Kosið út af yfirhylmingu og þöggun

Það eru óvenju­legir tím­ar. Ekki bara vegna þess að rík­is­stjórn leidd af Sjálf­stæð­is­flokki sprakk í enn eitt skipt­ið. Það er orðið að venju í íslensku sam­fé­lagi að rík­is­stjórnir sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er í for­svari fyrir eða sitji í, springi og skapi reglu­lega þá óreiðu og glund­roða sem for­manni Sjálf­stæð­is­flokks­ins er nú tíð­rætt um og ótt­ast hvað mest.

Nei, tím­arnir eru óvenju­legir vegna þess að efna­hags­legar ástæður eru ekki ástæða þess núna að rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks heldur ekki velli, heldur er ástæðan þær fem­inísku bar­áttu­bylgjur gegn kynja­of­beldi og kyn­ferð­is­af­brotum gegn börnum sem hafa gengið yfir íslenskt sam­fé­lag und­an­farin miss­eri sem hafa nú sprengt rík­is­stjórn. Sem hafa riðlað hinu marg­um­tal­aða feðra­veldi. Orð­inu sem svo margir hata.

Leyndarhyggjan hefur verið skoruð á hólm og sam­trygg­ingin í sam­fé­lag­inu hefur opin­berað sitt rétta and­lit. Sam­trygg­ingin spyr ekki um stétt né stöðu; af gögn­unum um upp­reist æru sést að lög­reglu­menn í áhrifa­stöðum mæla með dæmdum nauðgurum og hæsta­rétt­ar­lög­menn og áhrifa­menn í íslensku við­skipta­lífi síð­ustu ára­tug­ina standa þétt með barn­a­níð­ing­um. Þessir karlar taka sér stöðu með þeim sem frömdu glæpina, en láta þján­ingu fórn­ar­lambanna liggja á milli hluta.

Þolendur kyn­ferð­is­af­brota og hrylli­legs barn­a­níðs hafa sýnt ótrú­legt hug­rekki og þraut­seigju. Neitað að gef­ast upp fyrir þöggun og leynd, hafa haldið áfram að krefj­ast upp­lýs­inga og þess að hlustað sé á þau á æðstu stöðum íslensks stjórn­ar­kerf­is. Fyrir ólýs­an­legt hug­rekki og magn­aða þraut­seigju þolenda nú og áður, ber að þakka. Marg­falt.

Án þolenda sem sögðu hingað og ekki lengra, án fjöl­miðla sem gáfust ekki upp þó svo að dyrum upp­lýs­inga væri lokað á þá og án fem­inískrar bar­áttu sem virð­ist á svo und­ur­sam­legan hátt ganga í end­ur­nýjun lífs­daga með hverri kyn­slóð, væri íslenskt sam­fé­lag mun verra en það er.

Við sem sitjum á Alþingi verðum að hlusta á þolendur og taka undir með bar­áttu­fólki fyrir útrým­ingu kyn­ferð­is­of­beld­is. Við verðum að virða þessa bar­áttu og halda áfram að leggja okkur öll fram um að breyta íslensku sam­fé­lagi með þeim ráðum sem við höf­um. Annað er óboð­legt.

Það er ekki í boði að segja að hér sé um lítil mál að ræða líkt og ein­staka ráð­herrar og þing­menn Sjálf­stæð­is­flokks­ins hafa því miður sagt opin­ber­lega. Það er ekki í boði að smætta kyn­ferð­is­af­brot eða gera þar með lítið úr nauðg­un­ar­menn­ingu. Og það er aldrei í boði að standa ekki með börnum sem þurfa að ganga í gegnum hel­víti þegar kemur að kyn­ferð­is­af­brotum gegn þeim.

Sýnum sam­hug og virð­ingu fyrir þolend­um. Berj­umst öll gegn yfir­hylm­ingu og þögg­un. Líka á hinu póli­tíska sviði.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir er þing­maður VG í Suð­vest­ur­kjör­dæmi. Greinin birtist fyrst á Kjarnanum. 

Uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn

Enn á ný göngum við að kjörborðinu til að velja þá stefnu sem við teljum að best henti samfélaginu okkar og það fólk sem við viljum að fari fyrir henni. Við Vinstri græn teljum að stjórnmálaflokkar eigi að hafa sömu stefnu eftir kosningar og fyrir. Þannig lögðum við fram tillögur til breytinga á fjárlögum í desember sem miðuðu að því að bæta hag venjulegs fólks með aukinni samneyslu í samræmi við þau loforð sem stjórnmálaflokkar gáfu kjósendum fyrir síðustu kosningar. Þær voru því miður felldar. Okkur gefst nú einstakt tækifæri til að sýna í verki hver skoðun okkar er á stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur meira eða minna haldið um valdataumana síðustu áratugi og skapað þá menningu samtryggingar og leyndarhyggju sem við getum nú gengið á hólm við. Og þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer nú að tala um stöðugleika og nauðsyn þess að hafa styrka forystu, vil ég biðja ykkur að hafa í huga að síðustu þrjár ríkisstjórnir sem hann hefur átt aðild að hafa hrökklast frá völdum.

