Umhverfisvænna og manneskjuvænna nýtt ár

Um áramót lítum við flest um öxl og förum yfir hvað var gott á árinu og hvað var síðra. En með reynslu nýliðins árs í farteskinu er líka tilvalið að velta fyrir sér hvað við viljum sjá gerast á nýju ári. Mig langar að tæpa á tveimur málaflokkum sem mér standa nærri en það er þó ekki ótæmandi listi.

Ein af helstu samfélagslegu áskorunum árið 2019 og áranna fram undan eru umhverfismálin. Að við leggjumst öll á eitt til að sporna með öllum ráðum gegn helstu ógn nútímans; loftlagsbreytingum. Í þeim efnum eru næg verkefni. Aðgerðaáætlun í loftlagsmálum sem umhverfisráðherra kynnti á haustþingi er fyrsta skrefið, ekki endastöð en afar mikilvæg verkfærakista. Nauðsynlegt er að verkfærunum sé fjölgað í þágu loftlags og umhverfisins og að stjórnvöld leiði þá vinnu og að við öll komum með í þá vegferð.  Ein af helstu áskorunum í loftlagsmálum er efling almenningssamgangna. Skriður mun loks komast á í þeim efnum á árinu 2019 með nýgerðu samkomulagi milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að tryggja fjármagn í undirbúningsvinnu fyrir Borgarlínu. Það er mikið fagnaðarefni og mun vonandi takast vel til. Samgönguáætlun verður lögð fram á árinu og rædd í þinginu. Afskaplega brýnt er hún verði með grænum formerkjum og í takti við skuldbindingar okkar í Parísarsamkomulaginu. Að sérstök almenningssamgangnastefna verði útbúin sem fyrst, eins og kveðið er á um í aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. Stór verkefni í að sporna gegn loftlagsbreytingunum er að draga enn frekar úr útblæstri og mengun, að ríki og sveitafélög búi til hvata fyrir íbúa til að lifa umhverfisvænna lífi, að við drögum úr óþarfa neyslu, minnkum kjötneyslu, að skipulagsmálin sem snerta skipulagsvald sveitarfélaganna sé með umhverfisvænum áherslum og grænni sýn sem hlýtur að vera spennandi áskorun fyrir stækkandi sveitafélag á borð við Kópavog.

Í þessu getum við öll haft áhrif og vonandi séð árangur. Okkur, framtíðarkynslóðum og náttúrunni til heilla á næsta ári og á næstu árum.

Undir lok árs vorum við minnt rækilega á að við erum ennþá stödd í úrvinnslu #metoo-byltingarinnar sem náði hámarki fyrir rúmu ári. Í þeirri úrvinnslu er ótrúlega mikilvægt að við náum sátt um hvaða viðmið við viljum hafa í heiðri sem samfélag þegar kemur að samskiptum okkar á milli. Engin manneskja á að búa í samfélagi þar sem óæskileg hegðun, niðrandi tal um aðra og kynbundin áreitni eða kynferðisofbeldi er liðið. Við þurfum sem samfélag að leggjast öll á eitt að uppræta niðurlægjandi hegðun og stuðla öll að meiri virðingu, nærgætni og vera öll sammála um að það er lífsnauðsynlegt að útrýma kynbundinni áreitni, vinna gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldishegðun af hvers kyns toga. Það hlýtur að vera göfugt markmið fyrir árið 2019.

Ég óska öllum íbúum Kópavogs gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir liðið ár. Megi árið 2019 verða okkur umhverfis – og manneskjuvænt ár.

 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG

Jákvæð þróun í lyfjaávísunum

 

Á síðasta ári dró verulega úr ávísunum lækna á lyf sem valdið geta ávana og fíkn en tölur landlæknisembættisins sýna að ávísunum á ópíóíða-lyf sem eru sterk verkja og róandi lyf og methýlfenidats sem er örvandi lyf fækkaði umtalsvert. Verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis segir mega rekja þennan samdrátt í ávísunum til vitundarvakningar meðal lækna og breyttra áherslna í verkjameðferð.

Misnotkun lyfja sem valdið geta ávana og fíkn hefur farið hratt vaxandi undanfarin ár og haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Eitt af mínum fyrstu verkum sem Heilbrigðisráðherra var að stofna starfshóp sem falið var að gera tillögur um aðgerðir til að stemma stigu við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja.  Hópurinn skilaði mér tillögum í maí sl. sem miðuðu meðal annars að því að takmarka magn ávanabindandi lyfja í umferð hér á landi, styðja við góðar ávísanavenjur lækna og efla eftirlit. Margar af tillögum starfshópsins eru þegar komnar til framkvæmda. Ný reglugerð um lyfjaávísanir, nr. 1266/2017, tók gildi 1. júlí sl. en í henni felast ýmis nýmæli sem miða að því að veita læknum meira aðhald en áður í lyfjaávísunum og stuðla að öruggari lyfjanotkun. Má þar nefna að með tilkomu hennar er ekki heimilt að ávísa ýmsum lyfjum, sem valdið geta ávana og fíkn, lengur en til 30 daga notkunar í senn. Þá þarf að liggja fyrir lyfjaskírteini sjúklings til að fá afgreidd lyf úr ákveðnum lyfjaflokkum og auknar kröfur eru um að einstaklingar sýni skilríki í apótekum til að fá slík lyf afgreidd.

