Innleiðing krabbameinsáætlunar hafin

Ísland er í fremstu röð þegar kemur að greiningu og meðferð krabbameina. Þann árangur getum við meðal annars þakkað vel menntuðu og hæfu fagfólki og öflugum sjúklingasamtökum.  Engu að síður má sökum fjölgunar íbúa og hækkandi aldurs þjóðarinnar búast við mikilli fjölgun einstaklinga sem greinast með krabbamein á næstu árum. Í ljósi þessarar þróunar hafa mörg vestræn ríki, þ.m.t. öll hin Norðurlöndin, sett fram krabbameinsáætlanir og hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefið út leiðbeiningar um gerð slíkra áætlana sem ætlað er að skerpa sýn, móta markmið og aðgerðir og stilla saman strengi allra hlutaðeigandi í baráttunni við krabbamein. Segja má að fyrstu skrefin í gerð íslenskar krabbameinsáætlunar hafi verið tekin þann 4. febrúar 2011, á  alþjóðadegi krabbameins í tilefni af 60 ára afmæli Krabbameinsfélags Íslands. En þá tilkynnti Guðbjartur Hannesson, þáverandi velferðarráðherra, að stefnt yrði að gerð íslenskrar krabbameinsáætlunar. Í kjölfarið fór fram undirbúningsvinna af hálfu Krabbameinsfélags Íslands og í ársbyrjun 2013 skipaði velferðarráðherra ráðgjafahóp sem falið var það hlutverk að móta stefnu og meginmarkmið á sviði forvarna og meðferðar vegna krabbameina til ársins 2020.

Fjöldi manns kom að gerð krabbameinsáætlunar, bæði beint og sem ráðgefandi aðilar en hópurinn var skipaður fulltrúum frá Landspítalanum, Heilsugæslunni, háskólasamfélaginu og frá sjúklinga- og aðstandendasamtökum auk þess sem hópurinn leitaði ráðgjafar hjá fjölmörgum aðilum sem hafa aðkomu að málaflokknum.

Ráðgjafahópurinn skilaði skýrslu með tillögu að íslenskri krabbameinsáætlun í júlí 2017. Lögð er rík áhersla á notendur heilbrigðisþjónustunnar í áætluninni og er undirtitill hennar Notendamiðuð þjónusta í öndvegi. Ekki hafði verið tekin formleg afstaða til innleiðingar þeirra verkefna sem sett eru fram í áætluninni fyrr en nú, en ég hef nú ákveðið að unnið verði að framkvæmd verkefna í samræmi við tillögur ráðgjafarhóps. Gildistími áætlunarinnar verður til ársins 2030, til samræmis við tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu sem nú liggur fyrir Alþingi.

Þó að við höfum ekki enn náð að sigrast á krabbameini þá hefur mikið áunnist á undanförnum áratugum. Forvörnum, greiningu og meðferð hefur fleygt fram og batahorfur þeirra sem greinast hafa batnað verulega. Það er mín sannfæring að krabbameinsáætlunin muni stuðla að enn betri árangri á komandi árum.

 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

,

Spurt og svarað um bann við burðarplastpokum

Hvað felur frumvarpið í sér?

Samkvæmt frumvarpinu verður frá og með 1. júlí 2019 óheimilt að afhenda alla burðarpoka, þar með talið burðarpoka úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og skal gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.

Frá og með 1. janúar 2021 verður síðan óheimilt fyrir verslanir að afhenda burðarpoka úr plasti. Ekki skiptir máli hvort það er með eða án gjalds. Bannið á sem sé einungis við um plastpoka og ekki burðarpoka úr öðrum efnum. Orðrétt segir þetta í frumvarpinu um það sem gerist þann 1. janúar 2021:

Óheimilt er að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án endurgjalds, á sölustöðum vara.

Burðarpokar úr plasti eru bæði þykku pokarnir sem hægt hefur verið að fá eða kaupa í stykkjatali á afgreiðslukössum verslana og þunnu pokarnir sem til dæmis hefur verið hægt að fá endurgjaldslaust í grænmetiskælum matvörubúða.

Bannið tekur ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum í verslunum, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum.

Af hverju að banna burðarpoka úr plasti?

Plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að svokölluðu örplasti. Til að framleiða plast þarf olíu og plastið sjálft getur verið skaðlegt fyrir lífríkið.

Banni við burðarplastpokum er ekki ætlað að vera allsherjarlausn á plastvandamálinu, heldur ein aðgerð af mörgum. Hér er um mikilvægt skref að ræða, flest fólk kaupir til dæmis reglulega í matinn og ber vörurnar heim í pokum. Aðgerðin snertir þannig daglegt líf okkar og eykur vitund okkar um plast og notkun þess í okkar daglega lífi.

Því sjónarmiði hefur verið haldið á lofti að plastpokarnir séu aðeins brot af plastvandanum og ekki ætti að horfa til þeirra heldur gera þess í stað eitthvað annað. Margvíslegra aðgerða er hins vegar þörf. Verkefnið fram undan er umfangsmikið og ýmiss konar lausnir nauðsynlegar, plastpokarnir eru þar eitt skref af mörgum. Með frumvarpinu fylgir umhverfis- og auðlindaráðherra eftir tillögum samráðsvettvangs um aðgerðir í plastmálefnum sem í voru fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Hópurinn skilaði ráðherra tillögum að 18 aðgerðum í nóvember síðastliðnum og bann við burðarplastpokum var ein þeirra.

Önnur tillaga, aðstoð við neytendur sem mæta með eigin umbúðir undir keypta matvöru, hefur þegar komið til framkvæmda, og undirbúningur stendur yfir varðandi tillögu sem felur í sér viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir. Verið er að vinna úr öðrum tillögum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en þær fela til dæmis í sér vitundarvakningu um ofnotkun á plasti og úrvinnslugjald á allt plast. Þá er gert ráð fyrir að Evrópusambandið samþykki vorið 2019 nýja tilskipun til að takast á við plastmengun en þar er m.a. lagt til að aðildarríkjum verði skylt að draga úr notkun matarumbúða og drykkjarbolla úr einnota plasti. Tilskipunin verður innleidd hér á landi á grundvelli EES-samningsins.

Hvar annars staðar hafa burðarplastpokar verið bannaðir?

Burðarplastpokar hafa þegar verið bannaðir í fjölda ríkja, svo sem Ítalíu, Frakklandi, Indlandi, Kenía, Makedóníu, Kína, Bangladess, Máritaníu, Úganda og Madagaskar. Á Nýja Sjálandi hefur bann verið samþykkt sem tekur gildi í sumar og burðarplastpokar hafa verið bannaðir í fjölda borga í Bandaríkjunum og tveimur fylkjum: Havaí og Kalíforníu.

Hvað segja kannanir um afstöðu fólks hér á landi til banns?

Nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum eru samkvæmt könnun MMR sem birt var í október hlynntir banni á einnota plastpokum í verslunum. Tæp 41% kváðust mjög hlynnt slíku banni.

