Um uppreist æru

Þegar menn ganga erinda fyrir þá sem gerst hafa sekir um hræðilegustu glæpi gagnvart varnarlausum, er þeim ekki endilega annt um brotamanninn. Og það er ekki endilega víst að þeim sem greiða götu brotamannsins sé illa við fórnarlömb hans. Fleira kemur til.
Góður kunningi minn úr grunnskóla átti talsvert safn af vínilplötum. Föður hans sem lagði stund á viðskipti og var athafnamaður með góð sambönd, fannst koma til álita að sonurinn seldi aðgengi að safninu og yrði sér úti um aur. Það varð til þess að kunningi minn byrjaði að halda skipulagða skrá um plötusafnið. Föður hans gekk gott eitt til og það sama má segja um kunningjann, hann er góður maður og hefur látið gott af sér leiða. Umrætt utanumhald kunningja míns varð til þess að aðgengi okkar hinna að plötusafninu varð betra og ýtti undir áhuga á að skoða málið nánar, og gott ef hann seldi ekki eina og eina vínilplötu til vel valinna og færði til bókar samkvæmt skránni góðu.
Umrætt rifjaðist upp fyrir greinarhöfundi þegar það bar til tíðinda fyrir skemmstu að dæmdur maður fékk uppreist æru. Margir vel mæltir og ráðsettir aðilar greiddu götuna varðandi fyrrgreint málefni, og gengu helst til vasklega fram að mati margra, sé tekið mið af umfangi og eðli brotanna, en það kann að vera á misskilningi byggt. Og ekki má gera lítið úr því að eiga afturkvæmt í þjóðfélagið að lokinni afplánun refsingar. Nokkur leynd hvílir yfir umræddu ferli enn sem komið er, sem er vissulega bagalegt. Greinarhöfundur telur víst að gamli kunninginn eigi ekkert sameiginlegt með þeim er í hlut átti, nema hvatann til að halda skrá um tiltekin atriði og auðvelda aðgengi sitt og yfirsýn um efnið.  Sumt er bersýnilega óþarft að halda skrá um. Í sumum tilfellum blasir við að hvatar skipulagðrar starfsemi og sölumennsku búa að baki skráningu upplýsinga og skuggahliðar sölumennskunnar geta tekið á sig óhugnalegar myndir. Plató sagði að gjaldið sem góðir menn greiða fyrir skeytingarleysi sitt sé að vera stjórnað af vondum mönnum, og það má til sanns vegar færa. Sameinumst til góðra verka og tökum höndum saman um að hafna spillingu í okkar þjóðfélagi. Hlúa þarf að þeim sem um sárt eiga að binda og víst er að margur þarf að bæta ráð sitt.
Gunnar Árnason, félagi í VG

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Rólegt sumar í ríkisstjórn

Samkvæmt vef stjórnarráðsins fundaði ríkisstjórn Íslands síðast þann 30. júní sl. þegar þetta er ritað hinn 10. ágúst. Sumarið hefur því sannarlega verið rólegt á þeim bænum, rúmir fjörutíu dagar liðnir frá síðasta fundi.
Sjálfsagt telja einhverjir þetta til marks um hvað allt sé nú í góðu gengi á landinu, engin vandamál eða aðkallandi verkefni sem takast þurfi á við. Bent hefur verið á, í öðru samhengi að vísu, að ríkisstjórnin sé svo að segja mynduð um ekki neitt og geti þar af leiðandi ekki slitnað á neinu. Taka má undir hvort tveggja að nokkru leyti en alls ekki öllu.
Er það raunverulega svo að ekki sé nein þörf á forustu um landsmálin? Eru engin þau viðfangsefni uppi sem kalla að minnsta kosti á að ríkisstjórn hittist og ræði málin?Hvað með að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óski eftir fundi í ríkisstjórn til að ræða grafalvarlega stöðu sem blasir við sauðfjárbændum í haust og þar með byggð á heilum landsvæðum?Hvað með að ráðherra ferðamála óski eftir fundi til að ræða löngu tímabæra stefnumótun í greininni?

Hvað með að ríkisstjórnin hittist til að ræða stefnu sína í peningamálum í stað þess að ráðherrar tali í austur og vestur?

Hvað með að ríkisstjórnin hittist og kynni sér vel siðareglur ráðherra og þingmanna?

Hvað með fund um fiskeldisáformin þar sem við blasir upplausnar- og ófremdarástand?

Svona mætti lengi áfram telja. Nú getur að vísu margt verra hent eitt land en að léleg ríkisstjórn geri lítið. Belgar grínast gjarnan með það að þeim hafi vegnað vel þetta rúma ár sem þeir voru alveg án ríkisstjórnar sökum stjórnmálkreppu eða pattstöðu. En að gamni slepptu þá gengur slíkt ekki upp nema þá í skamman tíma og sá tími er glataður til uppbyggilegra verka. Ríkisstjórn sem ekki fundar sendir með því skilaboð um sjálfa sig sem segja meira en mörg orð.

Steingrímur J. Sigfússon
Höfundur er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hættiði þessu rugli

Ég er blá­eygur og barna­legur bjáni. Maður sem hefur ekki opnað augun fyrir raun­veru­leik­an­um, heldur lifir í ein­hvers konar sápu­kúlu. Og gott ef ég er ekki á móti Íslend­ingum sem búa við skort, eru fátæk­ir. Allt þetta, og meira til, má lesa út úr þeirri orð­ræðu sem verður sífellt hávær­ari, nefni­lega að þau sem telja að Ísland eigi að leggja meira af mörkum til að aðstoða flótta­fólk og hæl­is­leit­endur séu á móti Íslend­ingum sem lifa við fátækt.

