Sterkt móðursjúkrahúsÁ mínum fyrstu dögum sem heilbrigðisráðherra hef ég átt þess kost að heimsækja nokkrar helstu stofnanir heilbrigðiskerfisins og stefni að því að ná að ljúka þeirri yfirferð á næstu vikum. Landspítalinn sjálfur, móðursjúkrahúsið, gegnir meginhlutverki sem bakhjarl heilbrigðisþjónustu um land allt. Þetta hlutverk tekur Landspítalinn mjög alvarlega og vill efla það með því að bæta aðgengi landsmanna allra að þjónustu sinni og með því að fara með sérfræðiþjónustu út um land.Landspítalinn er nú öflugri en hann hefur nokkurn tíma verið. Búið er að taka upp fjölda nýrra meðferða og aðgerða og verið að sinna miklu veikara fólki, með betri árangri, en áður. Jafnframt er spítalinn að sinna miklu fleirum en nokkurn tímann áður.

Á spítalanum eru hátt í tvö hundruð deildir og einingar og starfsmenn rúmlega 5.100 talsins úr fjölmörgum starfsgreinum enda sinnir spítalinn fjölmörgum verkefnum auk hinnar hefðbundnu heilbrigðisþjónustu. Eldhús, þvottahús, saumastofa og dauðhreinsun; allt þarf að virka. Og gerir það.

Spítalinn hefur lagt áherslu á öryggis- og gæðamál allt frá 2011 og hefur dregið úr sóun og sparað fé umtalsvert, stytt biðlista og bætt árangur. Þessi árangur hefur meðal annars verið mældur í lifun eftir kransæðaaðgerðir og ótrúlega lágri spítalasýkingartíðni.

Einnig hefur spítalinn nú sinnt sívaxandi fjölda ferðamanna sem veikjast og slasa sig og er stór þáttur í því að Ísland geti þróast áfram sem ferðamannaland með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á þjóðartekjur. Loks sinnir spítalinn hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús þar sem heilbrigðisstéttir njóta leiðsagnar, öðlast reynslu og menntun til að geta sinnt sínum verkefnum í fyllingu tímans sem þátttakendur í vaxandi heilbrigðisþjónustu.

Það er einstaklega góð tilfinning að finna fyrir faglegum metnaði, styrkri stjórn, öflugu starfsfólki og skýrri forystu í þessari lykilstofnun í íslensku samfélagi. Gott samfélag þarf gott heilbrigðiskerfi og gott heilbrigðiskerfi þarf sterkt móðursjúkrahús. Landspítalinn er slík stofnun. Ég hlakka til áframhaldandi sóknar í þágu heilbrigðisþjónustunnar þar sem Landspítalinn gegnir meginhlutverki.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Þolmörk og sjálfbær ferðaþjónusta     

Ferðaþjónustan er ekki sjálfbær sem atvinnugrein en við stefnum að sjálfbærni undir merkjum ábyrgrar ferðaþjónustu. Umhverfisáhrif hennar eru enn merkt ósjálfbærni, of mörg sveitarfélög og héruð eru ýmist of hart keyrð við að þjónusta ferðamenn eða að mestu afskipt, og loks er fjárhagslegum ávinningum misskipt í samfélögum víða um land. Mikið er ógert áður en markinu er náð og eru nokkur skref í þá átt mörkuð í ríkisstjórnarstefnunni.

Við mat á áhrifum fleiri ferðmanna verður að miða við þolmörk á öllum þremur stigum sjálfbærni: Umhverfismörk, samfélagsmörk og efnahagsmörk. Þau ákvarðast með rannsóknum og könnunum og geta breyst með tíma.

Telja má almennan vilja til þess að ein (og fremur óstöðug) atvinnugrein yfirtaki ekki of mikinn mannafla, fasteignir og rými eða vinnutíma í samfélaginu. Líka er almennur vilji til þess að ferðaþjónusta sem auðlindanýting lúti svipuðum takmörkunum og vísindalegum nálgunum og til dæmis sjávarútvegur.

