,

Ræða Guðmundar Inga

Virðulegi forseti, kæru landsmenn,

Hvort sem við erum ung eða öldruð, hvar sem við búum og hversu ólík sem við innbyrðis kunnum að vera þá er eitt sem við eigum öll saman: Náttúru landsins. Þetta stórbrotna samspil elds og íss, auðna og óbyggðra víðerna – náttúruminjar sem eiga fáa sína líka á heimsvísu.

Náttúra Íslands hefur einstakt aðdráttarafl, hún er efnahagslega verðmæt og færir okkur gleði, gjaldeyristekjur og atvinnu – hún er gulleggið okkar. Og það er okkar að gæta hennar og viðhalda töfrunum.

Um leið og við gætum gulleggsins þurfum við að vita á hvaða vegferð við erum og setja markið hátt. Við eigum að vera leiðandi í umhverfismálum í heiminum. Við höfum þann valkost að sýna í verki hvað lítil og samrýmd þjóð getur gert. Höfum trú á okkur. Verðum fyrst ríkja til að ná að hætta að keyra grunnkerfin okkar áfram á mengandi og innfluttu eldsneyti. Hugsum út fyrir kassann til að taka á síhækkandi plastfjalli landsins og ósjálfbærri neyslu. Og verum öðrum fyrirmynd í náttúruvernd.

Kæru landsmenn.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett umhverfismál rækilega á oddinn. Loftslagsmálin eru og verða mikilvægasta viðfangsefni 21. aldarinnar. Mörg munum við úr skóla hvernig sumir kennarar gáfu frest á skilum ritgerða og verkefna, meðan aðrir gerðu það ekki. Í loftslagsmálunum þýðir ekki að fá fresti. Það eru engir frestir. Hér á landi liggur nú fyrir fyrsta útgáfa að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og mörg brýn verkefni eru á leið í útfærslu í samvinnu við samfélagið. Tími aðgerða er runninn upp.

Önnur mikilvæg vegferð er hafin. Stærsta framlag Íslands til náttúruverndar á heimsvísu felst í stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Þverpólitísk nefnd með þingmönnum allra flokka á Alþingi og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga vinnur nú að undirbúningi að stofnun þjóðgarðsins. Ég leyfi mér að fulllyrða að aldrei hefur verið ráðist í jafn metnaðarfullt verkefni í náttúruvernd á Íslandi.

Mikil tækifæri felast í friðlýsingum fyrir efnahag og atvinnulíf landsbyggðanna. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um átak í friðlýsingum og í þessari viku fara fyrstu friðlýsingar svæða í verndarflokki rammaáætlunar frá 2013 í almenna kynningu. Fjármagn hefur verið tryggt til uppbyggingar aðstöðu fyrir ferðamenn á friðlýstum svæðum á næstu árum og ný stofnun fyrir þjóðgarða og vernduð svæði er í undirbúningi. Hún mun efla náttúruvernd til muna og auka aðkomu sveitarfélaga og félagasamtaka að stjórnun náttúruverndarsvæða.

Herra forseti.

Afstaða til umhverfismála á alþjóðavettvangi hefur gjörbreyst eins og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun bera með sér. Umhverfismál eru ekki lengur álitin andstaða framfara, heldur undirstaða. Þau eru forsenda lífsgæða, friðar, blómlegs efnahagslífs, og grunnþarfa samfélagsins. Þetta kallar á nýja nálgun og samvinnu þvert á málaflokka og pólitískar línur, rétt eins og kynning sjö ráðherra á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum bar með sér. Þetta er mikilvæg breyting í íslenskri pólitík sem gaman er að fá að taka þátt í.

,

Ræða Svandísar

Virðulegur forseti

Áskoranir stjórnmála dagsins eru allt í senn gamalkunnar en líka nýjar og ógnvekjandi – félagslegur ójöfnuður og fátækt, átök og ofbeldi reka milljónir frá heimilum sínum og blikur eru á lofti. Útlendingaandúð, kvenfyrirlitning og grimmd við minnihlutahópa af öllu tagi, hinsegin fólk, flóttafólk, þjóðabrot eða fólk af tilteknum trúarlegum uppruna – hatursöflunum vex ásmegin víða um lönd og sagan segir okkur að þau þurfa ekki endilega hreinan meirihluta atkvæða til að valda straumhvörfum í heilum samfélögum og jafnvel heiminum öllum, breyta mannkynssögunni. Á slíkum tímum skiptir öllu að stjórnmálahreyfingar og flokkar gæti að meginreglum lýðræðis og mannréttinda, spyrni fast á móti heimsku og valdníðslu og freistist ekki til að laga málflutning sinn að heiftinni og hatrinu. Grunngildi um mannúð og jafnan rétt, jöfnuð og frið eru mikilvæg og þeim þarf alltaf að halda vandlega til haga.

 

Vinstrihreyfingin-grænt framboð leiðir nú ríkisstjórn þvert yfir pólitískt litróf á Íslandi, ríkisstjórn um þær áherslur við stjórn landsins sem hér eru ræddar í kvöld. Stjórnarsáttmálinn snýst um þrjá meginstrauma í mínum huga. Í fyrsta lagi um áherslur í anda jöfnuðar og félagshyggju og þá fyrst og fremst við uppbyggingu innviða, sem fyrir löngu var orðið brýn nauðsyn að efla, í heilbrigðismálum og menntamálum, félagsmálum, samgöngum og fjarskiptum. Í öðru lagi um framsýnar áætlanir í stórum málum nýrrar aldar, umhverfismálum, loftslagsmálum, nýsköpun á öllum sviðum en líka lýðræðis- og upplýsingamálum þar sem svo margt hefur kallað á umbætur. Loks og í þriðja lagi eflingu alþingis með stóraukinni áherslu á þverpólitíska vinnu í stórum stefnumarkandi málum og auknum stuðningi við störf þingflokka, ekki síst í stjórnarandstöðu.

