Um uppreist æru

Þegar menn ganga erinda fyrir þá sem gerst hafa sekir um hræðilegustu glæpi gagnvart varnarlausum, er þeim ekki endilega annt um brotamanninn. Og það er ekki endilega víst að þeim sem greiða götu brotamannsins sé illa við fórnarlömb hans. Fleira kemur til.
Góður kunningi minn úr grunnskóla átti talsvert safn af vínilplötum. Föður hans sem lagði stund á viðskipti og var athafnamaður með góð sambönd, fannst koma til álita að sonurinn seldi aðgengi að safninu og yrði sér úti um aur. Það varð til þess að kunningi minn byrjaði að halda skipulagða skrá um plötusafnið. Föður hans gekk gott eitt til og það sama má segja um kunningjann, hann er góður maður og hefur látið gott af sér leiða. Umrætt utanumhald kunningja míns varð til þess að aðgengi okkar hinna að plötusafninu varð betra og ýtti undir áhuga á að skoða málið nánar, og gott ef hann seldi ekki eina og eina vínilplötu til vel valinna og færði til bókar samkvæmt skránni góðu.
Umrætt rifjaðist upp fyrir greinarhöfundi þegar það bar til tíðinda fyrir skemmstu að dæmdur maður fékk uppreist æru. Margir vel mæltir og ráðsettir aðilar greiddu götuna varðandi fyrrgreint málefni, og gengu helst til vasklega fram að mati margra, sé tekið mið af umfangi og eðli brotanna, en það kann að vera á misskilningi byggt. Og ekki má gera lítið úr því að eiga afturkvæmt í þjóðfélagið að lokinni afplánun refsingar. Nokkur leynd hvílir yfir umræddu ferli enn sem komið er, sem er vissulega bagalegt. Greinarhöfundur telur víst að gamli kunninginn eigi ekkert sameiginlegt með þeim er í hlut átti, nema hvatann til að halda skrá um tiltekin atriði og auðvelda aðgengi sitt og yfirsýn um efnið.  Sumt er bersýnilega óþarft að halda skrá um. Í sumum tilfellum blasir við að hvatar skipulagðrar starfsemi og sölumennsku búa að baki skráningu upplýsinga og skuggahliðar sölumennskunnar geta tekið á sig óhugnalegar myndir. Plató sagði að gjaldið sem góðir menn greiða fyrir skeytingarleysi sitt sé að vera stjórnað af vondum mönnum, og það má til sanns vegar færa. Sameinumst til góðra verka og tökum höndum saman um að hafna spillingu í okkar þjóðfélagi. Hlúa þarf að þeim sem um sárt eiga að binda og víst er að margur þarf að bæta ráð sitt.
Gunnar Árnason, félagi í VG

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Landsbyggðin fyrir alla

Þó að, með því að gefa kost á mér í eitt af efstu sætunum í komandi prófkjöri VG, sé ég í raun að sækja um innivinnu ímiðbæ Reykjavíkur, þá eru það málefni landsbyggðarinnar sem mest brenna á mér. Betri samgöngur, betra heilbrigðiskerfi og ljósleiðari hringinn í kringum landið eru þau mál sem ég vil setja í algjöran forgang. Þetta eru málefni landsbyggðarinnar ekki síður en höfuðborgarsvæðisins.

Í umræðunni um nýtt hátæknisjúkrahús í Reykjavík gleymist stundum að það eitt og sér leysir ekki allan vanda. Fólk heldur áfram að veikjast á landsbyggðinni og sama hversu hátæknilegt hátæknisjúkrahúsið er þá þarf að vera hægt að veita fólki lágmarks aðhlynningu í hverju byggðarlagi. Að sjálfsögðu verður nýja sjúkrahúsið kærkomið fyrir alla landsmenn og verður sjúkrahús allra Íslendinga. Fólk á hinsvegar ekki eftir að fara þangað frá Fáskrúðsfirði vegna fingurbrots eða frá Tálknafirði vegna tábrots. Það má ekki gleyma nærþjónustunni sem er alveg jafn nauðsynleg. Í mínum heimabæ er staðan þannig núna að loks þegar maður kemst að hjá lækni þá eru miklar líkur á að maður sé búinn að gleyma hvað var að manni. Hér er úrbóta þörf.

