,

Kynningarfundir um drög að frumvarpi um nýja stofnun fyrir verndarsvæði á Íslandi

Umhverfis- og auðlindaráðherra boðar til funda með sveitarfélögum, umhverfisverndarsamtökum, ferðamálasamtökum og útivistarsamtökum þar sem kynnt verða drög að frumvarpi um nýja stofnun sem ætlað er að hafa með höndum umsýslu allra þjóðgarða á Íslandi og annarra friðlýstra svæða auk almennrar náttúruverndar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðgarðarnir þrír, Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn á Þingvöllum og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, verði sameinuð í eina stofnun sem og önnur friðlýst svæði landsins. Þá verði undirbúningur friðlýsinga, eftirlit á friðlýstum svæðum og stjórnun þeirra meðal verkefna hinnar nýju stofnunar.

Helstu markmið með stofnuninni er að efla náttúruverndarsvæði með einföldun stjórnkerfis, aukinni skilvirkni og samnýtingu þekkingar. Með yfirsýn yfir málefni friðlýstra svæða á einum stað skapast breiður vettvangur til heildstæðrar stefnumótunar til lengri tíma.

Í skipulagi og fyrirkomulagi stjórnunar stofnunarinnar er lögð áhersla á valddreifingu og aðkomu sveitarfélaga og samtaka almennings að stjórnun og stefnumótun svæðanna sem undir hana heyra.

Fundir verða haldnir á eftirfarandi stöðum og dagsetningum:

Fundur 15. ágúst í félagsheimilinu Dalabúð, Búðardal kl. 15:30 – 17:30
Fundur 16. ágúst í Pakkhúsinu, Hólmavík kl. 15:30 – 17:30
Fundur 22. ágúst í Rauða kross salnum, Strandgötu 24, Hafnarfirði kl. 15:00 – 17:00
Fundur 23. ágúst á Hótel Kea, Akureyri kl. 15:30 – 17:30
Fundur 28. ágúst á Hótel Héraði, Egilsstöðum kl. 15:00 – 17:00
Fundur 3. september á Fosshótel Vatnajökli, Höfn í Hornafirði kl. 10:15 – 12:15
Fundur 3. september í félagsheimilinu Hvoli, Hvolsvelli kl. 17:00 – 19:00

,

Ræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í Gleðigöngunni 11. ágúst 2018

Ágætu hátíðargestir, gleðilega hátíð.

Þeir eru ekki margir dagarnir sem samtvinna með jafn mögnuðum hætti gleði og kraft, þakklæti, stolt og baráttuþrek. Saga réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi vitnar eins og aðrar baráttusögur um mótlæti, sigra – og stundum tap, þrjósku, framfarir en umfram allt einstaka staðfestu þeirra sem vita að þau berjast fyrir betri og réttlátari heimi.

Í dag fögnum við fjölbreytni, mannréttindum, hinseginleikanum. Við fögnum saman.
Um leið sýnum við vilja okkar til þess að láta ekki staðar numið, heldur halda áfram að berjast fyrir réttindum allra í raun, jafnrétti allra í raun.

Það er alltaf gagnlegt að rifja upp hvar við byrjum og hvert við höfum komist á hátíðardögum sem þessum. Þegar ég fór að velta fyrir mér hvað ég ætti að tala um hér í dag rifjaði ég upp áfanga í baráttunni sem ég man sérstaklega vel eftir. Lögum um staðfesta samvist 1996 og seinna einum hjúskaparlögum árið 2010 sem ég fékk að styðja í þingsal.

Fyrsta gleðigangan var gengin hér í Reykjavík árið 1999 í þeirri mynd sem hún er núna og þá var sleginn sá mikilvægi tónn sem alltaf hefur einkennt þessa göngu; hún snýst bæði um baráttu fyrir réttindum en líka gleðina yfir fjölbreytileikanum og þeim sigrum sem hafa unnist.

En frelsisstríðum lýkur aldrei. Hér heima vitum við að við höfum dregist aftur úr öðrum löndum í Evrópu hvað varðar lagaleg réttindi hinsegin fólks. Við vitum að við verðum að tryggja mannréttindi trans og intersex fólks.

Í vetur verður lagt fram frumvarp á Alþingi um framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfræði. Þegar frumvarpið verður að lögum mun það koma okkur í fremstu röð – þar sem við eigum að vera, af því að við getum það og af því að það er rétt.

