Þjóðarsátt um sjávarútveginn

Ljóst er að fyrir liggur við­var­andi og djúp­stætt ósætti í sam­fé­lag­inu um núver­andi fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerfi. Auð­lind­in, sem er þjóð­ar­inn­ar, skilar ekki nægum verð­mætum í sam­eig­in­lega sjóði og örfáar fjöl­skyldur efn­ast gríð­ar­lega og hafa gert um langt skeið. Í raun má segja að eng­inn sé sáttur við kerfið nema þeir sem hagn­ast á því og svo þeir stjórn­mála­flokkar sem hafa gert sér far um að verja þau for­rétt­indi, sem eru núver­andi stjórn­ar­flokk­ar.

Það er stórt og aðkallandi verk­efni að skapa sam­fé­lags­sátt­mála um slíka lyk­il­grein. Í raun dugar ekk­ert minna en að stefna að þjóð­ar­sátt um stjórnun auð­lind­ar­innar og ráð­stöfun þess fjár sem nýt­ingin skil­ar.  Það er gömul saga og ný að fólk telji að unnt sé að breyta kerf­inu með einu penna­striki, með einu töfra­orði, núna er þetta orð upp­boðs­leið. Raunin er sú að upp­boðs­leið er eins og nafnið gefur til kynni aðferð en ekki mark­mið.

Í umræð­unni allri er mik­il­væg­ast að missa ekki sjónar á mark­mið­un­um. Hver ættu að vera mark­mið okkar með góðu fiskveði­stjórn­un­ar­kerfi? Þrjú mark­mið eru að mati okkar vinstri grænna mik­il­vægust, þau skipta öll máli og verða ekki greind í sund­ur.  Í fyrsta lagi þarf arð­ur­inn af auð­lind­inni að skila sér til þjóð­ar­inn­ar. Í öðru lagi þarf að tryggja sjálf­bæra nýt­ingu auð­lind­ar­inn­ar. Í þriðja lagi þarf að tryggja að byggða­sjón­ar­miðin sé ekki fyrir borð bor­inn. Engin ein aðferð tryggir að öllum þessum mark­miðum sé náð. Upp­boðs­leiðin ein og sér horfir til mark­miðs­ins um arð­inn en síður á aðra þætti. Blönduð leið, þar sem upp­boðs­leiðin er einn þáttur er að lík­indum far­sælasta leið­in. Í því við­fangs­efni sem framundan er verður að eiga sam­ráð við þjóð­ina, kalla fleiri að borð­inu. Þjóð­fundur um fyr­ir­komu­lag fisk­veið­stjórn­un­ar­kerf­is­ins gæti verið fyrsta skrefið í átt­ina að mik­il­vægri þjóð­ar­sátt í þessum efn­um. Þjóðin verður að eiga aðkomu að sam­tal­inu. Við­fangs­efni af þessu tagi verður ekki leyst nema með skýrri aðkomu almenn­ings.

Svandís Svavarsdóttir.

Utanríkismálanefnd um ástandið í Tyrklandi

 Mannréttindabrot gegn Kúrdum verði fordæmd

Að frumkvæði Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns VG,  kom utanríkismálanefnd Alþingis til fundar í morgun til að ræða stöðu mála í Tyrklandi.

Utanríkisráðherra kom til fundarins til að gera grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda til atburðarásarinnar í Tyrklandi í ljósi fangelsana og ofsókna á hendur blaðamönnum, kennurum, stjórnmálamönnum, dómurum og saksóknurum sem ekki eru taldir þjóna stjórn Erdogans forseta. Alvarlegast er þó ástandið í Suðaustur-Tyrklandi þar sem útgöngubann hefur verið í framkvæmd meira og minna síðan í águst á síðasta ári í yfir tuttugu héruðum þar sem Kúrdar eru í meirihluta.

Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt handtökum og hreinsunum frá því valdaránstilraunin var reynd 15. júlí síðastliðinn en minna hefur farið fyrir mótmælum gegn mannréttindabrotum sem framin hafa verið á undanförnu ári. Þegar eftir fund NATÓ í Brüssel í júlílok í fyrra, hófst mikil herferð gegn Kúrdum sem hefur valdið því að hátt á fjórða hundrað þúsund manns eru á vergangi og hátt í tvær milljónir manna orðið fyrir alvarlegum búsifjum af völdum þessa. Í maí mánuði voru þingmenn á tyrkneska þinginu sviptir þinghelgi en þeirri aðgerð var fyrst og fremst beint gegn HDP, flokki lýðræðissinnaðra Kúrda, en málsókn er hafin á hendur eitt hundrað fimmtíu og tveimur þingmönnum. Þá er þess að geta að yfir eitt hundrað lýðræðislega kjörnum borgar- og bæjarstjórum í byggðum Kúrda hafa verið hraktir úr embætti, sumir fangelsaðir.

Eindregin samstaða

 Á öllu þessu vakti Ögmundur Jónasson, sem sat fundinn af hálfu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, athygli og hvatti til þess að íslensk stjórnvöld tækju þessi mál upp á vettvangi NATÓ og annars staðar þar sem við höfum snertiflöt við tyrknesk stjórnvöld. Utanríkisráðherra tók undir áhyggjur af stöðu mála í Tyrklandi og sagði að framvegis verði lögð ríkari áhersla á mannréttindabrot sem framin væru gegn Kúrdum og öðrum minnihlutahópum í Tyrklandi. Ögmundur sagði að ástæða væri til að fagna þessari afstöðu og þá einnig hve góður samhljómur hefði verið í utanríkismálanefnd;  „Fundurinn var mjög gagnlegur, eindregin samstaða var um að Íslendingum beri að mótmæla mannréttindabrotum í Tyrklandi kröftuglega og að mótmælin nái til ofsóknum á hendum Kúrdum og öðrum minnihlutahópum“ segir Ögmundur.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur mótmælt mannréttindabrotum í Tyrklandi og hefur hvatt íslensk stjórnvöld til að halda uppi harðri gagnrýni vegna ofsóknanna og mannréttindabrota og taka jafnframt til eindreginna varna fyrir Kúrda á alþjóðavettvangi.  Þau mótmæli og skilaboð voru ítrekuð á fundi utanríkismálanefndar í morgun.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, framkvæmdastýra þingflokks VG, simi 824-6743

Ungt fólk til áhrifa eða skrauts?

 

Ég heiti Rúnar Gíslason og ég er með ólæknandi áhuga á samfélagsmálum. Einmitt þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 1.-3. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Þeim sem vita að ég er bara tvítugur drengtittur úr Borgarfirði finnst það kannski svolítið djarft, verulega bratt, örlítið klikkað eða hugsanlega jafnvel verulega frekt að sækjast eftir mögulegu þingsæti, þegar væntanlega er völ á eldra og reyndara fólki í þessi hlutverk. Og kannski er þetta meira segja allt í senn, djarft, bratt, klikkað og frekt. Það er samt alls ekki meiningin og það skal ítrekað að þessi ákvörðun er tekin af góðum hug og fyrst og fremst vegna áhuga á velferð samfélagsins. Bein afleiðing af slíkum áhuga á að mínu mati að vera vilji til að hafa áhrif á samfélag sitt, til hins betra.

Það er gjarnan klifað á því að Alþingi eigi að endurspegla þjóðina, vera einskonar þverskurður af henni. Stjórnmálaflokkar hvetja líka gjarnan ungt fólk til þátttöku í þjóðfélagsmálum. Stundum finnst mér samt að hugur fylgi ekki endilega máli og að þótt allir flokkar vilji laða til sín unga kjósendur þá vilji þeir ekki endilega að unga fólkið hafi mikil áhrif. Allavega er það svo að þegar kemur á kosningum þá er unga fólkið frekar notað til að skreyta listana en til að vera raunhæfur valkostur. Ég er ekki að halda því fram að það eigi að bjóða fram eintóma barnalista. Ég legg einfaldlega til að kjósendur hafi meira val. Ég vil að ungt fólk eigi möguleika að koma að fulltrúum úr sínum röðum. Mér finnst það ekkert sérlega frekt heldur bara frekar hógvær uppástunga.

