Forval í Reykjavík – Komið með

VG í Reykjavík kallar!

Kæri félagi

Nú hefjum við undirbúning borgarstjórnarkosninga  í Reykjavík en félagsfundur ákvað fimmtudaginn 18. jan. s.l. júní að fela fimm manna kjörnefnd að sjá um forval þar sem valið yrði í 5 efstu sæti listans með rafrænni kosningu. Forvalið fer fram 24. febrúar. Tillaga kjörnefndar verður lögð fyrir félagsfund til afgreiðslu í byrjun mars.

Í samræmi við reglur hreyfingarinnar um forval auglýsir kjörnefnd hér með eftir þeim sem áhuga hafa á að taka sæti á lista og kallar jafnframt eftir uppástungum um fólk á framboðslista.

Tekið er á móti pósti frá áhugasömum félögum og uppástungum um fólk á framboðslista í netfangið: hugmyndir@vgr.is en einnig er hægt að senda bréf til kjörnefndar VGR, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Hægt er að senda inn nöfn  fyrir 3. febrúar n.k.

Gera þarf að gera grein fyrir þeim sem stungið er uppá, t.d. með heimilisfangi, starfsheiti eða netfangi Hver félagi getur stungið upp á eins mörgum nöfnum og vilji er til og sent inn hugmyndir oftar en einu sinni fyrir tilskilinn tíma. Hvert nafn verður aðeins skráð einu sinni á blöð kjörstjórnar þannig að tilgangurinn er ekki að safna saman mörgum uppástungum um sama nafnið.

Stjórn félagsins vill einnig nota tækifærið til að minna félagsmenn á að greiða félagsgjöldin sem fyrst og bregðast vel við þegar hreyfingin kallar eftir sjálfboðaliðum og framlögum í kosningasjóð.  Í aðdraganda kosninga er mikilvægt að fjárhagur félagsins sé sterkur og að við stöndum saman að því að vinna stefnumálum Vinstri grænna brautargengi. Margar hendur vinna létt verk og eru öll framlög vel þegin.

Einnig óskar stjórnin eftir upplýsingum um breytt heimilisfang, símanúmer og ekki síst netfang því réttar upplýsingar eru nauðsynlegar til að samskiptin milli stjórnar félagsins og félagsmanna verði eins og best verður á kosið. Jafnframt eru þeir félagar sem ekki hafa skráð netfang sitt í félagaskrá VGR, en vilja fá póst frá félaginu, hvattir til þess að ská netfang sitt á heimasíðu VG.is. Það er sérstaklega mikilvægt á kosningaári að stjórn félagsins nái örugglega til sem flestra félagsmanna.

Baráttukveðjur, X-V í vor!

Steinar Harðarson, formaður VGR Elías Jón Guðjónsson, formaður kjörnefnd

Edward Huijbens, varaformaður VG setur flokksráð

Ræða varaformanns og setning

Ágætu félagar, verið velkomin á flokksráðsfund, þann fyrsta eftir að við tókum að okkur að leiða ríkisstjórn hér á landi.

Nú eru liðnir rúmir tveir mánuðir síðan við hittumst hér á þessum sama stað og staðfestum ríkisstjórnarsáttmála VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Líkt og ég sagði þá og segi aftur nú, þá er þessi sáttmáli ákaflega ítarlegur og hreint ótrúleg samsvörun milli okkar nýsamþykktu stefnumála af landsfundi og þess sem þarna er sagt. Við erum byrjuð að breyta Íslandi … Verkefnið sem nú blasir þannig við er að raungera þau orð sem þarna eru á blaði. Stóra plaggið þar að lútandi er ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára sem nú er í vinnslu. Við fáum vafalítið að heyra af því öllu í dag og ræða, en það sem ég hef líka tekið eftir er að vinda hefur lægt að einhverju marki innan okkar ágætu hreyfingar í kjölfar stjórnarmyndunar. Vissulega verð ég var við aðhald og það er alveg ljóst að félagar í okkar hreyfingu munu láta þá sem á þingi sitja og í ríkisstjórn standa reikniskil sinna gerða, og öðruvísi ætti það ekki að vera. En núna erum við að vinna þá vinnu fyrir samfélagið sem við höfum alltaf talað um að nauðsynleg væri. Loksins, segi ég nú bara.