 

Sagt hefur verið að efnahagslegur stöðugleiki eigi að vera grunnurinn að góðu samfélagi en félagslegur stöðugleiki er ekki síður mikilvægur. Að fólk megi treysta því að keppt sé að jafnrétti og jöfnuði og að innviðir samfélagsins haldi, að enginn sé skilinn eftir, að menntun, heilbrigðisþjónusta og velferð standi öllum til boða, að fjölskyldurnar búi við fæðingarorlof og leikskóla sem taki við að því loknu, að sátt ríki um skólana og trausta menntun, að menningin færi okkur gleði og sýn til allra átta allan ársins hring, að full vinna dugi fyrir framfærslu og að unnt sé að koma sér þaki yfir höfuðið, að ungt fólk geti farið að heiman og komið undir sig fótunum þegar sá tími rennur upp. Að gamalt fólk geti tekið þátt í þróttmiklu samfélagi og lifað með reisn allt til síðasta dags.

 

Á mínu borði er einn mikilvægasti hluti félagslegs stöðugleika en það er heildstæð og skynsamleg heilbrigðisþjónusta sem hefur sjúklinginn og samfélagið í forgrunni. Við ætlum að móta um hana skýra stefnu og styrkja á allan hátt og að því er unnið og verður unnið næstu misseri og næstu ár. Draga á úr greiðsluþátttöku sjúklinga og nálgast það sem gerist í þeim efnum á Norðurlöndunum. Heilbrigðisþjónustan á Íslandi hefur, eins og allir vita, lengi liðið fyrir lausatök og skertar fjárveitingar, verið svo brotakennd að brýnt er að bæta þar úr. Fjöldi aðila og úttekta hafa dregið fram einstaka þætti þessarar stöðu, nú síðast Ríkisendurskoðandi sem fjallar um ómarkviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu en áður hafði MacKinsey bent á að margt mætti gera betur og ekki síst í því að skapa heildstæðara kerfi þar sem ljóst er hvað gerist á hverjum stað.

 

Sjálf hef ég líka, og mitt fólk, lagt kapp á að afla upplýsinga og reynslu úr öllum áttum um þessi efni og leitast við að fá sem allra skýrasta mynd af ástandinu og nauðsynlegum úrbótum. Þar ber allt að sama brunni. Sá skortur á yfirsýn og markvissri framkvæmd sem nú ríkir leiðir af sér biðlista í sumum efnum en oflækningar annars staðar. Slíkt kerfi er hvorki gott fyrir sjúklinga, þá hópa sem þeim eiga að sinna né samfélagið í heild. Með því að setja fram vandaða heilbrigðisstefnu, tryggja trausta og öfluga þjónustu opinberra sjúkrahúsa, efla göngudeildir og treysta heilsugæsluna um allt land en líka með því að skýra samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu og stuðningi við sjúka og aldraða gegnum Sjúkratryggingar Íslands, þar sem markmið samninganna og ætlaður árangur af þeim liggja ljós fyrir og gæðakröfur eru skýrar, þar sem skýrt er hvaða þjónustu skuli veita og hvar skuli inna hana af hendi, þannig nálgumst við heildstæðara kerfi og markvissari og betri þjónustu fyrir alla.

Kjölfestan er traust og öflugt heilbrigðiskerfi okkar allra, sem við eigum sjálf og þjóðin hefur kallað eftir. Þannig tryggjum við besta nýtingu fjármuna líkt og allar rannsóknir sýna og styðjum um leið aðra geira þjónustunnar. Liður í því að er að hefjast handa þegar í haust við byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss sem á eftir að færa þjónustu við sjúklinga og vinnuumhverfi heilbrigðisstétta í landinu öllu á alveg nýjan stað. Verkefnið er samt meira og miklu stærra, eins og hér hefur verið rakið, við ætlum að sækja fram á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu og forvarna, stilla saman strengi og krafta allra þeirra sem vinna að bættri heilsu og öryggi landsmanna hvar sem þeir búa og hvernig sem efnahag þeirra er háttað. Að því er unnið hörðum höndum á minni vakt í ríkisstjórn þriggja flokka og undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

Góðar stundir!

 

 

 

 

,

Stefnuræða forsætisráðherra

Virðulegi forseti, góðir landsmenn

Þó að það hafi rignt á sum okkar í sumar skartaði landið sínu fegursta. Við sem búum hér á suðvesturhorninu vorum reglulega minnt á þá staðreynd að fátt er betra en að finna lyktina af gróðrinum þegar rigningunni slotar. Og ég gat ekki orðið annað en þakklát þar sem ég sat í heitri laug í Bjarnarfirði, horfði á ána fjúka í öfuga átt í nítján metrum á sekúndu og virti fyrir mér sundlaugina sem byggð var af æskulýðsfrömuðum á norðurhjara sem aldrei misstu trúna á landið. Ég varð þakklát fyrir afrek þeirra sem trúðu á fullveldið sem við fögnum í ár, þá framsýni og þann stórhug sem þau sýndu.

Þó að veðrið hafi verið vinsælt umræðuefni í öllum landshlutum í sumar vorum við samt heppin hér á landi miðað við veðrið annars staðar á Norðurlöndum. Þar voru gífurlegir þurrkar, skógareldar og uppskerubrestur. Við Íslendingar buðum Svíum aðstoð vegna skógarelda, íslenskir bændur seldu norskum starfsbræðrum sínum hey og öll fylgdumst við með veðurfréttum sem þóttu bera vitni um áhrif loftslagsbreytinga.

Ríkisstjórnin kynnti í fyrradag fyrstu áfangana í metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Eins og kunnugt er hafa orðið straumhvörf í fjárveitingum til umhverfismála. Aðgerðaáætlunin mun útfæra hvernig þessir fjármunir verða nýttir. Þar mun landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis verða fyrirferðarmikil. Annar stór áfangi eru orkuskipti í samgöngum þar sem stórátak verður í uppbyggingu fyrir rafbíla og rafhjól og sett niður tímaáætlun um að ekki verði fluttir inn nýir bílar sem ganga fyrir bensíni eða olíu eftir 2030.