Þetta, kæri les­andi, er bull. Lýð­skrum. Ein af stærstu lygum sam­tím­ans ein­göngu sett fram til að spila á til­finn­ing­ar, bæði jákvæðar og nei­kvæð­ar. Jákvæðar til­finn­ingar um sam­hug gagn­vart löndum okkar sem lifa við skort. Nei­kvæðar til­finn­ingar um ótta við breyt­ing­ar, hið óþekkta.

Ef ein­hver segir þér að það sé ein­hver teng­ing á milli þess sem við sem sam­fé­lag eyðum í aðstoð við flótta­fólk og hæl­is­leit­endur og þess að við eyðum ekki nægu fjár­magni í hús­næði, félags­að­stoð og stuðn­ing við fátæka Íslend­inga, þá er við­kom­andi að ljúga að þér. Hann, eða hún, er á lymsku­legan máta að tengja saman mál sem tengj­ast ekki á nokkurn ein­asta hátt. Ekki frekar en það hvað stjórn­ar­ráð Íslands eyðir í ljós­rit­un­ar­kostnað teng­ist því hvort mal­bikað er í Beru­fjarð­ar­botni eður ei.

Sá, eða sú, sem heldur þessu fram, hefur hins vegar rétt fyrir sér með annan hluta þess­arar fárán­legu jöfnu; nefni­lega það að við sem sam­fé­lag stöndum okkur ömur­lega í því að huga að þeim verst settu. Við eigum ekki að líða það að fólk lifi á lús­ar­launum eða enn lægri bót­um. Við eigum að berj­ast með kjafti og klóm fyrir því að allir hafi aðgang að mann­sæm­andi hús­næði, eigi í sig og á og meira en það; hafi tóm til að sinna sjálfum sér og sín­um, ekki bara skrimta. En þetta hefur nákvæm­lega ekk­ert að gera með flótta­fólk og hæl­is­leit­end­ur, ekki neitt.

Eyðum smá tíma til að fara yfir sög­una. Ætli ein­hvern tím­ann hafi verið það skeið á Íslandi að ein­hverjir bjuggu ekki við sult og seyru, áttu ekki þak yfir höf­uð­ið, þurftu að þræla fyrir lúsa­laun, voru fátækir? Hvernig skýrum við hús­næðiseklu síð­ustu ára­tuga og alda? Hvernig stóð á því að fátækt fólk bjó í bröggum og kart­öflu­geymslum um miðja síð­ustu öld? Í hreysum um miðja þar síð­ustu öld? Voru þrælar vist­ar­bands­ins þar á und­an? Hefur þetta eitt­hvað með flótta­fólk og hæl­is­leit­endur að gera? Nei, nákvæm­lega ekki neitt, ekki frekar en sú ömur­lega stað­reynd að enn lifir fólk við fátækt hefur ekk­ert með flótta­fólk og hæl­is­leit­endur að gera í dag. Ekki neitt.

Þetta hefur hins vegar allt með ósann­gjarna sam­fé­lags­gerð að gera. Með launa­mun. Aðstöðumun. Með það að skatt­kerf­inu sé ekki beitt til jöfn­uð­ar. Með það að sumir græða á tá og fingri, á meðan aðrir lifa við fátækt. Með það að það þyki eðli­legt að launa­munur sé mældur í marg­feldi tuga í verstu til­fell­un­um. Með stjórn­völd sem með aðgerðum sínum ýta undir þau sem best hafa það.

Með síð­ustu rík­is­stjórn, sem breytti skatt­kerf­inu í þágu þeirra sem best stóðu. Með núver­andi rík­is­stjórn, sem við­heldur skatt­kerfi Sjálf­stæð­is­flokks­ins, hönn­uðu fyrir þau ríku.

Með þá stjórn­mála­flokka sem hafa ekki áhuga á að hafa þrepa­skipt skatt­kerfi, svo t.d. ég sem þing­maður borgi hærra hlut­fall af laun­unum mínum í skatt en kenn­ari. Með þá rík­is­stjórn­ar­flokka sem dettur ekki í hug að setja upp þrepa­skiptan fjár­magnstekju­skatt svo þau sem hafa tug­millj­ónir króna í tekjur af fjár­magn­inu sínu borgi hærra hlut­fall í skatt en ung­mennið sem erfði hluta­bréf í Diskó­kúlu­fram­leiðslu Dal­víkur frá afa gamla.

Þetta hefur allt með það að gera að stjórn­mála­flokkar sem eru við völd og hafa verið við völd vilja ekki vinna að auknum jöfn­uði. Finnst í lagi að sjúk­lingar borgi fyrir að vera veik­ir. Að biðlistar séu eftir félags­legu hús­næði. Að hús­næð­is­kostn­aður sé að sliga fólk. Að leigj­endur verði að treysta á vel­vilja leigu­sala. Og þetta hefur allt með þá kjós­endur sem kjósa umrædda flokka að gera.

Fátækt er ekki nátt­úru­lög­mál, þó hún hafi fylgt mann­inum ansi lengi. Hún byggir á þeirri stað­reynd að gæðum sam­fé­laga er mis­skipt, að sumt fólk hefur meira á milli hand­anna en annað fólk. Það er hlut­verk rík­is­valds­ins að sporna gegn fátækt, að vinna að jöfn­uði, að stuðla að vel­ferð. Til þess þarf vilja og kjark.

En það hefur nákvæm­lega ekk­ert að gera með það fólk sem hrekst hingað yfir hálfan heim­inn og leitar hæl­is. Ekki neitt.

