Næstu skref – heilbrigðisráðherra skrifar

Næstu skref

Við þinglok og upphaf sumars er tilvalið að líta fram á veginn. Verkefnin framundan í heilbrigðishluta velferðarráðuneytisins eru mörg og mikilvæg. Á döfinni eru verkefni sem eiga það sameiginlegt að stuðla að eflingu heilbrigðiskerfisins og betra og jafnara heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn.

Til dæmis má nefna gerð heilbrigðisstefnu og heilbrigðisþing, sem haldið verður í nóvember. Vinna við gerð heilbrigðisstefnu er hafin en hún verður unnin með hliðsjón af þörfum allra landsmanna. Skilgreina þarf betur hlutverk og samspil einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og á heilbrigðisþinginu í haust verða þær áherslur ræddar sem birtast í stefnunni.

Einnig má nefna stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslu á landsvísu. Þróunarmiðstöðin mun leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu og þróun þjónustuúrræða í heilsugæslu. Þróunarmiðstöðin mun einnig leiða samstarf á sviði rannsókna og stuðla að því að sérhæfð þekking fagfólks heilsugæslunnar um allt land nýtist sem best. Samhæfing þjónustu á landsvísu er eitt af meginmarkmiðum með stofnun miðstöðvarinnar, þannig að betur megi tryggja jafnt aðgengi að sambærilegri heilsugæsluþjónustu, óháð búsetu. Vonast er til þess að starfsemin geti hafist strax í haust eða vetur.

Uppbygging hjúkrunarrýma á landinu öllu er aðkallandi verkefni sem mun hafa jákvæð áhrif á heilbrigðiskerfið allt. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er gert ráð fyrir uppbyggingu 550 hjúkrunarrýma fram til ársins 2023, en það er aukning um 300 frá fyrri áætlun.

Verkefni tengd Landspítala og starfseminni þar eru nokkur. Tilboð vegna jarðvegsvinnu við Hringbraut hafa komið fram, sem og tilboð í fullnaðarhönnun rannsóknarhúss. Jarðvegsvinna og framkvæmdir við meðferðarkjarnann hefjast í sumar en stefnt er að því að bygg­ingu nýs þjóðar­sjúkra­húss við Hring­braut verði lokið árið 2024, í sam­ræmi við fjár­mála­áætl­un 2019-2023.

Stefnt er að aukinni göngudeildarþjónustu við Landspítala, með því að nýta húsnæði við Eiríksstaði sem nú hýsir skrifstofur yfirstjórnar spítalans. Á Eiríkisstöðum yrði til dæmis aðstaða fyrir brjóstamiðstöð Landspítala, miðstöð um sjaldgæfa sjúkdóma, erfðaráðgjöf og innskriftarmiðstöð, auk annarrar göngudeildarþjónustu. Efling göngudeildarþjónustu er mikilvægur liður í styrkingu hins opinbera heilbrigðiskerfis.

Nefna má fjölmörg önnur verkefni sem framundan eru; til dæmis eflingu sérgreinaþjónustu á landsbyggðinni með það markmið í huga að stuðla að jöfnu aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu. Einnig efling utanspítalaþjónustu og aukna áherslu á notkun gæðavísa í heilbrigðisþjónustu.

Það er mikilvægt að nýta tímann vel í þágu heildstæðrar heilbrigðisþjónustu og þar er sumarið líka góður tími.

Svandís Svavarsdóttir

grein sem birtist í Morgunblaðinu 17.06.2018

,

Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður

Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Sigríður er fædd og uppalin á Akranesi. Hún er með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands, með mannfræði sem aukagrein, og meistarapróf í þróunar- og átakafræðum frá University of East Anglia í Bretlandi.

Sigríður hefur síðastliðin ár stýrt kynningarmálum hjá UNICEF á Íslandi en hún hóf þar störf sem upplýsingafulltrúi árið 2011.

Á árunum 2000-2011 vann Sigríður sem blaðamaður, ýmist í lausamennsku, í fullu starfi eða meðfram námi. Hún vann fréttaskýringar, viðtöl, pistla og ferðasögur víðs vegar frá í heiminum og skrifaði einnig verðlaunabókina „Ríkisfang: Ekkert“ um hóp palestínskra kvenna og barna sem flúðu Írak og enduðu á Akranesi. Bókin var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna og hlaut verðlaun Hagþenkis.
Maki Sigríðar er Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur, og eiga þau tvö börn saman, Hauk 4 ára og Laufeyju 8 mánaða.

