BINGÓ – EVG og UVG í kvöld – Glæsilegir vinningar í boði

Í kvöld, 18. október halda UVG (ung vinstri græn) og EVG (eldri vinstri græn) fjáröflunarbingó í kosningamiðstöð VG í Reykjavík að Laugavegi 170 klukkan 19:30.

Veglegir vinningar eru í boði:

-Þriggja rétta hádegisverður fyrir tvo á Matarkjallaranum
-Hádegisverður fyrir tvo á Þremur Frökkum
-Hádegisverður fyrir tvo á Horninu
-Íslenskt hunang
-Sex einingar frá hönnunarfyrirtækinu Hár úr Hala
-Og margir aðrir flottir vinningar!

Bingó spjöldin kosta 500 kr.

Öll velkomin!

Lilja Rafney og Bjarni Jónsson fyrir vestan

Lilja Rafney Magnúsdóttir og Bjarni Jónsson, tvö efstu á lista VG á Norðvesturkjördæmi halda sameiginlega fundi um það sem hæst ber í málefnum kjördæmisins næstu tvo daga. Fundirnir verða á Ísafirði, Hólmavík og Búðardal í dag, mánudaginn 17. október og á morgun, þriðjudaginn 18. október. 

 Fyrsti fundurinn er í kvöld á Ísafirði. 

Ísafjörður: Edinborg Café kl 20, kaffi á könnunni og hinir óviðjafnanlega skemmtilegu happdrættismiðar til sölu.

Á morgun eru fundir á Hólmavík og í Búðardal.

Hólmavík: Café Riis kl 17, kaffi og hjónabandssæla, auk happdrættismiðanna góðu.

Búðardalur: Fundurinn verður á Erpsstöðum þriðjudagskvöldið kl. 20:00.

Rósa Björk í Kosningaspjalli Vísis í dag

Rósa Björk Brynjólfsdóttir oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi situr fyrir svörum í beinni útsendingu í Kosningaspjalli Vísis í dag en þátturinn er hluti af ítarlegri umfjöllun fréttastofu 365 fyrir komandi þingkosningar sem fara fram þann 29. október næstkomandi.

Þátturinn hefst klukkan 13:30 og verður í beinni útsendingu á Facebook-síðu Vísis sem og á vefnum. Áhorfendum Vísis gefst tækifæri á að spyrja frambjóðendur allra flokka sem bjóða fram í kosningunum út í þeirra helstu stefnumál og málefni.

Á meðan á útsendingu stendur geta lesendur og áhorfendur sent inn spurningar með því að setja inn athugasemdir við beinu útsendinguna á Facebook. Fyrir útsendingu er einnig hægt að senda spurningar í gegnum tölvupóst á netfangið sunnakristin@365.is og hvetjum við að sjálfsögðu alla til að nýta tækifærið til að spyrja frambjóðanda Vinstri grænna spjörunum úr.

Kosningaspjall Vísis verður í beinni útsendingu virka daga fram að kosningum. Dregið var um í hvaða röð fulltrúar flokkanna koma í þáttinn en á miðvikudag mætir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar.

Glæsilegt listaverkauppboð VG á morgun í IÐNÓ

Glæsilegt listaverkauppboð VG í Iðnó laugardaginn, 15. október

 

Listagyðjan leiðir fram fjölbreytta fantasía

 

Tímasetningar:

Húsið opnar kl. 13.00 og verða listaverkin til sýnis.

Uppboðið hefst kl. 14.00.

 

Uppboðsskrá mun liggja frammi.

Lágmarksboð gildir fyrir hvert verk.

 

Uppboðshaldari: Birna Þórðardóttir

Eftirlitsmaður: Úlfar Þormóðsson

Aðstoðarmenn: Andrés Ingi Jónsson

Orri Páll Jóhannsson

 

 

Eftirtaldir listamenn gefa verk til uppboðsins:

 • Tryggvi Ólafsson
 • Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir
 • Haraldur Jónsson
 • Árni Ingólfsson
 • Guðjón Sigvaldason
 • Gunnhildur Þórðardóttir
 • Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson
 • Sigurður Örlygsson
 • Logi Bjarnason
 • Gísli B. Björnsson
 • Hulda Vilhjálmsdóttir
 • Unnar Örn J. Auðarson
 • Sigurður Guðmundsson
 • Hlynur Hallsson

 

 

 

