Árborg og Flóinn – „Fegurðin kemur innan frá“

 

Þegar ég keypti jörð mína Stokkseyrarsel vorið 2001 datt mér ekki í hug að það yrði sá staður sem ég myndi festa mínar dýpstu rætur. Ég hafði upphaflega hugsað mér að nýta landið eingöngu til hrossabeitar, en e.t.v. koma mér upp sumar- eða helgardvalarstað. Heilsársbúseta á þessum tíma fannst mér var alveg fjarstæðukennd, ég hafð margoft keyrt hér um og aldrei skilið hvernig menn gátu unað hér sitt æfiskeið á þessu marflata einleita landi. Ég sem er fæddur og uppalinn í dölum Eyjafjarðar, var vanur að geta hallað mér að fjöllunum og geta stuðst við þau til beggja handa, fannst fjallahringurinn hér full víður og að hér væri eintómt mýrarfen þar sem hvergi mætti sjá í þúfu eða stein sem hægt væri að tilla sér á. Það var ekki fyrr en ég stoppaði og staldraði við, eftir að ég hafið komist að því að ég ætti hæsta tilboð í jörðina Vestra- Stokkseyrarsel og eftir að ég fór að líta yfir eign mína og vappa hér aðeins um, þá sá ég það.

Fegurð Flóans kemur innan frá.

Þegar ég gerði mér grein fyrir þessu breyttist sú mynd sem ég hafði gert mér í hugarlund. Ég fór að skynja landslagið og náttúran og þótt langt sé í fjöllin er fjallahringurinn hér bæði fagur og stór með Ingólfsfjall í forgrunni. Ég fór að lesa mig til um svæðið og minnist gamallar staðar- og landslaglýsingu héðan, en þar er talað um dali og hóla og jafnvel háa hóla. Þegar ég fór að rýna í nærumhverfið skynjaði ég breytileikann í landslaginu og hef e.t.v. fundið einn, „tja“ nokkuð háan hól.

Náttúrulegt vistkerfi sveitarfélagsins er einstakt á landsvísu. Það byggir á undirliggjandi Þjórsárhrauni sem myndar stórbrotna hraunfjöru, víðáttumiklu votlendi með ótal vötnum og tjörnum og framburði Ölfusár. Þetta vistsvæði er eitt mikilvægasta svæði fyrir vatnafugla á landinu sem bæði hafa hér varpsvæði en einnig nota margar tegundir svæðið sem viðkomustað til annarra staða. Sú fjarstæðukennda hugmynd sem upp kom á sl. ári, að byggja hér upp alþjóðaflugvöll á einu mikilvægast fuglasvæði landsins er afar slæm og illa ígrunduð ekki nóg með að mikilvægu vistkerfi yrði mikið raskað heldur þyrfti einnig að fara í gríðar mikla efnisflutninga. Flytja þyrfti milljónir rúmmetra bæði frá og að svæðinu. Hvert á að sækja það efni? Í Ingólfsfjall?

Náttúruvernd og uppbygging atvinnulífs í sátt við umhverfið er af helstu stefnumálum Vinstri grænna. Í Árborg þarf að marka langtíma stefnu í atvinnu- og skipulagsmálum sem byggir á sérstöðu og styrkleikum svæðisins og í sátt við náttúru og menn. Styrkleikar Árborgar felasta ekki í alþjóðaflugvelli eða tækifærum til stóriðju, heldur á því sem við nú þegar höfum, einstakri náttúru, menningu og sögu svæðisins, mannauði og landbúnaði.

Byggjum sveitarfélagið Árborg í framtíðinni á stefnu Vinstri grænna. Byggjum á styrkleikum og innri fegurð svæðisins.

Sigurður Torfi Sigurðsson Stokkseyrarseli

3. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg

 

Hvað viljum við í VG í skipulagsmálum?

Við viljum skipulag og þróun sem byggir á virðingu fyrir náttúru, umhverfi og sögu, traustri þekkingu og stöðugri þekkingarleit, dirfsku og framsýni. Við áttum þátt í því fyrir rúmum áratug þegar fólk í borgarstjórn og skipulagsmálum steig upp úr áratugagömlum skotgröfum og fór að tala saman um framtíðina þvert á stjórnmálaflokka. Það hóf nýja vegferð, lagði drög að nýju aðalskipulagi og vann að því árum saman af opnum og góðum hug. Öllum sem þekkja til skipulagsmála ber saman um að þar hafi orðið þáttaskil og kveðið við alveg nýjan tón.

