Sóknarfæri í innlendum landbúnaði

Á dögunum varð ég þess heiðurs aðnjótandi að opna landbúnaðarsýninguna Sveitasælu í Skagafirði. Þar mátti sjá margvísleg dæmi um nýsköpun í innlendum landbúnaði sem sýna svo ekki verður um villst að innlendur landbúnaður býr yfir gríðarlegum sóknarfærum.

Það hefur lengi verið hluti af stefnu Vinstri-grænna að líta á landbúnað sem umhverfismál. Matvælaframleiðsla í nærumhverfi er hluti af sjálfbæru samfélagi og í mínum huga er ekki spurning að mikilvægur þáttur þess að hafa betur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum verður að tryggja matvælaframleiðslu í heimabyggð þannig að ekki þurfi að flytja mat yfir hálfan hnöttinn með tilheyrandi kolefnisfótspori. Æ fleiri eru að verða meðvitaðir um það vistspor sem fylgir miklum flutningum og æ fleiri gera kröfu um framleiðsluhætti sem eru samfélagslega og umhverfislega ábyrgir.

Í raun getur ekkert samfélag verið sjálfbært án innlends landbúnaðar. Þess vegna er mikilvægt að stuðningur við innlendan landbúnað styðji við það að gera innlendan landbúnað enn grænni. Þar hafa sauðfjárbændur stigið stór skref og sett sér metnaðarfulla stefnu um kolefnishlutleysi sauðfjárræktar, sem ríkisstjórnin telur til fyrirmyndar. Til þess að ná þeim markmiðum sem Ísland hefur sett sér til að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum verða allir geirar samfélagsins að taka höndum saman, stjórnvöld, atvinnulífið og almenningur. Ég fagna frumkvæðinu sem sauðfjárbændur hafa sýnt og hlakka til að fylgjast með því verkefni og þeim sem svo munu fylgja í kjölfarið.

Innlendur landbúnaður er líka grunnforsenda þess að tryggja matvælaöryggi landsmanna allra. Til þess að hægt verði að fæða heiminn næstu áratugi þarf bændur úti um allan heim, líka á harðbýlum eyjum eins og Íslandi. Um þetta höfum við séð dæmi á síðustu vikum, þegar sögulegir þurrkar hjá nágrönnum okkar í Skandinavíu hefur gert Dani og Svía að korn-innflytjendum í fyrsta skipti í marga áratugi. Norðmenn ætla að kaupa tugþúsundir tonna af heyi frá Íslandi til þess að geta framleitt nægt kjöt og næga mjólk, meðal annars vegna þess að hér er sjúkdómastaða álíka góð og hjá þeim.

Að lokum er innlendur landbúnaður ein af forsendum þess að unnt sé að tryggja ákveðna byggðafestu. Þar er hins vegar mikilvægt að stuðningskerfið þróist í takt við breytta tíma þar sem framleiðslugeta hefur aukist. Þar er nýsköpun grundvallarþáttur enda margir bændur að sinna fjölþættum verkefnum sem geta af sér fjölbreyttar afurðir. Menntun, rannsóknir og nýsköpun er það sem mun gera okkur kleift að hafa hér til framtíðar landbúnað í fremstu röð og auka enn verðmæti innlendra landbúnaðarafurða. Þar eru ýmis sóknarfæri sem meðal annars tengjast því að tengja betur saman matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu, nýta afgangsafurðir til margs konar nýsköpunar og markaðssetja þær gæðaafurðir sem hér eru búnar til. Við búum við góðar aðstæður; við eigum öfluga háskóla og rannsóknarstofnanir og framsýna bændastétt sem lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að starfsaðstæður hafi um margt verið verulega þungar um tíma.

Þar hlýt ég að nefna þá erfiðleika sem sauðfjárbændur glíma við þessi misserin en framleiðsla á lambakjöti hefur ekki verið í takt við innanlandsneyslu og ytri aðstæður hafa haft áhrif á útflutning á lambakjöti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú ákveðið að flýta endurskoðun á búvörusamningi við sauðfjárbændur til að unnt verði að móta langtímasýn fyrir sauðfjárbúskap þar sem tekið verður á þessum þáttum. Er það von mín að íslensk sauðfjárrækt fái þar ný sóknarfæri og geti jafnvel orðið fyrsta kolefnishlutlausa sauðfjárrækt í heimi.

Kúabændur eru svo að stíga fyrstu skrefin í að innleiða tæknibyltingu í ræktun íslensku mjólkurkýrinnar. Það lýsir hugrekki og trausti kúabænda á framtíð íslensks landbúnaðar að ráðast í það verkefni að nýta tækni, sem hingað til hefur einungis verið nýtt í risavöxnum erlendum kúastofnum, á hinn litla íslenska stofn. Það er nefnilega svo að öruggusta leiðin til að vernda okkar fornu bústofna er að sjá til þess að þeir séu nýttir til að framleiða landbúnaðarvörur.

Stundum er talað um stuðning ríkisins við innlendan landbúnað eins og sértækan stuðning við Framsóknarflokkinn. Með fullri virðingu fyrir mínum ágæta samstarfsflokki er það fjarri lagi. Staðreyndin er sú að flest lönd heimsins niðurgreiða landbúnað til þess einmitt að mæta hagsmunum neytenda, tryggja matvælaöryggi og sjálfbærni. Við eigum að styðja við íslenskan landbúnað – landbúnað sem er í takt við 21. öldina.

 

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist í bændablaðinu

Nýtt neyðarskýli fyrir unga heimilislausa karla sem eru í vímuefnaneyslu.

Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag að kaupa eða leigja húsnæði þar sem nægt verður að útbúa allt að 25 rúmgóð herbergi eða einstaklingsíbúðir sem nýta má sem neyðarhúsnæði fyrir einstaklinga sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði, verkefnið er viðbót við þau úrræði sem þegar eru í undirbúningi. Nú þegar hefur húsnæðisúræðum fjölgað um 138 á vegum Reykjavíkurborgar frá því í ágúst 2017.

Velferðarráð samykkti auk þess að opna nýtt neyðarskýli fyrir unga heimilislausa karla sem eru í vímuefnaneyslu. Um er að ræða hreina viðbót við þá þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir þessum hópi nú þegar, en nú njóta rúmlega 70 einstaklingar sértækrar aðstoðar.