Mikilvægt er sömuleiðis að huga að öryggi þeirra einstaklinga sem þegar eru í neyslu með skaðaminnkun að leiðarljósi. Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú til umsagnar áform mín um að koma á fót öruggu neyslurými fyrir einstaklinga sem neyta vímuefna með sprautubúnaði og er umsagnarfrestur til 27 janúar.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr ávísunum lyfja sem valdið geta ávana og fíkn er notkun slíkra lyfja meiri hér en annars staðar á Norðurlöndunum og ljóst að leita þarf allra leiða til að stemma stigu við misnotkun þeirra. Það er von mín að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til stuðli að lausn vandans og eru tölur landlæknisembættisins um samdrátt í ávísunum umræddra lyfja vísbending um að við séum á réttri leið.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. 

 

Ívilnun vegna kolefnisbindingar

 

 

Mikilvægi kolefnisbindingar í jarðvegi og gróðri er alþekkt. Hér á landi er unnt að binda milljónir tonna af kolefni úr kolefnisgösum (gróðurhúsalofttegundum) á ári, þegar fram í sækir. Losun nú á Íslandi, að slepptu útstreymi úr framræstu eða illa förnu landi, frá flugvélum og orkufrekum iðnaði, er tæplega 5 milljón tonn á ári. Það bíður okkar margþætt verkefni við að minnka alla losun og binda kolefni að auki.

Ríkið leikur stórt hlutverk í þessum efnum, ásamt sveitarfélögum og almenningi. Að auki verða fyrirtæki, stofnanir og félög að taka til höndum. Samanlagt eru framlög allra annarra en ríkisins, þungvægust í andófinu gegn hraðri loftslagshlýnun. Ríkisvaldið hvetur vissulega til dáða í ótal tilvikum, liðkar fyrir og leggur fram fé til margvíslegra verkefni, ríkisstjórnir setja fram stefnur og markmið í nafni samfélagsins. Núverandi ríkisstjórn stendur við sín markmið.

Ég hef lagt til vinnslu á Alþingi breytingartillögu við lög um tekjuskatt, í samráði við ráðherra, til þess að ívilna lögaðilum, leggi þeir fram fé til kolefnisbindingar, til dæmis skógræktar með ræktendum eða Kolviði og /eða endurheimtar votlendis með Landgræðslunni eða Votlendissjóði. Þannig geta aðilar í atvinnurekstri talið fram greiðslur til bindiverkefna, allt að 0,85% tekna, sem verða undanþegnar tekjuskatti. Í reglugerð verður kveðið nánar á um kröfur um upplýsingaskil þegar gerð er grein fyrir svona framlögum. Meðal annars er æskilegt að framlögin séu liður í umhverfis- eða loftslagsstefnu þess sem bindur kolefni með þessum hætti. Margir þingmenn flytja tillöguna með mér og er það til marks um þverpólitískan vilja á Alþingi. Vonandi nýta margir ívilnunina þegar tillagan, vonandi óbreytt, verður að veruleika.

 

Ari Trausti Guðmundsson, höfundur er þingmaður VG

Þröngsýni um fjármálakerfið

Hvítbók um fjármálakerfið er góður grundvöllur fyrir umræðu um hvernig við viljum haga málum á því sviði. Því miður hefur of mikið borið á þröngsýni um þá kosti sem fyrir hendi eru, bæði í umræðunni sem útgáfa hennar hefur skapað sem og í hvítbókinni sjálfri.

Það er nauðsynlegt að huga vel að því hvernig best er að nýta þá kosti sem eignarhald ríkisins á fjármálastofnunum býður upp á. Það er ekki á vísan að róa með að sú staða skapist á ný, þannig að mikilvægast er að vanda sig. Þá eigum við að læra það af sögunni að sala á ríkisbönkum er ekki endilega alltaf til góðs.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er þetta að finna um framtíðarskipulagningu fjármálakerfisins:

„Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.“

Það er hins vegar engan veginn sjálfgefið hvað eigi að selja og hvernig. Við þurfum að vera óhrædd við að velta upp öllum kostum hvað fjármálakerfið varðar. Á að sameina Landsbanka og Íslandsbanka í einn stóran banka, þar sem ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir, með tilheyrandi hagræðingu? Eigum við að stefna að því að koma á fót samfélagsbanka? Hvernig uppfyllum við það ákvæði stjórnarsáttmálans best um að fjármálakerfið þjóni samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt?

Þetta allt, og meira til, þarf að ræða. Umræða um fjármálakerfið má ekki hverfast um þá einföldu spurningu hvort eigi að selja banka eður ei. Því er allt tal um það hve söluvænn Landsbankinn er fullkomlega ótímabært. Þá er ágætt að hafa í huga að samkvæmt könnun sem gerð var fyrir hvítbókarvinnuna er almenningur almennt jákvæður í garð þess að ríkið eigi banka.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, 

Mannréttindi Kúrda og íbúa Níkaragva

Á síðastliðnu ári var Ísland kjörið í Mannréttinda­ráð Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindamál hafa verið einn af hornsteinum utanríkisstefnu landsins. Vafalaust er eindreginn stuðningur meðal landsmanna við þá áherslu og um leið þverpólitísk samstaða um hana á Alþingi.

