Boðað til heilbrigðisþings 2. nóvember

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings 2. nóvember næstkomandi á Grand hótel, Reykjavík. Þingið verður helgað kynningu á drögum að nýrri heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og umræðu um þau. Þingið er öllum opið og er skráning hafin.

Leitast verður við að skýra stöðu helstu viðfangsefna heilbrigðiskerfisins og kynna megináherslur þeirrar stefnumótunar sem verið er að vinna að. Til að tryggja aðgengi allra landsmanna að þinginu verður dagskrá og umræðum streymt á vefnum og þar verður einnig hægt að senda inn spurningar og ábendingar.

Dagskrá og nánari upplýsingar um þingið verða birtar á vefslóðinni www.þing.is og þar er nú þegar hægt að skrá sig til þátttöku.

Umbætur á fjölmiðla- upplýsinga og tjáningarfrelsislögum

Nefnd forsætisráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis kynnti afrakstur vinnu sinnar í fyrri áfanga nefndarstarfsins á blaðamannafundi í dag í Þjóðminjasafninu. Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndarinnar, sá um kynninguna og svaraði spurningum fjölmiðla að kynningu lokinni.

Fimm frumvörpum til laga hefur verið skilað til ráðherra og eru þau að auki komin í samráðsgátt stjórnvalda á island.is

  1. Frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga (afnám refsinga vegna ærumeiðinga).
  2. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu).
  3. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, með síðari breytingum (tjáningarfrelsi og þagnarskylda).
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, ásamt síðari breytingum (takmarkaðri ábyrgð hýsingaraðila).
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (afnám gagnageymdar o.fl.).

Frumvörpin heyra undir forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Í nefndinni sitja: Eiríkur Jónsson, prófessor, formaður, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, varaformaður, Birgitta Jónsdóttir, stjórnarformaður International Modern Media Initiative (IMMI), Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Rut Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður, Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Elísabet Pétursdóttir, lögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

 

Aðrar upplýsingar um nefndarstarfið er að finna á vef nefndarinnar á eftirfarandi vefslóð:
https://www.stjornarradid.is/raduneyti/nefndir/tjaningarfrelsi

Skóflustunga að þjóðarsjúkrahúsi

Skóflustunga var tekin að nýju þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut á laugardag. Ráðherrar ásamt fulltrúum félaga, hagsmunasamtaka og stofnana tóku fyrstu skóflustungu að nýjum meðferðarkjarna. Áætlað er að hann verði tekinn í notkun árið 2024. Þetta er stærsta byggingin í Hringbrautarverkefninu og gegnir lykilhlutverki í starfseminni. Kjarninn er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss. Húsnæðið verður tengt öðrum starfseiningum Landspítala með tengigöngum og tengibrúm. Meðferðarkjarninn verður á sex hæðum auk tveggja hæða kjallara. Við athöfnina sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra:  ,,Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Dagurinn í dag markar tímamót í heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Nýtt sjúkrahús mun gerbylta allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki síst fyrir sjúklinga, starfsmenn og aðstandendur.“

Unnið að samantekt um örplast fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur beðið sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd að taka saman upplýsingar um losun örplasts hér á landi og leiðir þess til sjávar. Markmiðið með samantektinni er að fá greinargóðar upplýsingar um losun örplasts hér á landi.

Örplast eru plastagnir sem eru minni en 5 millimetrar að þvermáli. Plast hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni og kallast þá örplast. Örplast getur einnig verið svokallað framleitt örplast sem finnst til dæmis í snyrtivörum.

„Plastmengun er vaxandi vandamál og það er mikilvægt að sporna gegn henni með öllum tiltækum ráðum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Það er brýnt að við söfnum saman á einn stað þeirri þekkingu og þeim gögnum sem liggja fyrir um örplast og losun þess hér á landi. Þess vegna var ákveðið að ráðast í þetta verkefni.“

Greindar verða uppsprettur og magn örplast sem losað er á Íslandi og leiðir þess til sjávar. Er markmiðið m.a. að fá yfirlit yfir stærstu uppsprettur örplasts í því skyni að geta forgangsraðað aðgerðum sem lúta að því að draga úr losun örplasts hér á landi.

Ísland tekur formennsku í Norðurskautsráði. Ráðherrar hittast.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fundaði í gær með umhverfisráðherra Finnlands, Kimmo Tiilikainen, í Rovaniemi, höfuðstað Lapplands í Finnlandi.

