,

Ávarp forsætisráðherra á ársfundi samtaka atvinnulífsins.

Miklu skipti að stjórnvöld, atvinnurekendur og verkalýðshreyfing leiti leiða til að auka stöðugleika. „Þar sem efnahagsleg hagsæld er sem mest er líka mest áhersla á félagsleg gæði og jöfnuð. Þannig að ég legg áherslu á að við nýtum þá mánuði sem eru framundan til þess að ná saman um það hvert við viljum stefna í þessum málum þannig að við tryggjum áfram hagsæld en líka félagslegar framfarir,“ sagði Katrín á ársfundi samtaka atvinnulífsins.

,

Öflugra heilbrigðiskerfi

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður rædd í þinginu í dag og á morgun. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára er nú lögð fram á alþingi í þriðja sinn á grundvelli laga nr. 123/2015 um opinber fjármál. Áætlunin endurspeglar þær áherslur sem lagðar eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í áætluninni er brugðist við ákalli samfélagsins um að fjármagna betur mikilvæga samfélagsþjónustu og innviði velferðarkerfisins.

Útgjöld til reksturs heilbrigðismála aukast umtalsvert samkvæmt nýju fjármálaætluninni. Miðað við fjárlög yfirstandandi árs aukast útgjöld til heilbrigðismála um 79 milljarða króna alls á næstu fimm árum. Stofnkostnaður, m.a. vegna byggingaframkvæmda, verður 101 milljarður á tímabilinu. Stefnt er að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabili fjármálaáætlunar, þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum.

Meðal verkefna tímabilsins er gerð heilbrigðisstefnu, að skapa aðstæður fyrir aukna göngudeildarþjónustu á Landspítala auk áframhaldandi framkvæmda við spítalann. Þar á meðal eru byggingaframkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut sem hefjast á þessu ári.

Framlög til geðheilbrigðismála verða aukin á tímabilinu og komið verður upp geðheilsuteymum um allt land í samræmi við aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum.

Þá verður unnið á markvissan hátt að því að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar og efla hana sem fyrsta viðkomustað. Fyrirkomulag sjúkraflutninga verður tekið til endurskoðunar í samræmi við þarfagreiningar, og áhersla lögð á öryggi og gæði þjónustunnar.

Hjúkrunarrýmum verður fjölgað um 300 frá fjármálaáætlun síðastliðins árs.
Skimun vegna ristilskrabbameins mun hefjast á tímabilinu og áfram verður stutt við heilsueflandi samfélög. Unnið verður að því að bæta aðgang almennings að nauðsynlegum lyfjum. Þá verður aðgangur þeirra er nota vímuefni í æð að hreinum sprautubúnaði tryggður og ráðist í aðgerðir til að sporna við misnotkun á geð- og verkjalyfjum. Neyslurými fyrir langt leidda fíkniefnaneytendur verður opnað. Stefnt verður að því að bæta aðgengi að hormónatengdum getnaðarvörnum og að dreifa smokkum gjaldfrjálst til tiltekinna hópa. Kynfræðsla verður aukin og fjarheilbrigðisþjónusta efld.

Rauður þráður í þeim köflum fjármálaáætlunar sem varða heilbrigðisþjónustu er styrking hins opinbera heilbrigðiskerfis. Öflugt opinbert heilbrigðiskerfi er ein af grunnstoðum velferðarkerfisins og við munum leggja ríka áherslu á að efla hið opinbera kerfi, með það að markmiði að auka jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist 11 apríl í Morgunblaðinu

