Ályktanir sem liggja fyrir flokksráðsfundi

Ályktanir sem liggja fyrir flokksráðsfundi má finna hér.

 

Athygli er vakin á því að kosningaáherslur VG verða kynntar á flokksráðsfundi á morgun!

Line Barfod um félagsleg fyrirtæki

VG-stofan á morgun klukkan 18.00

Gestum VG-stofunnar er boðið á lítinn fyrirlestur og samtal, klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag. Danski lögfræðingurinn Line Barfod, ræðir  félagsleg fyrirtæki og samfélagslega ábyrgð. Fyrirlesturinn verður á ensku eða dönsku, eftir því hvort fundargestir kjósa.

„Sosiale virksomheder“ er danska nafnið á fyrirtækjum sem rekin eru í með það meginmarkmið að vera samfélaginu til gagns og skapa félagslegan ávinning, en eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Line Barfod, lögfræðingur og fyrrum formaður flokkahóps norrænna Vinstri grænna flokka í Norðurlandaráði kemur á VG stofuna á morgun og segir frá pólitíkinni á bak við stofnun og rekstur  félagslegra fyrirtækja í Danmörku.

Line Barfod hefur áður komið hingað til lands og haldið fyrirlestra um mikilvægustu málefni samtímans.  Fyrr á þessu ári talaði hún mansal,  þrælahald nútímans,  á fjölmennum fundi í Norræna húsinu. Þar talaði Line á vegum Norræna félagsins og Vinstri grænna. Nú heldur hún fyrirlestur á vegum VG, þar sem hún talar inn í kosningabaráttuna, um mikilvæga leið í átt að betra samfélagi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Tillaga að lista í Suðvesturkjördæmi

Stjórn kjördæmaráðs VG í suðvesturkjördæmi boðar til fundar í Strandgötu 11 í Hafnarfirði kl. 20:00 mánudaginn 26. september.

Dagskrá.

1. Tillaga uppstillingarnefndar um framboðslista fyrir Alþingiskosningarnar 29. október, borin upp til samþykktar.
2. Önnur mál.

Allir félagar í suðvesturkjördæmi eru velkomnir á fundinn og hafa atkvæðisrétt á fundinum.

Stjórn kjördæmaráðs SV.

Áminning: Aðalfundur VG í Reykjavík

Ágætu félagar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði í Reykjavík.

 

Aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 27. september nk. í kosningamiðstöðinni, Laugavegi 170 í Reykjavík.

Fundurinn hefst kl. 20.00 og ráðgert að honum ljúki kl. 22.

 

Dagskrá:

 

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Fundargerð síðasta aðalfundar.
 3. Tillaga stjórnar um að fresta stjórnarkjöri og afgreiðslu á skýrslu stjórnar þar til að afloknum kosningum og að haldinn verði framhaldsaðalfundur eigi síðar en mánuði eftir kjördag. Á þeim fundi verða tvö mál á dagskrá: Skýrsla stjórnar og kjör formanns og stjórnar.
 4. Skýrsla stjórnar.
 5. Ársreikningar fyrir almanaksárið 2015 kynntir og bornir upp til samþykktar.
 6. Ársreikningar fyrir fyrri hluta þessa árs kynntir.
 7. Félagsgjöld ákveðin.
 8. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga.
 9. Lagabreytingar. Tillögur að lagabreytingum þurfa að hafa borist stjórn a.m.k. viku fyrir aðalfund.

 

Að loknum aðalfundarstörfum:

 1. Önnur mál. – Farið yfir áherslur í kosningabaráttu, kosningastjóri kynntur.

 

 

Við bjóðum upp á kaffi og kleinur og kosningasjóðurinn verður á sínum stað. Við hlökkum til að sjá ykkur á fundinum.

 

 

Fyrir hönd stjórnar VG í Reykjavík,

Benóný Harðarson, formaður.

 

 

Tillaga frá stjórn VGR:

Aðalfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík, haldinn 27. september 2016 samþykkir að fresta kjöri formanns og stjórnar til framhaldsaðalfundar. Framhaldsaðalfundur skal haldinn eigi síðar en mánuði eftir kjördag og er dagskrá hans eftirfarandi:

 1. Lokaskýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár kynnt og afgreidd.
 2. Kosning formanns til eins árs.
 3. Kosning 3ja stjórnarmanna til tveggja ára í stað þeirra sem ganga úr stjórn.
 4. Kosning 2ja varamanna til eins árs.

 

F.h. stjórnar, Benóný Harðarson, Álfheiður Ingadóttir.

 

Lög félagsins

Lög  Vinstrihreyfingarinnar     –             græns    framboðs            í              Reykjavík

 1. Félagið heitir Vinstrihreyfingin – grænt framboð í Reykjavík. Heimili og varnarþing eru í Reykjavík.

 1. Félagar eru jafnframt félagsmenn í stjórnmálasamtökunum Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og eru öll markmið og skilyrði í samræmi við lög þeirra.

 1. a. Aðalfundur er æðsta vald félagsins og skal hann haldinn árlega í septembermánuði. Til aðalfundarins skal boða með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.

 1. Á aðalfundi skulu bornir upp ársreikningar og skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár. Reikningsárið fylgir almanaksárinu og jafnframt skal lagt fram til kynningar ½ árs uppgjör yfirstandandi árs. Aðalfundur tekur afstöðu til lagabreytinga og skulu þær berast stjórn með viku fyrirvara. Aðalfundur ákveður upphæð félagsgjalds.