Ýmsum aðferðum má beita til að stýra straumi ferðamanna og takmarka aðgengi að stöðum eða landsvæðum. Unnt er að nota auglýsingar og kynningar til að opna aðgengi að vannýttum stöðum og svæðum. Samtímis verður að hvetja þar til uppbyggingar innviða og afþreyingar. Önnur aðferð er að marka ítölu gesta per stund eða dag og stjórna aðgengi við innkomustað. Enn ein aðferðin er til dæmis að nýta mörkuð bílastæði sem meginleið að stað eða svæði. Loks er hægt að nota gistiaðstöðu og innviði vinsælla svæða til að takmarka aðgengi.

Að mínu frumkvæði samþykkti Alþingi í september 2017 beiðni um skýrslu, unna á vegum ráðuneytis ferðamála, um þolmörk og leiðir til aðgangsstýringar. Hún á að vera tilbúin nú í febrúar. Þar er m.a. fjallað um þróun ferðaþjónustu og horfur, þolmörk í ljósi sjálfbærnimarkmiða og um helstu álagsstaði og tegundir álags á umhverfi, samfélag, innviði og upplifun. Farið verður yfir helstu áhrif og afleiðingar vaxtar ferðaþjónu á atvinnu- og efnahagsmál, og aðferðir til að stýra fjölda, aðgengi og dreifingu ferðamanna. Skýrslan á að auðvelda gerð landnýtingaráætlunar um þróun ferðaþjónustu í samvinnu við samtök hennar, með tilliti til sjónarmiða um sjálfbæra atvinnugrein. Samtímis verður til til rammi um þau opinberu gjöld sem þarf til að fjármagna hlutverk sveitarfélaga og ríkis í ferðþjónustunni.

 

Ari Trausti Guðmundsson

Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi

 

 

Eflum geðheilbrigðisþjónustuna

Góð geðheilsa er undirstaða lífsgæða. Samkvæmt upplýsingum frá landlækni frá því í september 2017 hefur geðheilsu ungs fólks hrakað á undanförnum árum. Geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk þarf því að efla og styrkja sérstaklega, til að stemma stigu við þeirri þróun. Ég mun leggja ríka áherslu á eflingu geðheilbrigðisþjónustu í embætti mínu sem heilbrigðisráðherra, með það meginmarkmið að leiðarljósi að tryggja skuli öllum jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Sérstök áhersla er lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu í fjárlögum ársins 2018.

Efla þarf geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, og í fjárlögum ársins 2018 eru stigin skref í átt að þeirri eflingu. Fjárveiting til sjúkrahúsþjónustu hækkar um 200 milljónir króna samkvæmt fjárlögum ársins 2018. Því framlagi er ætlað að efla geðheilbrigðisþjónustu innan Landspítala sérstaklega svo mögulegt sé að bjóða upp á góða geðheilbrigðisþjónustu á deildum spítalans. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans fær 45 milljóna viðbótarframlag, sem er ætlað til þess að stytta biðtíma eftir þjónustu á deildum BUGL, sem er verkefni sem sérstaklega brýnt er að ráðast í.

Gagnsemi sálfræðiþjónustu er gríðarmikil. Aukið aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu er mikilvægur liður í góðri geðheilbrigðisþjónustu og auka þarf fjárframlög til þessa málaflokks. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2018 rennur 60 milljóna króna framlag til heilsugæslunnar, sem er sérstaklega ætlað til að fjölga sálfræðingum og þverfaglegum geðheilsuteymum innan heilsugæslunnar og auka aðgengi fólks að hugrænni atferlismeðferð.

Ég mun einnig leggja ríka áherslu á að geðheilbrigðis­áætlun til ársins 2020 verði hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð til fulls. Einnig mun ég leggja áherslu á að heilbrigðisráðuneytið styðji eins og kostur er við frjáls félagasamtök sem starfa á sviði geðheilbrigðisþjónustu, enda gegna frjáls félagasamtök lykilhlutverki á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustu.