Framundan er mótun heildstæðrar stefnu um þá þjónustu sem velferðarsvið veitir þeim hópi sem hefur verið skilgreindur utangarðs í samfélaginu. Um er að ræða fjölbreyttan hóp fólks með fjölbreyttar þarfir. Mikilvægt er að stefnan verði unnin í góðu samráði við helstu hagsmunaaðila og þá sem sjálfir eru eða hafa verið í þessarri stöðu.

Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna kemur fram að aðstoð við viðkvæma einstaklinga sem samfélagið hefur jaðarsett sé ávallt veitt út frá valdeflingu og skaðaminnkun. Unnið verður áfram með verkefni á borð við „Húsnæði fyrst“ og Frú Ragnheiði. Í sáttmálanum kemur auk þess fram að sett verði á fót sérstakt búsetuúrræði fyrir konur með geð- og fíknivanda og skoðað verði að koma upp neyslurými í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

 

 

Umhverfisráðherra skoðar tillögur um friðlýsingar

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­is- og auðlindaráðherra seg­ir að til­lög­ur Nátt­úru­fræðistofn­un­ar Íslands um friðlýs­ingu Dranga­jök­uls­svæðis­ins séu byggðar á nýj­um rann­sókn­um, nýrri en þeim sem sú ákvörðun að setja Hvalár­virkj­un í nýt­ing­ar­flokk ramm­a­áætl­un­ar byggði á. Ákvörðun um hvort farið verði að til­lög­un­um og svæðið friðlýst með ein­hverj­um hætti ætti að byggja á nýj­ustu upp­lýs­ing­um. Ramm­a­áætl­un sé ekki meitluð í stein held­ur eigi að end­ur­skoða hana reglu­lega. Hann seg­ist ekki getað svarað því á þess­um tíma­punkti hvort hann muni mæla með friðlýs­ingu svæðis­ins. Til­lög­urn­ar séu nú komn­ar í ferli og taka þurfi til­lit til ým­issa þátta í þeirri vinnu.

Nátt­úru­fræðistofn­un hef­ur lagt til að Dranga­jök­ull á Vest­fjörðum og ná­grenni hans verði friðlýst m.a. vegna ein­stakra jarðminja sem eru til­komn­ar vegna land­mót­un­ar jökla. Áhrifa­svæði Hvalár­virkj­un­ar, sem Vest­ur­verk hyggst reisa á Ófeigs­fjarðar­heiði, yrði inn­an þessa svæðis og myndi friðlýs­ing því hafa áhrif á þær virkj­ana­hug­mynd­ir. Stofn­un­inni ber sam­kvæmt nýj­um nátt­úru­vernd­ar­lög­um að leggja fram til­lög­ur að friðlýs­ing­um.

Eft­ir að til­lög­urn­ar hafa verið send­ar ráðherra tek­ur Um­hverf­is­stofn­un við þeim og met­ur til hvaða vernd­ar­ráðstaf­ana sé nauðsyn­legt að grípa á hverju svæði en í til­lög­um Nátt­úru­fræðistofn­un­ar er fjallað um mörg svæði um allt land, m.a. svæði sem þegar njóta ákveðinn­ar vernd­un­ar.

Málið fer svo í kynn­ingu og að henni lok­inni vinn­ur Um­hverf­is­stofn­un um­sögn og send­ir hana til ráðherra. Ráðherra fer þá yfir þær niður­stöður ásamt sér­stakri ráðgjafa­nefnd. Að þeirri vinnu lok­inni er lögð þings­álykt­un­ar­til­laga fyr­ir þingið um þau svæði sem lagt er til að verði friðlýst.

Ýmsar leiðir til friðlýs­ing­ar

Friðlýs­ing hvers svæðis get­ur svo verið með ýms­um hætti. Í nátt­úru­vernd­ar­lög­um er nú kveðið á um mis­mun­andi leiðir í þeim efn­um. „Í sum­um til­vik­um er hægt að friðlýsa með stofn­un þjóðgarðs, öðrum með friðlandi, nátt­úru­vætti eða með friðun búsvæðis og mis­mun­andi regl­ur gilda um mis­mun­andi vernd­ar­flokka,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi.

Trausti Bald­urs­son, sem fór fyr­ir vinnu við til­lög­ur Nátt­úru­fræðistofn­un­ar, sagði í sam­tali við mbl.is í dag að hlut­verk stofn­un­ar­inn­ar væri að rann­saka og kort­leggja nátt­úruf­ar og koma með til­lög­ur að friðlýs­ing­um, óháð hags­mun­um annarra.

Guðmund­ur Ingi seg­ir að til­lög­urn­ar byggi á fag­legu mati stofn­un­ar­inn­ar um hvað eigi að taka frá vegna al­manna­hags­muna og til að vernda fyr­ir kom­andi kyn­slóðir. Í þeim sé meðal ann­ars lögð til vernd­un jarðfræðim­inja sem þykja ein­stök á lands- eða heimsvísu.  „Nú eru þess­ar til­lög­ur komn­ar til mín og ég þarf að skoða ásamt sér­fræðing­um hvað skuli fara inn á [Nátt­úru­m­inja­skrá]. Til dæm­is eru svæði í til­lög­um Nátt­úru­fræðistofn­un­ar sem þegar eru friðlýst og horfa þarf til þess sem kem­ur út úr kynn­ing­ar­ferli til­lagn­anna en einnig þess hvort það sé eitt­hvað annað sem geti haft áhrif þar á. En ég lít fyrst og fremst á það sem skyldu mína sem fagráðherra að líta til þess að þarna er byggt á fag­legri vinnu stofn­un­ar­inn­ar og að mér beri að vinna þess­ar til­lög­ur áfram.“

Nýtt vís­inda­legt mat

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir iðnaðarráðherra sagði há­deg­is­frétt­um RÚV í dag að krafa um friðlýs­ingu svæða við Dranga­jök­ul, sem myndi koma í veg fyr­ir Hvalár­virkj­un, myndi koll­varpa rammáætl­un­ar­ferl­inu og hún sé á skjön við það ferli sem lög­gjaf­inn hafi sett mála­flokk­inn í.