Við Íslendingar höfum sett okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040 og þessir fyrstu áfangar sýna gjörla að okkur er full alvara með því verkefni. Ég sé fyrir mér að umhverfis- og loftslagsmál verði eitt af flaggskipum okkar utanríkisstefnu, rétt eins og kynjajafnréttismálin eru þegar orðin, og Ísland, þó að við séum ekki stór, geti þar með haft áhrif til góðs í alþjóðasamfélaginu.

Kæru landsmenn

Ísland hefur nú verið níu ár í röð í efsta sæti á lista World Economic Forum sem það land sem stendur sig best í kynjajafnrétti og er það mikið ánægjuefni. Þar megum við hins vegar hvergi slaka á. Innleiðing jafnlaunavottunar stendur yfir og þar þurfa stofnanir og fyrirtæki að slá í klárinn ef hún á að nást fyrir áramót. Sömuleiðis þurfum við að vera meðvituð um að þessi listi mælir til dæmis ekki kynbundið ofbeldi. Þess vegna hefur ríkisstjórnin sett þau mál í algjöran forgang. Fullgilding Istanbúlsáttmálans um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi var mikilvægt skref í rétta átt sem stigið var í vor. Á þessu ári hefur hópur sérfræðinga verið að störfum og greint hvað þurfi að gera og hverju þurfi að breyta til þess að hafa betur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hópurinn hefur nú skilað af sér verkáætlun sem verður hrint í framkvæmd. Og við munum halda áfram að vinna úr lærdómum #églíka-byltingarinnar, meðal annars með alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður hér á landi á komandi ári.

Herra forseti.

Ríkisstjórnin hefur tekið það verkefni að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu samfélagslegra innviða föstum tökum allt frá fyrsta degi. Sú sókn sem hófst í síðustu fjárlögum og heldur áfram í nýju fjárlagafrumvarpi er langt umfram það sem nokkur stjórnmálaflokkur boðaði fyrir síðustu kosningar enda er þörfin brýn. Um leið er tíminn góður þar sem spár gera ráð fyrir minni hagvexti á komandi árum og g því tækifæri fyrir hið opinbera til að koma með innspýtingu.

Heilbrigðisþjónustan er fyrirferðarmikil enda sá málaflokkur sem landsmenn hafa forgangsraðað efst á listann samkvæmt ýmsum könnunum. Hér á landi hafa sjúklingar þurft að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrstu skrefin í því að lækka þennan kostnað voru stigin nú um mánaðamótin þegar dregið var úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær og mikilvæg aðgerð. Áfram verður haldið á sömu braut allt kjörtímabilið. Hér á landi eru líka teikn á lofti um að andlegri heilsu, sérstaklega ungs fólks, hafi hrakað. Þess vegna leggur ríkisstjórnin ríka áherslu á geðheilbrigði og nú er unnið að því að auka aðgengi að sálfræðingum um land allt.

Samgöngumálin eru sömuleiðis stórmál í þessari innviðauppbyggingu enda hefur mikið mætt á vegakerfinu undanfarin ár. Þar þarf í senn að huga að vegakerfinu en líka að öflugri almenningssamgöngum. Fjórir milljarðar eru lagðir í það risavaxna verkefni að bæta framfærslu öryrkja og hefur verið starfandi samráðshópur sem ætlað er að gera tillögur um það hvernig þessum fjármunum verður sem best varið ásamt því að auka möguleika öryrkja til virkrar samfélagsþátttöku og þátttöku á vinnumarkaði.

Fjármála- og efnahagsráðherra mun í vetur leggja fram frumvarp til laga um þjóðarsjóð sem verður eitt af lykilmálum ríkisstjórnarinnar og vonandi Alþingis alls. Þar er ætlunin að setja arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum í eigu ríkisins í sérstakan sjóð, annars vegar til að leggja fyrir til framtíðar en hins vegar til að ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila og til að styrkja rannsóknir og nýsköpun. Þetta má kalla kynslóðaverkefni; annars vegar hvernig við hugum að okkar elsta fólki og hins vegar hvernig við búum í haginn fyrir framtíðina.

Fyrir mér er algjört lykilatriði að íslenskt samfélag fari að byggja upp og styðja betur við nýsköpunar- og rannsóknaumhverfi. Þess vegna höfum við bætt í framlög til menntunar og stefnum á verulegar fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun. Það mun treysta efnahagslíf landsins til framtíðar og draga úr sveiflum en við höfum séð á síðustu vikum að veður geta skipast fljótt í lofti innan einstakra atvinnugreina. Þess vegna er fjölbreytnin svo mikilvæg; að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Aukin nýsköpun og þar með aukin verðmætasköpun mun styrkja allar atvinnugreinar; sjávarútveg, landbúnað, iðnað, ferðaþjónustu, hugverkageirann, skapandi greinar og svo mætti lengi telja.

Framundan er svo vinna sem mun styrkja umgjörð fjármálakerfisins enn frekar. Hvítbók um fjármálakerfið kemur út í haust þar sem greint verður hvað hefur vel verið gert í þeim málum á undanförnum árum og hvað má betur gera. Hluti af því verkefni er að greina kostnaðinn í íslenska fjármálakerfinu en vísbendingar eru um að hann sé meiri en til dæmis annars staðar á Norðurlöndum. Markmiðið er að hægt verði að lækka þann kostnað þannig að almenningur fái notið lægri vaxta og betri kjara.

Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar skilaði af sér nú í júní síðastliðnum. Stjórnvöld hafa í framhaldinu átt fundi með Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Markmiðið er að styrkja rammann um peningastefnuna, meðal annars með breytingum á lögum um Seðlabankann en ég mun leggja fram frumvarp þess efnis eftir áramót.

Kæru landsmenn.

Fátt hefur verið meira í innlendum fréttum en málefni vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að eiga sem best samstarf við aðila vinnumarkaðarins en alls höfum við átt tíu fundi með þessum aðilum og forsvarsmönnum Sambands sveitarfélaga. Þeir fundir hafa nú þegar skilað margvíslegum árangri. Ráðist var í þær mikilvægu breytingar að hækka atvinnuleysisbætur og greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa í vor. Kjararáð var lagt niður með lögum í vor. Fyrirkomulag launa æðstu embættismanna verður fært til svipaðs horfs og annars staðar á Norðurlöndum.