Kosningahappdrætti VG – óviðjafnanlegir vinningar

Kosningahappdrætti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs fór af stað 12. október og lýkur 12. desember þegar dregið verður.  Margir verðmætir vinningar eru í boði, en fjöldi miða er takmarkaður.  Svo hér gildir orðtakið, fyrstir koma fyrstir fá.  Hinir heppnu, geta átt von á að eignast listaverk á heimsmælikvarða,  ferðast um Ísland og gista á lúxushótelum eða í sumarbústöðum, skoða staði sem fáum bjóðast, snæða dýrindis kvöldverð, komast í bátsferð í Vestmannaeyjum. Chilla í heimaprjónaðri lopapeysu, njóta tónlistar, eða skoða hella og læra taekwondo. … Og þetta eru bara sýnishorn af öllum þeim góðu vinningum sem hér eru í boði. Miðaverð er 1500 krónur.  Dregið verður 12. desember. Og að sjálfsögðu birtast vinningsnúmerin á hér á heimasíðunni.  www.vg.is.

Miða má nálgast hjá Bergþóru á kosningaskrifstofunni á Laugavegi 170 og hjá Birnu, Bjarka eða Björgu Evu á aðalskrifstofunni á Hallveigarstöðum.  Hægt verður að kaupa miða á öllum helstu viðburðum VG fram að kosningum og hjá kosningastjórunum, Hrafnkeli í NA, Sigríði Gísladóttur og Þóru Geirlaugu í NV, Ragnheiði í SV og Daníel í S.

 

Allir vinningar tímasettir og útfærðir í samráði við vinningsgjafa

1. Þá var önnur öldin er Gaukur bjó … Helgardvöl að Hamarsheiði 1, Skeiða- og Gnjúpverjahreppi í boði Bjargar Evu Erlendsdóttur sem jafnframt býður leiðsögn um Þjórsársvæðið – vonandi óvirkjað! Heitur pottur á staðnum. Fyrir allt að 7. Verðmæti: 60.000 kr.
2. Kata rokkar og rokkar og rólar … Stanslaust stuð í boði Andreu Jóns rokkdrottningar – pússið tjúttskóna – fyrir partýið, geimið og gleðina. Verðmæti: 80.000 kr.
3. Ljúfmeti úr lambhögum … Steingrímur J. Sigfússon býður forréttakörfu, fyllta norðurþingeyskum sauðfjárafurðum frá Fjallalambi. Verðmæti: 10.000 kr.
4. Fiskurinn hefur fögur hljóð – en bæta má ef duga skal … Daníel E. Arnarsson býður tveggja klukkutíma söngnámskeið. Kverkar kældar í lokin. Fyrir allt að 5. Verðmæti: 35.000 kr.
5. Í upphafi var borðið – við bættust munnþurrkur og magans lystisemdir … Ingi Rafn Hauksson veitingastjóri greinir frá galdri góðrar veislu. Fyrir allt að 6. Verðmæti: 45.000 kr.
6. Garnir raktar – um allt nema eigið ágæti … Í tilefni af 50 ára skáldaafmæli á árinu býður Úlfar Þormóðsson til samræðna um allt milli himins og jarðar – að undanskildum eigin verkum. Einörð svör á boðstólum sem og eðalkaffi. Fyrir allt að 6. Verðmæti: 60.000 kr.
7. „Ástarljóð til þorsksins” söng Stella Hauks – og þorskurinn syndir og syndir þrátt fyrir kvótakónga … Inga Eiríksdóttir býður 9 kílóa öskju af sjófrystum þorski. Vatnið kemur strax í munninn. Verðmæti: 10.000 kr.
8. Lopinn teygður og teygður … Krissa Ben prjónlesari töfrar fram lopapeysu að ósk. Verðmæti: 35.000 kr.
9. Njótum náttúrunnar ….. og afurðanna … Jóhannes Sigfússon býður vikudvöl í sumarhúsi á Gunnarsstöðum. Jafnhliða býður Kristín Sigfúsdóttir til málsverðar í Gamla bænum og leiðsögn um Þistilfjörð og Langanes. Fyrir 4. Verðmæti: 56.000 kr.