Afraksturinn birtist með ýmsum hætti en ekki síst í nýju, framúrskarandi vönduðu og byltingarkenndu aðalskipulagi með áherslu á þétta og lífvæna byggð, borgarhverfi með öflug almannarými og nútímalega samgöngumáta, fallega og sjálfbæra borgarhluta í sem mestri sátt við náttúrulegt umhverfi og fjölbreytilega útivist. Hann birtist í nýrri áherslu á þróun kjarna um allt borgarlandið, rýni og verndun, vandað skipulag hverfa og hnitmiðaða uppbyggingu við lykilstöðvar nýrrar borgarlínu. Borgarlínan snýst ekki bara um vagna og biðstöðvar heldur betra skipulag og uppbyggingu um alla borg, íbúðabyggð og þjónustu í nánd við nýtt æðakerfi, eftirsóknarverð svæði sem fá lykilstöðu og bjóða upp á nýjar og spennandi íbúðir, stundum í bland við gamalt og alltaf í frábærum tengslum við aðra hluta borgarinnar.

Við höfum staðið að því með félagshyggju- og framfaraöflunum í borginni að stefna nýrri byggð inn á við á allar eyðimerkurnar og skallablettina vítt og breitt um miðborgina, auðnarlega fláka og illa nýtt land sem hafði verið óáreitt svo lengi að allir voru hættir að taka eftir því. Götur eins og Hverfisgata, Tryggvagata, Geirsgata, Mýragata, Seljavegur og Ánanaust hálfbyggðar og varla það í hjarta Reykjavíkur en líka Sölvhólsgata, Skúlagata og Bríetartún, svæði eins og Kirkjusandur, Heklureitur við Laugaveg, móarnir á Rauðarárholti þar sem standa skólastofnanir fyrir sjómenn og kennara, Efstaleitið með Ríkisútvarpinu, Valssvæðið, strandsvæði við flugbrautarenda og Skerjafjörð með dásamlega möguleika, blettirnir í skjólinu við rætur Öskjuhlíðar frá Hlíðum að Háskólanum í Reykjavík, Landspítalalóðin ægistóra og landið þar í kring, þekkingarspildurnar sem nú eru að byggjast upp við Háskóla Íslands uppi við Suðurgötu og niðri í mýrinni þar niður af, að ekki sé minnst á skröltandi tóman Alþingisreitinn eða holan hljóminn í gamla Landsímahúsinu við sjálfan Austurvöll. Við erum tala um hálfbyggða, gisna og tætingslega borg sem þrátt fyrir mörg gróin hverfi, gömul og ný, hafði aldrei náð því máli að verða borg meðal borga. Við erum líka að tala um einu borgina sem við eigum í okkar stóra og fallega landi. Hún var ekki í lagi og hana þurfti svo sannarlega að laga.

Við höfum líka sagt allan þennan tíma og stutt það af heilum hug í skipulagi að flugvöllurinn verði að fara og það fyrr en seinna svo borgin fái að blómstra, ekki til að eyðileggja innanlandsflug eða skutla því til Keflavíkur heldur til að efla það á nýjum og betri stað í hæfilegri fjarlægð frá miðborg Reykjavíkur og höfðuborgarsvæðinu en líka alþjóðafluginu í Keflavík. Lausn sem kostar lítið þegar allt er lagt saman og tryggir að allir vinna. Við viljum iðandi mannlíf í Vatnsmýri og göngubrú yfir Fossvog þar sem hjólreiðafólk, almenningsvagnar og sjúkrabifreiðar geta líka farið um. Við sjáum í henni alls konar tækifæri, göngutúra í kringum Fossvoginn, stúdentaíbúðir í Kársnesi, menningar- og viðskiptatengsl á milli bæjarfélaganna, minni umferð bíla, hjólreiðakeppnir og víðavangshlaup, rómantískar stundir og vinafundi á brúarsporðum og þannig mætti lengi telja. Brýr hafa búið til borgir og þessari brú fylgja ótal tækifæri stór og smá. Við höfum beitt okkur fyrir húsvernd og friðun náttúrusvæða á borð við Akurey, viljum efla mengunarvarnir og endurvinnslu og leggjum mikla áherslu á líffræðilegan fjölbreytileika í borgarumhverfinu.

Við viljum stíga fast til jarðar í almenningssamgöngum en varlega þegar kemur að stórum og feiknadýrum mannvirkjum fyrir bíla. Að setja Miklubraut í stokk er ekkert áhlaupaverk og verður ekkert ákveðið yfir nótt, það mál þarf að skoða bæði vel og vandlega. Má byggja að brautinni án þess að setja hana í stokk og hægja á umferðinni um leið og borgarlína er efld? Hverju breytir stokkur fyrir hverfin sem næst liggja? Væri betra að setja hluta Kringlumýrabrautar í stokk? Hvað verður um bifreiðaflauminn sem streymir út um stokksendann við Snorrabraut og hvar eiga að vera munnarnir fyrir bílaflotana að og frá Kringlumýrabraut? Og erum við ekki að hvetja til bílferða, aksturs og mengunar með því að fjölga akreinum og hola þeim jörð? Þetta þarf allt að skoða og umræðan varla farin af stað. Það er þetta með þekkinguna sem alltaf þarf að liggja til grundvallar góðu skipulagi og má ekki gleyma.