Höfundur er heilbrigðisráðherra.

Annus cooperationis

Haf­andi fylgst með stjórn­málum nán­ast frá því að ég man eftir mér, veit ég að vænt­ingar stjórn­mála­manna til fram­tíð­ar­innar end­ur­spegla ekki endi­lega raun­veru­lega þró­un. Sér­stak­lega ekki þegar að ára­móta­greinum kem­ur. Þar kemur margt til; utan­að­kom­andi aðstæð­ur, það sem aðrir gera hefur oft áhrif á hvort vænt­ing­arnar ræt­ast og, frómt frá sagt, þá hefur mér þótt sem stjórn­mála­menn séu ekki endi­lega alltaf raun­sæir eða full­komna heið­ar­legir í vænt­ingum sín­um. Það læð­ist nefni­lega að manni sá grunur að stundum bland­ist póli­tískir hags­munir inn í það sem póli­tíkusar segja; þ.e. þeir séu að huga að fleiri þáttum en bein­línis þeim sem þeir tjá sig um.

Að því sögðu ætla ég að leyfa mér að tala eins ærlega og ég get um þær vænt­ingar sem ég hef til árs­ins 2018, því þær eru tölu­verð­ar. Ég ætla ekki endi­lega að segja að þær séu svo miklar að ég telji árið munu skipa sér sess í sög­unni líkt og árið 1492 í sögu Spán­ar, sem á síð­ari tímum var kallað annus mira­bil­is, eða undra­vert ár. Nú eða árið 1666 í sögu Bret­lands, sem er það ár sem fyrst fékk þetta göf­uga heiti. En ég vona engu að síður að árið 2018 verði í sögu Íslands ár sam­vinn­unnar – annus cooper­ation­is, svo sagn­fræði­t­eng­ing­unni sé við hald­ið.

Ljóst er að miklar vænt­ingar eru gerðar til rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dótt­ur, sem birt­ist m.a. í skoð­ana­könn­unum um fylgi við hana. Ég ætla ekki að lesa of mikið í þær kann­an­ir, eða eyða of mörgum orðum í að dásama rík­is­stjórn­ina, enda mun ég trauðla telja nokkrum hug­hvarf sem á móti henni er. Ég tek það eitt út úr könn­un­inni að miklar vænt­ingar séu til rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Það setur mikla ábyrgð á herðar okkar sem að henni stönd­um, sem er gott.

Eitt af því sem rík­is­stjórnin hefur ein­sett sér er að stuðla að auk­inni sam­vinnu. Stjórn­ar­sátt­mál­inn boðar breytt vinnu­brögð, opn­ari stjórn­sýslu, gagn­sæi og virð­ingu gagn­vart verk­efn­um. Aukið sam­ráð við vinnu­mark­að­inn um sterkara sam­fé­lag á sem flestum svið­um, sem er vísun í upp­bygg­ingu félags­legs stöð­ug­leika auk hins efna­hags­lega, og að sam­ráð verði treyst og stuðn­ingur við sveit­ar­fé­lögin hvað varðar upp­bygg­ingu inn­viða, byggða­þróun og fjár­mála­leg sam­skipti.

Fyrstu skref­in, af mörg­um, hafa þegar verið stig­in. Sest var niður með aðilum vinnu­mark­að­ar­ins í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­unum sjálf­um, nokkuð sem ekki hafði verið gert áður, og ljóst er að mikil áhersla verður á þá sam­vinnu fyrir kom­andi kjara­samn­inga. Ráð­ist verður í til­færslu á tekju­stofnum frá ríki til sveit­ar­fé­laga, með því að gistin­átta­gjald renni óskipt til sveit­ar­fé­lag­anna.

Þá boðar rík­is­stjórnin efl­ingu Alþingis og nán­ari sam­starf milli flokka á Alþingi.