10. Hús andanna … Birna Þórðardóttir býður í skoðunarferð um hús sitt. Portkonupasta og vín hússins. Fyrir allt að 6. Verðmæti: 80.000 kr.
11. … margur varð af hernum api … Frá Forlaginu kemur bók Páls Baldvins Baldvinssonar, Stríðsárin 1938-1945. Verðmæti: 16.990 kr.
12. „ ….. kennd er við Hálfdan hurðin rauð, / hér mundi gengt í fjöllin;” …: Með snjótroðara flytur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gesti upp á Múlakollu í Ólafsfirði. Upphiminslegt útsýni. Tapas og guðaveigar þegar niður er komið. Fyrir 2. Verðmæti: 63.000 kr.
13. Fjósalykt í fangið …: Hjónin á Erpsstöðum í Dölum, Helga Elínborg Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einar Guðbjartsson, stunda dásemdar rjómabúskap. Skoðunarferð um búið og smökkun á hnossgæti – svo sem Kjaftæðisís og skyrkonfekti. Fyrir allt að 6 fullorðin, börn velkomin. Verðmæti: 35.000 kr.
14. Lystaukandi listmunir fyrir matarboðið … Borðdúkur, glasamottur og servíettur frá Berg, íslenskri hönnun frá Langanesi. Í boði Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttur. Verðmæti: 10.000 kr.
15. Nonni og Manni löngu horfnir – en Pollurinn, Brekkan, Gilið og Eyrin á sínum stað – að ógleymdum kirkjutröppunum … Sóley Björk Stefánsdóttir leiðir gesti um gósenlendur Akureyrar. Gönguferð lýkur með grilli og tilbehör í Kjarnaskógi. Fyrir allt að 6. Verðmæti: 80.000 kr.
16. Margt býr í moldinni eða Á leiðinni milli leiða … Heimir Janusarson fetar óræðar slóðir Gamla kirkjugarðsins við Suðurgötu. Skáldamjöður hvar við á. Fyrir allt að 10. Verðmæti: 60.000 kr.
17. „Það er til einn tónn, …….. En sá sem hefur heyrt hann sýngur ekki – framar.” Frá Forlaginu kemur bók Árna Heimis Ingólfssonar, Saga tónlistarinnar. Verðmæti: 11.990 kr.
18. Könguló, könguló – vísaðu mér … Sif Jóhannesdóttir býður til tveggja daga berjaferðar að Ærlæk, í Öxarfirði. Innifalin gisting og kvöldverður, ásamt leiðsögn í berjamóinn. Fyrir 4. Verðmæti: 60.000 kr.
19. Um eyjar og sund má finna „ránardætur og himinský” … Ragnar Óskarsson ýtir úr vör í Vestmannaeyjum. Léttar veitingar á leiðinni. Mælt með vor- eða sumarferð. Fyrir 2. Verðmæti: 45.000 kr.
20. Kampavínskommúnisti Teikning eftir Ragnar Kjartansson frá árinu 2010. Verðmæti: 420.000 kr.
21. Æfingin skapar meistarann … Meisam Rafiei taekwondoþjálfari kennir grunntaktana í taekwondo. Fyrir sex. Verðmæti: 60.000 kr.
22. Hjartað býr enn í helli sínum … Kristín Benediktsdóttir og Unnur Jónsdóttir bjóða til hellisferðar nálægt Kaldárseli. Gengið verður inn í hellinn – og aftur út – sem er til bóta! Gestir upplýstir með höfuðljósum. Hlýleg hressing við ferðalok. Fyrir 3. Verðmæti: 30.000 kr.
23. Bíum, bíum bambaló … Gisting með morgunverði á Hótel Borealis við Úlfljótsvatn. Fyrir 2. Verðmæti: 26.000 kr.
24. … og svo er vaknað af værum blundi …: Gisting með morgunverði og þriggja rétta kvöldverði á Hótel Rangá. Fyrir 2. Verðmæti: 49.900 kr.