Það er líka verulegra úrbóta þörf í vegamálum í Norðvesturkjördæmi sérstaklega. Slysatíðni er há á vegum á Vestfjörðum og Vesturlandi, sérstaklega og sumstaðar standa lélegir vegir atvinnulífinu fyrir þrifum hreinlega, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum.

Varðandi uppbyggingu í vegamálum á kerfið að vera einfalt og leiðinlegt! Einfalt að því leyti að forgangsröðun að ráðast af þörf og nauðsyn en ekki af því að maður þekki mann (Þingmann). Leiðinlegt fyrir pólitíkusana að því leyti að þeir fái ekki að ráðskast með malbiksmetra eftir því hvar ber best í atkvæðaveiði.

Í allri umræðunni um að það þurfi með einhverjum ráðum að fá unga fólkið aftur heim í hinar dreifðu byggðir þá gleymist stundum að þar er bara fullt af ungu fólki nú þegar. Fólk sem er á fullu að byggja upp sína framtíð. Ungt fólk sem hefur tekið við af næstu kynslóð eða er að búa sér til sín eigin tækifæri bara með sínum hæfileikum og þekkingu. Almennilegar vegasamgöngur eru meðal þess sem þarf til að ungt fólk vilji áfram búa á landsbyggðinni. Líka það sem þarf til að ungt fólk vilji flytja út á land.

Rafrænar samgöngur skipta ekki minna máli. Ekki síst fyrir ungt fólk. Góðar nettengingar skipta orðið máli í nánast hverju sem þú tekur þér fyrir hendur. Í ferðaþjónustu, fiskvinnslu, landbúnaði, iðnaði hverskonar, menntastofnunum og skapandi greinum, svo dæmi séu tekin er nauðsynlegt að hafa aðgengi að góðri nettengingu.

Það eru bullandi sóknarfæri núna fyrir landsbyggðina. Víðast hvar á landsbyggðinni er næg atvinna og jafnvel ríflega það. Fjölskylduvænt umhverfi, nálægð við náttúruna, allt (allavega flest) við hendina og minna stress og læti eru meðal búsetukosta sem landsbyggðin getur boðið upp á. En til að landsbyggðin sé samkeppnisfær við höfuðborgarsvæðið um íbúa þá þarf að vera hægt að bjóða upp á góða heilbrigðisþjónustu, akfæra vegi og ljósleiðara.

Ég vil að ungt fólk eigi val um hvar það býr í framtíðinni.

Rúnar Gíslason

Gefur kost á sér í 1. – 3. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi.

Aldrei aftur!

Rúm 70 ár eru liðin síðan Bandaríkin vörpuðu sprengjum á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki, 6. og 9. ágúst árið 1945.

Fólk er enn að deyja
Við þekkjum atburðina úr sögubókum og ógnvekjandi myndum af sprengingunum og afleiðingum þeirra. Brennandi fólk á hlaupum, kolaðir líkamar, grátandi börn. Yfir 200 þúsund létu lífið. Sumir strax, aðrir dagana og vikurnar á eftir og fólk er enn að deyja af sjúkdómum, genagöllum o.fl. sem rekja má beint til sprengjanna.

Heimur án kjarnorkuvopna
Þrátt fyrir þessar skelfilegu staðreyndir hefur okkur enn í dag ekki auðnast að ná samstöðu um heim án kjarnorkuvopna. Kjarnorkuógnin er enn til staðar. Níu ríki búa yfir tæplega 16 þúsund kjarnorkusprengjum sem hver um sig er miklu öflugari en þær sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki.

Ísland aðili að hernaðarbandalagi
Íslendingar og íslensk stjórnvöld státa sig gjarnan af því á tyllidögum að við séum herlaus og friðelskandi þjóð á meðan staðreyndin er sú að Ísland er aðili að hernaðarbandalagi sem áskilur sér rétt til notkunar kjarnorkuvopna, jafnvel að fyrra bragði.