,

Kveðjur heilbrigðisráðherra til ljósmæðra og BHM

Heilbrigðisráðherra sagði í umræðum á Alþingi í gær að hún teldi vinnuframlag ljósmæðra sérstaklega mikilvægt og það beri að meta að verðleikum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var spurð að því í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort hún „telji starfs- og kjaraumhverfi ljósmæðra ásættanlegt og eðlilegt með tilliti til sex ára háskólamenntunar og mikillar sérhæfingar og hvort brugðist verði við af hálfu stjórnvalda, hvernig það verði gert og hvort eitthvert viðbúnaðarplan sé til staðar ef ekki semst.” Í svari sínu sagði ráðherra meðal annars að hún væri þeirrar skoðunar að meta eigi vinnuframlag ljósmæðra til launa og til samfélagslegrar virðingar: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að vinnuframlag og starf ljósmæðra væri sérstaklega mikilvægt. Þarna er um að ræða kvennastétt sem sinnir konum á gríðarlega dýrmætum og mikilvægum tíma í lífi þeirra og mér finnst að það eigi að meta að verðleikum.“ Ráðherra sagðist enn fremur hafa beitt sér í máli ljósmæðra í gegnum forstjóra Landspítalans, til að freista þess að gera það sem hægt sé til að bæta starfsumhverfi og mögulega vaktaumhverfi ljósmæðra. Það hefði verið gert og því spilað inn í kjaraviðræðurnar og vonandi gæti það orðið til að leysa þessa viðkvæmu deilu.

Í dag sendi Ljósmæðrafélag Íslands og Bandalag háskólamanna frá sér yfirlýsingu þess efnis að heilbrigðisráðherra hefði sent þeim kaldar kveðjur í fyrrnefndum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem fallið hefðu orð sem mætti skilja þannig að ráðherra teldi ljósmæður geta sjálfum sér um kennt að þær lækki í launum við að bæta við sig í námi.

„Yfirlýsing ljósmæðra og BHM er að mínu mati bæði óskiljanleg og tilhæfulaus og ég hafna þeirri túlkun á mínum orðum sem þar kemur fram“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Ég ber hag heilbrigðisstétta fyrir brjósti, ljósmæðra sem annarra, enda veit ég að gott heilbrigðiskerfi verður ekki rekið nema þessar stéttir njóti sannmælis, virðingar og launa í samræmi við ábyrgð og mikilvægi starfa þeirra.“

Heilbrigðisráðherra minnir á yfirlýsingu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra sem birt var 12. febrúar síðastliðinn í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna: „Áherslur stjórnvalda og vilji þeirra til að styrkja heilbrigðiskerfið með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu verða varla skýrari en þar kemur fram“ segir ráðherra.

,

Stórefling í geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu

Verið er að stórefla geðheilbrigðisþjónusta á landsvísu í samræmi við aðgerðaáætlun Alþingis á sviði geðheilbrigðismála.

Ný geðheilsuteymi sem verið er að koma á fót í öllum heilbrigðisumdæmum munu veita gagnreynda, batahvetjandi meðferð og halda í heiðri hugmyndafræði valdeflingar í þágu notenda.

Velferðarráðuneytið vill koma því skýrt til skila að ákvörðun um að leggja niður teymið Geðheilsu-eftirfylgd sem starfað hefur innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2003 í nánum tengslum við félagasamtökin Hugarafl mun ekki leiða til þjónustuskerðingar eins og skilja hefur mátt á opinberri umræðu að undanförnu.

Þvert á móti er verið að ráðast í stórfelldar skipulagsbreytingar með stofnun nýrra geðheilsuteyma um allt land sem fela í sér stórsókn til bættrar geðheilbrigðisþjónustu við landsmenn óháð búsetu. Þeir sem verið hafa hjá Geðheilsu-eftirfylgd fá áfram þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins hjá nýjum geðheilsuteymum.

