Vaxandi þyrluþörf í sjúkraflugi

Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fól að skoða möguleika á aukinni aðkomu þyrlna að sjúkraflugi skilaði ráðherra skýrslu með tillögum sínum í dag. Hópurinn skoðaði tvær leiðir í þessu skyni; annars vegar með aukinni aðkomu Landhelgisgæslu Íslands sem m.a. myndi reka sérstaka sjúkraþyrlu og hins vegar með rekstri sjúkraþyrlu sem rekin væri af öðrum en Landhelgisgæslunni.

Starfshópurinn segir í skýrslu sinni að þörfin fyrir sjúkraflutninga með þyrlum muni fara vaxandi hér á landi. Helstu ástæðurnar fyrir því eru vaxandi sérhæfing í meðferð bráðra veikinda og slysa, minnkandi geta heilbrigðisstofnana í dreifbýli til að sinna  bráðaþjónustu, almenn aukning sjúkraflutninga og ekki síst mikil fjölgun alvarlegra slysa. Til marks um aukningu sjúkraflutninga jókst umfang þeirra á árunum 2014 – 2017 um 37% þar sem mest var, þ.e. á Suðurlandi, Suðurnesjum og á Akureyri.

Elsa og Viðar greina ráðherra frá tillögum starfshópsinsStarfshópurinn er einhuga um mikilvægi þess að auka eins og kostur er sjúkraflutninga með þyrlum, bæði vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu stofnana, ekki hvað síst í Vestmannaeyjum, en einnig vegna mikillar fjölgunar ferðamanna, á og utan alfaraleiða.  Það er einnig sameiginleg áhersla hópsins að skilgreina beri sjúkraflug með þyrlum sem heilbrigðisþjónustu og beri því að manna áhafnir þeirra í samræmi við það. Einnig að mikilvægt sé að viðbragðstími sjúkraþyrlu sé ávallt sem stystur. Þrátt fyrir sameiginlegar áherslur í þessum efnum voru fulltrúar í starfshópnum ekki á einu máli um leiðir að markmiðinu.

Fimm af sjö fulltrúum starfshópsins leggja til að viðbragð Landhelgisgæslunnar verði styrkt með fleiri áhöfnum svo unnt verði að koma á staðarvöktum, þ.e. með áhöfn sem er í viðbragðsstöðu þar sem viðkomandi þyrla á bækistöð. Tveir fulltrúar starfshópsins leggja hins vegar til rekstur sérstakrar sjúkraþyrlu með sérhæfðum mannskap og að reksturinn verði ekki á hendi Landhelgisgæslunnar.

Í meðfylgjandi skýrslu er fjallað ítarlega um tillögur hópsins til heilbrigðisráðherra, faglegar áherslur og kostnað. Ráðherra mun fela sérfræðingum ráðuneytisins að leggja mat á efni skýrslunnar og tillögurnar sem þar koma fram og ákveða næstu skref í framhaldi af því.

,

Uppbygging Landspítala

Framkvæmdir vegna uppbyggingar Landspítala við Hringbraut eru í fullum gangi. Uppbyggingin er mikilvæg fyrir sjúklinga og aðstandendur, starfsfólk Landspítalans og starfsemi sjúkrahússins í heild sinni. Þessi stærsta framkvæmd lýðveldissögunnar verður öllum til hagsbóta.

Nú er staðan sú að vinna við lokafrágang nýs sjúkrahótels á Hringbrautarlóð er langt komin. Stefnt er að afhendingu hússins í lok árs 2018. Skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna verður tekin í haust og unnið er að fullnaðarhönnun hans. Ýmis konar vinna vegna meðferðarkjarnans er auk þess hafin. Nú er unnið að gerð bráðabirgðabílastæða og jarðvegsframkvæmdir vegna fyrsta áfanga meðferðarkjarnans eru hafnar.

Unnið er að útboði á fullnaðarhönnun rannsóknarhúss, og gert er ráð fyrir því að í síðari áföngum uppbyggingar spítalans við Hringbraut verði bygging dag-, göngu- og legudeildarhúss. Samhliða framkvæmdum vegna nýrra bygginga þarf að huga að því hvernig nýta eigi þær byggingar sem fyrir eru á Hringbrautarlóðinni.