Ferðamenn streyma til borgarinnar og hafa fyllt hana lífi en skapa líka vanda, við þurfum í samstarfi við ríki, verkalýðshreyfingu, stúdenta, aldraða og öryrkja að byggja af krafti húsnæði sem vegur á móti eftirspurn og háu íbúðaverði sem þessir góðu gestir okkar skapa að ekki sé minnst á leigufélögin sem sitja um almenning. Byggingariðnaðurinn flúði land, fasteignamarkaður var í frosti, stofnframlög frá ríkinu komu allt of seint fram, verkalýðshreyfingin var sein til og borgin átti fullt í fangi en nú er landið að rísa, byggingarframkvæmdir hafa aldrei verið meiri, ríkið er komið til leiks þó gera verði betur og verkalýðshreyfingin líka. Félagslegt húsnæði hefur alltaf verið baráttumál VG og verður eitt af stóru verkefnunum næstu ár ef þess er gætt að hleypa ekki afturhaldinu til valda. Við þurfum breytt viðhorf í þessum efnum og eigum að sjá til þess nágrannasveitarfélögin taki sér líka tak og leggi sitt af mörkum með því að byggja félagslegt húsnæði fyrir sig og sína til jafns við okkur í Reykjavík.

Svo getum við rætt um Örfirisey. Hún á eftir að byggjast upp með tíð og tíma en þar er líka að mörgu að hyggja og langt í land. Olíugeymarnir yst í eynni skapa stórkostlega hættu ef í þeim kviknar og skárri staður fyrir þá með tilliti til umferðar og öryggis er ekki auðfundinn. Hvassir vindar leika um svæðið, umferð á ekki greiða leið að því og hafnsækin starfsemi þarf sitt pláss. Önnur uppbyggingarsvæði liggja beinna við í bili og þar er af nógu taka, á Héðinsreit er byggð í deiglu, vestur af Slippnum rís frábært hverfi með þröngar götur og lífleg torg, ný og fjölmenn hverfi eru í uppsiglingu beggja megin Elliðaárósa þar sem við reistum svo fallega göngu- og hjólabrú fyrir nokkrum árum síðan, Bryggjuhverfið á eftir að springa út, Vatnsmýrin er öll að opnast, glæstur Landspítali og fjöldi bygginga þar í kring spretta upp innan tíðar, Tún og Teigar, Holt, Múlar og Hlíðar eru að eflast af nýrri byggð og eiga greiðar leiðir að sælunni í Laugardal, á holtinu við Veðurstofuna, upp með Hraunbæ og niður af Mjódd á að byggja, upp af Laugarnesi verða íbúðir og þjónusta,  Úlfarsárdalur er að taka á sig frábæra mynd, við Stekkjarbakka verða gróðurstöðvar í góðum tengslum við Elliðaárdal og í Gufunesi er að kvikna kvikmyndaþorp. Kringlureitur stefnir í stórfellda uppbyggingu og farið er að huga að ríkulegum þróunarmöguleikum við Grensáveg og í Skeifunni. Það er allt í gangi og allt að gerast. Skipulagið góða er að sanna sig.

Framtíðin barði dyra og fólk fór að tala saman. Það vildi borg fyrir börn, borg fyrir fólk, göngugötur og menningu, leikvelli, sundlaugar og hjólastíga, kaupmann á hornið og blómstur í tún. Ekki bara vestur í bæ eða niðri í Kvos heldur um alla borg. Við í VG höfum verið þarna allan tímann, full af stolti alveg frá byrjun, í þrjú kjörtímabil, jafnt í minnihluta og meirihluta, veitt aðhald, bent á lausnir, tekið þátt og hvatt til dáða. Við höfum mannlega þáttinn og almannahag alltaf í fyrirrúmi en gætum þess líka að missa aldrei sjónar á stóru myndinni til langrar framtíðar, hagsmunum barnanna okkar og komandi kynslóða. Borgin er að taka stakkaskiptum og því þarf að fylgja eftir. Við erum á þeirri leið, þangað sem framtíðin á heima.

Torfi Hjartarson
er fulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur og skipar 11. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík.

,

Saman gegn falsfréttum og nafnlausum óhróðri

Sam­eig­in­leg yfir­lýs­ing fram­kvæmda­stjóra flokk­anna gegn óhróðri og nafn­lausum áróð­urs­her­ferðum í kosn­inga­bar­áttu fær fall­ein­kunn í leið­ara Kjarn­ans. „Að­för að lýð­ræð­inu fær upp­reist æru,“ segir leið­ara­höf­undur sem segir yfir­lýs­ing­una óboð­lega og merki um sam­trygg­ingu flokk­anna. Með henni séu allir stjórn­mála­flokk­arnir að sam­þykkja að fyrri and­lýð­ræð­is­leg myrkra­verk verði gleymd og graf­in.

