,

Rósa Björk gestur VG í Mosfellsbæ

Aðalfundur Vg í Mosfellsbæ verður haldinn nú á fimmtudagskvöldið, áttunda desember. Klukkan 17.30 í Hlégarði í Mosfellsbæ, á annarri hæð.  Frá því dagskráin var kynnt fyrst er orðin á henni sú markverða breyting að Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Suðvesturkjördæmis, verður sérstakur gestur fundarins. Og mun eflaust hafa frá mörgu að segja eftir margra vikna stjórnarmyndunarstreð.

Annars hefðbundin aðalfundardagskrá og hvatning til allra sem vilja um að taka þátt og bjóða sig fram til starfa.

  1. Lokaskýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár kynnt og afgreidd.
    2.    Ársreikningar VG Mos fyrir árið 2015 kynntir og bornir upp til samþykktar.
  2. Kosning formanns til eins árs og fjóra meðstjórnendur og tveggja varamanna til eins árs.

Að loknum aðalfundarstörfum verður rætt um pólitík.

Viltu vinna með VG Mosfellsbæ?

Stjórn VG Mosfellsbæ auglýsir eftir áhugasömum félögum sem vilja bjóða sig fram til setu í stjórn eða vinna á annan hátt með félaginu á næsta starfsári.  Spennandi ár framundan.

 

Sendu okkur póst á olafursnorri@gmail.com

Neytendahópur VG stofnaður

 

 

Stjórn Vinstri grænna hefur stofnað starfshóp til að móta stefnu í málefnum neytenda.  Markmiðið er að koma á framsækinni neytendastefnu undir merkjum sjálfbærni, jöfnuðar og umhverfisverndar.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður, Jakob S. Jónsson, leiðsögumaður og Ingimar Karl Helgason, fréttamaður sitja í starfshópnum, sem er að hefja störf. Eitt af forgangsmálunum verður að tryggja að neytendur geti leitað réttar síns.

Neytendur þurfa að geta treyst eftirlitsstofnunum til að veita réttar upplýsingar um aðbúnað og umhverfi dýra og plantna og uppruna allrar vöru í matvælaframleiðslu. Neysla hefur áhrif á umhverfið og ef neytendur eiga að geta haft áhrif í með ábyrgu vali á vörum og þjónustu, verður að vera hægt að treysta því að þær upplýsingar sem fram koma í kynningu á vörunni standist, sem því miður er ekki raunin.

Nýlegar uppljóstranir í fréttum sýna  að þörf er á að setja á laggirnar Umboðsmann neytenda eins og lagt var til í þingsályktunartillögu sem þverpólitískur þingmannahópur skilaði af sér síðastliðið sumar. Mikilvægt er einnig að tryggja upplýsingagjöf á mörgum fleiri sviðum en í matvælaframleiðslu.  Nefna má fjármálamarkaðinn, tryggingar og skilarétt og ýmis fleiri svið, til að virkja það mikilvæga hlutverk neytenda sem er að veita seljendum aðhald.

,

Baráttudagur kvenna

Baráttudagur kvenna er í dag  – Baráttufundur Vinstri grænna í kvöld –

 

Kvennafrí í dag. Konur ganga út þegar vinnu lýkur klukkan 14.38.  Konur í VG mæta allar sem mögulega og næstum ómögulega geta, á Austurvöll klukkan 15:15!

VG konur verða með  borð og gefa súpu og dreifa málefnablaði um kvenfrelsi.

Á meðan munu karlkyns frambjóðendurnir okkar manna vinnustaðafundi og kosningamiðstöðina á Laugavegi.

 Baráttu- og gleðifundur í Kosningamiðstöðinni Laugavegi 170 – klukkan 20.00

Frambjóðendur og félagar í VG halda svo áfram um kvöldið og hittast á Laugavegi á baráttu- og gleðifundi.  Frambjóðendur ræða við gesti.   Björgvin Gíslason, Gunnar Þórðarson, Þórður Högnason og Sigríður Thorlacius, sjá um tónlistina. Allir velkomnir.

Úrslit úr forvali í Norðvesturkjördæmi

Atkvæði voru talin í forvali Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi í kvöld. Alls voru 859 atkvæði greidd, þar af 787 gild atkvæði. Á kjörskrá voru 1102, sem jafngildir 78% kjörsókn. Kjörstjórn mun leggja tillögu að heildarlista á fundi á Hvanneyri næstkomandi fimmtudag kl. 20:00.