Greina þarf hvaða byggingar sem nú þegar eru á Hringbrautarlóð Landspítali mun áfram hafa þörf fyrir. Greina þarf ástand bygginganna, viðhaldsþörf og hvort gera þurfi breytingar á eldri byggingum, og leggja þarf mat á umfang þeirrar vinnu svo tryggt sé að þær verði tilbúnar á tilsettum tíma. Meta þarf einnig hvaða starfsemi mun flytjast úr hvaða byggingum á Hringbrautarlóð. Hið sama á við um byggingar Landspítala utan Hringbrautarlóðar. Einnig þarf að reisa ýmsar stoðbyggingar á lóðinni, til dæmis vörumótttöku, flokkunarmiðstöð, nýja Kringlu o.fl., og undirbúning og hönnun slíkra bygginga þarf að setja af stað hið fyrsta.

Til þess að tryggja að öll þessi vinna muni ganga hratt og vel fyrir sig hef ég ákveðið að setja á fót vinnuhóp sem mun meðal annars hafa það hlutverk að framkvæma ástandsmat eldri bygginga spítalans, gera kostnaðaráætlanir vegna stoðbygginga og verkáætlun um flutning á starfsemi í nýtt húsnæði. Í þeim hópi munu eiga sæti fulltrúar Landspítala, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins. Í vor skipaði ég samstarfsráð til þess að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans sem er mér til samráðs og ráðgjafar, og ég er viss um að vinnuhópurinn og samstarfsráðið munu einnig eiga gott samstarf. Ég skipaði einnig í vor í ráðgjafarnefnd um Landspítala, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, en nefndin skal vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um starfsemi og rekstur spítalans.

Uppbygging Landspítala við Hringbraut er tæknilega flóknasta framkvæmd Íslandssögunnar. Verkefnið er krefjandi en óumdeilanlegt er að uppbygging Landspítala við Hringbraut verður bylting fyrir spítalaþjónustu á landinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Grein birtist í morgunblaðinu 31. 08.2018

 

,

Verkefnum fjölgar – úr vörn í sókn

Þörf fyrir dagdvalarrými hefur aukist á undanförnum árum en eftir efnahagshrunið hefur þeim því miður ekki fjölgað nægilega hratt. Ástandið er enn eitt dæmið um afleiðingar hrunsins á heilbrigðiskerfið, þar sem dregið var úr fjármagni sem rann til innviða og uppbygging í mörgum málaflokkum var stöðvuð. Nú þegar efnahagsástandið hefur batnað rísa réttmætar kröfur um endurbætur á nánast öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal á þessu sviði. Því miður er ómögulegt að ætla sér að leysa öll vandamál í einu vetfangi en viðsnúningurinn er hafinn.

Í heilbrigðisráðuneytinu er nú unnið að stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið. Í þeirri vinnu hefur ýmsum spurningum verið varpað fram; hvernig heilbrigðisþjónustu viljum við veita, hvernig getum við tryggt að heilbrigðisþjónusta sé veitt á viðeigandi þjónustustigi og hvernig greiðum við fyrir hana, hvernig aukum við þátttöku sjúklinganna sjálfra í veitingu heilbrigðisþjónustu, hvaða gæðakröfur eru gerðar, hvernig stöndum við að menntun heilbrigðisstarfsfólks og hvernig tryggjum við nægilegan mannafla í heilbrigðiskerfinu, hvernig innleiðum við nýja tækni og ný lyf og hvernig stöndum við að vísindastarfi og nýsköpun?

Öllum þessum spurningum og fleirum þarf að svara til þess að við getum forgangsraðað því fjármagni sem rennur til heilbrigðismála. Markmiðið er að gera tilraun til þess að svara þessum spurningum í haust, í samvinnu við heilbrigðisstofnanir og aðrar stofnanir heilbrigðisráðuneytisins, auk þess sem frekari umræða um þær mun fara fram á heilbrigðisþingi sem ég mun boða til í nóvember.