En svo er ekki, sem betur fer. Yfir­lýs­ingin er áfangi í vinnu nefndar for­sæt­is­ráð­herra að betri lög­gjöf, sem eykur gagn­sæi og hindrar and­lýð­ræð­is­leg öfl í að reka kosn­inga­bar­áttu án þess að bera á henni ábyrgð. Í yfir­lýs­ing­unni er bent á að stjórn­mála­flokkar bera ábyrgð í kosn­inga­bar­áttu og lúti ströngum lögum um styrki og með­ferð fjár­muna. Sem er gott, en marklaust, ef hægt er að fara fram hjá lög­unum með því að reka ábyrgð­ar­lausa kosn­inga­bar­áttu gegnum þriðja aðila.

Framkvæmdastjórar flokk­anna hafa nú heitið því að vinna gegn and­lýð­ræð­is­legri kosn­inga­bar­áttu. Í því felst engin við­ur­kenn­ing á myrkra­verkum for­tíð­ar. Eins og rétti­lega er bent á í leið­ara Kjarn­ans heyra þau undir lög­reglu og ætti að rann­saka. En það þarf líka betri lög­gjöf. Um það eru fram­kvæmda­stjór­arnir sam­mála.Og næsta skref er að vinna til­lögur að laga­breyt­ing­um, til þess að „girða fyrir að „áróður og óhróð­­­ur, sem eng­inn veit hver hefur í frammi eða kostar, birt­ist um alla sam­­­fé­lags- fjöl­miðla- og mynd­­­banda­veit­­­ur, án þess að hægt sé að kalla neinn til ábyrgð­­­ar.“

Upp­lýs­ingar frá öðrum löndum sýna að við erum að réttri leið. Í Frakk­landi er til­búið laga­frum­varp sem á að hindra dreif­ingu áróð­urs og fals­frétta í aðdrag­anda kosn­inga. Í Sví­þjóð, þar sem kosið verður til þings í haust, ræða stjórn­mála­flokk­arnir nú um að setja sér sam­eig­in­legar reglur um aug­lýs­ingar á sam­fé­lags­miðlum fyrir kosn­ing­ar. Allir flokk­ar, nema Sví­þjóð­ar­demókrat­arnir lýsa yfir vilja til að vera með.

Fram­kvæmda­stjórar flokka á Íslandi eru ánægðir með að hafa náð saman um að vinna að þessu mik­il­væga og tíma­bæra verki. Sum­arið verður nýtt til að gera til­lögur að laga­breyt­ingum um víð­tæka ábyrgð á orðum og áróðri í kosn­inga­bar­áttu. Og það þurfa fleiri en flokk­arnir að taka ábyrgð á því að stjórn­mála­um­ræða stand­ist kröfur um lýð­ræði og sann­girni og að fals­fréttir vaði ekki uppi. Þáttur og ábyrgð fjöl­miðla er þar einna stærst­ur. Það er mik­il­vægt að stjórn­mála­flokk­ar, fjöl­miðl­ar, félög, efn­isveit­ur, fyr­ir­tæki, stofn­anir og ein­stak­lingar taki höndum saman um að stöðva þá aðför að lýð­ræð­inu sem birt­ist í fals­fréttum og hat­ursá­róðri.

Höf­undur er fram­kvæmda­stjóri Vinstri grænna.

Fjölgun úrræða fyrir ungt fólk í vanda þolir ekki lengri bið

Það er skelfilegt að barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi inni á meðferðarstofnun. Það skelfilega atvik undirstrikar nauðsyn þess að breyta þarf áherslum í málefnum ungra fíkla og barna í vanda. Þess vegna fagna ég því að ekki eigi lengur að blanda börnum með fullorðnum fíklum á Vogi.

 Börn og unglingar verða þó að hafa aðgang að meðferðarúrræði og mér finnst að borgin eigi að vinna að slíku með heilbrigðisráðherra. Þótt tölfræðilega fáir unglingar neyti vímuefna er neysla þeirra mun harðari en áður, eins og fram hefur komið undanfarið og grasrótarsamtök eins og Olnbogabörn og Rótin hafa haldið vel á lofti. Þess vegna er brýnt að bregðast fljótt við lokun bangsadeildar á Vogi.

Mikilvægur árangur hefur náðst

Ég hef unnið lengi með unglingum í vanda í gegnum félagsmiðstöðvar og þekki vel þróun neyslu síðastliðin 20 ár. Ástæða þess að við sjáum ekki unglingafyllerí í miðbænum eða í undirgöngum, bílakjöllurum og afskekktum stöðum í jafnmiklum mæli í dag og fyrir 20 árum er einföld: Forvarnaraðilar hættu að hengja upp plaggöt um afleiðingar ofneyslu fíkniefna og hættu að öskra á börn að þau myndu DEYJA EF ÞAU DÓPA! Aðferð sem er skrítin í augum flestra barna en vekur bara forvitni, frekar en varúð hjá litlum hópi barna sem hefðu þurft að taka skilaboðin til sín. Slík nálgun vekur í raun forvitni á fíkniefnum og virkar þannig öfug fyrir hópinn sem þyrfti að taka skilaboðin til sín.