Komandi kosningar gefa okkur tækifæri til að sýna í verki að við viljum að samfélaginu sé stýrt á samfélagslegum forsendum. Við viljum útrýma fátækt, bæta hag þeirra sem verst standa, auka samneysluna og opna stjórnsýsluna. Við viljum samfélag jöfnuðar, þar sem hagur fólks er hærra metinn en tölur í excel-skjali.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um hver er stefna fráfarandi stjórnarflokka, hún birtist í nýframlögðum fjárlögum og áður samþykktum fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð vilja minnka hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu sem mun bitna á þeirri grunnþjónustu sem venjulegt fólk reiðir sig á. Sem betur fer sprakk stjórnin áður en hún náði fjárlagafrumvarpinu í gegn.

Besta leiðin til að tryggja nýja stjórnarhætti þar sem hagsmunir venjulegs fólks eru í fyrirrúmi er að kjósa flokk sem berst fyrir félagshyggju. Við í Vinstri grænum höfum sýnt það í verki að það gerum við. Tryggjum flokknum góða kosningu og undirbúum jarðveginn fyrir félagshyggjustjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.
 
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.

Af hverju þurfum við að kjósa núna?

Ég held að það sé mik­il­vægt að við spyrjum okk­ur: Af hverju kjósum við núna? Ástandið er ekki eðli­legt og að sjálf­sögðu á ekki að þurfa að kjósa hér árlega á þing.

Ástæða þess að við kjósum nú, er ein­fald­lega að enn einu sinni er fólki nóg boð­ið. Enn einu sinni fær fólk nóg af því hvernig vald­inu er beitt hér á landi og hvernig þeir sem eiga, þykj­ast allt mega. Þannig sýn­ist mér best að það sem við gerum upp í þessum kosn­ing­um, og ræðum í aðdrag­anda þeirra, er nákvæm­lega hvernig stjórn­ar­hætti við vilj­um.

Í umræðu­þáttum og fréttum er spurt hvaða mál eigi nú að ræða í aðdrag­anda kosn­inga. Hvað varðar stóru málin sem brenna á fólki og snúa að vel­ferð, mennt­un, sam­göngum og byggða­málum þá blasir alveg við fyrir hvað Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Við­reisn og Björt fram­tíð standa. Rétt áður en stjórnin féll var lagt fram fjár­laga­frum­varp frá­far­andi rík­is­stjórnar og þar má glögg­lega lesa hvernig þessir flokkar for­gangs­raða fjár­munum og alger óþarfi að hlusta á ein­hvern fag­ur­gala í kosn­inga­bar­áttu. Sam­an­tekið birt­ist þar áhersla á að skapa kunn­ug­legt „svig­rúm til einka­rekst­urs“ á öllum svið­um, með því að svelta allt sem til­heyrir hinu opin­bera kerfi (lítið dæmi hér). Þar hefur fólk ein­fald­lega val og þorri lands­manna virð­ist vilja öfugri vel­ferð en þessir flokkar vilja bjóða.

Hins­vegar til að forð­ast það að kosn­ingar verði árlegur við­burður í kjöl­far berja­tínslu, þá þarf að gera upp við Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Það þarf að gera upp við hvernig þeir beita valdi sínu leynt og ljóst. Það þarf að gera upp við hefð sam­trygg­ing­ar, yfir­gangs og hroka. Það þarf að gefa Sjálf­stæð­is­flokknum frí frá völdum í alla­vega tvo heil kjör­tíma­bil, eitt er ljós­lega ekki nóg. Með því að gefa sam­fé­lag­inu og stofn­unum okkar and­rými í nokkur ár, án kæf­andi yfir­gangs Sjálf­stæð­is­flokks­ins, þá fáum við heil­brigð­ara sam­fé­lag. Ég virði skoð­anir þeirra sem eru á hægri væng stjórn­mála, þó ég sé þeim ósam­mála, en þetta snýst ekk­ert um það. Þetta snýst um að losa okkur við valda­stofnun sem ítrekað hefur mis­beitt valdi sínu og er svo kyrfi­lega vafin í allt sem miður fer í okkar sam­fé­lagi. Þetta veit ég að Sjálf­stæð­is­menn með sjálfs­virð­ingu skilja, en nú þarf að sýna það í verki.

Höf­undur er vara­bæj­ar­full­trúi VG á Akur­eyri. Greinin birtist fyrst í Kjarnanum. 

Kallar passa kalla

Í hvirf­il­vind­inum sem gustað hefur um íslensk stjórn­mál síð­ustu daga hefur birst glögg­lega kunn­ug­legt ferli. Atburða­rás sem á sér hlið­stæður í nokkrum síð­ustu upp­á­komum íslenskra stjórn­mála. Þarna er rauður þráður (eða raunar kannski blár frekar):