Sam­ráð og sam­vinna verður aldrei nema í… tja, sam­ráði og sam­vinnu. Allir aðilar þurfa að vera til­búnir til sam­vinn­unnar til að hún verði að veru­leika.

Ég tel að nú sé ein­stakt tæki­færi til að breyta stjórn­mála­menn­ingu á Íslandi. Allt of lengi hefur hún ein­kennst af skot­grafa­hern­aði þar sem flokkar skipa sér í fylk­ingar eftir því hvoru megin hryggjar þeir lenda; í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu. Þrátt fyrir að hafa ekki langa þing­reynslu að baki, er ég viss um að sjálfur hafi ég tekið þátt í þessu. Að gagn­rýna að ósekju, vegna þess að mál komu frá rík­is­stjórn­inni, í það minnsta að gagn­rýna af offorsi. Það er auð­velt að detta í það hlut­verk, þegar manni hleypur kappi í kinn, en þó ber að minn­ast þess að stór mál síð­ustu rík­is­stjórnar nutu stuðn­ings a.m.k. hluta stjórn­ar­and­stöð­unn­ar. Eitt þeirra, jafn­launa­vott­un, hefði t.d. ekki orðið að lögum nema fyrir stuðn­ing úr stjórn­ar­and­stöð­unni.

Rík­is­stjórnin hefur þegar sýnt það í verki að hún meinar það sem hún segir með orðum um efl­ingu Alþing­is. Staða þing­flokka verður bætt, sér­fræði­vinna efld og, að höfðu sam­ráði við stjórn­ar­and­stöðu, unnið að enn frek­ari efl­ingu. Og stjórn­ar­and­staðan leiðir þrjár af fasta­nefndum þings­ins. Það hefur ekki gerst í um tvo ára­tugi og að auki gegna stjórn­ar­and­stæð­ingar for­mennsku í ýmsum alþjóð­efndn­um. Ólíkt því sem áður hefur gerst höfðu stjórn­ar­flokk­arnir enga skoðun á því hvaða þing­menn gegndu for­mennsk­un­um.

Auk­in­heldur mun rík­is­stjórn­in, á fyrri hluta kjör­tíma­bils­ins, setja á fót þverpóli­tíska hópa um mik­il­væg mál, m.a. um stofnun mið­há­lend­is­þjóð­garðs, nýsköp­un­ar­stefnu, þróun mæli­kvarða um hag­sæld og lífs­gæði, orku­stefnu, stjórn­ar­skrá, fram­kvæmd og end­ur­skoðun útlend­inga­laga og fram­tíð­ar­nefnd um áskor­anir og tæki­færi vegna tækni­breyt­inga.

Það er vel hægt að tala niður þessar fyr­ir­ætl­anir rík­is­stjórn­ar­innar og vel má vera að ég hefði gert það, væri ég í stjórn­ar­and­stöðu og ekki í sam­vinnugírn­um. Það er hægt að horfa fram­hjá því að staða stjórn­ar­and­stöð­unnar hefur ekki verið sterk­ari en nú hvað for­mennsku í nefndum varðar og segja að stjórn­ar­and­staðan hafi nú ekki fengið allar þær for­mennskur sem hún bað um og ekki meiri­hluta í einni, eins og óskað var. Og það er hægt að segja að skipan þverpóli­tískra hópa sé til marks um að stjórn­ar­flokk­arnir þrír nái ekki saman í mik­il­vægum mál­um. Allt fer þetta eftir því hvernig maður er stefnd­ur, hvort þetta er jákvætt eða nei­kvætt.

Ég lít á það sem styrk að ætla sér að setja jafn mörg og jafn stór mál í þverpóli­tískt sam­starf. Eitt af því sem hefur skort í íslenskum stjórn­mál­um, er nefni­lega sam­starf þvert á flokka um stefnu til lengri tíma. Í krafti meiri­hlut­ans hafa rík­is­stjórnir komið sinni stefnu á, stefnu sem lifir svo sjaldn­ast af stjórn­ar­skipti. Um þetta eru lík­lega allir flokkar sem setið hafa í rík­is­stjórn síð­ustu ára­tugi sek­ir.