Þess í stað fóru forvarnaraðilar að taka mark á rannsóknum og virkjuðu samtakamátt allra sem komu að málefnum barna; foreldra, íþróttafélaga, æskulýðsfélaga, félagsmiðstöðva, lögreglu og fleiri. Neyslutölur sýna svart á hvítu að vímuefnaneysla og reykingar unglinga hafa farið frá því að annar hver hefur drukkið og reykt í að innan við 5% unglinga hefur drukkið og nánast enginn reykir.

 Málefni ungs fólks eru stóru málin í borgarstjórnarkosningunum

Stóru málin sem sveitastjórnakosningarnar eiga að snúast um er hvernig við höldum áfram að skapa ungu fólki heilbrigð og uppbyggileg uppvaxtarskilyrði. Hvernig hjálpum við ungu fólki aftur til þátttöku í lífinu sem hefur villst af leið?

Við eigum að styðja vel við þá starfsemi sem þegar er til staðar. Það er til dæmis unnið mjög gott starf með ungum fíklum hjá Vinakoti og við eigum að fjölga slíkum úrræðum og styðja betur við þau. En við verðum að búa til ný meðferðarúrræði fyrir unga fíkla, þá helst koma því inn í heilbrigðiskerfið.

Ég vil beita mér fyrir því að Reykjavíkurborg vinni með heilbrigðisráðherra að stofnun meðferðarúrræða fyrir unga fíkla og börn sem glíma við vímuefnaneyslu. Samfélagið þarf síðan að eiga raunveruleg úrræði sem styður unga fíkla aftur til virkrar þátttöku í samfélaginu. Þar tel ég meðal annars að félagsmiðstöðvarstarfsfólk gegni lykilhlutverki í nánu samstarfi við velferðasvið borgarinnar til að fjölga úrræðum fyrir ungt fólk.

Forvarnir skila sér hundraðfalt til baka

Við getum einnig gert betur í að koma í veg fyrir að ungt fólk ánetjist vímuefnum og villist af leið, í það minnsta getum við tafið það ferli. Niðurstöður rannsókna eru afdráttarlausar og skýrar í þessum efnum og segja okkur að við þurfum að styrkja verndandi þætti í lífi barna. Vernandi þættirnir eru áhrif fjölskyldu, jafningahóps, virk þátttaka í skipulögðu íþrótta- og félagsmiðstöðvastarfi og hlúa vel að almennri vellíðan.

Okkur hefur tekist vel að koma í veg fyrir neyslu 95% barna en við getum gert betur. Grunnstoðir forvarna þarf að styrkja enn frekar, þær þurfa að ná til allra barna á sama tíma og við þurfum að bæta neyðarúrræðin og meðferðaraðstoð við verst settu börnin. Enginn ætti að efast um gildi forvarna og úrræða fyrir börn því ekki er það bara sjálfsagt velferðarmál heldur sparar samfélagið 100 krónur með hverri krónu sem sett er í forvarnirnar. 

Þorsteinn V. Einarsson skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík.

 

 

Fólk á flótta

Fólk á flótta
19. mars sl. var merkisdagur í Mosfellsbæ þegar tíu flóttamenn fluttu þangað, sex fullorðnir og fjögur börn. Gerður hefur verið samningur á milli Mosfellsbæjar og velferðarráðuneytisins um móttöku og stuðning við nýju bæjarbúana.

Landlaust fólk
Flóttafólkið er frá Úganda en kemur hingað úr flóttamannabúðum í Kenýa þar eð þeim var ekki vært í heimalandi sínu. Því miður er það nöturleg staðreynd að enn þarf fólk að sæta ofsóknum og grimmilegum refsingum vegna kynhneigðar sinnar.
Tugir milljónir manna eru á flótta víða um heim af ýmsum ástæðum. Stríðsátök, hörundslitur, trúarbrögð, þjóðerni, stjórnmálaskoðanir og kynhneigð eru þar efst á blaði. En óháð því hvaða orsakir búa hér að baki er lífsreynsla og líðan flóttamanna ævinlega svipuð, þeir lifa í stöðugum ótta við ofbeldi og ofsóknir og oft er þeim nauðugur einn kostur að yfirgefa föðurland sitt og halda landlausir út í óvissuna.
Aðeins lítill hluti flóttamanna heimsins fær úrlausn sinna mála og það er beinlínis siðferðisleg skylda okkar Íslendinga og margra annarra þjóða að hlaupa undir bagga og veita flóttafólki skjól og sjálfsögð mannréttindi. Þar skiptir sérhver einstaklingur miklu máli.