Á meðan fjölmörg ríki hafa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna barist fyrir banni við kjarnorkuvopnum hafa íslensk stjórnvöld kosið að þvælast fyrir og taka ekki afstöðu.

Tökum afstöðu – krefjumst breytinga
Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna og lagt áherslu á kröfu um heim án kjarnorkuvopna. Í kvöld, þriðjudaginn 9. ágúst, verður kertum fleytt á Reykjavíkurtjörn. Athöfnin hefst kl. 22.30. Aðeins með því að taka afstöðu og krefjast breytinga getum við stuðlað að friðvænni heimi. Aldrei aftur Hírósíma, aldrei aftur Nagasaki!

Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga

Góð heilbrigðisþjónusta fyrir alla óháð búsetu

Gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu ræður miklu um búsetu fólks. Gildir það jafnt um börn og barnafólk sem og eldri borgara, sem á efri árum þurfa að búa sem næst góðri læknisþjónustu.
Nýkjörinn forseti lagði áherslu á heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð búsetu í innsetningarræðu sinni.
Undirskriftasöfnunin- Endurreisum heilbrigðiskerfið – þar sem tæp 87 þús manns hafa ritað nafn sitt undir sýnir ótvírætt að landsmenn vilja setja heilbrigðismálin í forgang.
Það skiptir máli fyrir alla landsmenn að góð sérhæfð læknisþjónusta á samfélagslegum grunni sé til staðar á þjóðarsjúkrahúsi í Reykjavík, sem allir landsmenn geta gengið að.
Nærþjónustan er ekki síður mikilvæg, sem felst í því að geta sótt þjónustu og aðstoð með hægum hætti frá sínu heimili. Hér er bæði um að ræða skjóta úrlausn ef um slys eða óhöpp ber að höndum sem og reglubundna þjónustu vegna langtíma meðferðar. Þetta eru mál sem brenna mjög á fólki á landsbyggðinni sem þarf oft að fara langar vegalengdir til þess að sækja þjónustu sem flestir landsmenn telja sjálfsagða.
Þjónustan heima í héraði
Niðuurskurður síðustu ára hefur víða bitnað á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Íbúar stórra sem smárra byggðarlaga hafa mátt sjá á bak heilu þjónustusviðunum af heimavettvangi. Raunar virðist einnig mega kenna um víðtækum og ómarkvissum skipulagsbreytingum á landsvísu þar sem stofnanir hafa verið sameinaðar yfir heilu landshlutana og deildunum hagrætt burt úr héruðunum. Við það hafa samfélögin einnig misst góða íbúa og vel menntað og hæft starfsfólk.
Í þeirri umræðu em nú fer fram er mikilvægt að endurskoða og meta upp á nýtt heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni og finna leiðir til að styrkja hana á ný og treysta öryggi hennar og gæði fyrir íbúana. Standa þarf vörð um heilbrigðisstofnanirnar, sjúkrahúsin og öldrunarþjónustuna.
Áður var stjórnum heilbrigðisstofnana ætlað að vera samráðsvetvangur fyrir áherslur heimafólks og heilbrigðisyfirvalda. Með lögum frá 2003 voru sjúkrahússtjórnirnar lagðar niður og skorið á tengsl og aðkomu heimamanna að stjórnun þessara mikilvægu þjónustustofnana. Hugtakinu þjónusta var breytt í rekstur og innleitt kaup og sala á heilbrigðisþjónustu og önnur lögmál hins frjálsa markaðar.
En þrátt fyrir aukna harðneskju markaðshyggjunnar er það þó áfram umhyggja, hlýja og nánd heilbrigðisstarfsfólksins sem skiptir sjúklinginn hvað mestu máli. Sú hlýja er ríkulega veitt af því góða fólki sem vinnur í heilbrigðisþjónustunni. En þolmörkum hennar og starfsfólksins er einnig takmörk sett og álagið illbærilegt eins og komið hefur rækilega fram i umræðunni undanfarnar vikur og misseri.
Dýrt að sækja allt suður
Nýtt greiðsluþáttökukerfi almennings fyrir heilbrigðisþjónustu var samþykkt á alþingi sl. vor og tekur gildi í febrúar á næsta ári. Markmið breytinganna er að setja hámark á greiðslu einstaklings fyrir heilbrigðisþjónustu og gengur hún nokkuð lengra en afsláttarkerfið sem er í gildi nú.
Teknir eru fleiri þættir inn eins og talþjálfun, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Það er allt saman gott og blessað en ákvörðun um greiðsluþakið fylgdu engir nýir peningar heldur átti það að nást með tilfærslum milli sjúklinganna og annarra notenda heilbrigðiskerfisins sjálfs. Kerfisbreytingin getur því leitt til hækkunar á komum til sérfræðinga og þýðir í raun stóraukna gjaldtöku á þeim sem fara sjaldan til læknis.
Greiðsluþakið átti fyrst að vera 95 þúsund en ráðherra gaf vilyrði fyrir því að það gæti farið niður í 50 þúsund.
Inni í þessu greiðsluþaki er ekki kostnaður vegna lyfja, sálfræðiþjónustu, tannlækningar, hjálpartæki eða ferðir og dvalakostnaður vegna heilbrigðisþjónustu en þetta er kostnaður sem getur hlaupið á tugum eða hundruðum þúsunda. Samdráttur í framboði á heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og sérhæfðri læknisaðstoð ásamt nýjum lögum sjúkratrygginga getur því lagst með auknum þunga á íbúa landsbyggðarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu eða umsögnum sem bárust er hvergi minnst á hvernig þessi kerfisbreyting kemur við landsbyggðarfólk.
Jafnrétti óháð búsetu
Það er ærið fyrirtæki og því fylgir mikli kostnaður hjá fólki á landsbyggðinni að sækja æ stærri hluta af heilbrigðisþjónustu sinni til Reykjavíkur. Ferðakostnaður, tími, vinnutap, dvalarkostnaður – allt leggst þetta með auknum þunga t.d. fyrir barnafólk og þá sem eru með litlar ráðstöfunartekjur. Allir skulu þó eiga sama rétt til þjónustu á sömu kjörum óháð búsetu bæði samkvæmt stjórnarskrá og lögum um heilbrigðisþjónustu.
Einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni mun enn auka mun á þjónustunni milli landsbyggðar og stórþéttbýlisins
Mikilvægt er að Íslendingar geti byggt upp þá bestu þjónustu sem völ er á sem veitt er af velmenntuðu og hæfu starfsfólki. Víða á landsbyggðinni er það hinsvegar æ meir spurning hvort þjónustan er til staðar eða ekki og hvort íbúunum er gert kleift að sækja sér þá sérhæfðu þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Það vita allir sem hafa reynt á eigin skinni að gott aðgengi að heilbrigðisþjónusta er forsenda fyrir sterkri byggð um landið allt.
Bjarni Jónsson
Sveitarstjórnarfulltrúi VG í Skagafirði