„Það er al­veg ljóst að Hvalár­virkj­un er í nýt­ing­ar­flokki,“ seg­ir um­hverf­is- og auðlindaráðherra spurður út í þessi um­mæli. „Það var samþykkt í öðrum áfanga ramm­a­áætl­un­ar á Alþingi árið 2013, byggt á skýrslu frá 2011 sem aft­ur byggði á niður­stöðum og rann­sókn­um sem áttu sér stað fyr­ir þann tíma. Ef við skoðum þær heim­ild­ir sem liggja að baki til­lög­um Nátt­úru­fræðistofn­un­ar kem­ur í ljós að þær eru nær all­ar úr ritrýnd­um vís­inda­tíma­rit­um og birt­ar á ár­un­um 2014-16. Þannig að ég get ekki bet­ur séð en að Nátt­úru­fræðistofn­un sé að byggja á gögn­um og rann­sókn­um sem eru birt­ar eft­ir að ramm­a­áætl­un­in var samþykkt. Það má þá kannski segja að þarna sé komið fram nýtt vís­inda­legt mat. Það ber þó að hafa í huga að stofn­un­in er ekki að meta þetta út frá ramm­a­áætl­un held­ur út frá því sem hún tel­ur að eigi að vernda sem sér­stak­ar og ein­stak­ar jarðmynd­an­ir á lands- og heimsvísu.“

Hann bend­ir á að ramm­a­áætl­un geti tekið breyt­ing­um og eigi að koma til skoðunar á fjög­urra ára fresti, þó að á því hafi staðið síðustu ár.

Frétti morgunblaðsins um tillögurnar

Til hamingju með kvenréttindadaginn

Á þessum degi fyrir þremur árum fögnuðum við 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Af því tilefni var stofnaður Jafnréttissjóður Íslands með samþykkt þingsályktunar um sjóðinn. Ég var einn af flutningsmönnum tillögunnar og þótti sérstaklega vænt um að fá að flytja ávarp við úthlutun styrkja úr sjóðnum fyrr í dag.

Jafnréttissjóður Íslands hefur reynst afar mikilvægt tæki til að efla og styðja við rannsóknir og þekkingarsköpun hér á landi. Verkefnin hafa mörg hver beina þýðingu fyrir stefnumótun og löggjöf á sviði jafnréttismála og hjálpa okkur þannig að feta áfram veginn í átt til aukins jafnréttis.

Jafnréttismál eru þungamiðja í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Skrefin sem tekin verða á þessu kjörtímabili eru stór og smá en samanlagt þoka þau okkur áfram. Við höfum þegar fullgilt Istanbúlsamninginn, gert jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna að lögum og sömuleiðis jafna meðferð á vinnumarkaði. Frumvarp um mannréttindi intersex-fólks er í undirbúningi og mun koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Að auki hefur aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota verið fjármögnuð að fullu og stýrihópur á mínum vegum fylgir þessu starfi eftir þessa dagana með heildarendurskoðun á forvörnum, stefnumótun um stafrænt kynferðisofbeldi, viðbrögðum við #metoo og úrbótum á réttarstöðu brotaþola. Innleiðing jafnlaunavottunar er svo í fullum gangi sem er enn eitt verkfærið til þess að varpa ljósi á og uppræta kynbundinn launamun.

Við vitum að rótgróin viðhorf kynjakerfisins breytast seint og enn er mikið verk óunnið á sviði jafnréttismála. Það er verkefni okkar allra að kyn og kynferði hefti ekki frelsi og réttindi þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi. Við viljum öll geta litið um öxl eftir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár, vitandi að við lögðum okkar skál á vogarskálarnar.

Til hamingju með daginn!

Katrín Jakobsdóttir

Ávarp forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2018

Góðir landsmenn.

Í byrjun desember árið 1918 ritaði Elka Björnsdóttir, verkakona í Reykjavík, dagbókarfærslu eins og hennar var vandi að loknum vinnudegi. Elka var þá 37 ára og hafði haldið dagbók í rúman áratug en skrif hennar þykja veita einstaka innsýn í líf venjulegs daglaunafólks á fyrstu árum 20. aldar, áður en grunnstoðir íslensks velferðarkerfis voru reistar.

Ein færslan í dagbókinni sker sig úr, en þar segir meðal annars:

Hátíðin var stutt en góð. Ef öðruvísi hefði staðið á en nú, ef ógn sóttarinnar væri ekki enn vofandi og lamandi yfir öllum landslýð, þá hefðu eflaust orðið hátíðarhöld um allt land og hin prýðilegustu svo sem vert var. […]
Þetta var þó betra en ekkert, enda gaf guð svo fagurt veður að minnilegt mun verða. Fjöldi skipa flaggaði og sum alsett veifum og íslenski fáninn hæst við hún. Þetta er merkisdagur mikill í sögu landsins ef hún fær að verða lengri. Tímamót, sjálfstæði fengið aftur eftir hálfa sjöundu öld. Þvílíkur tími niðurlægingar, þrauta og þjökunar og viðreisnar. Guð veit nú hvað er framundan.

Fyrr í þessari dagbókarfærslu hafði Elka lýst hátíðahöldum sem fram fóru þennan dag, 1. desember 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki. Hún greindi frá tuttugu og einu fallbyssuskoti sem skotið var af danska skipinu Islands falk sem þá lá úti fyrir höfninni en þeim var ætlað að heilsa íslenska fánanum sem skömmu áður hafði verið dreginn að húni yfir Stjórnarráðinu í fyrsta sinn. Og Elka greindi frá því hvernig helstu höfðingjar landsins voru þarna saman komnir til að fagna fullveldinu. Sjálf hefur hún án efa verið með á hreinu hver var hvað í þeim hópi, því Elka þótti „höfðingjadjörf“ eins og þá var sagt, en hún starfaði við að ræsta skrifstofur í Reykjavík.

En Elka var líka sjálf höfðingi, sannur foringi í sinni sveit þrátt fyrir að vera heilsutæp. Nokkrum árum fyrr hafði hún bæði tekið þátt í því að stofna verkakvennafélagið Framsókn og Alþýðuflokk Íslands. Það var töggur í þessari konu.

Nú um daginn fékk Elka rödd á ný, þó ekki væri nema stutta stund. Brot úr dagbókarfærslunni hér á undan var lesið upp í Ríkisútvarpinu þegar tugir Íslendinga sem bjuggu hér í höfuðstaðnum fyrir hundrað árum fengu að heyrast á ný, einn á dag.