Ég kýs að líta á mitt framboð sem ákveðna tilraun til að láta á það reyna hvort menn eru að meina það þegar þeir segja: „ungt fólk til áhrifa“. Þótt ég, barnið, vilji fá að vera með fullorðna fólkinu þá þýðir það ekki mér þyki fullorðna fólkið ómögulegt. Öðru nær. Ég ber virðingu fyrir reynslunni en bendi líka á að enginn hefur sest inn á þing í fyrsta sinn með mikla þingreynslu á bakinu!

Á stuttri ævi hef ég reyndar aflað mér reynslu á ýmsum sviðum. Reynslu sem ég er stoltur af og þakklátur fyrir. Ég hef tekið mikinn þátt í félagslífi, hef skipulagt bæjarhátíðir, setið í nefndum á vegum Borgarbyggðar og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Síðasta vor útskrifaðist ég sem stúdent frá Menntaskóla Borgarfjarðar og fjallaði lokaverkefnið mitt um skólamál í héraði, sérstaklega útfrá sjónarhóli barna og ungmenna. Ég hef sem fyrr segir áhuga á hverju því málefni er varðar ungt fólk. Ég hef líka áhuga á málefnum þeirra sem eldri eru enda eru þeirra vandamál og lausnir oftast af svipuðum meiði þó áherslur séu kannski aðrar. Ég hef mikinn áhuga á náttúruvernd og líka ferðamálum, þótt einhverjum finnist það ekki fara saman. Ég trúi því samt að hægt sé að nota ferðamennskuna til að vernda náttúruna, þó það hafi gengið illa fram að þessu. Ég hef líka mikinn áhuga á málefnum flóttafólks og ég trúi því að við eigum ekki einkarétt á einhverri þúfu þótt við höfum verið svo heppin að fæðast á henni. Vonandi finnst einhverjum að ég geti verið verðugur fulltrúi unga fólksins. Ef ekki þá nær það ekki lengra. Þó ég sé ekki eldri en ég er þá hef ég nú þegar lært það af biturri reynslu að það gengur ekki allt upp sem maður ætlar sér. Kannski verður þetta framboð án eftirspurnar. En það er ekki nema ein leið til að komast að því.

Til þjónustu reiðubúinn,
Rúnar Gíslason

Að taka slaginn fyrir byggð í landinu

Viðtal um Vestfirði við Lilju Rafneyju úr Morgunblaðinu. Blm. Sigurður Bogi, 14. júlí.

 

 

“Sameining styrkti svæðið,”  segir þingkonan á Suðureyri.  “Jarðgöng sönnuðu sig fljótt.  Mikilvæg uppbyggingarverkefni bíða og hvert byggðarlag hefur sína sérstöðu. Þéttbýlisstaðirnir hér á sunnanverðum Vestfjörðum sem sameinuðust í eitt sveitarfélag fyrir tuttugu árum eru svo sannarlega orðnir eitt samfélag,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri í Ísafjarðarbæ, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi. „Í þeirri vegferð sem hófst með sameiningunni hefur þó ýmislegt mátt betur gera og sumt sem fyrirætlanir voru um hefur ekki gengið eftir. Í meginatriðum er reynslan þó góð.“

 
Göngin hafa borgað sig

Gerð Vestfjarðaganga sem tekin voru í notkun haustið 1996 var grundvöllur þess að hægt væri að sameina þessi sveitarfélög. Vestfirðingar höfðu lengi þrýst á um samgöngubætur því vegurinn yfir Breiðadals- og Botnsheiðar var snjóþungur og oft lokaður yfir lengri tíma á veturna. Vestfirðingar minnast þess að úrtöluraddir voru til staðar. „Davíð Oddsson, þá nýorðinn forsætisráðherra, lét kanna möguleikann á að slá gangalegginn til Suðureyrar af en framkvæmdin var geirnegld af fyrri samgönguráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, svo það gekk ekki eftir sem betur fer,“ segir Lilja Rafney og heldur áfram:
„En það voru vissulega ýmsir sem töldu þessa framkvæmd ekki verjandi meðal annars sakir kostnaðar, enda væru kauptúnin Flateyri, Suðureyri og Þingeyri, sem best njóta ganganna, fámenn. Þessar raddir hljóðnuðu þó fljótlega, mannvirkið sannaði sig og hefur borgað sig þjóðhagslega.“

