,

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur skipað stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur skipað stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Meginhlutverk hópsins er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi.

Viðfangsefni stýrihópsins verður meðal annars að gera tillögur um útfærslu á aðgerðum sem kveðið er á um í nýrri aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og taka afstöðu til frekari úrbóta. Einnig skal stýrihópurinn fylgjast með framkvæmd áætlunarinnar og beita sér fyrir fullnægjandi fjármögnun hennar. Þá mun stýrihópurinn beita sér fyrir fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) og gera tillögu um samræmd viðbrögð stjórnvalda við #metoo-byltingunni, bæði er lýtur að samfélaginu í heild og að Stjórnarráðinu og stofnunum þess sem vinnuveitanda. Loks er hópnum falið að móta stefnu um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

Stýrihópurinn mun vera forsætisráðherra og ráðherranefnd um jafnréttismál til ráðgjafar í stefnumótun er lýtur að kynferðislegu ofbeldi, kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni í íslensku samfélagi og jafnframt er gert ráð fyrir að allt að 5 milljónum kr. verði varið í sérstök forgangsverkefni sem stýrihópurinn mun vinna að á þessu ári.

Formaður hópsins er Halla Gunnarsdóttir, fulltrúi forsætisráðuneytis, en auk hennar eiga sæti í stýrihópnum fulltrúar dómsmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis.

Gert er ráð fyrir að hópurinn skili verkáætlun til þriggja ára, ásamt yfirliti yfir stöðu verkefnanna og eftir atvikum tillögum um úrbætur og verkefni, til ráðherranefndar um jafnréttismál, eigi síðar en 1. september nk.

, ,

Langtímasýn um fjöregg þjóðarinnar.

Einn mesti auður Íslendinga felst í náttúru landsins. Hún er og hefur verið undirstaða velmegunar, atvinnulífs og afkomu þjóðarinnar um aldir. Þá hefur hún mikið aðdráttarafl fyrir þá sem vilja njóta þeirrar ómetanlegu fegurðar sem landslag, jarðmyndanir, gróður, lífríki og önnur undur íslenskrar náttúru hafa upp á að bjóða. Stöðugur og sívaxandi straumur ferðamanna á náttúrusvæðum landsins er ein skýrasta birtingarmynd þessa.

Öll höfum við notið góðs af þeirri hagsæld sem auknar heimsóknir ferðamanna hingað til lands hafa haft í för með sér. Á sama tíma er brýnt að gæta að því að aukið álag vegna heimsókna ferðamanna valdi því ekki að náttúran beri skaða af. Það þarf að gæta fjöreggsins af kostgæfni.

Nýrri landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, er einmitt ætlað að takast á við þetta verkefni. Drög að áætluninni voru lögð fram til kynningar á nýrri samráðsgátt Stjórnarráðsins á dögunum en um er að ræða stefnumarkandi áætlun til tólf ára sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt sem þingsályktun frá Alþingi síðar í vor. Samhliða áætluninni er einnig í kynningu þriggja ára verkefnaáætlun, þar sem settar eru fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti fjárstuðnings á árunum 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu. Einnig verður fjármagni veitt í að leiðbeina við gerð innviða svo þeir falli sem best að landslagi og náttúru.

Um tímamót er að ræða því þetta er í fyrsta sinn sem tekið er á auknu álagi á náttúru landsins af völdum aukins ferðamannaþunga með heildstæðum og samræmdum hætti og með langtímamarkmið að leiðarljósi. Þannig er áætluninni ætlað að veita yfirsýn yfir brýnustu verkefnin á þessu sviði og tryggja að því fjármagni sem ætlað er til innviðauppbyggingar sé varið með sem skilvirkustum hætti. Ég vil hvetja alla til að kynna sér drögin að lands­áætluninni á samradsgatt.island.is, en þar má einnig skila umsögnum til 26. febrúar næstkomandi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

,

Fjölgun sálfræðinga í almenna heilbrigðiskerfinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallar um fjölgun sálfræðinga í almenna heilbrigðiskerfinu í blaðagrein í Morgunblaðinu í dag og eflingu geðheilbrigðisþjónustunnar. Hún segir skýrt ákall í samfélaginu um að þjónusta sálfræðinga verði hluti af hinu almenna opinbera heilbrigðiskerfi:

Sálfræðingum fjölgar í almenna heilbrigðiskerfinu

Í samfélaginu öllu má heyra ákall eftir aukinni þjónustu sálfræðinga, ákall þess efnis að þjónusta sálfræðinga skuli vera hluti af hinu almenna, opinbera heilbrigðiskerfi. Efling geðheilbrigðisþjónustu er meðal markmiða nýrrar ríkisstjórnar og eitt þeirra atriða sem ég mun leggja sérstaka áherslu á sem heilbrigðisráðherra. Sálfræðiþjónusta er gríðarlega mikilvægur þáttur í geðheilbrigðisþjónustu. Rannsóknir sýna til dæmis að hugræn atferlismeðferð er ein árangursríkasta meðferð sem völ er á í dag við kvíða og þunglyndi. Í þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl 2016 er meðal annars gert ráð fyrir sálfræðiþjónustu sem stærri hluta af hinu opinbera heilbrigðiskerfi, þ.e. fjölgun sálfræðinga innan heilsugæslunnar. Markmið geðheilbrigðisáætlunar til 2020 er að aðgengi að meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, t.d. þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 90% heilsugæslustöðva í lok ársins 2019, og miðað er við að 9000 manns séu á hvert stöðugildi sálfræðings. Nú þegar hefur tekist að tryggja fjárveitingar til allra heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni til að uppfylla markmiðið um að eitt stöðugildi sálfræðings sinni 9.000 manns. Áformað er að markmiðið náist á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Á síðastliðnu ári var stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um fjögur. Á þessu ári munu bætast við sex stöðugildi sálfræðinga og árið 2019 munu fjögur stöðugildi sálfræðinga á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins bætast við. Svokölluðum geðheilsuteymum við heilsugæslustöðvar verður einnig fjölgað, í samstarfi við sveitarfélögin, og nýjum teymum komið á fót í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki til staðar. Geðheilsuteymi eru þverfagleg teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem koma að greiningu og meðferð fólks sem glímir við geðraskanir. Eitt teymanna mun sérhæfa sig í þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og glíma við geðröskun. Nú þegar er starfandi geðheilsuteymi í Breiðholti, en áætlað er að flytja teymið í Grafarvog þar sem það mun sinna öllu austursvæði höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningur geðheilsuteymis fyrir vesturhluta borgarinnar er hafinn, auk þess sem sett verður á stofn geðheilsuteymi fyrir suðurhluta borgarinnar, þ.e. Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Árið 2019 eiga geðheilsuteymi að hafa tekið til starfa á öllum landshlutum.“

Grein Svandísar Svarasdóttur heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 15. janúar 2018

,

Birgir Jakobsson verður aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ráðið Birgi Jakobsson aðstoðarmann sinn í velferðarráðuneytinu. Birgir tekur til starfa 1. apríl næstkomandi þegar hann lætur af embætti landlæknis.
Birgir hefur gegnt embætti landlæknis frá 1. janúar 2015. Fyrir þann tíma starfaði hann í Svíþjóð um langt árabil þar sem hann gegndi ýmsum stjórnunarstöðum við sjúkrahús þar í landi. Sérgrein Birgis er barnalækningar og árið 1988 lauk hann doktorsprófi frá Karolinska Institutet. Hann gegndi um árabil yfirlæknisstöðu á barnadeild Huddinge sjúkrahússins í Stokkhólmi, árið 2003 tók hann við starfi sjúkrahússtjóra við Capio St. Görans sjúkrahússins í Stokkhólmi og frá árinu 2007 var hann forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi þar til hann var skipaður landlæknir.
Svandís Svavarsdóttir segir mikinn feng í Birgi sér til aðstoðar við þau stóru og flóknu verkefni sem heyra undir embætti heilbrigðisráðherra. Hann hafi viðamikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu, bæði á sviði stjórnunar og stefnumótunar og fagþekking hans sem læknis sé einnig mikilvæg. Sem landlæknir hafi hann öðlast mikilvæga yfirsýn yfir íslenska heilbrigðiskerfið: „Í Embætti landlæknis hefur Birgir komið fram með skýra sýn á ýmsa þætti sem hann telur mega betur fara í heilbrigðiskerfinu og um mótun heilbrigðisstefnu til framtíðar sem byggist á samfélagslegri sátt. Áherslur hans falla vel að þeim verkefnum sem ég mun setja á oddinn á komandi misserum og ég hlakka til að vinna með honum,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Birgir verður annar tveggja aðstoðarmanna Svandísar. Hinn aðstoðarmaður hennar er Iðunn Garðarsdóttir lögfræðingur sem tók til starfa í velferðarráðuneytinu í byrjun desember.