Fríverslun?
Mannréttindi ber nokkuð oft á góma í þinginu, m.a. vegna afgreiðslu á tillögum um fríverslunarsamninga við ríki, til dæmis Kína og Filippseyjar, og nú stendur til að endurnýja slíkan samning við Tyrkland. Skiptar skoðanir eru á því hvernig slíkir samningar ríma við mannréttindabrot í löndum þar sem stjórnvöld verða uppvís að margvíslegum rangindum í garð almennings eða minnihlutahópa. Iðulega er til þess vísað að samningaviðræðum og samningunum sjálfum fylgi umræður og ákvæði um mannréttindi og ástandið í löndunum. Minna fer fyrir úttektum á því hvort áhrifin eru tilætluð.

Kúrdar eiga í vök að verjast
Í Tyrklandi hafa Kúrdar mátt sæta mannréttindabrotum áratugum saman. Þau hafa enn versnað með tilkomu stefnu Erdogans og hans flokks; skipulagðar hafa verið atlögur að búsetuskilyrðum í byggðum Kúrda, margt manna fangelsað og áhrifafólk hrakið úr landi. Það gerist í aðildarlandi NATO og hefur Erdogan skákað í skjóli sem áhugi Rússa á víðtæku samstarfi við tyrknesk stjórnvöld og samhernaði í Sýrlandi myndar. Innrás Tyrkja í Sýrland bitnar harðlega á Kúrdum í landinu og einnig þar hefur tyrkneski herinn farið fram af hörku gegn almenningi. Engin ástæða er til að fela þessar staðreyndir sem kúrdískir gestir hingað til lands báru nýverið fram og eru líka staðfestar í alþjóðsamfélaginu. Kúrdar búa í fimm þjóðríkjum, flestir í Tyrklandi, Írak og Íran, færri í Sýrlandi og Armeníu, og vilja eðlilega sjálfstjórn og friðsamlega sambúð við aðrar þjóðir innan allra landanna. Þeir eru næst takmarki sínu í Norður-Írak.

Íslandi, með sínar áherslur á mannréttindi, ber að aðstoða Kúrda við að ná sama takmarki og er ofarlega í hugum annarra þjóða.

Almenningur í Níkaragva þjáist
Í Níkaragva, landi sem íslensk stjórnvöld og sérfræðingar hafa aðstoðað, eru alvarleg mannréttindabrot framin á hverjum degi. Friðsöm mótmæli almennings gegn félagslegum áherslum stjórnvalda hófust í apríl 2018. Viðbrögðin hafa verið harkaleg og þau stigmagnast; hundruð manna hafa látist, nær allt almennir borgarar, mörg hundruð horfið með öllu eða verið fangelsuð og tugir þúsunda hafa flúið land. Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér skýrslu um ástandið í landinu, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur flutt fréttir af flóttamannastraumnum. Amnesty International hefur gefið út tvær skýrslur um ástandið og Samtök Ameríkuríkja, OAS, hafa gefið út eina skýrslu. Fjórtán lönd, þar á meðal öll Norðurlöndin, Bretland og Bandaríkin (!), standa að sameiginlegri yfirlýsingu um stöðuna, sem kristallast í aðförum að frjálsum félagasamtökum í landinu (sjá hér).

Mannréttindalandið Ísland þarf nú að taka af skarið og taka undir gagnrýni á mannréttindabrot stjórnar Sandínista og Daníels Ortega.

 

Ari Trausti Guðmundsson

Umhverfismálin komin á dagskrá

Sterk og mikilvæg umhverfisbylgja á sér nú stað í samfélaginu. Það eru forréttindi að vera ráðherra málaflokks sem ég hef í mörg ár unnið að og brunnið fyrir – og það á tímum sem þessum. Það er ótrúlega gaman og gefandi að starfa með fólki vítt og breitt í samfélaginu sem keppist við að gera allt sem mögulegt er til að vinna umhverfinu heilt.

Friðlýsingar farnar í gang

Eitt af mínum hjartans málum er náttúruvernd. Undanfarin ár hefur gengið alltof hægt að friðlýsa svæði sem Alþingi hefur þegar samþykkt að skuli friðlýst. Nú hefur breyting orðið á og friðlýsingar eru komnar á dagskrá stjórnvalda. Sem ráðherra setti ég saman teymi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar sem vinnur nú að sérstöku átaki í friðlýsingum. Meðal verkefna sem komin eru í kynningu eru friðlýsingarskilmálar fyrir fimm svæði í verndarflokki gildandi rammaáætlunar og áform um friðlýsingu tveggja svæða sem hafa verið undir miklu álagi ferðamanna: Annars vegar Reykjadals og Grænsdals í Ölfusi og hins vegar Gjárinnar og fleiri staða í Þjórsárdal.