 
Almenningssamgöngur skipta máli

 
Rétt er að spyrja þess í hvaða sporum Vestfirðingar væru ef ekki hefði verið gengið til sameiningar sveitarfélaga í kjölfar jarðgangagerðar, segir Lilja Rafney. Hún telur að staðan væri tvímælalaust verri, ekki bara í litlu þorpunum heldur líka á Ísafirði sem er þjónustukjarni alls þessa svæðis. Íbúar byggðarlaganna hafi verið í varnarbaráttu lengi og slagkrafturinn til sóknar sé miklu meiri ef samstaðan sé við lýði.
„Við eigum alltaf að taka slaginn fyrir þá byggð sem er í varnarbaráttu hverju sinni. Það er samfélagsvitund sem skilar sér fyrir svæðið allt þegar upp er staðið. Hvert byggðarlag hefur sína sérstöðu sem á að rækta og bera fjölbreyttar bæjarhátíðir þess merki. Við þurfum að viðhalda fjölbreytileika og sérkennum hvers staðar. Það er eilífðarverkefni að bæta þjónustu sem aftur snýst um peninga og forgangsröðun. Í mínum huga skipta almenningssamgöngur miklu máli til að tengja byggðirnar enn betur saman sem heild og auðvelda samgang fólks.“
Á hátíðarsamkomu á laugardaginn, þar sem 150 ára kaupstaðarafmælis Ísafjarðar er minnst og að 20 ár eru frá stofnun Ísafjarðarbæjar, verður Lilja Rafney einn ræðumanna. Það er vel við hæfi, því í samfélagi þessu liggja hennar rætur. Hún er frá Suðureyri og hefur búið þar nánast alla sína tíð. Á barns- og unglingsaldri var hún svo löngum stundum hjá ömmu sinni og afa á Stað í Staðardal, utanvert við Súgandafjörð. Að fylgjast með samræðum fólks þar á bæ um landsins gagn og nauðsynjar og að fylgjast með lífsbaráttunni í þorpinu segir hún að hafi vakið áhuga sinn á þjóðmálunum. Af því leiddi þátttaka í verkalýðsmálum, sveitarstjórn og seinna þingmennska.
En hvaða verkefni eru það til eflingar í Ísafjarðarbæ og í öðrum dreifðum bygguðum sem löggjafarsamkoman þarf að beita sér í á næstunni? Lilja Rafney segir þessi mál sannarlega vera mörg. Mikilvægt sé til dæmis að jafna stöðuna svo búsetuskilyrði til dæmis á Vestfjörðum séu jöfn því sem gerist best annarsstaðar á landinu.
„Okkur duga ekki einhverjar smáskammtalækningar og tímabundin átaksverkefni korteri fyrir kosningar. Grunngerðin og innviðirnir þurfa að vera í lagi. Góðar samgöngur skipta þar gífurlega miklu máli svo atvinnu- og þjónustustigið innan fjórðungsins eflist. Íbúarnir eiga að geta gengið að góðri heilbrigðisþjónustu, menntun, öflugri löggæslu og ekki þurfa að sækja margvíslega þjónustu með tilheyrandi kostnaði um langan veg,“ segir þingmaðurinn og bætir við að síðustu:
„Ísafjarðarbær er höfuðstaður Vestfjarða og við þurfum að tengja okkur innbyrðis og styrkja okkur sem eina efnahagslega heild. Háhraðatengingar og afhendingaröryggi raforku þarf að vera tryggt á Vestfjörðum og ekki líðandi að þar séum við einhver afgangsstærð.“