Þetta byrjar oft­ast með (a) bommert­unni. Lög­broti, sið­leysi, vand­ræða­gangi eða mis­stigi af ein­hverri vondri gerð. Svo sem pen­ingum í skatta­skjól­um, geð­þótta­ráðn­ingum dóm­ara, upp­gripum á auð­lind­um, áskrift að almanna­fé, félags­skap við vonda gaura o.s.frv. Næst byrjar jafnan (b) leyni­makkið. Reynt að drepa á dreif og halda málum í þoku með til­tækum ráð­um. T.d. véfengja rétt fjöl­miðla til að sækja opin­ber gögn eða stilla mál­pípur sínar á háværa þögn. Þá fer gjarnan af stað (c) ræg­ing­ar­her­ferðin sem oft er gegn ein­stak­lingum sem tjá sig, hópum sem stíga fram eða óvina-­stjórn­mála­flokk­um. Síð­ast en ekki síst fjöl­miðlum eða stökum fjöl­miðla­mönn­um. Að lokum fer svo fram (d) hvít­þvott­ur­inn. Hann byggir jafnan á stýrðri og fal­legri fram­komu snyrti­legs for­svars­manns sem mis­býður ábyrgð­ar­leysi hins versn­andi heims. Yfir­leitt með vel leik­stýrðri blöndu af alvöru­þunga og yfir­keyrðri ein­lægni. Smjör­klíp­unni er oft­ast beitt á þessu stigi í end­ann til stuðn­ings.

Við þekkjum öll þessa atburða­rás og getum séð fyrir okkur ein­stök mál og leik­end­ur, hvort sem við við­ur­kennum það eða ekki. Og það er grafal­var­legur und­ir­tónn á bak við hana. Þetta er birt­ing­ar­mynd þess hvernig valda­stéttin í land­inu ver stöðu sína. Gegnum súrt og sætt. Ætt­ir, auð­linda­haf­ar, auð­fólk, fyr­ir­tæki eða hags­muna­hóp­ar. Passað að hver verði á sínum stað. Haldi sínu. Þetta eru kall­arnir sem passa upp á kall­ana sína.

Við þessu er raun­veru­lega ekk­ert að gera. Nema kannski eitt: hætta að kjósa þessi öfl til valda.

Óli Halldórsson,

Höf­undur er sveit­ar­stjórn­ar­maður fyrir Vinstri græn og greinin birtist fyrst í Kjarnanum. 

Stjórnarliðar, ábyrgðin er ykkar

Það hefur um margt verið sérkennilegt að fylgjast með stjórnmálum, þessi misserin, hvað þá að taka þátt í þeim. Sumir virðast telja að hlutverk Alþingis, og okkar sem þar sitjum, sé fyrst og fremst að vera einhver afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn og agnúast jafnvel út í miklar umræður. Þetta er sérkennilegt viðhorf, því staðreyndin er sú að við þingmenn höfum mikið færi á að hafa áhrif. Það á enn frekar við um þingmenn stjórnarflokkanna.

Í gær hlýddum við á umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Ekki var annað á stjórnarliðum að skilja en hér væri nú bara allt frekar svona í lukkunnar velstandi, helst að þyrfti að laga eitthvað smávegis til hér og þar svo allt passaði betur í þann ramma sem stjórnarflokkarnir hafa reist utan um það samfélag sem þeir vilja sjá. En er það svo? Ég ætla að leyfa mér að svara þeirri spurningu neitandi.

Samfélagssýn stjórnmálaflokka og -fólks birtist best í fjárlögum, eins óspennandi og þau geta virst við fyrstu sýn. Fjárlög ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar bera það með sér að samneyslan er þessum flokkum ekki efst í huga. Hún mun enda dragast saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á kjörtímabili samkvæmt samþykktum stjórnarflokkanna.

Á meðan býr æ stærri hluti þjóðarinnar við kjör sem enginn ætti að þurfa að búa við. Aldraðir, öryrkjar, láglaunafólk; þetta eru ekki fjárlög þessara hópa. Menntakerfið sem allir vildu styrkja fyrir kosningar, að ég tali nú ekki um heilbrigðiskerfið; í fjárlögum birtist sveltistefna hægri stjórnarinnar glöggt.

Á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns er hver einasti öryrki sem ekki nær endum saman, eldri borgarar sem skrimta, fólk sem lifir á lúsarlaunum; það er á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns að áherslan er ekki lögð á þessa hópa. Og þannig er viðhaldið því ástandi sem lýðskrumarar nýta sér til að ala á útlendingaandúð undir merkjum þess að berjast gegn fátækt. Það er líka á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns.
 
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna
Greinin birtist fyrst á Vísi

Hættum að vera meðvirk með rasisma

Við lifum á hættu­legum tím­um. Tímum þar sem stað­reyndir skipta æ minna máli, tölur eru kokk­aðar upp til að gefa mál­flutn­ingnum vægi, andúð í garð útlend­inga er falin undir samúð með fátæku fólki og spilað er á ótta og örygg­is­leysi. Ísland er ekk­ert öðru­vísi en önnur lönd og það er raun­veru­leg hætta á því að hér muni grass­era útlend­inga­andúð ef við stígum ekki fæti niður og að hún öðlist lög­mæti í stjórn­mál­um.

Ég á afskap­lega erfitt með að sýna fólki annað en hlýju og skiln­ing. Ég brosi þegar ég heilsa, faðma jafn­vel (und­an­farið hef ég tekið upp á því að smella kossi á fólk um leið og ég faðma, fólk sem ég þekki kannski lít­il­lega, ekki veit ég af hverju) og spjalla kurt­eis­lega, sýni áhuga. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað þetta er. Er þetta þrá eftir við­ur­kenn­ingu, að fólki líki við mig? Óör­yggi? Það eru ekki beint hvatir sem ég tengi við mig, en ég er kannski ekki besti dóm­ar­inn um það.

