Nefndarfundir

Í þessari viku eru nefndarfundir á Alþingi og því enginn þingfundur. Fundað er í öllum fastanefndum. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er næsti þingfundur mánudaginn 16. mars.

Gleðilega hátíð

Kæru lesendur.

Við óskum ykkur gleðilegrar hátíðar, og megi kærleikur og friður fylla hjörtu um jólin.

Skrifstofa hreyfingarinnar að Strandgötu 11, Hafnarfirði, er lokuð á milli jóla og nýárs. Við opnum aftur mánudaginn 5. janúar.

Vinstri græn

Skýrsla Environice: „Er olíuvinnsla á Drekasvæðinu góð hugmynd?“

Í tengslum við málþing Vg um olíuleit og loftslagsbreytingar sem haldið var um helgina var Environice umhverfisráðgjöf fengin til að taka saman skýrslu um hugsanlega olíuleit og olíuvinnslu við Drekasvæðið og áhrif þess á umhverfið. Í framhaldinu af málþinginu var ákveðið að birta skýrsluna opinberlega hér á heimasíðunni og má nálgast hana hér á pdf-formi.

Í samantekt skýrslunnar segir meðal annars:

„Meginniðurstaða minnisblaðsins er sú að olíuleit og –vinnslu á Drekasvæðinu fylgi fyrirsjáanlega mikil umhverfisleg áhætta. Efnahagsleg áhætta sé einnig veruleg. Háar tölur um mögulegan þjóðhagslegan ávinning hafi verið nefndar, en ekki virðist hafa verið lagt mat á hugsanlegt efnahagslegt tjón. Augljóst megi telja að ákvörðun um að leyfa hvorki leit né vinnslu á svæðinu myndi fela í sér, eða hefði falið í sér, veruleg tækifæri, bæði í efnahagslegu og pólitísku tilliti. Sá ávinningur sé vissulega óþekkt stærð og alls ekki í hendi, en í reynd megi segja það sama um þjóðhagslegan ábata af verkefninu. Útreikningar á ábatanum af olíuvinnslu byggi vissulega á þekktri aðferðafræði, enda sé þar verið að endurtaka eitthvað sem oft hefur verið gert áður. Útreikningur á ávinningi þess að fara hvorki út í olíuleit né –vinnslu snúist hins vegar um nýsköpun og spár um framtíð sem enginn hafi reynslu af.“

Sækja skýrslu á PDF

Fundi á Ísafirði frestað

Félagsfundi, sem halda átti á Ísafirði í kvöld, er frestað.

Næsti fundur verður auglýstur hér á vg.is þegar nær dregur.

Málþing um olíuleit og loftslagsmál

Í framhaldi af flokksráðsfundi Vinstri grænna 17.-18. október stóð hreyfingin fyrir málþingi um olíuleit og loftslagsbreytingar þar sem þrír sérfræðingar á þessu sviði voru fengnir til að flytja erindi og sitja fyrir svörum.

Stefán Gíslason hjá Environice kynnti skýrslu um olíuleit á Drekasvæðinu. Stefán varaði við afleiðingum olíuvinnslu og benti meðal annars á að loftslagsmarkmið krefjist þess að meirihluti af þekktum jarðefnaeldsneytislindum sé ekki nýttur. Raunar telst Drekasvæðið ekki til slíkra linda og því sé ljóst að Ísland getur ekki lagt sitt af mörkum til að draga úr gróðurhúsalofttegundum ef farið verður í olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Halldór Björnsson loftslagssérfræðingur fjallaði um loftslagsmálin í víðu samhengi og rannsóknirnar sem búa þar að baki. Í erindi sínu benti Halldór meðal annars á að losun koldíoxíðs heldur áfram að aukast þrátt fyrir Kyoto-samninginn. Halldór fór einnig yfir áhrif losunar á súrnun sjávar, sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar á lífríki sjávar, og vísaði til rannsókna sem sýna að súrnun sjávar mun halda áfram svo lengi sem losun koldíoxíðs eykst.

Loks fjallaði Birna Sigrún Hallsdóttir umhverfisverkfræðingur um viðskiptakerfi með losunarheimildir sem Ísland gerðist aðili í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hún benti meðal annars á að íslensk orkufyrirtæki selji svokallaðar upprunaheimildir með þeim afleiðingum að orka sem keypt er af íslenskum orkuveitum teljist í mörgum tilvikum ekki endurnýjanleg.

Framhaldsaðalfundi í Kópavogi frestað

Ákveðið hefur verið að fresta framhaldsaðalfundi félags Vinstri grænna í Kópavogi sem halda átti  fimmtudaginn 16. október.

Félagsfundur verður haldinn fyrir mánaðamót, fundartími og dagskrá auglýst á næstu dögum

Stjórn Vinstri grænna í Kópavogi

Varamenn taka sæti á Alþingi

Þann 13. október tóku eftirtaldir varamenn Vinstri grænna sæti á Alþingi: Álfheiður Ingadóttir fyrir Svandísi Svavarsdóttur og Björn Valur Gíslason fyrir Steinunni Þóru Árnadóttur.

Ársreikningar Vinstri grænna

Vinstihreyfingin – grænt framboð skilaði ársreikningum til Ríkisendurskoðunar. Útdráttur úr ársreikningi hreyfingarinnar hefur verið birtur á heimasíðu Ríkisendurskoðunar, www.rikisendurskodun.is.

Ársreikningar munu birtast í heild sinni hér á heimasíðunni á allra næstu dögum.

Útdráttur Ríkisendurskoðunar

Ályktanatillögur flokksráðsfundar

Nú geturðu sótt ályktanatillögur flokksráðsfundar á PDF-skjali.

Smelltu hér