Sigríður mun hefja störf í áföngum í sumar, samhliða því að klára fæðingarorlof, og koma síðan alfarið til vinnu 1. september.

,

Heyrnarfræðingar löggiltir sem heilbrigðisstétt

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð sem kveður á um menntun, réttindi og skyldur  heyrnarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Reglugerðin felur í sér löggildingu stéttarinnar og hefur sá einn rétt til að kalla sig heyrnarfræðing og starfa sem slíkur hér á landi sem hefur fengið til þess leyfi landlæknis.

Ákvörðun ráðherra um að löggildingu heyrnarfræðinga er í samræmi við tillögu starfshóps sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði í ágúst 2017 til að fara yfir þjónustu við einstaklinga með heyrnarskerðingu og talmein með það að markmiði að hún verði sem best.Heyrnarfræðingar sjá um heyrnarmælingar, fræðslu og endurhæfingu heyrnarskertra. Eins og fram kemur í umfjöllun starfshópsins er mikilvægt að við greiningu á heyrnarskerðingu sé unnið samkvæmt viðurkenndri þekkingu, fræðum og fagmennsku. Því var það mat hópsins að brýnt væri að gera heyrnarfræðinga að löggiltri heilbrigðisstétt til að tryggja gæði þjónustunnar sem þeir veita.

Í samanburði við nágrannalöndin er skortur á heyrnarfræðingum hér á landi. Taldar eru líkur til þess að löggilding muni fjölga nemendum í heyrnarfræði og að íslenskar menntastofnanir taki upp menntunarbraut í heyrnarfræði.

Reglugerðin er sett með stoð í lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Hún hefur nú verið send Stjórnartíðindum og öðlast gildi við birtingu.

 

Eftir 140 daga

Á þeim 140 dögum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur verið starfandi hefur ríkisstjórnin unnið hörðum höndum að því að koma aðgerðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar í framkvæmd. Heilbrigðismálin eru í forgangi í stjórnarsáttmálanum. Fyrsti kafli stjórnarsáttmálans er helgaður þeim og þar er að finna fjölmargar mikilvægar aðgerðir og markmið, sem öll miða að því að bæta íslenska […]

,

Aukin samvinna ríkis og sveitarfélaga í öldrunarþjónustu – allra hagur!

Aukin samvinna ríkis og sveitarfélaga í öldrunarþjónustu – allra hagur!

Reykjavíkurborg samþykkti á dögunum nýja stefnu í málefnum eldri borgara til ársins 2022. Þar er kveðið á um nauðsyn þess að efla samstarf við ríkið í þessum mikilvæga málaflokki meðal annars með því að fjölga hjúkrunarrýmum. Þessi áform borgarinnar ríma vel við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem boðuð er stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Skortur hefur verið á hjúkrunarrýmum í alltof langan tíma og nú er svo komið að biðtími eftir hjúkrunarrýmum er óásættanlega langur. Bara á höfuðborgarsvæðinu vantar um 130 rými til þess að uppfylla þörf fyrir þjónustu. Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt og vel við þessu ákalli. Það skiptir ekki aðeins máli fyrir lífsgæði aldraðra, heldur hefur fjölgun hjúkrunarrýma áhrif á heilbrigðiskerfið allt. Skort á legurýmum á Landspítala má að stórum hluta skýra með því að alltof margir eldri borgarar fá ekki viðeigandi þjónustu, þ.e. pláss á hjúkrunarheimili. Fjölgun hjúkrunarrýma hefur auk þess þau áhrif að heilbrigðisþjónusta verður markvissari og Landspítala, heilsugæslu og öðrum heilbrigðisstofnunum er gert kleift að sinna öllum þeim brýnu verkefnum sem fyrir liggja enn betur en nú er raunin.