En hverju skipta 100 ára gamlar dagbókarfærslur? Hvaða þýðingu getur fólkið sem uppi var á Íslandi fyrir 100 árum haft fyrir okkur nútímafólkið?

Elka Björnsdóttir var alls ekki viss um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Hún spurði sig hvort þessi saga fengi að verða lengri. Það er skiljanlegt í ljósi spænsku veikinnar sem þá hafði geisað síðustu vikur með skelfilegum afleiðingum, Kötlu sem hafði hætt að gusa úr sínum djúpu kvikuhólfum um mánuði fyrr og fimbulkuldans veturinn á undan sem var enn öllum í fersku minni.

Margt hefur breyst í viðhorfum til fortíðar og Íslandssögu á undanförnum árum. Röddum úr fortíðinni, sem fá áheyrn, hefur sem betur fer fjölgað. Sagnfræðin snýst minna en áður um höfðingja og fyrirmenni. Alls konar fólk sem lifað hefur í þessu landi og á þessari jörð hefur fengið rödd og endurmótað söguna.

Þessar hundrað ára gömlu dagbókarfærslur vekja okkur til umhugsunar um kjör og aðstæður þeirra sem þá voru uppi. Sömuleiðis um samfélagsgerðina þar sem konur yfir fertugu höfðu fengið kosningarétt aðeins þremur árum fyrr og ákvarðanir voru teknar með allt öðrum hætti en núna. Samfélagið er sannarlega breytt frá því fyrir einni öld. Raddir þess eru fleiri og fjölbreyttari nú en á Íslandi ársins 1918 og það er gott enda er þörfin brýn fyrir hæfileika á ólíkum sviðum, hugmyndir, dugnað og metnað. Í fámenninu munar um hvern og einn og því ber að fagna því þegar hinar fjölbreyttu raddir taka þátt í okkar stóra sameiginlega verkefni, lýðræðinu. Það er okkar að styrkja lýðræðið, ekki aðeins með því að mæta endrum og eins á kjörstað og setja sístækkandi kjörseðla í kassa, heldur líka með virkri umræðu okkar á milli í ólíkum myndum. Það er okkar hlutverk að vanda umræðuna, tjá okkar hug og síðast en ekki síst hlusta vandlega hvert á annað.

Nú á dögum er auðvelt að láta umheiminn vita af skoðunum sínum og hugsunum. Við þurfum aðeins að lyfta síma og við erum komin í ræðustól. Rétt eins og raddirnar eru fjölbreyttari eru leiðirnar fjölbreyttari til að tala við samfélagið allt og þannig hefur baráttufólk sett ólíkustu mál á dagskrá. En gleymum því ekki að enn er hægt að eiga samskipti með sígildri aðferð, setjast niður við eldhúsborð landsins eða þess vegna út í náttúrunni, horfast í augu og ræða saman maður á mann.

Kæru landsmenn.

Þessa dagana höfum við fyrir augum okkar öndvegisnámskeið í vönduðum samskiptum og samheldni þar sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tekur þátt í stærsta íþróttaviðburði heimsins, sjálfri heimsmeistarakeppninni. Veruleiki íþróttanna er skýr á yfirborði: sigur alltaf betri en tap og í fótbolta þarf að skora fleiri mörk en andstæðingurinn. En undir niðri býr margt fleira: einurð, metnaður og þrotlaus vinna liggja að baki góðum árangri. Hugurinn þarf að vera rétt stilltur gagnvart hverju verkefni. Það er ekki tilviljun að þjálfarar íslenska liðsins hafa lagt mesta áherslu á liðsheildina. Slíkur andi verður ekki til af sjálfu sér og er eitt af því dýrmæta sem íþróttir geta kennt okkur. Fyrst og fremst eru þetta skilaboð til komandi kynslóða; að þeim sem fæðast hér á þessari eyju eru lítil takmörk sett.

Kæru landsmenn.

Fyrir hundrað árum hefði líklega engan órað fyrir því að íþróttalið frá þessari nærri furðulega fámennu eyju spilaði knattspyrnu á heimsvellinum, fámennasta þjóð sem hefði náð slíkum árangri. Og eiginlega trúum við því ekki enn; sveiflumst á milli þess að telja allan þann árangur sem Ísland hefur náð undraverðan yfir í að vera sjálfgefinn. Við erum ekki ólík Elku að því leyti að við erum í leit að öryggi og jafnvægi, við stöndum frammi fyrir áskorunum og óvissu og alltaf, alltaf er veðrið okkur ofarlega í huga.

Fortíðin mun áfram geta kennt okkur margt. Í haust verður til dæmis áratugur liðinn frá efnahagshruninu. Þeir atburðir hafa litað allt stjórnmálalíf okkar síðan og kannski þjóðlífið allt. Skilningur á því sem þá gerðist og viðleitnin til að læra af mistökunum er mikilvæg til að lenda ekki aftur í svipaðri gryfju, en um leið er okkur mikilvægt að fullvissa okkur um að við séum örugglega komin upp úr henni og herfjötur hrunsins hafi ekki lagst á okkur.

Og þann 1. desember fögnum við hundrað ára afmæli fullveldisins, en meðal þess sem Alþingi hefur þegar samþykkt í tilefni af afmælinu er að fé verði veitt til aðgerðaáætlunar um uppbyggingu máltækniinnviða fyrir íslenska tungu. Við horfum til framtíðar og mætum þeim áskorunum sem hún færir okkur. Breytingar á umhverfi, samskipti eða samskiptaleysi stórþjóða í fjarlægum löndum og tækninýjungar sem munu gjörbreyta atvinnuháttum framtíðar eru nokkrar áskoranir sem við vitum af. Við þurfum að setja metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, tala fyrir mannréttindum og náttúruvernd og búa okkur undir áskoranir framtíðarinnar í atvinnuháttum. Tæknin hefur nú þegar tekið svo stórstígum framförum að hún er farin að hafa áhrif á líf okkar, samfélagsgerð og okkur sjálf. Ekki aðeins mun hún geta haft áhrif á tungumálið, heldur hugsun okkar alla.