Söguþjóð í raun?

Íslendingar hafa ekki slegið hendi á móti titlinum söguþjóð eða bókaþjóð. Söguáhugi Íslendinga er eitt af því sem okkur finnst flestum gaman að segja erlendum vinum og gestum frá. Söguáhuginn hefur verið umfjöllunarefni í síðari tíma bókmenntum. Við fylltum sali Þjóðleikhússins á afmælisári þess þegar Íslandsklukkan var sett upp og enn og aftur vaknaði til lífsins sagan góða um snærisþjófinn Jón Hreggviðsson, Snæfríði Íslandssól og Arnas Arnæus sem safnaði handritableðlum um land allt og bjargaði þeim úr dýnum og fletum í torfbæjum landsins.

Þessi handrit eru fæst hver til sýnis þótt okkur finnist gaman að segja af þeim söguna. Þau eru læst inni í geymslum. Þar sem byggja átti hús yfir handritin er enn aðeins hola.

Hús íslenskra fræða á ekki einungis að vera staður til að sýna handrit. Þar á einnig að vera húsnæði fyrir kennslu og rannsóknir í íslensku. Bygging þessa húss var hafin á síðasta kjörtímabili og var ætlunin að nýta til dæmis arð af bönkum til að greiða fyrir bygginguna sem var hluti af fjárfestingaáætlun síðustu ríkisstjórnar. Núverandi stjórnvöld slógu þá áætlun af og síðan hefur ekkert annað verið á byggingarstað en hin fræga „hola“ íslenskra fræða.

