VG Árnessýslu: – Framundan á Suðurlandi

Fyrsta starfsári nýs VG félags í Árnessýslu er senn að ljúka og í lok starfsársins verða haldnir tveir fundir í sýslunni, sem allir eru velkomnir á. Annar er opinn fræðslufundur með Ara Trausta Guðmundssyni, þingmanni sunnlendinga, um eldgos og óróa af ýmsu tagi, en hitt er aðalfundur félagsins eftir fyrsta starfsárið. Hér að neðan er bréf frá formanninum Almari Sigurðssyni á Lambastöðum.

 

Kæri félagsmaður VG í Árnessýslu!

Nú er senn að ljúka fyrsta starfsári VG í Árnessýslu. Ýmislegt er búið að gera á þessu starfsári. Má þar nefna þátttaka og vinna vegna þingkosninga 2016, jólafundur í Hjarðarbóli með Ara Trausta og fundur með Katrínu Jakobsdóttur, Svandísi Svavarsdóttur og Ara Trausta í Flugminjasafninu á Selfossflugvelli í janúar. Í lok þessa starfsárs ætlum við að halda tvo fundi.

Fundur með Ara Trausta í Hjarðarbóli, Ölfusi, 20. apríl kl. 20:00

Fundarefni er eldgos, jarðfræði og stjórnmál.

Ari Trausti ætlar að reyna að svara spurningunni, „Hvar gýs næst“? Verður það Hekla, Katla, Bárðarbunga eða stjórnarráðið?

Aðalfundur VG í Árnessýslu verður haldinn í Skaftholti, Skeiða- og Gnúpverjahreppi 27. apríl kl. 20:00.

Dagskrá fundar, venjuleg aðalfundarstörf.

Björg Eva framkvæmdastjóri Vinstri grænna mætir á aðalfundinn og segir okkur frá innra starfi flokksins og flokksskipulagi.

Við vonumst til að sjá sem flesta á fundunum tveimur sem eru nú á næstu dögum.

Virðingarfyllst Almar Sigurðsson, formaður VG í Árnessýslu.

Sigríður Gísladóttir nýr formaður VG á Vestfjörðum

Aðalfundur VG á Vestfjörðum fór fram á Ísafirði mánudaginn 3. apríl. Hafði það verið auglýst að Katrín Jakobsdóttir og Björg Eva Erlendsdóttir, formaður og framkvæmdastjóri yrðu á fundinum ásamt Lísu Kristjánsdóttur, aðstoðarmanni Katrínar. Hugðust þær taka seinnipartsflugið vestur. Sú heimsókn náði þó ekki lengra en svo að flugvélin hringsólaði yfir Ísafjarðardjúpi áður en ákveðið var að snúa henni við – um 90 mínútum eftir að hún hafði tekið á loft. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Norðvesturkjördæmis og Súgfirðingur með meiru lét sig þó ekki vanta. Góð mæting var á fundinum, sem haldinn var í Edinborgarhúsinu, en kosið var í nýja stjórn félagsins og sendi fundurinn frá sér nokkrar ályktanir. Guðný Hildur Magnúsdóttir, sem leitt hefur starfið á norðanverðum Vestfjörðum undanfarin ár, sóttist ekki eftir endurkjöri. Nýr formaður er Sigríður Gísladóttir, dýralæknir á Ísafirði. Sigríður hefur komið víða við í starfi VG, en hún var m.a. í 3. sæti á lista VG í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum 2014 og var kosningastjóri í Norðvesturkjördæmi haustið 2016. Við þökkum Guðnýju fyrir velunnin störf og bjóðum Sigríði velkomna til starfa! Ný stjórn, í heild sinni er eftirfarandi:

Sigríður Gísladóttir, formaður
Ágústa Guðmundsdóttir, gjaldkeri
Jóna Benediktsdóttir, ritari
Svava Rán Valgeirsdóttir, meðstjórnandi
Gígja S. Tómasdóttir, meðstjórnandi

Varamenn:
Þormóður Logi Björnsson
Guðný Hildur Magnúsdóttir

Aðalfundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:

Aðalfundur svæðisfélags Vinstri Grænna á Vestfjörðum haldinn 3. apríl 2017 á Ísafirði sendir frá sér eftirfarandi ályktanir:

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum ætlast til að stjórnvöld standi við gefin loforð um uppbyggingu innviða samfélagsins. Gera þarf miklar breytingar á langsveltu menntakerfi þannig að hægt sé að tala um jafnrétti til náms á Íslandi. Heilbrigðiskerfi þjóðarinnar er í molum og gera þarf umbætur á því sem fela jafnframt í sér að fólk geti notið heilbrigðisþjónustu óháð búsetu eða efnahag og breyta þarf velferðarkerfinu þannig að þeir sem þurfa að treysta á aðstoð þess til framfærslu verði ekki um leið fastir í gildru fátæktar.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum skorar á stjórnvöld að standa við samþykkta samgönguáætlun og sjá til þess að eðlileg uppbygging atvinnulífs geti farið fram um land allt.  Minnt er á að flug og sjúkraflug skiptir íbúa landsbyggðarinnar verulegu máli.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum lýsir furðu sinni yfir þeirri stöðu sem komin er upp í tengslum við tilkynningu HB Granda um að hætta vinnslu á Akranesi. Fundurinn átelur útgerðarfyrirtæki sem sýna samfélögum sem þau starfa í slíka vanvirðingu og hvetur forsvarsmenn Akranesbæjar til að nýta fjármuni sem ætlaðir eru til atvinnuuppbyggingar í önnur verkefni en þau sem felast í sérstökum stuðningi við HB Granda.

 Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum bendir á mikilvægi þess að Menntaskólinn á Ísafirði geti sinnt kennslu verknáms eins og verið hefur og krefst þess að menntamálaráðherra og þingmenn svæðisins sjái til þess að tímabundin fækkun nemenda sem fyrirsjáanleg er á næstu árum, verði ekki til að draga úr fjárframlögum og þar með námsframboði við skólann með slæmum afleiðingum fyrir samfélagið allt.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum minnir á samfélagslegt mikilvægi héraðsfréttamiðla og leggur til að sjálfstæðir og óháðir héraðsfréttamiðlar fái stuðning til að starfa í því fjölmiðlaumhverfi sem ríkir á Íslandi. Varað er við því að slíkir fjölmiðlar komist í eigu stjórnmálaafla, eða aðila tengdum þeim, sem beita þeim í eigin þágu.

„Orðið er laust“ fellur niður á morgun

Af óviðráðanlegum ástæðumn fellur „Orðið er laust“ niður á morgum af óviðráðanlegum ástæðum. Þegar orðið er laust gefst félagsmönnum og öðrum áhugasömum gefst tækifæri á að eiga samræður við þingmenn beint og milliliðalaust. Mikill fjöldi funda hefur verið hjá VG og svæðisfélögum hreyfingarinnar undanfarna daga og vikur og á morgun má búast við miklum önnum í þinginu vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Ný tímasetning verður auglýst fljótlega.

United Silicon á opnum fundi þingnefndar

Fundur umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis með forsvarsmönnum United Silicon á morgun, um mengunar og mengunarvarnir verður opinn fjölmiðlum og almenningi að frumkvæði þingmanna Vinstri grænna sem eiga sæti í nefndinni. Þeir  eru Ari Trausti Guðmundsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé.  Mælingar hafa sýnt arsenmengun umfram viðmiðunarmörk, en deilt hefur verið um hvort mælingarnar standist – Fundurinn hefst klukkan 9:30 og er haldinn á nefndarsviði Alþingis, Austurstræti 8-10.  Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er formaður nefndarinnar.  Hún segir við Rúv að fundurinn sé opinn  í forvarna og upplýsingaskyni,  því auðvitað eigi íbúar sem eru nálægt svona fyrirtæki rétt á að vita hvort það er að valda þeim heilsutjóni.  Íbúar mótmæltu verksmiðjunni á föstudaginn og kröfðust þess að henni yrði lokað. Valgerður hefur áhyggjur af því að verksmiðjan hafi verið höfð fyrir rangri sök.  Ari Trausti og Kolbeinn hafa áhyggjur af menguninni, sem hefur truflað íbúa svæðisins með lykt og valdið þeim óþægindum.

Fjölmenni á VG fundi um alþjóðastjórnmál

IMG_5774 (002)

Fjölmenni var á fundi VG og VGR með Magnúsi Þorkeli Bernharðssyni, prófessor í Miðausturlandafræðum í Norræna húsinu síðdegis í gær. Hátt á annað hundrað manns sóttu stórfróðlegan fyrirlestur Magnúsar sem staddur er hér á landi en hann er búsettur í Bandaríkjunum og starfar sem prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College, Massachussets.