Réttindabarátta hinsegin fólks er ofarlega á forgangslista núverandi ríkisstjórnar og við höfum þegar náð góðum áföngum á þessu fyrsta hálfa ári. Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu var samþykkt í vor og er mikilvægt skref til að tryggja mannréttindi allra.

Ríkisstjórnin hefur tvöfaldað fjárframlög til Samtakanna 78 þannig að þau geti betur sinnt sínu mikilvæga starfi.

Það hefur líklega sjaldan verið mikilvægara en nú að standa fast í fætur og taka áfram þátt í að ryðja brautina. Réttindi hafa aldrei fengist án baráttu.
Réttindi hafa aldrei fengist gefins.
Og á síðustu misserum höfum við séð stjórnvöld í ýmsum ríkjum afnema réttindi sem lengi hefur verið barist fyrir. Víða hefur orðið bakslag og við þurfum að berjast gegn því og tala skýrt fyrir réttindum hinsegin fólks hvar sem við komum og á hvaða vettvangi sem er.

Við megum ekki gera ráð fyrir því að framfarir í réttindamálum hinsegin fólks séu sjálfsagðar. Með því að viðhalda og efla fræðslu, vera vakandi og vinna gegn fordómum, tryggjum við réttindi hinsegin fólks. Og það þurfa allir að standa saman og taka þátt, rétt eins og við gerum saman hér í dag.

Mig langar að lokum að koma aftur að því sem við finnum öll í hjartanu, við sem stöndum hér í Hljómaskálagarðinum í dag; gleðinni.

Ég fagna því að tilheyra samfélagi sem hefur breyst mikið til hins betra á skömmum tíma. Samfélagi, þar sem ein stærsta og fjölmennasta hátíð landsins snýst um samstöðu með mannréttindabaráttu.

Ég fagna mannréttindum sem kostaði blóð, svita og tár að koma í lög og einnig því að við getum í vetur tekið enn stærri skref í að tryggja öllum þau mannréttindi.

Ég fagna fjölskyldulífinu fyrir þau sem það velja, hugrekkinu sem enn þarf samt stundum að sýna, margbreytileikanum og fræðslunni.

Og ég fagna félagasamtökunum, stuðningsnetunum og öfluga grasrótarstarfinu sem sannarlega hefur fleytt okkur áfram þangað sem við erum komin.

Ég fagna hamingjunni og ég fagna frelsinu.

Til hamingju við öll með árangurinn, og fulla ferð áfram.

Gleðilega hátíð. 

,

Lausn kjaradeilu ljósmæðra

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra

Birtist í Morgunblaðinu 2. ágúst 2018

Í síðustu viku náðist langþráð lausn í kjaradeilu ljósmæðra, þegar Ljósmæðrafélag Íslands samþykkti miðlunartillögu ríkissáttasemjara í máli félagsins og fjármála- og efnahagsráðherra. Þar með komst á nýr kjarasamningur aðila, sem mun gilda til 31. mars 2019. Í miðlunartillögunni felst einnig að sérstökum gerðardómi verður falið að kveða upp úr um það hvort launasetning stéttarinnar sé í samræmi við álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra, og að hvaða leyti þessir þættir eigi að hafa áhrif á laun. Í vikunni skipaði ríkissáttasemjari gerðardóm sem mun ljúka störfum eigi síðar en 1. september 2018.

Þessi málalok eru mikill léttir. Verðandi mæður og feður geta andað léttar nú þegar fæðingarþjónustan færist í eðlilegt horf, auk þess sem álag á heilbrigðisstarfsfólk sem hefur sinnt fæðingarþjónustu síðustu vikur og mánuði á meðan á kjaradeilunni stóð minnkar nú smám saman. Margar þeirra ljósmæðra sem höfðu sagt upp störfum vegna kjaradeilunnar hafa dregið uppsagnir sínar til baka, en þann 31. júlí höfðu 19 ljósmæður af 30 sem höfðu sagt upp störfum á Landspítala dregið uppsagnir sínar til baka. Það er mikið gleðiefni að ljósmæður snúi aftur til starfa á spítalanum, og von mín er sú að enn fleiri ljósmæður sem hafa sagt upp störfum muni snúa aftur til vinnu á næstunni.