Ég finn það hins vegar að þol­in­mæði mín gagn­vart fólki sem talar gegn hæl­is­leit­endum og flótta­fólki er á þrot­um. Að ég tali nú ekki um fólk sem hyggst bjóða fram í kosn­ingum með slíkt í fartesk­inu. Þetta upp­lifði ég sterkt á Fundi fólks­ins á Akur­eyri um helg­ina. Þannig hátt­aði til að Vinstri græn voru með kynn­ing­ar­bás við hlið Flokks fólks­ins. Og ég sat þar um hríð og spjall­aði við ein­hvern full­trúa hans. Sá var ósköp indæll í við­kynn­ingu, við ræddum um ljós­myndun og mynda­vélar og hann kapp­kost­aði við að gefa góð ráð. En ég fann að mig lang­aði ekki að spjalla um dag­inn og veg­inn við þennan mann. Mann sem reynir að vinna stór­hættu­legum skoð­unum fylgi.

Um helg­ina gerð­ist það einnig að fjöldi fólks mót­mælti því að tveimur land­lausum börnum skyldi vísað úr landi ásamt fjöl­skyld­um. Af því til­efni skrif­aði einn blogg­ar­inn, maður sem reglu­lega er vitnað til í rit­stjórn­ar­greinum Morg­un­blaðs­ins, um Íslend­ing­ana sem hefðu rústað öllu í sínu lífi með alkó­hól­isma og gjald­þroti og nærð­ust á því sem hann kallað hjart­næm­um, hönn­uðum sögum af flótta­fólki. Og þar sem ég er sjálf­hverfur tók ég þetta til mín, ver­andi alkó­hólisti sem hefur lagt inn gjald­þrota­beiðni, og ég skrif­aði um þetta á Face­book. Þar var ég spurður að því af hverju Alþing­is­maður væri að eyða tíma sínum í þetta og svar mitt var: „Af því að svona við­horf verða æ algeng­ari og vel getur farið svo að innan tíðar ein­kenni þau ein­hverja þing­menn. Ég sé ekki eftir þeim fimm mín­útum sem ég eyddi í þetta.“

Og nú ætla ég að eyða meira en fimm mín­útum í þetta, því að ég ótt­ast að við fljótum sof­andi að feigðar­ósi. Með því að hundsa þessi við­horf, láta eins og þau séu ekki til, þá leyfum við þeim að grass­era. Og með því að brosa og vera kurt­eis finnst mér ég á ein­hvern hátt við­ur­kenna við­horf­in, ýta undir þau. Þetta sé allt saman ein­hver leikur og við höfum mis­mun­andi leik­að­ferð­ir, en spilum öll sama leik­inn, við stjórn­mála­menn­irn­ir. En það er engin leik­að­ferð að ala á ótta og andúð gegn hæl­is­leit­endum og flótta­fólki. Það er bara mann­vonska.

Maður verður ekk­ert mann­úð­legri við að tala fyrir auknum fjár­munum til fátækra, ef maður á sama tíma vill skera niður kostnað við hæl­is­leit­endur og flótta­fólk. Mannúð er ekki val­kvæð; ef þú sýnir þessum hópi mannúð en ekki hin­um, þá áttu ekki að skreyta þig með því hug­taki.

Nú hef ég fengið nóg af þessu. Ég ætla ekki að kóa lengur með þessu, að láta eins og það sé bara í lagi að vera ras­isti. (Og nú mun upp­hefj­ast söngur um ósann­girni þess að tala um ras­isma. Við það fólk segi ég: Hættu að tala eins og ras­isti ef þú ert ekki ras­isti.) Það er ein­fald­lega komið miklu meira en nóg af því að það sé í lagi ljúga upp tölum um kostnað og aðbúnað hæl­is­leit­enda og flótta­fólks og tengja það fátækt á Íslandi. Af hverju tengir fólk þetta aldrei saman við kostnað við sendi­ráð, eða jarð­ganga­gerð eða hvað ann­að? Jú, af því að með því að tala um fátækt fólk tekst því að fá sam­úð, það bregð­ur sam­hygð­ar­blæju yfir útlend­inga­andúð sína. Nei, ég er sko ekki á móti útlend­ing­um, ég er með fátæku fólki.

Það á aldrei að ljúga, sér­stak­lega ekki póli­tík og sér­stak­lega ekki þegar jafn við­kvæm mál eru undir og hér er rætt um. Það er ekk­ert í lagi að full­yrða um að svo og svo stór hluti barna búi við fátækt ef það er ekki þannig. En þetta er taktík, ekki mis­tök. Af því að þegar það er leið­rétt fær maður strax á sig spurn­ing­una hvort manni finn­ist það bara allt í lagi að þau börn sem þó geri það búi við fátækt, þó þau séu færri en full­yrt var. Og allt í einu er maður sagður fylgj­andi því að fólk eigi ekki til hnífs og skeiðar og þurfi að gista í tjöldum í Laug­ar­dal, bara af því að maður vill að komið sé fram við flótta­fólk og hæl­is­leit­endur eins og fólk.