Verkefni samfélagsins alls

Umræðan undanfarið um skort á dagvistunarúrræðum fyrir heilabilaða endurspeglar hluta af aukinni þörf fyrir fjölbreytta þjónustu fyrir aldraða og ekki síst þá sem glíma við heilabilum. Þjónusta við þann hóp er verkefni samfélagsins alls og með framkvæmd þeirrar þjónustu fer heilbrigðiskerfið – þegar um er að ræða heilbrigðisþjónustu, félagsmálayfirvöld og sveitarfélögin þegar um er að ræða búsetu, t.a.m. sérstök búsetuúrræði og þegar um er að ræða dægradvöl og tómstundir. Stundum skarast þessi svið auk þess sem ólíkt kann að vera milli sveitarfélaga hvaða þjónusta er veitt og hvernig samstarfi við ríkið eða fyrirtæki í velferðarþjónustu er háttað í hverju tilviki.

Nú er það svo að ríkið greiðir þeim daggjöld sem veita öldruðum hjúkrun eða aðra umönnun, hvort sem það er á hjúkrunarheimilum eða í dagvistun, en sú þjónusta er ýmist veitt af sveitarfélögum eða af einkaaðilum. Þessi mál þarf að skoða vel með það að markmiði að tryggja að öllum bjóðist viðeigandi þjónusta.

Samtímis því að unnið er að stefnumótun í heilbrigðiskerfinu hefur fjölmargt verið gert til þess að bæta úr augljósum veikleikum í heilbrigðisþjónustunni. Greiðslukerfi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið breytt, geðheilbrigðisstefna hefur verið fullfjármögnuð, reglugerðarbreytingar hafa verið gerðar sem takmarka aðgengi að ávana- og fíknilyfjum og innflutning einstaklinga á þessum lyfjum og unnið er að aðgerðum sem auka fræðslu ungs fólks um þessi lyf og hvernig meðferðarúrræðum fyrir ungt fólk í fíknivanda verði best fyrir komið.

Stórsókn kynnt

Stórsókn um uppbyggingu hjúkrunarrýma hefur verið kynnt, skóflustunga að meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut verður tekin bráðlega og stjórn spítalans hefur í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið hafið undirbúning að því að auka dag- og göngudeildarstarfsemi spítalans, sem mun bæta aðgengi að þjónustu sérgreinalækna fyrir alla landsmenn. Síðast en ekki síst hefur greiðsluþátttaka sjúklinga verið endurskoðuð og kostnaður þeirra sem þurfa á mestri heilbrigðisþjónustu að halda hefur verið lækkaður verulega.

Þolinmæði er ekki þjóðareinkenni Íslendinga en takist okkur að hrinda þeim verkefnum í framkvæmd sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru allar líkur á því að Íslendingar muni áfram búa við heilbrigðiskerfi í fremstu röð.

Höfundur er heilbrigðisráðherra

Græn skref og gott fordæmi

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur lokið fimmta og síðasta skrefi grænna skrefa í ríkisrekstri og hlotið vottun umhverfisstjórnunarkerfis ráðuneytisins samkvæmt ISO-14001 staðli. Ráðuneytið er fyrsta ráðuneyti Stjórnarráðsins sem lýkur slíkri vottun.

Markmið umhverfisstjórnunarkerfisins er að fylgjast reglubundið með frammistöðu ráðuneytisins í umhverfismálum og greina, lágmarka og stýra óæskilegum umhverfisáhrifum. Til að fylgjast með framgangi mála setur ráðuneytið sér áætlanir og markmið í umhverfismálum auk þess að fylgjast sérstaklega með umhverfisþáttum í gegn um grænt bókhald og reglubundnar innri úttektir. Því er svo fylgt eftir með úttektum og vottun viðurkenndra úttektaraðila.

Umhverfisstjórnunarkerfið sem nú hefur verið vottað nær yfir starfsemi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar með talið stefnumótun og lagasetningu auk daglegs rekstrar ráðuneytisins, s.s. hvað varðar samgöngur, innkaup, orkunotkun, sorpflokkun og efnanotkun. Auk þess nær umhverfisstjórnunarkerfið til þeirra hagsmunaaðila og annarra þátta sem geta haft áhrif á að ráðuneytið nái ekki markmiðum sínum í umhverfismálum.

