Hjúkrunarrýmum fjölgar

Í hvert skipti sem stór ákvörðun er tekin í heilbrigðiskerfinu hefur hún áhrif um kerfið allt. Þegar hjúkrunarrýmum fjölgar hefur það áhrif á lífsgæði aldraðra sem eru á biðlistum eftir slíkum rýmum, það hefur áhrif á stöðu Landspítalans sem glímir við verulegan vanda að því er varðar aldraða sem ekki er hægt að útskrifa af deildum spítalans. Þar með léttir á deildum spítalans og þjónusta eflist enn frekar við almenning í landinu, við heilbrigðisstofnanir um allt land og heilsugæsluna.

Biðin alltof löng

Um langt árabil hefur verið skortur á hjúkrunarheimilum í landinu þannig að bið eftir hjúkrunarrýmum hefur verið alltof löng, og í mörgum tilvikum óásættanleg. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er tekið með afgerandi hætti á þessu verkefni og um að ræða stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Í fyrri áætlun var gert ráð fyrir uppbyggingu 250 nýrra rýma á tímabili áætlunarinnar en sá fjöldi er nú kominn upp í 550 rými fram til ársins 2023.

Löngu tímabært

Um leið og mikilvægt er að fjölga fjölbreyttum úrræðum fyrir aldraða, bæði í heimahjúkrun, heimaþjónustu og dagdvöl er löngu tímabært að stíga þetta skref sem hér er boðað. Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar á næstu árum, hlutfallsleg fjölgun aldraðra og aukin þjónustuþörf er veruleiki sem þarf að bregðast við í tæka tíð.

Stórátak í uppbyggingu hjúkrunarheimila er mikilvægt skref í þágu aldraðra á Íslandi en endurspeglar líka skýra áherslu á heilbrigðismál í víðum skilningi í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Í áætluninni er stóraukin áhersla á málaflokkinn, bæði á framkvæmdir og rekstur, en mikilvægast þó er að stilla saman strengi til framtíðar, móta stefnu og skýra áherslur í þágu samfélagsins alls. Það er meginmarkmið mitt í embætti heilbrigðisráðherra.

Höfundur er heilbrigðisráðherra

,

Hreinn bær, okkar bær

Um daginn birti RÚV frétt sem fjallaði um smábæ í Kanada sem hafði verið stefnt af olíu risanum Gastem. Bæjarstjórn bæjarins hafði áhyggjur af vatnsbóli bæjarbúa og bannaði fyrirtækinu að bora fyrir olíu og gasi í tveggja kílómetra radíus frá vatnsbólinu. Olíu fyrirtækið taldi lög sveitarfélagsins ólögleg og krafðist skaðabóta upp á 1,5 milljóna Kanadadala sem er meira en þrefalt það fjármagn sem sveitarfélagið hefur á milli handanna á ári hverju.  Hæstiréttur í Quebec dæmdi sveitarfélaginu í hag. Sveitarstjóri bæjarins lét hafa eftir sér að réttur sveitarfélagsins til að vernda vatnsból sitt hafi verið viðurkenndur að fullu.

Þessi saga er gott dæmi um þau grundvallar réttindi manna að hafa aðgang að hreinu vatni og andrúmslofti. Þessi réttur íbúa Reykjanesbæjar hefur undanfarin ár verið undir stöðugri árás með framkvæmdum stórmengandi iðnaðar í Helguvík.

Undanfarin ár hef ég barist gegn illa grundaðri stefnu bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að samþykkja lóðir fyrir stórmengandi iðnað innan tveggja kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð.  Flestum er full ljóst hvað áhrif United Silicon hafði á heilsu og líðan bæjarbúa þegar verksmiðjan hóf framleiðslu með einum af fjórum ljósbogaofnum sem starfsleyfið veitir. Ef til vill eru færri sem muna eftir því að fyrir fjórum árum þegar nýkjörin bæjarstjórn tók við völdum var samþykkt nær einróma að veita annari kísilverksmiðju, Thorsil, leyfi til framleiðslu í Helguvíkinni. Þessi ákvörðun var óskynsamleg þar sem engin reynsla var komin á fyrri verksmiðjuna, þ.e. United Silicon.

Á þessum tíma var ég í fjórða sæti á óháðum lista Samfylkingarinnar þar sem helsta slagorð fylkingarinnar var “íbúasamráð skal hafa í öllum stórum umhverfismálum”.
Skemmst er frá því að segja að það loforð var ekki efnt.
Þegar nokkrir ötulir bæjarbúar að mér meðtalinni hófum að safna undirskriftum fyrir íbúakosningar bar lítið á stuðningi bæjaryfivalda. Stjórn bæjarins lét hafa eftir sér að það skipti litlu máli hvað bæjarbúar myndu kjósa, verksmiðjan yrði samþykkt.