Heildarniðurstöður könnunarinnar voru þessar: 21% svarenda kváðust vera andvíg banni á einnota plastpokum, það er 9% mjög andvíg og 12% frekar andvíg. Þá kváðust tæp 21% frekar hlynnt banni og tæp 41% mjög hlynnt eða 61% samtals. Loks kváðust 17% hvorki vera andvíg né fylgjandi banni á einnota plastpokum í verslunum.

Má fólk þá ekki nota plastpoka þegar bannið tekur gildi?

Jú, það má að sjálfsögðu. Bannið snýst einungis um að óheimilt verður fyrir verslanir og sölustaði að afhenda viðskiptavinum sínum burðarpoka úr plasti. Fólk getur þannig haldið áfram að nota plastpoka – og engum verður refsað fyrir slíkt. Öll erum við þó hvött til að draga eins og við getum úr notkun á plasti og velja heldur það sem er fjölnota en það sem er einnota.

Verður þá ekki hægt að kaupa plastpoka?

Jú, bannið tekur ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum verslana, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum. Á afgreiðslukössum og í grænmetiskælum verður á hinn bóginn ekki hægt að nálgast þá í stykkjatali frá og með 1. jan 2021 – og frá og með miðju ári í ár og þangað til 2021 fást þeir eingöngu gegn gjaldi. Verslanir ákveða sjálfar gjaldið, líkt og er í dag.

Hverju breytir bann við burðarplastpokum?

Með því að banna plastpoka tökumst við á við það mikla magn plastpoka sem er í umferð og það er mikilvægt. Bannið hefur hins vegar víðtækari áhrif. Það snertir daglegt líf okkar og virkjar okkur með beinum hætti við að hugsa um lausnir án plasts. Aðgerðin vekur upp nauðsynlega umræðu um plastmengun, neyslu og sóun og fær okkur til að hugsa á annan hátt en áður um plast og eigin neyslu.

Hvað er hægt að nota í staðinn fyrir burðarplastpoka?

Í staðinn fyrir burðarpoka úr plasti er hægt að nota fjölnota poka fyrir matvæli og önnur innkaup. Margir slíkir pokar eru búnir til úr endurunnu plasti og taui. Í stað þess að nota poka sem þessa er líka hægt að nota það sem við höfum í höndunum – s.s. handtöskur, töskur eða annað.

Svokallaðar Pokastöðvar hafa einnig sprottið upp vítt og breitt um landið en þar safna sjálfboðaliðar gömlum stuttermabolum eða öðrum vefnaði og sauma úr því fjölnota poka sem síðan eru boðnir fólki til láns í verslunum.

Í staðinn fyrir litlu plastpokana í grænmetiskælunum er einnig hægt að nota fjölnota poka. Ávexti og grænmeti hafa reyndar oft náttúrulegar umbúðir og þurfa ekki poka en ef poki er nauðsynlegur er einfalt að nota margnota net og margnota poka.

En hvað með umhverfisáhrif margnota poka?

Í umræðu um lífsferilsgreiningu fjölnota poka og plastpoka er mikilvægt að hafa í huga að forsendur slíkra greininga geta verið mismunandi, allt eftir því hvaða markað er verið að skoða. Til dæmis er stór hluti plastpoka á Íslandi urðaður með tilheyrandi umhverfisáhrifum sem ekki eru alltaf teknar inn í greiningarnar. Því ber að varast að yfirfæra án aðlögunar niðurstöður frá öðrum löndum á Ísland. Lykillinn er að:

  • Velja fjölnota poka úr endurunnu efni en ekki nýju hráefni.
  • Eignast fáa góða poka sem ganga undir allt.

Ef ég kaupi ekki plastpoka, hvað á ég þá að nota undir heimilisúrganginn?

Eins og Umhverfisstofnun bendir á: Því meira sem þú flokkar heima hjá þér því færri poka þarftu.

Eftir því sem við flokkum meira frá af plasti, pappír, málmi, gleri, því sem er lífrænt o.s.frv. því minna fellur til af blönduðum úrgangi – og því minni eftirspurn verður eftir lausnum fyrir ruslatunnuna.

Lausnirnar eru þó fjölmargar: Í stað þess að setja plastpoka í ruslið getum við sem dæmi notað poka sem til falla á heimilinu og munu halda áfram að gera það: Poka undan brauði, kartöflum, morgunkorni, hverju sem er. Fyrir þau sem vilja poka af hefðbundinni stærð í ruslafötuna í eldhúsinu eru til dæmis til svokallaðir lífbrjótanlegir pokar. Og fyrir þau sem eftir sem áður kjósa plast í fötuna sína verður áfram hægt að kaupa plastpoka sem seldir eru margir saman í rúllum. Þeir eru þá söluvara í hillum verslana en ekki í stykkjatali á kassanum. Slíkir pokar verða áfram leyfðir.

Síðan eru til fleiri lausnir. Ruslið sem er blautt í tunnunni okkar er í raun matur sem við erum að henda. Því meira sem við drögum úr matarsóun því minna verður af rusli í tunnunni.

Loks má nefna að sum sveitarfélög, til dæmis Reykjavíkurborg, leyfa íbúum sínum að setja blandaðan úrgang beint í gráu tunnuna – sem sé án poka. Það er svo á ábyrgð íbúa að þrífa tunnurnar reglulega. Endurvinnsluefni má einnig setja laust í tunnurnar og í gáma á grenndar- og endurvinnslustöðvum.

Eru lífbrjótanlegir maíspokar ekki verri fyrir umhverfið en plastpokar?

Á vef Umhverfisstofnunar er bent á að umhverfisáhrif lífbrjótanlegra poka fari eftir því hvernig þeir eru framleiddir, en best sé ef þeir eru gerðir úr hliðarafurðum af annarri matvælaframleiðslu og bæði hæfir til moltugerðar og niðurbrjótanlegir í náttúrunni.

Þegar lífbrjótanlegir pokar brotna niður á urðunarstað verða til gróðurhúsalofttegundir. Metangasinu er á hinn bóginn safnað á tveimur urðunarstöðum og það síðan nýtt sem eldsneyti. Einn helsti kosturinn við þessa poka er að ef þeir sleppa út í náttúruna valda þeir ekki sama skaða á lífríkinu og plastpokarnir.

Umhverfisstofnun bendir á að í góðu lagi sé að nota lífbrjótanlega poka undir ruslið en að sama skapi sé ekki æskilegt að færa eina einnota notkun yfir á aðra. Ýmsar aðrar lausnir séu til fyrir rusl og því meira sem þú flokkir heima hjá þér því færri poka þurfir þú fyrir heimilissorpið.

Verða pokarnir sem sumar verslanir bjóða nú upp á í staðinn fyrir plastpoka áfram leyfilegir á afgreiðslukössum?

Frá og með 1. júlí 2021 fer það eftir því hvert efnainnihald þeirra er. Ef burðarpokarnir innihalda eitthvert plast er svarið nei. Ef um að ræða svokallaða lífbrjótanlega maíspoka er svarið já.

Af hverju eru tölur yfir árlegt notkunarmagn burðarpoka úr plasti inni í frumvarpinu?

Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða tilskipun Evrópusambandsins sem miðar að því að draga úr notkun á burðarpokum úr plasti. Þar er kveðið á um þessar tölur til að hvetja ríki til að draga úr notkun plastpoka.

Í takt við þetta er í frumvarpinu lagt til að eigi síðar en 31. desember 2019 verði árlegt notkunarmagn plastburðarpoka að hámarki 90 pokar á einstakling. Eigi síðar en 31. desember 2025 verði árlegt notkunarmagn að hámarki 40 pokar.

Jafnvel þótt burðarplastpokar verði bannaðir á sölustöðum vara mun eitthvað af plastpokum vera áfram í umferð – ýmist gamlir pokar sem notaðir eru aftur og aftur eða nýir pokar sem eru söluvara í hillum verslana en ekki afhentir við afgreiðslukassa.

Af hverju gengur frumvarpið lengra en Evróputilskipunin?

Í frumvarpinu er um að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins sem miðar að því að draga úr notkun á burðarpokum úr plasti. Frumvarpið gengur þó lengra en lágmarkskröfur tilskipunarinnar gera ráð fyrir. Þetta er gert til að sýna gott fordæmi og takast af enn frekari krafti á við plastmengun og neyslu. Á þremur sviðum gengur frumvarpið lengra en Evróputilskipunin gerir ráð fyrir:

  • Frumvarpið nær til hefðbundinna burðarpoka úr plasti, óháð þykkt þeirra. Það nær þannig einnig til þunnu plastpokana sem fáanlegir hafa verið í grænmetiskælum. Tilskipunin sjálf nær til burðarpoka úr plasti sem eru minni en 50 míkrón og samkvæmt henni er ríkjum heimilt að undanskilja þynnstu pokana, sem eru minna en 15 míkrón. Ríki eru á hinn bóginn hvött til að gera það ekki. Ísland verður við þessari hvatningu og hefur þá með. Frumvarpið nær þar að auki til plastpoka sem eru þykkari en 50 míkrón.
  • Í frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án endurgjalds, á sölustöðum vara frá og með 1. janúar 2021. Samkvæmt tilskipuninni er aðildarríkjum heimilt að gera einmitt þetta.
  • Loks er í frumvarpinu lagt til að skyldan til að taka gjald fyrir plastpoka gildi um alla burðarpoka, óháð því úr hvaða efni þeir eru. Þetta er gert til að reyna að auka hlut fjölnota poka, draga úr ofneyslu burðarpoka og koma í veg fyrir að ein einnota neysla færist yfir á aðra.

Til hvaða annarra aðgerða verður gripið til að draga úr plastmengun?

Samráðsvettvangur um plastmálefni skilaði tillögum sínum um aðgerðir í plastmálefnum til umhverfis- og auðlindaráðherra þann 1. nóvember síðastliðinn. Tillögurnar voru 18 talsins og má nálgast hér.

Tillagan um bannið við burðarplastpokum var ein af tillögunum. Önnur tillaga, aðstoð við neytendur sem mæta með eigin umbúðir undir keypta matvöru, hefur þegar komið til framkvæmda. Enn önnur tillaga felur í sér viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir og hefur að markmiði að draga fram það sem vel er gert varðandi slíkar lausnir og veita nýsköpun aukinn slagkraft. Ákveðið hefur verið að auglýst verði eftir tilnefningum í vor og verðlaunin síðan veitt í tengslum við Plastlausan september. Frekari upplýsingar má nálgast hér á vef Umhverfisstofnunar.

Verið er að vinna úr öðrum tillögum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en þær fela til dæmis í sér vitundarvakningu um ofnotkun á plasti og úrvinnslugjald á allt plast. Þá er gert ráð fyrir að Evrópusambandið samþykki vorið 2019 nýja tilskipun til að takast á við plastmengun en þar er m.a. lagt til að aðildarríkjum verði skylt að draga úr notkun matarumbúða og drykkjarbolla úr einnota plasti. Tilskipunin verður innleidd hér á landi á grundvelli EES-samningsins.

Ljóst er að bann við burðarplastpokum er einungis ein aðgerð af mörgum sem ráðist verður í.

Er plast svona slæmt?

Plast er efni sem endist afar lengi og er því hentugt til ýmissa nota. Einmitt þessi eiginleiki þess gerir það hins vegar einstaklega óhentugt sem einnota efni. Plast er í stórum stíl einnota – einungis notað einu sinni. Þetta eru hlutir sem fylgja okkur ef til vill nokkur andartök en geta enst í tugi og hundruð ára sem úrgangur.

Plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að svokölluðu örplasti. Til að framleiða plast þarf olíu og plastið sjálft getur verið skaðlegt fyrir lífríkið – bæði þegar dýr innbyrða það eða flækjast í því og vegna þess að í plasti eru oft, eða loða við það, efni sem geta haft hormónaraskandi áhrif. Menn hafa af því áhyggjur hvort þessi efni munu svo berast áfram til okkar mannanna.

Alltof oft endar plastið úti á víðavangi og sökum þess hve létt það er fýkur það auðveldlega um, flýtur niður ár og læki og endar úti í sjó. Plast í hafi er þannig orðið víðtækt vandamál. Verkefnið er það stórt að ef fram heldur sem horfir verður árið 2050 meira plast í hafinu en fiskar.

Ræða forsætisráðherra á Alþingi 21. janúar 2019

Herra forseti. Hægt væri að ræða mörg mál hér í upphafi nýs vorþings, getum við sagt. Ég ætla sérstaklega að gera tvö mál að umtalsefni og ekki nýta mínútur mínar hér til að fara í langar upptalningar.

Í fyrsta lagi ætla ég að ræða aðeins stöðuna á vinnumarkaði og í öðru lagi að ræða aðeins stöðuna við endurskoðun stjórnarskrár.

Vinnumarkaðsmál hafa verið fyrirferðarmikil á undanförnum vikum og mánuðum og munu verða það áfram í pólitískri umræðu. Þar hafa stjórnvöld unnið mikið starf í því að styrkja samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Fjórtándi samráðsfundur þessara aðila fer fram á morgun og verða þar kynntar niðurstöður átakshóps um húsnæðismál sem ég skipaði fyrir jól. Við höfum lýst okkar einbeitta vilja til að finna lausnir, ekki síst hvað varðar framboðsvanda á húsnæðismarkaði en líka hvað varðar ýmis önnur mál eins og réttindi og vernd leigjenda, innkomu þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign og fleira.

Þetta er forgangsmál. Þetta er eitt af því sem verkalýðshreyfingin hefur lagt þunga áherslu á, enda er það forgangsmál að búa við öryggi og fyrirsjáanleika í húsnæðismálum. Átakshópurinn mun kynna niðurstöður sínar á morgun. Þar hafa núna í tvo mánuði setið saman fulltrúar ríkis, sveitarfélaga, atvinnurekenda og launafólks. Þau munu gera tillögur að lausnum.

Ljóst er að þörfin er töluverð; hún hefur verið greind á bilinu 5.000–8.000 íbúðir. Þegar tekið er tillit til þess húsnæðis sem nú þegar er í byggingu má segja að óuppfyllt þörf á næstu árum sé um 2.000 íbúðir, sem vantar upp á.