Ef þú trúir því, ertu nefni­lega að við­halda því kerfi ójöfn­uðar sem við búum við í dag. Þú ert að ýta undir þá skoðun að afkoma fátæks fólks á Ísland, mögu­leikar þeirra á betra lífi, hafi eitt­hvað með flótta­fólk og hæl­is­leit­endur að gera. Þú ert að draga úr umfangi vand­ans, þú ert að gefa stjórn­völdum afsökun til að gera ekki neitt. Til að stuðla ekki að auknum jöfn­uði. Til að leggja ekki auknar álögur á þau sem best hafa það, á útgerð­ina, á stærri iðn­fyr­ir­tæki, á þau sem eiga nóg af pen­ing­um. Þú ert að gefa afsökun fyrir þessu öllu sam­an. Þú ert að við­halda ástand­inu.

Og þú ert að fara með bull og fleip­ur. Bull sem bygg­ist á hættu­legri afstöðu, því að flótta­fólk og hæl­is­leit­endur eru útlend­ing­ar. Hafðu í það minnsta döngun í þér til að halda fátæku fólki utan við þína for­dóma. Því að þessi skoðun ýtir undir útlend­inga­andúð.

Skömm þeim sem það gera, hvort sem er í stefnu stjórn­mála­flokka eða spjalli fólks sín á milli.

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum  

Raunsæi – endilega

Þegar rætt er um rafvæðingu fólksbílaflotans fyrir 2030 er mikilvægt að að hafa báða fætur á jörðinni. Nóg er af tálsýnum í stjórnmálum. Sannarlega verður að leggja mikla áherslu á þessa breytingu og hún er afar jákvætt framlag í loftslagsmálunum. En þegar greint er nákvæmlega og horft til heildar blasir við að ferlið er flóknara en svo og til eru aðrar jafn mikilvægar aðgerðir eða mikilvægari en rafvæðing fólksbíla, allt eftir samfélagsgeirum. Endurheimt votlendis og uppgræðsla illa farins lands er dæmi um það. Annað dæmi er full rafvæðing hafna.

Framþróun í vistvænum samgöngum fer fram með því að nýta fjölbreyttari orkugjafa en rafmagn. Stærri vinnuvélar og stórir bílar geta og verða að skipta yfir í innlent metan, metanól og lífdísil og vetnisknúnir raffólksbílar og stórir bílar eru ein lausn af nokkrum. Loks verður að koma flota stærri skipa yfir á innlent metan, metanól og lífdísil, jafnvel vetni, en minni skip og bátar ýmist keyra á rafmagni eða innlendu eldsneyti. Íblöndun þotueldsneytis er líka kleif. Engin ein leið getur orðið einhvers konar syndaaflausn fyrir 2030, eða síðar.

Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, harðlega gagnrýndri á Alþingi, er alls ekki nægu fjármagni beint til orkuskipta eða mótvægis­aðgerða gegn loftslagshlýnun. Það er deginum ljósara að 1,6 milljarða króna viðbót til umhverfismála á þremur af fimm árum áætlunarinnar, að frádregnum byggingarkostnaði gestastofa og fleiri bygginga, dugar hvergi nærri til. Í ofanálag á að skera niður framlög til umhverfismála um 300 milljón krónur í tvö ár. Til nýsköpunar reiknast um 120 milljón króna viðbótarframlög á ári að meðaltali í fimm ár og orkuskipti fá um 70 milljón króna framlag í þrjú ár. Það þarf áreiðanlega nýja forystu í því langa og flókna ferli sem orkuskiptin eru, þar sem raunsæi og þekking stjórnmálamanna, fjárframlög samfélagsins, þátttaka almennings og fyrirtækja og þekking sérfræðinga vísar veginn.

Ari Trausti Guðmundsson

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Smá nauðgað, annars fínt

Það er orðið árviss viðburður að fá fréttir af nauðgunum um Verslunarmannahelgi. Sem betur fer virðist ákveðin vitundarvakning hafa orðið í þessum efnum og jafnvel örgustu tréhausar hafa samþykkt víðtækari aðgerðir til að sporna við þeim hryllilega glæp sem nauðgun er. Á stundum hefur manni nefnilega fundist að skipuleggjendur hátíða telji það gefa þeim slæmt orðspor ef það spyrst út að til allra ráðstafana sé gripið til að hamla gegn nauðgunum. Það er auðvitað mikill misskilningur, orðspor hátíða batnar aðeins við það að allra bragða sé beitt til að koma í veg fyrir að sálsjúkir karlpungar nauðgi.

Það er hins vegar umhugsunarefni af hverju það er árviss viðburður að konum sé nauðgað um Verslunarmannahelgi. Stundum finnst manni eins og okkur þyki þetta hvimleiður en óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að smala nokkur þúsund Íslendingum saman á fyllerí. Nauðgun getur aldrei verið eðlileg afleiðing, hún er alltaf brot á öllum þeim siðalögmálum sem hver einstaklingur á að búa yfir.

Ef við erum farin að gera ráð fyrir nauðgunum, þá er eitthvað að. Kannski vantar algjöra umpólun á hugsunarhætti karlmanna (og hér er rúm fyrir forpokaða karlpunga til að nöldra um að konur nauðgi líka og allt það sem gjarnan er notað til að dreifa athyglinni frá stóra vandamálinu; ofbeldi karla gegn konum). Þarf ekki einfaldlega að mennta okkur upp á nýtt? Þarf ekki samstillt átak menntakerfis og allra sem að uppeldi koma til að stimpla það inn í eitt skipti fyrir öll að nauðgun er viðbjóðslegur glæpur gagnvart öðrum einstaklingi, gagnvart mennskunni sjálfri.

Fréttir um Verslunarmannahelgi snúast oftar en ekki um hátíðirnar. Í útvarpinu má heyra að svo og svo margar nauðganir hafi verið tilkynntar, svo margir verið lamdir og þetta mikið af fíkniefnum hafi fundist. Síðan er gjarnan í sömu frétt sagt að allt hafi nú gengið vel að öðru leyti og gjarnan spilaður bútur af brekkusöng og viðtal við fullt, hresst fólk.