Samskiptamiðlar og leitarvélar sem forritaðar eru með tilteknum hætti hafa þegar haft áhrif á stjórnmálaumræðu sem fer fyrst og fremst fram með yfirlýsingum sem ekki mega spanna meira en 280 stafabil. Sú staðreynd hefur gert það að verkum að dýpri stjórnmálaumræða á undir högg að sækja. Hver verða áhrifin af því? Nýtum tæknibreytingar til góðs og tryggjum að þær ýti ekki enn frekar undir sundrandi umræðu í pólitísku umhverfi sem nú þegar einkennist af því að samvinna og málamiðlanir sem lengi hafa verið undirstaða lýðræðissamfélagsins eru orðnar löstur en ekki kostur. Fjölþjóðlegt samstarf á að sama skapi undir högg að sækja, boðaðir eru múrar milli landa og æ fleiri virðast telja einstrengingshátt til sérstakra dyggða.

En tæknibyltingin hefur ekki aðeins áhrif á stjórnmálin; hún mun hafa áhrif á samfélagið allt og ekki síst atvinnulíf og vinnumarkað. Við höfum öll færi til þess hér á Íslandi að vera gerendur í tæknibyltingunni frekar en þiggjendur. Sagan sýnir okkur að stórhug hefur aldrei skort hér á landi og það er ábyrgð okkar að sækja fram gagnvart komandi breytingum til þess að tryggja áframhaldandi velsæld og jöfnuð. Það er þó kannski ekki flóknasta verkefnið heldur verður það að tryggja að mennskan glatist ekki í þessari hraðskreiðu byltingu; það verður að takast á við þau siðferðilegu álitamál sem blasa við og þær spurningar sem munu vakna um hvað það merkir að vera maður. Í því verkefni verðum við að vera meðvituð um að skapandi og gagnrýnin hugsun mannsins, hæfileikinn til að hugsa sjálfstætt, verður líklega mikilvægasta tækið til að varðveita einmitt mennskuna.

Góðir Íslendingar.

Hátíðardagar eins og 17. júní og 1. desember minna okkur á að við stöndum á herðum þeirra kynslóða sem á undan okkur fóru. Við þurfum að vera sívakandi við að leggja okkar af mörkum til að greiða götuna áfram til betra samfélags á Íslandi. Þetta er nefnilega gott land og gott samfélag. Gleymum því aldrei að hér búum við þvert á ýmsar hrakspár öldum saman vegna þess að hér er gott að vera og vegna þess að þrátt fyrir allt þykir okkur vænt hverju um annað. Það er líklega það dýrmætasta af öllu.

Góðir landsmenn, gleðilega hátíð!

Þjóðhátíðarræða Lífar Magneudóttur

Ágætu hátíðargestir

Það er mér mikill heiður að vera með ykkur hér í kyrrð og fegurð Hólavallakirkjugarðs til að minnast hjónanna Ingibjargar Einardóttur og Jóns Sigurðssonar og leggja þennan fallega blómsveig að leiði þeirra. Þetta er árviss viðburður og í mínum huga hefur hann alltaf verið táknrænn fyrir þau gildi sem við viljum tileinka okkur sem samfélag – gildi sem ekki úreldast því þau eru sönn og góð þó samtíminn sé breytilegur og tíðarandinn ólíkur.

Það eru 207 ár síðan Jón fæddist, 74 ár síðan Íslendingar öðluðust sjálfstæði og fyrsta desember í ár eru liðin 100 ár frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Inn í þá upptalningu mætti bæta fjölmörgum öðrum ártölum sem við setjum sem vörður í sögu okkar sem þjóðar en þó árafjöldinn standi ýmist á oddatölu eða sléttri tölu þá er alltaf tilefni til að fagna tilvist okkar.

Við þekkjum öll hvernig fjölskyldan fagnar af alls konar tilefnum: stórafmælum, útskrift, áföngum sem er náð, góðu gengi í maraþoni eða árangri  í stóru upplestrarkeppninni. Við fögnum litlu sigrunum með okkar nánustu, stærri sigrum með enn fleirum. Árangri þjóðarinnar fögnum við í sameiningu, kannski á torgi eða túni þar sem margir geta komið saman og við látum veðrið ekki trufla okkur.

Á landinu okkar býr fólk við ólíkar aðstæður. Sumir hafa valið að flytja hingað en aðrir hafa hafnað hér fyrir hálfgerða tilviljun og haft lítið um það að segja. Sumir þekkja ekki annað en Ísland en aðrir þekkja varla Ísland. Um daginn bættust tæplega 70 manns opinberlega í íslensku stórfjölskylduna og því ber að fagna, og ekki síður þeim sem hingað hafa komið en ekki enn tekið þetta skref.

Okkur líður vel þegar við finnum að við tilheyrum hópi og ekki síður þegar okkur gefst færi á að sameinast og styðja hvert annað, eins og til dæmis í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu.  Þegar reynir á fulltrúa okkar á alþjóðavettvangi –  strákana okkar og stelpurnar okkar – leiðum við hjá okkur dægurþras og stöndum með okkar liði í blíðu og stríðu, meira að segja þeir sem hafa engan sérstakan áhuga á íþróttum. Ég vona að minnsta kosti að okkur Íslendingum sé það enn gefið að sameinast þegar okkar litla þjóð þarf á samstöðu og hvatningu að halda. En ef til vill mættum við líta víðar þegar við viljum sýna samhug.

Í dag leggjum við mikið upp úr því að við myndum öll þetta samfélag og séum ein heild. Þrátt fyrir það er staða okkar ólík og rödd okkar missterk. Við styðjum landsliðið öll einni röddu en við styðjum ekki alltaf rétt þeirra sem eiga undir högg að sækja einni röddu.

Keppnisandinn sem gagntekur okkur þegar við – þessi fámenna þjóð – tökumst á við andstæðinga á leikvelli úti í heimi mætti líka grípa okkur á fleiri sviðum. Ef við keppum samhent að því að gera landið okkar að hreinasta, besta og „stórasta“ landi í heimi þar sem enginn líður skort en öllum líður vel getur okkur líka tekist það. Ef við mótmælum öll misrétti og ójöfnuði og tökum höndum saman um að bæta úr óréttlæti eru okkur allar leiðir færar.