 1. Stjórn félagsins skipa 7 aðalmenn og 2 til vara, sem kjörnir eru með eftirfarandi hætti: Aðalfundur kýs formann til eins árs, 3 aðalmenn til 2ja ára, 2 varamenn og 2 skoðunarmenn reikninga til eins árs. Stjórn er heimilt að skipa uppstillingarnefnd sem gerir tillögu að formanni og nýrri stjórn félagsins.

 1. Félagsfundi skal að jafnaði halda ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári og oftar ef a.m.k. fimmtíu félagsmenn óska þess.

 1. Stjórn fer með málefni svæðisfélagsins milli aðalfunda. Fulltrúi kjörinn af tengiliðaráði Ungra vinstri grænna í Reykjavík hefur setu- og tillögurétt á stjórnarfundum félagsins.

 1. Fyrir hverjar almennar kosningar skal stjórn VGR bera undir félagsfund hvort fari fram uppstilling eða forval við uppröðun á lista. Að því leyti sem ekki er annað ákveðið af félagsfundi gilda samræmdar lágmarksreglur hreyfingarinnar vegna uppröðunar á lista fyrir kosningar.

 1. Þegar til landsfundar er boðað skal kalla til félagsfundar þar sem félagið kýs sér landsfundarfulltrúa í samræmi við lög landssamtakanna.

 1. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess renna til líknarstarfsemi að vali síðustu stjórnar.

 1. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á aðalfundi 8. september 2014

Bráðabirgðaákvæði: Á aðalfundi félagsins árið 2014 er kosið þannig til stjórnar að þrír stjórnarmenn eru kjörnir til tveggja ára og þrír stjórnarmenn til eins árs.

VG fundur í Stavanger í Noregi – örlítið breyttur

Vinstri græn halda fund fyrir Íslendinga í Noregi í Stavanger á sunnudaginn, 25. september.  Björn Valur Gíslason, varaformaður VG boðaði til fundarins í samstarfi við Íslendinga í borginni og nærsveitum. Fundurinn verður á Sölvberget í miðborg Stavangurs, klukkan 14.00 á sunnudag. Vegna útkalls á sjó, eru líkur á að fundarboðandinn forfallist, en frá Íslandi kemur í staðinn, Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum fjármálaráðherra, formaður VG og einn af stofnendum hreyfingarinnar. Framkvæmdastjóri VG, Björg Eva Erlendsdóttir kemur með honum á fundinn.  Rætt  verður um samfélagið, stjórnmálin og kosningabaráttuna framundan.  Einnig verða kannnaðir möguleikar á stofnun nýs félags Vinstri Grænna í Noregi.  En mikill áhugi er á þróun íslensks samfélags í fjölmennum Íslendingabyggðum í vestur Noregi.

Fullkláraður listi í Norðvesturkjördæmi lagður fyrir félagsfund

Eins og áður hefur verið greint frá verða atkvæði í forvali VG í Norðvesturkjördæmi talin á sunnudag kl. 13:00, en talningin fer fram í Leifsbúð í Búðardal. Kjörstjórn mun leggja fullkláraðan lista fyrir félagsfund fimmtudaginn 29. september kl. 20:00, en fundurinn mun fara fram á Hvanneyri (húsnæði auglýst síðar).

Talning atkvæða í forvali í Norðvesturkjördæmi

Atkvæði verða talin úr forvali Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi í Leifsbúð í Búðardal næstkomandi sunnudag, 25. september, kl. 13:00. Félagar eru velkomnir.

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar kveður

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti VG í Reykjavík, stýrði sínum síðasta fundi í Reykjavík í gær, kvaddi stjórnmálin og er flutt til Hollands, þar sem hún stundar nú meistaranám.

Sóley hefur gegnt fjölbreyttum trúnaðarstörfum fyrir VG, setið í stjórn og framkvæmdastjórn sem ritari.  Sóley hefur beitt sér fyrir ýmsum þjóðþrifamálum, en er þekktust fyrir baráttu sína fyrir kvenfrelsi á öllum sviðum. Síðastliðin tíu ár hefur Sóley hefur unnið í borgarstjórn, og á þessu kjörtímabili var hún forseti borgarstjórnar.

Þegar Sóley tilkynni um brotthvarf sitt úr borgarstjórn fyrr á árinu, sagði hún um stjórnmálin. „Pólitíkin mun alltaf fylgja mér – enda er lífið eitt pólitískasta viðfangsefni sem við tökumst á hendur. … Um Reykjavík sagði Sóley. „Reykjavík er frábær borg og verður stöðugt betri. Vinstri græn eiga sinn þátt í því og munu halda áfram að stuðla að sanngjarnari, grænni og femínískari borg.“

Líf Magneudóttir tekur við af Sóleyju, sem  forseti borgarstjórnar. Vinstri græn þakka Sóleyju samfylgdina í bili og óska Líf Magneudóttur velfarnaðar í starfi forseta.

Til kjósenda erlendis

VG hvetur alla til að nýta kosningarétt sinn og minnir íslenska ríkisborgara sem búsettir hafa verið erlendis lengur en átta ár og sóttu ekki um að verða teknir á kjörskrá fyrir 1. desember 2015, að þeim verður gert kleift að kjósa í komandi alþingiskosningum. Sækja þarf um hjá Þjóðskrá að vera tekinn á kjörskrá á grundvelli þessarar heimildar í síðasta lagi fimmtudaginn 29. september 2016. Umsóknareyðublöð er að finna á vef Þjóðskrár Íslands á slóðinni www.skra.is.