Mig langar í þessu setningarávarpi að fara aðeins út í heim, koma svo heim og horfa yfir sviðið og enda svo á því sem okkur mest varðar öll; það sem næst okkur stendur heimahagarnir og okkar sveitarfélög.

Í upphafi þessa mánaðar fór ég til kóngsins Köbehavn og sat í Grænlandsherbergi danska þingsins í heilan dag að ræða við aðra vinstri og umhverfisverndaflokka í Norður Evrópu um árangur og erfiði við ríkisstjórnarsamstarf. Flokksformenn og framkvæmdastjórar frá Norðurlöndum, Hollandi, Lúxemborg og Þýskalandi lýstu allir áskorunum sem fælust í að færa hreyfingu sem sprettur úr því að standa vaktina í mótmælum á götum úti, yfir í að vinna innan stjórnsýslu að breytingunum sem þarf að gera. Þær áskoranir sem þar var lýst snéru að;
• viðhaldi sambands almennra félaga við forystu,
• sambandi þingflokks við þá sem væru í ríkisstjórn og
• sambandi hreyfingarinnar við götuna, fólkið þarna úti sem lifir sínu lífi í því umhverfi sem stjórnsýslan er að móta.

Þessi sambönd þarf að rækta, innan hreyfingarinnar, og það var verkefni sem ég tók að mér á síðasta landsfundi. Við þurfum að temja okkur vinnulag, samræðuhefð og ferla sem byggja á gagnsæi, trausti og gagnkvæmri virðingu. Eitthvað sem við kunnum og getum og höfum sannarlega sýnt í verki til þessa. En æfingin skapar meistarann, ekki satt?

Annað sem ég lærði þarna úti var að Danir sofa víst í stígvélum! … Það sem þeir áttu við var reyndar að þeir væru ævinlega klárir í kosningar, enda hægt að boða til þeirra með allt niður í 19 daga fyrirvara. Okkar innra skipulag hefur allt miðað að því að vera sífellt meir í startholunum fyrir kosningar, enda ef allt er talið hafa um 13 slíkar verið haldnar síðan 2008, auðvitað ekki allar til þings, sem betur fer. Til að geta staðið í slíku þarf stjórnmálaafl að hafa sín innviði í lagi. Það höfum við sannarlega, um allt land, eftir nærri tveggja áratuga vinnu okkar allra. En til þess þarf einnig fé og nú er það komið að einhverju marki með endurskoðun fjárveitinga til flokkana. Með fúnkerandi innviði og sterkari fjárhag, m.a. til að koma fólki saman á fund sem þennan, getum við enn frekar byggt lýðræðislega málefnaskrá í samtali fólks allstaðar að, nokkuð sem Norðmenn glíma við líkt og við, vegna fjarlægða og kostnaðar. Með góðan fjárhag ættu allir flokkar líka að geta staðið málefnalega að sínum stefnuskrám og þurfa ekki að reiða sig á fáránlegar hliðar áróðursvélum reknar fyrir ákveðna flokka á öðrum kennitölum. … Ég segi því; vaðstígvélin eru allavega komin á náttborðið hjá okkur og það er sannarlega ekki fyrir pjattaða að hafa svo um hnúta búið. Viljann til að gera vel í kosningum skortir ekki hjá okkur og það birtist einnig í kjölfar kosninganna. Eftir að allt var mu garð gengið var uppi krafa meðal félaga um að læra af framkvæmd þeirra. Þessi umræða kemur upp í kjölfar allra kosninga og er fullkomlega eðlileg. Við verðum að taka saman okkar lærdóm. Með það fyrir augum nú settum við Einar Bergmundur upp vefsvæði sem væri aðeins lokaðra en okkar „lokaði“ fésbókarþráður. Þar komu góðar ábendingar fram;
• Það þarf að viðhalda stöðugt fólki í framvarðasveit hreyfingarinnar, þar þarf að vera fólk sem er fyrirvaralítið tilbúið í svo gott sem hvað sem er. Það hinsvegar krefst viðhalds og endurnýjunar. Að vera í framvarðasveit lengi dregur úr flestum þrótt og þeir þurfa stuðning, bakland og einhverja sem hægt er að skipta inná. Verum því alltaf vakandi fyrir nýjum félögum, sérstaklega ungum nýjum félögum. Höfum augun úti í framhaldsskólunum og verum reiðubúin að taka gott samtal um pólitík við alla þar sem sýna því áhuga. Í síðasta VG jólablaði þeirra Eyjamanna er ágæt lýsing á því hvernig gott samtal og hlýjar móttökur gerðu Ragnar okkar Óskarsson að sönnum vinstrimanni. „Ragnar minn, Ertu orðin bolsi? spurði afi hans Magnús, íhald í gegn. Og eftir staðfestingu þess, spurði hann „en við verðum alltaf vinir er það ekki?“ … tja er þaðekki ?
• úthlaupin voru frábær, þó gæta þurfi þess að fá utanaðkomandi til að sjá um þau í smærri byggðarlögum. Málið með úthlaupin er að komast í snertingu við fólk, ná að horfa í augun á fólki með VG merkin á og sýna að við erum venjulegt fólk sem viljum vinna samfélaginu vel. Alla jafna var tekið frámunalega vel á móti okar fólki um allt land og okkur tókst að svara spurningum og sýna pólíkina eins og hún er; Fólk að vinna fyrir fólk.