Engir fjármunir
Síðastliðið vor leit út fyrir að stjórnvöld væru reiðubúin að taka Hús íslenskra fræða út fyrir sviga. Forsætisráðherra kynnti tillögu þar sem lögð voru til tiltekin verkefni sem átti að ráðast í til að fagna hundrað ára afmæli fullveldis. Ekki hefur sést til tillögunnar síðan. Fjármunir birtust í fjárlögum í önnur verkefni tillögunnar, þ.e. viðbyggingu við þinghúsið. Engir fjármunir hafa komið í ljós í Hús íslenskra fræða. Happdrætti Háskóla Íslands, sem greiða mun þriðjung af húsinu, hefur ekki fengið heimild ríkisins til að setja sína fjármuni í verkefnið.

48 stundir Hönnu Birnu.

Nú um þessar mundir er Hanna Birna  Kristjánsdóttir mætt í fjölmiðla til að ræða frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem hún leggur fram í skugga kæru á ráðuneyti sem hún ber ábyrgð á.

Þegar ég fyrst heyrði af væntanlegu frumvarpi innanríkisráðherra um breytingar á útlendingalögum sem í sér fólu m.a. að biðtími hælisleitenda eftir svari yrði ekki meiri en 48 stundir, varð ég nokkuð bjartsýnn. Nú loks glitti í einhverjar umbætur á meðferð hælisumsókna sem allir eru sammála um að taki allt of langan tíma. Að vísu hafði ég einnig efasemdir um þennan hámarkstíma enda er sagan hælisleitendum síður en svo hliðholl og ummæli og aðgerðir embættismanna Útlendingastofnunar síðustu ár gefa heldur ekki ástæðu til að ætla annað en að langflestum hælisleitendum verði snúið rakleiðis til baka eftir tvær nætur á Fitjum.

Á þeim tíma virtist lítið upp á ráðherrann að klaga fyrir utan að aðhyllast hugmyndafræði ójöfnuðar sem leikið hefur Ísland grátt á síðustu árum. Það skaut því skelk í bringu, þegar að til stóð að mótmæla brottvísun hælisleitanda sem kært hafði úrskurð Útlendingastofnunnar, að viðkvæmum persónuupplýsingum var lekið í valda fjölmiðla, að því er virðist, til að minnka samúð með hælisleitandanum.

Enginn vill bera ábyrgð á lekanum og virðist sem Hanna Birna og aðstoðarmenn hennar hafi vonast til að málið myndi fljótt falla í gleymskunar dá líkt og mörg hneykslismál í gegnum tíðina. Þegar tveir blaðamenn DV neituðu að láta ráðherra komast upp með slíkt var brugðist við með því að rægja blaðamenn og stilla sér upp sem fórnarlambi í málinu. Í tvo mánuði hefur ráðherra grafið dýpra og dýpra og meðal annars brugðist reið við eðlilegum spurningum stjórnarandstöðunnar á Alþingi og gefið hefur verið í skyn að nú eigi að bregða fæti fyrir umrætt frumvarp.

Slíkt er rökleysa enda er ljóst að allir þeir sem gagnrýnt hafa Hönnu Birnu og viðbrögð hennar í lekamálinu, vilja sjá umbætur á málefnum hælisleitenda. Þó að deila megi um hvort hámarkstíminn eigi að vera 48 stundir eða sex mánuðir (líkt og frumvarp Ögmundar Jónassnar gerði ráð fyrir) hljóta báðir kostir að vera skárri en núverandi ástand þar sem hælisleitendum er haldið mörgum mánuðum saman í algerri óvissu um framtíð sína. Það er því engum til hagsbóta að nota lekamálið til að koma pólitísku höggi á Hönnu Birnu. Segi hún af sér kemur bara annar sjálfstæðismaður í staðinn og ber upp frumvarpið. Það er hins vegar miður að geta ekki treyst flutningsmanni frumvarpsins.