Kosningar augljósasti kosturinn

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í samtali við Ríkisútvarpið að kosningar séu augljósasti kosturinn í stöðunni eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sprakk í gærkvöldi. Þetta er þriðja ríkisstjórnin sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild undanfarinn áratug en þær hafa allar sprungið áður en kjörtímabilið er úti.

„Það sem ég held að sé mikilvægast að gerist núna er að fólk andi í kviðinn yfir stöðunni. Augljósi kosturinn er að það verði boðað til kosninga því að það er engin augljós ríkisstjórn í kortunum,“ sagði Katrín í samtali við Morgunútvarp Rásar 2.

Þingflokkur VG kemur saman núna til að ræða stöðu mála.

Smelltu hér fyrir frétt Ríkisútvarpsins.

Forgangsmál á nýju þingi

Við upphaf 147. löggjafarþings leggja þingmenn Vinstri grænna fram nokkurn fjölda þingmála sem nær yfir breitt málefnasvið. Málin eru unnin með markmið jöfnuðar, sjálfbærni, friðar og kvenfrelsis í forgrunni. Forgangsmál þingflokksins á þessu þingi eru að vanda þrjú og eru eftirtalin:

Tillaga til þingályktunar um stefnu í efnahags- og félagsmálum. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir. Í ljósi mikillar þenslu á vinnumarkaði, neyðarástands á húsnæðismarkaði, skorti á framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, vaxandi ójöfnuðar og bresta í velferðarkerfinu telja þingmenn Vinstri grænna nauðsynlegt að bregðast strax við til þess að tryggja hér stöðugleika til framtíðar. Meginmarkmið tillögunnar er að stjórnvöld efni til samráðs og móti aðgerðir sem stuðli að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika.

– Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á ástæðum og áhrifum fátæktar í íslensku samfélagi. Fyrsti flutningsmaður er Svandís Svavarsdóttir. Fátækt er einhver mesti meinvaldur samfélaga og fréttir sem benda til aukinnar útbreiðslu hennar vekja upp miklar áhyggjur. Þekkja verður umfang og eðli vandamálsins til þess að geta brugðist við á skilvirkan hátt og útrýmt fátækt á Íslandi. Inntak ályktunarinnar er að ríkisstjórn verði falið að gera viðamikla rannsókn á fátækt á Íslandi. Hún svari m.a. hver útbreiðsla fátæktar hérlendis sé miðað við Norðurlöndin, hver hafi verið þróun fátæktar og skipting eftir byggðarlögum. Einnig skuli sjónum beint að áhrifum fátæktar á ólíka þjóðfélagshópa; barnafjölskyldur, einstæða foreldra, innflytjendur og aldraða, og áhrifum hennar á heilsufar og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Tillaga til þingsályktunar um stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir. Í tillögunni felst að umhverfis- og auðlindaráðherra marki stefnu og láti gera drög að áætlun um aðgerðir sem miði að því að Ísland verði kolefnishlutlaust í áföngum, í síðasta lagi fyrir árið 2040. Þetta er metnaðarfyllra markmið en Evrópusambandið hefur sett fram, enda getur og á Ísland að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

 

Að auki má finna í málalista þingflokksins nýtt lagafrumvarp um réttarstöðu trans og intersex fólks, móttöku og aðstoð við fylgdarlaus börn á flótta og þingsályktunartillögu um endurskoðun á beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar. Lagt er fram mál um frestun á framkvæmd uppreist æru, á meðan endurskoðun lagaumgjörðar fer fram. Einnig má nefna tillögu um að Ísland fullgildi Istanbúl-samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, og lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði.

Líkt og áður leggja þingmenn VG áherslu á umhverfismál, t.a.m. með tillögu til þingsályktunar um að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 og stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Þingsályktunartillaga um að Ísland gerist aðili að nýjum samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum er mikilvægt mál, nú þegar við horfum á aukna kjarnorkuvígvæðingu og -ógn á alþjóðavettvangi.