Í dag stendur bygging kísilversins United Silicon undir lás og slá eða þar til næstu eigendur taka við verksmiðjunni væntanlega með loforð sem og fyrri eigendur, um mengunarbúnað af bestu fáanlegri gerð. Þrotabú United Silicon skuldar bæjarfélaginu hundruða milljóna og Thorsil hefur enn ekki borgað lóðargjöld. Svo virðist sem bæjarstjórn hafi engan metnað til að nálgast peningana þar sem verksmiðjan hefur fengið ítrekaðan greiðslufrest.

Tími mengandi stóriðju er liðinn og áframhaldandi framkvæmdir í Helguvík eru byggðar á röngum forsendum þar sem heilsa íbúa er virt að vettugi. Til að tryggja farsæla framtíð bæjarbúa verður að stöðva allar framkvæmdir kísilvera í Helguvík.
Ég vona að næsta bæjarstjórn sýni dug,  metnað og hugrekki til að tryggja íbúum bæjarins heilnæmt umhverfi, tökum smábæinn í Kanada okkur til fyrirmyndar.

Dagný Alda Steinsdóttir
Formaður VG á Suðurnesjum

Ný stjórn og styttist í framboðslista í Hafnarfirði

Aðalfundur Hafnarfjarðar félags Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fór var haldinn í gær, 14.mars,  og þar var kosin ný stjórn. Nýju stjórnina skipa, Fjölnir Sæmundsson, sem er formaður, Elva Dögg Ásu og Kristinsdóttir, sem er varaformaður. Meðstjórnendur eru Árni Áskelsson, Valgerður B. Fjölnisdóttir og Birna Ólafsdóttir.  Júlíus Andri Þórðarson og Kristrún Birgisdóttir voru kosin skoðunarmenn reikninga.  Unnið er að því að setja saman framboðslista VG í Hafnarfirði, fyrir sveitarstjórnarkosningar og stefnt er að því að ljúka því starfi um helgina og leggja listann fram til samþykktar í næstu viku.

 

 

 

Fundur á Húsavík í kvöld með Steingrími og Bjarkey.

Þingmenn Vinstri grænna í NA-kjördæmi, Steingrímur J. Sigfússon og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, verða gestir á fundi V- listans Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og óháðra í Norðurþing n.k. föstudag, 2.mars, kl. 20:00 í fundarsal Framsýn, efri hæð á Húsavík. 

Áhugafólk um að starfa með V-listanum er sérstaklega hvatt til að mæta.

Gefðu kost á þér á lista VG í Mosfellsbæ

 

Vilt þú vinna að bæjarmálum í Mosfellsbæ?

Gefðu kost á þér á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

VG í Mosfellsbæ auglýsir eftir framboðum og tilnefningum áhugasamra um að taka sæti á lista. 

 

 Sendu okkur póst á vgmosfellsbae@gmail.com fyrir 14. mars n.k.

 

“Vindur, vindur vinur minn”

Vindasamt á Íslandi, segja menn og hafa lög að mæla. Greinarheitið er eftir Guðlaug Arason rithöfund og óvíst að allir samþykki innihald þess. Eftir því sem þrengir að orkukostum með vatnsafli eða jarðvarma, ber meira á könnun á vindorkukostum og umræðum um þess konar orkuöflunarleið, jafnvel á nýjum verkefnum.

Vindorkuver eru nýlunda

Fáeinir bændur riðu á vaðið í smáum stíl, Landsvirkjun reisti tvær stórar vindmyllur í tilraunaskyni NV af Búrfelli og einkaaðilar hafa t.d. rekið tvær vindmyllur í Þykkvabæ. Rekstrarkannanir sýna, ásamt úttekt Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings á ólíkum veðurfars- og ísingarsvæðum, að vindorka getur verið veruleg viðbót við orkuöflun á Íslandi. Hve langt það kann að ganga er háð kostnaði, orkuþörf, skipulagsmálum, staðbundnum umhverfismálum og fleiri þáttum. Vísindalegur grunnur vindorkustöðva verður að vera traustur. Þá er ekki aðeins átt við staðsetningu vindmylla og lágmörkun umhverfisárifa á áhrifasvæði þeirra. Líka verður að leita erlendra gagna um raunverulegt vistspor, frá öflun smíðaefna til tækjanna allt til niðurrifs og förgunar. Til þess þarf svokallað lífsferlisgreiningu (LCA).

Vindmyllur – hvar?

