námi frá Uni­versity of Conn­ecticut árið 1997 með áherslu á stjórnun í heilbrigðisþjónustu, og síðan doktors­námi í lýðheilsu­fræðum (PhD), sam­hliða vinnu við kennslu og rann­sókn­ir, frá Uni­versity of Massachusetts árið 2002.

María hefur frá árinu 2010 verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala en hafði áður veitt forstöðu upplýsinga- og hagdeild spítalans árin 2006 – 2010. Árin 1999 til 2002 starfaði María hjá Íslenskri erfðagreiningu við þróunarverkefni. María er klínískur lektor við lækna­deild Há­skóla Íslands, hefur birt vís­inda­grein­ar í inn­lend­um og er­lend­um fræðirit­um, sinnt aka­demísk­um leiðbein­anda- og próf­dóm­ara­störf­um og stundað kennslu á sviði stjórn­un­ar, lýðheilsu og klín­ískr­ar upp­lýs­inga­tækni, m.a. í lækna­deild og fé­lags­fræðideild HÍ.

Ellefu umsækjendur voru um embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Ráðningarferlið fór þannig fram að þriggja manna hæfnisnefnd sem starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu mat hæfni þeirra ellefu umsækjenda sem sóttu um starfið. Niðurstaða hæfnisnefndar fór fyrir stjórn Sjúkratrygginga Íslands sem á grundvelli þess mats gerði tillögu til ráðherra, líkt og kveðið er á um í lögum um sjúkratryggingar. Hæfnisnefnd mat þrjá umsækjendur hæfasta, fjóra umsækjendur vel hæfa, tvo hæfa en tveir umsækjendanna uppfylltu ekki að fullu skilyrði auglýsingar. Stjórnin taldi tvo hæfasta af þeim þremur sem hæfnisnefndin hafði metið svo og lagði sem fyrr segir þá niðurstöðu sína fyrir ráðherra til ákvörðunar.

Landspítali um taugalækna og uppbyggingu

Landsspítalinn sendi í dag frá sér frétt um stöðu þjónustu göngudeilda spítalans sem varpar nýju ljósi á fréttaflutning í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær, þar sem taugalæknir á stofu sem ekki hefur fengið samning við Sjúkratryggingar og forstjóri sjúkratrygginga lýstu neyð Parkinsonsjúkra sem ekki gátu notið niðurgreiddrar þjónustu áðurnefnds læknis, þar sem heilbrigðisráðuneytið hafnaði samningum við hann.
Tilkynning Landspítalans er hér:

 

Með þróun í meðferðarformum hefur innlagnaþörf fyrir tiltekna sjúklingahópa minnkað en þörf fyrir náið sjúkrahústengt eftirlit aukist að sama skapi. Landspítali veitir fjölbreytta þverfaglega göngudeildarþjónustu fyrir landsmenn alla og eru dag- og göngudeildarkomur ríflega 350 þúsund á ári. Fyrirséð er að með áframhaldandi þróun meðferðarforma og auknum fjölda í hópi þeirra sem þjónustuna þurfa, einkum í hópi aldraðra, muni þörf fyrir  dag- og göngudeildarþjónustu aukast.

Í framtíðaruppbyggingu á starfsemi Landspítala við Hringbraut er gert ráð fyrir göngudeildarhúsi sem samkvæmt áætlun mun rísa 202X. Landspítali hefur hins vegar ákveðið að bregðast þegar við og verður skrifstofustarfsemi spítalans flutt í Skaftahlíð en húsnæðinu á Eiríksgötu 5 breytt í göngudeildarhús og er gert ráð fyrir að starfsemi hefjist þar vorið 2019

Embætti landlæknis gerði í sumar úttekt á aðgengi að þjónustu taugalækna í kjölfar ábendinga þar um. Ítreka má að úttektin laut að þjónustu við einstaklinga með allar tegundir taugasjúkdóma, s.s. Parkinson, MS, MND o.fl. Hún sneri að aðgengi á landsvísu en eðli máls samkvæmt beindist umtalsverður hluti að þjónustu á göngudeild taugalækninga á Landspítala. Sú deild sinnir sérhæfðri göngudeildarþjónustu við sjúklinga með taugasjúkdóma og er ein sinnar tegundar á landinu. Læknar og hjúkrunarfræðingar sinna móttöku sjúklinga en einnig veita næringarráðgjafar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, talmeinafræðingar, félagsráðgjafar, prestar, sálfræðingar og ritarar þjónustu á deildinn.

Frá árinu 2015 til 2018 hefur stöðugildum taugalækna fjölgað og starfsemi göngudeildarinnar aukist umtalsvert (úr 1600 í 2500). Engu að síður er biðtími til sérfræðinga á göngudeild Landspítala 3,5 mánuðir og er stefnt að því fjölga sérfræðingum í taugalækningum enn frekar til að mæta þessari þörf. Samhliða mun ráðagjafarþjónusta taugalækninga við meðferðaraðila utan spítala aukast og sérstaklega gert ráð fyrir auknu samstarfi við heilsugæslu og öldrunarþjónustuna. Landspítali tekur því undir ábendingar Embættis landlæknis um að samþætta þurfi þjónustu við þessa sjúklingahópa.

Margir af þeim sjúklingum sem taugalæknar sinna þjást af krónískum hrörnunarsjúkdómum svo sem Parkinsons sjúkdómi og MS. Landspítali tekur undir þá ábendingu landlæknis að þjónustu við þessa sjúklingahópa þurfi að samþætta með heilsugæslunni og öldrunarþjónustunni og er sammála um að vinnustofa með haghöfum væri góð nálgun við slíka vinnu.

Nú á haustmánuðum er fyrirhuguð vinnustofa með fulltrúum allra heilbrigðisumdæma/stofnana á landsbyggðinni til að samþætta og bæta þjónustu við sjúklinga með heilablóðfall um land allt. Sú vinnustofa gæti markað ákveðin þáttaskil varðandi samvinnu taugalækna við þjónustuaðila á landsbyggðinni varðandi sjúklinga með taugasjúkdóma.

Elín Oddný Sigurðardóttir í Íbúðalánasjóð

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fé­lags- og jafn­rétt­is­málaráðherra, hef­ur skipað El­ínu Odd­nýju Sig­urðardótt­ur í stjórn Íbúðalána­sjóðs.

Elín tek­ur sæti Drífu Snæ­dal, fram­kvæmda­stjóra Starfs­greina­sam­bands Íslands, sem sagði sig ný­lega úr stjórn sjóðsins og til­kynnti fram­boð sitt til for­seta ASÍ í leiðtoga­kjöri sam­bands­ins í októ­ber.

Elín Odd­ný er vara­borg­ar­full­trúi Vinstri-grænna í Reykja­vík og varaformaður velferðarráðs og hún er líka ritari stjórnar VG.  “Ég tek þetta verkefni að mér með mikilli auðmýkt enda eru ærin verkefni framundan í húsnæðismálum landsmanna. Mikilvægt er að standa ávallt vörð um félagslegt hlutverk íbúðalánasjóðs og tryggja uppbyggingu í þágu allra landsmanna. Nú er bara að bretta upp ermar og halda áfram að vinna.”, segir Elín Oddný á facebooksíðu sinni.