Mér þótti einnig mikilvægt að áhrif friðlýsinga á efnahag yrðu rannsökuð frekar og fyrir liggur umfangsmikil rannsókn Hagfræðistofnunar HÍ sem fram fór vítt og breitt um landið og sýnir að fyrir hverja 1 krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila 23 krónur sér til baka. Við vitum að friðlýsingar eru mikilvægar náttúrunnar vegna en nú hefur verið sýnt fram á að þær hreinlega margborga sig – á fjölmarga vegu.

Fleiri rannsókna- og þróunarverkefni eru í gangi, auk þess sem fjárframlög til að verja náttúruna á svæðum undir álagi ferðamanna hafa verið stóraukin, ekki síst á friðlýstum svæðum. Til að efla fræðslu um friðlýst svæði, leiðbeina um umgengni og auka jákvæða upplifun fólks af náttúru landsins verður landvarsla síðan aukin frá og með árinu í ár.

Stærsta náttúruverndarverkefnið er þó án efa stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Kveðið er á um stofnun þjóðgarðsins í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og undirbúningur fyrir hann er í góðum höndum hjá þverpólitískri nefnd sem ég skipaði og tók til starfa síðastliðið vor. Fyrstu verkefni nefndarinnar hafa þegar verið kynnt. Miðhálendisþjóðgarður markar straumhvörf í náttúruvernd á Íslandi.

Loftslagsmál, plast og sóun

Loftslagsbreytingar eru stærsta sameiginlega áskorunin sem við Jarðarbúar stöndum frammi fyrir. Nú liggur fyrir fyrsta útgáfa af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir Ísland og það hefur verið frábært að fylgjast með móttökunum. Fram undan eru stórtækar aðgerðir við að binda kolefni úr andrúmslofti og að hætta brennslu innflutts og mengandi jarðefnaeldsneytis í samgöngum hér á landi og nota heldur innlenda og endurnýjanlega orkugjafa. Þá verður í fyrsta skipti varið fjármagni sérstaklega til nýsköpunar á sviði loftslagsmála með stofnun Loftslagssjóðs, auk margra fleiri aðgerða.

Annað sem ég legg þunga áherslu á er að berjast gegn plastmengun, óþarfa neyslu og sóun. Við getum ekki haldið áfram að umgangast Jörðina okkar eins og við höfum gert og verðum að hætta að líta á hluti sem einnota. Hvert og eitt getum við tekið ótal skref í daglegu lífi okkar til að breyta þessu en nauðsynlegra stjórnvaldsaðgerða er einnig þörf. Ég mun gera mitt til að þær verði að veruleika. Fyrir liggja tillögur starfshóps um aðgerðir varðandi plastmengun, á næstunni legg ég fram frumvarp um bann við afhendingu burðarplastpoka og ráðuneytið hefur stutt átaksverkefni Umhverfisstofnunar og frjálsra félagasamtaka til að draga bæði úr plastnotkun og matarsóun.

Aukin aðkoma almennings

Að lokum langar mig að nefna mikil­vægi þess að efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku um umhverfis­mál og að sú aðkoma verði aukin fyrr í ferli ákvarðanatöku en raunin hefur verið. Þessu hafa raunar bæði umhverfisverndarsamtök og framkvæmdaaðilar kallað eftir. Til að vinna þessu brautargengi hef ég sett í gang heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum og látið vinna áætlun um eftirfylgni Árósasamningsins. Þá munu fjárveitingar til reksturs umhverfisverndarsamtaka verða auknar um helming í ár og aftur á næsta ári.

Framlög til umhverfismála hafa stóraukist í tíð núverandi stjórnar og hafa raunar aldrei verið neitt í líkingu við það sem nú er. Ég er spenntur fyrir því sem fram undan er og hlakka til að halda baráttunni áfram. Árið 2019, kom þú fagnandi!

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra. 

Á rúmu ári – Verk Vinstri grænna í ríkisstjórn

Fyrsta heila almanaksár ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er nú að baki. Þá er góð ástæða til að fara yfir verk stjórnarinnar og meta árangurinn. Þegar við Vinstri græn ákváðum í lok 2017 að taka þátt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki mæltist það misjafnlega fyrir, bæði meðal okkar félaga og þó kannski ekki síst meðal annarra flokka sem telja sig talsmenn félagshyggju. Við fáum stundum spurninguna: Hvert er erindi VG?

Við, Vinstri græn, vitum vel svarið við því. Náttúruvernd, kvenfrelsi, jafnrétti, öflug samfélagsþjónusta, framsækin menntastefna, sjálfstæð utanríkisstefna, friðarstefna, félagsleg alþjóðahyggja eru helstu áherslur okkar. Það eru ýmsar leiðir færar til að koma stefnumálum á framfæri og í framkvæmd, hafa áhrif á þróun samfélagsins. Það er m.a. hægt með öflugum málflutningi í samfélaginu, með öflugri stjórnarandstöðu á þingi, með þátttöku í ríkisstjórn.