Við þurfum að taka höndum saman um að leysa þennan vanda og við þurfum að tryggja fullnægjandi framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir okkur öll.

Á næstunni munu stjórnvöld sömuleiðis kynna tillögur sínar að skattkerfisbreytingum, en í tengslum við endurnýjun kjarasamninga fyrir tæpu ári boðaði ríkisstjórnin að þær breytingar sem gerðar yrðu á tekjuskattskerfinu myndu miða að því að koma til móts við tekjulægri hópa og lægri millitekjuhópa. Ég bind miklar vonir við að þær tillögur sem við munum sjá á næstunni, bæði hvað varðar skattkerfið og húsnæðismál, muni greiða fyrir því að lenda kjarasamningum með farsælum hætti á vinnumarkaði.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna í tengslum við kjarasamninga eru félagsleg undirboð — meinsemd sem ekki á að líðast í samfélagi okkar. Við slíkum brotum eiga að vera skýr viðurlög. Starfshópur á vegum félags- og barnamálaráðherra vinnur nú að tillögum til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Samhliða þarf að líta til nýrrar aðgerðaáætlunar gegn mansali sem er á höndum dómsmálaráðherra. Þá vinnur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að frumvarpi um aðgerðir gegn kennitöluflakki. Allt þjónar það því markmiði að byggja heilbrigðari vinnumarkað í sameiningu.

Ég hlýt að halda því til haga að nú þegar hafa stjórnvöld lagt sitt af mörkum til að bæta lífskjör almennings, sem skiptir máli fyrir þessa kjarasamninga. Í vor hækkuðum við greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði og Ábyrgðasjóði launa. Hvort tveggja skiptir miklu máli núna, ekki síst fyrir þá sem verða fyrir þeirri ógæfu að missa vinnuna þegar um hægist í vexti hagkerfisins, t.d. í þeim fjöldauppsögnum sem við höfum séð á síðustu vikum og mánuðum.

Aðrar breytingar sem gerðar hafa verið eru þær að kjararáð var lagt niður. Var það samkvæmt sameiginlegri tillögu nefndar þar sem sátu fulltrúar stjórnvalda og aðilar vinnumarkaðarins. Framtíðarfyrirkomulag launa æðstu embættismanna er nú til þinglegrar meðferðar, en þar er stefnt að því að gera það fyrirkomulag í senn gagnsætt og fyrirsjáanlegt í takt við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Ég tel að það verði mikið framfaraskref.

Sömuleiðis voru gerðar breytingar á barnabótum fyrir jól. Settir voru nýir 1,6 milljarðar inn í kerfið sem gerir það að verkum að barnabætur hækka hjá tekjulágum og þeim fjölgar um 2.200 sem rétt eiga á barnabótum. Sett voru samræmd viðmið fyrir efri og neðri mörk tekjuskattskerfisins sem tryggja aukinn jöfnuð og persónuafsláttur var hækkaður umfram verðlag.

Ég hef síðan tekið undir þá kröfu verkalýðshreyfingarinnar að það sé eðlilegt að efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki verði ræddur við borð nýs þjóðhagsráðs. ASÍ hefur enn sem komið er hins vegar ekki fallist á að taka sæti í þjóðhagsráði en fulltrúar opinberu félaganna á vinnumarkaði og atvinnurekendur hafa tekið vel í slíkar hugmyndir. Þar með myndum við formfesta vettvang stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins þar sem við myndum ræða þessi mál sameiginlega, þ.e. hvernig við getum náð markmiðum um að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Hluti af því að gera umræðu um kjaramál skýrari, gagnsærri og betri er svo sá gagnagrunnur sem við opnuðum nú fyrir helgi, tekjusagan.is, þar sem hægt er að skoða hvernig ráðstöfunartekjur hafa þróast út frá raungögnum undanfarinna 25 ára, þar sem hægt er að skoða félagslegum hreyfanleika, þar sem hægt er að skoða hvernig ólíkir hópar koma út þegar tekið er tillit til ráðstöfunartekna. Það er athyglisvert að frá því að vefurinn var opnaður á föstudaginn hafa 15.000 manns heimsótt hann og kynnt sér hann, sem sýnir að það er mikill áhugi á því að hafa aðgang að slíkum gögnum. Þau eru algjörlega nauðsynleg til að umræðan skili raunverulegum árangri. Að hafa raungögn, staðreyndir aðgengilegar og opnar öllum, er algjört lykilatriði til þess.

Virðulegi forseti. Formenn flokka hafa nú átt níu fundi um stjórnarskrárbreytingar, en í upphafi þessa kjörtímabils lagði ég fram þá hugmynd að við myndum ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum, þessu og því næsta. Þar var enn fremur lagt til ákveðið vinnulag, þ.e. hvernig viðfangsefnin yrðu tekin fyrir, í hvaða röð og hvernig staðið yrði að vinnunni. Nú á síðasta fundi okkar, sem haldinn var sl. fimmtudag, lagði ég fram endurskoðað minnisblað sem tekur mið af því hvernig vinnan hefur þróast. Það er ljóst að umræða um einstök viðfangsefni er mislangt á veg komin. Sumt höfum við rætt árum og áratugum saman. Ég nefni sem dæmi ákvæði um auðlindir í þjóðareign. Sömuleiðis hefur mikið verið rætt um ákvæði um umhverfisvernd og þjóðaratkvæðagreiðslu, framsal valdheimilda. Það eru þau mál sem við settum fyrst á dagskrá formanna og fulltrúa flokkanna, en þetta eru ekki þau einu.

Enn fremur höfum við tekið til umræðu forsetaembættið í stjórnarskrá og stöðu framkvæmdarvalds í stjórnarskrá.

Ég hef sagt að ég telji þessa vinnu hafa gengið vel. Opinber umræða að undanförnu hefur kannski fyrst og fremst snúist um bókanir einstakra nefndarmanna, um sýn þeirra og skoðanir á stjórnarskránni, og telst mér raunar til að nánast allir formenn hafi ýmist bókað eða tekið undir bókanir annarra á nýliðnum fundum. En vinnan snýst minnst um þessar bókanir.

Ég legg á það mjög mikla áherslu að við sem sitjum við þetta borð, formenn og fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi, tökum þátt í þessari vinnu af fullri alvöru, skilum af okkur góðum tillögum um góðar breytingar á stjórnarskrá, og að um þær verði haft samráð við almenning en ekki endilega sama samráðið um ólíkar tillögur. Ýmist munum við nýta samráðsgáttina, við getum efnt til rökræðukannana og við höfum rætt að gera skoðanakannanir. En það er mikilvægt að við nýtum kjörtímabilið allt til starfans því að sagan sýnir okkur að hætt er við því að stjórnarskrárbreytingar eða tillögur að þeim sem kastað er inn í umræðuna á Alþingi á síðustu vikum fyrir kosningar nái ekki fram að ganga, m.a. vegna ágreinings um óskyld málefni.