Í vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að tekjuskattskerfið og samspil bóta og skatta yrðu endurskoðuð á kjörtímabilinu þannig að það gagnist helst lágtekju- og lægri millitekjuhópum.

Sá tekjubandormur sem nú er lagður fram gerir ráð fyrir hækkun barnabóta sem mun auka ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna. Enn fremur hækkun persónuafsláttar umfram breytingar á vísitölu neysluverðs sem gagnast best þeim tekjulægri. Að auki verða efri mörk skattkerfisins fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir. Að lokum er tryggingagjaldið lækkað um 0,25% sem gagnast atvinnulífinu öllu.

Þessar breytingar eiga rætur að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og sýna okkar skýra vilja til að skatt- og bótakerfin þjóni jöfnunarhlutverki. Aðrar breytingar sem þegar hafa verið gerðar, eins og hækkun á fjármagnstekjuskatti, sýna þann sama vilja. Með þessum breytingum eru stigin mikilvæg skref sem færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggja að þau tekju- og eignamestu leggi meira af mörkum.

Herra forseti.

Nú á dögunum var birt skýrsla starfshóps sem ég skipaði um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Þar eru ýmsar áhugaverðar tillögur. Meðal annars er lagt til að við þingmenn og ráðherrar uppfærum reglur um hagsmunaskráningu. Ennfremur að hagsmunaskráning aðstoðarmanna og ráðuneytisstjóra verði lögfest en skráning þeirra hagsmuna og birting þeirra er ekki lögbundin þó að allt þetta fólk hafi verið reiðubúið að skrá hagsmuni sína og birta til að auka gagnsæi. Þá er lagt til að stjórnarráðið setji sér stefnu um upplýsingagjöf samhliða endurskoðun upplýsingalaga sem stendur yfir. Auk þess að gerður verði samningur við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands til að sinni ráðgjafarhlutverki fyrir Stjórnarráðið. Allt rúmast þetta innan þess sem við getum kallað heilindaramma en alþjóðastofnanir á borð við OECD hafa unnið mikla vinnu í því að skilgreina heilindi í opinberri stjórnsýslu. Við munum sjá frekari aðgerðir í þessa veru á þessu þingi og kjörtímabilinu öllu.

Ljóst er að traust á stjórnmálum og stjórnsýslu dvínaði skarpt eftir hrun. Þetta traust hefur farið heldur vaxandi án þess að jafnast á við það sem áður var. Líklega verður traust á stjórnmálum og stjórnsýslu aldrei jafn mikið og það var skömmu fyrir hrun. Samfélagið hefur breyst, upplýsingastreymi er með allt öðrum hætti og samfélagsmiðlar hafa breytt stjórnmálaumræðu með róttækum hætti. Við sem munum þá tíð þegar mestu skipti að komast í kvöldfréttirnar með það sem sagt var um morguninn, finnst þetta vera bylting þar sem fréttir morgunsins eru oft algjörlega gleymdar um kvöldið.

Þegar slík umskipti verða á miðlaumhverfinu má rifja það upp að því hefur verið haldið fram að miðillinn sníði skilaboðin að sér. Við sjáum þetta víða í nútímanum, jafnvel á sviði alþjóðasamskipta, þar sem valdamesti maður heims, sjálfur Bandaríkjaforseti, setur fram stefnu gagnvart öðrum ríkjum með 280 bókstöfum á twitter. Eins og við þekkjum úr sögunni þá geta slík umskipti breytt miklu um valdajafnvægið í samfélaginu.

Nýir miðlar eru hluti af stærri mynd samfélagsbreytinga; fjórðu iðnbyltingunni svokölluðu, þar sem miklu máli skiptir að við verðum í fararbroddi. Við vitum að þessi tæknibylting á eftir að breyta atvinnuháttum, vinnumarkaði, menntun og samfélaginu; við vitum líka að hún á eftir að breyta okkur sjálfum og upplifun okkar á veruleikanum. Í þýskum fjölmiðlum voru fréttir af því að óvenju mörg börn hafi drukknað í Þýsklandi í ár vegna þess að foreldrar þeirra voru upptekin í símanum. Við verðum að hafa þor til að horfast í augu við þennan nýja veruleika og samband okkar við tæknina til þess að næstu skref í þróun sambands þessarar tækni og okkar mannanna verði okkur til gæfu.

Í allri þessari þróun skiptir máli að við Íslendingar verðum gerendur, ekki þiggjendur. Að við nýtum tækifærin, sköpum aukin verðmæti og nýtum þau til að byggja upp betra samfélag. Að við verðum um leið meðvituð um mennskuna og gætum að henni í þessari hröðu þróun.

Vegna alls þessa ég ákveðið að láta vinna greiningu á áskorunum vegna Fjórðu iðnbyltingarinnar. Sú greining verður á breiðum grunni og unnið með niðurstöður hennar hjá Vísinda- og tækniráði, Samráðsvettvangi um aukna hagsæld, með aðilum vinnumarkaðarins og í nýrri framtíðarnefnd Alþingis.

Og talandi um framtíðina. Formenn stjórnmálaflokkanna hafa nú fundað nokkrum sinnum um þá endurskoðun stjórnarskárinnar sem fyrirhuguð er á þessu kjörtímabili og því næsta. Þetta hafa verið góðir fundir og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að breið samstaða skapist um breytingar á stjórnarskrá sem vísa veginn til framtíðar fyrir íslenskt samfélag.

Kæru landsmenn.

Á þessu ári fögnum við fullveldinu sem hefur skipt okkur svo miklu. Fyrstu hundrað ár fullveldisins hafa verið saga framfara, bæði félagslegra og efnahagslegra. Við eigum ærin tækifæri til framfara næstu hundrað árin. Við eigum að fagna samfélagi sem er miklu fjölbreyttara nú en fyrir einni öld. Við eigum að byggja á þeirri fjölbreytni og þeim gildum lýðræðis og mannréttinda sem við höfum haft í heiðri í þessari sögu allri. Og við eigum að sækja fram, sækja fram með því að rækta hugvitið, skapa nýja þekkingu og tryggja að hér verði samheldið, fjölbreytt og kærleiksríkt samfélag þar sem við lifum fram í sátt við umhverfið og tryggjum sterkan efnahag og jöfnuð.