Fundarefnið var formennska Íslands í Norðurskautsráðinu sem hefst á næsta ári. Finnar hafa gegnt formennsku frá árinu 2017. Rætt var um áherslur Finnlands í sinni formennskutíð og þau málefni sem Ísland mun hafa í brennidepli í formennsku sinni á árunum 2019-2021. Finnar hafa meðal annars lagt áherslu á umhverfisvernd, fjarskipti, veðurfræði og menntun.

Fundurinn fór fram í tengslum við fund umhverfisráðherra Norðurskautsríkjanna sem hefst í dag í Rovaniemi. Þar verða loftslagsbreytingar, líffræðilegur fjölbreytileiki og mengunarvarnir meðal þeirra mála sem fjallað verður um.

Ný nálgun í náttúruvernd – skráning hafin á Umhverfisþing

Skráning er hafin á XI. Umhverfisþing sem haldið verður föstudaginn 9. nóvember 2018 á Grand Hóteli í Reykjavík. Að þessu sinni verður grunnstef þingsins ný hugsun í náttúruvernd og þau tækifæri sem geta falist í friðlýsingum svæða.

Á þinginu verður áhersla lögð á nýja nálgun í náttúruverndarmálum. Meðal annars verður kynnt ný rannsókn á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða, rædd verða tengsl náttúruverndar og byggðaþróunar og áform um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands skoðuð frá ólíkum sjónarhornum. Þinginu lýkur svo með pallborðsumræðum um sama efni.

Þrír gestir sem koma erlendis frá ávarpa þingið. Nigel Dudley, ráðgjafi fyrir Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN, útskýrir hvað felst í verndarflokkum samtakanna sem notaðir eru sem viðmið um verndun svæða um allan heim. Lizzie Watts, frá Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna, fjallar um samstarf hins opinbera og einkaaðila á vernduðum svæðum. Loks ræðir Chris Burkard, útivistarljósmyndari og fyrirlesari, um upplifun sína af miðhálendi Íslands í máli og myndum.

Þingið verður frá kl. 13 – 17 og er öllum opið meðan húsrúm leyfir, en nauðsynlegt er að þátttakendur skrái sig eigi síðar en 6. nóvember nk. í gegn um skráningarform hér að neðan.

Hægt verður að fylgjast með Umhverfisþingi í beinni útsendingu á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Drög að dagskrá

Rannsóknahús Landspítala fullhannað

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra undirritaði í dag samning við Corpus3 hópinn um fullnaðarhönnun rannsóknahúss Landspítala. Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu Landspítalans við Hringbraut.

Grímur Már Jónasson undirritaði samninginn fyrir hönd Corpus3 en hópurinn hefur einnig unnið að hönnun meðferðarkjarna Landspítalans. Í meðferðarkjarnanum verður bráðamóttaka sjúklinga, greining og meðferð en í rannsóknahúsinu verður sameinuð á einum stað öll rannsóknastarfsemi spítalans, bæði þjónusturannsóknir og hefðbundnar vísindalegar rannsóknir, lífssýnasöfnin verða þar til húsa og Blóðbankinn. Á rannsóknahúsinu er gert ráð fyrir þyrlupalli fyrir neyðarflug sem mun tengjast bráðastarfsemi spítalans. Rannsóknahúsið mun tengjast öðrum byggingum spítalans á sjálfvirkan hátt með tæknikerfum en einnig verður innangengt á milli bygginga í göngum eða yfir brýr.

Svandís Svavarsdóttir sagði við undirritunina að sameining allrar rannsóknastarfsemi Landspítala á einum stað muni gjörbreyta allri umgjörð fyrir rannsóknastarfsemi spítalans: „Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er forgangsmál og nýtt rannsóknahús er þar mikilvægur áfangi.“ Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, tók í sama streng og sagði húsið verða algjöra byltingu í aðstöðu fyrir starfsfólk og fjölbreyttar vísindarannsóknir. Þess væri því beðið með mikilli eftirvæntingu að geta tekið það í notkun.

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóra Nýs Landspítala ofh. segir að samkvæmt áætlunum verði rannsóknahúsið tekið í notkun árið 2024. Með undirrituninni í dag sé stórum áfanga náð, enda rannsóknahúsið ein af meginbyggingum verkefnisins í heild. Aðrar byggingar eru meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin, nýtt sjúkrahótel, sem verður tekið í notkun á árinu og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.