„Þú vilt gefa allt, Þórdís,“ sagði Sigurður faðir Jóns einu sinni við Þórdísi konu sína þegar hún var að leysa úr vanda fátæklinga sem til hennar höfðu leitað. Jón Sigurðsson þótti líka greiðvikinn við landa sína og gerði ekki upp á milli stétta og á þeim 40 árum sem hann var ótvíræður leiðtogi Íslendinga í  sjálfstæðisbaráttunni við Dani hafði enginn landi okkar  samband við jafn fjölmennan og fjölbreyttan hóp Íslendinga og hann. Jón reyndi ævinlega að greiða götu þeirra sem til hans leituðu og að rétta stöðu þeirra, rétt eins og Þórdís móðir hans. Ef til vill er það ástæðan fyrir því að hann er enn þann dag í dag þjóðhetja okkar og við fögnum afmæli hans um leið og afmæli lýðveldisins á hverju ári.

Jón Sigurðsson gerði sér eflaust grein fyrir því að hann gæti ekki bjargað þjóðinni einn síns liðs og aðstoðarlaust, enda stóð hann vissulega ekki einn í baráttunni. Honum og félögum hans hefur örugglega líka verið ljóst að enginn sigur í þeirri baráttu kæmi eins og hendi væri veifað og að lítil von væri um árangur. Það ber því vott um einstakt baráttuþrek, stórhug og metnað að leggja ekki árar í bát heldur þraukast við og halda áfram að reyna þar til sigur hafðist. Sjálfstæðisbaráttan var ekki eins og fótboltaleikur þar sem úrslitin ráðast á níutíu mínútum. En þótt kappleikurinn fangi hugann og úrslitin berist fljótt vitum við öll mætavel að hetjurnar okkar á leikvanginum hafa líka unnið og stefnt að því árum saman að komast alla leið þangað. Hugur okkar er hjá þeim og þegar markmaðurinn ver víti frá einum þekktasta knattspyrnumanni heims hoppar hjartað í brjósti Íslendinga og við fögnum ákaft. Hver getur hugsað um annað en fótbolta á þannig stundum?

Ætla má að ef sama kapp og ástríða réði för í öðrum málaflokkum væri samfélag okkar mannanna enn betra. Það er samt von mínog trú að samfélag okkar sé sífellt að batna og ég veit að við höfum  getu til að gera enn betur.

Góðu hátíðargestir.

Margir eru betur í stakk búnir en ég að fjalla um sýn Jóns á sjálfstæði Íslands sem óneitanlega litaðist af viðhorfum hans samtíma. Sum gildin sem hann og samtímamenn hans boðuðu má þó segja að ekki hafi fallið skuggi á þótt birtingarmyndir þeirra hafði ef til vill tekið einhverjum breytingum:

Verndum tungumálið okkar, íslenskuna, því í henni býr aflið sem hnýtir okkur saman.

Stöndum vörð um sjálfstæðið sem við endurheimtum og ræktum það vel með lýðræðislegri þátttöku.

Og umfram allt:  stöndum saman og lokum ekki augunum fyrir neyð þeirra máttminnstu í okkar hópi. Við tilheyrum öll sömu þjóð – við erum systkini, hvort sem það er á íþróttavellinum, fagnandi fyrir framan skjáinn eða á leikvangi dagslegs lífs þar sem við erum öll ómissandi leikmenn í landsliði Íslands.

 

Gleðilega þjóðhátíð.

Meirihlutasamstarf VG í Borgarbyggd með Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu og óháða

Meirihlutasamstarf VG í Borgarbyggd með Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu og óháða

Vinstri hreyfingin Grænt framboð fékk góða kosningu í Borgarbyggð og bætti við sig manni en Halldóra Lóa Þorvalsdsdóttir oddviti flokksing verður formaður Byggðaráðs og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir formaður Umhverfis og skipulagsnefndar og eru þær kjörnir fulltrúar flokksins.

Mikil gleði ríkti í hópnum og einskorðaðist baráttan af samheldni og samvinnu allra sem að henni stóðu. Við fengum frábæra nýliða inn í hópinn sem stóðu upp þegar á þurfti að halda og tóku á sig vinnu ekki er sjálfsagt að leggja á nýliða.

VG í Borgarbyggd kláraði í skrifaði undir málefnasamning við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu og óháða. Samningar gengu vel fyrir sig en ekki komu upp stór ágreiningsmál í ferlinu. Hópurinn er ánægður með samninginn og telur að málefni VG komi þar skýrt fram.

Við leggjum áhersu á aukna innviðauppbygginu og viðhald í samfélaginu. Að komið verði betur til móts við þarfir barna í sveitafélaginu og aðbúnaður þeirra verði bættur. Það er hluti af forvörnum til svo margra þátta að búa betur að börnunum okkar. Umhverfisstefnan er líka skýr og á að fara taka fyrstu skrefin í að kolefnisjafna bílaflota sveitafélagsins auk þess sem sorpmálin verða tekin fastari tökum og flokkun sorps. Einnig vonumst við til að vinna vel með öllum kjörnum fulltrúum því við erum jú öll að taka þátt í þessu til að bæta sveitafélagið okkar og mörg málefni sem voru sameiginleg með öllum framboðunum

 

Okkur hlakkar mikið til að taka þátt áframhaldandi uppbyggingu Borgarbyggðar og erum einnig þakklát góðu gengi í kosningunum.

 