Ég hitti nemendur í Seyðisfjarðarskóla um daginn. Þau sögðust þurfa að ræða ýmislegt við mig. Meðal annars væri nauðsynlegt að lækka verð á ís, fá betri gangstéttir og útisundlaug. Þau bentu líka á að gengið væri helst til hátt þessa dagana og við þyrftum að hugsa miklu betur um umhverfið. Viku seinna hitti ég heimilisfólk á Grund og við ræddum saman um sögu fullveldisins, alla þá sigra sem hafa unnist á þeim hundrað árum sem liðin eru og hlutverk þeirra í að byggja upp þetta samfélag sem við eigum saman. Eftir þessa tvo fundi var ég bjartsýn á framtíð íslensks samfélags. Við erum hér vegna kynslóðanna sem á undan okkur gengu með stórhug að vopni. Og framtíðin er björt með þessa frábæru ungu kynslóð sem mun taka við landinu okkar. Við sem hér erum núna skulum vanda okkur við að skila góðu búi.

Góðar stundir

,

Hækkun á framlögum til umhverfismála um 1,5 milljarða

Framlög til umhverfismála hækka á næsta ári um 1,5 milljarða króna fyrir utan launa- og verðlagsbætur samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veita alls 600 milljónum kr. til loftslagstengdra verkefna fyrir árið 2019 og er það í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Fjármagnið verður nýtt til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem kynnt var í gær.

Þá er gert ráð fyrir að hækka framlög til uppbyggingu innviða, rannsókna og vöktunar á svæðum í íslenskri náttúru um 500 milljónir kr. og verður þá alls varið rúmum milljarði til slíkra verkefna á árinu.

Loks er gert ráð fyrir að veita alls 200 milljónum kr. til landvörslu á friðlýstum svæðum.

Á næstu árum mun fjármagn til umhverfismála aukast enn frekar í samræmi við fjármálaáætlun 2019 – 2023.

,

Uppbygging Landspítala

Framkvæmdir vegna uppbyggingar Landspítala við Hringbraut eru í fullum gangi. Uppbyggingin er mikilvæg fyrir sjúklinga og aðstandendur, starfsfólk Landspítalans og starfsemi sjúkrahússins í heild sinni. Þessi stærsta framkvæmd lýðveldissögunnar verður öllum til hagsbóta.

Nú er staðan sú að vinna við lokafrágang nýs sjúkrahótels á Hringbrautarlóð er langt komin. Stefnt er að afhendingu hússins í lok árs 2018. Skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna verður tekin í haust og unnið er að fullnaðarhönnun hans. Ýmis konar vinna vegna meðferðarkjarnans er auk þess hafin. Nú er unnið að gerð bráðabirgðabílastæða og jarðvegsframkvæmdir vegna fyrsta áfanga meðferðarkjarnans eru hafnar.

Unnið er að útboði á fullnaðarhönnun rannsóknarhúss, og gert er ráð fyrir því að í síðari áföngum uppbyggingar spítalans við Hringbraut verði bygging dag-, göngu- og legudeildarhúss. Samhliða framkvæmdum vegna nýrra bygginga þarf að huga að því hvernig nýta eigi þær byggingar sem fyrir eru á Hringbrautarlóðinni.

Greina þarf hvaða byggingar sem nú þegar eru á Hringbrautarlóð Landspítali mun áfram hafa þörf fyrir. Greina þarf ástand bygginganna, viðhaldsþörf og hvort gera þurfi breytingar á eldri byggingum, og leggja þarf mat á umfang þeirrar vinnu svo tryggt sé að þær verði tilbúnar á tilsettum tíma. Meta þarf einnig hvaða starfsemi mun flytjast úr hvaða byggingum á Hringbrautarlóð. Hið sama á við um byggingar Landspítala utan Hringbrautarlóðar. Einnig þarf að reisa ýmsar stoðbyggingar á lóðinni, til dæmis vörumótttöku, flokkunarmiðstöð, nýja Kringlu o.fl., og undirbúning og hönnun slíkra bygginga þarf að setja af stað hið fyrsta.

Til þess að tryggja að öll þessi vinna muni ganga hratt og vel fyrir sig hef ég ákveðið að setja á fót vinnuhóp sem mun meðal annars hafa það hlutverk að framkvæma ástandsmat eldri bygginga spítalans, gera kostnaðaráætlanir vegna stoðbygginga og verkáætlun um flutning á starfsemi í nýtt húsnæði. Í þeim hópi munu eiga sæti fulltrúar Landspítala, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins. Í vor skipaði ég samstarfsráð til þess að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans sem er mér til samráðs og ráðgjafar, og ég er viss um að vinnuhópurinn og samstarfsráðið munu einnig eiga gott samstarf. Ég skipaði einnig í vor í ráðgjafarnefnd um Landspítala, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, en nefndin skal vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um starfsemi og rekstur spítalans.

Uppbygging Landspítala við Hringbraut er tæknilega flóknasta framkvæmd Íslandssögunnar. Verkefnið er krefjandi en óumdeilanlegt er að uppbygging Landspítala við Hringbraut verður bylting fyrir spítalaþjónustu á landinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Grein birtist í morgunblaðinu 31. 08.2018

 

,

Verkefnum fjölgar – úr vörn í sókn

Þörf fyrir dagdvalarrými hefur aukist á undanförnum árum en eftir efnahagshrunið hefur þeim því miður ekki fjölgað nægilega hratt. Ástandið er enn eitt dæmið um afleiðingar hrunsins á heilbrigðiskerfið, þar sem dregið var úr fjármagni sem rann til innviða og uppbygging í mörgum málaflokkum var stöðvuð. Nú þegar efnahagsástandið hefur batnað rísa réttmætar kröfur um endurbætur á nánast öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal á þessu sviði. Því miður er ómögulegt að ætla sér að leysa öll vandamál í einu vetfangi en viðsnúningurinn er hafinn.