Í kjaradeilu ljósmæðra kristallaðist umræða um það að störf kvennastétta beri að meta að verðleikum. Sú hefur ekki verið raunin í gegnum tíðina, og enn eimir eftir af þeirri hugsun að störf kvenna séu á einhvern hátt ekki jafnverðmæt störfum karla. Óánægja stórra kvennastétta í heilbrigðiskerfinu með kjör sín, til dæmis ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga, er dæmi um það.

Það er brýnt að bæta kjör þessara stóru kvennastétta. Að sjálfsögðu eru kvennastörf jafnverðmæt störfum karla, og ábyrgð stjórnvalda í þessum efnum er mikil. Fleira þarf þó að sjálfsögðu að koma til. Verkalýðshreyfingin þarf að leggjast á árar með stjórnvöldum, sem og atvinnulífið, og skapa þarf sátt um leiðréttingu á kjörum stórra kvennastétta sem halda uppi íslensku samfélagi.

Nýafstaðin kjaradeila ljósmæðra er mikilvæg áminning um það að við þurfum að bæta kjör og aðbúnað kvennastétta svo starfsumhverfið sé eftirsóknarvert. Tryggja þarf að launasetning stórra kvennastétta sé ávallt í samræmi við álag, menntun og inntak starfanna sem um ræðir og að kyn hafi aldrei áhrif á ákvarðanir um laun. Einnig er mikilvægt að tryggja að fyrir hendi séu möguleikar til framgangs í starfi og starfsþróunar, þátttöku í þekkingarþróun, vísindastarfi og teymisvinnu.  Aðeins þannig sköpum við eftirsóknarverð störf í heilbrigðisþjónustu og tryggjum sanngjörn laun öllum til handa.

,

Landsskipulagsstefna

Ég hef falið Skipulagsstofnun að ráðast í gerð landsskipulagsstefnu þar sem fjallað er um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála.

Gert er ráð fyrir að Landsskipulagsstefna 2015-2026 gildi áfram en að þessir þættir verði mótaðir nánar í henni. Hvernig má til dæmis beita skipulagsgerð til að draga úr losun eða stuðla að bindingu gróðurhúsalofttegunda? Eða til að bregðast við og aðlagast þeim loftslagsbreytingum sem eru óumflýjanlegar?
Ég legg líka áherslu á að mótuð verði stefna um skipulagsgerð með tilliti til landslags í þéttbýli, dreifbýli og óbyggðum. Í því samhengi er til dæmis mikilvægt að skoða óbyggð víðerni, skipulag vindorkunýtingar og landnotkun í dreifbýli.
Við þekkjum öll hvernig útivera, ekki síst í villtri náttúru og á grænum svæðum getur hjálpað okkur að hlaða batteríin. Vaxandi meðvitund er um áhrif hins byggða umhverfis á andlega og líkamlega heilsu og vellíðan, t.d. vönduð almenningsrými, aðgengi að villtri náttúru og grænum svæðum, aðstaða til göngu og hjólreiða o.s.frv. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að í landsskipulagsstefnu verði sett fram stefna og leiðbeiningar um skipulagsgerð sem taki mið af þessum sálfélagslegu þáttum eins og þeir eru kallaðir.
Ég hlakka til að fylgjast með þessari mikilvægu vinnu sem unnin verður í víðtæku samráði við samfélagið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Umhverfis og auðlindaráðherra

,

Lagafrumvörp heilbrigðisráðherra

Rafrettur og sitthvað fleira 

Á síðastliðnu þingi, 148. löggjafarþingi, sem jafnframt var  mitt fyrsta löggjafarþing í embætti heilbrigðisráðherra, voru samþykkt fjögur lagafrumvörp sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið. Lagafrumvörpin hafa það öll á einn eða annan hátt að markmiði að tryggja betri og öruggari heilbrigðisþjónustu, og stuðla að bættri heilsu landsmanna.

