Katrín Jakobsdóttir tekur á móti forsætisráðherra Danmerkur

Lars Lökke Rasmusen, forsætisráðherra Danmerkur, og eiginkona hans, Sólrun Løkke Rasmussen, koma til landsins í dag í tveggja daga heimsókn í tengslum við 100 ára fullveldishátíð Íslands.

Lars Løkke heldur beint á tvíhliða fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag.

Að loknum fundi eða klukkan 14:20 til 14:30 í dag í Ráðherrabústaðnum eru fjölmiðlar boðnir velkomnir á stuttan blaðamannafund.

Lars Løkke Rasmussen mun því næst heimsækja Marel og fá kynningu á fyrirtækjunum HS Orku og Carbon Recycling International, sitja hátíðarkvöldverð í Ráðherrabústaðnum í boði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og taka þátt í hátíðahöldum í tengslum við fullveldisafmælið á morgun, 1. desember.

Ungt fólk á hjúkrunarheimilum – “á að vera undantekning”, segir heilbrigðisráðherra

Sjúkratryggingar Íslands hafa að beiðni velferðarráðuneytisins tekið saman upplýsingar um fjölda þeirra sem eru yngri en 67 ára og búa á hjúkrunarheimilum. Í ljósi opinberrar umfjöllunar um þessi mál telur ráðuneytið mikilvægt að koma þessum upplýsingum á framfæri.

Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar búa samtals 139 einstaklingar yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum. Af þeim eru 20 sem búa á sérhæfðum hjúkrunardeildum í Mörk og á Skógarbæ í Reykjavík sem ætlaðar eru yngra fólki og 42 einstaklingar í hjúkrunarrýmum í Ási í Hveragerði og á Fellsenda í Dölum sem ætluð eru fólki með geðraskanir. Að þessu fólki frátöldu eru því 77 einstaklingar á landsvísu undir 67 ára aldri sem búa í almennum hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið.

Af þeim hópi einstaklinga í hjúkrunarrýmum sem eru yngri en 67 ára eru 8 einstaklingar undir fimmtugu.

Fjallað var um ungt fólk á hjúkrunarheimilum á málþingi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem haldið var í gær og málið var einnig til umræðu í Kastljósi RÚV. Í dagskrárboði málþingsins kom fram að þar yrði rætt hvort það „sé rétt stefna að ungt fólk flytji á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og búi þar áratugum saman“ og einnig  „[hvort allir eigi] að geta búið á hjúkrunarheimilum óháð þjónustuþörf og sjúkdómsástandi.“

Það er ekki rétt sem skilja má af fyrrgreindri tilvitnun að allir eigi að geta búið á hjúkrunarheimilum óháð þjónustuþörf og sjúkdómsástandi. Hið rétta er að enginn fer inn á hjúkrunarheimili nema að undangengnu formlegu mati á heilsu og færni sem leiðir í ljós að viðkomandi geti ekki lengur búið á eigin heimili, þrátt fyrir félagsþjónustu, heimahjúkrun og önnur stuðningsúrræði. Það er hins vegar rétt að lögum samkvæmt geta þeir sem eru yngri en 67 ára fengið búsetu á hjúkrunarheimili ef nauðsynlegt er talið samkvæmt færni- og heilsumati.

Í ljósi umræðunnar vill Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leggja áherslu á að þótt dæmi séu um að ungt fólk fari inn á hjúkrunarheimili til varanlegrar  búsetu eigi það að heyra til undantekninga og ekki að eiga sér stað nema ljóst sé að önnur úrræði hafi verið fullreynd: „Sveitarfélögin hafa ríkar skyldur gagnvart fötluðu fólki og innleiðing notendastýrðar persónulegrar aðstoðar mun tvímælalaust efla möguleika fatlaðs fólks til sjálfstæðrar búsetu til muna. Ég er sammála því að gagnvart því fólki sem býr við þær heilsufarsástæður að ekki er unnt að veita því fullnægjandi aðhlynningu nema í hjúkrunarrými er mikilvægt að geta boðið upp á sérhæfðar deildir, líkt og eru fyrir hendi í Mörk og Skógarbæ í Reykjavík. Þetta getur hins vegar verið vandkvæðum bundið í fámennari sveitarfélögum og brýnt að við þær aðstæður takist stjórnendur hlutaðeigandi stofnana á við þær áskoranir með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi“ segir heilbrigðisráðherra.