Niðurstöður forvalsins voru eftirfarandi:

  1. Lilja Rafney Magnúsdóttir
  2. Bjarni Jónsson
  3. Dagný Rósa Úlfarsdóttir
  4. Lárus Ástmar Hannesson
  5. Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir
  6. Rúnar Gíslason

 

Atkvæði féllu svo:

1 2 3 4 5 6 Samtals
Berghildur Pálmadóttir 0 20 23 44 129 166 382
Bjarki Hjörleifsson 0 15 19 68 43 29 174
Bjarni Jónsson 307 52 29 29 14 11 442
Dagný Rósa Úlfarsdóttir 1 102 256 108 72 37 576
Hjördís Pálsdóttir 1 14 31 42 149 145 382
Ingi Hans Jónsson 1 10 86 43 59 77 276
Lárus Ástmar Hannesson 112 174 57 60 28 50 481
Lilja Rafney Magnúsdóttir 328 119 37 29 11 16 540
Reynir Eyvindsson 0 100 50 73 92 114 429
Rúnar Gíslason 37 133 140 51 58 45 464
Þóra Geirlaug Bjartmarsd. 0 48 59 240 131 97 575
787 787 787 787 786 787

 

Athugið að eitt atkvæði vantar í 5. sætið, en kjörstjórn sammæltist um að birta ofangreindar tölur með þeim fyrirvara, enda hefði það ekki áhrif á úrslit forvalsins.

Félagsfundur VG á Suðurnesjum í kvöld

Vinstri græn á Suðurnesjum hittast og halda félagsfund föstudaginn 9. september kl. 19:00 á Café petite í Keflavík. Samræður um kosningamál og undirbúningur fyrir fund kjördæmisráðs í Suðurkjördæmi sem verður í Selinu á Selfossi daginn eftir þar sem gengið verður frá glæsilegum framboðslista.

Félagsmenn og gestir velkomnir!

Forval í Norðvesturkjördæmi endurtekið

“Vegna mistaka sem urðu við útgáfu og útsendingu kjörgagna, ákvað kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi,  í samráði við formann flokksins, að senda út ný kjörgögn með skýrari leiðbeiningum og að fram fari  nýtt forval hið allra fyrsta. Ný kjörgögn verða send á  allra næstu dögum öllum sem skráðir voru félagar þann 21. ágúst sl. Kjörseðlar munu  verða í öðrum lit til frekari aðgreiningar. Svarsendingum sem borist hafa nú þegar,  verður eytt á viðeigandi hátt”.

 

Fyrir hönd kjörstjórnar,

Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, formaður.

Þjóðarsátt um sjávarútveginn

Ljóst er að fyrir liggur við­var­andi og djúp­stætt ósætti í sam­fé­lag­inu um núver­andi fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerfi. Auð­lind­in, sem er þjóð­ar­inn­ar, skilar ekki nægum verð­mætum í sam­eig­in­lega sjóði og örfáar fjöl­skyldur efn­ast gríð­ar­lega og hafa gert um langt skeið. Í raun má segja að eng­inn sé sáttur við kerfið nema þeir sem hagn­ast á því og svo þeir stjórn­mála­flokkar sem hafa gert sér far um að verja þau for­rétt­indi, sem eru núver­andi stjórn­ar­flokk­ar.

Það er stórt og aðkallandi verk­efni að skapa sam­fé­lags­sátt­mála um slíka lyk­il­grein. Í raun dugar ekk­ert minna en að stefna að þjóð­ar­sátt um stjórnun auð­lind­ar­innar og ráð­stöfun þess fjár sem nýt­ingin skil­ar.  Það er gömul saga og ný að fólk telji að unnt sé að breyta kerf­inu með einu penna­striki, með einu töfra­orði, núna er þetta orð upp­boðs­leið. Raunin er sú að upp­boðs­leið er eins og nafnið gefur til kynni aðferð en ekki mark­mið.