„Ég er ákaflega ánægður með að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi náð þessum áfanga enda mikilvægt að það gangi á undan með góðu fordæmi í umhverfismálum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfis- og loftslagsmálum og verðum í sameiningu að gera allt sem við getum til að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum. Allt sem við gerum skiptir máli og öll verðum við að leggjast á árarnar: einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir.“

,

Uppbygging fyrir almenning

Frá því að staða efnahagsmála tók að batna eftir efnahagshrunið hefur krafan um að ávinningurinn skili sér í auknum mæli til alls almennings með uppbyggingu samfélagslegra innviða verið hávær. Þó að þeim ríkisstjórnum sem komu í kjölfar endurreisnarstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekist ágætlega til við að fylgja eftir endurreisn efnahagslífsins stóðu eftir óuppfylltar væntingar um uppbyggingu samfélagslegra innviða. Núverandi ríkisstjórn hefur einsett sér að gera betur og telur slíka uppbyggingu sitt forgangsverkefni.

Gott efnahagsástand undanfarin ár og tekjur sem ríkið hefur fengið á grundvelli svokallaðra stöðugleikasamninga hafa gert ríkissjóði kleift að greiða niður skuldir og styrkt stöðu hans verulega. Þannig hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um 88 milljarða á undanförnum tólf mánuðum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að þessi sterka staða verði nýtt til að ráðast í samfélagslega uppbyggingu sem miðar að því að jafna og bæta lífsgæði landsmanna. Í þeirri vinnu hefur ríkisstjórnin þau leiðarljós að tryggja farsælt efnahagslíf, samfélagslegan ávinning og framsækni í umhverfismálum.

Framar fyrirheitum
Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar var að leggja fram fjárlagafrumvarp sem tryggði aukin fjárframlög upp á 55 milljarða króna til samfélagslegra verkefna án þess að það kæmi niður á afkomu ríkissjóðs. Fjárlögunum var síðan fylgt eftir með fjármálaáætlun til fimm ára sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor og felur í sér að framlög til mikilvægra málaflokka verða aukin jafnt og þétt til ársins 2023. Samtals hefur ríkisstjórnin því tryggt að á sex árum munu árleg framlög til mikilvægra mála verða aukin um 140 milljarða króna, þar af verða árleg framlög til heilbrigðismála um 60 milljörðum hærri en þau voru árið 2017.

Til þess að setja þessa innspýtingu til samfélagslegra verkefna í samhengi þá lofuðu þeir stjórnmálaflokkar sem lengst gengu fyrir síðustu tvennar kosningar 40-50 milljarða aukningu á fjórum til fimm árum. Við getum líka horft á þessa 140 milljarða aukningu í samhengi við sameiginlegar breytingartillögur stjórnarandstöðunnar við fjárlög ársins 2016 sem þóttu á þeim tíma róttækar en fólu í sér 16 milljarða aukningu. Það þarf því ekki að deila um að áform ríkisstjórnarinnar um samfélagslega uppbyggingu ganga framar öllum fyrirheitum sem gefin voru fyrir síðustu tvennar kosningar .

Bætt opinber þjónusta og kolefnishlutlaust Ísland
Allir landsmenn eiga að geta treyst á örugga heilbrigðisþjónustu þegar eitthvað bjátar á. Styrking heilbrigðiskerfisins hefur verið forgangsmál í hugum landsmanna þegar viðhorf þeirra hefur verið kannað til mikilvægustu málaflokkanna fyrir kosningar síðustu ára.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að tryggja að fólk geti einfaldlega treyst því að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu þegar á reynir. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka framlög til heilbrigðismála um 19% að raunvirði á næstu fimm árum, til viðbótar við þá 11% aukningu sem ákveðin var í fyrstu fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Mikilvægasta verkefnið er að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabili fjármálaáætlunar, þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum. Þetta er samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni ein mikilvægasta jöfnunargerð sem hægt er að ráðast í. Þá hefur núverandi heilbrigðisráðherra lagt áherslu á að forgangsraða í þágu geðheilbrigðismála og heilsugæslunnar um land allt.