Í heilbrigðisráðuneytinu er nú unnið að stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið. Í þeirri vinnu hefur ýmsum spurningum verið varpað fram; hvernig heilbrigðisþjónustu viljum við veita, hvernig getum við tryggt að heilbrigðisþjónusta sé veitt á viðeigandi þjónustustigi og hvernig greiðum við fyrir hana, hvernig aukum við þátttöku sjúklinganna sjálfra í veitingu heilbrigðisþjónustu, hvaða gæðakröfur eru gerðar, hvernig stöndum við að menntun heilbrigðisstarfsfólks og hvernig tryggjum við nægilegan mannafla í heilbrigðiskerfinu, hvernig innleiðum við nýja tækni og ný lyf og hvernig stöndum við að vísindastarfi og nýsköpun?

Öllum þessum spurningum og fleirum þarf að svara til þess að við getum forgangsraðað því fjármagni sem rennur til heilbrigðismála. Markmiðið er að gera tilraun til þess að svara þessum spurningum í haust, í samvinnu við heilbrigðisstofnanir og aðrar stofnanir heilbrigðisráðuneytisins, auk þess sem frekari umræða um þær mun fara fram á heilbrigðisþingi sem ég mun boða til í nóvember.

Verkefni samfélagsins alls

Umræðan undanfarið um skort á dagvistunarúrræðum fyrir heilabilaða endurspeglar hluta af aukinni þörf fyrir fjölbreytta þjónustu fyrir aldraða og ekki síst þá sem glíma við heilabilum. Þjónusta við þann hóp er verkefni samfélagsins alls og með framkvæmd þeirrar þjónustu fer heilbrigðiskerfið – þegar um er að ræða heilbrigðisþjónustu, félagsmálayfirvöld og sveitarfélögin þegar um er að ræða búsetu, t.a.m. sérstök búsetuúrræði og þegar um er að ræða dægradvöl og tómstundir. Stundum skarast þessi svið auk þess sem ólíkt kann að vera milli sveitarfélaga hvaða þjónusta er veitt og hvernig samstarfi við ríkið eða fyrirtæki í velferðarþjónustu er háttað í hverju tilviki.

Nú er það svo að ríkið greiðir þeim daggjöld sem veita öldruðum hjúkrun eða aðra umönnun, hvort sem það er á hjúkrunarheimilum eða í dagvistun, en sú þjónusta er ýmist veitt af sveitarfélögum eða af einkaaðilum. Þessi mál þarf að skoða vel með það að markmiði að tryggja að öllum bjóðist viðeigandi þjónusta.

Samtímis því að unnið er að stefnumótun í heilbrigðiskerfinu hefur fjölmargt verið gert til þess að bæta úr augljósum veikleikum í heilbrigðisþjónustunni. Greiðslukerfi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið breytt, geðheilbrigðisstefna hefur verið fullfjármögnuð, reglugerðarbreytingar hafa verið gerðar sem takmarka aðgengi að ávana- og fíknilyfjum og innflutning einstaklinga á þessum lyfjum og unnið er að aðgerðum sem auka fræðslu ungs fólks um þessi lyf og hvernig meðferðarúrræðum fyrir ungt fólk í fíknivanda verði best fyrir komið.

Stórsókn kynnt

Stórsókn um uppbyggingu hjúkrunarrýma hefur verið kynnt, skóflustunga að meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut verður tekin bráðlega og stjórn spítalans hefur í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið hafið undirbúning að því að auka dag- og göngudeildarstarfsemi spítalans, sem mun bæta aðgengi að þjónustu sérgreinalækna fyrir alla landsmenn. Síðast en ekki síst hefur greiðsluþátttaka sjúklinga verið endurskoðuð og kostnaður þeirra sem þurfa á mestri heilbrigðisþjónustu að halda hefur verið lækkaður verulega.

Þolinmæði er ekki þjóðareinkenni Íslendinga en takist okkur að hrinda þeim verkefnum í framkvæmd sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru allar líkur á því að Íslendingar muni áfram búa við heilbrigðiskerfi í fremstu röð.

Höfundur er heilbrigðisráðherra

,

Uppbygging fyrir almenning

Frá því að staða efnahagsmála tók að batna eftir efnahagshrunið hefur krafan um að ávinningurinn skili sér í auknum mæli til alls almennings með uppbyggingu samfélagslegra innviða verið hávær. Þó að þeim ríkisstjórnum sem komu í kjölfar endurreisnarstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekist ágætlega til við að fylgja eftir endurreisn efnahagslífsins stóðu eftir óuppfylltar væntingar um uppbyggingu samfélagslegra innviða. Núverandi ríkisstjórn hefur einsett sér að gera betur og telur slíka uppbyggingu sitt forgangsverkefni.

Gott efnahagsástand undanfarin ár og tekjur sem ríkið hefur fengið á grundvelli svokallaðra stöðugleikasamninga hafa gert ríkissjóði kleift að greiða niður skuldir og styrkt stöðu hans verulega. Þannig hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um 88 milljarða á undanförnum tólf mánuðum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að þessi sterka staða verði nýtt til að ráðast í samfélagslega uppbyggingu sem miðar að því að jafna og bæta lífsgæði landsmanna. Í þeirri vinnu hefur ríkisstjórnin þau leiðarljós að tryggja farsælt efnahagslíf, samfélagslegan ávinning og framsækni í umhverfismálum.

Framar fyrirheitum
Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar var að leggja fram fjárlagafrumvarp sem tryggði aukin fjárframlög upp á 55 milljarða króna til samfélagslegra verkefna án þess að það kæmi niður á afkomu ríkissjóðs. Fjárlögunum var síðan fylgt eftir með fjármálaáætlun til fimm ára sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor og felur í sér að framlög til mikilvægra málaflokka verða aukin jafnt og þétt til ársins 2023. Samtals hefur ríkisstjórnin því tryggt að á sex árum munu árleg framlög til mikilvægra mála verða aukin um 140 milljarða króna, þar af verða árleg framlög til heilbrigðismála um 60 milljörðum hærri en þau voru árið 2017.