 

Fjölgun hjúkrunarrýma

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er tekið á þessum vanda með afgerandi hætti. Hjúkrunarrýmum verður fjölgað á landinu öllu um 300 frá fjármálaætlun síðastliðins árs auk þess sem dagdvalarrýmum verður fjölgað um allt land. Uppbygging er þegar hafin á nýju hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík með um 100 rýmum en þar verður auk þess byggð dagdeild með um 30 dagdvalarrýmum. Þegar eldri borgarar þurfa á meiri stuðningi að halda, en hægt er að veita í heimahúsum, getur dagdvöl nýst til að rjúfa félagslega einangrun og styðja við áframhaldandi sjálfstæða búsetu. Mikilvægt er að tryggja aðgengi eldra fólks að dagdvalarrýmum og þá þarf að þróa frekari sérhæfingu í dagdvölum, sem geta komið til móts við mismunandi þarfir aldraðra.

 

Fjölbreyttur hópur

Þegar þjónusta við aldraða er annars vegar þarf að hafa í huga að aldraðir eru fjölbreyttur hópur. Engin ein lausn hentar öllum og því þarf að tryggja að í boði séu úrræði sem henta hverjum og einum einstaklingi. Hluti af því er að veita fólki sem enn getur búið heima viðeigandi stuðning. Öflug og fjölbreytt stuðningsþjónusta heim er þar vegamikill þáttur. Þá skiptir einnig máli að allir þeir sem koma að þjónustu við aldraða, ríki og sveitarfélög, vinni vel saman. Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár veitt samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu til íbúa Reykjavíkur gegn samningi við ríkið. Ljóst er eftir innleiðingu verkefnisins að samþættingin veitir notendum heildstæðari þjónustu en áður. Nú hefur samningurinn verið endurnýjaður og sérstakt fjármagn sett í að sinna endurhæfingu í heimahúsi.

Hugmyndafræði endurhæfingar í heimahúsum stuðlar að sjálfstæði, auknu öryggi og sjálfsbjargargetu, betri lífsgæðum og meiri virkni eldra fólks. Með þeirri nálgun fá eldri borgarar, sem vegna færniskerðingar eða í kjölfar slysa og veikinda upplifa erfiðleika við athafnir daglegs lífs, aðstoð á eigin heimili. Aðstoðin felst í því að virkja notendur og styrkja þá til að vera virkir þátttakendur í eigin lífi eins lengi og mögulegt er. Endurhæfingin er veitt af fagaðilum og fer þjónustan öll fram inni á heimili viðkomandi og í hans daglega umhverfi.

 

Mikilvægt samstarf

Samstarf ríkis og sveitarfélaga er mikilvægur hlekkur í því að tryggja öldruðum samfellda gæðaþjónustu. Núverandi fyrirkomulag samþættrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar hjá Reykjavíkurborg er til fyrirmyndar og því vert að efla það fyrirkomulag enn frekar. Í því skyni að stuðla að enn markvissara samstarfi ríkisins og Reykjavíkurborgar í þessum málaflokki boðaði heilbrigðisráðherra, í samvinnu við Landspítala og formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar, til vinnustofu í lok apríl. Þar ræddu saman aðilar, sem koma að öldrunarþjónustu, um áskoranir í þjónustu við aldraða. Lögð verður áhersla á að vinna úr þeim tillögum, sem vinnustofan skilaði, með það að markmiði að gera þjónustu við aldraða enn heildstæðari og markvissari.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Elín Oddný Sigurðardóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar

 

,

Landspítali í sókn

Í síðastliðinni viku var útboð jarðvinnu við nýjan meðferðarkjarna auglýst, en meðferðarkjarninn er hluti uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut.