Eins og ég sagði í upphafi. Við leiðum ríkisstjórn hér á landi. Við erum með forsætisráðherra! Við erum að breyta Íslandi … En nú reynir á! Nú er krafa uppi um að okkar forsætisráðherra beiti sér eins og einhver einræðisherra og ráði og reki ráðherra, eins og kallað er eftir hverju sinni. Sem betur fer virkar okkar stjórnskipan ekki alveg þannig. Sem betur fer, eru ráðherrar ábyrgir fyrir sér sjálfir og sínum ákvörðunum og sem betur fer er ábyrgðin fyrst og fremst og ævinlega kjósenda sjálfra er kemur að því hverjir veljast í ráðherrastóla. Þeir sem kjósa flokka og ráðherra á þing aftur og aftur, sem sannarlega hafa farið á svig við lög og reglur, hljóta að verða skoða hug sinn vandlega. Ég vil skila skömminni, skila henni til þeirra sem kusu, vitandi vits yfir okkur ráðherra sem aðeins virðist vilja fylgja eigin villuljósi. Auk þess eru í okkar kerfi ferli fyrir þessi mál. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að fara ofan í saumana á þessu og svo er umboðsmaður Alþingis, sem ætlar að fylla í allar eyður sem nefndin mögulega skilur eftir. Já kæru félagar, það hitnar undir Sigríði Á Andersen og til að þetta eldist nú allt vel og brenni ekki, er betra að hækka hitann rólega.