Til þess að setja þessa innspýtingu til samfélagslegra verkefna í samhengi þá lofuðu þeir stjórnmálaflokkar sem lengst gengu fyrir síðustu tvennar kosningar 40-50 milljarða aukningu á fjórum til fimm árum. Við getum líka horft á þessa 140 milljarða aukningu í samhengi við sameiginlegar breytingartillögur stjórnarandstöðunnar við fjárlög ársins 2016 sem þóttu á þeim tíma róttækar en fólu í sér 16 milljarða aukningu. Það þarf því ekki að deila um að áform ríkisstjórnarinnar um samfélagslega uppbyggingu ganga framar öllum fyrirheitum sem gefin voru fyrir síðustu tvennar kosningar .

Bætt opinber þjónusta og kolefnishlutlaust Ísland
Allir landsmenn eiga að geta treyst á örugga heilbrigðisþjónustu þegar eitthvað bjátar á. Styrking heilbrigðiskerfisins hefur verið forgangsmál í hugum landsmanna þegar viðhorf þeirra hefur verið kannað til mikilvægustu málaflokkanna fyrir kosningar síðustu ára.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að tryggja að fólk geti einfaldlega treyst því að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu þegar á reynir. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka framlög til heilbrigðismála um 19% að raunvirði á næstu fimm árum, til viðbótar við þá 11% aukningu sem ákveðin var í fyrstu fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Mikilvægasta verkefnið er að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabili fjármálaáætlunar, þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum. Þetta er samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni ein mikilvægasta jöfnunargerð sem hægt er að ráðast í. Þá hefur núverandi heilbrigðisráðherra lagt áherslu á að forgangsraða í þágu geðheilbrigðismála og heilsugæslunnar um land allt.

Öryggi á þjóðvegum og greiðar samgöngur eru stórmál fyrir alla landsmenn. Það hefur legið fyrir lengi að þörf hefur verið á innspýtingu í samgöngumálin. Eitt af fyrstu verkefnum núverandi ríkisstjórnar var að setja strax fjóra milljarða til viðbótar inn í samgöngumál. Settir verða 16,5 milljarðar inn í samgönguframkvæmdir til viðbótar við fyrri áætlanir þannig að fjárfestingar í þessum geira munu nema um 124 milljörðum á næstu árum. Samgönguáætlun verður lögð fram í haust og þar munu birtast fyrirætlanir um úrbætur í samgöngumálum sem munu nýtast um land allt, bæði í almenningssamgöngum og vegaframkvæmdum.

Aukin framlög til menntunar, bæði framhaldsskóla en ekki síst háskólastigsins, endurspegla þann skýra vilja ríkisstjórnarinnar að horfa til framtíðar og tryggja atvinnusköpun sem hvílir á hugviti og þekkingarsköpun. Öll sú uppbygging mun skila sér í samfélagslegum ávinningi fyrir almenning í landinu og tryggja aukinn jöfnuð.
Sömuleiðis er mikilvægt að minna á að yfir stendur vinnu í samráði við forsvarsmenn heildarsamtaka öryrkja um hvernig unnt er að breyta almannatryggingakerfinu og bæta kjör öryrkja en gert er ráð fyrir alls 6 milljörðum til viðbótar í þann málaflokk í komandi fjárlagafrumvarpi.

Styrk stjórn efnahagsmála og uppbygging samfélagslegra innviða eru mikilvæg verkefni en ekki skipta umhverfismálin minna máli. Ný og framsækin aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verður kynnt nú í haust þar sem fyrstu skrefin í átt að kolefnishlutlausu Íslandi verða kynnt. Þar verða allir aðilar kallaðir að borðinu þannig að Ísland geti skipað sér í hóp framsæknustu ríkja heims í loftslagsmálum.

Gerum góða stöðu betri fyrir alla
Þegar lykiltölur eru skoðaðar fyrir Ísland má ljóst vera að ólíkt mörgum nágrannalöndum hafa Íslendingar unnið mjög vel úr hruninu og flestar kennitölur stefna í rétta átt. Skuldastaða ríkissjóðs fer batnandi, kaupmáttur hefur aukist verulega vegna þess að aukin verðbólga hefur ekki fylgt launahækkunum, ekki síst vegna hagfelldra ytri aðstæðna. Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til þeirrar jöfnunaraðgerðar að lækka kostnað sjúklinga og var því forgangsraðað að lækka tannlæknakostnað aldraðra og öryrkja með nýrri gjaldskrá sem tekur gildi á næstu dögum. Kostnaður sjúklinga verður lækkaður í skrefum þannig að hann verði í takt við önnur Norðurlönd eða 16,5% í lok tímabils fjármálaáætlunar. Opinber fjárfesting er á uppleið sem er afar mikilvægt þegar hægst hefur á hagvexti til að tryggja áframhaldandi velsæld.
Ríkisstjórnin er staðráðin að halda áfram á þessari braut. Eitt mikilvægasta verkefnið á þeirri leið er gott samstarf stjórnvalda og vinnumarkaðar. Núverandi ríkisstjórn hefur þegar haldið tíu fundi með aðilum vinnumarkaðarins, forsvarsmönnum Sambands sveitarfélaga og ríkissáttasemjara þar sem ýmis mál hafa verið rædd. Sum þeirra hafa þegar skilað sér í aðgerðum. Þannig voru atvinnuleysisbætur og greiðslur úr ábyrgðarsjóði launa hækkaðar í vor og kjararáð hefur verið lagt niður eftir ítarlega greinargerð sem unnin var í samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Frekari aðgerðir eru í undirbúningi og þar verður hlustað náið eftir óskum aðila vinnumarkaðarins
Framundan er endurskoðun laga um Seðlabankann sem mun styrkja umgjörð peningastefnunnar. Sömuleiðis stendur yfir vinna til að styrkja umgjörð fjármálakerfisins og síðast en ekki síst er hafin vinna við hvernig við Íslendingar ætlum að takast á við tæknibreytingar sem oft eru kenndar við fjórðu iðnbyltinguna og hvernig við getum tryggt að hugvit og þekkingariðnaður verði ein af grundvallarstoðunum fyrir íslenskt efnahagslíf til framtíðar.
Það er þetta mikilvæga jafnvægi samfélags, umhverfis og efnahags sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir. Það er leiðarljós sem mun verða íslensku samfélagi mikilvægt til framtíðar og tryggja bætt lífskjör alls almennings.