Inni á vellinum

Nú er liðið hálft ár síðan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við stjórnartaumunum. Greinarhöfundur er sannfærður um að í umræddri stöðu og einungis þegar þannig háttar til, sé okkur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði kleift að koma okkar ágætu málefnum og sjónarmiðum áleiðis, svo að einhverju nemi og innan ásættanlegra tímamarka. Hið síðarnefnda er síst minna mikilvægt. Með því er ekki verið að gera lítið úr því ötula og óeigingjarna starfi sem unnist hefur í gegnum árin, en nú styttist óðum í að hreyfingin okkar fagni tuttugu ára afmæli. Á þeim tímamótum er vert að líta stolt um öxl og rýna farinn veg, fínstilla stefnuna og leiðrétta kúrsinn eins og við kann að eiga. Gera verður ráð fyrir að þess sé þörf. Sú framþróun og árangur sem glögglega má sjá að náðst hefur í starfsemi hreyfingarinnar, kallar jafnan á slíkar ráðstafanir. Það breytir hinsvegar ekki þeirri óumdeildu og ánægjulegu staðreynd að ríkisstjórn undir okkar góðu forystu og ásamt stjórn heilbrigðis- og umhverfismála, er ákaflega hentugur og mikilvægur vettvangur til að koma okkar sjónarmiðum skýlaust á framfæri og veita mikilvægum málaflokkum okkar brautargengi í þágu lands og þjóðar. Og nú háttar svo til, kæru félagar, að við erum í þeirri kjörstöðu að geta fylgt umræddu eftir af töluverðum þunga. Það eru breyttir tímar. Við erum sem sagt inni á vellinum og með fyrirliðabandið ásamt því að manna tvær aðrar mikilvægar stöður í nýrri sókn fyrir Ísland og íslenskt samfélag. Í okkar aðkomu með framangreindum hætti skapast ekki einungis tækifæri til að gera gagngerar breytingar, heldur vekur það jafnframt von hjá fólki um allt þjóðfélagið um að betri tímar séu í vændum í formi meiri jöfnuðar, aukinna tækifæra og sanngjarnari og mannúðlegri meðhöndlunar mála, og af ýmsu er að taka. En vandi fylgir vegsemd hverri og byltingarkenndar breytingar verða ekki hristar fram úr erminni. Þolinmæði, úthalds og samstöðu er þörf og á það verður látið reyna, svo mikið er víst. Við sjáum merki þess nú þegar.
Okkar ágæti formaður sem tekið hefur að sér hlutverk forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn hefur leitt mál af styrk og yfirvegun, eins og vænta má af forsætisráðherra, en greinarhöfundur telur að nokkuð hafi skort á fyrrgreint í tíð fyrri ríkisstjórna. Því ber að fagna og virða. Slíku samstarfi fylgir óneitanlega að horfast þarf beint í augu við býsna mikla áskoranir og gera málamiðlanir, líkt og ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur hefur þurft að glíma við nú þegar á stuttri ævi og leyst af hendi með stakri prýði. Er það ekki síst að þakka því hvernig formaðurinn okkar hefur kosið að taka á málum, eins og sönnum forystumanni sæmir, með heildarhagsmuni og langtímasjónarmið að leiðarljósi. Hefur það vakið verðskuldaða athygli víða um heim og orðið til þess að orðspor og umtal tengt Íslandi hefur færst upp um marga styrkleikaflokka á tiltölulega skömmum tíma. Hvar sem greinarhöfund ber niður í umræðunni við erlenda aðila, víða að úr heiminum og af ólíkum uppruna, ber viðmælendum saman um að framfaraskref hafi verið stigið með aðkomu okkar hreyfingar að nýrri ríkisstjórn og að undir okkar ágætu forystu eigi það að geta orðið öðrum þjóðum og þjóðarbrotum góð fyrirmynd og til heilla þegar frá líður. Það er án efa okkar ágæta forystufólki að þakka og okkur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem erum límið í ríkisstjórnarsamstarfinu, er skylt og rétt að ígrunda jafnan veigamestu mál og takast á við ögrandi áskoranir á hverjum tíma, með umrætt að leiðarljósi og í forgrunni. Það gefur auga leið að ef við sjálf erum ekki með fókusinn stilltann á umrætt, þá gæti það reynst torveldara fyrir þá sem enn standa utan okkar hreyfingar, að glöggva sig til fulls á umræddu. Stjórn landsins er í okkar höndum og rétt er að halda því til haga að á ýmsu hafði gengið í tíð tveggja fyrri ríkisstjórna, sem umtalað var víða um heim og ekki beinlínis til þess fallið að greiða götu Íslands eða auka á virðingu okkar í samfélagi þjóðanna. Víða er pottur brotinn í málefnum barna og óhugnanleg mál hafa komið upp á yfirborðið. Gera verður ráð fyrir að enn sem komið er hafi leyndarhulunni ekki verið svipt til fulls af þeim málum. En nú eru breyttir tímar og greinarhöfundur er sannfærður um að með aðkomu okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði að stjórn landsins, séu mörkuð tiltekin þáttaskil í meðhöndlun mála hvað varðar jafnan rétt kynja, meðhöndlun á málefnum barna, jafnari skiptingu tekna og tækifæra, úrlausnum fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði og síðast en ekki síst jafnari aðkomu karla og kvenna að stjórn og þátttöku í veigamestu málum og málaflokkum í okkar þjóðfélagi, jafnt í opinbera- og einkageiranum. Þar hefur hallað verulega á konur þó að ýmislegt hafi breyst til batnaðar síðustu árin, en betur má ef duga skal og því fer augljóslega fjarri að við séum komin í áættanlegt jafnvægi hvað það varðar, eins og forsætisráðherra hefur aðspurð réttilega bent á. Greinarhöfundur er fyllilega sannfærður um að mörkuð hafi verið tiltekin þáttaskil hvað varðar framangreint og að við munum ekki líta til baka í þeim efnum. Það er ekki síst okkur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði að þakka, að umrædd þróun hefur átt sér stað yfir tiltekið tímabil. Hafandi sagt það gefur það auga leið að aðkoma okkar að stjórn landsins er ekki einungis mikilvæg, heldur beinlínis nauðsynleg – við erum rétt að byrja.
Nú kann að vera að almenningi sé það ekki fyllilega ljóst ennþá, og ríkisstjórnin undir okkar forystu er vissulega ekki ýkja gömul, einungis hálfsárs, sem er um það bil aldurinn sem við förum að geta setið upprétt og óstudd. Það er engum vafa undirorpið að andstæðingar okkar í stjórnmálum, ekki síst flokkar sem eru utan ríkisstjórnarsamstarfsins, munu halda hinu gagnstæða fram um okkar árangur og ágæti tengt stjórnun landsins, hvað sem tautar og raular. Þannig gengur það fyrir sig og við verðum stöðugt að vera minnug þess og láta rödd okkar heyrast og sífellt hærra þegar á þarf að halda, og nú er þörfin fyrir hendi sem endranær. Við erum okkar eigin gæfu smiðir og ráðum örlögum okkar sjálf, eins og þar segir. Teljum við að eitthvað megi betur fara í framvindu okkar hreyfingar, þá er jafnan vænlegast og skjótfengast til árangurs, að einfaldlega líta okkur nær. Samstarfsflokkar í ríkisstjórn sem við skilgreinum ekki sem óvini okkar, eru ekki endilega vinir okkar ef út í það er farið, einungis samstarfskonur og menn í tilteknu verkefni. Aðkoma okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði að ríkisstjórnarsamstarfinu er til þess fallið að tryggja að verkefnið nái fram að ganga með tilteknum hætti og innan ásættanlegra tímamarka, landi og þjóð til heilla. Án okkar þátttöku í ríkisstjórn landsins breytist ekkert til batnaðar, þvert á móti, þá gæti staða mála versnað til muna. Kjarni máls kristallast ekki síst í fyrrgreindu. Við erum komin til að vera og þá er eins gott að standa styrkum fótum og fórna ekki meiri hagsmunum fyrir minni, ef því er að skipta, og hrapa ekki að ályktunum þegar á móti blæs. Slíkt getur vissulega haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér, og í upphafi skyldi endinn skoða. Ígrunda ber allt gaumgæfilega og af yfirvegun og formaðurinn okkar, forsætisráðherra landsins, hefur gefið tóninn í því undanfarið hálft ár eða svo. Skynsemi og yfirvegun kemur okkur yfir ótrúlegustu torfærur og sú nálgun á mál hefur jafnan verið í hávegum höfð innan okkar hreyfingar.Undir okkar forystu í stjórn landsins er vissulega von til þess að tilteknar umræddar umbætur nái fram að ganga, og með eftirtektarverðum hætti, eins og sér glöggt merki nú þegar. Mikilvægt er að við höldum því á lofti og styðjum ötullega við bakið á okkar frábæru ráðherrum, sem vinna óeigingjarnt starf og hlífa sér ekki í að vinna góðum málefnum og sjónarmiðum okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði brautargengi. Tímasetning er ákaflega mikilvæg – rétt tímasetning er fyrir öllu, er stundum sagt. Margar ágætar konur og menn hafa komið fram á sjónarsviðið í gegnum tíðina og tekið að sér hin ýmsu verkefni og störf fyrir land og þjóð. Sú staðreynd að okkar ágæti formaður er reiðubúinn að taka að sér það mikilvæga og krefjandi verkefni, sem hlutverk forsætisráðherra óneitanlega er, og það á tíma þar sem ákaflega brýnt er að tilteknar breytingar nái fram að ganga, er mikilvægara en orð fá lýst. Þetta er kjarni málsins kæru félagar og að því ber að hlúa og það er okkar verkefni, allra sem eitt.