Sjáanleg verkefni eða hugmyndir, aðrar en eins konar heimarafstöðvar, eru tvenns konar. Í einn stað vindlundir eða vindorkuver með einum eða mörgum tugum vindmylla. Þeim er safnað í hóp eða keðju og aflgetan er tugir eða örfá hundruð MW. Þannig er vindlundur Landsvirkjunar vestan Hofsjökuls í nýtingarflokki 3. áfanga Rammaáætlunar og hugmyndir einkafjárfesta um stærri vindlund í Dölum vestur. Í annan stað er um að ræða fyrirspurnir eða verkefni á hugmyndastig líkari því sem sést í Þykkvabæ; ein eða nokkrar stórar myllur sem framleiða t.d. 1 til 5 MW hver. Ýmist eiga sveitarfélög eða einkaaðilar þar hlut að máli. Sveitarfélög og aðra vantar bæði laga- og reglugerðarramma utan um slík verkefni sem og sérfræðiráðgjöf við ákvarðanir og samninga. Telja má víst að vindmyllur verða umdeildar hér á landi sem annars staðar. Hér ber að geta þess að orkuver með afli yfir 10MW eiga heima undir smásjá verkefnisstjórnar Rammaáætlunar. Þar er nú Búrfellslundur í biðflokki.

Framsækin markmið

Núna er laga- og reglugerðarumbúnaður vindorku sundurlaus og óreyndur að ýmsu leyti. Vissulega falla vindorkuvirkjanir undir raforkulög, skipulagslög, lög um flutningskerfið og lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þær eru þó svo ólíkar vatns- og jarðvarmavirkjunum, og nýjar af nálinni, að brýn þörf er á að taka heildstætt á lagaumhverfinu, reglugerðum og leyfismálum, áður en lengra er haldið. Þess vegna segir í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að setja skuli lög um beislun vindorku, auk þess sem heildstæð orkustefna fyrir landið verði unnin. Til viðbótar vindorku ber þar að líta til annarra orkugjafa, sjávarins (hverflar í sjó, líkir vindmyllum, eða ölduaflsnemar) og varmadæla sem sækja t.d. varma í lághita á landi eða volgan sjó og nýtast aðallega til húshitunar. Í þeim efnum er til nýsköpun í landinu, t.d. sjávarhverflar Valorku og stór varmdæla sem gagnast mun Eyjamönnum, þróuð í samstarfi við  Nýsköpunarmiðstöðina.

Skýrslubeiðni í farvegi

Til þess að styðja við laga- og reglugerðarskrif um vindorku og til skoðunar á sjávarorku og varmadæluvirkjunum, og til þess að styðja við mótun orkustefnu, legg ég á Alþingi fram beiðni um skýrslugerð. Safna á saman fróðleik um helstu þætti fyrrgreindra leiða til orkuöflunar. Beiðnin verður vafalítið samþykkt og mun Atvinnuráðuneytið þar með láta vinna skýrsluna á 6-7 mánuðum. Vandséð er að ráðist verði í byggingu vindorkuvera, stórra eða smárra, fyrr en grunnstefna, lagaumgjörð, og reglur liggja fyrir.

 

Ari Trausti Guðmundsson. 

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu. 

Forval í Reykjavík 24. febrúar – frá kjörnefnd

Forval í Reykjavík 24. febrúar

Rafrænt forval Vinstri grænna í Reykjavík fer fram 24. febrúar næstkomandi. Valið verður í efstu fimm sæti á framboðslista hreyfingarinnar til borgarstjórnar Reykjavíkur í kosningunum sem fram fara þann 26. maí. Á kjörskrá í forvalinu eru félagar í Vinstri grænum sem skráð voru fyrir 14. febrúar 2018.

Kjörfundur rafræns forvals hefst klukkan 0:00 og stendur til 17:00. Frá 10:00 til 17:00 verður einnig hægt að kjósa á skrifstofu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík, þar sem félagar sem þess þurfa geta fengið leiðbeiningar um hvernig rafræn kosning fer fram. Upplýsingar um frambjóðendur á forvalinu má finna á vefslóðinni www.vgr.is/forval2018.

Til að taka þátt í forvalinu þarf að fara á innskráningarsíðu sem aðgengileg verður á vef Vinstri grænna í Reykjavík, www.vgr.is, ásamt leiðbeiningum. Þar þurfa félagar að skrá sig inn með rafrænu auðkenni, annaðhvort Íslyki eða Rafrænum skilríkjum.

Félagar sem hafa hug á að kjósa í forvalinu er hvattir til þess að kanna sem fyrst hvort þeir hafi rafræn auðkenni. Þeir félagar sem ekki hafa orðið sér úti um rafrænt auðkenni geta nálgast upplýsingar um hvernig þeirra er aflað á eftirfarndi vefsíðum:

Kjörnefnd Vinstri grænna í Reykjavík

 

Minnum einnig á framboðsfund laugardaginn 17. febrúar – í messanum Sjóminjasafninu kl 14-16