Grímur Már sagði við undirritun samingsins að Corpus3 myndi nýta alla þá reynslu og þekkingu sem hópurinn hefði öðlast við hönnun meðferðarkjarna sjúkrahússins. Hönnun rannsóknahússins væri í senn ánægjulegt og krefjandi verkefni.

Horft er til þess að með tilkomu rannsóknahússins verði mikil samlegðaráhrif við Háskóla Íslands þar sem háskólinn muni reisa nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs sem verði tengt rannsóknahúsinu.

Um leið og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra óskaði Nýjum Landspítala ohf. og Corpus3 hópnum áframhaldandi góðs samstarfs færði hún þakkir öllum þeim sem komið hafa að verkefnunum; tæknifólki og klínísku starfsfólki spítalans. „Á stundum sem þessum má ekki gleyma því að öll þessi uppbygging mun skila sér í enn betri þjónustu við sjúklinga. Sjúklingar og starfsfólk spítalans og Háskóla Íslands eru hornsteinar að því samfélagi sem er hér við Hringbraut. Við sem komum að verkefnum á annan hátt hlúum að því samfélagi og veitum því brautargengi og samningurinn sem nú er formfestur staðfestir það.

Kostnaðaráætlun vegna fullnaðarhönnunar rannsóknahúss er kr. 670.890.000 og var tilboð Corpus3 kr. 477.286.560, sem nemur 71,1% af kostnaðaráætlun.

Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda í loftslagsmálum

Ákveðið var að setja á laggirnar samstarfsvettvang atvinnulífs og stjórnvalda um framlag Íslands til loftslagsmála á alþjóðlegum vettvangi með útflutningi orkuþekkingar og grænna lausna á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Ríkisstjórnin hefur kynnt metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem tekur einkum til aðgerða sem miða að því að draga úr losun og auka kolefnisbindingu úr andrúmslofti, þannig að Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og áform um kolefnishlutleysi 2040. Samkvæmt áætluninni óska stjórnvöld eftir samstarfi á breiðum grunni við að koma áætluninni í framkvæmd. Samtök iðnaðarins gripu þann bolta á lofti og óskuðu eftir samstarfi á því sviði sem hér er greint frá.

Meginmarkmið samstarfsvettvangsins verður að hefja markaðssamstarf atvinnulífs og stjórnvalda tengt loftslagsmálum. Undirliggjandi markmið eru að efla ímynd Íslands á grundvelli framlags til loftslagsmála, samræma og markaðssetja skilaboð Íslands um lykilmarkmið og aðgerðir í loftslagsmálum og markaðssetja íslenskar lausnir á sviði orkuþekkingar og grænna lausna.

Með sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa getur Ísland orðið fyrirmynd í loftslagsmálum og hjálpað öðrum ríkjum við að ná árangri við að draga úr útblæstri án þess að það bitni á hagsæld.

Samstarfsvettvangurinn er í samræmi við áherslur stjórnvalda, sbr. aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, orkuskipti í samgöngum, kolefnisbindingu og vinnu við gerð langtíma orkustefnu og nýsköpunarstefnu. Samstarfsvettvangurinn verður skipaður fulltrúum ráðuneyta, SA, SI, Orkuklasans og Íslandsstofu.

Eignarhald á bújörðum í endurskoðun

Starfshópur um endurskoðun eignarhalds á bújörðum, sem skipaður var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í júní 2017, hefur skilað skýrslu þar sem lagðar eru til breytingar á lögum í því skyni að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Í framhaldi af þeirri vinnu hyggst forsætisráðherra skipa starfshóp um endurskoðun laga og reglna er varða eignarhald á landi og fasteignum hér á landi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar Íslands. Verður meginmarkmið endurskoðunarinnar að meta lögmæti mismunandi leiða til að setja almennar takmarkanir á stærð landareigna og/eða fjölda fasteigna sem einn og sami aðili, sem og tengdir aðilar, geta haft afnotarétt yfir. Jafnframt verður það hlutverk starfshópsins að skoða mögulegar leiðir til að sporna gegn því að land í landbúnaðarafnotum sé tekið til annarra nota og tryggja ef ekki telst grundvöllur fyrir áframhaldandi landbúnaðarafnotum að búseta á jörð haldist enda þótt landbúnaðarafnot leggist af í því skyni að sporna gegn íbúafækkun og viðhalda byggð á viðkomandi svæði.

Starfshópurinn mun vera skipaður fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, dómsmálaráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk fulltrúa forsætisráðherra sem mun stýra vinnu hópsins.

Skýrsla starfshóps um eignarhald á bújörðum