Þegar VG fyrir nær 20 árum hóf af alvöru umræðu um umhverfismál var reynt að gera okkur hlægileg, VG var sagður flokkur sérvitringa sem vildi bara tína fjallagrös. Nú er áhersla á náttúruvernd skrifuð í stefnu allra flokka. Svipuð þróun hefur orðið í kvenfrelsismálum, en þar hefur VG jafnan dregið þyngsta hlassið. Þegar við mynduðum núverandi ríkisstjórn höfðu margir miklar væntingar um betra samfélag, meiri jöfnuð. Með þessari ríkisstjórn er að því stefnt. Og hvað hefur áunnist? Nokkur atriði:

 • Frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna hækkað úr 25.000 krónum í 100.000. Eitt fyrsta verk stjórnarinnar.
 • Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækkaðar úr 520.000 í 600.000 þann 1. janúar sl.
 • Engin komugjöld verða innheimt af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum frá 1. janúar 2019. Gjaldtöku fyrir vitjanir lækna til aldraðra og öryrkja hætt.
 • Stofnstyrkir til byggingar félagslegs leiguhúsnæðis hækka um 800 milljónir á þessu ári og eftir það er gert ráð fyrir stofnstyrkjum til bygginga allt að 300 félagslegra leiguíbúða árlega.
 • Aukin fjárframlög til umhverfismála um 35% frá því að ríkisstjórnin tók við í fjárlögum 2018 og fjármálaáætlun 2019-2023.
 • Verulega aukin fjárframlög til reksturs og fjárfestinga í heilbrigðismálum, eða um 11% milli fjárlaga 2017 og 2018 og um önnur 19% á tímabili fjármálaáætlunar.
 • Uppbygging innviða á ferðamannastöðum með áherslu á friðlýst svæði. Í heildina verður 2,1 milljarði varið í hana á næstu þremur árum.
 • Hækkað kolefnisgjald um 50% og boðuð frekari hækkun um 20% á næstu árum.
 • Atvinnuleysisbætur hafa hækkað í 90% af dagvinnutryggingu, úr 227.417 kr. í 270.000 kr. á mánuði.
 • Fjármagnstekjuskattur hækkaður úr 20 í 22%. Stefnt að frekari hækkun.
 • Breyttar úthlutunarreglur LÍN. Flóttafólk hefur nú aðgang að framfærslulánum í fyrsta sinn.
 • Verulega aukið fjármagn til samgöngumála, bæði í fjárlögum yfirstandandi árs og í fjármálaáætlun. Fjárfest verður í uppbyggingu samgönguinnviða fyrir 124 milljarða á tímabili áætlunarinnar.
 • Stórátak boðað í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Rýmum verður fjölgað um 550 á næstu árum og aðbúnaður bættur við önnur 240.

Þetta er bara hluti mála sem við höfum haft forgöngu um og hefðu tæplega orðið að veruleika ef við sætum ekki í þessari ríkisstjórn. Við eigum forsætisráðherra Íslands, verkstjóra og foringja ríkisstjórnarinnar, stjórnmálamann sem Íslendingar hafa á síðari tímum treyst langbest. Við eigum kraftmikinn heilbrigðisráðherra sem setur hagsmuni þjóðarinnar framar einkahagsmunum í heilbrigðisþjónustu og byggir upp hið opinbera heilbrigðiskerfi af festu og dugnaði. Og við eigum umhverfisráðherra sem lyft hefur umhverfisráðuneytinu á hærra plan og gert það að framsæknu, öflugu ráðuneyti.

Það er nauðsynlegt að landsmenn kynni sér þau málefni og þær aðgerðir sem VG hefur áorkað á því rúma ári sem ríkisstjórnin hefur starfað. Við getum svarað ómálefnalegri gagnrýni með skýrum rökum. Við erum stolt af okkar verkum og höldum ótrauð áfram. Gerum enn betur!

Steinar Harðarsson, formaður Vinstri grænna í Reykjavík

Nýtum tækifærin með samstöðu

 

Við minntumst hundrað ára afmælis Íslands sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis á árinu sem var að líða. Saga fullveldisins er þroskasaga samfélags þar sem innviðir byggðust upp í stökkum. Ísland umbreyttist úr hefðbundnu bændasamfélagi í þroskað nútímasamfélag í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Eins tóku Íslendingar stökkið frá því að vera hefðbundið veiðimannasamfélag sem fiskaði á meðan fisk var að fá og eyddi öllum skógum í landinu leifturhratt yfir í að vera samfélag sem æ meir byggir á hugviti, vísindum og rannsóknum og þar sem grundvöllur lífsgæðanna er að stýra auðlindum í sátt við umhverfi og samfélag.

Íslenskt samfélag stendur á ákveðnum tímamótum þegar kemur að uppbyggingu efnahagslífs og er að sumu leyti fyrirmynd á alþjóðavísu. Þegar kemur að mælikvörðum sem mæla hagsæld skipar Ísland sér yfirleitt í fremstu röð þjóða; hvort sem sjónum er beint að lýðheilsu, friði, aðgengi að menntun, þátttöku kvenna á atvinnumarkaði, umhverfisgæðum, aðgengi að fjarskiptum, tekjujöfnuði og fleiri þáttum sem snúa að jafnvægi efnahags, samfélags og umhverfis.

