Vestnorrænar vinaþjóðir

Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn í Færeyjum nú á dögunum . Þar var einnig haldið sérstaklega uppá 30 ára afmæli Vestnorræna ráðsins með pomp og pragt enda fullt tilefni til að treysta vinabönd þessara þriggja grannríkja á Norðurslóðum.

Sameiginlegir hagsmunir þessara þriggja nágranna þ.e. Íslands, Færeyja og Grænlands eru miklir og sérstaklega nú um stundir hvað varðar málefni Norðurslóða.   Lögð er mikil áhersla á að hámarka áhrif þeirra á gang mála á Norðurslóðum en þangað horfa nú helstu stórveldi heims og brýnt er að vernda hagsmuni þjóðanna á svæðinu til framtíðar.

Þjóðirnar eiga í dag fjölbreytt samstarf í sjávarútvegi , mennta, menningar og heilbrigðismálum. Ársfundurinn ályktaði að auka ennfrekar þetta samstarf og kortleggja hvernig löndin geti aukið samstarfið á sviði sjávarútvegs,fríverslunar,samgangna og við uppbyggingu innviða þessara samfélaga.

Landfræðileg lega Vestnorræna svæðisins í miðju Norður Atlandshafi á milli meginlands Evrópu og Norður Ameríku og með aukinni tengingu við Asíu gerir það að verkum að flutningar þar eiga eftir að aukast mikið og öll umsvif á svæðinu.

Það er mikið talað um þau tækifæri sem skapast þegar siglingar um Norðurslóðir aukast en minna er talað um ógnanir sem þeim fylgja þar sem lifibrauð þjóðanna er undir ef mengunarslys verða. Málefni norðurslóða eru til umræðu hjá Norðurskautsráðinu og á enn fleiri stöðum og vissulega er hætta á að stórþjóðirnar sem líka eiga mikla hagsmuni undir ráði ferðinni. Mjög mikilvægt er að rödd vestnorrænu ríkjanna heyrist og hafi vægi. Það eru gífurlegir hagsmunir undir til langs tíma að mótuð sé ábyrg og sjálfbær stefna á Norðurslóðum.  Aukin skipaumferð um norðurslóður gerir Ísland að kjörstað fyrir alþjóðlega leitar og björgunarmiðstöð.

Vestnorræna ráðið samþykkti ályktun árið 2013 að kanna hverjar væru orsakir fyrir fækkun kvenna á Vestur norðurlöndum . Ályktunin hefur ekki verið uppfyllt að fullu en haldin var ráðstefna sl.júní í Nuuk þar sem fulltrúar landanna ræddu þennan vanda og í Færeyjum hefur verið kortlagt hvað veldur fólksflutningum frá jaðarsvæðum. Ég tel þetta vera brýnt verkefni sem greina þarf sem best og bregðast við svo ekki eigi illa að fara.

Mikil aukning er í ferðaþjónustu þessara þriggja landa þó ekkert jafnist á við þá sprengingu sem er í fjölda ferðamanna á Íslandi. Það er mikilvægt að auka samstarf í ferðaþjónustu á milli landanna og vinna að sameiginlegri markaðssetningu fyrir Norðurslóðir með sjálfbærni og hreinleika náttúrunnar að leiðarljós. Við skulum minnast þessi að það er vegna náttúrunnar sem ferðamenn sækja til þessara landa fyrst og fremst.

Spennandi verkefni er líka framundan á sviði námskeiða fyrir vestnorræna rithöfunda. Menntamálaráðuneytið á Íslandi er að skoða hvort hægt verði að koma slíkum námskeiðum fyrir í samstarfssamningi um menntun,menningu og rannsóknir sem nú er unnið að á milli landanna og verður til umræðu á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík í haust.

Mikil ásókn er í auðlindir til lands og sjávar í Vest Norrænu ríkjunum af stórþjóðum og auðhringjum. Mikilvægt er að samhæfa krafta þessara grannþjóða til þess að auðlindanýting þeirra sé sjálfbær og að afraksturinn nýtist til uppbyggingar heimafyrir með eflingu samfélaganna og að þjóðirnar haldi yfirráðarétti sýnum yfir eigin auðlindum.

Framundan er þátttaka Vestnorræna ráðsins í Arctic Circle ráðstefnunni þar sem verður m.a. til umræðu lýðræði á norðurslóðum og aðkoma þjóðþinganna að ákvarðanartöku í málefnum norðurslóða.

Forsætisráðherra Grænlands komst vel að orði þegar hann sagði í afmælisræðu sinni á ársfundinum.“ Við sjáum ekki alltaf stjörnurnar en við vitum að þær eru þarna ,eins er með vináttu þessara þriggja landa hún er alltaf til staðar þó höf skilji að“ .

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.

Nefndarfundir

Í þessari viku eru nefndarfundir á Alþingi og því enginn þingfundur. Fundað er í öllum fastanefndum. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er næsti þingfundur mánudaginn 16. mars.

Gleðilega hátíð

Kæru lesendur.

Við óskum ykkur gleðilegrar hátíðar, og megi kærleikur og friður fylla hjörtu um jólin.