Það er í raun ekkert sem stoppar mig í því að leggja bara fram mínar eigin tillögur um stjórnarskrárbreytingar. Auðvitað er ekkert útilokað að ég geri það ef ekki næst góð samstaða um breytingar á stjórnarskrá. En það er mín einlæga sannfæring að þessar breytingar verði betri ef við ræðum þær sameiginlega og vinnum sameiginlega að þeim, þótt við höfum öll ólíka sýn á hversu miklu eigi að breyta og hvernig eigi að breyta.

Ég tel ekki að sú stjórnarskrárumræða skili miklum árangri sem föst er í skotgröfum þar sem ýmist á engu að breyta og gildandi stjórnarskrá er heilagt orð, eða sú sýn að þær tillögur sem skilað var á sínum tíma af stjórnlagaráði séu heilagt orð þar sem engu má breyta. Ýmis ákvæði í gildandi stjórnarskrá þarfnast svo sannarlega endurskoðunar. Tillögur stjórnlagaráðs eru mismikið reifaðar í samfélaginu og mismikið ígrundaðar.

Það skiptir hins vegar máli að við tökum mark á því sem spurt var um í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, þ.e. hvort almenningur vildi byggja á þeim drögum sem stjórnlagaráð hafði skilað. Það skiptir máli að við höfum þær tillögur til hliðsjónar. En ég vil segja það hér að ég tel að stjórnmálin skuldi almenningi að gera breytingar á stjórnarskrá og hafi þar til hliðsjónar vinnu við undanfarinna ára. En til þess að þær breytingar gangi í gegn þarf Alþingi Íslendinga að samþykkja þær.

Þess vegna skiptir raunverulegu máli að ná sem breiðastri samstöðu um slíkar breytingar. Það sem skipta mun almenning hér á landi mestu í þessu máli eru raunverulegar breytingar til framtíðar en ekki upphrópanir nútíðarinnar. Og raunverulegar breytingar í þágu (Forseti hringir.) bæði almennings og umhverfis eru löngu tímabærar.

Nú á þessu ári þar sem við fögnum 75 ára afmæli lýðveldisins og gildandi stjórnarskrár held ég að við höfum mikil tækifæri til að sýna fram á að stjórnmálin eru reiðubúin til að gera sitt í þessu mikilvæga máli.

Sterkari heilsugæsla

Styrking heilsugæslunnar er eitt af mikilvægustu stefnumálum mínum sem heilbrigðisráðherra og meðal meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar. Á undanförnu ári hafa verið stigin mikilvæg skref í þá átt að efla heilsugæsluna. Sett var á fót þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu sem mun leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu og markmiðið með stofnun hennar er meðal annars að jafna aðgengi landsmanna að þessari mikilvægu grunnþjónustu hvar sem fólk býr, efla gæði þjónustunnar og stuðla að nýjungum. Til að ná markmiðum um öfluga heilsugæslu sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu er mikilvægt að leggja áherslu á forvarnir og fræðslu til sjúklinga. Í samræmi við geðheilbrigðisáætlun alþingis verður geðheilbrigðisþjónusta efld til muna með 650 milljóna króna framlagi samkvæmt fjárlögum ársins 2019  meðal annars með því að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslunni.

Bætt aðgengi að heilsugæslunni er mikilvæg forsenda eflingar hennar og er nýliðun þar mikilvægur þáttur. Í byrjun október tók ég þá ákvörðun að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um fimm. Þá hefur aðgengi að þjónustu heilsugæslunnar verið bætt í gegnum vefsíðuna Heilsuveru en þar er nú boðið upp á netspjall við hjúkrunarfræðinga heilsugæslustöðva sem leiðbeina fólki um hvert skuli leita innan heilbrigðiskerfisins. Um er að ræða samstarfsverkefni  Landlæknisembættisins  og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að auka aðgengi fólks að heilsugæslu og heilsuvernd. Verkefnið er mikilvæg viðbót við heilbrigðisþjónustu og er til þess fallið að draga úr álagi á Heilsugæsluna og aðrar heilbrigðisstofnanir og veita notendum bætta þjónustu.

Mikilvægur liður í að bæta aðgengi heilbrigðisþjónustu er að draga úr kostnaðarþáttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Stórt skref var stigið í þeim efnum nú um áramót þegar innheimtu komugjalda af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum var hætt nú um áramótin óháð því hvort um er að ræða komu á dagvinnutíma eða á öðrum tímum sólarhringsins. Þá var gjald fyrir vitjanir lækna til aldraðra og öryrkja verður einnig fellt niður. Aðgengi barna heilbrigðisþjónustu er sömuleiðis tryggt en eftir sem áður eru ekki innheimt komugjöld hjá börnum að 18 ára aldri.

Nýsamþykkt fjárlög 2019 endurspegla því þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur sett sér um eflingu heilsugæslunnar og bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra

,

Áramótaávarp forsætisráðherra 2018

Kæru landsmenn!

Ég átti því láni að fagna í sumar að heimsækja slóðir Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Það Ísland sem ég geymdi í hjarta mínu eftir þessa heimsókn reyndist mun stærra en það sem ég hafði áður þekkt. Þarna leynist stór hluti sögu okkar, stór hluti af Íslandi.

Og tilfinningin fyrir þau sem þangað fóru undir lok 19. aldar. Að koma að ströndum ókunnugs lands þar sem slétturnar teygja sig svo langt sem augað eygir. Þar sem ýmist var kaldara eða heitara en á Íslandi, flugurnar stærri, farsóttirnar öðruvísi, tungumálið framandi. En aldrei gleymdu þau rótunum heima á Íslandi.

Ekki var alltaf talað af virðingu um „fólkið sem fór“ eins og það var kallað. En þetta var þeirra val; það var jafn mikilvægt og val hinna sem ekki fóru. Fólkið sem fór á jafn mikla virðingu skilda og það sem eftir varð. Eitt af mikilvægustu verkefnum komandi ára er að vinna gegn eyðandi lítilsvirðingu gagnvart þeim sem eru skilgreindir öðruvísi og annars konar. Við eigum að taka undir einarða baráttu fólks sem hefur mátt þola margs konar lítilsvirðingu og neitar að þola hana lengur.

Hinir miklu þjóðflutningar vestur um haf minna okkur einnig á hve erfitt gat verið að búa á Íslandi á 19. öld. Þeir minna á þá sáru fátækt sem ríkti hjá mörgum og hversu smá þjóðin gat oft virst gagnvart óblíðri náttúrunni. Þessir flutningar urðu í aðdraganda þess að Íslendingar urðu frjáls og fullvalda þjóð. Vestur-Íslendingar byggðu nýtt samfélag vestan hafs og hér byggðum við samfélagið sem við eigum nú saman á Íslandi.

Fullveldissagan er saga framfara, raunar er allt svo gjörbreytt að stundum er eins og 19. öldin hafi aldrei verið. En íslenska samfélagið hefur þó aldrei aðeins snúist um efnahagslega velferð eingöngu heldur almenna velferð og jöfnuð. Ísland trónir nú á toppi ýmissa þeirra lista sem mæla hagsæld og velferð. Samfélagið hefur breyst, uppruni landsmanna er nú fjölbreyttari en árið 1918 og þeir eiga ólíka sögu og bakgrunn. Það er ekki nokkur vafi á því að fullveldið hefur verið aflgjafi til að ná öllum þessum árangri.