Jarðvegsvinna og framkvæmdir við meðferðarkjarnann hefjast svo í sumar, en kjarninn er stærsta bygging Landspítalaverkefnisins. Í meðferðarkjarna verða meðal annars bráðamóttaka, myndgreining, skurðstofur, hjartaþræðing, gjörgæslur, apótek, dauðhreinsun og um 210 legurými, sem öll verða einbýli. Ljóst er að meðferðarkjarninn mun gjörbreyta allri aðstöðu fyrir sjúklinga, starfsfólk, aðstandendur og starfsemi sjúkrahússins í heild. Hann er því stór og mikilvægur áfangi í uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins okkar.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er gert ráð fyrir tæplega 75 milljarða króna fjárfestingu í sjúkrahússþjónustu. Stærstur hluti þess fjármagns rennur til uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut, en meginþungi framkvæmda við nýjan spítala við Hringbraut mun fara fram á árunum 2020-2023. Gangi áætlanir eftir lýkur byggingu spítalans svo árið 2024. Fullnaðarhönnun við byggingarnar stendur nú yfir og við þá vinnu hefur aðferðafræði notendastuddrar hönnunar verið nýtt. Það þýðir að hagsmunaaðilar og þeir sem koma munu að þjónustunni taka virkan þátt í hönnunarferlinu.

Við uppbyggingu nýs Landspítala er einnig lögð áhersla á  þarfir nemenda í heilbrigðisvísindadeildum og öll hönnun bygginganna er miðuð við þær þarfir. Sú áhersla í hönnun, auk nálægðrar spítalans við Háskóla Íslands og þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir miklu máli vegna rannsóknar og kennslu, og rímar vel við áherslu mína á aukið vísindastarf innan heilbrigðiskerfisins.

Nýlega skipaði ég samstarfsráð til að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut, efla samráð og miðlun upplýsinga þannig að áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun taki sem best mið af áherslum þeirra sem tengjast verkefninu. Samstarfsráðið mun starfa á vegum velferðarráðuneytisins og vera mér til samráðs og ráðgjafar meðan á uppbyggingunni stendur. Ég er viss um það að með samstarfsráðinu gefst tækifæri til að tryggja betri skilning aðila á verkefnunum á framkvæmdatímanum, stilla saman strengi og draga fram hugmyndir að lausnum á þeim verkefnum sem framundan eru.

Framkvæmdir við meðferðarkjarnann eru því gleðitíðindi. Ég er sannfærð um það að uppbygging við Hringbraut verður mikið heillaskref fyrir Landspítalann og að Landspítalaverkefnið mun hafa jákvæð áhrif á heilbrigðisþjónustu í landinu öllu.

Greinin birtist í morgunblaðinu

Svandís Svavarsdóttir – heilbrigðisráðherra

,

Ávarp forsætisráðherra á ársfundi samtaka atvinnulífsins.

Miklu skipti að stjórnvöld, atvinnurekendur og verkalýðshreyfing leiti leiða til að auka stöðugleika. „Þar sem efnahagsleg hagsæld er sem mest er líka mest áhersla á félagsleg gæði og jöfnuð. Þannig að ég legg áherslu á að við nýtum þá mánuði sem eru framundan til þess að ná saman um það hvert við viljum stefna í þessum málum þannig að við tryggjum áfram hagsæld en líka félagslegar framfarir,“ sagði Katrín á ársfundi samtaka atvinnulífsins.

,

Öflugra heilbrigðiskerfi

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður rædd í þinginu í dag og á morgun. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára er nú lögð fram á alþingi í þriðja sinn á grundvelli laga nr. 123/2015 um opinber fjármál. Áætlunin endurspeglar þær áherslur sem lagðar eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í áætluninni er brugðist við ákalli samfélagsins um að fjármagna betur mikilvæga samfélagsþjónustu og innviði velferðarkerfisins.

Útgjöld til reksturs heilbrigðismála aukast umtalsvert samkvæmt nýju fjármálaætluninni. Miðað við fjárlög yfirstandandi árs aukast útgjöld til heilbrigðismála um 79 milljarða króna alls á næstu fimm árum. Stofnkostnaður, m.a. vegna byggingaframkvæmda, verður 101 milljarður á tímabilinu. Stefnt er að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabili fjármálaáætlunar, þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum.

Meðal verkefna tímabilsins er gerð heilbrigðisstefnu, að skapa aðstæður fyrir aukna göngudeildarþjónustu á Landspítala auk áframhaldandi framkvæmda við spítalann. Þar á meðal eru byggingaframkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut sem hefjast á þessu ári.

Framlög til geðheilbrigðismála verða aukin á tímabilinu og komið verður upp geðheilsuteymum um allt land í samræmi við aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum.