Þetta er furðulegt. Það er ekki ósvipað því að segja frá því að maður hafi verið stunginn í partýi og liggi nú á gjörgæslu, en teitið hafi nú að öðru leyti gengið vel, mikið stuð verið á fólki og hér má heyra partýgesti syngja Undir bláhimni. Eða að bílferð hafi nú verið hin skemmtilegasta fram að því að bíllinn keyrði út af og amma dó.

Nauðgun er viðbjóðsleg. Þeir sem nauðga eru viðbjóðslegir. Fréttir af slíkum viðbjóði á ekki að flétta saman við frásagnir af almennri skemmtun.

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. 

Æ Björt, svaraðu mér

Hæstvirtur umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir. Vonandi misvirðir þú þetta opna bréf ekki við mig, eða heldur að ég láti formlegheit þingsalarins lönd og leið og ávarpi þig einungis með fornafni.

Þannig er nefnilega mál með vexti, Björt, að 24. maí var fyrirspurn minni til þín dreift á Alþingi. Ég var í sjálfu sér ekkert að stressa mig á svarleysinu strax, en nú er svo komið að það er liðinn 71 dagur án svars og 51 virkur dagur. Og þar sem ég veit að þú berst gegn fúski, Björt, undra ég mig pínulítið á þessu, samkvæmt lögum um þingsköp ber þér nefnilega að svara mér „eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð“.

Trauðla mundi ég þó angra þig með þessu ef málefnið væri ekki ansi brýnt. Þetta snýst nefnilega um línulagnir á og við vatnsverndarsvæði. Í þeim málum hefur heilmikið gerst í sumar á meðan þú hundsaðir lög um þingsköp og svaraðir mér ekki. Hér er annars fyrirspurnin:

1. Telur ráðherra, í ljósi þess að í Áhættumati vegna vatnsverndar fyrir Sandskeiðslínu 1 og tengivirki á Sandskeiði, sem verkfræðistofan EFLA gerði fyrir Landsnet og birt var í febrúarbyrjun 2017, er bent á hættu á mengun vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins meðan á framkvæmdum við Sandskeiðslínu 1 og tengivirki stendur, að færa skuli áformaða háspennulínu fjær vatnsbólunum?

2. Hvernig telur ráðherra að haga beri eftirliti með framkvæmdum, skilyrðum um magn og meðferð mengandi efna á vatnsverndarsvæðunum og öðrum mengunarvarnarráðstöfunum ef af lagningu Sandskeiðslínu 1 verður um þær slóðir sem nú er gert ráð fyrir?

3. Telur ráðherra, í ljósi Hæstaréttardóms í máli nr. 575/2016, þar sem fellt var úr gildi framkvæmdaleyfi og umhverfismat vegna Suðurnesjalínu 2, sem einnig tók til Sandskeiðslínu 1, að gera þurfi nýtt umhverfismat vegna Sandskeiðslínu 1?

Það sem hér er kallað Sandskeiðslína 1 heitir nú Lyklafellslína. Spurningar standa hins vegar og það er brýnt að fá svör, því nú er komið að veitingu framkvæmdaleyfis. Björt, gerðu það svaraðu mér.

E.s. Ég hef farið fram á fund í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um þessa línulögn og það væri nú gaman að hafa fengið svar fyrir hann.

Kolbeinn Óttarsson Proppé,
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna

Ræðum oftar og víðar um olíuleit og olíuvinnslu

 

 

 

Menn greinir á um olíuleit og hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Hildur Knútsdóttir og Heiðar Guðjónsson (HG) hafa skipst á skoðunum í Fréttablaðinu um málefnið. Nýlegur pistill Heiðars gaf mér tilefni til þessara andsvara enda hef ég ritað nokkrar greinar um málefnið og bókarkafla að auki (Veröld í vanda, Hið ísl. bókmenntafélag 2016). Ég reikna með að orðaskipti milli þeirra haldi eitthvað áfram. Tölusettu og skáletruðu málsgreinarnar eru Heiðars.

1) Lífskjör almennings hafa aldrei batnað jafn hratt og eftir að olíuöldin hófst eftir miðja 19. öld. Ísland er skýrasta dæmið í þeim efnum. Vegna samgöngubyltingar alfarið í krafti olíu hafa lífsskilyrði þar færst frá að vera ein lökustu í Evrópu í fremstu röð.

Samfara lífskjarabyltingu og fjölgun fólks í öllum löndum heims hafa orðið feiknabreytingar á helstu lífsskilyrðum okkar, raunar á öllu umhverfi fólks og á aðgengilegum auðlindum. Skógleysi og jarðvegseyðing á áður skógi vöxnum svæðum, yfirborðsmengun, mikill vatnsskortur í mörgum tugum landa og stækkun eyðimarka eru meðal einkenna þessa tímabils sem HG kallar olíuöld. Óheyrileg loftmengun (sót, lofttegundir, svifryk) einkennir margar stórborgir og höfin súrna. Rannsóknir benda til þess að helstu málmar og verðmæt jarðefni verði að mestu gengin til þurrðar á næstu áratugum og öldum, miðað við svipaða nýtingu og nú og án 80-100% endurnýtingar. Kol, olía og gas eru endanlegar auðlindir sem nú þegar eru ofnýttar. Margt fleira mætti upp telja.

Þó svo að Íslandi sé vel á vegi statt hvað sumt af þessum vandkvæðum varðar, horfum við á heiminn allan þegar metin er áframhaldandi olíuleit og olíuvinnsla á nýjum landsvæðum og á hafsbotni. Við megum ekki vera þröngsýn. Lífskjör almennings skiptast í mörg horn eftir heimshlutum. Olíuöldin hefur ekki fært milljörðum manna umtalsverð bætt lífskjör enda þótt aðrir milljarðar geti hrósað happi. Raunveruleikinn er sá að bil milli ríkra og fátæku milljarðanna breikka en minnka ekki. Farsæld felst héðan af ekki í aukinni notkun jarðefnaeldsneytis, heldur umhverfisbyltingu þar sem sú notkun er dregin saman eins hratt og unnt er. Að því eiga Íslendingar að stuðla með öllum ráðum.