Ágætu landsmenn

Á örfáum árum hefur ferðaþjónusta orðið stærsta útflutningsgrein Íslendinga. Sjávarútvegur sem áður gnæfði yfir aðrar atvinnugreinar í útflutningstekjum og stóriðja koma þar á eftir. Sviptingar seinustu mánaða í flugrekstri sýna hins vegar glöggt að veður geta skipast skjótt í lofti og minna okkur á að fyrir lítið hagkerfi eins og hið íslenska skiptir öllu að byggja á fjölbreyttum stoðum. Hið mikla álag þessarar nýju útflutningsgreinar á innviði og náttúru minnir líka á að hröð uppbygging ferðaþjónustu er vandaverk sem krefst virðingar fyrir náttúru og samfélagi. Hingað kemur fólk til að berja einstaka náttúru augum. Hluti af sjálfbærri ferðaþjónustu er að vernda þessa sömu náttúru fyrir utan þá skyldu sem á okkur hvílir að vernda náttúruna og víðernin þeirra fyrir komandi kynslóðir.

Vegna þess að sala náttúruauðlinda er og verður hverful atvinnugrein hefur aldrei verið mikilvægara að við Íslendingar horfum til hugvits og nýsköpunar til lengri tíma. Þráin til að komast lengra og vita meira, þekkingarleit þekkingarinnar vegna er ein mikilvægasta undirstaða framfara. Við eigum að leggja rækt við umhverfi þekkingarleitarinnar, halda áfram að byggja upp menntun og rannsóknir, við eigum að taka völdin í tæknibyltingunni og styrkja innviði þannig að fólk geti skapað sín eigin tækifæri á ólíkum sviðum. Stjórnvöld munu áfram leggja sérstaka áherslu á menntun, rannsóknir og nýsköpun, meðal annars með nýjum Þjóðarsjóði. Við lifum þá tíma að öllu skiptir að svið horfum til lengri tíma en ekki einungis umræðna augnabliksins og líðandi stundar.

Loftslagsbreytingar eru ein þeirra samfélagslegu áskorana sem við munum þurfa að takast á við. Stjórnvöld kynntu sína fyrstu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í haust í Austurbæjarskóla sem var fyrsta byggingin sem tengdist hitaveitu 1930. Lykiláherslur aðgerðaáætlunarinnar eru orkuskipti í samgöngum og aukin kolefnisbinding með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Orkuskipti í samgöngum munu geta haft sömu áhrif og hitaveitan hafði; bæði í þágu umhverfis og til að bæta lífskjör okkar allra.

Áhrif loftslagsbreytinga á hafið mun skipta sérstöku máli fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð, ekki síst súrnun sjávar sem þarf að vinna gegn með öllum ráðum. Mun fleiri áskoranir blasa við tengdar loftslagsmálum; það þarf að móta nýja framtíðarsýn um matvælaframleiðslu og tæknibreytingar í öllum geirum samfélagsins þarf að nýta til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Góðir landsmenn

Upp úr áramótum blasir það vandasama verk við samtökum atvinnurekenda og launafólks að ná samningum á vinnumarkaði sem stuðla að bættum kjörum og tryggja hagsæld og velferð. Verkalýðshreyfingin hefur talað fyrir ýmsum félagslegum umbótum eins og hún hefur ávallt gert en hún hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag alla fullveldissöguna. Réttindi hafa batnað stórkostlega, velferðarkerfi hefur verið byggt upp, heilbrigðiskerfið tekið stakkaskiptum og almenn menntun tekið stórstígum framförum. Um leið eru risastór viðfangsefni framundan; að draga úr kostnaði sjúklinga, byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi, lengja fæðingarorlof og endurskoða skatt- og bótakerfi til að tryggja tekjulægri hópum bætt lífskjör.

Þó að samningar á almennum markaði séu á milli samtaka launafólks og atvinnurekenda munu stjórnvöld leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir kjarasamningum. Þar hefur þegar hefur verið ráðist í ýmsar umbætur fyrir almenning í landinu með uppbyggingu samfélagslegra innviða.

Unnið er að heilbrigðisstefnu til lengri tíma en nú þegar hefur verið sett í forgang að draga úr kostnaði þeirra sem þurfa að leita sér lækninga. Þar hefur sérstök áhersla verið lögð á að draga úr kostnaði aldraðra og öryrkja. Unnið er að kerfisbreytingum sem bæta kjör örorkulífeyrisþega og koma sérstaklega til móts við hina tekjulægstu í hópi eldri borgara.

Á árinu sem er að líða hef ég átt frumkvæði að því að halda reglulega samráðsfundi aðila vinnumarkaðarins. Ég er sannfærð um að það hafi skipt miklu máli fyrir okkur öll að koma saman á slíkum fundum, fundum sem eru ekki samningafundir heldur vettvangur til að viðra ólíkar skoðanir og leita sameiginlegra leiða. Við verðum öll að nálgast viðfangsefnið af virðingu fyrir þeirri ábyrgð sem við berum en í komandi kjarasamningum felst tækifæri til að stíga nauðsynleg skref að því sameiginlega markmiði að halda áfram að bæta lífskjör alls almennings í samfélagi okkar.

Ríkisstjórnin mun þar leggja sitt af mörkum til þess að tryggja kjarabætur fyrir almenning. Nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í húsnæðismálum til að tryggja nægjanlegt framboð af góðu húsnæði á viðunandi verði. Þá eru allir aðilar sammála um að breyta þurfi tekjuskattskerfinu til að koma sérstaklega til móts við lægri og millitekjuhópa.

Kæru landsmenn

Ísland tók sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á árinu og mun sitja þar til loka árs 2019. Meðal áherslumála Íslands eru jafnrétti kynjanna, réttindi hinsegin fólks og réttindi barna. Þegar kemur að jafnrétti kynjanna fagnar Ísland góðum árangri á alþjóðavísu, árangri sem ekki síst náðist vegna baráttu kvennahreyfingarinnar þar sem konur ruddu brautina, oft við litlar vinsældir, en með ótrúlegum árangri. Þar megum við hins vegar ekki slaka á, enda jafnrétti kynjanna hvergi nærri náð eins og við vitum öll. Þá eru stór verkefni framundan við að bæta réttindi hinsegin fólks þar sem Ísland hefur alla burði til að skipa sér í fremstu röð.

Í ár eru 70 ár liðin síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt þar sem sú grundvallarákvörðun var tekin að mannréttindi væru algild. Ef til vill væri flóknara að ná saman um slíka yfirlýsingu í nútímanum – í öllu falli var þetta mikið afrek og sjálfsagt stærsta skrefið sem stigið var á seinustu öld til að efla virðingu manna hvers fyrir öðrum og vinna gegn hatri og tortryggni. Það eru þó blikur á lofti í heimsmálum, meðal annars vegna loftslagsbreytinga og átaka. Nýjar áskoranir á alþjóðasviðinu krefjast þess að við stöndum styrkari vörð um mannréttindi en nokkru sinni fyrr í anda Mannréttindayfirlýsingarinnar.