Mikilvægt að hrista fólk saman

Á Suðureyri búa í dag 263 og þar af er stór hluti íbúa fólk sem er upprunnið erlendis og kemur þar með úr öðru menningarumhverfi. Lilja Rafney hefur gert að umtalsefni hve félagsleg þátttaka á Suðureyri var mikil fyrr á tíð; í raun hafi allir haft með höndum hlutverk í þágu fjöldans. „Mér finnst þessi samfélagslega vitund og félagslega þáttaka enn vera til staðar þó vissulega breytist tíðarandinn og allskyns áreiti dragi úr félagslegri virkni. Samt er enn ríkjandi sá andi að allir skipti máli, hafi hlutverk og leggi sitt af mörkum til að gera samfélagið betra og skemmtilegra,“ segir Lilja Rafney og bætir við:
„Fjölbreytt menningarstarfsemi einkennir Ísafjarðarbæ og margskonar félags og íþróttaiðkun er þar allsráðandi. Það á um þorpin líka. Íbúar af erlendum uppruna hafa margir hverjir búið hér mjög lengi og hafa styrkt okkur sem samfélag og auðgað mannlífið. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að hrista fólk saman og ég tel að það hafi tekist furðu vel enda hafa Vestfirðir verið fjölþjóðlegt samfélag í áratugi og fólkið er fordómalaust – sem betur fer.“
Vestfirðir verði vistvænt samfélag

Í Ísafjarðarbæ og á Vestfjörðum öllum eru miklir möguleikar ef stjórnvöld vinna með heimamönnum í takt við þá framtíðarsýn og þróunarstarf sem unnið hefur verið heimafyrir. Slíkt er skjalfest í ótal skýrslum en staðið hefur á raunverulegum vilja stjórnvalda í fjárlögum að skatttekjur íbúanna skili sér aftur heim í innviðauppbyggingu,“ segir Lilja Rafney. Hún segist einnig áfram um að gerðar verði breytingar á kvótakerfinu. Núverandi útfærsla þess vinni gegn byggð í landinu. Byggðafesta verði aflaheimildir, efla strandveiðar og koma á fót leigupotti ríkisins með aflaheimildir. Koma verði í veg fyrir að markaðslögmálin ein ráði ferð í stjórn fiskveiða.
„Ferðaþjónustan er að eflast mikið og fiskeldið er að byggjast upp. Íbúar hafa einnig ýmsar hugmyndir í atvinnusköpun sem þarf að styðja við. Komur skemmtiferðaskipa hafa aldrei verið fleiri í Ísafjarðarbæ sem eykur umsvif og tekjur inná svæðið og lífgar uppá bæjarbraginn. Vestfirðir eiga að gera út á að vera vistvænt og sjálfbært samfélag og í þá átt hafa heimamenn verið að vinna að undanfarin ár með góðum árangri. Það dýrmætasta er þó mannauðurinn sem svo sannarlega er til staðar í Ísafjarðarbæ – sem ég trúi að sé á réttri leið.“

Sjá markaðinn!

Fréttablaðið valdi réttilega forsíðu sína til að segja okkur að fyrir hönd okkar skattgreiðenda hefði Sjálfstæðisflokkurinn nú ákveðið að ganga til viðræðna við einkaaðila um rekstur tveggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Fréttin var ekki orðuð með þetta beinum hætti. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki nefndur á nafn og þaðan af síður skattgreiðendur en öll vitum við að ríkisstjórnin er að reyna að ná langþráðu takmarki peningafrjálshyggjunnar um að koma á heilbrigðismarkaði. Einnig vitum við að allt er þetta hugsað í boði skattgreiðenda því við komum til með að borga brúsann með einum eða öðrum hætti. Meðal annars þess vegna er þetta okkar mál.