2) Notkun Íslendinga á olíu mun aukast með tíðari flug- og skipaferðum. Þeir flutningar eru hagkvæmir, stytta núverandi leiðir og minnka þannig mengun á heildina litið.

Losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá íslenskum flugfyrirtækjum eykst hratt á meðan nýir orkugjafar flugvéla fást ekki í nægum mæli. Óvíst er hvort losun og olíunotkun til sjós muni aukast. Nú þegar hefur þar náðst nokkur árangur með því að nota dísilolíu í stað svartolíu. Ef flotinn stækkar verulega eða sjóferðum fjölgar getur öðruvísi farið, en þó ekki endilega. Skipavélar sem brenna alkóhóli (metanóli) eru komnar fram og gætu Íslendingar framleitt mest allt slíkt eldsneyti til sinna þarfa, þegar fram í sækir. Framfarir í fluggeiranum taka lengri tíma en ýmsar tilraunir með íblöndun eldsneytis, sem minnka losun, eru þegar hafnar.

Almennt séð getur fjárhagsleg hagkvæmni flutninga helst batnað með minni notkun eldsneytis vegna betri véla og styttri flutningsleiða, eða með ódýrara eldsneyti. Umhverfisáhrif flutninga eru fyrst og fremst jákvæð ef losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og sótlosun minnkar. Aukin umsvif Íslendinga í flutningum í lofti og á sjó geta hvorki verið rök fyrir fjárhagslegri eða grænni hagkvæmni í orkumálum nema þeir uppfylli fyrrgreind skilyrði.

Vandséð er hvernig ábyrgð okkar á olíuvinnslu gæti komið fram sem áfangi í umhverfismálum, vilji menn horfa á nálægðina við Jan Mayen. Olíuvinnsla við Ísland hefði ekki í för með sér olíuhreinsun í landinu. Innri notkunin væri of lítil í samanburði við rekstrarkostnað og hagkvæmara að koma dýrri Jan Mayen olíu til vinnslu í stöðvar sem fyrir eru utan Íslands. Þannig myndu flutningar á jarðefnaeldsneyti til hreinsistöðva og þaðan svo hingað verða veruleiki dagsins. Nýjar siglinga- eða flugleiðir á norðurslóðum hafa í raun ekkert með olíuvinnslu við Ísland að gera.

3) Olía og gas hafa komið í stað brennslu á viði, kolum, taði og öðru og þannig dregið stórkostlega úr mengun, slysum og sjúkdómum.Hér er ólíkum uppsprettum GHL ruglað saman. Vissulega mengar kolabrennsla meira en brennsla gass og olíu og brennsla gass mengar minnar en brennsla olíu. Með mengun er þá ekki aðeins á við GHL heldur mörg önnur kemísk efni. Hitt eldsneytið sem HG nefnir, þ.e. viður og tað, eru gróður af yfirborði jarðar sem tímgast og vex, tekur upp tiltekið magn koltvísýrings (algengasta GHL) en gefur frá sér súrefni við ljóstillífun. Þegar gróður er brenndur sem eldiviður eða tað skilar hann frá sér koltvísýringnum sem er tekinn upp af öðrum plötnum á ný. Með öðrum orðum: Brennsla viðar eykur ekki GHL í andrúmsloftinu ef skóg- og gróðurlendi er hóflega nýtt og því viðhaldið eða það aukið. Þannig er timburbruni ekki sjálfgefið óumhverfisvænn sem þáttur í náttúrulegri hringrás kolefnis í gróðurríkinu. Öðru máli gegndi ef mest öllu skóglendi væri brennt á tiltölulega skömmum tíma. Nú er raunar meiru eytt af því í sumum löndum en nemur viðbótum í öðrum og viðarbruni getur haft neikvæð áhrif en þó líklega í litlum mæli.

Brennsla olíu og gass, með allri meðfylgjandi losun GHL, í stað eldiviðarnotkunar, bjargar litlu sem engu. Það gæti sjálfbær timburvinnsla hins vegar gert, ásamt stækkandi skóglendi, í bland við notkun eldiviðar. Finna mætti jafnvægi milli hvers kyns viðarnýtingar og nægilegar upptöku koltvísýrings, m.a. með því að byggja úr timbri í stað steinsteypu. Eitt tonn hennar losar tonn af koltvísýringi í öllu framleiðsluferlinu!

Tilvist grasbíta veldur ekki hlýnun jarðar vegna taðsins (eða brennslu þess) heldur getur lofthjúpur jarðar fyrst og fremst hlýnað við neyslu gróðurs. Mikil fjölgun dýra stuðlar að hlýrri lofthjúp vegna metans (öflug GHL) sem fylgir meltingu eftir gróðurátið og er skilað út í umhverfið. Um bruna taðs gilda í grunninn sömu rök og um bruna skógarviðar.

Olía er, ólíkt þessu tvennu, geymd og grafin lífræn afurð. Hún tekur, okkur mönnum hulin, ekki þátt í myndun GHL að neinu marki. Það gerist að sjálfsögðu ef hún er numin og henni brennt. GHL fylgja brunanum í miklu meira magni en sem nemur upptökugetu hafs og gróðurs. Aukningin veldur því að lofthjúpurinn hlýnar hraðar en gerst hefur í hundruð þúsundir ára. Hlýnun af mannavöldum hefur staðið allt of lengi. Hækkun koltvísýrings í lofti úr 325 ppm í 405 ppm á um 60 árum á þar stóran þátt en bæði aukin vatnsgufa og aðrar lofttegundir koma við sögu. Það gera líka gríðarlegar gróðurfarsbreytingar sem minnkað hafa bindigetu gróðurlendis.