,

Samráð um kjaramál.

Ríkisstjórnin hefur fundað tíu sinnum með forystu verkalýðshreyfingarinnar, fulltrúum atvinnurekenda og fleirum síðan í desember sl. Við höfum nú birt á vefsíðu Stjórnarráðsins dagskrá allra fundanna auk allra þeirra gagna sem lögð voru fram til kynningar og umfjöllunar. Það er mín skoðun að almenningur eigi rétt á því að fylgjast með samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á hverjum tíma. Viðfangsefnin hafa verið fjölmörg enda mörg mál sem þessir aðilar hafa sameiginlega hagsmuni af að ræða.

Fyrsti samráðsfundurinn var haldinn í desember 2017, enda var það eitt af forgangsmálum mínum sem forsætisráðherra að slá nýjan tón í samskiptunum og sýna strax að þessi ríkisstjórn hafi skýran vilja til að hlusta eftir óskum og áhyggjum bæði verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúa atvinnurekenda og bregðast við þeim eins og helst er unnt. Þetta höfum við sýnt, því nú þegar er nokkrum verkefnum lokið sem leitt hafa af samtali stjórnvalda og aðilanna, og mörg önnur í fullri vinnslu.

Við höfum hlustað eftir þeirri kröfu um félagslegar umbætur sem ASÍ setti á oddinn og hækkað atvinnuleysisbætur um 19%, úr 227.417 kr. á mánuði í 270.000 kr. á mánuði. Að sama skapi hækkuðum við greiðslur úr ábyrgðasjóði launa verulega, en þær greiðslur höfðu ekki fylgt kaupgjaldi og höfðu verið langt undir meðaltekjum í lengri tíma líkt og verkalýðshreyfingin benti á. Þann 1. júlí sl. hækkuðu hámarksgreiðslur úr sjóðnum um 64%, úr 385.000 krónum í 633.000 krónur á mánuði. Hámarksábyrgð sjóðsins vegna tryggingar á greiðslu orlofs hækkaði sömuleiðis úr 617.000 krónum í 1.014.000 krónur.

Við skipuðum líka sameiginlegan starfshóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um kjararáð. Niðurstaða hópsins var að leggja ætti kjararáð niður og það hefur nú verið gert. Í forsætisráðuneytinu er enn fremur í smíðum frumvarp um breytingar á fyrirkomulagi kjara æðstu embættismanna ríkisins til að tryggja að þau séu í takt við almenna launaþróun í landinu. Það frumvarp verður lagt fram á þessu haustþingi.

Verkefnin sem unnið er að má finna hér og ég hvet ykkur til að kynna ykkur efnið nánar hér : samráð.

Sem dæmi má nefna að nú stendur yfir endurskoðun á skatta- og bótakerfum í samráði við aðila vinnumarkaðarins, með það að markmiði að draga úr skattbyrði tekjulægri hópa. Niðurstöður þeirrar vinnu eru væntanlegar á haustmánuðum.

Kjaramál verða fyrirferðarmikil á komandi vetri og ríkisstjórnin hefur bæði með orðum og gjörðum sýnt vilja sinn til að greiða fyrir gerð kjarasamninga með aðgerðum í þágu félagslegs stöðugleika. Enn fremur hafa í okkar ríkisstjórnartíð tvær kjaradeilur endað í verkfallsaðgerðum. Í hvorugt skiptið var gripið til lagasetningar á verkföllin eins og algengt hefur verið undanfarin ár, heldur voru deilurnar leystar í sátt. Þetta er til marks um þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur lagt og mun leggja í áframhaldandi samtölum við aðila vinnumarkaðarins.

,

Kynningarfundir um drög að frumvarpi um nýja stofnun fyrir verndarsvæði á Íslandi

Umhverfis- og auðlindaráðherra boðar til funda með sveitarfélögum, umhverfisverndarsamtökum, ferðamálasamtökum og útivistarsamtökum þar sem kynnt verða drög að frumvarpi um nýja stofnun sem ætlað er að hafa með höndum umsýslu allra þjóðgarða á Íslandi og annarra friðlýstra svæða auk almennrar náttúruverndar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðgarðarnir þrír, Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn á Þingvöllum og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, verði sameinuð í eina stofnun sem og önnur friðlýst svæði landsins. Þá verði undirbúningur friðlýsinga, eftirlit á friðlýstum svæðum og stjórnun þeirra meðal verkefna hinnar nýju stofnunar.

Helstu markmið með stofnuninni er að efla náttúruverndarsvæði með einföldun stjórnkerfis, aukinni skilvirkni og samnýtingu þekkingar. Með yfirsýn yfir málefni friðlýstra svæða á einum stað skapast breiður vettvangur til heildstæðrar stefnumótunar til lengri tíma.

Í skipulagi og fyrirkomulagi stjórnunar stofnunarinnar er lögð áhersla á valddreifingu og aðkomu sveitarfélaga og samtaka almennings að stjórnun og stefnumótun svæðanna sem undir hana heyra.

Fundir verða haldnir á eftirfarandi stöðum og dagsetningum:

Fundur 15. ágúst í félagsheimilinu Dalabúð, Búðardal kl. 15:30 – 17:30
Fundur 16. ágúst í Pakkhúsinu, Hólmavík kl. 15:30 – 17:30
Fundur 22. ágúst í Rauða kross salnum, Strandgötu 24, Hafnarfirði kl. 15:00 – 17:00
Fundur 23. ágúst á Hótel Kea, Akureyri kl. 15:30 – 17:30
Fundur 28. ágúst á Hótel Héraði, Egilsstöðum kl. 15:00 – 17:00
Fundur 3. september á Fosshótel Vatnajökli, Höfn í Hornafirði kl. 10:15 – 12:15
Fundur 3. september í félagsheimilinu Hvoli, Hvolsvelli kl. 17:00 – 19:00