Góðir landsmenn

Í bók sinni Bókasafn föður míns sem kom út nú fyrir jólin spáir Ragnar Helgi Ólafsson því að lestur langra texta verði varla hversdagsíþrótt í framtíðinni. „Líklega verði slík iðja skilgreind sem einhvers konar sérfræðihæfni eða sniðugt hobbí, svona eins og að kunna að slá tún með orfi og ljá,“ segir hann. Þetta er umhugsunarefni, hvort tæknin og breytt miðlun upplýsinga, listar og afþreyingar sé að breyta okkur, hvernig við horfum, hvernig við lesum, hvernig við upplifum, hvernig við erum.

Bókaútgáfa hefur dregist verulega saman undanfarin tíu ár og það er meðal annars ástæða þess að nú fyrir jól samþykkti Alþingi sérstakt stuðningskerfi við hana. Það er undirstaða þess að við höldum áfram að nota íslensku að við getum hugsað um allt á íslensku. Og skáldskapur og önnur skrif eru birtingarmynd þess sem við hugsum. En alveg eins og frumkvöðlar tókust á við ný form skáldsögunnar á sínum tíma þarf skapandi fólk að takast á við ný form tölvuleikja og snjallforrita á íslensku og við þurfum að gera vel við skapandi fólk, hvort sem það fæst við hefðbundna eða óhefðbundna listsköpun.

Góðir landsmenn

Eins og ég nefndi í upphafi er það merkilegt að heimsækja slóðir Vestur-Íslendinga. Í Þingvallakirkjugarði í Norður-Dakóta bera flestir legsteinar íslensk nöfn. Þau sem þangað fóru, tóku með sér mikið ríkidæmi sem var menningin og samfélagsgerðin. Legsteinarnir minna okkur á að hvert og eitt eigum við stuttan tíma hér á þessari jörð en saman myndum við menningu og samfélag sem hefur langtum meiri áhrif en hvert og eitt okkar getur haft.

Um leið getur hver og einn haft áþreifanleg áhrif. Það sést þegar á bjátar, slys henda eða náttúruhamfarir verða, og við erum minnt á hversu mörg eru reiðubúin til að sinna því mikilvæga hlutverki að koma öðrum til bjargar. Það er einstakt að eiga þúsundir sjálfboðaliða sem eru reiðubúnir nótt og dag til að bregðast við og hjálpa öðrum þegar eitthvað gerist. Hver og einn getur gert sitt.

Á árinu hitti ég lækni frá Kongó, Denis Mukwege, sem hefur helgað líf sitt því að hjálpa konum sem hefur verið nauðgað og þær limlestar í stríðsátökum í Kongó. Fyrir þetta verk hlaut hann Friðarverðlaun Nóbels. Það er svona fólk, fólk sem lætur sig varða um mennskuna og hag annarra, sem er ekki aðeins dýrmætasta eign hvers samfélags heldur heimsins alls.

Við verðum ekki öll friðarverðlaunahafar Nóbels en við, sem eigum því láni að fagna að búa í einu friðsælasta landi heims, getum öll lagt okkar af mörkum, munað hvert eftir öðru, hlúð hvert að öðru og lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að gera samfélagið aðeins betra; heiminn aðeins fallegri.

Kæru landsmenn. Gleðilegt ár.

Engin komugjöld fyrir aldraða og öryrkja í heilsugæsluna

Í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur verið ákveðið að hætta að innheimta komugjöld af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum frá 1. janúar næstkomandi. Á það jafnt við um  komu á dagvinnutíma og á öðrum tímum sólarhringsins. Þá verður gjaldtöku fyrir vitjanir lækna til aldraðra og öryrkja einnig hætt. Um er að ræða mikilvæga aðgerð og lið í stefnu stjórnvalda um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og auka á móti framlög hins opinbera. Þetta er einnig í samræmi við þá áherslu að efla hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. Til að koma til móts við þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda var á síðasta ári innleitt nýtt greiðsluþátttökukerfi þar sem markmiðið var fyrst og fremst að koma til móts við þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Í því fólst að sett var þak á heildarútgjöld sjúklinga og ýmsar aðrar breytingar gerðar. Sú breyting hefur leitt til þess að heildarútgjöld sjúklinga í nýja greiðsluþátttökukerfinu eru um 1,5 milljörðum króna lægri á ársgrundvelli en þau voru áður og lækka nú enn frekar með niðurfellingu komugjalda öryrkja og aldraðra um áramótin. Þá var niðurgreiðsla á kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar aukin fyrr á þessu ári, en reglugerð varðandi það hafði ekki verið uppfærð síðan 2004. Þessi skref og fleiri verða til þess að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þar með jöfnuð í samfélaginu, styrkja opinbert heilbrigðiskerfi og stuðla að því að heilbrigðisþjónustan sé eins heildstæð og samfelld og kostur er. Mikilvægt er að stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum sé skýr, nú er í smíðum heilbrigðisstefna til ársins 2030 sem verður lögð fyrir Alþingi á vormánuðum. Stefnunni er ætlað að vera leiðarljós sem sameinar krafta þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og tryggja sjúklingum bestu þjónustu sem völ er á, þar sem öryggi, gæði og jöfnuður eru í fyrirrúmi.

,

18 aðgerðir hvernig draga má úr plastmengun.

Samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að aðgerðaáætlun um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi. Alls er um 18 aðgerðir að ræða.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði starfshópinn í júlí. Meðal annars er lagt til að ráðast í þriggja þrepa áætlun um burðarpoka úr plasti sem endi með því 1. jan 2021 að óheimilt verði að selja eða afhenda plastpoka í verslunum. Þá er lagt til að hafist verði handa við að innleiða tilskipun ESB um að draga úr umhverfisáhrifum plasts sem fyrst eftir að slík tilskipun hefur verið samþykkt í Evrópu en áætlað er að það verði á næsta ári. Lagt er til að banni við plastdiskum, plasthnífapörum, plaströrum og öðru einnota plasti, sem kveðið er á um í drögum að tilskipuninni, verði flýtt og það innleitt hér á landi frá og með 1. janúar 2020.

Lagt er til að ráðist verði í markvissa vitundarvakningu um ofnotkun á plastvörum, komið verði á fót sérstökum rannsókna- og þróunarsjóði sem meðal annars styðji við nýjar lausnir sem komið geti í stað plasts, að leidd verði í lög skylda sveitarfélaga og rekstraraðila til að flokka úrgang og að flokkun úrgangs verði samræmd á landsvísu.

Í starfshópnum áttu sæti 13 manns og í honum voru fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Hópnum var falið af ráðherra að taka til skoðunar hvaða rannsóknir og vöktun varðandi plast þurfi að ráðast í, koma með tillögur um þær stjórnvaldsaðgerðir sem æskilegt væri að koma í framkvæmd og koma með tillögur um hvernig best verði stuðlað að nýsköpun í vörum sem koma í stað plastnotkunar.