Það er þetta sem er hættu­leg­ast af öllu; að stilla þessu upp sem ein­hverjum and­stæð­um, fátækt og hæl­is­leit­endum og flótta­fólki. Það gerir tvennt; etur fólki saman ann­ars vegar og gefur útlend­inga­andúð rétt­mæti hins veg­ar. Hver vill ekki að eldri borg­arar búi við betri kjör, öryrkjar, þau lægst laun­uðu, að allir hafi þak yfir höf­uð­ið? (Reyndar virð­ast sumir stjórn­mála­flokkar ekki vilja það nóg til að setja fjár­muni í þessi mál, en það er önnur saga.) Og sé fólk nógu skel­eggt í bar­áttu sinni fyrir þessu getur það fengið fylgi út á það. En þá laum­ast útlend­inga­andúðin með. Og þannig hefur hún öðl­ast rétt­mæti, er orðin stefna stjórn­mála­flokks.

Við þurfum að taka höndum saman og afneita þess­ari stefnu. Stjórn­málin þurfa í heild sinni að segja nei, takk. (Sjá­ið, enn er kurt­eisin að plaga mig). Við höfnum þess­ari stefnu, vinnum ekki með fólki sem predikar hana. Og berj­ast með kjafti og klóm gegn öllum hug­myndum Flokks fólks­ins, eða hvers sem er, sem vinna gegn hæl­is­leit­endum og flótta­fólki, bera með sér útlend­inga­andúð. Það er á ábyrgð okkar allra.

Nú er komið nóg af kurt­eis­is­hjali. Það hafa allir rétt á að tala fyrir sínum skoð­unum og vinna þeim fylgi. En hættu­legum skoð­unum þarf að vinna gegn. Þá skiptir engu hvort við erum úthrópuð sem vit­leys­ing­ar, alkó­hólist­ar, fjár­mála­óreiðu­fólk, fífl og blá­eygir bján­ar. Það er aðeins fórn­ar­kostn­aður í bar­átt­unni fyrir betra mann­lífi.

Við þurfum að segja öllum sem tala fyrir þessum skoð­unum hvað okkur finnst um þær. Öll­um, bæði krútt­legum ömmum og öfum, sem og krúnurök­uðum flúr­menn­um. Frænkum og frænd­um, nágrönnum og þeim sem við skiptum við í dag­lega líf­inu.

En við þurfum líka stór­á­tak í því að bæta stöðu þeirra sem verst standa í sam­fé­lag­inu. Og þá allra, bæði þeirra sem dvalið hafa alla sína tíð á Íslandi og hinna sem eru nýkomn­ir. Aftengjum þann þátt hinnar vill­andi rök­semda­færslu með því að bæta hag þeirra sem verst standa. Og líka af því að það er rétt. Grunn­vand­inn er nefni­lega mis­skipt­ing auðs­ins og gæð­anna, ekki flótta­fólk og hæl­is­leit­end­ur.

En hvað sem því líður þurfum við að mót­mæla ras­is­ma, útlend­inga­andúð, aðför gegn hæl­is­leit­endum og flótta­fólki. Gerum það hátt. Látum þau sem þá skoðun hafa vita að okkur finn­ist það ekki í lagi. Að það setji niður fyrir okkur vegna þeirra. Tölum fyrir mannúð og ­sam­hygð til handa öll­um, en gegn mann­fjand­sam­legum skoð­un­um.

Við þurfum þjóð­ar­sátt gegn ras­is­ma, því ras­ismi er það.

Höf­undur er þing­maður Vinstri grænna. Greinin birtist í Kjarnanum. 

Samferða inn í nútímann

 

Fjölskyldur og fulltrúar stúlknanna sem Róbert Downey braut á hafa risið upp gegn úreltum lagabókstaf og fráleitri framkvæmd er varðar uppreist æru og endurheimt lögmannsréttinda með dómi. Alþingi hefur látið málið til sín taka, fyrst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og svo allsherjar- og menntamálanefnd. Á miðvikudaginn mætti Bergur Þór Ingólfsson, faðir eins þolanda Róberts, fyrir þingnefnd á opnum fundi, í beinni útsendingu og nú liggur fyrir að óhjákvæmilegt er að lögunum verður breytt og að þau verða færð til nútímans. Frumvarp ráðherrans hefur ekki sést enn en Alþingi mun taka það til umfjöllunar og ef marka má andann á fundunum á miðvikudaginn mun takast um það þverpólitísk sátt að bæta þessa löggjöf í þágu barna, í þágu brotaþola.