Í sjálfu sér má telja tímabundið skref til bóta að brenna frekar olíu og gasi en kolum vegna þess að þau gefa frá sér meira af GHL en hinir orkugjafarnir. En sú röksemd að þar með þurfi að leita uppi meiri olíu en vitað er nú um stenst ekki. Ef á að takast að halda hlýnun loftslags innan þolanlegra marka, samfara notkun jarðefnaeldsneytis um hríð, má aðeins nýta um þriðjung þekktra birgða alls jarðefnaeldsneytis. Af olíu og gasi er nóg til í jörðu á þeim svæðum sem unnn eru um þessar mundir. Sama gildir um kolin. Yfirvöld sums staðar skilja sinn vitjunartíma og hafa byrjað á að færa orkuframleiðslu (sem veldur um 70% aukingar GHL) úr kolum yfir í olíu og gas. Að vísu ætla Bandaríkin að skerast úr leik og valda óbætanlegu tjóni á viðleitni stórþjóðanna, ef fer eins og stjórnvöld Trumps og kó stefna að. Og almennt, svo því sé ekki gleymt: Leirsteinsgas, fengið með splundrun eða “fracking” er í engu verjanleg afurð.

Erfitt er að gera sér grein fyrir hvað HG á við með slysum og sjúkdómum vegna viðar- og taðbrennslu, umfram það sem rekja má til vinnslu og nýtingar olíu, kola og gass. Losun lofttegunda og hættulegra málma og snefilefna við notkun jarðefnaeldsneytis í 100-200 ár hefur vafalítið skilið eftir sig alvarleg spor í flestum löndum, einkum þar sem umhverfisvernd hefur átt erfitt uppdráttar. Umfang þeirra spora þekkir enginn í raun, að því ég best veit, og samanburður við slys og sjúkdóma vegna brennslu gróðurefna ókleifur.

4) Parísarsáttmálinn segir ekki að láta beri olíu- og gaslindir óhreyfðar. Hann hvetur hins vegar til þess að mest mengandi kolefnin (lesist: kol) skuli ekki unnin heldur þau skaðminni (olía og gas).
ur﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽tt jafnur ekki GHL

Hér sést undarlegur málflutningur. Parísarsáttmálinn fjallar hvorki um takmarkanir á vinnslu jarðefnaeldsneytis né hvaða jarðefni skuli unnin og hver ekki. Hann fjallar um skuldbindingar hvað losun GHL varðar. Í því geta falist
margvíslegar aðgerðir enda setur sáttmálinn í hendur ríkja hvernig þau treysta sér til að minnka losun um 40% fyrir árið 2030. Hluti þeirra aðgerða getur falist í að breyta um orkugjafa sem þó losa GHL, hluti í að minnka vinnslu eða kaup olíu, kola eða gass og enn annar hluti í að auka notkun grænna orkugjafa. Um Parísarsáttmálann má alveg eins segja að hann hvetji til samdráttar í allri losun frá jarðefnaeldsneyti, ekki fyrst og fremst til losunar frá olíu og gasi fremur en kolum. Hvað Ísland varðar er minni losun GHL á okkar ábyrgð eftir samþykkt sáttmálans, ekki sala á olíu og gasi til landa sem enn nota kol, elti maður rök HG.

Íslendingar verða að ná sínum markmiðum með því að takmarka og minnka losun frá helstu atvinnugreinum, hefta losun GHL úr illa förnu gróðurlendi og framræstu votlendi og auka þátt grænna orkugjafa. Samtímis eigum við að taka ábyrgð á að fjölga ekki olíu- og gaslindum af því að heimurinn hefur nú þegar aðgang að nægu magni jarðefnaeldsneytis. Sú staðhæfing sérfræðinga og alþjóðastofnana hvílir á því grundvallarmarkmiði að komast hjá 3-5 stiga hækkun meðalhitans með ógnvænlegum og feiknadýrum afleiðingum.

5) Olíu- og gasnotkun hefur tryggt afskekktum svæðum samgöngur, rafmagn og aðra innviði og stórbætt lífskjör almennings alls staðar.


Engum dettur í hug að mótmæla hluta þessarar staðhæfingar. Lífskjör hafa þó ekki batnað alls staðar á afskekktum svæðum. Bætt lífskjör alls staðar hafa borið vondan verðmiða sem mannkyn er að gera sér æ betur grein fyrir, m.a. með Parísarsamkomulaginu. Þessi liðna tíð er ekki meðmæli með því að auka aðgengi, vinnslu og nýtingu olíu og gass þegar minnka verður losun GHL og nægar birgðir í jörðu eru nú þegar þekktar. Við opnum afskekktum svæðum miklu fremur betri framtíð með gjörbreyttri og sjálfbærri orkuframleiðslu. Hlýnun loftslagsins veldur nefnilega sífellt alvarlegri vandræðum á afskekktum slóðum: Ágangi sjávar, jarðraski á sífrerasvæðum, þurrkum á hlýrri slóðum, jarðvegseyðingu, eyðingu vatnsgeyma (jökla, og stöðuvatna), tilflutningi mikilvægra lífvera, oft til óþurftar, og svo framvegis. Við verðum að horfa heildrænt á veröldina og meta áhrif olíu- og gasnotkunar í samhengi við umhverfisáhrifin sem hún veldur.