 

,

Ferðaþjónusta á tímamótum

Reykjavík – ferðaþjónusta í sátt við íbúa og umhverfi

Ferðaþjónustan stendur á tímamótum og það skiptir máli hvaða stefna verður tekin af borgaryfirvöldum og borgarbúum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur skýra stefnu í málefnum ferðaþjónustu og er fyrsta stjórnmálaaflið á Íslandi, sem hefur mótað sér slíka stefnu, enda er um að ræða aðal gjaldeyristekjulind okkar Íslendinga.

Ferðaþjónustan bjargaði okkur algerlega eftir hrun, og við verðum að tryggja að þessi mikilvæga atvinnugrein geti blómstrað áfram. Mikilvægt er að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að því að móta stefnuna í raunverulegri samvinnu við borgarbúa.

Reykvíkingar njóti vafans

Reykjavík er segull í ferðaþjónustu, enda koma þar við til lengri eða skemmri tíma nær allir ferðamenn sem á annað borð koma til landsins. Reykjavík er því ekki aðeins áfangastaður heldur einnig viðkomustaður; hvort tveggja verður að hafa í huga þegar mótuð er stefna í ferðaþjónustu fyrir borgina.

En Reykjavík er líka heimabyggð og menning borgarinnar, þ.e. mannlíf hennar, íbúarnir eru „auðlind“ í ferðaþjónustu. Íbúarnir eru hin iðandi kös fjölbreytileikans, sögunnar og menningarinnar sem fanga auga og aðdáun hinna erlendu gesta. Ferðaþjónustan getur aldrei þrifist í ósætti við íbúa. Skynsamleg stefna í málefnum ferðaþjónustunnar tekur mið af þessu. Aðgerða er þörf víða, til dæmis verður að herða eftirlit með heimagistingu á vegum Airbnb.

Það skiptir höfuðmáli að öll uppbygging innviða fyrir ferðaþjónustu gerist í sátt og samlyndi við íbúa borgarinnar og umhverfi hennar.

Flestir ferðamenn koma til Íslands til að njóta náttúrunnar. Hér hefur Reykjavík upp á gríðarmikið að bjóða. Það verður að gæta þess að borgin í heild og einstök svæði innan hennar hljóti ekki þau örlög að spillast af ofnýtingu eða aðgæsluleysi. Við eigum t.d. tafarlaust að friðlýsa lundabyggðina í Akurey, og borgin á að stofna borgarfriðland sem teygir sig sig frá heiðum út á sundin, fjölga upplýsingaskiltum og vinna með leiðsögumönnum að því að fræða ferðamenn um umgengni við íslenska náttúru.

Íbúar borgarinnar og náttúra hennar á að njóta vafans þegar þolmörk eru skilgreind.

Samvinna við ferðaþjónustuna

Reykjavíkurborg á að leggja áherslu á að leiðsögumenn auki þekkingu sína á borginni. Borgarsöfnin geta t.d. skipulagt námskeið fyrir leiðsögumenn í samvinnu við ferðaþjónustuna um menningu og sögu borgarinnar, vistkerfi hennar og náttúru. Leiðsögn um borgina á að vera hluti af þeirri starfsemi borgarinnar sem miðlar sögu hennar og túlkar hana útfrá sjónarhóli borgarbúa, náttúru hennar og vistkerfi.

Reykjavík á að vera mannvæn borg sem gott er að búa í og heimsækja. Markviss stefna í málefnum ferðaþjónustu auðgar borgina og gerir hana mannvænlegri.

Reykjavík á að vera áfangastaður fyrir alla – Ferðaþjónusta í sátt við borgarbúa og náttúru!

Hreindís Ylva Garðarsdóttir Hólm. Höfundur er flugfreyja og leikkona, og skipar 4 sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Jakob S. Jónsson. Höfundur er leiðsögumaður og skipar 29 sæti á framboðslista VG.