Í umræð­unni allri er mik­il­væg­ast að missa ekki sjónar á mark­mið­un­um. Hver ættu að vera mark­mið okkar með góðu fiskveði­stjórn­un­ar­kerfi? Þrjú mark­mið eru að mati okkar vinstri grænna mik­il­vægust, þau skipta öll máli og verða ekki greind í sund­ur.  Í fyrsta lagi þarf arð­ur­inn af auð­lind­inni að skila sér til þjóð­ar­inn­ar. Í öðru lagi þarf að tryggja sjálf­bæra nýt­ingu auð­lind­ar­inn­ar. Í þriðja lagi þarf að tryggja að byggða­sjón­ar­miðin sé ekki fyrir borð bor­inn. Engin ein aðferð tryggir að öllum þessum mark­miðum sé náð. Upp­boðs­leiðin ein og sér horfir til mark­miðs­ins um arð­inn en síður á aðra þætti. Blönduð leið, þar sem upp­boðs­leiðin er einn þáttur er að lík­indum far­sælasta leið­in. Í því við­fangs­efni sem framundan er verður að eiga sam­ráð við þjóð­ina, kalla fleiri að borð­inu. Þjóð­fundur um fyr­ir­komu­lag fisk­veið­stjórn­un­ar­kerf­is­ins gæti verið fyrsta skrefið í átt­ina að mik­il­vægri þjóð­ar­sátt í þessum efn­um. Þjóðin verður að eiga aðkomu að sam­tal­inu. Við­fangs­efni af þessu tagi verður ekki leyst nema með skýrri aðkomu almenn­ings.

Svandís Svavarsdóttir.

Utanríkismálanefnd um ástandið í Tyrklandi

 Mannréttindabrot gegn Kúrdum verði fordæmd

Að frumkvæði Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns VG,  kom utanríkismálanefnd Alþingis til fundar í morgun til að ræða stöðu mála í Tyrklandi.

Utanríkisráðherra kom til fundarins til að gera grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda til atburðarásarinnar í Tyrklandi í ljósi fangelsana og ofsókna á hendur blaðamönnum, kennurum, stjórnmálamönnum, dómurum og saksóknurum sem ekki eru taldir þjóna stjórn Erdogans forseta. Alvarlegast er þó ástandið í Suðaustur-Tyrklandi þar sem útgöngubann hefur verið í framkvæmd meira og minna síðan í águst á síðasta ári í yfir tuttugu héruðum þar sem Kúrdar eru í meirihluta.

Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt handtökum og hreinsunum frá því valdaránstilraunin var reynd 15. júlí síðastliðinn en minna hefur farið fyrir mótmælum gegn mannréttindabrotum sem framin hafa verið á undanförnu ári. Þegar eftir fund NATÓ í Brüssel í júlílok í fyrra, hófst mikil herferð gegn Kúrdum sem hefur valdið því að hátt á fjórða hundrað þúsund manns eru á vergangi og hátt í tvær milljónir manna orðið fyrir alvarlegum búsifjum af völdum þessa. Í maí mánuði voru þingmenn á tyrkneska þinginu sviptir þinghelgi en þeirri aðgerð var fyrst og fremst beint gegn HDP, flokki lýðræðissinnaðra Kúrda, en málsókn er hafin á hendur eitt hundrað fimmtíu og tveimur þingmönnum. Þá er þess að geta að yfir eitt hundrað lýðræðislega kjörnum borgar- og bæjarstjórum í byggðum Kúrda hafa verið hraktir úr embætti, sumir fangelsaðir.

Eindregin samstaða

 Á öllu þessu vakti Ögmundur Jónasson, sem sat fundinn af hálfu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, athygli og hvatti til þess að íslensk stjórnvöld tækju þessi mál upp á vettvangi NATÓ og annars staðar þar sem við höfum snertiflöt við tyrknesk stjórnvöld. Utanríkisráðherra tók undir áhyggjur af stöðu mála í Tyrklandi og sagði að framvegis verði lögð ríkari áhersla á mannréttindabrot sem framin væru gegn Kúrdum og öðrum minnihlutahópum í Tyrklandi. Ögmundur sagði að ástæða væri til að fagna þessari afstöðu og þá einnig hve góður samhljómur hefði verið í utanríkismálanefnd;  „Fundurinn var mjög gagnlegur, eindregin samstaða var um að Íslendingum beri að mótmæla mannréttindabrotum í Tyrklandi kröftuglega og að mótmælin nái til ofsóknum á hendum Kúrdum og öðrum minnihlutahópum“ segir Ögmundur.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur mótmælt mannréttindabrotum í Tyrklandi og hefur hvatt íslensk stjórnvöld til að halda uppi harðri gagnrýni vegna ofsóknanna og mannréttindabrota og taka jafnframt til eindreginna varna fyrir Kúrda á alþjóðavettvangi.  Þau mótmæli og skilaboð voru ítrekuð á fundi utanríkismálanefndar í morgun.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, framkvæmdastýra þingflokks VG, simi 824-6743

Ungt fólk til áhrifa eða skrauts?