Öryggi á þjóðvegum og greiðar samgöngur eru stórmál fyrir alla landsmenn. Það hefur legið fyrir lengi að þörf hefur verið á innspýtingu í samgöngumálin. Eitt af fyrstu verkefnum núverandi ríkisstjórnar var að setja strax fjóra milljarða til viðbótar inn í samgöngumál. Settir verða 16,5 milljarðar inn í samgönguframkvæmdir til viðbótar við fyrri áætlanir þannig að fjárfestingar í þessum geira munu nema um 124 milljörðum á næstu árum. Samgönguáætlun verður lögð fram í haust og þar munu birtast fyrirætlanir um úrbætur í samgöngumálum sem munu nýtast um land allt, bæði í almenningssamgöngum og vegaframkvæmdum.

Aukin framlög til menntunar, bæði framhaldsskóla en ekki síst háskólastigsins, endurspegla þann skýra vilja ríkisstjórnarinnar að horfa til framtíðar og tryggja atvinnusköpun sem hvílir á hugviti og þekkingarsköpun. Öll sú uppbygging mun skila sér í samfélagslegum ávinningi fyrir almenning í landinu og tryggja aukinn jöfnuð.
Sömuleiðis er mikilvægt að minna á að yfir stendur vinnu í samráði við forsvarsmenn heildarsamtaka öryrkja um hvernig unnt er að breyta almannatryggingakerfinu og bæta kjör öryrkja en gert er ráð fyrir alls 6 milljörðum til viðbótar í þann málaflokk í komandi fjárlagafrumvarpi.

Styrk stjórn efnahagsmála og uppbygging samfélagslegra innviða eru mikilvæg verkefni en ekki skipta umhverfismálin minna máli. Ný og framsækin aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verður kynnt nú í haust þar sem fyrstu skrefin í átt að kolefnishlutlausu Íslandi verða kynnt. Þar verða allir aðilar kallaðir að borðinu þannig að Ísland geti skipað sér í hóp framsæknustu ríkja heims í loftslagsmálum.

Gerum góða stöðu betri fyrir alla
Þegar lykiltölur eru skoðaðar fyrir Ísland má ljóst vera að ólíkt mörgum nágrannalöndum hafa Íslendingar unnið mjög vel úr hruninu og flestar kennitölur stefna í rétta átt. Skuldastaða ríkissjóðs fer batnandi, kaupmáttur hefur aukist verulega vegna þess að aukin verðbólga hefur ekki fylgt launahækkunum, ekki síst vegna hagfelldra ytri aðstæðna. Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til þeirrar jöfnunaraðgerðar að lækka kostnað sjúklinga og var því forgangsraðað að lækka tannlæknakostnað aldraðra og öryrkja með nýrri gjaldskrá sem tekur gildi á næstu dögum. Kostnaður sjúklinga verður lækkaður í skrefum þannig að hann verði í takt við önnur Norðurlönd eða 16,5% í lok tímabils fjármálaáætlunar. Opinber fjárfesting er á uppleið sem er afar mikilvægt þegar hægst hefur á hagvexti til að tryggja áframhaldandi velsæld.
Ríkisstjórnin er staðráðin að halda áfram á þessari braut. Eitt mikilvægasta verkefnið á þeirri leið er gott samstarf stjórnvalda og vinnumarkaðar. Núverandi ríkisstjórn hefur þegar haldið tíu fundi með aðilum vinnumarkaðarins, forsvarsmönnum Sambands sveitarfélaga og ríkissáttasemjara þar sem ýmis mál hafa verið rædd. Sum þeirra hafa þegar skilað sér í aðgerðum. Þannig voru atvinnuleysisbætur og greiðslur úr ábyrgðarsjóði launa hækkaðar í vor og kjararáð hefur verið lagt niður eftir ítarlega greinargerð sem unnin var í samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Frekari aðgerðir eru í undirbúningi og þar verður hlustað náið eftir óskum aðila vinnumarkaðarins
Framundan er endurskoðun laga um Seðlabankann sem mun styrkja umgjörð peningastefnunnar. Sömuleiðis stendur yfir vinna til að styrkja umgjörð fjármálakerfisins og síðast en ekki síst er hafin vinna við hvernig við Íslendingar ætlum að takast á við tæknibreytingar sem oft eru kenndar við fjórðu iðnbyltinguna og hvernig við getum tryggt að hugvit og þekkingariðnaður verði ein af grundvallarstoðunum fyrir íslenskt efnahagslíf til framtíðar.
Það er þetta mikilvæga jafnvægi samfélags, umhverfis og efnahags sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir. Það er leiðarljós sem mun verða íslensku samfélagi mikilvægt til framtíðar og tryggja bætt lífskjör alls almennings.