Gera þarf greinarmun á Geðheilsu-eftirfylgd og starfsemi félagasamtakanna Hugarafls

Félagasamtökin Hugarafl voru stofnuð árið 2003 og hafa frá upphafi gegnt mikilvægu hlutverki sem virkur hópur fagfólks og notenda geðheilbrigðiþjónustunnar með hugmyndafræði notendasamráðs og valdeflingar að leiðarljósi. Forsvarsmenn Hugarafls áttu ríkan þátt í því að innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var sett á fót teymið Geðheilsa-eftirfylgd sem hefur frá upphafi verið rekið fyrir opinbert fé en í tengslum við félagasamtökin Hugarafl. Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Geðheilsu-eftirfylgdar er einn af stofnendum Hugarafls og situr í stjórn þess. Starfsemi Hugarafls hefur jafnframt verið rekin í sama húsnæði og Geðheilsa-eftirfylgd og hefur Hugarafl haft þá aðstöðu án endurgjalds.

Hugarafl er eitt af mörgum þekktum dæmum um frjáls félagasamtök sem hafa beitt sér fyrir þjónustu sem felur í sér nýmæli og mætt tilteknum þörfum notenda sem hið opinbera hefur ekki sinnt sem skyldi. Með ályktun Alþingis um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var í apríl 2016 liggur fyrir skýr áætlun um uppbyggingu og eflingu geðheilbrigðisþjónust á landsvísu sem þegar er komin vel á veg. Stöðum sálfræðinga  hefur verið fjölgað til muna innan heilsugæslunnar. Geðheilsuteymi sem þjónar íbúum Reykjavíkur austan Elliðaáa hefur þegar tekið til starfa, annað teymi fyrir íbúa Reykjavíkur vestan Elliðaáa tekur til starfa innan skamms, það þriðja í Kraganum í byrjun næsta árs og á Austurlandi er slíkt teymi þegar starfrækt. Fyrir lok næsta árs verða þverfagleg geðheilbrigðisteymi orðin hluti af opinberri heilbrigðisþjónustu með starfrækslu þeirra í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Fjármögnun þessarar sóknar í geðheilbrigðisþjónustu birtist í fjármálaáætlun stjórnvalda sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

Samráðsvettvangur geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu

Nýlega barst heilbrigðisráðherra erindi frá samráðsvettvangi geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu þar sem óskað er eftir „nánara samstarfi og samfellu milli frjálsra úrræða á geðheilbrigðissviði, heilsugæslu og félagsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu“. Að samráðsvettvangnum standa fulltrúar Dvalar í Kópavogi, Geðhjálpar, Geðverndarfélags Íslands, Hlutverkaseturs, Klúbbsins Geysis, Lækjar í Hafnarfirði og Vinjar í Reykjavík.

Frjáls félagasamtök og sjúklingasamtök hafa í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki í samfélaginu, bæði með stuðningi og ýmis konar þjónustu við félagsmenn sína, en einnig með því að veita stjórnvöldum aðhald og stuðla að framþróun og nýjungum á sviði þjónustu og meðferðar segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Þetta frumkvöðlastarf sé mikils virði en það sé bæði rétt og skylt að hið opinbera axli ábyrgð á að veita almenningi geðheilbrigðisþjónustu og að hún sé hluti af almennri grunnþjónustu heilsugæslunnar. „Ég fagna erindi samráðsvettvangsins sem býður fram þekkingu sína og vilja til samvinnu í því skyni að stuðla að heildstæðari þjónustu innan málaflokksins með áherslu á samfellu milli ólíkra úrræða heilsugæslu og félagsþjónustu. Samvinna og samráð er yfirleitt lykillinn að góðum árangri og ég vona að félagasamtökin Hugarafl séu einnig reiðubúin til að taka þátt í samráði og samstarfs á þessum vettvangi.

,

Markviss nýting fjármuna. Heilbrigðisráðherra skrifar.