 

Ég heiti Rúnar Gíslason og ég er með ólæknandi áhuga á samfélagsmálum. Einmitt þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 1.-3. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Þeim sem vita að ég er bara tvítugur drengtittur úr Borgarfirði finnst það kannski svolítið djarft, verulega bratt, örlítið klikkað eða hugsanlega jafnvel verulega frekt að sækjast eftir mögulegu þingsæti, þegar væntanlega er völ á eldra og reyndara fólki í þessi hlutverk. Og kannski er þetta meira segja allt í senn, djarft, bratt, klikkað og frekt. Það er samt alls ekki meiningin og það skal ítrekað að þessi ákvörðun er tekin af góðum hug og fyrst og fremst vegna áhuga á velferð samfélagsins. Bein afleiðing af slíkum áhuga á að mínu mati að vera vilji til að hafa áhrif á samfélag sitt, til hins betra.

Það er gjarnan klifað á því að Alþingi eigi að endurspegla þjóðina, vera einskonar þverskurður af henni. Stjórnmálaflokkar hvetja líka gjarnan ungt fólk til þátttöku í þjóðfélagsmálum. Stundum finnst mér samt að hugur fylgi ekki endilega máli og að þótt allir flokkar vilji laða til sín unga kjósendur þá vilji þeir ekki endilega að unga fólkið hafi mikil áhrif. Allavega er það svo að þegar kemur á kosningum þá er unga fólkið frekar notað til að skreyta listana en til að vera raunhæfur valkostur. Ég er ekki að halda því fram að það eigi að bjóða fram eintóma barnalista. Ég legg einfaldlega til að kjósendur hafi meira val. Ég vil að ungt fólk eigi möguleika að koma að fulltrúum úr sínum röðum. Mér finnst það ekkert sérlega frekt heldur bara frekar hógvær uppástunga.

Ég kýs að líta á mitt framboð sem ákveðna tilraun til að láta á það reyna hvort menn eru að meina það þegar þeir segja: „ungt fólk til áhrifa“. Þótt ég, barnið, vilji fá að vera með fullorðna fólkinu þá þýðir það ekki mér þyki fullorðna fólkið ómögulegt. Öðru nær. Ég ber virðingu fyrir reynslunni en bendi líka á að enginn hefur sest inn á þing í fyrsta sinn með mikla þingreynslu á bakinu!

Á stuttri ævi hef ég reyndar aflað mér reynslu á ýmsum sviðum. Reynslu sem ég er stoltur af og þakklátur fyrir. Ég hef tekið mikinn þátt í félagslífi, hef skipulagt bæjarhátíðir, setið í nefndum á vegum Borgarbyggðar og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Síðasta vor útskrifaðist ég sem stúdent frá Menntaskóla Borgarfjarðar og fjallaði lokaverkefnið mitt um skólamál í héraði, sérstaklega útfrá sjónarhóli barna og ungmenna. Ég hef sem fyrr segir áhuga á hverju því málefni er varðar ungt fólk. Ég hef líka áhuga á málefnum þeirra sem eldri eru enda eru þeirra vandamál og lausnir oftast af svipuðum meiði þó áherslur séu kannski aðrar. Ég hef mikinn áhuga á náttúruvernd og líka ferðamálum, þótt einhverjum finnist það ekki fara saman. Ég trúi því samt að hægt sé að nota ferðamennskuna til að vernda náttúruna, þó það hafi gengið illa fram að þessu. Ég hef líka mikinn áhuga á málefnum flóttafólks og ég trúi því að við eigum ekki einkarétt á einhverri þúfu þótt við höfum verið svo heppin að fæðast á henni. Vonandi finnst einhverjum að ég geti verið verðugur fulltrúi unga fólksins. Ef ekki þá nær það ekki lengra. Þó ég sé ekki eldri en ég er þá hef ég nú þegar lært það af biturri reynslu að það gengur ekki allt upp sem maður ætlar sér. Kannski verður þetta framboð án eftirspurnar. En það er ekki nema ein leið til að komast að því.

Til þjónustu reiðubúinn,
Rúnar Gíslason