Hreindís Ylva í formannskjör UVG

Hrein­dís Ylva Garðars­dótt­ir Holm gefur kost á sér til embætt­is for­manns Ungra vinstri grænna á lands­fundi hreyf­ing­ar­inn­ar sem fer fram eftir rúma viku, eða 1.-2. sept­em­ber í Hafnar­f­irði.

Hrein­dís er 29 ára, alin upp í Mos­fells­bæ, var bú­sett í Bretlandi í sex ár og hef­ur síðan búið í Reykja­vík.

Hún er leik­kona að mennt og hef­ur starfað á þeim vett­vangi, sem og við kennslu barna og ung­linga í þeim grein­um. Hreindís er líka flugfreyja og hefur starfað hjá Icelanda­ir á sumr­in.

Hrein­dís Ylva hef­ur verið virk­ur fé­lagi í VG síðustu 2 ár, sit­ur í flokks­ráði og stjórn Reykja­vík­ur­fé­lags­ins. Hún skipaði fjórða sæti á lista VG fyr­ir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar í vor og vann á skrifstofu VG sem miðlægur kosningastjóri fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí í vor.

,

Samráð um kjaramál.

Ríkisstjórnin hefur fundað tíu sinnum með forystu verkalýðshreyfingarinnar, fulltrúum atvinnurekenda og fleirum síðan í desember sl. Við höfum nú birt á vefsíðu Stjórnarráðsins dagskrá allra fundanna auk allra þeirra gagna sem lögð voru fram til kynningar og umfjöllunar. Það er mín skoðun að almenningur eigi rétt á því að fylgjast með samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á hverjum tíma. Viðfangsefnin hafa verið fjölmörg enda mörg mál sem þessir aðilar hafa sameiginlega hagsmuni af að ræða.

Fyrsti samráðsfundurinn var haldinn í desember 2017, enda var það eitt af forgangsmálum mínum sem forsætisráðherra að slá nýjan tón í samskiptunum og sýna strax að þessi ríkisstjórn hafi skýran vilja til að hlusta eftir óskum og áhyggjum bæði verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúa atvinnurekenda og bregðast við þeim eins og helst er unnt. Þetta höfum við sýnt, því nú þegar er nokkrum verkefnum lokið sem leitt hafa af samtali stjórnvalda og aðilanna, og mörg önnur í fullri vinnslu.

Við höfum hlustað eftir þeirri kröfu um félagslegar umbætur sem ASÍ setti á oddinn og hækkað atvinnuleysisbætur um 19%, úr 227.417 kr. á mánuði í 270.000 kr. á mánuði. Að sama skapi hækkuðum við greiðslur úr ábyrgðasjóði launa verulega, en þær greiðslur höfðu ekki fylgt kaupgjaldi og höfðu verið langt undir meðaltekjum í lengri tíma líkt og verkalýðshreyfingin benti á. Þann 1. júlí sl. hækkuðu hámarksgreiðslur úr sjóðnum um 64%, úr 385.000 krónum í 633.000 krónur á mánuði. Hámarksábyrgð sjóðsins vegna tryggingar á greiðslu orlofs hækkaði sömuleiðis úr 617.000 krónum í 1.014.000 krónur.

Við skipuðum líka sameiginlegan starfshóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um kjararáð. Niðurstaða hópsins var að leggja ætti kjararáð niður og það hefur nú verið gert. Í forsætisráðuneytinu er enn fremur í smíðum frumvarp um breytingar á fyrirkomulagi kjara æðstu embættismanna ríkisins til að tryggja að þau séu í takt við almenna launaþróun í landinu. Það frumvarp verður lagt fram á þessu haustþingi.