En … á meðan mallar í pottum og vaðstígvélin þorna á náttborðinu, þá hækkar sól og vorið kemur. Við munum halda áfram að breyta Íslandi … Vorið ber í skauti sér enn nýjar kosningar og nú til sveitarstjórna sem venjan er. Þessi fundur markar formlega upphaf þeirrar baráttu. Í dag ætlum við að leggja grunn að sniðmáti af stefnuskrám VG á landsvísu fyrir sveitarstjórnarkosningar. Slíkt mun styrkja enn frekar innviði VG og gera fólki í fleiri sveitarfélögum kleift að bjóða fram undir okkar merkjum í vor. Það sem ég vil sjá í kjölfar þessa dags er að vinna sem hófst á ráðstefnu okkar sveitarstjórnafulltrúa í gærkvöldi verði kláruð og leggi grunn að málefnaskrá framboða VG um allt land. Óli Halldórsson okkar maður á Húsavík sér fyrir sér að í þessu plaggi væru meginatriðin úr stefnu hreyfingarinnar soðin niður í stutt hnitmiðað punktaform og aðlöguð sveitarstjórnarstiginu. „Enn betra væri svo að þetta yrði frágengið í flottu hönnuðu “layout-i”“, sagði hann líka. Þetta lýst mér vel á og legg til að við vinnum að þessu í dag. Teiknum upp hugmyndir að innihaldi og felum skrifstofu að klára pakkann fyrir páska.

En hvaða mál gætu þetta verið sem svo brenna á okkur og hægt væri að staðfæra?
• loftlagsmál – stefna/aðgerðir á sveitarstjórnarstigi –
• skólamálin (t.d. samfélagsreknir skólar og leikskólar – andspænis einkareknum leik- og grunnskólum) –
• lýðheilsustefna í framkvæmdum –
• jafnréttisstefna –
• aðgerðir til aðlögunar og mótttöku innflytjenda – húsnæðisúrræði félagsleg o.s.frv….
• Borgarlína er ekki bara um borgina okkar …. Samningum landshlutasamtaka um almenningssamgöngur verður sagt upp 1. mars af þeirra hendi. Mikið sleifarlag og þetta þarf á vera á einni hendi og þarf að samnýta alla flutninga, sérstaklega í dreifðum byggðum.
• Með væntanlegri lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, þurfa sveitarfélög að finna úrræði fyrir börn og fjölskyldur þeirra þegar orlofi lýkur til að brúa bilið yfir í leikskóla.
• Grunnskólar fyrir alla og að frambjóðendur VG eigi samtal við grunnskólakennara um hvað það er í aðstæðum skólanna sem þarf að bæta.
• Kolefnishlutleysi sveitarfélaga: Sveitarfélög stefni að kolefnishlutleysi í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar
• Plastlaus sveitarfélög
• Réttur barna til tómstunda svo sem íþrótta
• Félagsleg þjónusta og húsnæðismál: Sameiginleg ábyrgð sveitarfélaga á þegnum landsins

Þetta eru bara nokkur mál sem mér hafa borist til eyrna frá ykkur félagar góðir og nokkur frá mínu hjarta, en vafalítið eru þau fleiri og þau þarf auðvitað að sníða að veruleik hvers sveitarfélags fyrir sig.

Dagurinn í dag fer þá þannig fram að eftir að ég hef lokið máli mínu kynni ég ályktanir sem bárust fundinum og þar á eftir talar forsætisráðherra vor Katrín Jakobsdóttir. Svo fáum við okkur hádegissnarl og síðan hefst hópavinna undir titlinum „Sveitastjórnarkosningarnar, um hvað eiga þær að snúast?“. Við lok þeirra hópavinnu þá þurfa hópar að kynna sínar hugmyndir. Hóparnir eru:
1. Umhverfishópur
Hópstjórar: Andrés Skúlason og Líf Magneudóttir

2. Húsnæði og skipulagsmál
Hópstjórar: Dagný Alda Steinsdóttir og Röðull Reyr Kárason

3. Menning og menntun
Hópstjórar: Sóley Björk og Hermann Valsson

4. Velferðar og heilbrigðismál
Hópstjórar: Hildur ?? og Sæmundur Helgason

5.Efling sveitarstjórnarstigsins
Hópstjórar: Berglind Häsler og Una Hildardóttir

6. Atvinna og nýsköpun
Hópstjórar: Sif Jóhannesdóttir og Bjarki Björnsson

Eftir þá kynningu er kaffihlé og svo afgreiðsla ályktanna. Svo mun ég slíta fundi með vel völdum lokaorðum.