Nú er lag að breyta þessu. Það skiptir í raun engu hvort skipan svo margra þverpóli­tískra hópa sé til marks um styrk eða veik­leika rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Það sem skiptir máli er að allir flokkar taki höndum saman og vinni af heið­ar­leika að stefnu­mót­un­inni, landi og þjóð til heilla. Því allt eru þetta mál sem skipta miklu máli fyrir íslenskt sam­fé­lag.

Ábyrgð okkar stjórn­ar­liða er mik­il, en ég vona að öll þau sem að sam­starf­inu koma finni til ein­hverrar ábyrgð­ar. Tæki­færið er núna til að gera bet­ur, vinna saman að því að bæta sam­fé­lagið okk­ar. Til þess erum við jú í stjórn­mál­um.Megi 2018 verða ár sam­vinn­unn­ar.

Höf­undur er vara­for­maður þing­flokks Vinstri grænna.

Kosið út af yfirhylmingu og þöggun

Það eru óvenju­legir tím­ar. Ekki bara vegna þess að rík­is­stjórn leidd af Sjálf­stæð­is­flokki sprakk í enn eitt skipt­ið. Það er orðið að venju í íslensku sam­fé­lagi að rík­is­stjórnir sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er í for­svari fyrir eða sitji í, springi og skapi reglu­lega þá óreiðu og glund­roða sem for­manni Sjálf­stæð­is­flokks­ins er nú tíð­rætt um og ótt­ast hvað mest.

Nei, tím­arnir eru óvenju­legir vegna þess að efna­hags­legar ástæður eru ekki ástæða þess núna að rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks heldur ekki velli, heldur er ástæðan þær fem­inísku bar­áttu­bylgjur gegn kynja­of­beldi og kyn­ferð­is­af­brotum gegn börnum sem hafa gengið yfir íslenskt sam­fé­lag und­an­farin miss­eri sem hafa nú sprengt rík­is­stjórn. Sem hafa riðlað hinu marg­um­tal­aða feðra­veldi. Orð­inu sem svo margir hata.

Leyndarhyggjan hefur verið skoruð á hólm og sam­trygg­ingin í sam­fé­lag­inu hefur opin­berað sitt rétta and­lit. Sam­trygg­ingin spyr ekki um stétt né stöðu; af gögn­unum um upp­reist æru sést að lög­reglu­menn í áhrifa­stöðum mæla með dæmdum nauðgurum og hæsta­rétt­ar­lög­menn og áhrifa­menn í íslensku við­skipta­lífi síð­ustu ára­tug­ina standa þétt með barn­a­níð­ing­um. Þessir karlar taka sér stöðu með þeim sem frömdu glæpina, en láta þján­ingu fórn­ar­lambanna liggja á milli hluta.

Þolendur kyn­ferð­is­af­brota og hrylli­legs barn­a­níðs hafa sýnt ótrú­legt hug­rekki og þraut­seigju. Neitað að gef­ast upp fyrir þöggun og leynd, hafa haldið áfram að krefj­ast upp­lýs­inga og þess að hlustað sé á þau á æðstu stöðum íslensks stjórn­ar­kerf­is. Fyrir ólýs­an­legt hug­rekki og magn­aða þraut­seigju þolenda nú og áður, ber að þakka. Marg­falt.

Án þolenda sem sögðu hingað og ekki lengra, án fjöl­miðla sem gáfust ekki upp þó svo að dyrum upp­lýs­inga væri lokað á þá og án fem­inískrar bar­áttu sem virð­ist á svo und­ur­sam­legan hátt ganga í end­ur­nýjun lífs­daga með hverri kyn­slóð, væri íslenskt sam­fé­lag mun verra en það er.