Velkomin í Mosfellsbæ!
Sjálfboðaliðar úr Rauðakrossdeild Mosfellsbæjar hafa unnið ötullega að móttöku hópsins og hjá bæjarfélaginu vinnur starfsmaður tímabundið að verkefninu. Þar er í mörg horn að líta: Útvega húsnæði, innanstokksmuni, flíkur og leikföng. Einnig að hjálpa fólkinu til að aðlagast sem fyrst nýjum aðstæðum, börnin hafa þegar hafið skólanám og hin vilja byrja strax að vinna og fara á íslenskunámskeið. Einn þeirra er Hakim sem segir í blaðaviðtali: „Ég er með miklar væntingar um að þetta skref eigi eftir að breyta lífi mínu. Ég ætla að eignast nýja vini og vonandi öðlast nýtt líf á nýjum stað. Ég hlakka til að byrja að læra íslensku og verða hamingjusamur á Íslandi.“
Ég býð þessa nýju Mosfellinga innilega velkomna í bæinn.

Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.

Ingibjörg Þórðar á þing

Ingibjörg Þórðardóttir kom inn fyrir Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttir á mánudaginn. Ingibjörg hefur starfað lengi á vettvangi VG og tekið af sér ýmis trúnaðarstörf fyrir hreyfinguna. Hún starfar sem íslenskukennari í Verkmenntaskóla Austurlands dags daglega en þetta er þriðja skiptið sem Ingibjörg tekur sæti á þingi, fyrst kom hún inn haustið 2015.
Bjarkey lagði land undir fót til að sækja fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA. En þeir fundir eru haldnir í Montevideo í Úrúgvæ og í Buenos Aires í Argentínu. Ástæðan fyrir þessari einkennilegu staðsetningu fyrir EFTA fund er að næsta lota fríverslunarviðræða EFTA verður við MERCOSUR. En MERCOSUR er fríverslunarblokk í Suður-Ameríku og inniheldur Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Venesúela (í straffi þó) og Úrúgvæ ásamt fleiri löndum sem ekki hafa fulla aðild.

Landstjórn UVG ályktar

Landstjórn UVG sendir frá sér eftirfarandi ályktun:
Ung vinstri græn fordæma loftárásir bandarískra, breskra og franskra stjórnvalda í Sýrlandi, en loftárásirnar eru óþarfa stríðsaðgerðir sem framkvæmdar eru þvert á vilja Sameinuðu þjóðanna og valda ómældri þjáningu og blóðsúthellingum almennra borgara. Slíkar aðgerðir eru síst til þess fallnar að stuðla að friði.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkana er áhersla lögð á friðsamar lausnir í utanríkismálum. Þar sem íslensk stjórnvöld hafa sett það að markmiði að tala fyrir friðsamlegum lausnum þrátt fyrir áframhaldandi veru í NATO þá krefjumst við þess að stjórnvöld grípi til frekari aðgerða á alþjóðlegum vettvangi til þess að stuðla að friðsömum lausnum, t.d. með því að taka skýra afstöðu gegn hernaðaraðgerðum og opinberlega fordæma slíkar aðgerðir ásamt því að gera allt í sínu valdi stendur til þess að þrýsta á friðsamar lausnir í stað hernaðaraðgerða.
Að því sögðu telja Ung vinstri græn að Ísland geti ekki talist friðsamt land og raunverulega talað fyrir auknum frið í heiminum án þess að standa utan allra hernaðarbandalaga, fordæma stríðsrekstur og berjast fyrir friðsamlegum lausnum á alþjóðavettvangi. Vera Íslands í NATO mun ávallt gera íslensk stjórnvöld vanmáttug að ákveðnu leyti til þess að gagnrýna aðgerðir sem eru framkvæmdar eða studdar af því hernaðarbandalagi.

Skrautlegar staðreyndir Pírata í umhverfismálum – René svarar.

Vinstri græn og Píratar hafa átt mjög gott sam­starf í Borg­ar­stjórn Reykja­víkur þar sem flokk­arnir starfa með Sam­fylk­ingu og Bjartri fram­tíð í meiri­hluta. Saman hafa þessir flokkar komið mörgu góðu til leið­ar, og ég vona að við munum halda því áfram að kosn­ingum loknum ef við fáum til þess umboð kjós­enda.

Það er því mjög leið­in­legt að þurfa að bregð­ast við og leið­rétta grein Val­gerðar Árna­dóttur, sem skipar sjötta sæti á fram­boðs­lista Pírata til borg­ar­stjórn­ar­kosn­ingnna. Í grein­inni, sem fjallar að vísu að uppi­stöðu um lands­málin og stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dótt­ur, frekar en borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar, er farið mjög skraut­lega með stað­reynd­ir. Ég sé mig því knú­inn til að leið­rétta nokkur atriði í grein­inni og árétta stefnu og árangur okkar Vinstri grænna í umhverf­is­mál­um.