Frá Berlín til Bagdad var leiðarstefið í erindinu, þar sem Magnús varpaði ljósi á afleiðingar alþjóðastefnu Bandaríkjanna í málum Miðausturlanda, síðustu áratugina og líkti stöðu Bagdad á þessari öld við stöðu Berlínar á síðustu öld. Hann skoðaði hagsmuni Bandaríkjastjórnar á þessu svæði sérstaklega með það í huga hvað gæti verið í vændum í valdatíð Donalds Trump. Þar fjallaði hann sérstaklega um Írak, S’yrland Ísrael Palestínu og Sádi Arabíu. Katrín Jakobsdóttir stýrði umræðum í lok fundar, en gríðarlegur áhugi var fyrir efninu, svo færri en vildu komust að með spurningar.

VG þakkar Magnúsi Þorkeli og fundargestum fyrir góðan og fræðandi fund og stefnir að því að bjóða almenningi innan VG og utan upp á fleiri tækifæri til að kynna sér stærstu mál samtímans með aðkomu þeirra sem best til þekkja.

FullSizeRender (010)          IMG_5771 (002)

Samstarf VGR og VG í Kópavogi: Borgarlína – bylting í samgöngum?

Vinstri græn í Reykjavík og Vinstri græn í Kópavogi halda sameiginlegan fund miðvikudaginn 29. mars kl. 17:00, í Auðbrekku 16 í Kópavogi. Fundurinn ber yfirskriftina: Borgarlína – bylting í samgöngum? Er þetta í fyrsta skipti sem VG félögin í Reykjavík og Kópavogi halda sameiginlegan viðburð í nokkurn tíma, en allir eru velkomnir bæði utan flokks og innan.

Framsögur flytja:
Hrafnkell Proppe, frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar
Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi og varaþingmaður

 

Til róttækrar skoðunar – Hver á að selja áfengi

Athygli er vakin á opnum hádegisfundi í Iðnó kl.12 á laugardag þar sem tveir sérfræðingar sem sérstaklega hafa rannsakað hvaða þýðingu sölumáti á áfengi hefur á neyslu þess og síðan frekari afleiðingar. Hádegisfundurinn er öllum opinn.

Á fundinum er spurt: HVER Á AÐ SELJA ÁFENGI: HVAÐ SEGJA RANNSÓKNIR?

Frummælendur eru:

Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur

Hlynur Davíð Löve, læknir

Fundarstjóri er Ögmundur Jónasson

Um frummælendur og erindi þeirra:

Hildigunnur er afbrotafræðingur, dr. philos frá Háskólanum í Osló; vann lengi við áfengisrannsóknir á geðdeild Landspítalans og var síðan sjálfstætt starfandi fræðimaður með starfsstöð í ReykjavíkurAkademíunni. Hún hefur rannsakað og birt efni á sviði áfengisrannsókna og afbrotafræði.

Heiti erindis Hildigunnar Ólafsdóttur er: Hvað segja rannsóknir um afnám einkasölu á áfengi?

Hlynur Davíð Löve, læknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi lauk námi frá Kaupmannahafnarháskóla á síðasta ári og fjallaði útskriftarritgerð hans um algengi, nýgengi og dánartíðni áfengistengdra sjúkdóma og lífslíkur í Danmörku, Svíþjóð og Íslandi. Í ritgerðinni var sjónum beint að löggjöf og reglum í hverju landi og hver áhrif dreifingarmátinn hefði á sölu og neyslu áfengis og tíðni áfengistengdra sjúkdóma.

Heiti erindis Hlyns Davíðs Löve er: Mynstur áfengistengdra sjúkdóma í Svíþjóð, Danmörku og Íslandi og tengsl þeirra við löggjöf.

Gaman væri að sjá ykkur á fundinum!

https://www.facebook.com/events/1853109488310202/

https://www.facebook.com/events/1853109488310202/

Fundaröð VG í Kópavogi fram á vor

Fundardagar eru miðvikudagar kl. 17:30 – 19:00
Fundarstaður Auðbrekka 16. Kópavogi.
Allir fundir eru opnir og allir velkomnir.

22. mars – Bæjarmál.

29. mars – Borgarlína kynnt og rædd, gestir úr Garðabæ, Hafnafirði og Reykjavík.

5. apríl – Alvarleg mengun frá Hellisheiðarvirkjun við bæjardyrnar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Svandís Svavarsdóttir taka umræðuna.

 

19. apríl. Bæjarmál.

26. apríl. Bæjarmál.