Ríkisendurskoðun birti í vikunni skýrslu til alþingis um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Skýrslan inniheldur ábendingar af ýmsum toga, en einkum ábendingar er snúa að því að gera þurfi ráðstafanir til að bæta samninga Sjúkratrygginga Íslands. Skýrslan verður að minni beiðni rædd á vettvangi alþingis á næstu vikum.
Það er mat Ríkisendurskoðunar að umræddir samningar tryggi ekki nægilega markviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Þar af leiðandi verði ekki séð að samningarnir nái því markmiði að stuðla að skilvirkni og markvissri nýtingu fjármagns í heilbrigðiskerfinu.
Skýrslan inniheldur einnig ábendingar til velferðarráðuneytisins. Ábendingar Ríkisendurskoðunar varða annars vegar stefnumörkun og hins vegar verkaskiptingu við gerð samninga. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að marka heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu, sem Sjúkratryggingar Íslands geta byggt á við gerð samninga. Ákveða þurfi hvaða þjónustu heilbrigðisstofnanir ríkisins eiga að veita og hvaða þjónustu eigi að kaupa af öðrum aðilum, og í hvaða magni.
Ábending Ríkisendurskoðunar sem snýr að stefnumörkun í heilbrigðiskerfinu er réttmæt og góð brýning fyrir heilbrigðisráðuneytið. Nú þegar er hafin vinna við gerð heilbrigðisstefnu innan heilbrigðisráðuneytisins. Ég hef áður talað fyrir því að góð heilbrigðisþjónusta byggi á skýrri heilbrigðisstefnu, sem sé hluti af samfélagssáttmálanum.
Stefnu sem lifir af kosningar og breytingar í landsstjórninni og snýst um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags eða búsetu og þar sem almannafé er skynsamlega ráðstafað. Ábendingar Ríkisendurskoðunar eru því í fullu samræmi við mínar áherslur og forgangsröðun í embætti heilbrigðisráðherra.
Ríkisendurskoðun beinir því einnig til ráðuneytisins að tryggja þurfi eðilega verkaskiptingu við gerð samninga. Styðja þurfi við Sjúkratryggingar Íslands sem faglegan samningsaðila á grundvelli heildstæðrar stefnumörkunar ráðuneytisins. Líkt og fram hefur komið af hálfu ráðuneytisins hefur verið unnið að því á síðustu misserum að skerpa á verkaskiptingu og ábyrgðarskilum við gerð samninga og mun ráðuneytið halda þeirri vinnu áfram í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands. Ráðuneytið muni í því sambandi taka athugasemdir og ábendingar Ríkisendurskoðunar sem fram koma í skýrslu stofnunarinnar til skoðunar.
Gerð heildstæðrar heilbrigðisstefnu, sem samþykkt verður á alþingi í þverpólitískri sátt af hálfu allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þinginu, er því bæði gott og nauðsynlegt skref í átt að bættri heilbrigðisþjónustu fyrir alla, og góðri nýtingu fjármagns í heilbrigðiskerfinu.

,

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur skipað stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur skipað stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Meginhlutverk hópsins er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi.

Viðfangsefni stýrihópsins verður meðal annars að gera tillögur um útfærslu á aðgerðum sem kveðið er á um í nýrri aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og taka afstöðu til frekari úrbóta. Einnig skal stýrihópurinn fylgjast með framkvæmd áætlunarinnar og beita sér fyrir fullnægjandi fjármögnun hennar. Þá mun stýrihópurinn beita sér fyrir fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) og gera tillögu um samræmd viðbrögð stjórnvalda við #metoo-byltingunni, bæði er lýtur að samfélaginu í heild og að Stjórnarráðinu og stofnunum þess sem vinnuveitanda. Loks er hópnum falið að móta stefnu um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

Stýrihópurinn mun vera forsætisráðherra og ráðherranefnd um jafnréttismál til ráðgjafar í stefnumótun er lýtur að kynferðislegu ofbeldi, kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni í íslensku samfélagi og jafnframt er gert ráð fyrir að allt að 5 milljónum kr. verði varið í sérstök forgangsverkefni sem stýrihópurinn mun vinna að á þessu ári.