Vélræn framkvæmd án viðmiða
En það er ekki nóg að bæta löggjöfina því ljóst er að framkvæmdinni hefur verið verulega ábótavant. Í almennum hegningarlögum segir að forseti geti veitt mönnum uppreist æru ef formleg skilyrði séu uppfyllt og auk þess „færi umsækjandi sönnur, sem gildar séu metnar, á það, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma“. Framkvæmdin hefur síðan orðið sú að kallað hefur verið eftir umsögnum a.m.k. tveggja „valinkunnra manna“ – en um það segir ekkert í lögunum sjálfum. Engin svör hafa komið fram við því hvenær framkvæmdin varð svo vélræn og hvernig það gerðist. Svo virðist sem nóg sé að þessar umsagnir séu mjög almenns eðlis og feli í sér almennt orðalag um að viðkomandi sé „góður gaur“. Svo virðist einnig sem engin viðmið séu til í ráðuneytinu um það hvaða upplýsingar eigi að koma fram í umsögninni og hvaða efnisatriði teljist fullnægjandi. Ennfremur kom fram hjá ráðherranum að sjaldnast fari einu sinni fram könnun á því hvort það sem fram kemur í umsögnum standist skoðun – ráðuneytið líti einfaldlega á innkomin gögn sem sönn og rétt. Þannig er í raun farið fram hjá skýrri áherslu löggjafans því vandséð er að það samræmist laganna bókstaf þar sem kveðið er á um að umsækjandi færi sönnur á að hegðun hans hafi verið góð og að þær séu metnar gildar, væntanlega af ráðuneytinu og ráðherra sem ber stjórnskipulega ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem úr verður.

Vegum og metum
Á fundinum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á miðvikudag lagði ég á það áherslu að ráðuneytið yrði að fara í saumana á framkvæmdinni langt aftur í tímann, að minnsta kosti allt aftur til þess tíma þegar sérstök fullnustumatsnefnd fór með þessi mál og gerði tillögu til ráðherra. Nefndin fjallaði um beiðnir um reynslulausn, náðun og uppreist æru. Í grein sinni í Helgarpóstinum 1984 segir Jónatan Þórmundsson meðal annars, en hann var formaður nefndarinnar: „/. . ./ Skylt er að leggja allar umsóknir varðandi náðun, reynslulausn og uppreist æru fyrir nefndina, enda þótt ráðherra sé ekki bundinn af áliti nefndarinnar.“ Og síðar: „/. . ./ öllum meginreglum og framkvæmdarvenjum verður að beita af sanngirni, sveigjanleika og hófsemi vegna hinna ólíku atvika og einstaklingseinkenna, sem fram koma í málum fyrir nefndinni (heilsufar, heimilishagir, hegðun að undanförnu, skilorðsrof o.s.frv.). Árekstrar hljóta oft að verða á milli mismunandi sjónarmiða og ástæðna. Persónulegir hagir, sem í einu máli duga til náðunar, hrökkva kannski ekki til í öðru máli, er varðar mun alvarlegra brot. /. . ./ Sífellt þarf að vega og meta ólíka, matskennda og lítt mælanlega þætti, sem ekki fá samrýmst. Þá er engin formúla til, sem gefur öruggt svar við því, hvað sé rétt og hvað sé röng úrlausn. Þetta eru vandmeðfarin mál, enda fjallað um einhver helgustu verðmæti mannsins, sjálft frelsið.“ Af orðum Jónatans má skilja að á þeim tíma taldi nefndin mikilvægt að vega og meta af sanngirni og sveigjanleika og fráleitt að halda því fram að á þessum tíma hafi fullnustumatsnefndin nálgast þetta vandmeðfarna verkefni með vélrænum hætti.

Skilningsleysi
Að mínu mati hefur ráðuneytið misst sjónar á sínu hlutverki í því að framkvæma vilja löggjafans í þessu efni og verður að grafast fyrir um það hvernig og hvenær þessi breyting varð. Einnig og ekki síður er alvarlegt að ákveðins skilningsleysis gætir í því hvernig kynferðisbrot eru meðhöndluð í þessu tilliti og sérstaklega þau sem framin eru gagnvart börnum. Þessi brotaflokkur er óneitanlega afar sérstakur og um það hefur skapast bæði þekking og skilningur í samfélagsumræðunni ekki síst fyrir tilstilli grasrótarhópa og aktívista. Druslugangan hefur skipt miklu máli og femínísk barátta og aðgerðir um allt samfélag ekki síst á síðustu árum. Því miður er það af afar takmörkuðu leyti sem framkvæmd dómstóla, saksóknar og lögreglu endurspeglar þennan aukna skilning og er þar verulegra úrbóta þörf.

Í sátt við brotaþolann og samfélagið
Því miður ber ráðuneytið líka ábyrgð í því að skapa tortryggni í kringum málið með leyndarhyggju – að ekki sé minnst á formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fjallað hefur um málið í fjölmiðlum af léttúð og alvöruleysi. Slíkt sæmir ekki formanni eftirlitsnefndar þingsins. Aðrir þingmenn meirihlutans í nefndinni hljóta að vera hugsi yfir því að hafa lotið hans leiðsögn í þessu máli í ljósi þess hvernig umræðan hefur síðan þróast.

Sá einstaklingur sem hefur brotið af sér svo alvarlega að svívirðilegt teljist að almanna áliti hlýtur að þurfa að leita sátta við samfélagið og brotaþolann með heiðvirðum hætti, í dagsbirtu og af einlægni. Þessu er engan veginn fyrir að fara í máli Róberts Downey, hann hefur aldrei viðurkennt sín brot eða látið í ljósi iðrun af nokkru tagi.