Okkar góða staða breytir því ekki að áskoranir íslensks samfélags á nýrri öld eru miklar. Fyrstu aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingar af manna völdum voru kynntar í loftslagsáætlun stjórnvalda í haust. Orkuskipti í samgöngum og aukin kolefnisbinding með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis eru megináherslurnar í þessari fyrstu loftslagsáætlun stjórnvalda.

Tæknibreytingar eru einnig risavaxin áskorun þar sem við stöndum frammi fyrir gerbreytingum á vinnumarkaði, menntakerfi, samfélagi og stjórnmálum. Stjórnvöld fólu sérfræðingahópi að vinna greiningu á þessum áskorunum en sú greining verður kynnt snemma á nýju ári. Í framhaldinu verður ráðist í vinnu á vegum Vísinda- og tækniráðs, framtíðarnefndar Alþingis og með aðilum vinnumarkaðarins til að íslenskt samfélag verði sem best undirbúið fyrir nýjan veruleika.

Það felast líka miklar áskoranir og tækifæri í því  að skapa varanlega sátt á vinnumarkaði. Þannig hafa stjórnvöld til að mynda sjaldan átt jafn reglulegt samráð með aðilum vinnumarkaðarins sem hefur nú þegar skilað raunverulegum breytingum. Áhersla verkalýðshreyfingarinnar á öflugra barnabótakerfi hefur skilað sér í því að á nýju ári munu ríflega 2200 fleiri einstaklingar njóta barnabóta en gerðu á síðasta ári og barnabætur hækka þannig að tekjulágt einstætt foreldri fær sem dæmi rúmlega hundrað þúsund krónum meira í barnabætur á næsta ári. Þá hefur virk barátta verkalýðshreyfingarinnar leitt af sér sterkari ábyrgðarsjóð launa og atvinnuleysistryggingasjóð og breytt launafyrirkomulag æðstu embættismanna. Þá hefur samtal stjórnvalda og atvinnurekenda skilað sér í lækkun tryggingagjalds sem gagnast ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Við eigum að halda áfram að byggja upp öflugt velferðarsamfélag og atvinnulíf í sátt við umhverfið. Við eigum að vinna áfram saman að samfélagslegum umbótum sem miða að því að bæta lífskjör allra landsmanna en þó mest þeirra sem lakast standa. Það gerist þó aðeins ef við erum reiðubúin að berjast fyrir okkar málum en líka að tala saman, miðla málum og ná þannig raunverulegum árangri. Við höfum öll tækifæri til  þess á nýju ári með hækkandi sól.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst í Mannlífi. 

,

Áramótaávarp forsætisráðherra 2018

Kæru landsmenn!

Ég átti því láni að fagna í sumar að heimsækja slóðir Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Það Ísland sem ég geymdi í hjarta mínu eftir þessa heimsókn reyndist mun stærra en það sem ég hafði áður þekkt. Þarna leynist stór hluti sögu okkar, stór hluti af Íslandi.

Og tilfinningin fyrir þau sem þangað fóru undir lok 19. aldar. Að koma að ströndum ókunnugs lands þar sem slétturnar teygja sig svo langt sem augað eygir. Þar sem ýmist var kaldara eða heitara en á Íslandi, flugurnar stærri, farsóttirnar öðruvísi, tungumálið framandi. En aldrei gleymdu þau rótunum heima á Íslandi.

Ekki var alltaf talað af virðingu um „fólkið sem fór“ eins og það var kallað. En þetta var þeirra val; það var jafn mikilvægt og val hinna sem ekki fóru. Fólkið sem fór á jafn mikla virðingu skilda og það sem eftir varð. Eitt af mikilvægustu verkefnum komandi ára er að vinna gegn eyðandi lítilsvirðingu gagnvart þeim sem eru skilgreindir öðruvísi og annars konar. Við eigum að taka undir einarða baráttu fólks sem hefur mátt þola margs konar lítilsvirðingu og neitar að þola hana lengur.

Hinir miklu þjóðflutningar vestur um haf minna okkur einnig á hve erfitt gat verið að búa á Íslandi á 19. öld. Þeir minna á þá sáru fátækt sem ríkti hjá mörgum og hversu smá þjóðin gat oft virst gagnvart óblíðri náttúrunni. Þessir flutningar urðu í aðdraganda þess að Íslendingar urðu frjáls og fullvalda þjóð. Vestur-Íslendingar byggðu nýtt samfélag vestan hafs og hér byggðum við samfélagið sem við eigum nú saman á Íslandi.

Fullveldissagan er saga framfara, raunar er allt svo gjörbreytt að stundum er eins og 19. öldin hafi aldrei verið. En íslenska samfélagið hefur þó aldrei aðeins snúist um efnahagslega velferð eingöngu heldur almenna velferð og jöfnuð. Ísland trónir nú á toppi ýmissa þeirra lista sem mæla hagsæld og velferð. Samfélagið hefur breyst, uppruni landsmanna er nú fjölbreyttari en árið 1918 og þeir eiga ólíka sögu og bakgrunn. Það er ekki nokkur vafi á því að fullveldið hefur verið aflgjafi til að ná öllum þessum árangri.