Hvar fjallað er um heilsugæsluna
Þegar forsíðufréttinni sleppti var vísað inn í blaðið, og hvar skyldi ítarefnið hafa verið að finna annars staðar en í blaðhlutanum sem fjallar um viðskipti. Ekki gagnrýni ég þetta enda fullkomlega rökrétt! Ríkisstjórnin er að koma því þannig fyrir, að vilji menn fræðast um áform hennar varðandi heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, þá verði vegvísirinn sá hinn sami og í umræddri frétt: Sjá Markað. Í tengslum við þessar fréttir er síðan rætt við bisnismenn á hvítum sloppum, sem eru að hasla sér völl á þessu sviði, og hafa reyndar lengi reynt, en virðast nú ætla að hafa árangur af erfiði sínu. Að vísu þarf hér að hafa einn fyrirvara á og hann er mikilvægur. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vill ekki að hægt verði að greiða arð út úr einkarekinni heilsugæslu sem fjármögnuð er með almannafé. Þetta er að sjálfsögðu stórmál því fjárfestar og þar með talið lífeyrissjóðir – hugsa nú gott til glóðarinnar að hagnast á heilsuleysi fólks.

Feitir bitar og magrir
Eftir stendur að heilbrigðisráðherrann vill innleiða hér kennisetningu Miltons Friedmans um að peningar fylgi sjúklingi/nemanda og keppi síðan heilbrigðisstofnanir og skólar um hvern bita. Að sjálfsögðu munu útsjónarsamir bisnislæknar fljótlega koma auga á hverjir eru feitir bitar og hverjir magrir. Tvennt vekur sérstaka athygli mína í þessum fréttaflutningi. Í fyrsta lagi að Friedmanskenningin á að ná til allra heilsugæslustöðva, ekki bara einkarekinna. Hvers vegna er þá verið að einkavæða? Augljóst er að útboðið fer fram bara einu sinni en síðan á samkeppnin, sem gumað er af, að verða að hætti Friedmans. Hverjum er verið að þjóna? Augljóslega nýjum rekstraraðilum. Þetta er hins vegar ekki í þágu skattgreiðenda þegar til lengri tíma er litið og ekki verður þetta til að auðvelda skipulagningu þjónustunnar sem verður fyrir vikið óhöndugra verkefni. Eitt nýlegt dæmi um hvernig skipulagsvaldið færist til með einkavæðingu er tilboð fyrir offitusjúklinga að fá allra sinna meina bót í Klínikkinni sem er hagnaðarrekin heilbrigðisstofnun, fjármögnuð af skattgreiðendum.

Ekkifréttir og þjóðarvilji
Hitt sem vekur athygli eru þó engar fréttir í sjálfu sér. Það er þegar verðandi rekstraraðilar fullyrða að „einkastöðvar leysi vanda heilsugæslunnar“ en bæta því svo við að fyrirkomulagið gangi því aðeins upp að til komi „meira fé í heilsugæsluna“. Er þetta ekki mergurinn málsins? Það þarf að hlúa betur að heilsugæslunni með auknu fjárframlagi frá okkur skattgreiðendum. Ég fullyrði að almennt vilji fólk forgangsraða skattframlagi sínu í þá veru enda hefur margoft komið fram að Íslendingar vilja almennt borga með sköttum sínum fyrir gott heilbrigðiskerfi og að það kerfi sé ekki aðeins rekið á fjárhagslega ábyrgð okkar heldur einnig á okkar vegum og í okkar umboði. Staðreyndin er sú að eftir efnahagshrunið, var skorið inn að beini á Landspítalanum og öðrum opinberum heilbrigðisstofnunum og þá ekki síst í heilsugæslunni. Sjálfstætt starfandi sérfræðingar komu hins vegar betur undan hruninu. Þegar opinbera þjónustan á síðan í vök að verjast, koma þeir nú askvaðandi og segja að augljóst sé að opinbera kerfið anni ekki eftirspurn og standi sig ekki, því verði að gefa boltann á þá en að sjálfsögðu með ríkulegri meðgjöf. Sanngjarnt? Varla.

Einkareksturinn allur ríkisrekinn!
Aldrei hef ég amast við því að til staðar séu sjálfstætt starfandi læknar fjármagnaðir af almannafé. Gleymum því aldrei að peningarnir til „einkarekstrarmanna“ koma allir frá okkur skattgreiðendum. En það sem við sjáum vera að þróast núna er hins vegar allt annarrar gerðar en við höfum kynnst til þessa og mun, ef ekki verður að gert, leiða til þess að um heilbrigðiskerfið allt verði fjallað á markaðssíðum blaðanna eins og nú er byrjað að örla á. Ég heiti á okkur öll að láta þetta aldrei henda. Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.
Ögmundur Jónasson.