Þá verður unnið á markvissan hátt að því að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar og efla hana sem fyrsta viðkomustað. Fyrirkomulag sjúkraflutninga verður tekið til endurskoðunar í samræmi við þarfagreiningar, og áhersla lögð á öryggi og gæði þjónustunnar.

Hjúkrunarrýmum verður fjölgað um 300 frá fjármálaáætlun síðastliðins árs.
Skimun vegna ristilskrabbameins mun hefjast á tímabilinu og áfram verður stutt við heilsueflandi samfélög. Unnið verður að því að bæta aðgang almennings að nauðsynlegum lyfjum. Þá verður aðgangur þeirra er nota vímuefni í æð að hreinum sprautubúnaði tryggður og ráðist í aðgerðir til að sporna við misnotkun á geð- og verkjalyfjum. Neyslurými fyrir langt leidda fíkniefnaneytendur verður opnað. Stefnt verður að því að bæta aðgengi að hormónatengdum getnaðarvörnum og að dreifa smokkum gjaldfrjálst til tiltekinna hópa. Kynfræðsla verður aukin og fjarheilbrigðisþjónusta efld.

Rauður þráður í þeim köflum fjármálaáætlunar sem varða heilbrigðisþjónustu er styrking hins opinbera heilbrigðiskerfis. Öflugt opinbert heilbrigðiskerfi er ein af grunnstoðum velferðarkerfisins og við munum leggja ríka áherslu á að efla hið opinbera kerfi, með það að markmiði að auka jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist 11 apríl í Morgunblaðinu

,

Kveðjur heilbrigðisráðherra til ljósmæðra og BHM

Heilbrigðisráðherra sagði í umræðum á Alþingi í gær að hún teldi vinnuframlag ljósmæðra sérstaklega mikilvægt og það beri að meta að verðleikum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var spurð að því í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort hún „telji starfs- og kjaraumhverfi ljósmæðra ásættanlegt og eðlilegt með tilliti til sex ára háskólamenntunar og mikillar sérhæfingar og hvort brugðist verði við af hálfu stjórnvalda, hvernig það verði gert og hvort eitthvert viðbúnaðarplan sé til staðar ef ekki semst.” Í svari sínu sagði ráðherra meðal annars að hún væri þeirrar skoðunar að meta eigi vinnuframlag ljósmæðra til launa og til samfélagslegrar virðingar: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að vinnuframlag og starf ljósmæðra væri sérstaklega mikilvægt. Þarna er um að ræða kvennastétt sem sinnir konum á gríðarlega dýrmætum og mikilvægum tíma í lífi þeirra og mér finnst að það eigi að meta að verðleikum.“ Ráðherra sagðist enn fremur hafa beitt sér í máli ljósmæðra í gegnum forstjóra Landspítalans, til að freista þess að gera það sem hægt sé til að bæta starfsumhverfi og mögulega vaktaumhverfi ljósmæðra. Það hefði verið gert og því spilað inn í kjaraviðræðurnar og vonandi gæti það orðið til að leysa þessa viðkvæmu deilu.

Í dag sendi Ljósmæðrafélag Íslands og Bandalag háskólamanna frá sér yfirlýsingu þess efnis að heilbrigðisráðherra hefði sent þeim kaldar kveðjur í fyrrnefndum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem fallið hefðu orð sem mætti skilja þannig að ráðherra teldi ljósmæður geta sjálfum sér um kennt að þær lækki í launum við að bæta við sig í námi.

„Yfirlýsing ljósmæðra og BHM er að mínu mati bæði óskiljanleg og tilhæfulaus og ég hafna þeirri túlkun á mínum orðum sem þar kemur fram“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Ég ber hag heilbrigðisstétta fyrir brjósti, ljósmæðra sem annarra, enda veit ég að gott heilbrigðiskerfi verður ekki rekið nema þessar stéttir njóti sannmælis, virðingar og launa í samræmi við ábyrgð og mikilvægi starfa þeirra.“

Heilbrigðisráðherra minnir á yfirlýsingu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra sem birt var 12. febrúar síðastliðinn í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna: „Áherslur stjórnvalda og vilji þeirra til að styrkja heilbrigðiskerfið með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu verða varla skýrari en þar kemur fram“ segir ráðherra.