Stjórnarandstöðuflokkarnir lýsa yfir verulegum vonbrigðum með leið ríkisstjórnarinnar

Formenn og talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna kynntu á blaðamannafundi í dag sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar vegna breytinga á lögum um almannatryggingar.

 

Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Björt framtíð og Píratar lýsa yfir verulegum vonbrigðum með þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið til að hækka greiðslur almannatrygginga. Hún tryggir ekki að greiðslur almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna og verði 300.000 krónur. Aðeins hluti aldraðra og öryrkja fær hækkanirnar. Eldri borgarar og öryrkjar í sambúð eru skildir eftir og tekjuskerðingar aukast hjá ákveðnum hópum. Um það verður engin sátt.

 

Ríkisstjórnin ætlar sér að ná fram sparnaði með því að hækka þá sem búa með öðrum hlutfallslega minna og ná síðan 280.000 kr. markinu fyrir þá sem búa einir með því að auka skerðingar. Þannig er í raun verið að innleiða sambúðarskatt á lífeyrisþega og auka skerðingarhlutföllin hjá þeim sem búa einir. Þessi munur mun síðan aukast enn meira árið 2018. Þetta er ósanngjörn leið sem grefur undan trausti og samstöðu um gott almannatryggingakerfi.

 

Stjórnarandstöðuflokkarnir leggja til réttlátari og eðlilegri leið til að hækka greiðslur almannatrygginga. Varðandi kjör eldri borgara, þá leggur stjórnarandstaðan til réttlátari leið og hækkar ellilífeyri um 13,4%. Þá fær eldri borgari sem býr með öðrum 241.300 kr. á mánuði eða um 13.400 kr. meira á mánuði miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar. Varðandi kjör öryrkja, þá leggur stjórnarandstaðan til réttlátari leið og hækkar lífeyri öryrkja um 13,4%. Þá fær öryrki sem býr með öðrum 241.300 kr. á mánuði eða um 13.400 kr. meira á mánuði miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar.

Hér má lesa nánar tillögur stjórnarandstöðuflokkanna

 

Þingflokkur VG lýsir ánægju með ákvörðun pólska þingsins

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lýsir ánægju sinni yfir því að pólska þingið felldi með miklum mun umdeilt frumvarp um fóstureyðingar sem mótmælt hefur verið um gjörvalla Evrópu. Pólland er nú þegar með eina ströngustu löggjöf í Evrópu um fóstureyðingar.

Það er því ánægjuefni að pólskir þingmenn og þingnefndir hafi hlustað og tekið tillit til þeirrar almennu gagnrýni sem upp kom hjá pólskum almenningi og mannréttindahreyfinginum víða um heim gegn því að löggjöfin yrði þrengd enn frekar.

Þingflokkur VG vill árétta stuðning sinn og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við kvenréttindabaráttu af hvers kyns toga hvarvetna í heiminum og hvetur íslensk stjórnvöld til að tala fyrir kvenfrelsi og kvenréttindabaráttu hvar sem færi gefst.

 

Opnun kosningamiðstöðvar VG í Reykjavík

 

Kosningamiðstöð Vinstri grænna í Reykjavík á Laugavegi 170 verður opnuð með pompi og prakt á morgun, laugardaginn 8. október kl. 14.00.

 

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, oddvitar Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmunum, munu flytja ávörp. Frambjóðendur hreyfingarinnar sjá um að steikja vöfflur fyrir mannskapinn. Fjör fyrir alla og leikir fyrir börnin. Öll velkomin!

 

Kosningamiðstöðin verður svo vitaskuld opin gestum og gangandi í framhaldinu allt fram að kosningum. Opnunartímarnir verða sem hér segir:

 

Virkir dagar: 16.00 – 18.00

Laugardagar: 11.00 – 14.00

Sunnudagar: Lokað.

 

Sjálfboðaliðar á kosningamiðstöð

Það vantar sjálfboðaliða til að hjálpa til á kosningamiðstöð VG í Reykjavík fram að kosningum. Þau sem eru tilbúin til þess að hjálpa til geta skráð sig á opnuninni á laugardaginn eða með því að senda línu á Bergþóru, kosningastjóra VGR, í netfangið bergthora@vg.is.

Öfgar og lýðskrum í evrópskri pólitík

Finnskur fyrirlestur hjá VGR föstudag 7. október kl. 16.30

Lýðskrumspólitík í Evrópu, Trump-stemningin og Sannir Finnar, verða umfjöllunarefnið á síðdegisfundi Vinstri Grænna í Reykjavík, í kosningamiðstöðinni á Laugavegi 170,  á morgun föstudag klukkan 16.30.

Finnski stjórnmálamáðurinn, Paavo Aahrinmaaki, formaður Vänsterforbundet i Finnlandi til margra ára, heldur stutt erindi um evrópska pólitík á fundi sem er opinn öllum áhugafólki um evrópska pólitík.  Erindið hefst klukkan 16.30 og stendur í hálftíma.  Þar fer Paavo stuttlega yfir helstu furður sem orðið hafa í finnskri pólitík eftir að Sannir Finnar urðu til og hvaða aðferðir þeir notuðu til að komast til valda.  Paavo ber þá saman við tilsvarandi flokka víðar í Evrópu og um heiminn, en finnski fyrrum formaðurinn er þrautreyndur úr alþjóðlegu pólitísku samstarfi og hefur árum saman glímt við þau öfl sem hér er lýst.

Paavo heldur fyrirlestur sinn á ensku og svarar gjarnan spurningum að loknu erindi sínu.  Hér er í boði að ljúka vinnuvikunni á áhugaverðu fyrirlestri, þar sem kynnast má stjórnmálaþróun nágrannalandanna síðustu árin í gegnum baráttumanninn Paavo. Hann er mörgum Íslendingum að góðu kunnur, fyrir stjórnmálaþátttöku sína og fyrir ólæknandi áhuga sinn á fótbolta.  Sem kemur líka við sögu í heimsókn Paavos til landsins  nú.