Formaður hópsins er Halla Gunnarsdóttir, fulltrúi forsætisráðuneytis, en auk hennar eiga sæti í stýrihópnum fulltrúar dómsmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis.

Gert er ráð fyrir að hópurinn skili verkáætlun til þriggja ára, ásamt yfirliti yfir stöðu verkefnanna og eftir atvikum tillögum um úrbætur og verkefni, til ráðherranefndar um jafnréttismál, eigi síðar en 1. september nk.

, ,

Langtímasýn um fjöregg þjóðarinnar.

Einn mesti auður Íslendinga felst í náttúru landsins. Hún er og hefur verið undirstaða velmegunar, atvinnulífs og afkomu þjóðarinnar um aldir. Þá hefur hún mikið aðdráttarafl fyrir þá sem vilja njóta þeirrar ómetanlegu fegurðar sem landslag, jarðmyndanir, gróður, lífríki og önnur undur íslenskrar náttúru hafa upp á að bjóða. Stöðugur og sívaxandi straumur ferðamanna á náttúrusvæðum landsins er ein skýrasta birtingarmynd þessa.

Öll höfum við notið góðs af þeirri hagsæld sem auknar heimsóknir ferðamanna hingað til lands hafa haft í för með sér. Á sama tíma er brýnt að gæta að því að aukið álag vegna heimsókna ferðamanna valdi því ekki að náttúran beri skaða af. Það þarf að gæta fjöreggsins af kostgæfni.

Nýrri landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, er einmitt ætlað að takast á við þetta verkefni. Drög að áætluninni voru lögð fram til kynningar á nýrri samráðsgátt Stjórnarráðsins á dögunum en um er að ræða stefnumarkandi áætlun til tólf ára sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt sem þingsályktun frá Alþingi síðar í vor. Samhliða áætluninni er einnig í kynningu þriggja ára verkefnaáætlun, þar sem settar eru fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti fjárstuðnings á árunum 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu. Einnig verður fjármagni veitt í að leiðbeina við gerð innviða svo þeir falli sem best að landslagi og náttúru.

Um tímamót er að ræða því þetta er í fyrsta sinn sem tekið er á auknu álagi á náttúru landsins af völdum aukins ferðamannaþunga með heildstæðum og samræmdum hætti og með langtímamarkmið að leiðarljósi. Þannig er áætluninni ætlað að veita yfirsýn yfir brýnustu verkefnin á þessu sviði og tryggja að því fjármagni sem ætlað er til innviðauppbyggingar sé varið með sem skilvirkustum hætti. Ég vil hvetja alla til að kynna sér drögin að lands­áætluninni á samradsgatt.island.is, en þar má einnig skila umsögnum til 26. febrúar næstkomandi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

,

Fjölgun sálfræðinga í almenna heilbrigðiskerfinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallar um fjölgun sálfræðinga í almenna heilbrigðiskerfinu í blaðagrein í Morgunblaðinu í dag og eflingu geðheilbrigðisþjónustunnar. Hún segir skýrt ákall í samfélaginu um að þjónusta sálfræðinga verði hluti af hinu almenna opinbera heilbrigðiskerfi:

Sálfræðingum fjölgar í almenna heilbrigðiskerfinu

Í samfélaginu öllu má heyra ákall eftir aukinni þjónustu sálfræðinga, ákall þess efnis að þjónusta sálfræðinga skuli vera hluti af hinu almenna, opinbera heilbrigðiskerfi. Efling geðheilbrigðisþjónustu er meðal markmiða nýrrar ríkisstjórnar og eitt þeirra atriða sem ég mun leggja sérstaka áherslu á sem heilbrigðisráðherra. Sálfræðiþjónusta er gríðarlega mikilvægur þáttur í geðheilbrigðisþjónustu. Rannsóknir sýna til dæmis að hugræn atferlismeðferð er ein árangursríkasta meðferð sem völ er á í dag við kvíða og þunglyndi. Í þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl 2016 er meðal annars gert ráð fyrir sálfræðiþjónustu sem stærri hluta af hinu opinbera heilbrigðiskerfi, þ.e. fjölgun sálfræðinga innan heilsugæslunnar. Markmið geðheilbrigðisáætlunar til 2020 er að aðgengi að meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, t.d. þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 90% heilsugæslustöðva í lok ársins 2019, og miðað er við að 9000 manns séu á hvert stöðugildi sálfræðings. Nú þegar hefur tekist að tryggja fjárveitingar til allra heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni til að uppfylla markmiðið um að eitt stöðugildi sálfræðings sinni 9.000 manns. Áformað er að markmiðið náist á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Á síðastliðnu ári var stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um fjögur. Á þessu ári munu bætast við sex stöðugildi sálfræðinga og árið 2019 munu fjögur stöðugildi sálfræðinga á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins bætast við. Svokölluðum geðheilsuteymum við heilsugæslustöðvar verður einnig fjölgað, í samstarfi við sveitarfélögin, og nýjum teymum komið á fót í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki til staðar. Geðheilsuteymi eru þverfagleg teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem koma að greiningu og meðferð fólks sem glímir við geðraskanir. Eitt teymanna mun sérhæfa sig í þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og glíma við geðröskun. Nú þegar er starfandi geðheilsuteymi í Breiðholti, en áætlað er að flytja teymið í Grafarvog þar sem það mun sinna öllu austursvæði höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningur geðheilsuteymis fyrir vesturhluta borgarinnar er hafinn, auk þess sem sett verður á stofn geðheilsuteymi fyrir suðurhluta borgarinnar, þ.e. Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Árið 2019 eiga geðheilsuteymi að hafa tekið til starfa á öllum landshlutum.“

Grein Svandísar Svarasdóttur heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 15. janúar 2018

,

Birgir Jakobsson verður aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ráðið Birgi Jakobsson aðstoðarmann sinn í velferðarráðuneytinu. Birgir tekur til starfa 1. apríl næstkomandi þegar hann lætur af embætti landlæknis.
Birgir hefur gegnt embætti landlæknis frá 1. janúar 2015. Fyrir þann tíma starfaði hann í Svíþjóð um langt árabil þar sem hann gegndi ýmsum stjórnunarstöðum við sjúkrahús þar í landi. Sérgrein Birgis er barnalækningar og árið 1988 lauk hann doktorsprófi frá Karolinska Institutet. Hann gegndi um árabil yfirlæknisstöðu á barnadeild Huddinge sjúkrahússins í Stokkhólmi, árið 2003 tók hann við starfi sjúkrahússtjóra við Capio St. Görans sjúkrahússins í Stokkhólmi og frá árinu 2007 var hann forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi þar til hann var skipaður landlæknir.
Svandís Svavarsdóttir segir mikinn feng í Birgi sér til aðstoðar við þau stóru og flóknu verkefni sem heyra undir embætti heilbrigðisráðherra. Hann hafi viðamikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu, bæði á sviði stjórnunar og stefnumótunar og fagþekking hans sem læknis sé einnig mikilvæg. Sem landlæknir hafi hann öðlast mikilvæga yfirsýn yfir íslenska heilbrigðiskerfið: „Í Embætti landlæknis hefur Birgir komið fram með skýra sýn á ýmsa þætti sem hann telur mega betur fara í heilbrigðiskerfinu og um mótun heilbrigðisstefnu til framtíðar sem byggist á samfélagslegri sátt. Áherslur hans falla vel að þeim verkefnum sem ég mun setja á oddinn á komandi misserum og ég hlakka til að vinna með honum,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Birgir verður annar tveggja aðstoðarmanna Svandísar. Hinn aðstoðarmaður hennar er Iðunn Garðarsdóttir lögfræðingur sem tók til starfa í velferðarráðuneytinu í byrjun desember.