Í fyrsta lagi má nefna frumvarp um breytingu á lyfjalögum en lagabreytingin felur í sér innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins. Tilskipuninni er ætlað að tryggja öryggi lyfja sem eru seld á markaði, á þann veg að löggjöf nái yfir alla aðila sem koma að sölu lyfja. Innleiðing tilskipunarinnar hefur til dæmis í för með sér þrengdar heimildir til umpökkunar og endurmerkingar lyfja og meðal nýmæla í lögunum er heimild til að stunda netverslun með lyf undir eftirliti Lyfjastofnunar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum varð einnig að lögum á 148. löggjafarþingi. Markmið laganna er að koma í veg fyrir að tiltekin efni og lyf séu notuð til að bæta líkamlega frammistöðu, fyrirbyggja heilsutjón vegna notkunar þeirra og koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu þeirra. Lögin hafa einnig það markmið að efla fræðslu og forvarnir, ásamt því að koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu þeirra efna og lyfja sem lögin taka til. Fyrir gildistöku þessara laga giltu engin lög um notkun umræddra efna, þ.e. efna sem í daglegu tali eru oft kölluð sterar, og því um mikilvæga lagasetningu að ræða.

Í þriðja lagi var frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur loks að lögum, en frumvarpið var endurflutt frá 146. löggjafarþingi. Um rafrettur, efni sem notuð eru í þær og áfyllingar rafrettna hafa hingað til engin lög eða reglur gilt, og því tímabært að setja regluverk um notkun, sölu og öryggi rafrettna og efna sem þær innihalda. Markmiðið með lögunum er að tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur á markaði, svo fullvíst sé að áfyllingar sem seldar eru hérlendis séu öruggar. Markmið laganna er einnig að veita heimildir til innflutnings, sölu, markaðssetningar og notkunar rafretta og tryggja að börn geti ekki keypt rafrettur.

Að síðustu má nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra. Frumvarpið var þingmannafrumvarp en heyrir undir valdsvið heibrigðisráðuneytis. Efni breytingarinnar er að nema megi brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings hafi hinn látni ekki lýst sig andvígan því, og það er ekki af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja hans.

 

,

Alvöru árangur – styttri bið

Nú eru rúm tvö ár frá því farið var af stað í þriggja ára átak til að stytta biðlista eftir völdum skurðaðgerðum. Um að ræða átak heilbrigðisráðuneytisins með það fyrir augum að stytta biðtíma eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum.  Bið eftir fyrrnefndum aðgerðum á Landspítala hafði á þeim tíma sem ráðist var í átakið verið langt umfram viðmiðunarmörk Embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir aðgerð, en þau viðmiðunarmörk eru 90 dagar.

Embætti landlæknis fylgist með biðlistaátakinu og stöðu þess með reglubundnum hætti. Eftir að ráðist var í átakið hefur mikill viðsnúningur orðið í bið eftir skurðaðgerð á augasteini á Landspítala. Af þeim sem biðu eftir aðgerð þar í febrúar 2018 höfðu einungis 9% beðið lengur en 3 mánuði, en hlutfallið var 84% fyrir tveimur árum. Biðtími eftir hjarta- og/eða kransæðamyndatöku er nú vel innan ásættanlegra marka, en af þeim sem voru á biðlista í febrúar 2018 höfðu aðeins  7% beðið lengur en 3 mánuði.

Ef liðskiptaaðgerðir eru skoðaðar sérstaklega, þ.e. aðgerðir á hnjám og mjöðmum, má sjá að árangur átaksins er greinilegur. Mun færri eru á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á Landspítala eftir að ráðist var í biðlistaátakið þann 1. janúar 2016. Á þeim degi voru 937 manns á bið, eftir fyrsta ár átaksins voru 774 manns á biðlista og 1. janúar 2018 voru 660 manns á biðlista eftir aðgerð. 1. júní 2018 voru 617 manns á biðlista. Heildarfækkun á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á Landspítala nemur því 34% frá því að átakið hófst. Í þessu samhengi er mikilvægt að halda því til haga að fjöldi nýrra sjúklinga á umræddum biðlistum hefur aukist um 20% frá upphafi átaksins. Ef fjöldi nýrra sjúklinga hefði haldist óbreyttur frá ársbyrjun 2016 væru nú aðeins um 400 sjúklingar á biðlista eftir liðskiptaaðgerð.

Meðalbiðtími eftir liðskiptum á hné og mjöðm hefur styst verulega. Í upphafi átaks var biðlistinn að meðaltali 10.4 mánuðir en 1. júní síðastliðinn var meðalbiðtími eftir liðskiptum á hné 5.5 mánuðir en 4.4 eftir liðskiptum á mjöðm. Af þessum gögnum má sjá að biðlistaátakið hefur haft ótvíræðan ávinning í för með sér. Jákvætt er einnig að sýkingartíðni eftir aðgerðir hefur ekki aukist, þrátt fyrir aukinn fjölda aðgerða.