Af þessum sökum hefur það verið viðrað með réttmætum hætti að réttara sé að Alþingi sjálft sammælist um nauðsynlegar lagabreytingar í frumvarpi frekar en að ráðuneytið sem hefur staðið fyrir óásættanlegri framkvæmd geri það sjálft. Nú hefur frumvarpið ekki enn litið dagsins ljós frá ráðherra en ástæða til að ætla að þar sé ekki öllum þáttum til haga haldið eins og til að mynda sérstöku ákvæði um að frysta framkvæmdina þar til lagabreytingin hefur gengið um garð en fulltrúi Vinstri grænna í allsherjar- og menntamálanefnd vakti máls á því. Einnig er óljóst hvort tillaga ráðherra muni tryggja að barnaníðingur geti ekki endurheimt lögmannsréttindi, sem hlýtur að vera grundvallarkrafa og niðurstaða Alþingis.

 

Bakkadalur?

Mikill meirihluti Íslendinga á sér rætur í sveitum og þorpum úti við sjó. Þar bjuggu afar og ömmur flestra, tveimur til fjórum kynslóðum á undan okkur. Þrátt fyrir samþjöppunina í stóra kjarna og á höfuðborgarsvæðið erum við enn að mestu háð náttúrunytjum. Í þær hefur bæst ný vídd. Við skynjum loksins að nytjarnar eru takmörkum háðar, verða að vera sjálfbærar og lúta umhverfisvernd. Verndin kemur samt ekki í veg fyrir að við röskum umhverfinu, breytum náttúrulegum aðstæðum á tilteknum svæðum og byggjum mannvirki. Nægir að nefna tún, vegi, hafnir, virkjanir og húsnæði. Þá gildir að fara fram með varkárni, nytja auðlindir með sjálfbærum hætti og dreifa álagi á þær og umhverfið sem mest. Samtímis verðum við að kljást við afleiðingar aldalangrar rányrkju. Hún stafaði oftast af fyrirhyggjuleysi og þekkingarskorti.

Innan þessa ramma stöndum við frammi fyrir byggðaþróun sem er í ósamræmi við samtímann. Ekki þó við sanngjarnar kröfur um góðar samgöngur, skilvirkt mennta- og heilsukerfi, traust innra samband og starfræna væðingu samfélagsins eða orkuöryggi. Nei, ósamræmið kemur fram í hrörnun byggðakjarna og sveitasamfélaga í flestum landshlutum. Í stað þess að tryggja góðar aðstæður alls staðar og skynja og viðurkenna að öflug landsbyggð er nauðsynleg, eru teknar ákvarðanir sem veikja samfélögin. Það gerist ýmist með því að kippt er atvinnugrunni undan fólki eða dregið er árum og áratugum saman að nútímavæða staði og svæði. Augljóst er að aflamarkskerfið hefur valdið miklu tjóni í þessum efnum og gallar í landbúnaðarkerfinu gera vexti til sveita víða erfitt fyrir. Sparnaður í vegamálum og hægagangur í lagningu þrífasa rafmagnstauga og tryggra orkutenginga, ásamt allt of seinkominni ljósleiðaralagningu, hafa valdið öfugþróun á mörgum svæðum. Samþjöppun í skóla- og heilbrigðismálum hefur víða gengið of langt.

Öflug landsbyggð er hvorki byrði á samfélaginu né í ósamræmi við framfarir í umhverfismálum. Þvert á móti. Ríkið jafnt sem fyrirtæki fjárfesta í bjartari framtíð með framlögum til innviða, fyrirtækja og þekkingarstarfa úti á landi. Það borgar sig að gera út á nálæg fiskimið, það borgar sig að nýta landkosti sem víðast, það borgar sig að nýta staðbundna þekkingu við nýsköpun og það borgar sig að gera fólki kleift að hafa ólíkar skoðanir á lífsgæðum og geta búið bæði dreift og þétt. Við þessa kosti bætist svo mál málanna: Vinnan gegn óæskilegum umhverfisbreytingum og hlýnun loftslagsins. Við náum þar árangri með því að bæta staðbundna þjónustu og verslun, minnka orkunotkun í samgöngum, útgerð og landbúnaði, laða fólk og nýsköpun til staða utan 4-5 stærstu bæja. Afmiðjun og meiri samneysla eru lykilorð. Um leið stuðlum við að fjölmenningu: Hún snýst ekki aðeins um menningu ólíkra þjóða. Fjölmenning felst líka í dreifðri búsetu og ólíkri reynslu fólks eftir landshlutum og störfum.

Þannig er komið nú til dags að við skulum horfa til Bakkafjarðar og Bíldudals, fordómalaust, vinsamlega og með framfarir í huga. Aðgerðir sem stuðla að fjölbreyttri atvinnu, mannvænlegu umhverfi og sjálfbærri þróun eiga að vera til umræðu og framkvæmda. Fjárhagsleg hagkvæmni er ekki eini mælikvarðinn á öflugt samfélag í Bakkadal.

Höfundur er þingmaður VG. 

Svarti Pétur og sáttin

Nefnd um gjald­töku í sjáv­ar­út­vegi hefur nú verið að störfum frá í vor undir stjórn Þor­steins Páls­son­ar. Flokkur Þor­steins og Þor­gerðar Katrínar Gunn­ars­dóttur sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra hefur í sínum mál­flutn­ingi lagt áherslu á kerf­is­breyt­ingar í sjáv­ar­út­vegi og hreina mark­aðs­leið, þ.e. að allur afli verði settur á markað og verðið ráð­ist af mark­aðnum hverju sinni.