6) Auðveldara er að bregðast við breytingum á veðri en að reyna að stjórna því. Lífskjarabatinn sem olíuvinnsla hefur fært heiminum eykur líkurnar á uppgötvun nýrra orkugjafa.Mannkyn er ekki að reyna að stjórna veðurfari, heldur streitist við að minnka sinn þátt í hættulegum umhverfisbreytingum. Margir hafa reynt að reikna út kostnað við aðlögun að 2,3,4 og 5 stiga hækkun meðalhitans og öllu því sem fylgir. Niðurstöður benda til þess að ódýrara sé að breyta lífsháttum sem miða að sem minnstri hækkun hitastigsins, auka hvers kyns jöfnuð í heiminum og ná jafnvægi milli náttúrunytja og náttúrverndar  – frekar en að aðlagast sífellt erfiðari umhverfisröskunum eftir því sem meira hlýnar. Öll stóru tryggingarfyrirtæki heims hafa komist að þessari niðurstöðu.

Lífskjarabati er ekki forsenda nýjunga í orkuframleiðslu að neinu marki. Til þeirra er af nægu fé að taka í öllum stærstu eða efnuðustu ríkjum heims. Einfaldasta ráðið í bili er að minnka útgjöld til hermála og greiða með sparnaðaraurum fyrir nýsköpun. Aukin olíu- og gasvinnsla bætir engu við framþróun í orkumálum.

7) Stjórnmálaflokkur Hildar Knútsdóttur, VG, veitti Eykon, Petoro og CNOOC vinnslu- og leitarleyfi á Drekasvæðinu.

Rétt er það en flokkurinn hefur fallið frá stuðningi við leit og vinnslu á Drekasvæðinu, eftir umræður og samþykkt landsfundar. Eins og Norðmenn segja í sínum útivistarferðum: – Det er ingen skam å snu – enginn skömm er að því að snúa við. Fleiri flokkar hafa sömu afstöðu og VG.

8) Olíuvinnsla hér við land yki sjálfbærni Íslendinga til mikilla muna. Öll rök, siðferðileg, umhverfisleg og efnahagsleg mæla með að olía og gas verði unnið við Ísland.

Fráleitt er að nota hugtakið sjálfbærni um vinnslu og notkun olíu og jarðgass. Sú námuvinnsla getur aldrei verið sjálfbær miðað við eina af þremur undirstöðum hugtaksins: Náttúrunytjar sem skila auðlind jafn góðri eða betri til komandi kynslóða. Olíuvinnsla er ekki fremur sjálfbær í þessum skilningi hugtaksins en gröftur í malarnámi í Ingólfsfjalli. Þar er bara af tekið en engu við bætt. Olíubrennslan sjálf er líka fyllilega ósjálfbær aðgerð í umhverfistilliti.

Við verðum að stunda ósjálfbærar náttúrunytjar í undantekningartilvikum, svo sem við nám lausra jarðefna til mannvirkjagerðar. En köllum þá hegðun okkar réttum heitum. HG virðist rugla saman sjálfbærni aðgerða Íslendinga og því að vera sjálfum okkur nóg um eitthvað. HG telur eflaust að Íslendingar geti verið sjálfum sér nógir með olíu og gas, í stað innfluttra efna. Rétt eins og við sleppum því að flytja inn blávatn í stórum stíl. Já, íslensk olía gæti aflað okkur fjár og við gætum nýtt íslensk olíuefni sem búið væri að meðhöndla erlendis. En losun GHL frá olíuefnunum væri sú sama hvaðan svo sem olían er ættuð. Hvorki vinnsla á Drekasvæðinu né brennsla efnanna eykur sjálfbærni okkar umsvifa, þvert á móti. Segja mætti sem svo að við værum þá óháðari olíuveldum heimsins en nú gerist – en allur ferill orkugjafans væri engu að síður ósjálfbær á öllum stigum vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Við verðum að endingu að muna að sá sem vinnur og selur olíu ber hluta ábyrgðar á losun og annarri efnamengun sem verður við notkun vörunnar – eins þótt hann brenni henni ekki sjálfur.

Orðum HG um þrenns konar rök fyrir olíuvinnslu við Jan Mayen, sem hann flaggar undir lok síns máls (sjá lið 8 hér að framan), læt ég lesendum eftir að íhuga.

 

Ari Trausti Guðmundsson

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum.

 

 Sjálfbær ferðaþjónusta? 

        

 

Ferðaþjónustan er ekki sjálfbær sem atvinnugrein en fjölmargir stefna að sjálfbærni undir merkjum ábyrgrar ferðaþjónustu. Mat á áhrifum fjölgunar ferðmanna verður að miða við þolmörk á öllum þremur stigum sjálfbærni: Umhverfis-, samfélags- og efnahagsmörk í ljósi rannsókna. Þau geta breyst á mislöngu tímabili.

Hvað sem ólíkum stjórnmala﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽ornar hefðir  og velferðarina. inguan þolmörk landsins alls og samfum leið annarra atvinnugreinaálastefnum líður er almennur vilji til þess að ein óstöðug atvinnugrein yfirtaki ekki of mikinn mannafla, fasteignir og rými í samfélaginu. Líka til þess að ferðaþjónusta sem auðlindanýting lúti svipuðum takmörkunum og vísindanálgunum og sjávarútvegur. Þannig verður til vegvísir að sjálfbærari ferðaþjónustu en nú tíðkast.

Ýmsum aðferðum er beitt til að stýra straumi ferðamanna og takmarka aðgengi að stöðum eða landsvæðum, t.d. auglýsingar og kynningar sem auka áhuga á vannýttum stöðum, samhliða uppbyggingu innviða og afþreyingar. Einnig má marka ítölu gesta og stjórna aðgengi við innkomustaði. Enn ein aðferð er að nýta mörkuð bílastæði sem meginleið inn á stað eða svæði. Þá er óheimilt að leggja annars staðar í grendinni og aðkoma af sjó eða úr lofti bönnuð. Loks er hægt að nota gistiaðstöðu til að takmarka aðgengi. Víða má nota rafrænar leiðir til þess að miðla upplýsingum um laust aðgengi eða að ítölu hafi verið náð.