Tillaga um endurskoðun á lagaumhverfi uppkaupa á landi verður lögð fram að nýju, enda mál sem ekki hefur verið leyst þrátt fyrir að vera reglulega í umræðunni. Vinstri græn lögðu á síðasta þingi fram mál um lækkun kosningaaldurs úr 18 árum í 16 í sveitarstjórnarkosningum. Málið er lagt fram aftur eftir jákvæðar umsagnir víðs vegar að og góðan hljómgrunn í meðförum þingsins á 146. þingi.

 

Þingflokkur VG mun að vanda jafnframt sinna því mikilvæga hlutverki að veita ríkisstjórninni aðhald í stóru og smáu og andæfa hægri stjórn og sveltistefnu. Nýtt þing mun einkennast af átökum um samfélagið, innviði þess, gildi og forgangsröðun. Þingflokkur VG er vel undirbúinn og mun láta til sín taka í öllum málaflokkum.

 

Fundur fólksins á Akureyri um helgina

Þingmenn og sveitastjórnarfulltrúar Vinstri grænna taka þátt í Fundi fólksins sem fram fer í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri um helgina.  Ung Vinstri Græn,  Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé,  Sóley Björk Stefánsdóttir og fleiri taka þátt í spennandi dagskrá lýðræðishátíðarinnar, sem hægt að kynna sér hér.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður, tekur þátt í pallborði á vegum Norræna félagsins sem ber yfirskriftina Eru Norðurlönd boðberar friðar og framfara á Norðurslóðum? Ari Trausti er formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál. Viðburðurinn hefst klukkan 12:00 á laugardag í salnum Nanna í Menningarhúsinu Hofi. Fundarstjóri er Bogi Ágústsson.

Ung vinstri græn standa fyrir málþingi um lækkun kosningaaldurs og kosningaþátttöku ungs fólks. Ungliðahreyfingar fleiri stjórnmálaflokka taka þátt í viðburðinum. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður og einn af flutningsmönnum frumvarps VG um lækkun kosningaaldurs í sveitastjórnakosningum niður í 16 ár, kynnir efni þess stuttlega. Viðburðurinn hefst klukkan 13:00 í salnum Hamraborg í Hofi.

 

Aðalfundur VG í Vestmannaeyjum

Í gærkvöldi var haldinn aðalfundur VG í Vestmannaeyjum. Venjuleg aðalfundarstörf fóru fram og kjörnir voru fulltrúar félagsins á landsfund.

Rætt var um undirbúning bæjarstjórnarkosninganna á næsta ári.

Ný stjórn var kosin en hana skipa:

Ragnar Óskarsson formaður ( hrauntun22@gmail.com)
Margrét Lilja Magnúsdóttir ( margret@setur.is)
Sigríður Kristinsdóttir (siggak@hive.is).

 

Eftirfarandi kveðja var send þingflokki VG:
Baráttukveðjur til þingflokks Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs

 

Aðalfundur Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs í Vestmannaeyjum haldinn 4. sept. 2017 sendir þingflokki hreyfingarinnar baráttukveðjur við upphaf  starfa Alþingis haustið 2017. Megi störf ykkar þar áfram sem hingað einkennast af þeim krafti og samstöðu sem þið sýnduð á síðasta þingi. Stefna hreyfingarinnar hefur e.t.v. aldrei átt brýnni erindi til þjóðarinnar en einmitt nú og því er afar mikilvægt að fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs á Alþingi sýni og sanni með verkum sínum að þeir eru sannarlega málsvarar almennings á Íslandi. Fundurinn treystir ykkur best til þess.

Félagsfundur VG á Suðurnesjum

Félagsfundur VG á Suðurnesjum verður í kvöld, þriðjudag, 5. september, kl. 20:00 í sal Karlakórs Keflavíkur, Vesturbraut 17 í Reykjanesbæ.

Fundarefnin eru kjör fulltrúa á landsfund VG og framboðsmál á svæðinu þar sem spurningin hvort og hvernig verður boðið fram í Reykjanesbæ er stóra málið.