Af öðrum tillögum hópsins má meðal annars nefna að lagt verði úrvinnslugjalds á allt plast en ekki einungis umbúðaplast, að hreinsun frárennslis verði bætt til að minnka losun örplasts í hafið enda sé skólp hvergi hreinsað á Íslandi með tilliti til örplasts, að hreinlætisvörur sem innihalda örplast verði bannaðar árið 2020 með sama hætti og gert var í Bretlandi fyrr á þessu ári, að staðið verði fyrir viðamiklu átaki um að hreinsa strendur landsins og að fyrirtækjum og rekstraraðilum verði með miðlægri upplýsingagjöf gert auðveldara fyrir við að velja grænni lausnir fyrir rekstur sinn, til dæmis umhverfisvænni umbúðir undir tilbúna matvöru.

Hópurinn leggur áherslu á að um tillögur sé að ræða en nánari útfærsla þeirra krefjist vandaðs undirbúnings og gott samráðsferli sé hluti þess. Tillögurnar fara nú í opið samráð og geta öll þau sem vilja gert athugasemdir við þær.

„Tillögurnar sem ég fékk í dag eru blanda af hagrænum hvötum, banni, fræðslu og nýsköpun. Plastfjöllin okkar hækka stöðugt og ef fram heldur sem horfir verður árið 2050 meira plast í hafinu en fiskar. Við verðum að breyta þessu og þora að taka stór skref. Hér í dag hafa einmitt mikilvæg fyrstu skref verið stigin,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um átak gegn plasti og að hreinsa plast úr umhverfinu og skipan starfshópsins var liður í að fylgja því eftir. Þá hefur ráðherra lagt áherslu á að plastmál séu eitt af hans forgangsmálum.

Tillaga að aðgerðaáætlun í plastmálefnum í Samráðsgátt

 

,

Göngum út!

Yfirskrift kvennafrísins í ár er „Breytum ekki konum, breytum samfélaginu“. Mér er til efs að til sé nokkur kona sem ekki hefur gert fjölmargar tilraunir til að breyta sjálfri sér til að ýmist falla eða falla ekki inn í þröng kynhlutverk. Of oft hefur því verið haldið að konum að þær þurfi að gera hlutina á tiltekinn hátt til að misrétti gegn þeim heyri sögunni til. Í einhverja tíð voru skýringar á launamun kynjanna sóttar í að konur væru ekki nægilega menntaðar. Nú þegar konur eru í meirihluta þeirra sem sækja sér háskólamenntun hafa skýringarnar breyst. Þetta er ekki ósvipað og að hlaupa langhlaup en endamarkið færist alltaf fjær.

Margt hefur áunnist síðan 1975 þegar konur lögðu niður störf í fyrsta sinn og margar konur af minni kynslóð eiga sinn pólitíska feril undir almennum leikskólum og lögum um fæðingarorlof. Enn er þó langt í land. Ekki hefur tekist að útrýma launamun kynjanna og konur vinna jafnframt stærstan hluta ólaunaðrar vinnu, svo sem við barnauppeldi og heimilisstörf. #églíka bylgjan afhjúpaði kerfisbundið ofbeldi og áreitni sem konur í öllum lögum samfélagsins hafa mátt búa við. Ofbeldi gegn konum er í senn orsök og afleiðing kynjamisréttis og ein orsök þess hversu hægt gengur að byggja upp samfélag jafnréttis.

Samstaða kvenna er áhrifaríkasta baráttutækið til að knýja á um raunverulegar breytingar, því kvenfrelsisbaráttan krefst róttækrar skoðunar á menningu okkar. Ég mun því fara úr vinnunni kl. 14:55 og taka þannig þátt í baráttunni fyrir betri heimi. Til þess að snúa aftur á morgun og halda áfram að vinna að kvenfrelsismálum í mínu starfi.

Kæru konur, leggjum niður launuð og ólaunuð störf í dag og sameinumst á útifundum um allt land. Höldum síðan áfram því þrotlausa starfi að breyta samfélaginu.

,

Heilbrigðiskerfi þar sem ríkir heildarsýn 

Íslenska heilbrigðiskerfið hefur í alltof langan tíma einkennst af skorti á yfirsýn. Sá skortur á yfirsýn er hvorki góður fyrir sjúklingana né samfélagið í heild, og leiðir af sér of mikla þjónustu á sumum sviðum og biðlista á öðrum stöðum.

Móta þarf stefnu fyrir heilbrigðiskerfið allt. Ábendingar þess efnis komu meðal annars fram í skýrslu McKinsey frá árinu 2016 (Lykill að fullnýtingu tækifæra Landspítalans) og í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í febrúar 2018 (Sjúkratryggingar Íslands sem kaupandi heilbrigðisþjónustu frá febrúar), auk þess sem gerð heilbrigðisstefnu felur í sér viðbrögð við ákalli samfélagsins um skýra heildarsýn í heilbrigðismálum. Með gerð heilbrigðisstefnu svörum við spurningum á borð við þær hvernig heilbrigðiskerfi við viljum að í boði sé á Íslandi, hverjir veiti þjónustu, hvenær og hvar og hvaða gildi við viljum að heilbrigðiskerfið okkar endurspegli. Hingað til hefur þessum spurningum verið ósvarað, og kerfið þar af leiðandi verið brotakennt. Nú er unnið að gerð heilbrigðisstefnu innan velferðarráðuneytisins, sem ég hyggst leggja fyrir alþingi á komandi vetri.

Brátt líður að endalokum gildistíma rammasamninga Sjúkratrygginga Íslands um kaup á þjónustu sérgreinalækna utan sjúkrahúsa, en rammasamningurinn gildir til 31. desember 2018. Vinna við endurskoðun samninganna stendur nú yfir innan velferðarráðuneytisins. Í þeirri vinnu skiptir heildarsýnin meginmáli, líkt og við gerð heilbrigðisstefnu. Í fyrrnefndri McKinsey-skýrslu kemur einmitt fram að skilgreina þurfi hlutverk ólíkra veitenda heilbrigðisþjónustu og í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir meðal annars að velferðarráðuneyti þurfi að marka heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands geta byggt á við samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu. Ákveða þurfi hvaða þjónustu heilbrigðisstofnanir ríkisins eiga að veita og hvaða þjónustu eigi að kaupa af öðrum aðilum og í hvaða magni.

Endurskoðun rammasamninga við sérfræðilækna mun einmitt taka mið af þessum athugasemdum. Við þurfum að fara úr brotakenndu kerfi, þar sem tilviljun ein ræður því hvaða þjónusta er veitt hvar og af hverjum, og yfir í kerfi þar sem heildarsýn ríkir. Með því að skýra samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu gegnum SÍ og gæta þess að markmið samninganna, árangur þeirra og gæðakröfur séu öllum ljós, og kveða á um það hvaða þjónustu skuli veita og hvar skuli inna hana af hendi nálgumst við heildstæðara kerfi og markvissari og betri þjónustu fyrir alla, þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu er jafnt; óháð efnahag og búsetu.