Losun í íslenskum landbúnaði – úttekt sýnir mismikla losun búa

Talsverður breytileiki er milli búa í losun gróðurhúsalofttegunda og möguleikar til bindingar kolefnis eru einnig misjafnir. Þetta eru niðurstöður Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins eftir úttekt þeirra á losun gróðurhúsalofttegunda á fimm íslenskum búum.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fól Ráðgjafarmiðstöðinni að leggja mat á helstu þætti í starfsemi fimm samstarfsbúa sem hafa í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda og einnig hver væri kolefnisbinding á viðkomandi búum. Auglýst var eftir samstarfsbúum og fyrir valinu urðu tvö sauðfjárbú: Hafrafellstunga í Öxarfirði og Mælifellsá í Skagafirði, og þrjú kúabú: Káranes í Kjós, Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum og Hvanneyri í Borgarfirði.Niðurstöðurnar sýna mikinn breytileika, bæði hvað varðar losun frá hverju býli og einnig möguleika bænda til að draga úr losun. Verkefnið er liður í Sóknaráætlun í loftslagsmálum 2016-2018.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði – Greining losunar frá fimm býlum

Samráð um heilbrigðisstefnu til 2030 – fyrir öryggi og betri þjónustu

Allir sem áhuga hafa geta nú kynnt sér drög að íslenskri heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og komið á framfæri ábendingum. Stefnan hefur verið birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 19. desember. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þetta mikilvægan áfanga: „Árum saman hefur verið kallað eftir skýrri sýn og stefnu í heilbrigðismálum. Nú vonast ég til að við getum sameinast um að skapa slíka stefnu í góðri og almennri sátt. Heilbrigðisstefna á að vera leiðarljós sem sameinar krafta þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og tryggir sjúklingum bestu þjónustu sem völ er á, þar sem öryggi, gæði og jöfnuður eru í fyrirrúmi“ segir heilbrigðisráðherra.

Heilbrigðisstefnan er sett fram sem leiðarljós þar sem dregnar eru fram þær megináherslur sem eiga að einkenna gott heilbrigðiskerfi í þágu allra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Til að hrinda áætluninni í framkvæmd er gert ráð fyrir að sett verði aðgerðaáætlun til fimm ára í senn sem verði uppfærð árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi.

Málefnahópar VG fyrir landsfund 2019

Málefnahópar hafa verið stofnaðir til að vinna að stefnumálum VG fram að landsfundi hreyfingarinnar næsta haust. Tveir hópsstjórar hafa verið settir yfir hvern hóp og með þeim vinna líka starfsmenn hreyfingarinnar. Einn hópanna, stjórnarskrárhópur undir forystu Katrínar Jakobsdóttur hefur þegar tekið til starfa. Skráning stendur yfir í hina hópana og eru félagar hvattir til að skrá sig sem fyrst  og helst fyrir miðjan næsta mánuð.

Stjórnarskrárhópur – Katrín Jakobsdóttir.  (Leifur Gunnarsson, Björg Eva)

Matvælahópur – Jóna Björg og Berglind Häsler. (Kári Gautason)

Jafnréttishópur – Þorsteinn V. og Elva Dögg Ásu- og Kristinsdóttir.  (Anna Lísa)

Kjaramálahópur – Torfi Stefán Jónsson og Gerður Gestsdóttir (Leifur Gunnarsson)

Heilbrigðishópur – Álfheiður Ingadóttir og Iðunn Garðarsdóttir. (Bjarki Þór)

Orku/umhverfishópur – Kolbeinn Óttarsson Proppé og Anna Guðrún Þórhallsdóttir.  (Björg Eva)