Að lokum verða í boði léttar veitingar og þar vil ég nefna nýjan tón. Í samtali mínu við aðra flokka í kóngsins Köben sem ég nefndi í upphafi, kom nokkuð áhugavert fram. Norðmenn, þar sem stjórnmálafólk er hvert af öðru að falla fyrir #Metoo bylgjunni, ætla að fara að ræða „fílinn í herberginu“ er kemur að þeirri byltingu. Fíllinn er áfengi, sem nærri aldrei er fjarri þegar ofbeldið á sér stað. Bendum á það líka, förum að ræða taumleysismenninguna sem nærist á bokkunni. Ég vil taka þá umræðu undir léttum léttum veitingum og VG opni þannig á umræðuna um fílinn í herberginu. Við erum að breyta Íslandi …

Að lokum vil ég kynna þær ályktanir og tillögur sem liggja fyrir fundinum. Þar eru þrjár ályktanir og tvær tillögur sem sendar voru til ykkar rafrænt í gær.
• Fyrst er ályktun frá Cecil Haraldssyni okkar manni á Seyðisfirði um stuðning við sjálfstæðishreyfingar þjóða.
• Næst eru tvær frá okkar manni í Reykjavík, Steinari Harðarsyni um breytingar á sveitarstjórnarlögum til að tryggja rétt íbúa og önnur um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
• Una Hildardóttir sendi inn tillögu þess efnis að endurskoða aðgerðaáætlun VG gegn einelti og kynbundnu ofbeldi.
• Og Jakob Jónsson sendi inn tillögur um skipan starfshóps um mótun stefnu gegn spillingu

Það er hægt að skoða þessar ályktanir og tillögur nánar í gögnum fundarins.

Með þessum orðum lýsi ég fundinn settann og bíð næsta í pontu forsætisráðherra vorn og formann hreyfingarinnar; Katrínu Jakobsdóttur.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaforseti á Evrópuráðsþinginu

Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, var kos­in einn af vara­for­set­um Evr­ópuráðsþings­ins, á fundi þings­ins sem stend­ur nú yfir í Strass­borg. Meg­in­hlut­verk vara­for­seta er að stýra þing­fund­um í fjar­veru þing­for­seta en á þing­inu sitja 318 þing­menn sem full­trú­ar rúm­lega 800 millj­óna Evr­ópu­búa.

Alþingi Íslend­inga hef­ur átt aðild að þing­inu frá 1950 sem er sam­starfs­vett­vang­ur þing­manna frá 47 Evr­ópu­lönd­um. Mark­mið Evr­ópuráðsins er að standa vörð um hug­sjón­ir aðild­ar­ríkj­anna; mann­rétt­indi og lýðræði. Evr­ópuráðs­þingið hef­ur oft haft frum­kvæði að samn­ingu fjölþjóðlegra sátt­mála á borð við Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu og Fé­lags­mála­sátt­mála Evr­ópu.

Að auki er Evr­ópuráðs­þingið mik­il­væg­ur umræðu­vett­vang­ur full­trúa evr­ópskra þjóðþinga um stjórn­mál, efna­hags­mál, fé­lags­mál, mann­rétt­inda­mál, um­hverf­is­mál, vís­indi, menn­ing­ar- og mennta­mál.

Rósa Björk er formaður Íslands­deild­ar Evr­ópuráðsþings­ins en í henni sitja líka þing­menn­irn­ir Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir og Bergþór Ólason.