Biðlistaátakið er dæmi um samvinnu heilbrigðisstofnana sem hefur tekist vel. Samvinnan hefur leitt af sér styttri biðlista eftir völdum skurðaðgerðum, og þar með bættri heilbrigðisþjónustu, og biðlistaátakinu verður haldið áfram. Á sama tíma er mikilvægt að muna að við leysum þessi mál ekki með átaki. Verkefnið er stórt og viðvarandi og verður aðeins leyst til framtíðar með styrkingu opinbera heilbrigðiskerfisins og innviða þess. Það er stóra verkefnið.

 

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra

,

Jafnari greiðsluþátttaka

Nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu tók gildi 1. maí 2017. Breytingarnar eru einhverjar þær mestu sem gerðar hafa verið á þessu sviði í áraraðir. Eftir að ég tók við embætti heilbrigðisráðherra beindi ég þeirri beiðni til Sjúkratrygginga Íslands að taka saman skýrslu þar sem reynslan af greiðsluþátttökukerfinu yrði tekin saman, ári eftir að kerfið var tekið í notkun. Í skýrslu Sjúkratrygginga var meðal annars skoðað hvort breytingar hafi orðið á notkun heilbrigðisþjónustunnar, áhrif kerfisins á útgjöld sjúklinga í samanburði við gamla kerfið og áhrif breytinganna á útgjöld sjúkratrygginga fyrir heilbrigðisþjónustu.

Niðurstaða skýrslu Sjúkratrygginga er að nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu hefur aukið jöfnuð í heilbrigðiskerfinu, eins og að var stefnt. Því markmiði að lækka verulega útgjöld þeirra sem þurfa mest á heilbrigðisþjónustu að halda hefur verið náð, auk þess sem þak sem sett var á hámarksgreiðslur sjúklinga hefur varið þá sem veikastir eru fyrir miklum útgjöldum. Útgjöld barnafjölskyldna hafa lækkað, en börn eru að mestu gjaldfrjáls í nýja kerfinu. Auk þess má nefna að hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu hefur styrkst.

Þegar hámarksgreiðslur einstaklinga fyrir gildistöku nýja kerfisisins, og eftir hana, eru skoðaðar kemur í ljós mikill munur. Árið 2016 greiddu rúmlega 15.500 einstaklingar meira en 70.000 kr. fyrir heilbrigðisþjónustu á árinu. Þar af greiddu rúmlega 800 einstaklingar yfir 200.000 kr. og nokkrir tugir enn meira. Hæsta greiðsla einstaklings í gamla kerfinu nam rúmum 400.000 kr. Eftir að nýja kerfið tók gildi í maí 2017 hefur enginn greitt meira en um 71.000 kr. á 12 mánuðum, fyrir heilbrigðisþjónustu sem fellur undir kerfið.

Það er markmið ríkisstjórnarinnar að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Stefnt er að því að minnka greiðsluþátttökuna þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Greiðsluþátttökukerfið er einn liður í því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga en 1.5 milljarður króna var lagður inn í kerfið til að standa straum af auknum kostaði hins opinbera vegna kerfisins. Greiðsluþak sjúkratryggða samkvæmt kerfinu hefur ekki hækkað síðan ég tók við embætti  heilbrigðisráðherra, þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á gjaldskrá til samræmis við verðlagsuppfærslur til samræmis við forsendur fjárlaga ársins 2018. Gjaldskrárbreytingar sem þessar eru allajafna gerðar árlega, og hið sama gildir um verðlagsuppfærslur sem leiða til hækkana, t.d. hækkana á bótum almannatrygginga. Ég mun halda áfram að vinna að því að lækka greiðsluþáttöku sjúklinga enn frekar, en það er forgangsmál í mínum huga.

Næstu skref – heilbrigðisráðherra skrifar

Næstu skref

Við þinglok og upphaf sumars er tilvalið að líta fram á veginn. Verkefnin framundan í heilbrigðishluta velferðarráðuneytisins eru mörg og mikilvæg. Á döfinni eru verkefni sem eiga það sameiginlegt að stuðla að eflingu heilbrigðiskerfisins og betra og jafnara heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn.