Menntamálahópur – Ingibjörg Þórðardóttir og Hólmfríður Árnadóttir (Anna Lísa)

Málefni ungs fólks UVG – Hreindís Ylva og Elva Hrönn. (Bjarki Þór/Kári)

Opin kynning á fyrstu verkefnum nefndar um miðhálendisþjóðgarð

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og þverpólitísk nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu boða til opins fundar vegna vinnu nefndarinnar. Á fundinum verða kynnt fyrstu tvö verkefni nefndarinnar sem nýverið voru sett á samráðsgátt stjórnvalda, auk þess sem sagt verður frá stöðu vinnunnar og þeim verkefnum sem framundan eru.Um er að ræða annars vegar greiningu nefndarinnar á tækifærum með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf og hins vegar tillögur nefndarinnar að helstu áherslum í atvinnustefnu þjóðgarðs á miðhálendinu.

Athygli skal vakin á því að frestur til að senda inn umsagnir vegna verkefnanna hefur verið framlengdur til 21. desember. Umsögnum skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins.

Allir eru velkomnir á fundinn.

Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 4. desember kl. 17:15 – 18:45 í fyrirlestrarsal atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Skúlagötu 4 (1. hæð).

Nánari upplýsingar um starf nefndarinnar má finna á vefslóðinni www.stjornarradid.is/midhalendid

Átakshópur um fleiri íbúðir

Stjórnvöld og heildarsamtök á vinnumarkaði hafa komið sér saman um átakshóp um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði í kjölfar 12. samráðsfundar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem haldinn var á föstudaginn var. Forsætisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra kynntu sameiginlega tillögu á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hópurinn á að hafa samráð við aðra starfshópa um húsnæðismál. Átakshópurinn skal kynna heildstæða lausn á viðfangsefnum sínum fyrir stjórnvöldum og heildarsamtökum á vinnumarkaði eigi síðar en 20. janúar 2019. Íbúðalánasjóður vinnur með hópnum ásamt öðrum sérfræðingum.

„Nú er mikilvægt að við tökum höndum saman og finnum raunhæfar lausnir og aðgerðir sem geta haft áhrif sem allra fyrst. Í mínum huga er mikilvægast að við göngum nú öll í takt og finnum úrræði sem gagnast sem allra flestum en ljóst er að öruggt húsnæði er einn af grundvallarþáttum í því velferðarsamfélagi sem við viljum byggja upp hér á landi. Enda þótt hópurinn sé átakshópur þá vona ég að þær tillögur sem hópurinn skilar muni ekki aðeins leysa stöðuna til skemmri tíma heldur einnig hafa áhrif á framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála hér á landi“, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Á árunum 2013-2017 fjölgaði íbúðum hér á landi um 6.500. Að mati Íbúðalánasjóðs hefði íbúðum þurft að fjölga mun meira, eða um hátt í 16.000 til þess að mæta að fullu þeirri þörf fyrir íbúðir sem skapaðist á tímabilinu vegna fólksfjölgunar, breytinga á aldurssamsetningu og fjölgunar íbúða í skammtímaleigu.

Uppsafnaður skortur á íbúðum endurspeglast í miklum verðhækkunum á íbúða- og leigumarkaði og bráðum vanda þeirra sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði. Til að vinna á þeim vanda er útlit fyrir að áfram verði þörf á mikilli fjölgun íbúða næstu árin og mikilvægt er að sú uppbygging verði í samræmi við þarfir landsmanna.

Formenn hópsins verða Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Mun Anna Guðmunda Ingvarsdóttir taka sér leyfi frá störfum og sinna þessu verkefni af fullum þunga. Auk þeirra verða í nefndinni þrír fulltrúar frá ríki, tveir frá sveitarfélögum og þrír frá heildarsamtökum á vinnumarkaði.

Heimsþing kvenleiðtoga: Konur standi með konum

Kon­ur í stjórn­un­ar­stöðum verða að nýta völd sín til þess að auka tæki­færi annarra kvenna og styrkja rétt­indi þeirra. Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráðherra Íslands, lagði á þetta áherslu í opn­un­ar­ávarpi sínu á Heimsþingi kven­leiðtoga í Hörpu í morg­un.