Vil leiða Vinstri græn til áhrifa í borginni í vor

Framboðstilkynning.
Ég býð mig fram til þess að leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum í lok maí. Stefna og sjónarmið Vinstri grænna eiga að vera í stafni þegar ákvarðanir eru teknar í borgastjórn og við daglega stjórnun borgarinnar næstu fjögur árin. Til þess þarf öflugan og samhentan hóp fólks til að vinna að sameiginlegum markmiðum sem hefur einkennt yfirstandandi kjörtímabil í núverandi meirihlutasamstarfi fjögurra flokka. Það hefur tryggt að mörgum mikilvægum málum hefur verið komið til leiðar með áherslum og gildum sem við Vinstri græn stöndum fyrir. Nú vil ég ganga til kosninga með það að leiðarljósi að efla borgarstjórnarflokk Vinstri grænna enn frekar og gera mun betur í þágu allra borgabúa, ekki síst þeirra sem mest þurfa að reiða sig á þjónustu borgarinnar.
Í framtíðinni felast fjölmörg tækifæri til að byggja á þeim árangri sem þegar hefur náðst á kjörtímabilinu. Við stefnum að því að gera borgina sífellt betri fyrir íbúa hennar og gesti. Við þurfum að marka afdráttarlausa stefnu í átt til sjálfbærni og umhverfisverndar, jöfnuðar, mannúðar og mennsku – í öllu tilliti. Stærstu viðfangsefni stjórnmálanna eru að bregðast við loftslagsbreytingum af mannavöldum, uppræta kynbundið ofbeldi og útrýma efnahagslegu, félagslegu og öðru misrétti. Til að ná árangri skiptir máli að vita hvert á að stefna og halda kúrs. Í því felast bæði áskoranir og kröfur en einnig mikil ábyrgð til handa þeim sem halda um stýrið.
Reykjavík er einstök borg – borg á heimsmælikvarða. Í mínum huga er það ekki efnahagslegt ríkidæmi sem gerir borgir góðar heldur þau mennta- og menningarverðmæti sem þar verða til, félagsauður og velferð, samspil borgarlífs og náttúru ásamt hagkvæmri og vistvænni nýtingu auðlinda sem áfram eiga að vera í almannaeign. Við eigum að standa vörð um og efla þessi auðævi.
Næstu ár eiga eftir að einkennast af örum vexti á öllum sviðum borgarinnar og við þurfum að setja kraft í að takast á við þá vaxtarverki sem fylgja stækkandi borg. Það verður gert með aukinni uppbyggingu húsnæðis, styrkingu almenningssamgangna, eflingu félagslegra- og efnahagslegra innviða með áherslu á þær stoðir sem varða börn og barnafjölskyldur. Þetta eru allt þættir sem snerta daglegt líf borgarbúa með einum eða öðrum hætti. Því skiptir máli að velja flokka sem hafa skýra sýn á þróun borgarinnar til langs tíma, geta hlustað og framkvæmt og átt í góðu samtali við öll þau sem gera þessa borg að því sem hún er. Þannig framboð er Vinstrihreyfingin – grænt framboð og þannig framboð vil ég leiða ásamt öflugum og fjölmennum hópi félaga minna til sigurs í vor.
Líf Magneudóttir er borgarfulltrúi Vinstri grænna og forseti borgarstjórnar. Frá 2010-2014 sat Líf í skóla- og frístundaráði. Hún var varaborgarfulltrúi frá 2014-2016, formaður mannréttindaráðs, varaformaður skóla- og frístundaráðs og fulltrúi í stjórn Faxaflóahafna sf. Líf var kosin forseti borgarstjórnar í lok september 2016 þegar hún tók sæti í borgarstjórn og borgarráði.
Líf er menntaður grunnskólakennari. Hún er í sambúð með Snorra Stefánssyni lögmanni og hagfræðingi. Þau eiga fjögur börn á aldrinum 5- 17 ára og búa í Vesturbæ Reykjavíkur.

Opið bréf til mennta- og menningarmálaráðherra

18. október síðastliðinn hélt Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta opinn fund á Háskólatorgi í aðdraganda Alþingiskosninga. Þar voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka sammála um að gera þyrfti breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Fulltrúar flokkanna voru flest allir sammála um að bæði þyrfti að innleiða styrki inn í námslánakerfið og að bæta þyrfti stöðu stúdenta.