Skrifstofa hreyfingarinnar að Strandgötu 11, Hafnarfirði, er lokuð á milli jóla og nýárs. Við opnum aftur mánudaginn 5. janúar.

Vinstri græn

Skýrsla Environice: „Er olíuvinnsla á Drekasvæðinu góð hugmynd?“

Í tengslum við málþing Vg um olíuleit og loftslagsbreytingar sem haldið var um helgina var Environice umhverfisráðgjöf fengin til að taka saman skýrslu um hugsanlega olíuleit og olíuvinnslu við Drekasvæðið og áhrif þess á umhverfið. Í framhaldinu af málþinginu var ákveðið að birta skýrsluna opinberlega hér á heimasíðunni og má nálgast hana hér á pdf-formi.

Í samantekt skýrslunnar segir meðal annars:

„Meginniðurstaða minnisblaðsins er sú að olíuleit og –vinnslu á Drekasvæðinu fylgi fyrirsjáanlega mikil umhverfisleg áhætta. Efnahagsleg áhætta sé einnig veruleg. Háar tölur um mögulegan þjóðhagslegan ávinning hafi verið nefndar, en ekki virðist hafa verið lagt mat á hugsanlegt efnahagslegt tjón. Augljóst megi telja að ákvörðun um að leyfa hvorki leit né vinnslu á svæðinu myndi fela í sér, eða hefði falið í sér, veruleg tækifæri, bæði í efnahagslegu og pólitísku tilliti. Sá ávinningur sé vissulega óþekkt stærð og alls ekki í hendi, en í reynd megi segja það sama um þjóðhagslegan ábata af verkefninu. Útreikningar á ábatanum af olíuvinnslu byggi vissulega á þekktri aðferðafræði, enda sé þar verið að endurtaka eitthvað sem oft hefur verið gert áður. Útreikningur á ávinningi þess að fara hvorki út í olíuleit né –vinnslu snúist hins vegar um nýsköpun og spár um framtíð sem enginn hafi reynslu af.“

Sækja skýrslu á PDF

Fundi á Ísafirði frestað

Félagsfundi, sem halda átti á Ísafirði í kvöld, er frestað.

Næsti fundur verður auglýstur hér á vg.is þegar nær dregur.

Málþing um olíuleit og loftslagsmál

Í framhaldi af flokksráðsfundi Vinstri grænna 17.-18. október stóð hreyfingin fyrir málþingi um olíuleit og loftslagsbreytingar þar sem þrír sérfræðingar á þessu sviði voru fengnir til að flytja erindi og sitja fyrir svörum.

Stefán Gíslason hjá Environice kynnti skýrslu um olíuleit á Drekasvæðinu. Stefán varaði við afleiðingum olíuvinnslu og benti meðal annars á að loftslagsmarkmið krefjist þess að meirihluti af þekktum jarðefnaeldsneytislindum sé ekki nýttur. Raunar telst Drekasvæðið ekki til slíkra linda og því sé ljóst að Ísland getur ekki lagt sitt af mörkum til að draga úr gróðurhúsalofttegundum ef farið verður í olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Halldór Björnsson loftslagssérfræðingur fjallaði um loftslagsmálin í víðu samhengi og rannsóknirnar sem búa þar að baki. Í erindi sínu benti Halldór meðal annars á að losun koldíoxíðs heldur áfram að aukast þrátt fyrir Kyoto-samninginn. Halldór fór einnig yfir áhrif losunar á súrnun sjávar, sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar á lífríki sjávar, og vísaði til rannsókna sem sýna að súrnun sjávar mun halda áfram svo lengi sem losun koldíoxíðs eykst.

Loks fjallaði Birna Sigrún Hallsdóttir umhverfisverkfræðingur um viðskiptakerfi með losunarheimildir sem Ísland gerðist aðili í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hún benti meðal annars á að íslensk orkufyrirtæki selji svokallaðar upprunaheimildir með þeim afleiðingum að orka sem keypt er af íslenskum orkuveitum teljist í mörgum tilvikum ekki endurnýjanleg.

Framhaldsaðalfundi í Kópavogi frestað

Ákveðið hefur verið að fresta framhaldsaðalfundi félags Vinstri grænna í Kópavogi sem halda átti  fimmtudaginn 16. október.

Félagsfundur verður haldinn fyrir mánaðamót, fundartími og dagskrá auglýst á næstu dögum

Stjórn Vinstri grænna í Kópavogi

Varamenn taka sæti á Alþingi

Þann 13. október tóku eftirtaldir varamenn Vinstri grænna sæti á Alþingi: Álfheiður Ingadóttir fyrir Svandísi Svavarsdóttur og Björn Valur Gíslason fyrir Steinunni Þóru Árnadóttur.

Ársreikningar Vinstri grænna

Vinstihreyfingin – grænt framboð skilaði ársreikningum til Ríkisendurskoðunar. Útdráttur úr ársreikningi hreyfingarinnar hefur verið birtur á heimasíðu Ríkisendurskoðunar, www.rikisendurskodun.is.

Ársreikningar munu birtast í heild sinni hér á heimasíðunni á allra næstu dögum.

Útdráttur Ríkisendurskoðunar