Enn ein aðförin að RÚV

Í störfum þingsins í dag gerði Bjarkey Gunnarsdóttir málefni RÚV að umtalsefni.

Herra forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni stofnun sem hefur verið mikið á milli tannanna á fólki og í fjölmiðlum undanfarið og sem enn og aftur er verið að gera aðför að, en það er Ríkisútvarpið okkar. Ég leyfi mér að draga í efa túlkun hv. þingmanns og varaformanns fjárlaganefndar eins og hún birtist í Morgunblaðinu í morgun í ljósi þess tölvupósts sem hann byggir málflutning sinn á. Ég skil hann með allt öðrum hætti en hv. þingmaður gerir.

Ég vona svo sannarlega að umræðan leiði hið rétta í ljós, því að þar er verið að óska eftir staðfestingu á því að fjárhagsupplýsingar og rekstraráætlun RÚV sem var gert að skila inn til fjármálaráðuneytisins vegna skilyrts framlags, sem var mjög umdeilt hér við fjárlagagerðina, að þau plögg séu nægjanleg. Ég skil tölvupóstinn þannig, virðulegi forseti, þar sem kemur fram að gögnin séu í samræmi við þau skilyrði sem fjárlaganefnd setti í nefndaráliti við 2. umr. fjárlaga. Ég leyfi mér að skilja það sem svo að RÚV hafi þá uppfyllt skyldu sína.

Ég spyr mig líka, þetta er í mars, að ef þurft hefði að kalla eftir viðbótargögnum, hvort það hafi þá ekki verið gert. Það eru að minnsta kosti engir tölvupóstar því til staðfestingar.

Reksturinn hefur verið hallalaus síðasta árið og mikill viðsnúningur hefur átt sér stað eins og komið hefur fram og að líta á þá skýrslu sem hér var skilað inn sem hinn eina stóra sannleik í málinu er vægast sagt vafasamt að mínu mati.

Ég held líka að þeir sem vinna að lausn þessara mála, þ.e. þessi þrjú ráðuneyti, forsætis-, mennta- og fjármálaráðuneyti, hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi gengið eftir. Þess vegna finnst mér að þeir sem bera eins mikla ábyrgð og formaður og varaformaður fjárlaganefndar þurfi að stíga varlega til jarðar og gæta orða sinna.

Ný stjórn Vinstri grænna

Ný stjórn Vinstri Grænna var kosin á landsfundi í dag.

Katrín Jak­obs­dótt­ir var sjálf­kjör­in formaður hreyf­ing­ar­inn­ar.

Björn Val­ur Gísla­son var kjörinn varaformaður.

Elín Odd­ný Sig­urðardótt­ir var kjörin í embætti rit­ara.

Una Hild­ar­dótt­ir var kjörin í embætti gjald­kera.

Edw­ard H. Huij­bens, Björg Eva Er­lends­dótt­ir, Daní­el Arn­ars­son, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Bjarkey Ol­sen Gunnarsdóttir, Ingi­björg Þórðardótt­ir og Álf­heiður Inga­dótt­ir voru kjörin meðstjórnendur í stjórn.

Benóný Harðarson, Bjarni Jónsson, Hrafnkell Lárusson og Jakob S. Jónsson voru næstir í kjöri til meðstjórnanda og eru því varamenn í stjórn.

,

Landsfundur í beinni

Öll fundargögn, ályktanir, breytingatillögur og upplýsingar um fundinn má nálgast hér.

,

Ný stjórn VG á Akureyri

Ný stjórn VG á Akureyri var kjörin á fjölmennum aðalfundi félagsins 15. október sl.

Nýja stjórn skipa:

Vilberg Helgason, formaður
Sigmundur Sigfússon, ritari
Kristín Sigfúsdóttir, gjaldkeri
Dýrleif Skjóldal, meðstjórnandi
Ólafur Kjartansson, meðstjórnandi

Varamenn í stjórn:
Hermann Arason
María Jónsdóttir
Valur Sæmundsson