Endurskoðun laga um LÍN mun taka einhvern tíma og ætti kannski engin furða að ekki hafi verið lagt fram frumvarp sem umturnar lánasjóðskerfinu eins og við þekkjum það. Kjör stúdenta verður hins vegar að laga hið snarasta.

Frítekjumark LÍN er í dag 930.000 kr. og ef árstekjur námsmanna eru hærri skerðist lánið sem nemur 45% af umframtekjum. Frítekjumarkið er skammarlega lágt og sumarlaun námsmanna skerða lán þeirra oftast nær umtalsvert. Frítekjumarkið var síðast hækkað árið 2014, en laun í landinu hafa hækkað um 32% skv. launavísitölu frá Hagstofunni síðan 2014.

Þá er grunnframfærsla námsmanna of lág, grunnframfærslan er byggð á grunnviðmiði neysluviðmiða velferðarráðuneytisins. Húsnæðiskostnaður tekur mið af leiguverði á stúdentagörðum, þó svo að almennt leiguverð sé mun hærra og einungis 9% stúdenta leigi á stúdentagörðum. Námsmenn fá þó ekki 100% framfærslu heldur tekur LÍN 92% af þessum grunnviðmiðum og færir námsmönnum. Einstaklingur í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði fær því einungis 177.107 kr. á mánuði. Ef námsmaður reynir að afla aðeins meiri tekna til þess að ná endum saman þar sem 177.107 kr. er grátlega lág upphæð, þá er frítekjumarkið svo lágt að lánin lækka talsvert mikið mjög fljótt. Þessu þarf að breyta en ekkert gerist ef stjórn LÍN og stjórnvöld taka ekki höndum saman.

Úthlutunarreglur LÍN eru þær reglur sem ákvarða kjör stúdenta sem taka námslán hjá LÍN ár hvert. Stjórn LÍN ákvarðar úthlutunarreglur fyrir næsta skólaár og menntamálaráðherra staðfestir þær svo í byrjun apríl sé hann samþykkur þeim. Yfirleitt byrjar vinna við úthlutunarreglur á vettvangi stjórnar í byrjun desember. Það hefur hins vegar ekki gerst þar sem enn hefur ekki verið skipað í stjórn LÍN. Nú stefnir allt í það að stúdentar fá litlar sem engar kjarabætur líkt og síðustu ár. Því skora ég á mennta- og menningarmálaráðherra að skipa stjórn LÍN sem fyrst svo kjaramál stúdenta sitji ekki enn og aftur á hakanum.

Ragnar Auðun Árnason, lánasjóðsfulltrúi SHÍ
Höfundur situr í stjórn LÍN fyrir hönd stúdenta við HÍ og HA

FLOKKSRÁÐSFUNDUR VG 27. janúar

FLOKKSRÁÐSFUNDUR VG

Grand Hótel í Reykjavík, 27. Janúar 2018

 Dagskrá fundarins:

 09.30 – 10.00              Morgunkaffi og spjall

10.00 – 10.15              Edward Huijbens, varaformaður VG setur fundinn

10.15 – 10.25              Ályktanir kynntar

10.25 – 12.00              Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra fer yfir stjórnarsamstarfið og stöðuna í stjórnmálum. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindarráðherra, sitja fyrir svörum

12.00- 13.00                Hádegismatur

13.00 – 15.00              Sveitastjórnarkosningarnar, um hvað eiga þær að snúast?

Hópavinna og niðurstöður hópavinnu.

15.00 – 15.30             Kaffihlé.

15.30  – 15.45              Afgreiðsla ályktana

15.45 – 16.15              Allir hressir inn í sveitastjórnarkosningar.

16.15                           Edward Hujibens. Lokaorð og fundarslit

 

 

 

Síðdegishressing og samverustund í lokin.

Dagskrá flokksráðsfundar

Skráning á flokksráðsfund hér.

Skráning á flokksráðsfund 27. janúar 2018