Ástandið í Helguvík verður einnig rætt. Gestir fundarins verða Katrín Jakobs og Ari Trausti.

Við hvetjum alla sem mögulega geta til að mæta, hnippa í aðra félaga að gera slíkt hið sama og taka með sér nýtt fólk sem vill ganga til liðs við okkur.

 

Svokölluð like síða, VG á Suðurnesjum, er komin í loftið á facebook, þar er að finna viðburð fyrir fundinn. Endilega líkið við og deilið að vild

Gyða Dröfn nýr formaður UVG

Landsfundur Ungra vinstri grænna fór fram í Grundarfirði um helgina.  Breytingar urðu á stjórn og skipulagi UVG og margir nýir ungliðar tóku sæti í stjórnum.  Tvær stjórnir eru í UVG, framkvæmdastjórn sem sér um daglegan rekstur og landstjórn sem er æðsta vald milli landsfunda.  Skipulag UVG hefur verið flatt, með talsfólki, en ekki forystu.  En nú var tekið upp embætti formanns og varaformanns.  Að taka upp embætti formanns á ný, á að gera starfið skilvirkara, en áfram verður unnið í þeim anda að enginn fulltrúi sé æðri öðrum.

Gyða Dröfn Hjaltadóttir kjörin formaður UVG með öllum greiddum atkvæðum. Gyða er sálfræðingur á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum, en hún útskrifaðist með meistarapróf í klínískri sálfræði í júní. Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir var kjörin varaformaður, en hún er nemi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Í heild sinni eru stjórnir UVG svo skipaðar:

Framkvæmdastjórn:

Formaður: Gyða Dröfn Hjaltadóttir

Varaformaður: Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir

Aðalritari: Dagrún Ósk Jónsdóttir

Viðburðastýra: Margrét Erla Þórsdóttir

Ritstýra: Þórdís Dröfn Andrésdóttir

Innrastarfsfulltrúi: Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir

Alþjóðaritari: Rakel G. Brandt

 

Landstjórn:

Eyrún Baldursdóttir

Isabella Rivera

Jón Axel Sellgren

Rúnar Gíslason

Salvar Andri Jóhannsson

Silja Snædal Drífudóttir

Védís Huldudóttir

Flokksráð í Borgarfirði

Hátt í hundrað VG félagar sóttu flokksráðsfund í Borgarfirði um nýliðna helgi, þar sem kynnt var vinna þrettán málefnahópa sem vinna að stefnumótun fyrir landsfund VG í haust, sem fer fram á Grand Hótel í Reykjavík 6. – 8. október. Svandís Svavarsdóttir var kosin fundarstjóri flokksráðsfundar í fjarveru Björns Vals Gíslasonar varaformanns og formanns flokksráðs. Auk stefnumótunar voru sveitarstjórnarmál og kosningabaráttan framundan rædd sérstaklega. Málshefjandi þeirrar umræðu var Óli Halldórsson, oddviti VG í Norðurþingi, þar sem VG stendur sterkt með tvo sveitarstjórnarfulltrúa. Fundargerð flokksráðsfundar má finna hér.

Björn Valur Gíslason, varaformaður flokksins tilkynnti rétt fyrir fundinn að hann ætlaði að hætta í pólitík og myndi ekki bjóða sig fram til varaformanns á landsfundinum í október.

Edward H. Huijbens frá Akureyri, stjórnarmaður í VG, varabæjarfulltrúi og fyrrum varaþingmaður, upplýsti í almennum stjórnmálaumræðum að hann hygðist bjóða sig fram í embættið.