Hækkun kolefn­is­gjalds
Það sem fyrst stingur í augu er sú full­yrð­ing Val­gerðar að aðeins eigi að hækka kolefn­is­gjaldið um 10%. Hið rétta er að rík­is­stjórnin hækk­aði kolefn­is­gjaldið um 50% þann 1. jan­úar 2018. Það mun svo hækka um 10% til við­bótar ÞANN DAGS og svo önnur 10% árið eft­ir. Það er einnig ein­kenni­legt að tala um „lækkun kolefn­is­gjalds­ins“ í tíð rík­is­stjórn­ar­inn­ar, með vísan til fjár­laga Bene­dikts Jóhanns­son­ar. Þau fjár­lög voru aldrei sam­þykkt, sem betur fer, og því hefur kolefn­is­gjaldið ekki verið lækk­að. Hið rétta er að það hækkar ívið hægar en gert hafði verið ráð fyr­ir.

Ástæða þess var að skörp hækkun hefði komið mjög þungt við margt tekju­lagt lands­byggð­ar­fólki, sem þarf að keyra langar leið­ir. Á lands­byggð­inni eru lengri fjar­lægð­ir, til skóla, til vinnu og að sækja þjón­ustu.

Við í Vinstri grænum erum ein­dregið fylgj­andi grænum sköttum á borð við kolefn­is­gjald. En slíkir skattar þurfa að grund­vall­ast á bestu fáan­legri þekk­ingu og taka með í reikn­ing­inn efna­hags­lega og sam­fé­lags­lega þætti.
Kolefn­is­hlut­laus Reykja­vík og kolefn­is­hlut­laust Ísland
Stefna okkar í Vinstri grænum er að Ísland vinni að því mark­miði að gera landið kolefn­is­hlut­laust árið 2040, og er kveðið á um það mark­mið í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dótt­ur. Er það ein metn­að­ar­fyllsta stefna sem nokk­urt land hefur sett sér í lofts­lags­mál­um, en þar er borgin engu að síður að feta í fót­spor Reykja­vík­ur­borg­ar.
Í tíð núver­andi meiri­hluta í Reykja­vík var samin metn­að­ar­full stefna í lofts­lags­málum sem kveður á um að Reykja­vík­ur­borg verði kolefn­is­hlut­laus árið 2040. Sú stefna var unnin af full­trúum Vinstri grænna og Pírata, ásamt sam­starfs­flokkum þeirra í meiri­hluta. Við í Vinstri grænum erum mjög stolt af þess­ari stefnu, en teljum að borgin geti gert enn bet­ur, og við vonum að við getum átt gott sam­starf við Pírata og hina sam­starfs­flokk­ana um að knýja á um að borgin setji sér enn metn­að­ar­fyllri mark­mið og bretti upp ermarnar til að ná þeim.
Áhersla á umhverf­is­mál og aukin útt­gjöld til mála­flokks­ins
Í núver­andi meiri­hluta í borg­ar­stjórn höfum við í Vinstri grænum lagt áherslu á umhverf­is­mál og nátt­úru­vernd. Við höfum þannig beitt okkur fyrir því að efla nátt­úru­vernd í borg­ar­land­inu og að fram­lög til umhverf­is­mála væru auk­in, og erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð í sam­vinnu við sam­starfs­flokka okk­ar, ekki síst Pírata. Umhverf­is­málin eru einn af þeim mála­flokkum þar sem við höfum átt sam­leið með Píröt­um. Lýð­ræð­is­málin er annar slíkur mála­flokk­ur.
Ég er líka mjög ánægður að sjá að rík­is­stjórnin stefni á að auka útgjöld til nátt­úru­verndar og umhverf­is­mála aukast um 35% á næstu fimm árum. Fram­lög til mála­flokks­ins hafa aldrei áður verið aukin jafn hratt. Vinstri græn aldeilis ekki skilað auðu í umhverf­is­mál­um, hvorki í lands­mál­unum né í höf­uð­borg­inni. Að bera ábyrgð á stjórn lands­ins og borg­ar­innar þýðir að sækja fram á öllum sviðum sam­tímis og að vinna með ólíkum flokkum sem oft hafa ger­ó­líka sýn í grund­vall­ar­at­riðum að því að ná mark­miðum sem skipta máli.