Rúm­lega 400 kven­leiðtog­ar frá um 100 lönd­um eru sam­an komn­ir á þessu fyrsta Heimsþingi kven­leiðtoga, sem haldið er í sam­starfi Women Political Lea­ders Global For­um, rík­is­stjórn­ar Íslands, Alþing­is og fjölda ís­lenskra og alþjóðlegra sam­starfsaðila.

Í ávarpi sínu lagði Katrín sér­staka áherslu á mik­il­vægi mennt­un­ar kvenna, fjöl­skyldu­væna stefnu rík­is­stjórna, sem hún sagði hafa gert sér kleift að verða for­sæt­is­ráðherra þrátt fyr­ir að eiga þrjú börn, of­beldi gegn stelp­um og kon­um sem þyrfti að upp­ræta, frið og sjálf­bærni og mik­il­vægi kvenna­hreyf­ing­ar­inn­ar.

Auk Katrín­ar ávörpuðu þau Silv­ana Koch-Mer­in, for­seti Women Political Lea­ders Global For­um, Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, for­seti Alþing­is, og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra þing­gesti við setn­ingu.

Dag­skrá Heimsþings­ins er fjöl­breytt, en þar verða haldn­ar ræður, stutt ávörp, pall­borðs- og hring­borðsum­ræður, auk fjölda hliðarviðburða víða um Reykja­vík. Sér­stakt þema Heimsþings­ins að þessu sinni er sta­f­ræn bylt­ing sam­tím­ans og þau tæki­færi sem það gef­ur til að fjölga kon­um í leiðtoga­hlut­verk­um og tryggja jöfn tæki­færi kvenna og karla til ákv­arðana­töku.

Hægt er að fylgj­ast með Heimsþing­inu í beinni út­send­ingu á vef CBS.

Sjúkrahótel í traustum höndum Landspítala

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela Landspítalanum að annast rekstur sjúkrahótelsins við Hringbraut, tímabundið til tveggja ára. Spítalinn hefur farið þessa á leit við velferðarráðuneytið, en áður hafði verið miðað við að Landspítalanum yrði falið að bjóða reksturinn út í samvinnu við Ríkiskaup.

Opnun sjúkrahótelsins hefur dregist á langinn vegna margvíslegra tafa við framkvæmdir og enn liggur ekki fyrir nákvæmlega hvenær hægt verður að hefja reksturinn. Þessar tafir hafa jafnframt staðið í vegi fyrir því að ráðist hafi verið í áformað útboð rekstrarins. Svandís segir ákvörðun sína um að fela Landspítala þetta verkefni ekki síst byggja á því að það sé málinu til framdráttar að koma í veg fyrir mögulegar tafir á opnun hótelsins þegar þar að kemur vegna óvissu um rekstur þess: „Ég treysti Landspítalanum vel til að annast þetta verkefni og að undir hans stjórn verði allt sem lýtur að rekstrinum til reiðu þegar framkvæmdum lýkur, sem ég vona svo sannarlega að verði fljótlega.“

Eins og áður hefur komið fram verður sjúkrahótelið ekki ætlað sjúklingum sem eru innritaðir á Landspítalanum, heldur er það ætlað til að mæta þörfum fólks sem þarf heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna, meðferðar og eftirlits og einnig þá sem geta ekki dvalið heima tímabundið heilsu sinnar vegna. Sjúkrahótelið er því meðal annars til þess ætlað að stuðla að bættri aðstöðu fólks á landsbyggðinni sem þarf að sækja sér heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð en einnig er horft til þess að það muni draga úr þörf fyrir sjúkrahúsinnlagnir og enn fremur að flýta fyrir útskrift sjúklinga af Landspítalanum, sem geta þá dvalið tímabundið á sjúkrahótelinu þar til þeir verða færir um að búa heima  hjá sér.