Við sem sitjum á Alþingi verðum að hlusta á þolendur og taka undir með bar­áttu­fólki fyrir útrým­ingu kyn­ferð­is­of­beld­is. Við verðum að virða þessa bar­áttu og halda áfram að leggja okkur öll fram um að breyta íslensku sam­fé­lagi með þeim ráðum sem við höf­um. Annað er óboð­legt.

Það er ekki í boði að segja að hér sé um lítil mál að ræða líkt og ein­staka ráð­herrar og þing­menn Sjálf­stæð­is­flokks­ins hafa því miður sagt opin­ber­lega. Það er ekki í boði að smætta kyn­ferð­is­af­brot eða gera þar með lítið úr nauðg­un­ar­menn­ingu. Og það er aldrei í boði að standa ekki með börnum sem þurfa að ganga í gegnum hel­víti þegar kemur að kyn­ferð­is­af­brotum gegn þeim.

Sýnum sam­hug og virð­ingu fyrir þolend­um. Berj­umst öll gegn yfir­hylm­ingu og þögg­un. Líka á hinu póli­tíska sviði.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir er þing­maður VG í Suð­vest­ur­kjör­dæmi. Greinin birtist fyrst á Kjarnanum. 

Uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn

Enn á ný göngum við að kjörborðinu til að velja þá stefnu sem við teljum að best henti samfélaginu okkar og það fólk sem við viljum að fari fyrir henni. Við Vinstri græn teljum að stjórnmálaflokkar eigi að hafa sömu stefnu eftir kosningar og fyrir. Þannig lögðum við fram tillögur til breytinga á fjárlögum í desember sem miðuðu að því að bæta hag venjulegs fólks með aukinni samneyslu í samræmi við þau loforð sem stjórnmálaflokkar gáfu kjósendum fyrir síðustu kosningar. Þær voru því miður felldar. Okkur gefst nú einstakt tækifæri til að sýna í verki hver skoðun okkar er á stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur meira eða minna haldið um valdataumana síðustu áratugi og skapað þá menningu samtryggingar og leyndarhyggju sem við getum nú gengið á hólm við. Og þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer nú að tala um stöðugleika og nauðsyn þess að hafa styrka forystu, vil ég biðja ykkur að hafa í huga að síðustu þrjár ríkisstjórnir sem hann hefur átt aðild að hafa hrökklast frá völdum.

Komandi kosningar gefa okkur tækifæri til að sýna í verki að við viljum að samfélaginu sé stýrt á samfélagslegum forsendum. Við viljum útrýma fátækt, bæta hag þeirra sem verst standa, auka samneysluna og opna stjórnsýsluna. Við viljum samfélag jöfnuðar, þar sem hagur fólks er hærra metinn en tölur í excel-skjali.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um hver er stefna fráfarandi stjórnarflokka, hún birtist í nýframlögðum fjárlögum og áður samþykktum fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð vilja minnka hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu sem mun bitna á þeirri grunnþjónustu sem venjulegt fólk reiðir sig á. Sem betur fer sprakk stjórnin áður en hún náði fjárlagafrumvarpinu í gegn.

Besta leiðin til að tryggja nýja stjórnarhætti þar sem hagsmunir venjulegs fólks eru í fyrirrúmi er að kjósa flokk sem berst fyrir félagshyggju. Við í Vinstri grænum höfum sýnt það í verki að það gerum við. Tryggjum flokknum góða kosningu og undirbúum jarðveginn fyrir félagshyggjustjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.
 
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.

Af hverju þurfum við að kjósa núna?

Ég held að það sé mik­il­vægt að við spyrjum okk­ur: Af hverju kjósum við núna? Ástandið er ekki eðli­legt og að sjálf­sögðu á ekki að þurfa að kjósa hér árlega á þing.