Stefna og skraut
Val­gerður nefnir að lokum að lofts­lags­stefna Pírata hafi fengið hæstu ein­kunn í sam­an­tekt lofts­lag.is fyrir síð­ustu Alþing­is­kosn­ing­ar, en bætir svo við, að vísu rang­lega, að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi haft næst bestu stefn­una sam­kvæmt þessu mati. Hið rétta er að lofts­lag.is mat það svo að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn félli á próf­inu, en að ekki væri mark­tækur munur á þeim fjórum flokkum sem starfa saman í meiri­hluta í borg­ar­stjórn:
„Í toppi rýn­is­ins eru svo VG, Sam­fylk­ing­in, Björt Fram­tíð og Píratar sem telj­ast sig­ur­veg­arar rýn­is­ins. Á milli þess­ara fjög­urra efstu flokka er vart hægt að tala um mark­tækan mun út frá aðferða­fræð­inni og eru þeir á svip­uðum nótum en með mis­jafn­lega útfærð svör og stefnur sem veldur mun­inum á flokk­un­um.“
En eins og Val­gerður bendir sjálf á skiptir ein­kunna­gjöf á net­inu í raun litlu í stóra sam­heng­inu, því það sem skiptir máli er hvaða verk standa eft­ir. Við í Vinstri grænum höfum sýnt það og sannað að þegar við vinnum með öðrum flokkum þá leggjum við höf­uð­á­herslu á lofts­lags­mál og umhverf­is­mál, og við munum gera það hér eftir sem hingað til.
Áherslan sem við leggjum á lofts­lags­mál í stefnu okkar er ekki upp á skraut, heldur er hún bein­línis ein helsta þunga­miðja henn­ar. Eitt brýn­asta verk­efni okkar næstu ár og ára­tugi er að berj­ast gegn lofts­lags­breyt­ingum af manna­völd­um. Það verk­efni er alvar­legra en svo að pláss sé fyrir met­ing milli flokka sem eru þegar allt kemur til alls sam­mála um mik­il­vægi aðgerða.
Reykja­vík verði leið­andi í lofts­lags­málum
Við í VG viljum að Reykja­vík­ur­borg verði leið­andi í að draga úr losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda og skorum á aðra flokka að leggja okkur lið í þerri bar­áttu. Meðal þeirra aðgerða sem við teljum að ráð­ast verði í á næsta kör­tíma­bili er:
Reykja­vík á að vera leið­andi meðal íslenskra sveit­ar­fé­laga í því að minnka losun frá meng­andi starf­semi og að binda kolefni með ýmsum mót­væg­is­að­gerð­u­m.

Reykja­vik á að halda áfram að tryggja að almenn­ings­sam­göng­ur, hjól­reiðar og ganga verði raun­hæfir val­kostir í öllum hverfum borg­ar­inn­ar. Beita þarf hag­rænum hvötum og íviln­unum til að græn sam­göngu­tæki verði hag­kvæm­asti kost­ur­inn.
Reykja­vík á að styðja við orku­skipti í sam­göngum með því að greiða fyrir upp­bygg­inu inn­viða fyrir vist­væn fara­tæki. Reykja­vík á að beita sér fyrir því að mengun frá skipum sé minnkuð m.a. með að hefja raf­væð­ingu Faxa­flóa­hafna.
Reykja­vík­ur­borg á að móta sér metn­að­ar­fulla stefnu um kolefn­is­bind­ing­u.
Reykja­vík­ur­borg á að meta allar meiri­háttar fram­kvæmdir með til­lit til áhrifa þeirra á þróun lofts­lags, t.d. með því að koma á fót lofts­lags­ráði í stíl við það sem sam­þykkt var á Alþingi í þings­á­lykt­un­ar­til­lögu árið 2016.
Þessi listi er engan veg­inn tæm­andi, og auk aðgerða í lofts­lags­málum höfum við í VG með ítar­legar aðgerða­á­ætlunir um nátt­úru­vernd, plast­meng­un, vatns­vernd og verndun vatns­bola, um frá­veitu­mál, um loft­gæði, svo fátt sé nefnd.

Ég vona að við í Vinstri grænum getum áfram unnið með Pírötum á næsta kjör­tíma­bili að því að koma þessum góðu málum í fram­kvæmd, og vona að kosn­inga­bar­áttan verði mál­efna­leg.  Umhverf­is­málin og lofts­lags­málin eru alvar­legri en svo að flokkar sem hafa unnið náið saman í þeim málu, og deila sýn í mála­flokkn­um, séu að eyða orku í að deila hvor við ann­an.

René Biasone er sér­fræð­ingur hjá Umhverf­is­stofnun og í fimmta sæti á lista fyrir VG í Reykja­vík.

Skemmtilegur vorfundur EVG

Vorfundur EVG var þann 11. apríl nk. kl. 20 í Stangarhyl 4, húsi eldri borgara í Reykjavík.

Þetta var seinasti fundur fyrir sumarfrí og kosningar.

Á honum fræddumst við um lítt þekktan þátt úr sögu okkar Íslendinga um innflutning á margvíslegri vöru til landsins á erfiðum tímum. Hrefna Róbertsdóttir sagði frá rannsókn sinni. Karl Jeppesen hefur heimsótt verstöðvar allt í kringum landið á liðnum árum, safnað um þær upplýsingum og tekið af þeim ljósmyndir. Í fyrirlestri hans heimsóttu EVG nokkrar af þessum verstöðvum. Þá var ljóðið okkar á sínum stað í flutningi Ragnheiðar Jónsdóttur.