Til dæmis má nefna gerð heilbrigðisstefnu og heilbrigðisþing, sem haldið verður í nóvember. Vinna við gerð heilbrigðisstefnu er hafin en hún verður unnin með hliðsjón af þörfum allra landsmanna. Skilgreina þarf betur hlutverk og samspil einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og á heilbrigðisþinginu í haust verða þær áherslur ræddar sem birtast í stefnunni.

Einnig má nefna stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslu á landsvísu. Þróunarmiðstöðin mun leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu og þróun þjónustuúrræða í heilsugæslu. Þróunarmiðstöðin mun einnig leiða samstarf á sviði rannsókna og stuðla að því að sérhæfð þekking fagfólks heilsugæslunnar um allt land nýtist sem best. Samhæfing þjónustu á landsvísu er eitt af meginmarkmiðum með stofnun miðstöðvarinnar, þannig að betur megi tryggja jafnt aðgengi að sambærilegri heilsugæsluþjónustu, óháð búsetu. Vonast er til þess að starfsemin geti hafist strax í haust eða vetur.

Uppbygging hjúkrunarrýma á landinu öllu er aðkallandi verkefni sem mun hafa jákvæð áhrif á heilbrigðiskerfið allt. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er gert ráð fyrir uppbyggingu 550 hjúkrunarrýma fram til ársins 2023, en það er aukning um 300 frá fyrri áætlun.

Verkefni tengd Landspítala og starfseminni þar eru nokkur. Tilboð vegna jarðvegsvinnu við Hringbraut hafa komið fram, sem og tilboð í fullnaðarhönnun rannsóknarhúss. Jarðvegsvinna og framkvæmdir við meðferðarkjarnann hefjast í sumar en stefnt er að því að bygg­ingu nýs þjóðar­sjúkra­húss við Hring­braut verði lokið árið 2024, í sam­ræmi við fjár­mála­áætl­un 2019-2023.

Stefnt er að aukinni göngudeildarþjónustu við Landspítala, með því að nýta húsnæði við Eiríksstaði sem nú hýsir skrifstofur yfirstjórnar spítalans. Á Eiríkisstöðum yrði til dæmis aðstaða fyrir brjóstamiðstöð Landspítala, miðstöð um sjaldgæfa sjúkdóma, erfðaráðgjöf og innskriftarmiðstöð, auk annarrar göngudeildarþjónustu. Efling göngudeildarþjónustu er mikilvægur liður í styrkingu hins opinbera heilbrigðiskerfis.

Nefna má fjölmörg önnur verkefni sem framundan eru; til dæmis eflingu sérgreinaþjónustu á landsbyggðinni með það markmið í huga að stuðla að jöfnu aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu. Einnig efling utanspítalaþjónustu og aukna áherslu á notkun gæðavísa í heilbrigðisþjónustu.

Það er mikilvægt að nýta tímann vel í þágu heildstæðrar heilbrigðisþjónustu og þar er sumarið líka góður tími.

Svandís Svavarsdóttir

grein sem birtist í Morgunblaðinu 17.06.2018

,

Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður

Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Sigríður er fædd og uppalin á Akranesi. Hún er með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands, með mannfræði sem aukagrein, og meistarapróf í þróunar- og átakafræðum frá University of East Anglia í Bretlandi.

Sigríður hefur síðastliðin ár stýrt kynningarmálum hjá UNICEF á Íslandi en hún hóf þar störf sem upplýsingafulltrúi árið 2011.

Á árunum 2000-2011 vann Sigríður sem blaðamaður, ýmist í lausamennsku, í fullu starfi eða meðfram námi. Hún vann fréttaskýringar, viðtöl, pistla og ferðasögur víðs vegar frá í heiminum og skrifaði einnig verðlaunabókina „Ríkisfang: Ekkert“ um hóp palestínskra kvenna og barna sem flúðu Írak og enduðu á Akranesi. Bókin var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna og hlaut verðlaun Hagþenkis.
Maki Sigríðar er Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur, og eiga þau tvö börn saman, Hauk 4 ára og Laufeyju 8 mánaða.

Sigríður mun hefja störf í áföngum í sumar, samhliða því að klára fæðingarorlof, og koma síðan alfarið til vinnu 1. september.