Ágætu landsmenn

Á örfáum árum hefur ferðaþjónusta orðið stærsta útflutningsgrein Íslendinga. Sjávarútvegur sem áður gnæfði yfir aðrar atvinnugreinar í útflutningstekjum og stóriðja koma þar á eftir. Sviptingar seinustu mánaða í flugrekstri sýna hins vegar glöggt að veður geta skipast skjótt í lofti og minna okkur á að fyrir lítið hagkerfi eins og hið íslenska skiptir öllu að byggja á fjölbreyttum stoðum. Hið mikla álag þessarar nýju útflutningsgreinar á innviði og náttúru minnir líka á að hröð uppbygging ferðaþjónustu er vandaverk sem krefst virðingar fyrir náttúru og samfélagi. Hingað kemur fólk til að berja einstaka náttúru augum. Hluti af sjálfbærri ferðaþjónustu er að vernda þessa sömu náttúru fyrir utan þá skyldu sem á okkur hvílir að vernda náttúruna og víðernin þeirra fyrir komandi kynslóðir.

Vegna þess að sala náttúruauðlinda er og verður hverful atvinnugrein hefur aldrei verið mikilvægara að við Íslendingar horfum til hugvits og nýsköpunar til lengri tíma. Þráin til að komast lengra og vita meira, þekkingarleit þekkingarinnar vegna er ein mikilvægasta undirstaða framfara. Við eigum að leggja rækt við umhverfi þekkingarleitarinnar, halda áfram að byggja upp menntun og rannsóknir, við eigum að taka völdin í tæknibyltingunni og styrkja innviði þannig að fólk geti skapað sín eigin tækifæri á ólíkum sviðum. Stjórnvöld munu áfram leggja sérstaka áherslu á menntun, rannsóknir og nýsköpun, meðal annars með nýjum Þjóðarsjóði. Við lifum þá tíma að öllu skiptir að svið horfum til lengri tíma en ekki einungis umræðna augnabliksins og líðandi stundar.

Loftslagsbreytingar eru ein þeirra samfélagslegu áskorana sem við munum þurfa að takast á við. Stjórnvöld kynntu sína fyrstu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í haust í Austurbæjarskóla sem var fyrsta byggingin sem tengdist hitaveitu 1930. Lykiláherslur aðgerðaáætlunarinnar eru orkuskipti í samgöngum og aukin kolefnisbinding með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Orkuskipti í samgöngum munu geta haft sömu áhrif og hitaveitan hafði; bæði í þágu umhverfis og til að bæta lífskjör okkar allra.

Áhrif loftslagsbreytinga á hafið mun skipta sérstöku máli fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð, ekki síst súrnun sjávar sem þarf að vinna gegn með öllum ráðum. Mun fleiri áskoranir blasa við tengdar loftslagsmálum; það þarf að móta nýja framtíðarsýn um matvælaframleiðslu og tæknibreytingar í öllum geirum samfélagsins þarf að nýta til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Góðir landsmenn

Upp úr áramótum blasir það vandasama verk við samtökum atvinnurekenda og launafólks að ná samningum á vinnumarkaði sem stuðla að bættum kjörum og tryggja hagsæld og velferð. Verkalýðshreyfingin hefur talað fyrir ýmsum félagslegum umbótum eins og hún hefur ávallt gert en hún hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag alla fullveldissöguna. Réttindi hafa batnað stórkostlega, velferðarkerfi hefur verið byggt upp, heilbrigðiskerfið tekið stakkaskiptum og almenn menntun tekið stórstígum framförum. Um leið eru risastór viðfangsefni framundan; að draga úr kostnaði sjúklinga, byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi, lengja fæðingarorlof og endurskoða skatt- og bótakerfi til að tryggja tekjulægri hópum bætt lífskjör.

Þó að samningar á almennum markaði séu á milli samtaka launafólks og atvinnurekenda munu stjórnvöld leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir kjarasamningum. Þar hefur þegar hefur verið ráðist í ýmsar umbætur fyrir almenning í landinu með uppbyggingu samfélagslegra innviða.

Unnið er að heilbrigðisstefnu til lengri tíma en nú þegar hefur verið sett í forgang að draga úr kostnaði þeirra sem þurfa að leita sér lækninga. Þar hefur sérstök áhersla verið lögð á að draga úr kostnaði aldraðra og öryrkja. Unnið er að kerfisbreytingum sem bæta kjör örorkulífeyrisþega og koma sérstaklega til móts við hina tekjulægstu í hópi eldri borgara.

Á árinu sem er að líða hef ég átt frumkvæði að því að halda reglulega samráðsfundi aðila vinnumarkaðarins. Ég er sannfærð um að það hafi skipt miklu máli fyrir okkur öll að koma saman á slíkum fundum, fundum sem eru ekki samningafundir heldur vettvangur til að viðra ólíkar skoðanir og leita sameiginlegra leiða. Við verðum öll að nálgast viðfangsefnið af virðingu fyrir þeirri ábyrgð sem við berum en í komandi kjarasamningum felst tækifæri til að stíga nauðsynleg skref að því sameiginlega markmiði að halda áfram að bæta lífskjör alls almennings í samfélagi okkar.