Ástæða þess að við kjósum nú, er ein­fald­lega að enn einu sinni er fólki nóg boð­ið. Enn einu sinni fær fólk nóg af því hvernig vald­inu er beitt hér á landi og hvernig þeir sem eiga, þykj­ast allt mega. Þannig sýn­ist mér best að það sem við gerum upp í þessum kosn­ing­um, og ræðum í aðdrag­anda þeirra, er nákvæm­lega hvernig stjórn­ar­hætti við vilj­um.

Í umræðu­þáttum og fréttum er spurt hvaða mál eigi nú að ræða í aðdrag­anda kosn­inga. Hvað varðar stóru málin sem brenna á fólki og snúa að vel­ferð, mennt­un, sam­göngum og byggða­málum þá blasir alveg við fyrir hvað Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Við­reisn og Björt fram­tíð standa. Rétt áður en stjórnin féll var lagt fram fjár­laga­frum­varp frá­far­andi rík­is­stjórnar og þar má glögg­lega lesa hvernig þessir flokkar for­gangs­raða fjár­munum og alger óþarfi að hlusta á ein­hvern fag­ur­gala í kosn­inga­bar­áttu. Sam­an­tekið birt­ist þar áhersla á að skapa kunn­ug­legt „svig­rúm til einka­rekst­urs“ á öllum svið­um, með því að svelta allt sem til­heyrir hinu opin­bera kerfi (lítið dæmi hér). Þar hefur fólk ein­fald­lega val og þorri lands­manna virð­ist vilja öfugri vel­ferð en þessir flokkar vilja bjóða.

Hins­vegar til að forð­ast það að kosn­ingar verði árlegur við­burður í kjöl­far berja­tínslu, þá þarf að gera upp við Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Það þarf að gera upp við hvernig þeir beita valdi sínu leynt og ljóst. Það þarf að gera upp við hefð sam­trygg­ing­ar, yfir­gangs og hroka. Það þarf að gefa Sjálf­stæð­is­flokknum frí frá völdum í alla­vega tvo heil kjör­tíma­bil, eitt er ljós­lega ekki nóg. Með því að gefa sam­fé­lag­inu og stofn­unum okkar and­rými í nokkur ár, án kæf­andi yfir­gangs Sjálf­stæð­is­flokks­ins, þá fáum við heil­brigð­ara sam­fé­lag. Ég virði skoð­anir þeirra sem eru á hægri væng stjórn­mála, þó ég sé þeim ósam­mála, en þetta snýst ekk­ert um það. Þetta snýst um að losa okkur við valda­stofnun sem ítrekað hefur mis­beitt valdi sínu og er svo kyrfi­lega vafin í allt sem miður fer í okkar sam­fé­lagi. Þetta veit ég að Sjálf­stæð­is­menn með sjálfs­virð­ingu skilja, en nú þarf að sýna það í verki.

Höf­undur er vara­bæj­ar­full­trúi VG á Akur­eyri. Greinin birtist fyrst í Kjarnanum. 

Kallar passa kalla

Í hvirf­il­vind­inum sem gustað hefur um íslensk stjórn­mál síð­ustu daga hefur birst glögg­lega kunn­ug­legt ferli. Atburða­rás sem á sér hlið­stæður í nokkrum síð­ustu upp­á­komum íslenskra stjórn­mála. Þarna er rauður þráður (eða raunar kannski blár frekar):

Þetta byrjar oft­ast með (a) bommert­unni. Lög­broti, sið­leysi, vand­ræða­gangi eða mis­stigi af ein­hverri vondri gerð. Svo sem pen­ingum í skatta­skjól­um, geð­þótta­ráðn­ingum dóm­ara, upp­gripum á auð­lind­um, áskrift að almanna­fé, félags­skap við vonda gaura o.s.frv. Næst byrjar jafnan (b) leyni­makkið. Reynt að drepa á dreif og halda málum í þoku með til­tækum ráð­um. T.d. véfengja rétt fjöl­miðla til að sækja opin­ber gögn eða stilla mál­pípur sínar á háværa þögn. Þá fer gjarnan af stað (c) ræg­ing­ar­her­ferðin sem oft er gegn ein­stak­lingum sem tjá sig, hópum sem stíga fram eða óvina-­stjórn­mála­flokk­um. Síð­ast en ekki síst fjöl­miðlum eða stökum fjöl­miðla­mönn­um. Að lokum fer svo fram (d) hvít­þvott­ur­inn. Hann byggir jafnan á stýrðri og fal­legri fram­komu snyrti­legs for­svars­manns sem mis­býður ábyrgð­ar­leysi hins versn­andi heims. Yfir­leitt með vel leik­stýrðri blöndu af alvöru­þunga og yfir­keyrðri ein­lægni. Smjör­klíp­unni er oft­ast beitt á þessu stigi í end­ann til stuðn­ings.