Tveggja daga sumarferð í Borgarfirði, tók við að loknum flokksráðsfundi og tóku alls um 40 manns þátt í henni, sumir báða dagana en aðrir völdu sér annanhvorn daginn. Bjarki Þór Grönfelt og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir skipulögðu sumarferðina. Gróðrastöðin Sólbyrgi var heimsótt, en hún er þekkt fyrir jarðarberjaræktun, en félgar fengu líka kynningu á ilmkjarnaolíuframleiðslu Hraundísar Guðmundsdóttur á Rauðsgili í Borgarfirði í garðveislu í nýuppgerðum læknisbústað Þóru Geirlaugar á Kleppjárnsreykjum.  Þá var haldið aftur upp í Logaland í kvöldverð,  og á eftir hélt Bjartmar Hannesson uppi stuðinu með velvöldum baráttusöngvum sósíalista. Seinni daginn var Ingibjörg Daníelsdóttir á Fróðastöðum í Hvítársíðu fararstjóri um Borgarfjörð. Farið var til Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur í Geitfjársetrið á Háafelli og í Fljótstungurétt í veðurblíðu og góðu skyggni.  VG þakkar Borgfirðingum gestrisni og góðar móttökur.

VG á flokksráðsfundi í Logalandi í Borgarfirði um helgina

 

Stefnan fyrir sveitarstjórnarkosningar

Sumarferð 19 – 20 ágúst.

 

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs fer fram í Logalandi í Borgarfirði um hlegina. Hann hefst klukkan tíu og lýkur síðdegis.  En að fundi loknum fara félgar í VG í árlega sumarferð og heimsækja VG fólk í héraði.  Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, heldur ræðu í upphafi fundar og leggur línurnar fyrir spennandi vetur í stjórnmálunum.  „Við þurfum aðgerðir strax til að snúa af braut ójöfnuðar. Núverandi ríkisstjórn hefur  ekki áhuga á því.  Hún er auk þess veik og ósamstæð þannig að mikilvæg málefni bíða á kostnað almennings,“ segir Katrín.  Fjölmiðlar sem þess óska geta fengið ræðu Katrínar, fyrirfram í trúnaði þar til hún hefur verið birt.  En talað orð gildir.

Fjallað verður sérstaklega um sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári á fundinum í Logalandi og en undirbúningur þeirra er hafinn víða um land. Óli Halldórsson, oddviti VG listans í Norðurþingi, fer yfir baráttuna framundan og miðlar af reynslu úr sterku vígi VG.

Undirbúningur landsfundar VG setur einnig svip á fundinn í Borgarfirði um helgina. Málefnahópar kynna stefnumótun í mikilvægum málaflokkum eins og húsnæðis, efnahags, velferðar og sveitarstjórnarmálum. Þær verða bornar undir landsfund í byrjun október.

Landsfundur VG verður haldinn í Reykjavík 6 – 8 október. Þar verður kosin ný stjórn hreyfingarinnar og samþykktar stefnumótun og áherslur til næstu ára.

 

Nánari upplýsingar:

Lísa Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur.  Sími. 899 9225.

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs: 896 1222

Skilaboð varðandi flokksráðsfund og sumarferð

Ágætu flokksráðsfulltrúar og aðrir gestir!

 

Enn er hægt að skrá sig á flokksráðsfund og í sumarferð – en nú fer hver að verða síðastur.

 

Hætt hefur verið við að bjóða upp á rútuferð úr Reykjavík sökum þess að færri höfðu áhuga á þeim valkosti en gert var ráð fyrir. Í stað rútuferðar verður sameinast í bíla. Mæting kl. 8:15 frá Fjölbraut við Ármúla, laugardagsmorguninn 19. ágúst. Öllum sem höfðu óskað eftir fari í rútunni verður séð fyrir fari bæði fram og til baka. Að öðru leyti stendur dagskrá flokksráðsfundar og sumarferðar óbreytt. Ekki hika við að hafa samband við skrifstofuna ef einhverjar spurningar vakna.

 

Krafa vegna hádegisverðar á flokksráðsfundi mun birtast þeim sem hann pöntuðu í heimabanka í dag. Við mælum með að gestir greiðið matinn fyrir fund (2.500 kr.), því á fundinum mun hann kosta 2.700 kr.