Nú gefur það auga leið að þverpóli­tísk nefnd mun ekki ná nið­ur­stöðu um þá leið óbreytta og er þar afstaða Sjálf­stæð­is­flokks­ins t.a.m. mjög skýr. Í við­tali á dög­unum talar Har­aldur Bene­dikts­son fyrir því að lækka veiði­gjöld strax í haust en ekk­ert um að breyta kerf­inu. Þannig eru stóru átaka­lín­urnar inni í rík­is­stjórn­inni sjálfri og vand­séð að nefnd Þor­steins Páls­sonar geti stigið skref til breyt­inga. For­maður nefnd­ar­innar skrif­aði svo í sumar grein þar sem hann beindi spjótum að flokkum utan rík­is­stjórn­ar­innar og lét að því liggja að vand­inn lægi þar. Það er reyndar nýlunda að meiri­hlut­inn kenni minni­hlut­anum um það þegar meiri­hlut­inn getur ekki komið sér saman um stór mál. Ekki varð hjá því kom­ist að svara þess­ari grein Þor­steins enda var engu lík­ara en að for­mað­ur­inn væri að reyna að koma sök­inni fyr­ir­fram á aðra flokka á því sem fyr­ir­sjá­an­legt væri, eða því að starf nefnd­ar­innar myndi engu skila.

Aukin verð­mæti til þjóð­ar­innar

Eftir þessi greina­skrif hef ég haldið því til haga í nefnd­inni að rétt væri að for­maður hennar kæmi sjálfur fram með til­lögu sem hann teldi að gæti verið grund­völl nið­ur­stöðu. Það hefur enn ekki gerst en full­trúi Við­reisn­ar, Hanna Katrín Frið­riks­son, hefur lagt fram til­lögu þar sem ekk­ert er fjallað um þjóð­ar­eign á auð­lind­inni heldur byggt á þeirri nálgun að um verði að ræða samn­inga milli útgerð­ar­innar og rík­is­ins á einka­rétt­ar­legum grunni. Sjálf hef ég lagt á það áherslu að ekki verði undan því vik­ist í þess­ari vinnu að skera úr um skiln­ing okkar á eign­ar­hald­inu á auð­lind­inni og að festa þurfi auð­linda­á­kvæði í sessi í stjórn­ar­skrá.

Ráð­gjafi nefnd­ar­innar er hag­fræð­ing­ur­inn Daði Már Krist­ó­fers­son en hann er einnig í stjórn Við­reisn­ar. Nú ber svo við að í við­tali við Daða Má í Fiski­fréttum á dög­unum segir hann meðal ann­ars „veiði­gjöld verða aldrei neinn meiri­háttar tekju­stofn fyrir rík­ið“. Er þetta sem sé í annað skiptið sem full­trúar frá Við­reisn gera því skóna að ekki sé eftir miklu að slægj­ast í því að ná meiri verð­mætum til almenn­ings fyrir afnot af fisk­veiði­auð­lind­inni. Þessi sjón­ar­mið eru ekki létt­væg, þvert á móti því þau koma út úr nefnd­inni – sem átti að leita sátta í mál­inu. Vinnu­brögð for­manns­ins og starfs­manns­ins benda ekki til þess að þeir vilji sættir í þessu stóra hags­muna­máli þjóð­ar­inn­ar.

Það eru von­brigði að svo virð­ist sem starf­semi nefnd­ar­innar sé sjón­ar­spil, ­fyrir fram sé búið að ákveða að ekk­ert komi út úr henni. Vinnan snú­ist í raun um að tryggja að sökin liggi ann­ars staðar en hjá rík­is­stjórn­ar­flokk­unum sjálfum sem ekki hafa leitt þessi mál til lykta með nokkru móti frekar en önnur stór mál á borði rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Auðlinaákvæði í stjórnarskrá er nauðsyn

Áhersl­ur VG í sjáv­ar­út­vegs­málum snú­ast fyrst og síð­ast um að auð­lindin sé nýtt með sjálf­bærum hætti, sé í eigu þjóð­ar­innar og að um það sé fjallað í stjórn­ar­skrá. Einnig að umtals­vert svig­rúm sé til þess að aukið fé renni í rík­is­sjóð úr sam­eig­in­legri auð­lind. Loks að huga þurfi sér­stak­lega að byggða­sjón­ar­miðum við sam­setn­ingu kerf­is­ins til að verja byggð­irnar fyrir því að ákvarð­anir eins fyr­ir­tækis geti kippt stoð­unum undan sam­fé­lögum út um land á einni nóttu.

Til að hægt verði að ná sátt um næstu skref og ein­hvers konar nið­ur­stöðu þarf að taka til­lit til sjón­ar­miða fleiri en þeirra sem sitja við borð­send­ann. Að okkar mati er það frum­for­senda að gerð verði úrslita­til­raun til þess að ná sam­stöðu um auð­linda­á­kvæði í stjórn­ar­skrá þar sem kveðið er með skýrum hætti á um þjóð­ar­eign á auð­lind­un­um. Ann­ars verða kerf­is­breyt­ingar byggðar á sandi.

Höf­undur er þing­flokks­for­maður Vinstri grænna. Greinin birtist fyrst í Kjarnanum.