Við þekkjum öll þessa atburða­rás og getum séð fyrir okkur ein­stök mál og leik­end­ur, hvort sem við við­ur­kennum það eða ekki. Og það er grafal­var­legur und­ir­tónn á bak við hana. Þetta er birt­ing­ar­mynd þess hvernig valda­stéttin í land­inu ver stöðu sína. Gegnum súrt og sætt. Ætt­ir, auð­linda­haf­ar, auð­fólk, fyr­ir­tæki eða hags­muna­hóp­ar. Passað að hver verði á sínum stað. Haldi sínu. Þetta eru kall­arnir sem passa upp á kall­ana sína.

Við þessu er raun­veru­lega ekk­ert að gera. Nema kannski eitt: hætta að kjósa þessi öfl til valda.

Óli Halldórsson,

Höf­undur er sveit­ar­stjórn­ar­maður fyrir Vinstri græn og greinin birtist fyrst í Kjarnanum. 

Stjórnarliðar, ábyrgðin er ykkar

Það hefur um margt verið sérkennilegt að fylgjast með stjórnmálum, þessi misserin, hvað þá að taka þátt í þeim. Sumir virðast telja að hlutverk Alþingis, og okkar sem þar sitjum, sé fyrst og fremst að vera einhver afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn og agnúast jafnvel út í miklar umræður. Þetta er sérkennilegt viðhorf, því staðreyndin er sú að við þingmenn höfum mikið færi á að hafa áhrif. Það á enn frekar við um þingmenn stjórnarflokkanna.

Í gær hlýddum við á umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Ekki var annað á stjórnarliðum að skilja en hér væri nú bara allt frekar svona í lukkunnar velstandi, helst að þyrfti að laga eitthvað smávegis til hér og þar svo allt passaði betur í þann ramma sem stjórnarflokkarnir hafa reist utan um það samfélag sem þeir vilja sjá. En er það svo? Ég ætla að leyfa mér að svara þeirri spurningu neitandi.

Samfélagssýn stjórnmálaflokka og -fólks birtist best í fjárlögum, eins óspennandi og þau geta virst við fyrstu sýn. Fjárlög ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar bera það með sér að samneyslan er þessum flokkum ekki efst í huga. Hún mun enda dragast saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á kjörtímabili samkvæmt samþykktum stjórnarflokkanna.

Á meðan býr æ stærri hluti þjóðarinnar við kjör sem enginn ætti að þurfa að búa við. Aldraðir, öryrkjar, láglaunafólk; þetta eru ekki fjárlög þessara hópa. Menntakerfið sem allir vildu styrkja fyrir kosningar, að ég tali nú ekki um heilbrigðiskerfið; í fjárlögum birtist sveltistefna hægri stjórnarinnar glöggt.

Á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns er hver einasti öryrki sem ekki nær endum saman, eldri borgarar sem skrimta, fólk sem lifir á lúsarlaunum; það er á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns að áherslan er ekki lögð á þessa hópa. Og þannig er viðhaldið því ástandi sem lýðskrumarar nýta sér til að ala á útlendingaandúð undir merkjum þess að berjast gegn fátækt. Það er líka á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns.
 
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna
Greinin birtist fyrst á Vísi