Gjald fyrir inngöngu í þjóðgarða, á friðlýst svæði og einkastaði, komu- eða brottfarar- eða bílastæðagjöld, og fleira skylt, eru ekki vel virk tæki til aðgangsstýringar. Slík gjöld flytja einungis til þungann í straumnum eftir efnahag gesta en stýra litlu, staðbundið. Hækkun meðalferðakostnaðar á viku (200-300 þúsund kr. á mann) um fáein prósent vegna gjaldtöku gerir varla gæfumun í augum efnaðri hluta ferðamanna.

Mikilvægt er að stjórn og stjórnarandstaða hafi samráð um helstu skref sem gera eiga út um skipulag og takmarkanir ferðaþjónustu á næstu árum. Nóg annað er til að bítast um í stjórmálum þótt fundið verði sæmilegt jafnvægi á milli nýtingarstefnu og verndarstefnu í ferðaþjónustu. Óheftur vöxtur eða rányrkja á ekki að vera í boði þar fremur en annars staðar.

Ari Trausti Guðmundsson

Höfundur er þingmaður VG. Greinin birtist í Fréttablaðinu. 

 

“Olíufundur gæti gjörbreytt Íslandi“

Í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 1. júlí síðastliðinn segir Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, frá áformum Eykon Energy um að bora ekki eina heldur þrjár borholur á Drekasvæðinu til að freista þess að dæla upp olíu. Hann fullyrðir að ef olía finnist muni ríkið græða milljarða og enginn kostnaður muni falla á ríkissjóð. Við þetta er ýmislegt að athuga.

1) Það er löngu vitað að brennsla á jarðefnaeldsneyti veldur hröðum loftslagsbreytingum sem ógna nú öllu lífríki jarðar. Lífríki Íslands er þar ekki undanskilið. Á tímum hnattvæðingar erum við ekki eyland í neinum öðrum skilningi en landfræðilegum: Breyttur veruleiki í breyttu loftslagi mun raska jafnvægi á alþjóðavettvangi á komandi áratugum með ófyrirséðum afleiðingum fyrir þjóð sem treystir jafn mikið á innflutning og við gerum.

2) Ísland mun þurfa að laga innviði að loftslagsbreytingum. Við gætum þurft að byggja varnargarða við strendur, flytja byggð og finna aðrar leiðir til að framleiða rafmagn en með fallvatni frá jökulám þegar jöklarnir bráðna. Það hefur í för með sér kostnað sem mun að öllum líkindum falla á ríkissjóð.

3) Það er sannað að brennsla á olíu veldur súrnun sjávar. Áhrifin á vistkerfi hafs geta orðið gríðarleg og ógnin við sjávarútveginn, sem lengi hefur verið undirstöðuatvinnugrein Íslands, er raunveruleg. Kaldur sjór tekur upp meiri koltvísýring en heitur og súrnar því sérstaklega hratt. Hver dropi af olíu frá Drekasvæðinu sem verður brenndur á næstu árum mun því hafa bein áhrif á hafið í kringum Ísland og þá fiskistofna sem við nýtum.

4) Olíuleki frá borholu á Drekasvæðinu gæti haft hrikalegar afleiðingar fyrir Ísland, bæði á umhverfi og efnahag. Hreinsun eftir olíuslysið sem varð í Mexíkóflóa árið 2010 kostaði um 7.000 milljarða íslenskra króna. Það er afar hæpið að ríkið hafi bolmagn til að borga þann reikning. Hafa þeir einkaaðilar sem Heiðar er í forsvari fyrir það?

5) Við vitum að loftslagsbreytingar koma til með að valda hörmungum í framtíðinni – þær eru þegar farnar að gera það, til dæmis með tíðari skógareldum, flóðum og öfgum í veðurfari. Og því meiri olíu sem við brennum því meiri verða hörmungarnar. Að sama skapi eykst hættan á því að við setjum af stað keðjuverkun sem verður ekki stöðvuð. Og hættan er raunveruleg.

6) Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reiknaði út árið 2015 að notkun jarðefnaeldsneytis kosti skattgreiðendur um heim allan 5,3 billjónir Bandaríkjadala á ári.

7) Ríki heims skuldbundu sig með Parísarsáttmálanum til að halda hlýnun jarðar innan við 2°C. Ef Parísarsáttmálinn á að halda þá má ekki brenna þeim 20 milljörðum tunna af olíu sem Heiðar vonast til að finna. Ef Parísarsáttmálinn á að halda megum við ekki brenna nema 1/5 af þekktum eldsneytislindum. Heiðar er að leita að nýjum og áður óþekktum lindum og þar með að veðja á að Parísarsamkomulagið – sem ríkisstjórn Íslands hefur nótabene fullgilt – haldi ekki.

Heiðar segir að ef þetta gangi eftir og olía finnist þá muni Ísland gjörbreytast og verða í stöðu til að „hjálpa umheiminum“.

En sannleikurinn er auðvitað sá að stærsta framlag Íslendinga í baráttunni fyrir betri heimi gæti einfaldlega verið að hverfa frá áformum um olíuvinnslu og láta olíuna sem kann að leynast á Drekasvæðinu vera. Það er það eina siðferðilega rétta í stöðunni og besta leiðin fyrir okkur að „hjálpa umheiminum“.

En Heiðar Guðjónsson talar ekki um siðferði eða réttlæti. Nei, Heiðar er að tala um hagnað. Hann er að tala um peninga.

Ef við, Íslendingar, ætlum í alvörunni að loka augunum fyrir staðreyndum og láta stjórnast af græðgi þá skulum við vita að þetta verða aldrei annað en blóðpeningar. Og Ísland verður ekki samt.

Hildur Knútsdóttir, 
Höfundur greinarinnar er rithöfundur og greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.