Ríkisstjórnin mun þar leggja sitt af mörkum til þess að tryggja kjarabætur fyrir almenning. Nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í húsnæðismálum til að tryggja nægjanlegt framboð af góðu húsnæði á viðunandi verði. Þá eru allir aðilar sammála um að breyta þurfi tekjuskattskerfinu til að koma sérstaklega til móts við lægri og millitekjuhópa.

Kæru landsmenn

Ísland tók sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á árinu og mun sitja þar til loka árs 2019. Meðal áherslumála Íslands eru jafnrétti kynjanna, réttindi hinsegin fólks og réttindi barna. Þegar kemur að jafnrétti kynjanna fagnar Ísland góðum árangri á alþjóðavísu, árangri sem ekki síst náðist vegna baráttu kvennahreyfingarinnar þar sem konur ruddu brautina, oft við litlar vinsældir, en með ótrúlegum árangri. Þar megum við hins vegar ekki slaka á, enda jafnrétti kynjanna hvergi nærri náð eins og við vitum öll. Þá eru stór verkefni framundan við að bæta réttindi hinsegin fólks þar sem Ísland hefur alla burði til að skipa sér í fremstu röð.

Í ár eru 70 ár liðin síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt þar sem sú grundvallarákvörðun var tekin að mannréttindi væru algild. Ef til vill væri flóknara að ná saman um slíka yfirlýsingu í nútímanum – í öllu falli var þetta mikið afrek og sjálfsagt stærsta skrefið sem stigið var á seinustu öld til að efla virðingu manna hvers fyrir öðrum og vinna gegn hatri og tortryggni. Það eru þó blikur á lofti í heimsmálum, meðal annars vegna loftslagsbreytinga og átaka. Nýjar áskoranir á alþjóðasviðinu krefjast þess að við stöndum styrkari vörð um mannréttindi en nokkru sinni fyrr í anda Mannréttindayfirlýsingarinnar.

Góðir landsmenn

Í bók sinni Bókasafn föður míns sem kom út nú fyrir jólin spáir Ragnar Helgi Ólafsson því að lestur langra texta verði varla hversdagsíþrótt í framtíðinni. „Líklega verði slík iðja skilgreind sem einhvers konar sérfræðihæfni eða sniðugt hobbí, svona eins og að kunna að slá tún með orfi og ljá,“ segir hann. Þetta er umhugsunarefni, hvort tæknin og breytt miðlun upplýsinga, listar og afþreyingar sé að breyta okkur, hvernig við horfum, hvernig við lesum, hvernig við upplifum, hvernig við erum.

Bókaútgáfa hefur dregist verulega saman undanfarin tíu ár og það er meðal annars ástæða þess að nú fyrir jól samþykkti Alþingi sérstakt stuðningskerfi við hana. Það er undirstaða þess að við höldum áfram að nota íslensku að við getum hugsað um allt á íslensku. Og skáldskapur og önnur skrif eru birtingarmynd þess sem við hugsum. En alveg eins og frumkvöðlar tókust á við ný form skáldsögunnar á sínum tíma þarf skapandi fólk að takast á við ný form tölvuleikja og snjallforrita á íslensku og við þurfum að gera vel við skapandi fólk, hvort sem það fæst við hefðbundna eða óhefðbundna listsköpun.

Góðir landsmenn

Eins og ég nefndi í upphafi er það merkilegt að heimsækja slóðir Vestur-Íslendinga. Í Þingvallakirkjugarði í Norður-Dakóta bera flestir legsteinar íslensk nöfn. Þau sem þangað fóru, tóku með sér mikið ríkidæmi sem var menningin og samfélagsgerðin. Legsteinarnir minna okkur á að hvert og eitt eigum við stuttan tíma hér á þessari jörð en saman myndum við menningu og samfélag sem hefur langtum meiri áhrif en hvert og eitt okkar getur haft.

Um leið getur hver og einn haft áþreifanleg áhrif. Það sést þegar á bjátar, slys henda eða náttúruhamfarir verða, og við erum minnt á hversu mörg eru reiðubúin til að sinna því mikilvæga hlutverki að koma öðrum til bjargar. Það er einstakt að eiga þúsundir sjálfboðaliða sem eru reiðubúnir nótt og dag til að bregðast við og hjálpa öðrum þegar eitthvað gerist. Hver og einn getur gert sitt.

Á árinu hitti ég lækni frá Kongó, Denis Mukwege, sem hefur helgað líf sitt því að hjálpa konum sem hefur verið nauðgað og þær limlestar í stríðsátökum í Kongó. Fyrir þetta verk hlaut hann Friðarverðlaun Nóbels. Það er svona fólk, fólk sem lætur sig varða um mennskuna og hag annarra, sem er ekki aðeins dýrmætasta eign hvers samfélags heldur heimsins alls.

Við verðum ekki öll friðarverðlaunahafar Nóbels en við, sem eigum því láni að fagna að búa í einu friðsælasta landi heims, getum öll lagt okkar af mörkum, munað hvert eftir öðru, hlúð hvert að öðru og lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að gera samfélagið aðeins betra; heiminn aðeins fallegri.

Kæru landsmenn. Gleðilegt ár.