Málefnastarf á flokksráðsfundi

Á flokksráðsfundi Vg í dag var hópastarf um framtíðarstefnu Vg. Málefnastarf á flokksráðsfundinum fór fram í fjórum málstofum. Sú fyrsta þeirra fjallaði um lýðræði og eflingu þess. Bent var á nauðsyn þess að þróa ný verkfæri til að auka þátttöku almennings í allri ákvarðanatöku. Mikilvægt væri að þróa nýjar leiðir til að efla lýðræði, ekki aðeins í stjórnmálum heldur líka á öðrum vettvangi; ekki síst innan atvinnulífsins og því væri mikilvægt að skapa farvegi fyrir lýðræðisleg fyrirtæki.

Önnur málstofan fjallaði um fjölmenningu og velferð. Fjallað var um styttingu vinnuvikunnar sem mikilvægt langtímamarkmið til að auka frítíma fólks og lífsgæði. Ræddar voru hugmyndir um lágmarksframfærslu og skattkerfisbreytingar til að jafna tekjumun. Aðgerðir gegn innflytjendaandúð voru mikið ræddar, þar á meðal hugmyndir um að auka aðgengi nýbúa að menntun og annarri þjónustu.

Fjallað var um alþjóðamál og loftslagsmál í þriðju málstofunni. Rætt var um framtíð umhverfisverndarstefnu í íslenskum stjórnmálum, um nauðsyn þess að vera leiðandi afl í loftslagsmáum hér eftir sem hingað til. Umhverfisvernd sé ekki andstæða atvinnuuppbyggingar heldur þurfi að byggja upp umhverfisvænt atvinnulíf. Einnig var fjallað um mikilvægi þess að leggja áherslu á loftslagsbreytingar í öllu alþjóðastarfi.

Í fjórða og síðasta hópnum var rætt um grænan vöxt, samfélagsþróun og menntun. Ítrekuð var mikilvægi þess að jafa jöfnuð að leiðarljósi í atvinnustefnu og menntastefnu. Fjallað var um skapandi greinar í víðum skilningi í samhengi við menntastefnu þar sem allir geta lært án kostnaðar. Talað var um mikilvægi þess að fólk hefði raunverulegt val um búsetu hvar sem er á landinu, og í því samhengi var minnt á mikilvægi almenningssamgangna um allt land sem þyrfti að byggja upp á næsta áratug.

Flokksráðsfundur

Boðað er til flokksráðsfundar laugardaginn 21. júní 2014. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn í sal Fjölbrautaskólans við Ármúla.
Skráning á fundinn: Mikilvægt er að skrá sig á fundinn fyrir miðnætti 18. júní, en það er hægt að gera á hér. Einnig er hægt að hringja í síma 552-8872 (milli kl. 9 og 16 virka daga) eða senda tölvupóst á vg@vg.is. Boðið verður upp á hádegisverð á staðnum fyrir 1.000 kr. Vinsamlegast takið fram við skráningu hvort þið hyggist vera í mat.

Dagskrá flokksráðsfundar
10:00: Björn Valur Gíslason, formaður flokksráðs, setur fund og flytur ávarp.
10:20: Vg í hugum fólks. Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði.
11:00: Sveitarstjórnarkosningar 2014: Örerindi frá frambjóðendum og umræður í sal.
12:00: Hvað gekk best í kosningabaráttunni? Örerindi frá kosningastjórum og umræður í sal.
12:45: Matarhlé.
13:30: Katrín Jakobsdóttir, formaður Vg, ávarpar fundinn og varpar fram spurningum um framtíðina.
14:00: Vinstri græn framtíð: Drög að nýrri sókn!
Hópastarf um framtíðarstefnumótun Vg fyrir landsfund haustið 2015.
16:15: Safnast saman og farið yfir niðurstöður hópastarfs.
17:00: Fundi slitið.

Athugið að þessi flokksráðsfundur er ekki hugsaður sem ályktanafundur heldur vinnufundur og ekki er gert ráð fyrir sérstökum umræðum um ályktanir. Ef flokksráðsfulltrúar vilja skila inn ályktunum þarf að skila þeim inn þremur sólarhringum fyrir fundardag eða í síðasta lagi á miðnætti 18. júní. Skal það gert  hér.

Opnunartími skrifstofu í júní

Lokað verður í júní vegna flutninga.

Vinstrihreyfingin grænt framboð mun flytja höfuðstöðvar sínar í Hamraborg 1-3 í júní.

Við minnum á tölvupóstinn vg@vg.is og símann 552-8872 en þar mun Finnur Dellsén taka við símtölum vegna sumarfrís starfsmanns Vinstri grænna.

Gleðilegt sumar og sjáumst í Hamraborg.

Vatnstjón í húsnæði Vinstri grænna

Akureyri vikublað segir frá vatnstjóni í húsnæði Vinstri grænna á Akureyri, en svo virðist sem heitavatnsrör hafi sprungið aðfararnótt sunnudags með tilheyrandi tjóni.

Frétt Akureyri – vikublað

Kosningaskrifstofa Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs á Akureyri varð fyrir miklu tjóni síðastliðna nótt þegar heitavatnsrör sprakk í húsnæðinu. Glöggur vegfarandi uppgötvaði lekann í morgun og lét vita og var slökkvilið kallað til sem hóf strax aðgerðir til að minnka tjón. Kosningaskrifstofan er í húsnæði framboðsins að Brekkugötu 7b, rétt við Ráðhústorg í miðbæ Akureyrar.

Tjónið hleypur á milljónum en enn er of snemmt að segja nákvæmlega til um hversu mikið það er. Meðal verðmæta sem voru á skrifstofunni eru málverk eftir Hrönn Einarsdóttur en hún opnaði myndlistarsýningu þann 1. maí síðastliðinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá framboðinu í dag.

„Við vonumst þó til að geta notað skrifstofuna sem fyrst þar sem hún er miðstöð okkar Vinstri grænna í kosningabaráttunni,“ segir í tilkynningunni. Þeim íbúum sem höfðu hug á að líta við á skrifstofuna til skrafs og ráðagerða um bæjarmálin er bent á að hafa samband við oddivta framboðsins, Sóleyju Björk Stefánsdóttur, í síma 844-1555 eða kosningastjórann, Baldvin Esra Einarsson, í síma 842-0580. Einnig má hafa samband með tölvupósti á netfangið akureyri.vg@gmail.com.

„Við munum svo koma á framfæri upplýsingum þegar við opnum kosningaskrifstofuna á ný,“ segir í tilkynningunni að lokum.

Akureyri vikublað