Verkefnin sem unnið er að má finna hér og ég hvet ykkur til að kynna ykkur efnið nánar hér : samráð.

Sem dæmi má nefna að nú stendur yfir endurskoðun á skatta- og bótakerfum í samráði við aðila vinnumarkaðarins, með það að markmiði að draga úr skattbyrði tekjulægri hópa. Niðurstöður þeirrar vinnu eru væntanlegar á haustmánuðum.

Kjaramál verða fyrirferðarmikil á komandi vetri og ríkisstjórnin hefur bæði með orðum og gjörðum sýnt vilja sinn til að greiða fyrir gerð kjarasamninga með aðgerðum í þágu félagslegs stöðugleika. Enn fremur hafa í okkar ríkisstjórnartíð tvær kjaradeilur endað í verkfallsaðgerðum. Í hvorugt skiptið var gripið til lagasetningar á verkföllin eins og algengt hefur verið undanfarin ár, heldur voru deilurnar leystar í sátt. Þetta er til marks um þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur lagt og mun leggja í áframhaldandi samtölum við aðila vinnumarkaðarins.

Ráðherra hefur endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Húsfyllir var á upphafsfundi umhverfis- og auðlindaráðherra vegna endurskoðunar laga um mat á umhverfisáhrifum. Fundurinn var haldinn á Grand hóteli í gær með þjóðfundarsniði.

Til fundarins var boðið félagasamtökum, framkvæmdaraðilum, sveitarfélögum, stofnunum, háskólafólki og öðrum hagsmunaaðilum. Markmið fundarins var að leita eftir sjónarmiðum fundargesta vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Á fundinum sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, lög um mat á umhverfisáhrifum mikilvægt tæki við ákvarðanatöku í málum sem varða umhverfi og náttúru enda væri þeim m.a. ætlað að tryggja aðkomu almennings að henni. „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að gera málsmeðferð skilvirkari og tryggja rétt samtaka almennings að ákvörðunum á fyrri stigum leyfisveitingarferlis án þess að ganga á rétt þeirra. Þarna er ákveðið leiðarljós sem kannski má stytta ofan í tvö orð: lýðræði og skilvirkni. Að baki liggur síðan auðvitað verndun umhverfisins.“

Að loknu inngangserindi ráðherra tóku fundargestir þátt í samtali á borðum þar sem leitast var við að svara ákveðnum grundvallarspurningum varðandi mat á umhverfisáhrifum. Þær spurningar sem lagðar voru fyrir gesti voru með hvaða hætti hægt sé að tryggja sem best lýðræðislega aðkomu almennings, félagasamtaka og haghafa að ferli við mat á umhverfisáhrifum og hvernig hægt sé að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum.

Á næstunni verður skipaður starfshópur til að vinna að endurskoðun laganna. Samhliða verður ráðinn sérfræðingur sem mun hafa það verkefni að greina núverandi löggjöf og skoða sambærilega löggjöf og ferli umhverfismats í okkar nágrannaríkjum. Þá verður á næstu dögum opnað fyrir samráð í Samráðsgátt Stjórnarráðsins þar sem kallað verður eftir hugmyndum almennings og hagaðila um hvaða breytinga sé þörf á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Bjarki Þór Grönfeldt kominn aftur

Bjarki Þór Grönfeldt hóf störf að nýju hjá VG í dag 15. ágúst, en hann lauk nýverið meistaranámi í stjórnmálasálfræði frá Háskólanum í Kent á Bretlandi. Stór verkefni Bjarka framundan eru að starfa með Ungum vinstri grænum að því að efla ungliðastarfið og vinna sem tengliður við nýlega kjörið sveitarstjórnarráð VG, en það hefur hingað til ekki notið aðstoðar sérstaks starfsmanns VG.  Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarmaður í Skagafirði er formaður sveitarstjórnarráðs og fyrrverandi formaður, Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri er varaformaður.  Framundan er fjöldi funda og viðburða sem Bjarki og aðrir starfsmenn hreyfingarinnar eru vinna nú að. Þar ber hæst flokksráðsfund sem haldinn verður í Kópavogi 12. – 13. október, en þá kemur sveitarstjórnarráðið einnig saman.